Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-22/2015 - Ábyrgðarmenn - málinu vísað frá málskotsnefnd

Úrskurður

 

Ár 2015, fimmtudaginn 24. september, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð um meðferð máls nr. L-22/2015.

Kæruefni

 

Málskotsnefnd barst þann 22. júlí 2015 kæra dagsett sama dag frá kærendum vegna ákvörðunar stjórnar LÍN 21. apríl 2015 sem barst barst þeim með bréfi dagsettu 4. maí 2015 um að synja kröfu þeirra um niðurfellingu ábyrgðar þeirra á námslánum B er þeir hafi tekið yfir við einkaskipti á dánarbúi A. Málskotsnefnd tilkynnti stjórn LÍN um kæruna með bréfi dagsettu 27. júlí 2015 og gaf sjóðnum fjögurra vikna frest til að gera athugasemdir við kæruna. Kærendum var sent afrit bréfins ásamt staðfestingu á móttöku kærunnar. Athugasemdir stjórnar LÍN bárust 16. september 2015 en áður hafði LÍN tilkynnt nefndinni að tafir yrðu á umsögn vegna málsins sökum anna hjá sjóðnum. Fór stjórn LÍN þess á leit við málskotsnefnd að málinu yrði vísað frá. Málskotsnefnd gaf kærendum kost á að tjá sig um framkomna beiðni LÍN. Engar athugasemdir bárust frá kærendum.

Málavextir

Kærendurnir C, D, E, F og G eru erfingjar A. Kærandinn I er erfingi H sem var erfingi A og hefur H leyfi til setu í óskiptu búi þeirra I. A lést í júní 2009 og fengu erfingjar hennar leyfi til einkaskipta sem lauk í desember 2009. Í júní 1998 tókst A á hendur sjálfskuldarábyrgð á námsláni B skv. skuldabréfi R-0000. Í athugasemdur stjórnar LÍN 16. september sl. kemur fram að sjóðurinn hafi stefnt kærendum fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur til greiðslu skuldarinnar samkvæmt bréfinu og hafi málið verið þingfest 15. september sl. Stefna LÍN varði sama ágreiningsefni og kærendur hafi borið undir málskotsnefnd. Endanlegt úrskurðarvald sé hjá dómstólum skv. 60. gr. stjórnarskrárinnar og því beri málskotsnefnd ekki skylda til að kveða upp úrskurð í málinu.

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Í dómkröfu í stefnu þess máls sem LÍN hefur höfðað á hendur kærendum kemur fram að LÍN krefst þess aðallega að kærendur verði dæmdir til að greiða sjóðnum in solidum 5.036.579 kr. ásamt dráttarvöxtum frá 15. september 2015. Fram kemur í stefnu að um er að ræða kröfu stefnanda sem til sé komin vegna sjálfskuldarábyrgðar A á námsláni B samkvæmt skuldabréfi nr. R-0000. Byggir stefnandi á því í málinu að kærendur hafi með einkaskiptunum tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á öllum skuldbindingum sem kynnu að hvíla á dánarbúi A. Í kærunni til málskotsnefndar er þess krafist að ábyrgð kærenda á námsláni skv. umræddu skuldabréfi verði felld niður. Ljóst er að stefnan varðar sama deilumál og kærendur hafa borið undir nefndina. Bendir nefndin á í þessu sambandi að umboðsmaður Alþingis (sjá álit í máli 4968/2007) gerir ráð fyrir að ekki sé lengur um að ræða skyldu stjórnvalds til úrskurða þegar sama úrlausnarefni hefur verið lagt fyrir dómstóla. Sú tilhögun að fela stjórnvaldi úrlausn ágreiningsmáls breytir því ekki að í reynd er endanlegt úrlausnarvald í höndum dómstóla samkvæmt 60. gr. stjórnskrárinnar. Með vísan til framanritaðs telur málskotsnefnd rétt að vísa málinu frá.

Niðurstaða

 

 

Úrskurðarorð

 

Kæru kærenda í máli nr. L-22/2015 er vísað frá málskotsnefnd.

Til baka