Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-19/2015 - Ábyrgðarmenn - beiðni um niðurfellingu ábyrgðar

Úrskurður

 

Ár 2016, miðvikudaginn 10. febrúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-19/2015.

Kæruefni

 

Með kæru sem barst málskotsnefnd 18. júní 2015 kærðu A Lántaki og B ábyrgðarmaður (hér eftir kærendur), ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 13. maí 2015 um að synja beiðni um niðurfellingu á ábyrgð B á námslánum A. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 18. júní 2015 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kærendum var sent afrit bréfsins sama dag. Með bókun málskotsnefndar, dagsett 9. september 2015, var meðferð málsins frestað þar til fyrir lægi hvort dómi Héraðsdóms Vesturlands í máli E-117/2014 yrði áfrýjað til Hæstaréttar Íslands. Upplýsingar um að af því yrði ekki lágu fyrir 24. september 2015. Í framhaldi sendi stjórn LÍN nefndinni athugasemdir sínar með bréfi dagsettu 16. nóvember 2015 og var afrit þess sent kærendum og þeim jafnframt gefinn kostur á að koma að frekari sjónarmiðum. Athugasemdir kærenda bárust málskotsnefnd með bréfi dagsettu 24. nóvember 2015.

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Árið 2008 tók kærandi, A, námslán (nr. G-xxxxxx) hjá LÍN og gekkst C í sjálfskuldarábyrgðar á láni hans. Í byrjun árs 2013 óskaði A, eftir því við LÍN að skipt yrði um ábyrgðarmann á skuldabréfinu. Skrifaði B undir skjal frá LÍN með fyrirsögninni Skipt um ábyrgðarmann á skuldabréfi þann 8. febrúar 2013 og tókst á hendur sjálfskuldarábyrgð á námsláni A í stað fyrri ábyrgðarmanns. Ábyrgðin var til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á höfuðstól allt að 2.185.990 krónum, ásamt vöxtum, verðbótum, dráttarvöxtum og öllum kostnaði er af vanskilum kynni að leiða. Þá var höfuðstóll ábyrgðarinnar bundinn neysluvísitölu. Í júlí 2013 leitaði A til umboðsmanns skuldara. Í mati umboðsmanns á fjárhagsstöðu hans í október það sama ár kom fram að skuldir hans umfram eignir væru 21 milljónir króna og að hann hefði lítið aflögu til að greiða niður skuldir sínar. Sagði í niðurstöðu matsins að þrátt fyrir að ráðgjafi hefði reynt að finna ýmsar leiðir til að finna heildarlausn á greiðsluerfiðleikum hans hefði það ekki reynst unnt. Bú A var tekið til gjaldþrotaskipta þann 11. desember 2014. Með vísan til 99. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991 var skuldabréf LÍN vegna námslána hans fellt í gjalddaga og nam höfuðstóll gjaldfellingarfjárhæðarinnar 2.343.048 krónur. Ábyrgðarmanni var send tilkynning um gjaldfellinguna með bréfi dagsettu 26. febrúar 2015 og hann krafinn um greiðslu sem sjálfskuldarábyrgðaraðili. Kærendur óskuðu eftir því við stjórn LÍN 13. mars 2015 að ábyrgðin yrði felld niður með vísan til þess að LÍN hefði ekki framfylgt fyrirmælum 4. og 5. gr. laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 þegar B hafi gengist í ábyrgðina. Beiðninni var hafnað af stjórn LÍN með hinni kærðu ákvörðun. B greiddi sjálfskuldarábyrgðarkröfu LÍN, þann 18. júní 2015, með fyrirvara um gildi ábyrgðarinnar og áskilnaði um rétt til endurgreiðslu verði fallist á sjónarmið hans hjá málskotsnefnd og/eða dómstólum.

Sjónarmið kærenda

Kærendur byggja kröfu sína um niðurfellingu á sjálfskuldarábyrgð B á því að LÍN hafi ekki uppfyllti þær kröfur sem lög um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 leggja á sjóðinn sem lánveitanda. LÍN hafi ekki látið framkvæma greiðslumat á lántaka, hafi látið undir höfuð leggjast að kanna hagi hans og ráða ábyrgðarmanni frá því að gangast undir ábyrgðina á grundvelli slæmrar fjárhagstöðu hans. LÍN sem lánveitandi hafi þannig ekki uppfyllt skilyrði ákvæða laga um ábyrgðarmenn. Kærendur vísa bæði til 1. mgr. og 2. mgr. 4. gr. laga um ábyrgðarmenn til stuðnings kröfu sinni. Þeir benda einnig á að í 5. gr. laganna sé sú skylda lögð á lánveitanda að upplýsa ábyrgðarmann skriflega um þá áhættu sem ábyrgð sé samfara og í því felist m.a. að upplýsa um greiðslugetu lántaka. Í 6. gr. laganna sé jafnframt kveðið á um að ábyrgðarsamningur skuli vera skriflegur og í honum getið þeirra upplýsinga sem kveðið sé á um í 5. gr. laganna. Kærendur benda á að ábyrgðarmaður hafi skrifað undir yfirlýsingu um skipti á ábyrgðarmanni á skuldabréfi en að hann hafi hvorki verið upplýstur um áhættuna fyrir hann sem ábyrgðarmann né verið upplýstur um greiðslugetu lántaka. Benda þeir á að á þessum tíma hafi lántaki staðið í skilnaði sem leiddi til verulegra fjárhagserfiðleika sem hafi að lokum leitt til gjaldþrots hans í desember 2014. Kærendur vísa einnig til 36. gr. laga nr. 7/1936 um að víkja megi samningi til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það verði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Telja kærendur að með vísan til 36. gr. og allra málsatvika í málinu verði að fallast á það að víkja beri til hliðar ábyrgð þeirri sem ábyrgðarmaður gekkst undir vegna námslána lántaka hjá LÍN. Kærendur hafna því að það skipti hér máli að ekki hafi verið um nýja lántöku að ræða þegar B tókst á hendur sjálfskuldarábyrgð á láninu. Hér hafi verið um nýja persónubundna ábyrgð að ræða sem gengist var undir í tíð gildandi laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 og því hafi LÍN borið að gæta ákvæða laganna sem sjóðurinn hafi ekki gert. Það að lántaki hafi átt frumkvæðið að því að útvega nýjan ábyrgðarmann en ekki LÍN leysi sjóðinn ekki undan því að gæta að fyrirmælum laga um ábyrgðarmenn. Þá er þeirri fullyrðingu LÍN mótmælt að ábyrgðarmanni hafi verið kunnugt um stöðu lántaka þegar hann hafi gefið út ábyrgðaryfirlýsingu sína og því ólíklegt að niðurstaða úr greiðslumati, hver sem hún hefði verið, hefði breytt ákvörðun hans um að taka á sig sjálfskuldarábyrgð. Bendir kærandi m.a. á þann aðstöðumun sem sé milli aðila þar sem annars vegar sé um lánastofnun að ræða í eigu ríkisins með tilteknar lagaskyldur og svo hins vegar einstakling sem gengst undir sjálfskuldarábyrgð. Vísa kærendur sérstaklega til dóms Héraðsdóms Vesturlands frá 7. maí 2015 í máli nr. E-117/2014 og telja að hér sé um sambærilegt mál að ræða.

Sjónarmið stjórnar LÍN

Stjórn LÍN bendir á að sú ábyrgð sem hér um ræði hafi komið til þegar lántaki óskaði eftir því að skipt yrði um ábyrgðarmann í byrjun árs 2013. B hafi skrifað undir skipti á ábyrgðarmanni þann 8. febrúar 2013 og þannig yfirtekið ábyrgðarskuldbindingu sem þegar hafi verið til staðar. Á þeim tíma sem ábyrgðarmannaskiptin voru framkvæmd hafi lántaki verið í námi og því haft takmarkaðar tekjur. Einnig bendir LÍN á að greiðslur af námslánum hefjast ekki fyrr en 2 árum eftir námslok sbr. 4. mgr. 7. gr. laga nr. 21/1992 og því ljóst að ef greiðslumat hefði verið framkvæmt á þeim tíma sem kærandi gekkst í umrædda ábyrgð hefði slíkt mat ekki gefið raunhæfa mynd af því hvort lántaki væri bær til að efna skuldbindingar sínar þegar kæmi að því að greiða af láninu. Þá taka endurgreiðslur námslána mið af tekjum viðkomandi auk þess sem stjórn sjóðsins sé heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu námslána ef tilteknar ástæður s.s. lánshæft nám, atvinnuleysi, veikindi eða aðrar sambærilegar aðstæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega, sbr. 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992. LÍN bendir einnig á að það leiði ekki sjálfkrafa til þess að ábyrgðarsamningur verði ógiltur í heild eða að hluta af þeim sökum einum að lánveitandi hafi við gerð hans brugðist skyldum sínum. Finna þurfi slíkri ógildingu stoð í reglum samningaréttar ef leysa á ábyrgðarmann undan skyldum sínum samkvæmt ábyrgðarsamningi. Í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 sé kveðið á um að samningi megi víkja til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Við mat á því hvort ákvæðið eigi við sé skylt að líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til sbr. 2. mgr. ákvæðisins. LÍN vísar til vitneskju B um ábyrgð sína og hinna sérstöku aðstæðna við mat á greiðsluhæfi námsmanna sem lántaka, auk sérstöðu lána sjóðsins sem félagslegra lána á niðurgreiddum vöxtum og með rýmilegum endurgreiðslukjörum, en af þeim sökum sé hvorki ósanngjarnt né andstætt góðri viðskiptavenju að umræddur ábyrgðarsamningur sé gildur samanber 36. gr. laga nr. 7/1936. Þá bendir LÍN á að ekki hafi verið um nýja lántöku að ræða þegar B gerðist sjálfskuldarábyrgðaraðili á námslánum sonar síns, heldur hafi hann tekið við ábyrgð á láni sem skrifað var undir árið 2007. Þegar fyrri ábyrgðarmaður hafi tekið að sér sjálfskuldarábyrgð á námsláninu höfðu lög um ábyrgðarmenn ekki tekið gildi. Auk þess hafi LÍN ekki verið aðili að samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga sem þá hafi verið í gildi. Þá bendir LÍN á að skipt var um ábyrgðarmann að beiðni lántaka en ekki að kröfu LÍN. LÍN bendir einnig á að einu upplýsingarnar sem lágu fyrir við beiðni um skipti á ábyrgðarmanni voru að lántaki var ekki á vanskilaskrá enda hafi það verið skilyrði fyrir því að samþykkja skipti á ábyrgðarmanni. LÍN hafi enga vitneskju haft um persónulega stöðu lántaka á þeim tíma sem hann hafi óskað eftir skipti á ábyrgðarmanni. LÍN telur að það verði að teljast líklegt að ábyrgðarmanni hafi verið kunnugt um þá stöðu og jafnframt ljóst að skilnaður lántaka kynni að hafa áhrif á greiðsluhæfni hans til framtíðar. Þrátt fyrir það hafi hann ákveðið að undirgangast ábyrgðina. LÍN telji því afar ólíklegt að niðurstaða úr greiðslumati, hver sem hún hefði verið, hefði breytt ákvörðun ábyrgðarmanns um að taka á sig sjálfskuldarábyrgð á lánum sonar síns. Þá hafi ábyrgðarmaður fengið send yfirlit frá sjóðnum í byrjun árs 2014 og 2015 þar sem fram hafi komið staðan á því láni sem hann var í ábyrgð fyrir en hann hafi engar athugasemdir gert í kjölfar þeirra.

Niðurstaða

 

Í málinu er til úrlausnar beiðni ábyrgðarmanns um niðurfellingu sjálfskuldarábyrgðar á skuldabréfi vegna námsláns. Skuldabréfið var útgefið á árinu 2008 en ábyrgðaryfirlýsing ábyrgðarmannsins var gefin árið 2013 og leysti þá annan ábyrgðarmann undan ábyrgð sinni á skuldabréfinu. LÍN er opinber stjórnsýslustofnun sem hefur það hlutverk að tryggja þeim sem falla undir lög nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna tækifæri til náms án tillit til efnahags. LÍN veitir lán til námsmanna í framhaldsnámi samkvæmt lögum og reglum sem um sjóðinn gilda. Er starfsemi sjóðsins fjármögnuð með endurgreiðslu námslána, ríkisframlagi og lánsfé. LÍN ber í starfi sínu jafnt að fylgja þeim lögum og reglum sem gilda sérstaklega um starfsemi sjóðsins og lagareglum, jafnt skráðum sem óskráðum, sem gilda um stjórnsýslu hins opinbera svo og reglum fjármunaréttarins eftir því sem við á. Í 7. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992 segir:

Stjórn sjóðsins ákveður hvaða skilyrðum lántakendur og ábyrgðarmenn skuli fullnægja. Ábyrgð ábyrgðarmanns, eins eða fleiri, getur fallið niður enda setji námsmaður aðra tryggingu sem stjórn sjóðsins metur fullnægjandi.

Í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2007-2008, sem voru í gildi þegar umrætt námslán var veitt, segir í grein 5.1.8:

Skilyrði, sem lánþegar þurfa m.a. að uppfylla, eru að þeir séu ekki í vanskilum við sjóðinn, þegar sótt er um nýtt lán og bú þeirra sé ekki til gjald¬þrota¬meðferðar eða að þeir teljist af öðrum ástæðum bersýnilega ótryggir lán¬tak¬endur. Teljist námsmaður ótryggur lántakandi skv. ofangreindu getur hann sótt um undanþágu frá þessari grein enda sýni hann fram á annað, eða að hann leggi fram aðrar ábyrgðir sem sjóðurinn telur viðunandi.

Í lokamálsgrein greinar 5.3.2 kemur fram að eldri ábyrgð fellur ekki úr gildi nema að henni sé sagt upp og ný sett í staðinn með sam¬þykki sjóðsins. Í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2012-2013, sem voru í gildi þegar umrædd sjálfskuldarábyrgðaryfirlýsing var gefin, segir m.a. í 1. mgr. greinar 5.3.2 að ábyrgðarmaður skuli staðfesta með undirskrift sinni á skuldabréf eða ábyrgðaryfirlýsingu að hann hafi kynnt sér ákvæði skuldabréfsins. Í lokamálslið 5. mgr. sömu greinar segir að eldri ábyrgð falli ekki úr gildi nema að henni sé sagt upp og ný sett í staðinn með samþykki sjóðsins. Í lögum og reglum um LÍN og úthlutunarreglum sjóðsins er ekki að finna nánari fyrirmæli með hvaða hætti skuli standa að því þegar skipt er um ábyrgðarmann á skuldabréfi vegna námsláns eins og gert var í þessu tilviki. Sjálfskuldarábyrgð er kröfuréttarlegs eðlis og er notuð í lánastarfsemi almennt. Með því að takast á hendur sjálfskuldarábyrgð skuldbindur einstaklingur sig til að tryggja efndir kröfu gagnvart lánveitanda ef lántaki reynist ekki borgunarmaður fyrir greiðslu skuldarinnar. Efni kröfunnar ræðst af þeim löggerningi sem liggur henni til grundvallar, s.s. samningi eða skuldabréfi, og eftir lögum sem gilda hverju sinni. Skuldabréfið sem B gekkst í sjálfskuldarábyrgð fyrir var gefið út árið 2008 og var annar ábyrgðarmaður upphaflega á því skuldabréfi. Ábyrgðaryfirlýsing kæranda, dagsett 8. febrúar 2013, var útbúin af LÍN og ber heitið Skipt um ábyrgðarmann á skuldabréfi og er svohljóðandi:

Undirrituð-/aður B, kennitala Óskar hér eftir að takast á hendur sjálfskuldarábyrgð vegna ofangreinds námsláns í stað: [Nafn og kt. fyrri ábyrgðarmanns] Ábyrgðin er til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á höfuðstól alls að kr. 2.185.990 ásamt vöxtum, verðbótum, dráttarvöxtum og öllum kostnaði er af vanskilum kann að leiða. Höfuðstóll ofangreindrar sjálfskuldarábyrgðar breytist í samræmi við vísitölu N-402,2.

Umrædd skipti á ábyrgðarmanni virðast ekki hafa verið skráð á frumrit skuldabréfsins og þá hafa engin önnur skjöl verið lögð fram af hálfu LÍN um ábyrgðarmannaskiptin. Samkvæmt 7. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992 og úthlutunarreglum LÍN getur ábyrgð ábyrgðarmanns fallið niður enda setji námsmaður aðra tryggingu sem stjórn sjóðsins metur fullnægjandi. Beiðni um skipti á ábyrgðarmanni getur bæði komið til að kröfu sjóðsins og að beiðni lántaka. Þegar fallist er á slíka beiðni af hálfu kröfueiganda er um nýjan ábyrgðarmann og nýja ábyrgðarskuldbindingu að ræða þar sem kröfueigandi verður að framfylgja fyrirmælum laga varðandi stofnun, efni og form slíkrar skuldbindingar. Skiptir ekki máli að hér var verið að gangast í sjálfskuldarábyrgð á árinu 2013 fyrir skuldabréfi sem gefið var út á árinu 2008. Samkvæmt 99. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991 falla allar kröfur á hendur þrotabúi sjálfkrafa í gjalddaga við uppkvaðningu úrskurðar héraðsdómara um að búið sé tekið til gjaldþrotaskipta og gildir það um námslán sem aðrar kröfur gjaldþrota aðila. Við það að lántaki var úrskurðaður gjaldþrota varð ábyrgð B á láninu virk. Um ábyrgðarsamning kæranda gilda lög nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn og við frágang hans bar LÍN að fylgja eftir ákvæðum þeirra laga. Í lögunum kemur fram að markmið þeirra er að setja reglur um ábyrgðir einstaklinga, draga úr vægi ábyrgða og stuðla að því að lánveitingar verði miðaðar að greiðslugetu lántaka og hans eigin tryggingar. Með ábyrgðarmanni samkvæmt lögunum er átt við einstakling sem gengst persónulega í ábyrgð eða veðsetur tilgreinda eign sína til tryggingar efndum lántaka enda sé ábyrgðin ekki í þágu atvinnurekstrar ábyrgðarmanns eða í þágu fjárhagslegs ávinnings hans. Í 4. gr. laganna kemur fram að lánveitandi skal meta hæfi lántaka til að standa í skilum með lán þar sem ábyrgðarmaður gengst í ábyrgð til tryggingar efndum lántaka og skal greiðslumatið byggt á viðurkenndum viðmiðum. Þá skal lánveitandi með skriflegum hætti ráða ábyrgðarmanni frá því að gangast í ábyrgð ef greiðslumat bendir til þess að lántaki geti ekki efnt skuldbindingar sínar. Með sama hætti skal lánveitandi ráða ábyrgðarmanni frá því að undirgangast ábyrgð ef aðstæður ábyrgðarmanns gefa tilefni til. Í 5. gr. laganna segir að fyrir gerð ábyrgðarsamnings skal lánveitandi upplýsa ábyrgðarmann skriflega um þá áhættu sem ábyrgð er samfara. Í 6. gr. laganna segir að ábyrgðarsamningur skuli vera skriflegur og að í honum skuli getið þeirra upplýsinga sem nefndar eru í 5. gr. og skoðast þær sem hluti samningsins. Þegar lántaki tók umrætt skuldabréf hjá LÍN var það lagaskilyrði að einn ábyrgðarmaður að lágmarki tækist á hendur sjálfskuldarábyrgð fyrir lántaka. Lántakinn hefur á sínum tíma verið metinn lánshæfur hjá sjóðnum og upphaflegur ábyrgðarmaður uppfyllt skilyrði sjóðsins til að gangast í sjálfskuldarábyrgð fyrir hann. Þegar beiðni um skipti á ábyrgðarmanni barst LÍN samþykkti sjóðurinn sjálfskuldarábyrgð B sem fullnægjandi tryggingu í staðinn fyrir þá tryggingu sem fyrir var. Í málinu liggur fyrir að LÍN lét ekki meta hæfi lántaka við þetta tækifæri né fullnægði öðrum skyldum sínum gagnvart nýjum ábyrgðarmanni samkvæmt lögum nr. 32/2009. Þá liggur heldur ekki fyrir að LÍN hafi látið kanna getu ábyrgðarmanns til að standa undir þeirri sjálfskuldarábyrgð sem hann skrifaði undir. Að mati málskotsnefndar hvílir ótvíræð skylda á LÍN við aðstæður sem þessar að kanna stöðu lántaka að nýju og upplýsa verðandi ábyrgðarmann í samræmi við fyrirmæli laga. Í lögum um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 er lögð skylda á þá aðila, stofnanir og fyrirtæki, sem veita lán þar sem ábyrgðarmaður, einstaklingur, gengst í ábyrgð til tryggingar efndum lántaka, að upplýsa um þá áhættu sem í ábyrgð felst áður en ábyrgðarmaður gengst undir hana. LÍN ber að meta hæfi lántaka til að standa í skilum með lán þar sem ábyrgðarmaður gengst í ábyrgð til tryggingar á efndum lántaka. LÍN sem lánveitanda bar því í þessu máli að leggja mat sitt á greiðslugetu lántaka og framkvæma greiðslumat sem byggt er á viðurkenndum viðmiðum. Vísast nánar um þetta atriði til umfjöllunar málskotsnefndar í úrskurðum nefndarinnar í málum nr. L-50/2013 og L-58/2013. Málskotsnefnd fellst ekki á það með LÍN að ekki hafi verið unnt að framkvæma greiðslumat m.a með vísun til eðlis lánveitingarinnar og skorts á upplýsingum um lántaka. Að mati málskotsnefndar skiptir hér heldur ekki máli að námslán eru lán sem veitt eru lántaka á félagslegum grunni og niðurgreiddum kjörum. Gagnvart ábyrgðarmanni skipta þau sjónarmið engu máli þegar til þess kemur að ábyrgðarsamningur verður virkur og innheimta lánsins hefst. Innheimtan er framkvæmd á grundvelli kröfuréttarlegra sjónarmiða af hálfu LÍN en innan ramma laga um sjóðinn sem gerir m.a. svigrúm sjóðsins til samninga við ábyrgðarmenn þrengra en gerist almennt hjá lánastofnunum. Þá ber LÍN, samkvæmt 2. og 3. mgr. 4. gr. laga um ábyrgðarmenn, að ráða ábyrgðarmanni með skriflegum hætti frá því að gangast í ábyrgð ef greiðslumat bendir til þess að lántaki geti ekki efnt skuldbindingar sínar og ef aðstæður ábyrgðarmanns gefa tilefni til. Ekki verður séð að LÍN hafi fylgt framangreindum ákvæðum eftir enda ekkert greiðslumat framkvæmt. Samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar þá leiðir það ekki sjálfkrafa til þess að ábyrgðarsamningur verði ógiltur í heild eða að hluta af þeim sökum einum að lánveitandi hafi við gerð hans brugðist skyldum sínum, heldur hefur verið talið að finna þurfi slíkri ógildingu stoð í reglum samningaréttar ef leysa á ábyrgðarmann undan skyldum sínum samkvæmt ábyrgðarsamningi. Samkvæmt 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 má víkja samningi til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Við mat á því hvort skilyrði séu til þess að víkja samningi til hliðar skal líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerð og atvika sem síðar komu til. Málskotsnefnd telur að LÍN verði að bera hallann af því að ábyrgðaryfirlýsing til tryggingar námsláni var veitt án þess að sjóðurinn hafi viðhaft þau vönduðu vinnubrögð sem lög um ábyrgðarmenn mæla fyrir um. LÍN gerði enga tilraun til að meta greiðslugetu lántaka í þessu máli og þar með að upplýsa verðandi ábyrgðarmann um þá áhættu sem gæti falist í því að gangast í sjálfskuldarábyrgð fyrir námslánum lántaka. Er það mat málskotsnefndar að B hafi vegna þess ekki getað gert sér grein fyrir þeirri áhættu sem fólst í því að gangast í umrædda sjálfskuldarábyrgð. Þá telur málskotsnefnd að verulegar líkur séu fyrir því að hefði LÍN framfylgt skyldum sínum með fullnægjandi hætti þá hefði það leitt í ljós slæma stöðu lántaka sem hefði haft áhrif á ákvörðun ábyrgðarmanns að gangast í sjálfskuldarábyrgð í stað fyrri ábyrgðarmanns. Að mati málskotsnefndar hefur LÍN brugðist þeirri ríku skyldu sem á sjóðnum hvílir gagnvart ábyrgðarmanni í þessu máli. Þar sem LÍN fór ekki eftir skýrum fyrirmælum laga um ábyrgðarmenn þegar kærandi gekkst í ábyrgð gagnvart sjóðnum í stað annars ábyrgðarmanns og þegar litið er til þess aðstöðumunar sem er á kæranda annars vegar og svo LÍN hins vegar, og þegar litið er til málsatvika í heild sinni, þá telur málskotsnefnd það ósanngjarnt af hálfu LÍN að bera fyrir sig umræddan ábyrgðarsamning gagnvart kæranda. Beri því með vísan til 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 að fella niður ábyrgð B á umræddu námsláni. A stendur að kæru á ákvörðun LÍN ásamt B þó svo að málið varði A ekki með beinum hætti. Þar sem LÍN hefur fallist á aðild hans að málinu við meðferð þess telur málskotsnefnd ekki ástæðu til að gera athugasemd við aðildina af sinni hálfu. Með vísan til framanritaðs eru hin kærða ákvörðun stjórnar LÍN frá 13. maí 2015 felld úr gildi.

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun stjórnar LÍN frá 13. maí 2015 í máli kærenda er felld úr gildi

Til baka