Úrskurður
Ár 2016, miðvikudaginn 27. janúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-9/2015.
Kæruefni
Með kæru sem barst málskotsnefnd 23. mars 2015 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 30. september 2014 um greiðslukjör skuldabréfs vegna uppgreiðslu ábyrgðarskuldbindingar. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 9. apríl 2015 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 7. maí 2015 og var afrit þess sent kæranda og henni jafnframt gefinn kostur á að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Athugasemdir bárust málskotsnefnd frá kæranda með bréfum dagsettum 29. maí og 23. júní 2015. Málskotsnefnd óskaði eftir skattframtali kæranda og maka vegna ársins 2014 og bárust þau frá kæranda 30. september og 23. október 2015. Með bréfi dagsettu 1. desember 2015 óskaði málskotsnefnd upplýsinga frá LÍN um hvort sjóðurinn hefði höfðað mál á hendur lántaka eða kæranda vegna námslánsskuldarinnar. Svar sjóðsins barst með bréfi dagsettu 9. desember 2015. Málskostsnefndar óskaði viðbótarupplýsinga frá LÍN með bréfi dagsettu 14. janúar 2016, sem LÍN svaraði með bréfi dagsettu 20. sama mánaðar.
Málsatvik og ágreiningsefni
Tildrög þessa máls eru þau að kærandi er ábyrgðarmaður á þremur
skuldabréfum hjá LÍN vegna námslána dóttur hennar, S-000, G-000 og G-000. Dóttir
kæranda var úrskurðuð gjaldþrota þann 21. september 2011. Engar eignir fundust í
búinu og var skiptum í því lokið 5. apríl 2013. LÍN lýsti ekki kröfu í búið.
Samkvæmt 99. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 féllu allar kröfur á
hendur hinum gjaldþrota lántaka í gjalddaga, þar með talið lán hennar við LÍN.
Ekkert fékkst upp í lýstar kröfur í þrotabúið og krafði LÍN þá kæranda um
greiðslu námslánsskuldarinnar. Höfuðstóll kröfunnar nam um 11,5 milljónum króna
og bauð LÍN kæranda í byrjun að gera skuldina upp með skuldabréfi til tíu ára.
Kærandi taldi sig ekki geta staðið undir greiðslum að slíku skuldabréfi sökum
bágrar fjárhagsstöðu. Fór kærandi þess á leit að ábyrgðarskuldbindingarnar yrðu
endurskoðaðar og eftir atvikum felldar niður. Stjórn LÍN hafnaði kröfum kæranda
með ákvörðun 28. ágúst 2013 með vísan til þess að ekki væri lagaheimild fyrir
hendi til að fella kröfuna niður, en stjórn LÍN féllst hinsvegar á að heimila
kæranda að greiða skuldina með skuldabréfi til 15 ára í stað tíu ára. Kærandi
kærði þá ákvörðun stjórnar LÍN til málskotsnefndar. Með úrskurði málskotsnefndar
þann 9. maí 2014 var fallist á það með LÍN að sjóðurinn hefði ekki lagaheimild
til að fela niður skuld kæranda, en nefndin taldi að LÍN hefði átt að kalla
eftir frekari gögnum um fjárhagsstöðu kæranda og í framhaldi af því að skoða mál
hennar og freista þess að ná samkomulagi um greiðslur sem kærandi gæti staðið
undir. Með því að vanrækja það hefði stjórn LÍN ekki lagt fullnægjandi grundvöll
að ákvörðun sinni í samræmi við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga og var
ákvörðun hennar því felld úr gildi. Í kjölfar úrskurðar málskotsnefndar óskaði
stjórn LÍN eftir nánari upplýsingum frá kæranda um tekjur hennar. Samkvæmt
staðgreiðsluyfirliti námu mánaðarlegar tekjur kæranda 170.000 til 185.000 krónum
á árunum 2013 og 2014. Með hliðsjón af því bauð stjórn LÍN kæranda að gera
skuldina upp með óverðtryggðu skuldabréfi til 30 ára með 7% vöxtum, en með því
skilyrði að kærandi legði fram veð til tryggingar skuldinni. Mánaðarleg
greiðslubyrði slíks skuldabréfs myndi vera um það bil 99.000 krónur. Kærandi
telur sig ekki hafa bolmagn til að standa undir slíku láni og kærði ákvörðunina
til málskotsnefndar. Hinn 4. júní 2015 gerði stjórn LÍN þá breytingu á verklagi
sem hafði verið viðhaft í málum þar sem lánþegi hefur orðið gjaldþrota og lán
fallið á ábyrðarmann, að bjóða ábyrgðarmanni að gera upp ábyrgðina með
skuldabréfi og að ekki yrði farið fram á aðrar tryggingar en þær að upprunalegur
skuldari gerist ábyrgðarmaður á skuldabréfinu. Þann 27. nóvember 2015 kvað
Héraðsdómur Reykjavíkur upp dóm í máli nr. E-1179/2015 þar sem komist var að
þeirri niðurstöðu að samkvæmt 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 um
gjaldþrotaskipti o.fl. væri tveggja ára fyrningarfrestur á kröfum sem LÍN hafði
uppi á hendur lántaka og ábyrgðarmanni hans í kjölfar gjaldþrots lántakandans.
Óskaði málskotsnefnd að því tilefni eftir nánari upplýsingum frá LÍN um
málshöfðanir þess á hendur lántaka og kæranda og afstöðu sjóðsins til þess hvort
leiða mætti af niðurstöðu héraðsdóms að krafa hans á hendur kæranda væri
niðurfallin fyrir fyrningu. Af hálfu LÍN var þá upplýst að mál hafi verið höfðað
á hendur bæði lántaka (aðalskuldara) og kæranda (ábyrgðarmanni) vegna
skuldabréfs S-lánsins og stefna á hendur ábyrgðarmanni verið árituð um
aðfararhæfi þann 20. mars 2013. Mál hafi hins vegar ekki verið höfðuð vegna
G-lánanna. Taldi LÍN að dómur héraðsdóms leiddi ekki sjálfkrafa til þess að
ábyrgð kæranda væri niður fallin og lýsti því jafnframt yfir að líklega yrði
niðurstöðu málsins áfrýjað til Hæstaréttar.
Sjónarmið kæranda
Í kærunni lýsir kærandi því að hún sé ábyrgðarmaður á námslánum dóttur
sinnar, en elsta lánið er frá 1992 og það yngsta frá 2005. Kærandi kveður
fjárhagsstöðu dóttur sinnar hafa versnað mikið í kjölfar efnahagshrunsins
haustið 2008 og hafi hún ekki átt annarra kosta völ en að lýsa sig gjaldþrota.
Vegna ábyrgðar sinnar á námslánum dóttur sinnar kveðst kærandi hafa strax leitað
aðstoðar hjá Umboðsmanni skuldara, sem hafi kannað möguleika hennar á að greiða
af láninu samkvæmt upphaflegum skilmálum þess, en því hafi LÍN hafnað. Kærandi
kveður hinu nýju ákvörðun stjórnar LÍN að bjóða henni að greiða ábyrgðarkröfuna
með skuldabréfi til 30 ára með 7% vöxtum ekki taka mið af raunhæfri fjárhagsgetu
hennar. Þannig hafi komið í ljós að ef um verðtryggt lán væri að ræða yrði
greiðslubyrðin rúmlega 130.000 krónur á mánuði, sem hún með engu móti geti ráðið
við. Þá bendir kærandi á að ákvörðun stjórnar LÍN sé háð því skilyrði að hún
standist almenn skilyrði sjóðsins til lántöku, sem og greiðslumat í
viðskiptabanka. Það blasi við að hún mun ekki standast greiðslumat í
viðskiptabanka og þegar af þeirri ástæðu sé þetta úrræði úr sögunni. Þá sé
samþykki sjóðsins háð því að hún leggi fram veð til tryggingar láninu, þótt
samkvæmt núgildandi lögum sé óheimilt að ganga að heimili hennar sem
ábyrgðarmanns. Með því sé sjóðurinn að skapa sér þá stöðu að ganga að heimili
hennar ef vanskil verða. Þá bendir kærandi á að ef kæmi til 30 ára lánveitingar
til hennar myndi hún vera orðin 110 ára þegar kæmi að síðustu greiðslum. Kærandi
telur það vera ámælisverð vinnubrögð hjá LÍN, sem lánar námsmönnum til mjög
langs tíma, að samþykkja sjálfskuldarábyrgð fólks sem hvorki hefur sýnt fram á
getu til að standa undir slíkum ábyrgðum né verið gerð grein fyrir í hverju
ábyrgð þess sé fólgin. Kveðst kærandi ekki hafa áttað sig á því í hverju ábyrgð
hennar hafi verið fólgin og hefði að líkindum ekki gengist í ábyrgð hefði henni
verið hún ljós. Dóttur hennar hafi staðið til boða aðrir ábyrgðarmenn, sem hafi
verið betur í stakk búnir til að taka á sig og standa undir slíkri ábyrgð en
hún. Loks bendir kærandi á að íslensk stjórnvöld séu aðilar að samkomulagi um
notkun sjálfskuldarábyrgða sem hafi að geyma reglur til verndar ábyrgðarmönnum.
Sem opinber lánveitandi sé LÍN aðili að því samkomulagi, en kýs samt að virða
það að vettugi. Viðbótarathugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dagsettu 23.
júní 2015 í tilefni af því breytta verklagi, sem stjórn LÍN tók upp þann 4. júní
2015, um að krefja ekki ábyrðarmenn um aðrar tryggingar en ábyrgð upprunalegs
skuldara. Kærandi kveðst ekki telja að hið breytta verklag breyti miklu gagnvart
sér og í engu þeirri staðreynd að hún hafi engin tök á því að standa undir
greiðslubyrði af láninu og auki hvorki líkur á því að hún standist greiðslumat í
viðskiptabanka né almenn skilyrði LÍN til lántöku. Loks áréttar kærandi gagnrýni
sína á þau vinnubrögð LÍN að upplýsa ekki ábyrðarmenn um áhættuna sem sé samfara
ábyrgðinni og að samþykkja ábyrgðarmenn án þess að meta greiðslugetu þeirra.
Sjónarmið stjórnar LÍN
Að gengnum úrskurði
málskotsnefndar 9. maí 2014 kveðst stjórn LÍN hafa aflað nánari upplýsinga um
tekjur kæranda og samkvæmt staðgreiðsluyfirliti voru mánaðarlegar tekjur hennar
á á árum 2013 og 2014 á bilinu 170.000 til 185.000 krónur. Af því hafi verið
ljóst að greiðslugeta kæranda væri mjög takmörkuð og þess vegna hafi verið
ákveðið að bjóða henni skuldabréf til 30 ára með 7% vöxtum, sem svari til lægstu
vaxta Seðlabanka Íslands með 1% álagi. Stjórn LÍN leggur áherslu á að ekki sé
fyrir hendi lagaheimild til að fella niður ábyrgðir að neinu leyti eða til að
bjóða kæranda skuldabréf með niðurgreiddum vöxtum. Mat stjórnar LÍN á fjárhag og
greiðslugetu kæranda geti eingöngu lotið að því hvort bjóða megi henni að gera
upp skuldina með skuldabréfi til lengri tíma en 10 ára. Með því að bjóða kæranda
skuldabréf til 30 ára hafi stjórnin fullnýtt þau úrræði sem eru í boði til
ívilnunar fyrir lántaka.
Niðurstaða
Kærandi gekkst í sjálfskuldarábyrgð fyrir fimm skuldabréfum hjá LÍN vegna dóttur sinnar. Tvö skuldabréf voru gefin út 1992, annars vegar 20. janúar (T-000) og hins vegar 13. apríl (T-000), en þau voru síðan við innheimtu sameinuð í eitt skuldabréf S-000 þann 15. febrúar 1995. Hinn 3. desember 1996 var gefið út skuldabréf R-000 og annað 11. nóvember 2002 R-000, sem sameinuð voru í eitt skuldabréf G-000 þann 11. desember 2005. Loks var skuldabréf G-000 gefið út þann 11. desember 2005. Bú dóttur kæranda var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 21. september 2011. Samkvæmt 99. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. falla allar kröfur á hendur þrotabúi sjálfkrafa í gjalddaga við uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti. Í samræmi við það segir í 5. mgr. greinar 7.4 í úthlutunarreglum LÍN að sé lánþegi úrskurðaður gjaldþrota falli allar kröfur á hendur honum í gjalddaga. Þegar bú dóttur kæranda var tekið til gjaldþrotaskipta gjaldféll krafa LÍN og sjálfskuldarábyrgð kæranda á námslánunum hennar varð virk. Engar eignir fundist í búinu og var skiptum á því lokið 5. apríl 2013 samkvæmt 155. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur. Af hálfu LÍN var ekki lýst kröfu í þrotabúið vegna þeirra lána sem kærandi er ábyrgðarmaður að. Af því hlaust þó ekkert tjón fyrir kæranda þar sem búið var eignalaust. Samkvæmt 2. mgr. 165. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. ber þrotamaður ábyrgð á skuldum sínum sem ekki fást greiddar við gjaldþrotaskipti. Með lögum nr. 142/2010 var gerð sú breyting á 165. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. um að fyrningartími krafna sem lýst er í þrotabú, og hafði áður miðast við sama fyrningartíma og krafan hafði áður, þ.e. fjögur, tíu eða tuttugu ár, skyldi eftirleiðis verða tvö ár fyrir allar kröfur. Samkvæmt 3. mgr. 165. gr. verður fyrningu kröfu sem um ræðir í 2. mgr. aðeins slitið á ný með því að kröfuhafi höfði innan fyrningarfrests mál á hendur þrotamanninum og fái þar dóm um viðurkenningu á fyrningarslitum gagnvart honum. Fyrir liggur að LÍN höfðaði mál á hendur aðalskuldara og kæranda, sem þingfest var í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 4. desember 2012, vegna skuldabréfs S-000. Var stefnufjárhæðin, 657.365 krónur, árituð um aðfararhæfi þann 20. mars 2013. Með því var slitið fyrningu ábyrgðarkröfu LÍN á hendur kæranda vegna fyrrgreinds skuldabréfs. LÍN hefur ekki höfðað mál vegna skuldabréfanna G-000 og G-000, hvorki á hendur aðalskuldara né kæranda. Kröfur vegna þeirra á hendur aðalskuldara fyrndust því þann 5. apríl 2015, en þá voru liðin tvö ár frá lokum skipta á búi hennar, sbr. 2. mgr. 165. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Í 165. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. er ekki kveðið sérstaklega á um afdrif kröfu á hendur ábyrgðarmanni ef krafa á hendur aðalskuldara fellur niður fyrir fyrningu. Í 2. mgr. 25. gr. fyrningarlaga nr. 150/2007 segir að hafi krafa á hendur aðalskuldara fyrnst áður en fyrningu hefur verið slitið gagnvart ábyrgðarmanni teljist krafa ábyrgðarmanns jafnframt fyrnd. Í 28. gr. laganna segir að þau gildi einvörðungu um þær kröfur sem stofnast eftir gildistöku laganna. Þótt krafa LÍN á hendur kæranda hafi stofnast fyrir gildistöku laganna er framangreind regla í samræmi við þá meginreglu kröfuréttar að glati kröfuhafi kröfu sinni á hendur aðalskuldara fyrir fyrningu fellur samhliða niður krafa hans á hendur ábyrgðarmanni, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í málinu nr. 56/1993. Af framansögðu leiðir að ábyrgðarkröfur LÍN á hendur kæranda vegna skuldabréfanna G-000 og G-000 eru fallnar niður fyrir fyrningu, en ekki ábyrgðarkrafan vegna skuldabréfs S-000. Kærandi átelur LÍN fyrir að hafa samþykkt sjálfskuldarábyrgð hennar á sínum tíma án þess að kanna getu hennar til þess að standa undir henni eða gera henni grein fyrir umfangi hennar. Telur kærandi það ekki samrýmast samkomulagi um notkun sjálfskuldarábyrgða, sem íslensk stjórnvöld hafi verið aðili að, sem meðal annars hafði að geyma reglur um mat á greiðslugetu og upplýsingagjöf til ábyrgðarmanna. Við útgáfu skuldabréfanna sem kærandi gekkst í sjálfskuldarábyrgð fyrir voru í gildi annars vegar lög nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki og hins vegar lög nr. 21/1992 um LÍN, sem bæði gerðu kröfu um að lántaki legði fram yfirlýsingu að minnsta kosti eins ábyrgðarmanns um að hann tæki að sér sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu lánsins. Samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga sem kærandi vísar til og var frá 1. nóvember 2001 gilti ekki um LÍN, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 196/2015. Þegar kærandi gekkst í ábyrgð fyrir lánum dóttur sinnar gat hún ekki vænst annars en að innheimtu yrði beint að henni ef lánin lentu í vanskilum. Eins og rakið er í niðurstöðu málskotsnefndar í fyrra máli aðila nr. L-62/2013 þá telur nefndin að LÍN sé óheimilt að verða við kröfu kæranda um að fella niður ábyrgðarskuldbindinguna og hið sama eigi við kröfu um niðurgreiðslu á vöxtum, sem eðli málsins samkvæmt felur í sér niðurfellingu skuldar að hluta. Önnur niðurstaða færi gegn þeim eignarrétti sem felst í kröfuréttindum LÍN á hendur kæranda og varinn er af 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í málinu nr. 229/2015. Það er því álit málskotsnefndar að kærandi sé bundin af sjálfskuldarábyrgð sinni vegna þeirrar kröfu LÍN sem er ófyrnd. Þegar málskotsnefnd berst kæra á ákvörðun stjórnar LÍN ber henni að eigin frumkvæði að gæta að því að málið hafi verið afgreitt í samræmi við lög, bæði að formi og efni. Þannig er málsmeðferðin ekki bundin af málsforræðisreglu réttarfars heldur af rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi skaut máli þessu til málskotsnefndar til endurskoðunar á þeirri ákvörðun stjórnar LÍN frá 30. september 2014 að gefa henni einvörðungu kost á að gera upp 11,5 milljóna króna ábyrgðarskuldbindingu með skuldabréfi til 30 ára. Það er niðurstaða málskotsnefndar að ábyrgðarskuldbindingar kæranda vegna skuldabréfa G-000 og G-000 séu fyrndar, en með því eru forsendur fyrir hinni kærðu ákvörðun stjórnar LÍN brostnar, þar sem einvörðungu stendur eftir af skuld kæranda 657.365 krónur, auk vaxta og málskostnaðar, samkvæmt áritaðri stefnu. Að því leiðir að fella verður úr gildi hina kærðu ákvörðun stjórnar LÍN. Málskotsnefnd telur rétt að taka fram að kæra í máli þessu barst nefndinni ekki fyrr en tæpum sex mánuðum eftir að stjórn LÍN tók ákvörðun í máli kæranda. Þar sem ekki var gætt að því að veita kæruleiðbeiningar í samræmi við 3. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 í ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda gildir ekki sá þriggja mánaða kærufrestur sem kveðið er á um í 27. gr. laganna.
Úrskurðarorð
Ákvörðun stjórnar LÍN frá 30. september 2014 í máli kæranda er felld úr gildi.