Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-21/2015 - Skilyrði lánveitingar - synjað um lán á önn

Úrskurður

Ár 2016, miðvikudaginn 10. febrúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-21/2015.

Kæruefni

Með bréfi sem barst málskotsnefnd 22. júlí 2015 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 30. júní 2015 þar sem synjað var beiðni kæranda um námslán á vorönn 2014 og jafnframt hafnað beiðni kæranda um að fallið yrði frá innheimtu ofgreidds námsláns veitt haustið 2013. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 22. júlí 2015 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 23. september 2015 og var afrit þess sent kæranda og honum jafnframt gefið færi á að koma að athugasemdum sínum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi stundaði nám í arkitektúr í Danmörku. Hann fékk samþykkta umsókn um námslán hjá LÍN fyrir 30 ECTS-einingum á haustönn 2013 á grundvelli ástundunarvottorðs, sem heimilar lánveitingar til námsmanna sem taka einungis próf einu sinni á ári eða eftir lengri tíma. Kærandi átti að ljúka náminu (BA gráðu) með prófi í júní 2014, en vegna veikinda og erfiðra fjölskylduaðstæðna fékk hann leyfi til að þreyta sjúkrapróf í ágúst 2014. Í reglum skólans sem giltu frá 1. september 2014 sem er að finna á heimasíðu hans kemur fram að námið skiptist í 6 annir og að BA verkefni skuli metið í lok 6. annar. Þar segir ennfremur að nemendur séu skráðir sjálfkrafa á námskeið og próf á hverri önn. Á heimasíðu skólans er einnig upplýst að haustönn 2014 hafi byrjað 1. september 2014 og henni hafi lokið 23. janúar 2015. Af ýmsum ástæðum sem kærandi rekur í kæru sinni reyndist honum ekki unnt að taka sjúkraprófið í ágúst 2014. Hafi kærandi þá fengið heimild skólans til þess að taka sjúkraprófið 22. janúar 2015. Í tölvupósti frá skólanum til kæranda 12. september 2014 segir að kynnt verði í viku 43, þ.e. seinni hluta október, hvaða verkefni væri til BA prófs og að gert væri ráð fyrir að kærandi mætti. Á sama tíma yrði ákveðið hver skyldi vera leiðbeinandi kæranda í lokaverkefni hans. Kærandi fékk tölvupóst frá skólanum 11. desember 2014 um að prófið yrði haldið 22. janúar 2015. LÍN sendi kæranda fyrirspurn 15. desember 2014 þar sem ítrekað var að lokadagur til að skila inn námsárangri væri 14. janúar 2015. Kærandi svaraði ekki tölvupósti LÍN fyrr en 15. janúar 2015 en þá framsendi hann tölvupóst skólans frá 11. desember 2014 þar sem fram kom að dagsetning lokaprófs yrði 22. janúar 2015. Samkvæmt upplýsingum kæranda kynnti hann fyrra verkefni sitt á prófdegi 22. janúar 2015 en fékk það ekki samþykkt. Hafi hann hins vegar átt kost á að skila nýju verkefni 27. febrúar 2015. Kærandi þreytti prófið þann dag og stóðst. Þann 10. mars 2015 fékk kærandi staðfestingu skólans um að hafa lokið BA gráðu í arkitektúr og var hún móttekin af LÍN 5. apríl 2015. Með ákvörðun stjórnar LÍN 30. júní 2015 var erindi kæranda um afgreiðslu námsláns vegna vorannar 2014 hafnað og einnig var synjað beiðni hans um að fallið yrði frá innheimtu vegna ofgreidds námsláns á haustönn 2013, sem svaraði til tveggja ECTS eininga. Í röksemdum sínum vísar stjórn LÍN til þess að í grein 5.2.1 í úthlutunarreglum LÍN fyrir námsárið 2013-2014 komi skýrt fram að lánveitingum vegna námsársins skuli lokið fyrir 15. janúar 2015 og eftir þann tíma séu ekki afgreidd lán vegna þess. Þá hafi kærandi ekki sótt um námslán á haustönn 2014, en frestur til þess hafi verið til 30. nóvember 2014, sbr. grein 5.1.2 í úthlutunarreglum LÍN 2014-2015.

Sjónarmið kæranda

Kærandi tekur fram að meðan á náminu hafi staðið hafi hann gengið í gegnum mikla erfiðleika bæði í einkalífi og námi. Hann hafi lent í sambúðarslitum, fjölskyldumissi og greinst með alvarlegan sjúkdóm og andlega vanlíðan. Í kærunni kemur fram að kærandi hafi talið að hann ætti að kynna til lokaprófs í janúar 2015 sama verkefni og honum hafði verið sett fyrir að ljúka í júní 2014. Á prófdegi hafi annað komið í ljós. Kveður kærandi skólann hafa tekið á sig þessi mistök. Af þessum sökum hafi hann notið skilnings hjá skólanum, sem hafi veitt honum heimild til að fara í sjúkrapróf 27. febrúar 2015 sem hann hafi staðist og með því lokið BA gráðu í arkitektúr. Hann telur sig því hafa uppfyllt öll skilyrði sem LÍN setur til þess að fá afgreitt námslán og hafi hann tekið við fyrirframgreiðslu láns frá sjóðnum í trausti þess að endalegt lán kæmi þegar námsárangi hefði verið skilað. Með synjun sinni taki LÍN ekki tillit til aðstæðna hans, eins og hann telji að sjóðnum beri að gera samkvæmt þeim lögum og reglum sem um hann gilda. Kærandi kveðst hafa sótt um lán skólaárið 2013-2014 og fengið útborgað fyrir haustið 2013 með undanþágu varðandi einingarfjölda á grundvelli ástundunarvottorðs. Honum hafi verið veitt lán út á 30 ECTS einingar. Hann hafi tekið 28 ECTS einingar á önninni, sem af skóla hans sé skilgreint sem fullt nám. Vorönn 2014 hafi hann síðan tekið 32 ECTS einingar, þannig að samtals hafi hann tekið 60 ECTS einingar á skólaárinu, sem teljist vera fullt nám á námsárinu. Þess vegna fáist það ekki staðist hjá LÍN að krefja hann um endurgreiðslu ofgreidds námsláns er svaraði til tveggja ECTS eininga. Gerir kærandi þá kröfu að LÍN verði gert að falla frá þeirri endurgreiðslukröfu. Kærandi leggur á það áherslu að umbeðin lánveiting sé alger forsenda þess að hann geti haldið áfram námi og lokið meistaraprófi. Án slíks lokaprófs sé BA prófgráða hans gagnslaus. Telur kærandi það ekki geta staðist að LÍN sé heimilt á grundvelli tímamarka í úthlutunarreglum að svipta hann möguleikanum á áframhaldandi námi. Það fari gegn lögbundnu hlutverk LÍN, sem sé að vinna með námsmönnum en ekki gegn þeim.

Sjónarmið stjórnar LÍN

Fram kemur hjá LÍN að kærandi hafi fengið afgreitt 30 ECTS eininga lán á haustönn 2013. Vegna veikinda og erfiðleika hafi hann ekki getað lokið námi sínu í júní 2014, eins og að var stefnt. Það hafi síðan af ástæðum sem að framan eru raktar dregist hjá kæranda til febrúar 2015 að hann lyki BA náminu með sjúkraprófi. Kærandi hafi sent LÍN yfirlit þann 18. febrúar og 4. mars 2014 um að lokið væri 19 ECTS einingum og 11 einingar skráðar sem ástundun á haustönn. LÍN vísar til þess að í grein 5.2.1 í úthlutunarreglum LÍN komi fram að lánveitingum vegna námsársins 2013-2014 skuli lokið fyrir 15. janúar 2015 og að eftir það séu ekki afgreidd lán vegna þess. Þann 9. janúar 2015 hafi LÍN fengið staðfestingu frá skóla kæranda að hann hafi lokið 28 ECTS einingum á haustönn 2013 og einni einingu á vorönn 2014. Þann 15. janúar 2015 hafi LÍN borist tölvupóstur frá kæranda um fyrirhugað sjúkrapróf og að því loknu fengi hann þær einingar sem væru eftir af skólaárinu 2013-2014. Sjóðurinn hafi þá bent kæranda á að frestir til að fá afgreidd lán á skólaárinu væru liðnir, en kærandi svarað því til að hann myndi óska eftir endurskoðun strax að prófi loknu. Kærandi hafi síðan ekki haft samband við LÍN fyrr en 5. apríl 2015 þegar staðfesting á loknu námi barst sjóðnum. Í staðfestingu skólans segir að kærandi hafi lokið náminu þann 10. mars 2015 og námsframvinda síðustu þriggja anna hafi verið með eftirfarandi hætti: "5. semester godkent 6. semsester ikke godkendt 7. semester godkendt, 27. februar 2015". LÍN kveður það almennt gilda að ef námsmenn gangast undir sjúkra- eða endurtektarpróf þá sé námsárangur skráður á þá önn sem upphaflega prófið var skráð á. Í tilviki kæranda hafi það verið mat LÍN að það próf sem kærandi lauk í febrúar 2015 hafi ekki verið endurtektarpróf vegna vorannar 2014 heldur hafi prófið verið vegna náms á haustönn 2014. Því til stuðnings vísar LÍN til framangreinds vottorðs skóla kæranda dagsett 9. janúar 2015 þar sem sagði að kærandi hafi staðist (godkendt) nám á 5. og 7. námsönn (semester) en ekki á 6. námsönn. Samkvæmt því verði að líta svo á að nám kæranda til lokaprófs hafi verið á haustönn 2014 (7. semester) og þar með hafi hann þurft að sækja um námslán vegna hennar eigi síðar en 30. nóvember 2014, sbr. grein 5.1.2 í úthlutunarreglum sjóðsins. Það hafi kærandi ekki gert og þess vegna hafi erindi hans verið synjað. LÍN bendir á að 18. nóvember 2014 hafa kæranda verið sendur sjálfvirkur tölvupóstur um umsóknarfresti á námsárinu 2014-2015 þar sem komið hafi fram að frestur til að sækja um lán vegna haustannarinnar væri 30. nóvember 2014. Jafnframt hafi athygli kæranda verið vakin á því að lokadagur til að skila inn námsárangri vegna námsársins 2013-2014 væri 14. janúar 2015 og eftir það væru ekki afgreidd námslán vegna þess námsárs. Kærandi hafi haft samband símleiðis við LÍN 4. desember 2014 og kvaðst ætla að senda sjóðnum heildarnámsárangur sinn. Hafi hann einnig upplýst að hann hafi lokið öllum prófum utan eins, sem hann tæki í endurtekt í janúar 2015. Þann 15. desember 2014 hafi starfsmaður sjóðsins haft samband við skólann og kallað eftir heildarnámsárangi kæranda. Þá hafi sami starfsmaður sent kæranda tölvupóst þar sem vakin var athygli hans á að stutt væri í lokun námsársins og að skila þyrfti námsárangri í síðasta lagi 14. janúar 2015 og eftir það væri eins og fyrr segir ekki afgreitt lán vegna námsársins 2013-2014. LÍN bendir á að breytingar á högum kæranda hefði mátt vera honum tilefni til að sækja um námslán vegna haustannar 2014 innan þess frests sem tilgreindur sé í úthlutunarreglum LÍN. Í reglugerð um LÍN nr. 478/2011 og úthlutunarreglum sjóðsins sé kveðið á um skyldu námsmanna um að skýra sjóðnum frá breytingum á högum ef ætla megi að þær hafi áhrif á ákvörðun um námslán. Þá hafi ráðgjafi LÍN verið í tölvupóstsamskiptum við kæranda og sérstaklega bent honum á undanþágur og fresti í úthlutunarreglum sjóðsins. Fram kemur hjá LÍN að kærandi hafi fengið afgreiddar 30 ECTS einingar á haustönn 2013 en fram komi í staðfestingu skóla að hann hafi aðeins lokið 28 einingum á önninni. Samkvæmt grein 2.4.2 í úthlutunarreglum LÍN sé námsframvinda endurmetin þegar niðurstaða námsársins liggi fyrir og kunna þá áður veitt lán að vera endurkræf sem ofgreidd lán samkvæmt grein 5.7. Kærandi hafi fengið ofgreitt lán á haustönn 2013 sem svaraði tveimur ECTS einingum, sem honum beri að endurgreiða samkvæmt reglum sjóðsins. Stjórn LÍN telur að niðurstaða sín í máli kæranda sé í samræmi við lög og reglur sem um sjóðinn gilda og einnig í samræmi við sambærilega úrskurði stjórnar LÍN og málskotnefndar.

Niðurstaða

Lagastoð fyrir úthlutunarreglum LÍN er að finna í 2. mgr. 16. laga um LÍN nr. 21/1992, en þar segir að stjórn LÍN setji reglur um önnur atriði er greinir í lögunum og reglugerð samkvæmt 1. mgr. lagaákvæðisins, og skulu þær samþykktar af ráðherra og birtar í Stjórnartíðindum. Í 3. mgr. 3. gr. laganna segir ennfremur að stjórn sjóðsins setji nánari ákvæði um úthlutun námslána og í 4. tl. 5. gr. laganna segir að hlutverk sjóðsstjórnar sé að setja reglur um úthlutun námslána. Af framangreindu er ljóst að löggjafinn hefur falið stjórn LÍN að ákveða nánar efni reglna um úthlutun námslána, en þær verða að samrýmast þeim lögum sem kunna að eiga við á því sviði. Eru ákvæði greina 5.1.2 í úthlutunarreglum LÍN um umsóknarfresti lána og 5.2.1 um tímamörk afgreiðslu lána í senn málefnaleg og í fullu samræmi við heimild sjóðsstjórnar til að setja reglur um úthlutun námslána. Eins og að framan er rakið sótti kærandi um námslán skólaárið 2013-2014 og fékk afgreitt 30 ECTS eininga lán vegna haustannar 2013, en hefur ekki fengið lán fyrir vorönn 2014 vegna þess að hann náði ekki að ljúka lokaverkefni til BA prófs á tilætluðum tíma. Kærandi skilaði lokaverkefni sínu 27. febrúar 2015, fékk staðfestingu skóla um að hann hefði staðist það 10. mars 2015 og barst hún LÍN 5. apríl 2015. LÍN bendir á að fresti til að skila námsárangri vegna skólaársins 2013-2014 hafi lokið 15. janúar 2015 samkvæmt grein 5.2.1 í úthlutunarreglum LÍN 2013-2014 og þess vegna eigi kærandi ekki rétt á námsláni vegna vorannar 2014. LÍN byggir þó aðallega á því að lokaprófið sem kærandi þreytti 27. febrúar 2015 hafi verið vegna náms á haustönn 2014 og þar sem hann hafi ekki sótt um námslán vegna annarinnar fyrir 30. nóvember 2014 hafi hann glatað lánsrétti, sbr. grein 5.1.2 í úthlutunarreglum LÍN 2014-2015. LÍN kveðst almennt líta svo á að gangist námsmenn undir sjúkra- eða endurtektarpróf þá beri að skrá námsárangur á þá önn sem upphaflega prófið var skráð. En í tilviki kæranda telji LÍN að lokaprófið hans 27. febrúar 2015 hafi ekki verið vegna náms á vorönn 2014 heldur hafi það verið vegna náms á haustönn 2014 og vísar um það til staðfestingar skóla um að kærandi hafi lokið námi á "7. semester". Í grein 5.1.2 í úthlutunarreglum LÍN fyrir árið 2014-2015 segir að sækja skuli sérstaklega um námslán fyrir hvert aðstoðarár og að umsóknarfrestur vegna náms haustið 2014 sé til og með 30. nóvember 2014. Ekki er að finna neinar undanþágur frá auglýstum fresti í framangreindum reglum. Fyrir liggur að kærandi sótti ekki um lán hjá LÍN fyrir haustönn 2014, enda verður að skilja málatilbúnað hans þannig að hann telji sig eiga rétt á láni vegna vorannar 2014 við námslok sín á árinu 2015. Málskotsnefnd fellst á það með LÍN að kærandi geti ekki átt rétt á láni vegna haustannar 2014 þar sem hann sótti ekki um lán vegna hennar. Umsóknarfrestur um námslán er árlega birtur í úthlutunarreglum LÍN, sem eru auglýstar í Stjórnartíðindum. Fresturinn er jafnframt auglýstur á heimasíðu LÍN, auk þess sem sjóðurinn sendir námsmönnum tölvupóst til að minna á umsóknarfrest. Þannig er óumdeilt að kærandi fékk þann 18. nóvember 2014 sjálfvirkan tölvupóst LÍN um umsóknarfresti á skólaárinu 2014-2015 þar sem sagði að frestur til að sækja um lán vegna haustannar væri til 30. nóvember 2015. Eins og fyrr segir verður að skilja kæranda svo að hann telji sig eiga rétt á láni vegna vorannar 2014 vegna umsóknar um námslán skólaárið 2013/2014. Um skilyrði þess að námslán verði greitt út er fjallað í grein 5.2.1 í úthlutunarreglum LÍN. Þar kemur fram að námsmanni beri að leggja fram gögn m.a. um námsárangur sinn áður en kemur til útborgunar láns. Þá segir í 4. mgr. téðrar greinar að lánveitingum vegna námsársins 2013-2014 skal þó lokið fyrir 15. janúar 2015 og eftir það verði ekki afgreidd lán vegna námsársins. Málskotsnefnd hefur í eldri úrskurðum fjallað um tímamörk afgreiðslu lána samkvæmt grein 5.2.1 og komist að þeirri niðurstöðu að það sé í senn málefnalegt og í fullu samræmi við heimild sjóðsstjórnar til að setja reglur um úthlutun námslána. Ennfremur að mikilvægi sé að festa ríki um þá fresti sem námsmönnum eru settir og að almennt beri að vísa frá erindum sem berast að liðnum fresti nema í undantekningartilvikum, s.s. þegar um sé að ræða óviðráðanleg atvik eða mistök hjá LÍN. Í lögum um LÍN og úthlutunarreglum sjóðsins er ekki að finna heimild til þess að afgreiða námslán eftir að frestur til að leggja fram gögn um námsárangur og aðrar þær upplýsingar sem LÍN hefur óskað eftir er liðinn. Málskotsnefnd bendir einnig á að í reglugerð nr. 478/2011 um LÍN og í úthlutunarreglum LÍN komi fram að námsmanni beri að tilkynna LÍN verði breytingar á högum hans eftir að umsókn hefur verið lögð fram ef ætla má að þær hafi áhrif á ákvörðun um námslán. Umsókn kæranda var um námslán skólaárið 2013-2014. Kærandi varð að fresta útskrift sinni sem fyrirhuguð var vorið 2014 til ársins 2015. Fram kemur í reglum skólans að BA verkefni eru metin í lok annar. Kærandi mætti í lokapróf 22. janúar 2015 sem var síðan frestað til 27. febrúar. Upplýsingar um lokaeinkunn og að hann hafi staðist námskröfur fékk kærandi ekki fyrr en 5. apríl 2015, eins og áður greinir. Kæranda mátti því vera ljóst að upplýsingar skólans um námsárangur hans myndu ekki berast sjóðnum innan þess frests sem LÍN gefur samkvæmt grein 5.2.1, þ.e. í síðasta lagi 15. janúar 2015. Skiptir ekki máli í þessu sambandi að lokaprófi var frestað um einn mánuð. Kærandi fékk ennfremur í nóvember 2014 sérstaka tilkynningu frá LÍN um að frá 15. janúar 2015 yrðu ekki afgreidd námslán vegna námsársins 2013-2014 og sérstaka fyrirspurn frá LÍN 15. desember 2014 um sama efni. Þegar LÍN loks barst staðfesting frá skóla kæranda um námsárangur hafði stjórn LÍN lokað á afgreiðslu allra námslána vegna umrædds námsárs. Það er álit málskotsnefndar að af fyrrnefndri grein úthlutunarreglna LÍN leiði að ekki geti komið til lánveitinga þegar upplýsingar um námsárangur berast eftir að lokið er afgreiðslu námslána vegna námsársins og að málsatvik séu ekki með þeim hætti í málinu að það geti leitt til undantekningar frá framangreindri reglu. Af framansögðu er ljóst að það breytir í engu um niðurstöðu málskotsnefndar hvort lokapróf kæranda teljist hafa verið vegna náms á vorönn eða haustönn 2014. Í báðum tilvikum hefur kærandi glatað rétti til láns. Kærandi fékk greitt út námslán fyrir haustið 2013 með undanþágu varðandi einingarfjölda á grundvelli ástundunarvottorðs samkvæmt grein 2.4.2 í úthlutunarreglum LÍN 2013-2014. Honum var veitt lán út á 30 ECTS einingar, en lauk 28 einingum á önninni. Í grein 2.4.2 í úthlutunarreglum LÍN 2013-2014 segir að heimilt sé að veita lán út á 30 ECTS einingar að fengnu ástundunarvottorði. Þegar niðurstaða námsársins liggur fyrir sé námsframvindan endurmetin og kunna þá áður veitt lán að vera endurkræf sem ofgreidd lán samkvæmt grein 5.7 í úthlutunarreglum LÍN. Það er óumdeilt að kærandi fékk ofgreitt lán á haustönn 2013 sem svaraði tveimur ECTS einingum og ber honum að greiða það til baka í samræmi við óvírætt ákvæði úthlutunarreglna LÍN. Með skírskotun til framanritaðs er það niðurstaða málskotsnefndar að lögmæt sjónarmið hafi legið til grundvallar synjun stjórnar LÍN á beiðni kæranda um námlán vegna lokaannar náms hans og beiðni hans um niðurfellingu á innheimtu ofgreidds námsláns á haustönn 2013. Hinn kærði úrskurður stjórnar LÍN er því staðfestur.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 30. júní 2015 er staðfestur. 

Til baka