Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-30/2016 - Endurgreiðsla námslána - beiðni um niðurfellingu vanskila

Úrskurður

Ár 2016, miðvikudaginn 8. mars, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-30/2016:

Kæruefni

Með kæru dagsettri 26. desember 2016 sem barst málskotsnefnd þann sama dag kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 1. desember 2016 þar sem hafnað var beiðni hennar um að fella niður vanskil hennar við sjóðinn á grundvelli veikinda hennar og fjárhagsörðugleika eða til vara að henni væri heimilt að greiða vanskilin á lengri tíma en henni hafi verið boðið og þá án alls kostnaðar og dráttarvaxta. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 27. desember 2016 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 24. janúar 2017 og var afrit þess sent kæranda og henni jafnframt veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi sótti um og fékk námlán hjá LÍN vegna skólaársins 2010-2011. Námslánið fór í vanskil á árinu 2013. Lánið var gjaldfellt og kæranda stefnt fyrir dóm. Hún gerði greiðslusamkomulag sem hún stóð ekki við og var málinu stefnt inn í annað sinn. Samkvæmt upplýsingum stjórnar LÍN hefur kæranda verið boðið að gera réttarsátt. Kærandi sendi erindi til stjórnar LÍN, dagsett 23. október 2016, þar sem hún fór þess á leit að fá að borga vanskil sín við sjóðinn á lengri tíma. Í erindi kæranda til stjórnar LÍN kom einnig fram að hún telji sig ekki vera í skuld við LÍN og hafi talið að umrædd aðstoð frá LÍN hafi verið jöfnunarstyrkur. Fram kom að kærandi væri ellilífeyrisþegi, öryrki og ófær um að vinna sökum veikinda. Stjórn LÍN synjaði beiðni kæranda þann 1. desember 2016.

Sjónarmið kæranda

Fram kemur í kærunni að kærandi óski eftir niðurfellingu á skuld sinni við LÍN vegna veikinda, gjaldþrots, skilnaðar og misskilnings. Kærandi kveðst ekki hafa vitað betur en að aðstoð sem hún hefði þegið væri jöfnunarstyrkur sem væri greiddur út á löngum tíma. Fram kemur að kærandi er öryrki og eldri borgari sem sé eignalaus í kjölfar skilnaðar og að auk líkamlegra veikinda hafi hún einnig átt við andleg veikindi að stríða. Kærandi rökstyður beiðni sína um niðurfellingu með því að hún hefði aldrei tekið svona lán og að hún hafi ekki vitað betur en að þetta væri jöfnunarstyrkur. Til vara fer kærandi þess á leit að fá fellda niður vexti og innheimtukostnað eða að hún fái að greiða skuld sína á lengri tíma.

Sjónarmið stjórnar LÍN

Í athugasemdum stjórnar LÍN segir að í kjölfar þess að málinu hafi verið stefnt í annað sinn hafi kæranda verið boðið að gera réttarsátt. Innheimta lánsins sé í samræmi við reglur sjóðsins og þar sem skuldin sé komin í löginnheimtu beri skuldara að semja um skuld sína beint við lögmenn án milligöngu sjóðsins, sbr. grein 8.7 í úthlutunarreglum LÍN. Stjórn LÍN tekur fram að ekki hafi fylgt erindi kæranda nein gögn um að hún hafi fengið jöfnunarstyrk. Þvert á móti hafi kærandi sótt um námslán hjá LÍN, og fyllt út og undirritað umsókn um námslán og undirritað skuldabréf vegna þess. Eru afrit umsóknar kæranda frá 4. október 2010 og skuldabréfs vegna lánsins 1. nóvember 2010 meðfylgjandi athugasemdum stjórnar LÍN. Stjórn LÍN tekur fram að ekki sé að finna heimild í lögum nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna til að fella niður námslán eins og kærandi hafi krafist. Stjórn LÍN bendir á að samkvæmt lögum um LÍN séu heimildir sjóðsins bundnar við að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu námslána, sbr. 8. gr. laga um LÍN, 12. og 13. gr. reglugerðar nr. 478/2011 um lánasjóð íslenskra námsmanna og kafla 8.5 í úthlutunarreglum sjóðsins. Stjórn LÍN byggir á því að niðurstaða í máli kæranda sé í samræmi við lög og reglur og einnig í samræmi við úrskurði stjórnar LÍN og málskotsnefndar í sambærilegum málum. Fer stjórn LÍN þess á leit að málskotsnefnd staðfesti niðurstöðu stjórnarinnar í máli kæranda.

Niðurstaða

LÍN er opinber stjórnsýslustofnun sem hefur það hlutverk að tryggja þeim sem falla undir lög nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna tækifæri til náms án tillits til efnahags. Er starfsemi sjóðsins fjármögnuð með endurgreiðslu námslána, ríkisframlagi og lánsfé. LÍN ber í starfi sínu að fylgja þeim lögum og reglum sem gilda sérstaklega um starfsemi sjóðsins, lagareglum, jafnt skráðum sem óskráðum, sem gilda um stjórnsýslu hins opinbera og reglum fjármunaréttarins eftir því sem við á. Það leiðir af þeirri lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins sem hér hefur verið lýst að LÍN er ekki heimilt án viðhlítandi lagaheimildar að fella niður skuldir einstakra lánþega við sjóðinn. Í lögum og reglum um LÍN er ekki að finna heimild til að fella niður útistandandi skuld vegna námslána þrátt fyrir að aðstæður lántaka hjá sjóðnum kunni að vera bágar. Í þeim tilvikum sem lántakar eiga í erfiðleikum eins og þeim sem lýst er í kærunni eru heimildir sjóðsins bundnar við að veita undanþágu frá einstökum gjalddögum að uppfylltum þeim skilyrðum sem lýst er í lögum og reglum um sjóðinn. Ekkert í gögnum málsins gefur til kynna að aðstoð LÍN við kæranda hafi verið styrkur. Kærandi sótti um námslán og undirritaði skuldabréf vegna lánsins. Er ljóst að kærandi er lántaki hjá LÍN sem ber að endurgreiða skuld sína í samræmi við lög og reglur sem um sjóðinn gilda. Skuld kæranda er komin í löginnheimtu. Stjórn LÍN hefur upplýst að kæranda hafi verið boðið að gera réttarsátt í málinu. Af tölvupóstum LÍN til kæranda verður ráðið að kæranda hafi verið boðið að greiða 30.000 krónur á mánuði í fjóra mánuði og eftir það 42.500 krónur þar til skuldin er að fullu greidd. Þá kemur fram að kæranda hafi verið bent á að hún geti sótt um lækkun þessara afborgana sökum aðstæðna sinna og geti þá greiðslubyrðin lækkað um 10.000 krónur á mánuði. Fram kemur í kærunni að kærandi telur sig ekki geta ráðið við þær afborganir sem sem henni hafi verið boðið með umræddu sáttarboði. Með vísan til laga og reglna um LÍN verður að fallast á það með LÍN að sjóðurinn hafi ekki heimildir í lögum til að fella niður eftirstöðvar námslánaskuldar kæranda í máli þessu. Þá hefur ekkert komið fram í málinu sem bendir til þess að framkvæmd löginnheimtu í máli kæranda eða boð um réttarsátt hafi ekki verið í samræmi við lög og reglur um sjóðinn. Með vísan til framanritaðs telur málskotsnefnd að staðfesta beri niðurstöðu stjórnar LÍN í máli kæranda frá 1. desember 2016.

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun stjórnar LÍN frá 1. desember 2016 í máli kæranda er staðfest. 

Til baka