Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-14/2015 - Skilyrði lánveitingar - réttur til láns umfram hámarkseiningafjölda

Úrskurður

Ár 2015, miðvikudaginn 14. október, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-14/2015:

Kæruefni

Með kæru dagsettri 22. maí 2015, sem barst málskotsnefnd 27. maí 2015 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 13. maí 2015 um að lánsréttur kæranda hjá LÍN væri fullnýttur að loknu námsárinu 2014-2015. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 27. maí 2015 og gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 2. júlí 2015 og var afrit þess sent kæranda og honum veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum. Kærandi nýtti sér það og sendi athugasemdir með bréfi dagsettu 24. júlí 2015.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi hóf BA nám haustið 2013. Kærandi hafði stundað nám í gildistíð eldri reglna um lánsrétt, þ.e. á árunum 1983-1989, 1989-1991 og 1991-1994 og hafði tæmt lánsrétt sinn samkvæmt þeim reglum. Við gildistöku nýrra reglna opnaðist hins vegar möguleiki fyrir kæranda að fá frekari námslán. Við upphaf náms sumarið 2013 átti kærandi vegna þessa ónotaðar 60 ECTS einingar af lánsrétti sínum hjá LÍN. Á einkasvæði kæranda hjá LÍN á þeim tíma kom hins vegar fram að hann ætti 150 ECTS einingar ónotaðar og fékk kærandi lán vegna 50 ECTS eininga námsárið 2013-2014. Sumarið 2014 sótti kærandi um lán hjá LÍN vegna námsárins 2014-2015. Í lánsáætlun LÍN sem lá fyrir 31. júlí 2014 kom fram að kærandi ætti ónotaðan lánsrétt vegna 100 ECTS eininga. Þar kom jafnframt fram að kærandi ætti rétt á láni vegna 22 ECTS eininga á haustönn og 22 ECTS á vorönn. Skömmu síðar barst kæranda bréf LÍN dagsett 30. júlí 2014 þar sem sagði að komið hefði í ljós að hann ætti aðeins rétt á námsláni hluta komandi námsárs þar sem svigrúm hans væri þá fullnýtt. Um lánsrétt kæranda vegna námsársins 2014-2015 var fjallað í úrskurði málskotsnefndar nr. L-22/2014. Komst málskotsnefnd að þeirri niðurstöðu í máli kæranda að útgáfa lánsáætlunar fyrir námsárið 2014-2015 hafi falið í sér stjórnvaldsákvörðun sem LÍN hafi ekki verið heimilt að afturkalla. Í kjölfar úrskurðar málskotsnefndar tók stjórn LÍN mál kæranda aftur fyrir og féllst á að veita honum námslán vegna skólaársins 2014-2015. Í ákvörðun stjórnarinnar var einnig tekið fram að kærandi hefði að loknu þessu námsári fullnýtt lánsrétt sinn hjá LÍN.

Sjónarmið kæranda

Kærandi vísar til þess að í úrskurði málskotsnefndar í máli nr. L-22/2014 komi fram að ónotaður lánsréttur hans hjá LÍN tæki til þess grunnnáms er hann stundaði. Kæmi þar fram að úrskurðurinn næði til grunnnámsins í heild en takmarkaðist ekki við haustmisseri 2014 og vormisseri 2015. Þá gerir kærandi athugasemdir við ákvörðun stjórnar LÍN. Engar kæruleiðbeiningar hafi verið gefnar. Þá hafi dregist í tvo og hálfan mánuð að afgreiða mál kæranda frá dagsetningu úrskurðar málskotsnefndar. Í athugasemdum sínum bendir kærandi á að stjórn LÍN hafi við synjun um námslán vísað til verklagsreglna sem hvergi sé að finna. Óásættanlegt sé að lánsréttur kæranda falli niður frá og með vormisseri 2015.

Sjónarmið stjórnar LÍN

Í athugasemdum stjórnar LÍN er vísað til þess að kærandi hafi þegar fengið námslán hjá LÍN fyrir meira en 600 ECTS einingum. Hann hafi því ekki uppfyllt skilyrði um að fá námslán á skólaárinu 2014-2015 umfram það að fá afgreiddar 22 ECTS einingar á haustönn 2014. Á grundvelli þess að kæranda hafi verið veittar rangar upplýsingar á heimasvæði hafi málskotsnefnd þó komist að þeirri niðurstöðu að hjá kæranda hafi skapast réttmætar væntingar til fullra námslána á skólaárinu. Með ákvörðun stjórnar LÍN um að veita kæranda námslán á skólaárinu hafi verið vikið frá venjubundinni framkvæmd sem birt er í úthlutunarreglum LÍN um að hverjum námsmanni skuli ekki veitt meira námslán en vegna 600 ECTS eininga. Hafi kærandi á grundvelli réttmætra væntinga þegar fengið meiri námslán en aðrir námsmenn. Í þeim tilvikum sem námsmenn hafi fengið rangar upplýsingar hafi LÍN í vissum tilvikum veitt námslán sem byggi eingöngu á réttmætum væntingum þeirra. Slík úthlutun geti þó ekki veitt tilteknum einstaklingi lánsrétt umfram aðra sem þeim sé frjálst að nýta sér um ókomna framtíð. Stjórn LÍN bendir á að réttmætar væntingar kæranda geti einungis átt við vegna villandi upplýsingagjafar 2013-2014 varðandi námsárið 2014-2015. Ekki verði fallist á að kærandi geti einnig haft réttmætar væntingar til þess að fá námslán á skólaárinu 2015-2016. Þá bendir stjórn LÍN á að í úthlutunarreglum vegna skólaársins 2015-2016 hafi viðmið um hámarkslán verið lækkað úr 600 ECTS einingum í 540 ECTS einingar. Fer stjórn LÍN þess á leit að málskotsnefnd staðfesti ákvörðun stjórnar í máli kæranda.

Niðurstaða

Með kæru sinni til málskotsnefndar í máli L-22/2014 kærði kærandi ákvörðun stjórnar LÍN frá 27. ágúst 2014 um að synja honum um viðurkenningu á rétti hans til að fá 100 ECTS eininga lán vegna BA náms hans. Í umræddri ákvörðun stjórnar LÍN kom fram sú afstaða stjórnarinnar að kærandi ætti ekki frekari rétt til námsláns hjá sjóðnum. Með úrskurði sínum í máli L-22/2014 byggði málskotsnefnd á því að útgáfa lánsáætlunar hafi verið stjórnvaldsákvörðun sem LÍN hafi verið óheimilt að afturkalla til tjóns fyrir kæranda. Komst málskotsnefnd þannig að þeirri niðurstöðu að "með því að láta frá sér lánsáætlun vegna kæranda í ágúst 2013 og aftur í lok júlí 2014 með röngum upplýsingum um lánsrétt skapaði sjóðurinn með kæranda réttmætar væntingar til þess að tilteknar kringumstæður myndu ganga eftir umrædd námsár." Þannig hefði LÍN "skapað réttmætar væntingar hjá kæranda um að hann ætti haustið 2014 ónotaðar 100 ECTS einingar af lánsrétti sínum þrátt fyrir fyrra nám." Var því ákvörðun stjórnar LÍN frá 27. ágúst 2014 "um að skerða lánsrétt kæranda á haustönn 2014 og að synja honum um lán á vorönn 2015 þar sem hann hafi fullnýtt lánsrétt sinn [...] því felld úr gildi." Eins og að framan er lýst var með úrskurði í máli L-22/2014 einungis fallist á að kærandi ætti lánsrétt vegna námsársins 2014-2015 sökum þess að LÍN hafði gefið út lánsáætlun til kæranda. Kærandi fékk réttar og fullnægjandi upplýsingar um lánsrétt sinn vegna skólaársins 2015-2016 þegar í júlí 2014 þegar LÍN afturkallaði lánsáætlun vegna 2014-2015. Í ljósi þess tíma sem liðinn er frá því að LÍN tilkynnti kæranda um að hafa ranglega upplýst hann um lánsrétt hans verður að telja að næganlegur fyrirvari hafi gefinn þannig að kærandi hafi haft raunhæft tækifæri til að bregðast við þessum breyttu aðstæðum. Að mati málskotsnefndar getur kærandi því ekki byggt á því nú vegna umsóknar um námslán vegna námsárins 2015-2016 að hann hafi getað haft réttmætar væntingar um að fá námslán. Með vísan til þessa er það niðurstaða málskotsnefndar að kærandi hafi tæmt rétt sinn til námslána hjá LÍN og að staðfesta beri ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda. Málskotsnefnd fellst á athugasemdir kæranda um ágalla á málsmeðferð við meðferð máls kæranda hjá stjórn LÍN sökum þess að honum var ekki upplýstur um rétt sinn til að kæra málið til málskotsnefndar. Var málsmeðferð að þessu leyti ekki í samræmi við 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og er það aðfinnsluvert. Að öðru leyti telur málskotsnefnd ekki efni til að taka undir athugasemdir kæranda um meðferð málsins hjá stjórn LÍN.

Úrskurðarorð

Hinn kærða ákvörðun frá 13. maí 2015 í máli kæranda er staðfest. 

Til baka