Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-13/2015 - Umsóknarfrestur og útborgun Synjun um undanþágu frá umsóknarfresti

Úrskurður

 

Ár 2015, miðvikudaginn 14. október, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-13/2015.

 

Kæruefni

 

Með kæru sem barst málskotsnefnd þann 6. maí 2015 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 13. febrúar 2015 um að synja honum um undanþágu frá umsóknarfresti um námslán á haustönn 2014. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 6. maí 2015 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 11. júní 2015 og var afrit þess sent kæranda og honum jafnframt gefinn kostur á að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi stundar nám í tölvunarfræði við Erhvervsakademiet Lillebaelt í Óðinsvé í Danmörku. Þann 16. janúar 2015 sendi hann LÍN námsárangur sinn vegna haustannar 2014. Kærandi hafði ekki sótt um námslán vegna annarinnar, en umsóknarfrestur til þess rann út 30. nóvember 2014. Kærandi hafði fengið tölvupóst frá LÍN þann 18. nóvember 2014 þar sem vakin var athygli hans á því að eftir 30. nóvember 2014 væri ekki lengur hægt að sækja um lán fyrir haustönn 2014. Kveðst kærandi í kjölfar þess hafa haft símasamband við LÍN og þá verið tjáð að ekki væri þörf á því fyrir hann að sækja um þar sem hann væri ekki nýr lántaki við sjóðinn. Hinn 26. janúar 2015 óskaði kærandi eftir því við stjórn LÍN að hún veitti honum undanþágu vegna umsóknar um lán á haustönn 2014. Stjórn LÍN synjaði erindi hans með vísan til greinar 5.1.2 í úthlutunarreglum sjóðsins fyrir námsárið 2014-2015 þar sem segir að umsókn um lán fyrir umrædda önn hafi orðið að berast eigi síðar en 30. nóvember það ár. Jafnframt segir í ákvörðun stjórnar LÍN að í gögnum sjóðsins sé ekki finna nein skráð samskipti kæranda við sjóðinn vegna námsársins 2014-2015. 

Sjónarmið kæranda 

Kærandi kveðst hafa fengið þær upplýsingar frá LÍN eftir að honum barst tölvupóstur sjóðsins 16. nóvember 2014 að þar sem hann væri ekki nýr lántaki þyrfti hann ekki að sækja sérstaklega um námslán. Í trausti þessara upplýsinga hafi hann ekki sótt um lán. Þar sem um mistök sjóðsins hafi verið að ræða hafi borið að taka beiðni hans um undanþágu frá umsóknarfresti til greina. Kærandi bendir á að staða hans sé mjög bagaleg. Hann hafi fyrir fimm manna fjölskyldu að sjá og hann sé að mennta sig til þess að byggja upp framtíð sína. 

Sjónarmið stjórnar LÍN 

Í athugasemdum stjórnar LÍN kemur fram að kærandi hafi þann 16. janúar 2015 sent sjóðnum námsárangur sinnar vegna haustannar 2014. Hann hafi þó ekki sótt um námslán á önninni, en umsóknarfrestur til þess hafi runnið út 30. nóvember 2014. Hafi umsókn hans því verið hafnað. Stjórn LÍN bendir ennfremur á að þann 18. nóvember 2014 hafi kærandi verið minntur á umsóknarfrestinn með sérstöku bréfi sem honum var sent í tölvupósti. Engar upplýsingar sé að finna í málakerfi LÍN um að kærandi hafi hringt í sjóðinn í nóvember 2014 og fengið þær upplýsingar að bréfið væri aðeins ætlað þeim sem væru að hefja nýtt nám. Í bréfinu 18. nóvember 20114 hafi komið fram skýrar upplýsingar um umsóknarfrestinn, sem stangist á við þær upplýsingar sem kærandi kveðst hafi fengið í samtali við LÍN. Námsmaður verði sjálfur að bera ábyrgð á því að umsókn berist á réttum tíma og stjórn LÍN geti ekki veitt undanþágur frá skýrum reglum um umsóknarfresti.

 

Niðurstaða

 

Í grein 5.1.2 í úthlutunarreglum LÍN fyrir árið 2014-2015 segir að sækja skuli sérstaklega um námslán fyrir hvert aðstoðarár og að umsóknarfrestur vegna náms haustið 2014 sé til og með 30. nóvember 2014. Ekki er að finna neinar undanþágur frá auglýstum fresti í framangreindum reglum. Fyrir liggur að kærandi sótti ekki um lán hjá LÍN fyrir haustönn 2014 fyrr en 26. janúar 2015 þegar hann fór þess á leit við stjórn sjóðsins að sér yrði veitt undanþága vegna umsóknarfrests. Eins og áður er rakið kveður kærandi ástæður þess að umsókn hans barst ekki tímanlega til LÍN vera mistök sjóðsins við upplýsingagjöf. Því andmælir LÍN og bendir á að fullyrðing kæranda stangist á við bréfið sem honum var sent af sjóðnum 18. nóvember 2014. Umsóknarfrestur um námslán er árlega birtur í úthlutunarreglum LÍN, sem eru auglýstar í Stjórnartíðindum. Fresturinn er jafnframt auglýstur á heimasíðu LÍN, auk þess sem sjóðurinn sendir námsmönnum tölvupóst til að minna á umsóknarfrest. Það er óumdeilt að kærandi fékk bréf sjóðsins 18. nóvember 2014. Málskotsnefnd hefur margoft úrskurðað um mikilvægi þess að festa ríki um þá fresti sem námsmönnum eru settir og tekið undir það að almennt beri að vísa frá erindum sem berast að liðnum fresti nema óviðráðanleg atvik eða mistök starfsmanna LÍN hafi leitt til þess að umsókn barst of seint. Um slíkt er ekki að tefla í þessi máli. Er því fallist á það með stjórn LÍN að afgreiðsla sjóðsins á erindi kæranda hafi verið í samræmi við lög og reglur sem um sjóðinn gilda og ber því að staðfesta ákvörðun hennar.

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda frá 13. febrúar 2015 er staðfest.

 
Til baka