Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-24/2015 - Skilyrði lánveitingar - synjun um að flytja einingar á milli námsára

Úrskurður

Ár 2015, miðvikudaginn 18. nóvember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-24/2015:

Kæruefni

Með kæru dagsettri 1. september 2015 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 4. júní 2015, þar sem kæranda var synjað um að flytja einingar frá námsárinu 2014-2015 yfir á vorönn 2015 þar sem hún uppfyllti ekki kröfur greinar 2.4.1 í úthlutunarreglum LÍN um umframeiningar. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 7. september 2015 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Kærandi sendi síðan erindi til málskotsnefndar þann 22. september 2015 þar sem hún óskaði þess til vara að lánsréttur hennar miðaðist við lágmarkseiningafjölda, sbr. grein 2.4 í úthlutunarreglum LÍN. Erindi kæranda var framsent stjórn LÍN 28. september 2015. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 8. október 2015 og var afrit þess sent kæranda og henni jafnframt veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi dagsettu 2. nóvember 2015.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi stundar meistaranám við Háskóla Íslands. Hún lauk 10 einingum á haustönn 2013 og 10 einingum á vorönn 2014. Hún var síðan í skiptinámi í Danmörku námsárið 2014-2015 þar sem hún lauk 30 ECTS einingum á haustönn 2014. Sökum veikinda lauk kærandi einungis 15 einingum á vorönn 2015. Með erindi dagsettu 4. maí 2015 fór kærandi þess á leit við stjórn LÍN að fá námslán vegna eininganna sem hún lauk á námsárinu 2013-2014 með því að færa þær yfir á vorönn 2015. Kom fram í erindi kæranda að hún ætti við veikindi að stríða en myndi þó treysta sér til að skila 22,5 einingum á vorönn. Stjórn LÍN synjaði beiðni kæranda með vísan til þess að hún ætti engar umframeiningar frá haustmisseri 2013 og vormisseri 2014.

Sjónarmið kæranda.

Í kæru sinni til málskotsnefndar þann 1. september 2015 kærir kærandi ákvörðun stjórnar LÍN um að synja henni um heimild til að flytja umframeiningar frá námsárinu 2013-2014 yfir á vorönn 2015. Vísar kærandi til þess að hún hafi lokið 10 einingum á haustönn 2013 og 10 einingum á vorönn 2014 án þess að sækja um námslán. Á vorönn 2015 hafi hún aðeins lokið 15 einingum vegna veikinda. Af þeim sökum fer kærandi þess á leit að fá að flytja þessar einingar frá vetrinum 2013-2014 sem ekki hefðu áður verið "taldar fram til námsláns" yfir á vorönn 2015. Meðfylgjandi kæru sinni leggur kærandi fram læknisvottorð vegna veikinda sinna. Í erindi sínu þann 22. september 2015 vísar kærandi einnig til þess að hvergi sé að finna í úthlutunarreglum LÍN bann við að flytja milli anna einingar sem ekki hafi áður verið nýttar til námsláns. Fer hún þess jafnframt á leit til vara, staðfesti málskotsnefnd ákvörðun stjórnar LÍN, að tekið verði tillit til þess að hún hafi veikst á námstíma og lánsréttur verði miðaður við lágmarkseiningafjölda, sbr. grein 2.4 í úthlutunarreglum LÍN. Í andmælabréfi kæranda upplýsir hún að hún hafi nú fengið námslán sem svari til 22 eininga á vorönn. Hún fer þess eigi að síður á leit að fá námslán er samsvari 30 eininga námsframvindu.

Sjónarmið stjórnar LÍN.

Í athugasemdum stjórnar LÍN segir að kærandi hafi sótt um námslán vegna 30 eininga á haustmisseri 2014 og 30 eininga á vormisseri 2015. Hún hafi lokið 32 einingum á haustmisseri en upplýsingar um námsárangur á vormisseri hafi ekki borist sjóðnum. Stjórn LÍN hafi hafnað erindi kæranda með vísan til greinar 2.4.1 í úthlutunarreglum sjóðsins þar sem hún hafi ekki haft umframeiningar frá fyrri misserum til að flytja yfir á vormisseri 2015. Eftir að ákvörðun stjórnar hafi verið tekin hafi síðan komið í ljós að kærandi hefði ekki skilað inn þeim lágmarks námsárangri, þ.e. a.m.k. 22 einingum, sem gerð væri krafa um í grein 2.2 í úthlutunarreglunum. Stjórn LÍN fer fram á að kröfu kæranda um að lánsréttur miðist við 22 einingar verði vísað frá málskotsnefnd þar sem slík beiðni hafi ekki verið borin undir stjórn LÍN.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna er hlutverk sjóðsins að tryggja þeim er falla undir lögin jöfn tækifæri til náms. Í 1. mgr. 3. gr. laganna kemur fram að miða skuli við að námslán samkvæmt lögunum nægi hverjum námsmanni til að standa straum af náms- og framfærslukostnaði meðan á námi stendur að teknu tilliti til fjölskyldustærðar námsmannsins. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. setur stjórn sjóðsins nánari ákvæði um úthlutun námslána. Hefur stjórn LÍN sett úthlutunarreglur sem miða að því að skilgreina hvaða skilyrði námsmaður þurfi að uppfylla til að eiga rétt á námsláni samkvæmt lögunum meðan á námi hans stendur. Í þessu skyni hefur stjórnin kveðið á um að námsmaður þurfi að öðru jöfnu að vera í fullu lánshæfu námi til þess yfirleitt að eiga rétt m.a. á framfærsluláni. Nánari útfærsla á þessu skilyrði kemur fram í grein 1.1 í úthlutunarreglunum LÍN fyrir 2014-2015 en samkvæmt henni telst nám lánshæft þegar það er 60 ETCS einingar á skólaári eða a.m.k. 30 ECTS einingar á hverju misseri í þeim tilvikum sem námsskipulagið nær ekki yfir heilt skólaár. Námsmaður þarf þó ekki að ljúka fullum 30 einingum á önn heldur er gerð krafa um lágmarksnámsframvindu og var í grein 2.2 í úthlutunarreglum 2014-2015 áskilið að námsmaður lyki a.m.k. 22 einingum á misseri til að eiga rétt á námsláni. Átti námsmaður 2014-2015 möguleika á að fá námslán vegna 22 eininga og allt að 30 einingum að því tilskildu að hann skilaði gögnum um námsárangur vegna þessara eininga. Í grein 2.4.1 í úthlutunarreglum LÍN er einnig kveðið á um heimildir námsmanna til að flytja eininga á milli missera og námsára í sama námsferli. Segir þar eftirfarandi:

Námsmaður sem lýkur fleiri en 30 ECTS-einingum á misseri á rétt á að nýta umframeiningarnar á öðru misseri sama námsárs svo framarlega sem lágmarksárangri sé náð á því misseri, sbr. gr. 2.2, eða flytja umfram-einingarnar á síðari námsár í sama námsferli. Nýr námsferill hefst skipti námsmaður um skóla, námsgrein eða námsgráðu.

Kærandi lauk ekki lágmarksnámsárangri á vorönn 2015 og uppfyllti því ekki ofangreind skilyrði um tilflutning á einingum. Einnig lauk kærandi einungis 10 einingum á hvorri önn námsárið 2013-2014 og er því ekki um neinar umframeiningar að ræða. Ekki verður fallist á þær skýringar kæranda að hvergi sé bannað í úthlutunarreglunum að flytja einingar milli námsára með þessum hætti. Ákvarðanir stjórnvalda eins og LÍN verða að byggja á heimildum í lögum og reglum settum samkvæmt þeim. Engar heimildir er að finna í lögum og reglum um LÍN til að flytja ónotaðar einingar á milli námsára með þeim hætti sem kærandi hefur óskað eftir. Var stjórn LÍN því rétt að synja beiðni kæranda um að henni yrði heimilað að nýta sér einingar sem hún hafði lokið á fyrra námsári. Beiðni kæranda um að fá viðurkenndan lánsrétt samkvæmt heimild í grein 2.4 er vísað frá málskotsnefnd þar sem kærandi hefur upplýst að hún hafi þegar fengið viðurkenndan lánsrétt vegna 22 eininga. Með vísan til ofanritaðs ber að staðfesta niðurstöðu stjórnar LÍN í máli kæranda.

Úrskurðarorð

Ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda frá 4. júní 2015 er staðfest.

Til baka