Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-17/2015 - Námsframvinda - nám í tveimur námsgreinum á sama tíma

Úrskurður

Ár 2015, þriðjudaginn 2. desember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-17/2015:

Kæruefni

Með kæru dagsettri 10. júní 2015, sem barst málskotsnefnd 15. júní s.á., kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna frá 20. mars 2015, þar sem hafnað var beiðni hans um undanþágu frá ákvæðum greinar 2.2 í úthlutunarreglum sjóðsins vegna hnykklækninganáms hans við háskóla í Bandaríkjunum (BNA). Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 15. júní 2015 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dagsettu 21. ágúst 2015 og var afrit þess sent kæranda með bréfi dagsettu 24. ágúst s.á. en þar var kæranda jafnframt veittur fjögurra vikna frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi hóf BS nám í líffræði við háskóla í BNA í apríl 2012. Hann stundaði BS námið fram í apríl 2014 en eftir það byrjaði hann einnig nám í hnykklækningum, Doctor of Chiropractic (DC). DC náminu er skipt í fjórðungsannir og tekur að lágmarki 14 annir eða 3,5 ár að ljúka náminu. Námið er talið í skólaeiningum (course credits) og þarf námsmaður 341 einingu til að ljúka námi. Á haustönn 2014 lauk kærandi 12 skólaeiningum, jafngildi 9,6 ECTS eininga, í DC náminu og 7 skólaeiningum, jafngildi 5,6 ECTS eininga í BS náminu í líffræði. Kærandi lauk því samtals jafngildi 15,2 ECTS eininga. Samkvæmt úthlutunarreglum LÍN 2014-2015 er lágmarksframvinda í fjórðungsskólum 15 ECTS einingar eða jafngildi þeirra. Kærandi sótti um námslán vegna haustannar 2014. Kærandi fékk þær upplýsingar hjá LÍN í byrjun árs 2015 að ekki væri heimilt að veita námslán vegna tveggja námsferla í einu nema námsmaður væri að ljúka grunnháskólanámi og hafi fengið leyfi háskólans til að hefja meistaranám eða viðkomandi skóli hafi gert námsmanni að bæta við sig námskeiðum í lánshæfu grunnháskólanámi samhliða meistaranámi. Kærandi sendi LÍN staðfestingu frá skólanum um að námsmönnum sé heimilt að stunda samhliða nám í "undergraduate program" samhliða "Doctor of Chiropractic program". Jafnframt kom fram að á haustönn 2014 hefði háskólinn gert það að skilyrði að kærandi lyki 7 einingum í "undergraduate program", þ.e. BS námi, til viðbótar við 12 einingum í "Doctor of Chiropractic program". Í svari LÍN kom fram að staðfesting frá skólanum nægði ekki þar sem einungis kæmi fram að skólinn heimilaði kæranda að vera samtímis í tveimur námsferlum. Ekki kæmi fram að skólinn gerði þá kröfu til kæranda að hann lyki þessum áföngum sem hluta af hnykklækninganáminu né að hann fái þá metna inn í hnykklækninganámið til lækkunar á þeim einingafjölda sem hann þurfi til að ljúka til að geta útskrifast. Var kæranda bent á að bera mál sitt undir stjórn LÍN. Í erindi kæranda til stjórnar LÍN kom fram að háskólinn krefjist þess að námsmenn ljúki ákveðnum fjölda eininga í "undergraduate" hluta, án þess þó að ljúka því námi, áður en þeir hefja DC námið. Námsmenn sem kjósi að ljúka einnig BS gráðu þurfi að ljúka henni samhliða DC hlutanum þar sem ekki sé heimilt að útskrifast með BS gráðu að DC námi loknu. Af þessum sökum hafi kærandi þurft að taka 7 einingar í BS hlutanum og 11 einingar í DC hlutanum. Meðfylgjandi erindi sínu til stjórnar LÍN sendi kærandi yfirlýsingu frá háskólanum dagsetta 4. febrúar 2015 þar sem sagði eftirfarandi:

Life University does permit a student to participate in two programs during the same quarter provided the number of credits in the Undergraduate program do not exceed the number of credits in the doctor of Chiropractic program. During our 2014 fall quarter, [...] was enrolled basically as a DC student but was also taking two subjects offered only in the undergraduate program. These two subjects were needed to comlete his undergraduate degree and are not offered in the chiropractic program.

Það 5. febrúar 2015 lagði kærandi síðan fram aðra yfirlýsingu frá skólanum þar sem einnig kom fram eftirfarandi:

For the 2014 fall quarter from October 6 trough December 12, Life University required [...] to complete 7 credit hours in the undergraduate program in addition to twelve hours in the Doctor of Chiropractic program.

Fór kærandi þess á leit að fá undanþágu frá grein 2.2 í úthlutunarreglum LÍN. Stjórn LÍN synjaði beiðni kæranda með ákvörðun sinni 20. mars 2015. Kom fram að það væri mat stjórnar að DC námið sem kærandi stundaði teldist grunnháskólanám samkvæmt viðmiðum LÍN, enda væru ekki gerðar kröfur um að nemendur hefðu lokið grunnháskólaprófi áður en þeir hæfu námið. Samkvæmt úthlutunarreglum LÍN sé heimilt að lána vegna náms í tveimur námsferlum á sömu önn ef annar ferillinn er á grunnháskólastigi en hinn á framhaldsháskólastigi. Báðir ferlar sem kærandi væri skráður í væru á grunnháskólastigi og því væri ljóst að kærandi uppfyllti ekki skilyrði greinar 2.2 um að fá lán fyrir námi í tveimur samhliða ferlum.

Sjónarmið kæranda

Í kærunni kemur fram að stjórn LÍN hafi synjað kæranda um þriggja mánaða framfærslulán og lán vegna skólagjalda á einni önn þar sem fjöldi eininga í hvoru námi um sig hafi ekki uppfyllt kröfur LÍN þrátt fyrir að bæði BS námið og DC námið hvort um sig væru lánshæf. Fer kærandi þess á leit að ákvörðun stjórnar verði endurskoðuð og honum veitt undanþága frá grein 2.2 í úthlutunarreglunum.

Sjónarmið stjórnar LÍN

Í athugasemdum stjórnar LÍN dagsettum 21. ágúst 2015 er vísað til þess að við inngöngu í það nám er kærandi stundi í greininni "Doctor of Chiropractic" í BNA sé þess ekki krafist að námsmaður hafi áður lokið grunnháskólanámi. Hafi því nám kæranda verið metið hjá LÍN sem nám grunnháskólastigi, sbr. grein 2.2 í úthlutunarreglum LÍN. Kærandi hafi lokið 12 háskólaeiningum, 9,6 ECTS, í DC námi sínu og 7 háskólaeiningum, jafngildi 5,6 ECTS einingum, í BS námi sínu. Ekki hafi verið heimilt að veita kæranda námslán fyrir báðum námsferlum á sömu önn og kærandi hafi í hvorugum námsferlinum uppfyllt kröfu um lágmarksnámsframvindu.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 2/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna er hlutverk hans að tryggja þeim er falla undir lögin tækifæri til náms án tillits til efnahags. Nánar er kveðið á um skilyrði fyrir veitingu námslána í 6. gr. laganna er þar segir í 1. málsgrein að námslán skuli aldrei veitt fyrr en námsmaður hefur skilað vottorði um tilskilda skólasókn og námsárangur.” Ennfremur segir í 3. mgr. 3. gr. að námslán skuli “ekki veitt nema námsframvinda sé með eðlilegum hætti”, sbr. úthlutunarreglur sjóðsins vegna 2014-2015, grein 2.2 en þar segir í 1. mgr.:

2.2. Lánshæfar einingar Til að eiga rétt á námsláni þarf námsmaður að ljúka að lágmarki 22 ECTS-einingum eða ígildi þeirra á hverju misseri eða samsvarandi hlutfalli á önn í fjórðungaskólum í einum námsferli. Einungis er heimilt að veita lán til náms í tveimur eða fleiri námsferlum á sömu önn ef námsmaður er að ljúka grunnháskólanámi og hefur fengið leyfi skóla til að hefja meistaranám í sama fagi. Sama gildir þegar námsmanni er gert af skóla að bæta við sig námskeiðum í lánshæfu grunnháskólanámi samhliða meistaranámi. Þessi heimild er háð því að námsmaður hafi ekki áður fullnýtt svigrúm sitt til námslána skv. gr. 2.3.

Samkvæmt reglum háskólans í BNA er ekki gerð krafa um tiltekna prófgráðu á háskólastigi til að komast að í DC nám, en hins vegar er þess krafist að námsmenn hafi a.m.k. lokið tilteknum einingum í námi á grunnháskólastigi. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu háskólans www.life.edu gerir háskólinn ráð fyrir þremur leiðum sem kallast "Pre Doctor of Chiropractic" til að geta fengið skráningu í DC nám. Leið 1 er skipulögð þannig að námsmaðurinn þarf að ljúka tilteknum einingum í BS námi í heilbrigðisvísindum, s.s. líffræði, áður en honum er heimilt að hefja DC námið. Eftir að DC nám er hafið heldur námsmaðurinn þó áfram BS náminu samhliða og lýkur því námi á tveimur námsferlum, BS í líffræði eða öðrum heilbrigðisvísindum og DC námi. Leið 2 gerir ráð fyrir að viðkomandi taki aðeins tilskilinn fjölda eininga sem kenndar eru í BS námi og byrji síðan í DC náminu. Leið 3 heimilar námsmönnum sem lokið hafa grunnnámi sem ekki er á raungreinasviði að komast á DC námsbraut að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Kærandi valdi leið eitt sem eins og áður greinir felst í því að hann lýkur tveimur prófgráðum samtímis. Fallast verður á það með stjórn LÍN að þar sem ekki er gerð krafa um að námsmenn er hyggjast stunda "Doctor of Chiropractic" hafi áður lokið grunnháskólanámi beri að meta DC námið sem grunnháskólanám eins og BS námið í líffræði. Fram kemur í gögnum málsins að við skráningu á heimiluðum hámarksfjölda eininga samkvæmt grein 2.3.1 í úthlutunarreglunum hafi LÍN þó fallist á að líta á fyrstu þrjú árin sem ígildi grunnnáms og næstu tvö sem á eftir koma sem ígildi meistaranáms. Í máli þessu hefur LÍN synjað kæranda um námslán á haustönn 2014 þar sem hann leggur stund á nám í tveimur námsferlum, annars vegar BS nám í líffræði og hins vegar DC nám í hnykklækningum. Lauk kærandi eins og áður greinir 7 einingum í BS hlutanum og 11 einingum í DC hlutanum en hvort um sig nægir ekki til að uppfylla kröfur úthlutunarreglna LÍN um lánshæfar einingar sem kveða á um að ljúka þurfi að lágmarki 15 ECTS einingum eða ígildi þeirra sem samkvæmt grein 2.2 skulu vera í sama námsferli. Er þannig ekki heimilt að veita námslán vegna náms sem stundað er í tveimur námsferlum samtímis nema í þeim undantekningartilvikum sem vísað er til í grein 2.2. Fyrir liggur í málinu að ekki er gert ráð fyrir að þessar 7 einingar geti verið metnar sem hluti af DC náminu heldur er það val kæranda að ljúka BS náminu samhliða DC náminu. Að mati málskotsnefndar verður ekki séð þessi almennu skilyrði fyrir námsláni sem koma fram í grein 2.2 í úthlutunarreglum LÍN um að lánshæfar einingar þurfi að stefna að sameiginlegri námsgráðu styðjist við ómálefnaleg sjónarmið. Fyrir liggur að kærandi uppfyllti ekki kröfur úthlutunarreglna LÍN um lánhæfar einingar í sama námsferli og að tilvik kæranda fellur ekki undir skilyrði um undanþágu frá þeim kröfum. Var sjóðum rétt að synja umsókn hans um námslán. Ber því að staðfesta ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda.

Úrskurðarorð

Hinn kærða ákvörðun frá 20. mars 2015 í máli kæranda er staðfest. 

Til baka