Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-03/2014 - Ábyrgðarmenn - beiðni um að fella niður sjálfskuldarábyrgð

Úrskurður

Ár 2016, miðvikudaginn 9. mars, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-3/2014:

Kæruefni

Með kæru, sem barst málskotsnefnd 25. febrúar 2014, kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 17. október 2013 um að hafna beiðni hennar um að sjálfskuldarábyrgð hennar á námsláni A (hér eftir nefndur lántaki), nr. G-xxx, yrði felld niður. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði ógilt, að málskotsnefnd vísi umræddri sjálfsskuldarábyrgð til hliðar með vísan til 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936 (hér eftir samningalög) og að LÍN verði gert að greiða kæranda lögmannskostnað vegna málsins að meðtöldum virðisaukaskatti. Stjórn LÍN krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest og að kröfu um lögmannskostnað verði hafnað. Í kæru kemur fram að ákvörðun stjórnar LÍN hafi ekki borist lögmanni kæranda fyrr en 11. febrúar 2014, en þá hafi þriggja mánaða kærufrestur vegna málskots til nefndarinnar verið liðinn. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 28. febrúar 2014. Í framhaldi krafðist LÍN frávísunar málsins með vísan til 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Málskotsnefnd hafnaði þeirri kröfu með úrskurði 23. apríl 2014. Stjórn LÍN var með bréfi dagsettu 25. apríl 2014 gefinn kostur á að tjá sig um kæruna. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 23. maí 2014 og var afrit þess sent kæranda. Þann 5. júní 2014 kvað málskotsnefnd upp úrskurði í málum nr. L-50/2013 og L-58/2013 þar sem felldar voru úr gildi ákvarðanir stjórnar LÍN. Bæði málin vörðuðu sjálfskuldarábyrgð. Með úrskurðum málskotsnefndar 25. júní 2014 var fallist á beiðni stjórnar LÍN um að réttaráhrifum fyrrgreindra úrskurða yrði frestað þar til niðurstaða dómstóla lægi fyrir í málunum. Samkvæmt lokamálslið 3. mgr. 5. a. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN er málskotsnefnd heimilt þegar mál er höfðað vegna úrskurðar hennar að fresta afgreiðslu sambærilegra mála sem til meðferðar eru hjá nefndinni þar til dómur gengur. Þann 16. júlí 2014 ákvað málskotsnefnd að fresta meðferð þessa máls þar til dómar í framangreindum málum lægu fyrir. Niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-2788/2014 lá fyrir 12. febrúar 2015 og niðurstaða Héraðsdóms Vesturlands í máli nr. E-117/2014 lá fyrir 7. maí 2015. Hvorugum dómnum var áfrýjað til Hæstaréttar Íslands. Meðferð þessa máls var því framhaldið og var stjórn LÍN með bréfi dagsettu 24. september 2015 gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum við nefndina og var kæranda jafnframt tilkynnt um stöðu málsins í bréfi dagsettu 25. september s.á. Athugasemdir stjórnar LÍN bárust í bréfi dagsettu 12. nóvember 2015 og var afrit þess sent kæranda og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir hans bárust 14. desember s.á. og voru þær sendar LÍN sem upplýsti í tölvubréfi dagsettu 21. sama mánaðar að ekki yrðu gerðar frekari athugasemdir í málinu af hálfu sjóðsins.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi skrifaði þann 21. júlí 2010 undir sjálfskuldarábyrgð vegna námsláns lántaka til viðbótar annarri sjálfskuldarábyrgð sem lá fyrir á láninu. Um er að ræða námslán lántaka nr. G-xxx sem gefið var út 21. ágúst 2009. Hámarksfjárhæð sjálfskuldarábyrgðarinnar nemur krónum 2.500.000. Sama dag skrifaði kærandi undir skjal frá LÍN, sem heitir "Upplýsingar til ábyrgðarmanns skv. 5. gr. laga nr. 32/2009". Þann 15. maí 2013 krafðist kærandi þess að umrædd sjálfskuldarábyrgð yrði felld niður með vísan til þess að LÍN hafi ekki sinnt skyldu sinni til þess að láta framkvæma greiðslumat á lántaka og að hafa ekki ráðið kæranda frá því að undirgangast umrædda ábyrgð með skriflegum hætti þar sem greiðslumat benti til þess að lántaki gæti ekki efnt skuldbindingar sínar sbr. 1. og 2. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Bæri því að víkja sjálfskuldarábyrgðinni til hliðar með vísan til 36. gr. samningalaga. Stjórn LÍN hafnaði kröfu kæranda með vísan til þess að sjóðurinn hafi fullnægt skyldu sinni samkvæmt lögum nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn gagnvart kæranda. Einnig vísaði LÍN til þess að samkvæmt 7. mgr. 6. gr. laga um LÍN nr. 21/1992 væri sjóðnum einungis heimilt að fella niður ábyrgð ábyrgðarmanns ef nýr ábyrgðarmaður eða önnur trygging kæmi í staðinn sem stjórn sjóðsins teldi fullnægjandi. Aðrar heimildir væru ekki fyrir hendi til að fella niður ábyrgð. Kærandi kærði framangreinda ákvörðun stjórnar LÍN til málskotsnefndar.

Sjónarmið kæranda

Kærandi gekkst í ábyrgð á námsláni lántaka í júlí 2010 og var þá á 86. aldursári. Kærandi kveðst ekki hafa haft neina fjárhagslega hagsmuni af því að gangast undir umrædda sjálfskuldarábyrgð heldur hafi ritað undir hana að beiðni lántaka. Við undirritun hafi ekki legið fyrir greiðslumat á lántaka og hafi kæranda verið ókunnugt um fjárhagsstöðu sem og greiðslustöðu lántaka hjá LÍN. Þá kannast kærandi ekki við að hafa móttekið, kynnt sér eða skrifað undir fylgiskjal sem LÍN vísi til að hafi fylgt skjalinu "Upplýsingar til ábyrgðarmanns skv. 5. gr. laga nr. 32/2009". Kærandi byggir á því að það hvíli fortakslaus skylda á LÍN samkvæmt lögum um ábyrgðarmenn að framkvæma greiðslumat og kynna það ábyrgðarmanni með sannanlegum hætti. Þó námslán greiðist almennt ekki fyrr en 2 árum eftir að námi ljúki og þá geti aðstæður lántaka hafa breyst, veiti það LÍN ekki undanþágu frá skyldu til að framkvæma greiðslumat áður en ábyrgðarmaður taki ákvörðun um hvort hann gangist í umrædda ábyrgð. LÍN hafi ekki framkvæmt greiðslumat á lántaka þrátt fyrir skýr fyrirmæli um það í lögum um ábyrgðarmenn. Þannig segi í 1. mgr. 4. gr. laganna að lánveitandi skuli meta hæfi lántaka til að standa í skilum með lán þar sem ábyrgðarmaður gengst í ábyrgð til tryggingar efndum lántaka og skuli greiðslumat byggt á viðurkenndum viðmiðum. Kærandi mótmælir því að LÍN hafi fullnægt skyldu sinni til að framkvæma greiðslumat á lántaka með því að senda ábyrgðarmanni umrædda yfirlýsingu ásamt yfirliti úr vanskilaskrá. Bendir kærandi m.a. á að í hinni stöðluðu yfirlýsingu LÍN komi ekki fram nánari skilgreining á því hvaða greiðslusögu lántaka verið sé að vísa til. Þannig sé t.d. óljóst hvort þar sé átt við greiðslusögu lántaka hjá LÍN eða öðrum stofnunum. Þá bendir kærandi á að yfirlit úr vanskilaskrá feli hvorki í sér útreikning á getu lántaka til að standa við greiðslur samkvæmt lánasamningi né heldur feli það í sér heildstætt yfirlit yfir allar skuldir og fjárhagslegar skuldbindingar lántaka. Þá taki slíkt yfirlit hvorki tillit til framfærslukostnaðar eða rekstur, t.d. bíls og íbúðar. Loks veiti yfirlit úr vanskilaskrá engar upplýsingar um möguleg laun eða aðrar tekjur lántaka. Geti yfirlit úr vanskilaskrá aldrei komið stað greiðslumats. Einnig bendir kærandi á að lánveitandi beri sönnunarbyrði fyrir því að greiðslumat hafi verið framkvæmt með faglegum hætti. Teljist yfirlit úr vanskilaskrá uppfylla skilyrði 1. mgr. 4. gr. laga um ábyrgðarmenn og hafi lántaki sannanlega verið á vanskilaskrá á þeim tíma er kærandi gekkst undir umrædda sjálfskuldarábyrgð, sé það alfarið á ábyrgð LÍN að sanna að slíkt yfirlit hafi verið kynnt kæranda áður en til undirritunar sjálfskuldarábyrgðar hafi komið. Þá vísar kærandi til þess að lánveitanda sé skylt að varðveita öll gögn sem notuð hafi verið við gerð mats á greiðslugetu svo upplýsingar séu tiltækar um hvernig niðurstaða þess hafi verið fengin. Gagnstæð túlkun myndi óhjákvæmilega leiða til þess að engin trygging væri fyrir því að greiðslumat hafi verið unnið af lánveitanda með faglegum hætti. Vísar kærandi m.a. til 6. gr. reglugerðar um lánshæfis- og greiðslumat nr. 920/2013 um þetta. Kærandi telur að það eigi að gera sömu kröfu vegna þeirra gagna sem ætlað sé að sýna fram á að ábyrgðarmanni hafi sannarlega verið kynnt slíkt greiðslumat. Kærandi bendir á að ef yfirlit úr vanskilaskrá teljist uppfylla skilyrði 1. mgr. 4. gr. laga um ábyrgðarmenn hafi LÍN samt sem áður gerst brotlegur gegn 4. og 5. gr. laga um ábyrgðarmenn. Samkvæmt lögunum eigi lánveitandi að ráða ábyrgðarmanni frá því að gangast í ábyrgð með skriflegum hætti ef greiðslumat bendi til þess að lántaki geti ekki efnt skuldbindingar sínar. Ljóst sé að frá 2009 geri LÍN einungis kröfu um ábyrgðarmenn í þeim tilvikum þegar vitað sé að námsmaður sé ekki fær um að efna skuldbindingar sínar og miði sjóðurinn við það hvort námsmaður sé á vanskilaskrá eða ekki. Sú staðreynd komi hvergi fram í þeim gögnum sem ábyrgðarmanni séu send til undirritunar. Kæranda hafi því ekki verið kunnugt um þá staðreynd. Telur hann verulegar líkur á því að á þeim tíma er hann hafi gengist í umrædda sjálfsskuldarábyrgð hafi lántaki þegar verið ófær um að efna skuldbindingar sínar, þó svo að óljóst hafi verið hvenær fyrsti gjalddagi yrði á umræddu námsláni. Í ljósi slæmrar fjárhagslegrar stöðu lántaka hafi LÍN borið að ráða kæranda með skriflegum hætti frá því að gangast í umrædda ábyrgð. Það hafi ekki verið gert. Viðbótarathugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dagsettu 14. nóvember 2015. Vísar hann þar m.a til dóms Héraðsdóms Vesturlands í máli nr. E-117/2014 til stuðnings kröfum sínum.

Sjónarmið stjórnar LÍN

LÍN bendir á að bæði í skuldabréfi G-xxx og í yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð vegna námslánsins, sem kærandi skrifaði undir, komi fram að ábyrgðarmaður hafi verið upplýstur um greiðslugetu lántaka o.fl. atriði samkvæmt 5. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Þá hafi kærandi og staðfest það með undirritun sinni á sérstaka yfirlýsingu þar að lútandi sem skoðist sem hluti skuldabréfsins. Í þessari sérstöku yfirlýsingu sé vísað til þess að LÍN hafi upplýst kæranda um greiðslusögu lántaka í samræmi við 4. gr. laga um ábyrgðarmenn. Að frekari upplýsingar um greiðslugetu lántaka sé ekki að fá, enda sé greiðslugeta námsmanns ekki ljós fyrr en að námi loknu. Þá sé vakin athygli á því að umrætt lán muni ekki greiðast fyrr en 2 árum eftir að námi ljúki og þá verði aðstæður lántaka aðrar en í dag, þ.á m. greiðslugeta. Fyrir ofan undirskrift kæranda komi síðan eftirfarandi fram: "Undirritaður staðfestir hér með að hafa kynnt sér ofangreindar upplýsingar og fengið afhent afrit þessa skjals sem skoðast sem hlut af ábyrgðarsamningi." LÍN telur að með undirritun sinni hafi kærandi staðfest að hafa kynnt sér greiðslusögu lántaka sem fylgdi með umræddu upplýsingablaði í formi yfirlits úr vanskilaskrá. Með þessu, tímasetningu endurgreiðslu námslána og framangreindri upplýsingagjöf telur LÍN sig hafa fullnægt skyldu sinni samkvæmt lögum nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Þá vísar LÍN til þess að ábyrgð ábyrgðarmanns geti einungis fallið niður ef nýr ábyrgðarmaður eða önnur trygging komi í staðinn sem stjórn sjóðsins telji fullnægjandi, sbr. 7. mgr. 6. gr. laga um LÍN nr. 21/1992. Aðrar heimildir séu ekki fyrir hendi til að LÍN geti fellt niður ábyrgðir. LÍN bendir á að námslán séu lán sem séu veitt á félagslegum grunni og niðurgreiddum kjörum. Kærandi hafi verið upplýstur um greiðslusögu lántakanda og hvað fælist í ábyrgðarskuldbindingu. Þannig verði með engu móti haldið fram að efndir samningsins séu ósanngjarnar eða fari gegn góðri viðskiptavenju. Einnig bendir LÍN á að ákvörðun um að geyma ekki afrit af yfirliti úr vanskilaskrá viðkomandi lántaka með gögnum máls hafi verið tekin á grundvelli persónusjónarmiða. Tölvukerfi sjóðsins sé samtengt Creditinfo og því kalli það ekki eftir ábyrgðarmanni á námslán nema viðkomandi lántaki sé á vanskilaskrá. Einungis fáir starfsmenn sjóðsins hafi heimild til þess að fá heildaryfirlit yfir vanskil úr skrá Creditinfo. Þá vísar LÍN til lögskýringagagna með lögum um ábyrgðarmenn nr. 32/2009. Þar komi fram að óþarft var talið að slá föstum þeim viðmiðum sem leggja bæri til grundvallar við greiðslumat enda geti framkvæmd í þeim efnum verið háð blæbrigðum lánveitanda. Aðalatriði sé að matið sé forsvaranlegt og byggist á viðurkenndum viðmiðum. Í lögunum sé tekin sú meðvitaða afstaða að greiðslumöt geti verið misjöfn eftir eðli lána og lánastofnana og því sé ekki rétt að setja niður einhver föst viðmið. Telur LÍN að ekki sé hægt að bera lánveitingu sjóðsins við lánveitingar á hinum almenna markaði. LÍN hafnar þeim rökum kæranda að hann hafi ekki haft fjárhagslega hagsmuni af því að skrifa undir ábyrgð enda hafa ábyrgðarmenn það sjaldnast auk þess sem lántakandi í máli þessu sé barnabarn kæranda. LÍN vísar einnig til þess að brot á lögum um ábyrgðarmenn leiði ekki sjálfkrafa til þess að víkja beri sjálfskuldarábyrgð til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 heldur þurfi meira að koma til. Í kæru sé hvergi haldið fram að kærandi hafi ekki gert sér grein fyrir því að hann væri að gangast í sjálfskuldarábyrgð eða að hann hafi ekki vitað hvað fælist í því að skrifa undir sjálfskuldarábyrgð. Vísar LÍN til dóms Hæstaréttar í máli nr. 116/2010 máli sínu til stuðnings. Þá hafnar LÍN kröfu kæranda um greiðslu lögmannskostnaðar.

Niðurstaða

Í málinu er til úrlausnar beiðni ábyrgðarmanns um niðurfellingu sjálfskuldarábyrgðar á skuldabréfi vegna námsláns. Skuldabréfið var útgefið á árinu 2009 en ábyrgðaryfirlýsing kæranda var gefin í júlí 2010 og var til viðbótar sjálfskuldarábyrgð annars aðila á láninu. LÍN er opinber stjórnsýslustofnun sem hefur það hlutverk að tryggja þeim sem falla undir lög nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna tækifæri til náms án tillit til efnahags. LÍN veitir lán til námsmanna í framhaldsnámi samkvæmt lögum og reglum sem um sjóðinn gilda. Er starfsemi sjóðsins fjármögnuð með endurgreiðslu námslána, ríkisframlagi og lánsfé. LÍN ber í starfi sínu að fylgja þeim lögum og reglum sem gilda sérstaklega um starfsemi sjóðsins og lagareglum, jafnt skráðum sem óskráðum, sem gilda um stjórnsýslu hins opinbera svo og reglum fjármunaréttarins eftir því sem við á. Með lögum nr. 78/2009 var gerð sú breyting á lögum nr. 21/1992 um LÍN, að í stað þess að lántaka væri gert að leggja fram yfirlýsingu a.m.k. eins manns um að hann tæki að sér sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu námsláns, varð meginreglan sú að námsmaður ber einn ábyrgð á endurgreiðslu námsláns, að uppfylltum skilyrðum stjórnar LÍN. Í 5. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992, sbr. breytingalög nr. 78/2009, segir: Námsmenn, sem fá lán úr sjóðnum, skulu undirrita skuldabréf við lántöku, teljist þeir lánshæfir samkvæmt reglum stjórnar sjóðsins. Teljist námsmaður ekki lánshæfur getur hann lagt fram ábyrgðir sem sjóðurinn telur viðunandi. Ábyrgðir geta m.a. verið ábyrgðaryfirlýsing fjármálastofnunar eða yfirlýsing ábyrgðarmanns um sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu námsláns ásamt vöxtum og verðtryggingu þess allt að tiltekinni fjárhæð.

Þá segir í 7. mgr. ákvæðisins:

Stjórn sjóðsins ákveður hvaða skilyrðum lántakendur og ábyrgðarmenn skuli fullnægja. Ábyrgð ábyrgðarmanns, eins eða fleiri, getur fallið niður enda setji námsmaður aðra tryggingu sem stjórn sjóðsins metur fullnægjandi.

Í lögskýringargögnum með breytingalögum nr. 78/2009 má sjá að áhersla er lögð á að meta skuli hvert tilvik með tilliti til þess hvort skilyrði séu til að veita jákvæða ívilnun með þeim hætti að ekki sé krafist ábyrgðar, sbr. og úrskurður málskotsnefndar í máli nr. L-39/2010. Í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2009-2010, sem voru í gildi þegar umrætt námslán var veitt, segir í grein 5.1.8:

Skilyrði, sem lánþegar þurfa m.a. að uppfylla, eru að þeir séu ekki í vanskilum við sjóðinn, þegar sótt er um nýtt lán og bú þeirra sé ekki til gjaldþrotameðferðar eða að þeir teljist af öðrum ástæðum bersýnilega ótryggir lántakendur.

Teljist námsmaður ekki lánshæfur skv. framangreindu getur hann sótt um undanþágu frá þessari grein enda sýni hann fram á annað eða leggi fram ábyrgðir sem sjóðurinn telur viðunandi, s.s. veð eða sjálfskuldarábyrgð þriðja aðila. Framangreind skilyrði lúta að skyldum lántaka gagnvart LÍN til að leggja fram viðunandi ábyrgðir um greiðslu á námsláni sínu ef hann telst ekki lánshæfur. Þessu til viðbótar gilda sérákvæði laga nr. 32/2009 um ábyrðarmenn þar sem fjallað er um skyldur LÍN gagnvart ábyrgðarmönnum. Sjálfskuldarábyrgð er kröfuréttarlegs eðlis og er notuð í lánastarfsemi almennt. Með því að takast á hendur sjálfskuldarábyrgð skuldbindur einstaklingur sig til að tryggja efndir kröfu gagnvart lánveitanda ef lántaki reynist ekki borgunarmaður fyrir greiðslu skuldarinnar. Efni kröfunnar ræðst af þeim löggerningi sem liggur henni til grundvallar, s.s. samningi eða skuldabréfi, og eftir lögum sem gilda hverju sinni. Ábyrgðaryfirlýsing kæranda er dagsett 21. júlí 2010 og er svohljóðandi:

Ábyrgðarmaður hefur verið upplýstur um greiðslugetu lántaka o.fl. atriði skv. 5. gr. laga nr. 32/2009 og staðfest það með undirritun sinni á sérstaka yfirlýsingu þar að lútandi sem skoðast sem hluti þessa skuldabréfs. Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á höfuðstól allt að neðangreindri fjárhæð ásamt vöxtum, verðbótum og dráttarvöxtum og öllum kostnaði ef vanskil verða, tekst ég á hendur sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu framangreinds námsláns in solidum með undirskrift minni. Fyrir gjaldfallinni fjárhæð má gera fjárnám til tryggingar fullnustu skuldarinnar án undangengis dóms eða réttarsáttar samkvæmt 7. tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 hjá aðalskuldara eða sjálfskuldarábyrgðarmönnum. Höfuðstóll sjálfskuldarábyrgðar miðast við vísitölu neysluverðs. Undirritaður lýsir því einnig yfir að hann hefur kynnt sér ákvæði skuldabréfsins og sættir sig við það að öllu leyti.

Skuldabréfið sem kærandi gekkst í sjálfskuldarábyrgð fyrir var eins og fyrr er getið útgefið árið 2009 og er í skilum. Um ábyrgðarsamning kæranda gilda lög nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn og við frágang hans bar LÍN að fylgja eftir ákvæðum þeirra laga. Í lögunum kemur fram að markmið þeirra er að setja reglur um ábyrgðir einstaklinga, draga úr vægi ábyrgða og stuðla að því að lánveitingar verði miðaðar að greiðslugetu lántaka og hans eigin tryggingar. Í 4. gr. laganna kemur fram að lánveitandi skal meta hæfi lántaka til að standa í skilum með lán þar sem ábyrgðarmaður gengst í ábyrgð til tryggingar efndum lántaka og skal greiðslumatið byggt á viðurkenndum viðmiðum. Þá skal lánveitandi með skriflegum hætti ráða ábyrgðarmanni frá því að gangast í ábyrgð ef greiðslumat bendir til þess að lántaki geti ekki efnt skuldbindingar sínar. Með sama hætti skal lánveitandi ráða ábyrgðarmanni frá því að undirgangast ábyrgð ef aðstæður ábyrgðarmanns gefa tilefni til. Í 5. gr. laganna segir að fyrir gerð ábyrgðarsamnings skuli lánveitandi upplýsa ábyrgðarmann skriflega um þá áhættu sem ábyrgð er samfara. Í 6. gr. laganna segir að ábyrgðarsamningur skuli vera skriflegur og í honum skuli getið þeirra upplýsinga sem nefndar eru í 5. gr. og skoðist þær sem hluti samningsins. Fyrir liggur að við lántöku lántaka hjá LÍN var hann ekki talinn lánshæfur hjá sjóðnum og til þess að fá námslán þurfti hann að leggja fram fullnægjandi tryggingar. LÍN samþykkti sjálfskuldarábyrgð kæranda til viðbótar sjálfskuldarábyrgð annars aðila sem fullnægjandi tryggingu fyrir því að veita lántaka námslán. Í fylgiskjalinu, "Upplýsingar til ábyrgðarmanns skv. 5. gr. laga nr. 32/2009", sem samið er af LÍN, kemur fram í 2. tl. að LÍN hafi upplýst ábyrgðarmann "um greiðslusögu lántakanda í samræmi við 4. gr. laga nr. 32/2009 eins og fram kemur á meðfylgjandi fylgiskjali". Þá segir í skjalinu að frekari upplýsingar um greiðslugetu lántaka sé ekki að fá og vakin athygli á því að umrætt lán muni ekki greiðast fyrr en 2 árum eftir að námi ljúki og að þá verði aðstæður lántaka aðrar en í dag, þ.á m. greiðslugeta. Skjalið er undirritað af kæranda og segir í texta fylgiskjalsins að með því staðfesti hann að hafa kynnt sér upplýsingar skjalsins og fengið afhent afrit af því og að það skoðist sem hluti af ábyrgðarsamningnum. Í lögum um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 er lögð skylda á þá aðila, stofnanir og fyrirtæki, sem veita lán þar sem ábyrgðarmaður, einstaklingur, gengst í ábyrgð til tryggingar efndum lántaka, að upplýsa um þá áhættu sem í ábyrgð felst áður en ábyrgðarmaður gengst undir hana. LÍN ber að meta hæfi lántaka til að standa í skilum með lán þar sem ábyrgðarmaður gengst í ábyrgð til tryggingar á efndum lántaka. LÍN sem lánveitanda bar því að leggja mat á greiðslugetu lántaka og framkvæma greiðslumat sem byggt er á viðurkenndum viðmiðum. Vísast nánar um þetta atriði til umfjöllunar málskotsnefndar í úrskurðum nefndarinnar í málum nr. L-50/2013 og L-58/2013. Málskotsnefnd tekur fram að um þá úrskurði er fjallað í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-2788/2014 þann 12. febrúar 2015 þar sem úrkurður málskotsnefndar nr. L-58/2013 var fellur úr gildi og í dómi Héraðsdóms Vesturlands 7. maí 2015 í máli nr. E-117/2014 þar sem stefndu voru sýknuð af kröfu LÍN um ógildingu á úrskurði málskotsnefndar nr. L-50/2013. Þá vísar málskotsnefnd einnig til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 29. janúar 2016 í máli E-2270/2015 þar sem lánasjóðurinn var talinn hafa brugðist skyldum sínum samkvæmt lögum nr. 32/2009 með því að hafa ekki lagt mat á greiðslugetu lántaka í samræmi við 4. gr. laganna. Þrátt fyrir að héraðsdómur hafi fallist á sjónarmið LÍN í máli E-2788/2014 fór svo í hinum tveimur síðarnefndu dómum sem gengu síðar að stjórnsýsluframkvæmd LÍN við meðferð ábyrgðarskuldbindinga var ekki talin standast viðmið laga nr. 32/2009. Getur málskotsnefnd því ekki fallist á að dómur í máli E-2788/2013 geti verið fordæmi í máli þessu. Af hálfu LÍN virðist ekkert greiðslumat hafa verið framkvæmt á lántaka heldur látið nægja að prenta upplýsingar af vanskilaskrá Credit Info og upplýsa ábyrgðarmann um greiðslusögu lántaka með vísan í það skjal. Í málinu liggja ekki fyrir nein gögn um hver greiðslusaga lántaka var á þessum tíma þó vísað sé til þess sem fylgiskjals með skjalinu „Upplýsingar til ábyrgðarmanns skv. 5. gr. laga nr. 32/2009“ sem kærandi undirritaði og skv. skilmálum þess skjals eigi það að skoðast sem hluti af ábyrgðarsamningi. Umrætt fylgiskjal hefur ekki verið lagt fram af hálfu LÍN enda hefur LÍN upplýst að afrit af yfirlitum úr vanskilaskrá séu ekki geymd með gögnum mála á grundvelli persónuverndarsjónarmiða. Málskotsnefnd fellst ekki á það með LÍN að ekki hafi verið unnt að framkvæma greiðslumat m.a með vísan til eðlis lánveitingarinnar og skorts á upplýsingum um lántaka. Að mati málskotsnefndar skiptir hér heldur ekki máli að námslán eru lán sem veitt eru lántaka á félagslegum grunni og niðurgreiddum kjörum. Gagnvart ábyrgðarmanni skipta þau sjónarmið engu máli þegar til þess kemur að ábyrgðarsamningur verður virkur og innheimta lánsins hefst. Innheimtan er framkvæmd á grundvelli kröfuréttarlegra sjónarmiða af hálfu LÍN en innan ramma laga um sjóðinn sem gerir m.a. svigrúm sjóðsins til samninga við ábyrgðarmenn þrengra en gerist almennt hjá lánastofnunum. LÍN ber einnig samkvæmt 2. og 3. mgr. 4. gr. laga um ábyrgðarmenn að ráða ábyrgðarmanni með skriflegum hætti frá því að gangast í ábyrgð ef greiðslumat bendir til þess að lántaki geti ekki efnt skuldbindingar sínar og ef aðstæður ábyrgðarmanns gefa tilefni til. Ekkert mat virðist hafa verið framkvæmt á högum kæranda, sem var rúmlega 85 ára, þegar hann skrifaði undir ábyrgðina. Ekki verður séð að LÍN hafi fylgt framangreindum ákvæðum eftir heldur þvert á móti má skilja orðalag í fylgiskjalinu, "Upplýsingar til ábyrgðarmanns skv. 5. gr. laga nr. 32/2009", um að "[v]akin er athygli á því að umrætt lán mun ekki greiðast fyrr en 2 árum eftir að námi lýkur og þá verða aðstæður lántakanda aðrar en í dag, þ.á.m greiðslugeta" sem hvatningu til að gangast í ábyrgð fyrir lántaka. Þá er ljóst að eftir að breytingarlög nr. 78/2009 á lögum nr. 21/1992 um LÍN tóku gildi krefst LÍN eingöngu ábyrgðarmanns þegar lántaki er ekki talinn lánshæfur samkvæmt reglum sjóðsins, s.s. ef hann er á vanskilaskrá. Að mati málskotsnefndar gefur það LÍN sérstaka ástæðu til að vanda vel til könnunar málsins og upplýsingagjafar til ábyrgðarmanns um stöðu lántaka og áhættuna sem því fylgir að takast á hendur sjálfskuldarábyrgð á lánum lántaka. Af ákvæðum laga nr. 32/2009 leiðir síðan að þegar einstaklingsbundið greiðslumat leiðir í ljós að líkur séu jafnvel á því að námsmaður geti ekki efnt skuldbindingar sínar beri LÍN skylda til þess að ráðleggja ábyrgðarmanni, skriflega og með skýrum hætti, frá því að gangast í ábyrgð. Einnig telur málskotsnefnd að almennt sé full ástæða fyrir LÍN að benda á og upplýsa ábyrgðarmann um áhrif þess ef bú lántaka er tekið til gjaldþrotaskipta, enda aukin hætta á því ef aðstæður lántaka eru með þeim hætti að hann hefur ekki verið metinn lánshæfur hjá LÍN. Samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar þá leiðir það ekki sjálfkrafa til þess að ábyrgðarsamningur verði ógiltur í heild eða að hluta af þeim sökum einum að lánveitandi hafi við gerð hans brugðist skyldum sínum, heldur hefur verið talið að finna þurfi slíkri ógildingu stoð í reglum samningaréttar ef leysa á ábyrgðarmann undan skyldum sínum samkvæmt ábyrgðarsamningi. Samkvæmt 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 má víkja samningi til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Við mat á því hvort skilyrði séu til þess að víkja samningi til hliðar skal líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerð og atvika sem síðar komu til. Málskotsnefnd telur að LÍN verði að bera hallann af því að ábyrgðaryfirlýsing til tryggingar námsláni var veitt án þess að sjóðurinn hafi viðhaft þau vönduðu vinnubrögð sem lög um ábyrgðarmenn mæla fyrir um. Málskotsnefnd telur að greiðslugeta lántaka hafi ekki verið metin þannig að fullnægt hafi verið ákvæðum laga um ábyrgðarmenn en til þess bar LÍN skylda samkvæmt fortakslausum ákvæðum laga nr. 32/2009. Hafi kærandi þess vegna ekki getað gert sér grein fyrir þeirri áhættu sem fólst í því að gangast í sjálfskuldarábyrgð fyrir námslánum lántaka en að það hafi hvílt á LÍN sú ótvíræða lagaskylda að upplýsa hann um þá áhættu með fullnægjandi hætti. Að mati málskotsnefndar hefur LÍN brugðist þeirri ríku skyldu sem á sjóðnum hvílir gagnvart ábyrgðarmanni í þessu máli. Þar sem LÍN fór ekki eftir skýrum fyrirmælum laga um ábyrgðarmenn þegar kærandi gekkst í ábyrgð gagnvart sjóðnum og þegar litið er til þess aðstöðumunar sem er á kæranda annars vegar og svo LÍN hins vegar, og þegar litið er til málsatvika í heild sinni m.a. aldurs kæranda, þá telur málskotsnefnd það ósanngjarnt af hálfu LÍN að halda umræddum ábyrgðarsamningi upp á kæranda. Beri því með vísan til 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 að fella niður sjálfskuldarábyrgð kæranda á umræddu námsláni. Kærandi gerir kröfu um að LÍN verði úrskurðað til að greiða lögmannskostnað hans í málinu. Málskotsnefnd bendir á að engin lagaheimild er fyrir hendi í þeim lögum eða reglum sem um LÍN gilda og er því kröfunni hafnað. Með vísan til framanritaðs er hin kærða ákvörðun stjórnar LÍN frá 17. október 2013 felld úr gildi.

Úrskurðarorð

Ákvörðun stjórnar LÍN frá 17. október 2013 í máli kæranda er felld úr gildi. Kröfu kæranda um greiðslu lögmannskostnaðar er synjað.

Til baka