Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-25/2015 - Umsóknarfrestur og útborgun Synjun á undanþágu frá umsóknarfresti

Úrskurður

 

Ár 2016, miðvikudaginn 9. mars, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-25/2015:

 

Kæruefni

 

Með kæru, sem barst málskotsnefnd 4. september 2015, kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 27. ágúst 2015 um að hafna beiðni hennar um undanþágu frá umsóknarfresti vegna námsláns á vormisseri 2015. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 7. september 2015 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 8. október 2015 og var afrit þess sent kæranda og henni jafnframt gefinn frestur til að koma að athugasemdum sínum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi stundaði nám við Háskóla Íslands skólaárið 2014-2015 og sótti um námslán á haustmisseri 2014 til LÍN. Í framhaldi sendi LÍN kæranda tölvupóst þar sem fram kom að "Sótt hefur verið um námsárið 2014-2015: haust". Þann 24. apríl 2015 sendi LÍN kæranda tölvupóst þar sem fram kom að frestur til að sækja um námslán á vormisseri 2015 væri til og með 30. apríl 2015. Staðfesting á námsárangri kæranda barst LÍN 19. júní 2015. Hafði kærandi þá samband við sjóðinn símleiðis og svo með tölvubréfi þann 22. júní og kvaðst vera viss um að hafa sótt um námslán fyrir vormisserið 2015. LÍN sendi kæranda tölvupóst þann 29. júní 2015 þar sem upplýst var að hún væri aðeins með virka lánsumsókn fyrir haustmisseri 2014. Þann 30. júní 2015 sendi kærandi erindi til stjórnar LÍN og óskaði eftir undanþágu frá umsóknarfresti vegna vormisseris 2015. Stjórn LÍN hafnaði beiðni hennar með ákvörðun 27. ágúst 2015. Kærandi kærði framangreinda ákvörðun stjórnar LÍN til málskotsnefndar þann 4. september 2015. Í kærunni komu engar athugasemdir fram af hálfu kæranda til viðbótar því sem fram kemur í gögnum málsins en með kærunni sendi hún afrit bréfs frá Íslandsbanka dagsett 4. september 2015. 

Sjónarmið kæranda 

Kærandi óskar eftir undanþágu frá umsóknarfresti vegna námsláns á vormisseri 2015. Í gögnum málsins kemur fram að kærandi hafi fengið fyrirgreiðslu í viðskiptabanka sínum fyrir bæði haust og vormisseri skólaársins 2014-2015 þar sem starfsmaður bankans hafi ekki tekið eftir því að eingöngu hafi verið gefin út lánsáætlun fyrir haustmisseri 2014. Taldi kærandi sig því hafa sótt um hjá LÍN fyrir vormisserinu. Í bréfi frá Íslandsbanka, viðskiptabanka kæranda, kemur fram að haustið 2014 hafi þau mistök átt sér stað að starfsmaður bankans hafi bókað fyrirgreiðslu haustannar hjá kæranda tvisvar sinnum, þ.e. bæði fyrir haustönn og vorönn. Kærandi hafi síðan gleymt að sækja um lán fyrir vorönn 2015 til LÍN enda talið að hún hefði gert það vegna hinnar röngu afgreiðslu bankans. Það hafi ekki verið fyrr en að það átti að greiða út fyrirgreiðsluna frá LÍN fyrir vormisserið í júní 2015 að þetta hafi komið í ljós. Íslandsbanki bendir á að kærandi sitji uppi með fyrirgreiðslu frá bankanum upp á rúmar 613.000 krónur, en fái ekki fyrirgreiðslu á móti frá LÍN eins og ætlunin hafi verið. Í bréfinu harmar Íslandsbanki þau mistök sem gerð hafi verið í útibúinu og tekur á sig fulla ábyrgð á þeim. Þá tekur bankinn fram að mistökin liggi þó einnig hjá kæranda þar sem hún hefði átt að sjá að einungis hafi verið sótt um haustönn hjá LÍN þrátt fyrir afgreiðslu bankans. Óskar bankinn eftir því að kæranda verði veitt umbeðin undanþága frá umsóknarfresti. 

Sjónarmið stjórnar LÍN 

LÍN bendir á að samkvæmt grein 5.1.2 í úthlutunarreglum LÍN fyrir námsárið 2014-2015 þurfi lánsumsókn vegna náms haustið 2014 að berast í síðasta lagi 30. nóvember 2014 og 30. apríl vegna náms vorið 2015. Þá segi í ákvæðinu að sækja skuli sérstaklega um fyrir hvert aðstoðarár. Kærandi hafi ekki sótt um lán á vormisseri og hafi ekki haft samband við sjóðinn vegna málsins fyrir en 19. júní 2015. LÍN vísar til þess að sjóðurinn hafi sent kæranda tölvupóst þar sem umsóknarfrestur fyrir vormisseri 2015 hafi verið áréttaður og að eftir þann tíma yrði ekki lengur hægt að sækja um lán fyrir misserið. Þá bendir LÍN einnig á að kærandi hafi áður sótt um námslán skólaárið 2013-2014 og að þá hafi hún sótt sérstaklega fyrir haustmisserið og svo vormisserið. LÍN bendir á að sjóðurinn hafi fallist á undanþágur frá umsóknarfresti á grundvelli lögmætra sjónarmiða, s.s. þegar mistök hafa orðið hjá LÍN eða óviðráðanleg atvik hafi valdið því að námsmaður sótti ekki um fyrr en eftir tilskilinn frest. Telur LÍN að hvorugt eigi við í þessu máli.

 

Niðurstaða

 

Í málinu er til úrlausnar beiðni kæranda um undanþágu frá umsóknarfresti um námslán vegna vorannar 2015. Í grein 5.1.2 í úthlutunarreglum LÍN fyrir árið 2014-2015 segir að sækja skuli sérstaklega um námslán fyrir hvert aðstoðarár og að umsóknarfrestur vegna náms vorið 2015 sé til og með 30. apríl 2015. Ekki er að finna neinar undanþágur frá auglýstum fresti í framangreindum reglum. Fyrir liggur að kærandi sótti ekki um lán hjá LÍN fyrir vorönn 2015. Þann 30. júní 2015 fór hún þess á leit við stjórn sjóðsins að sér yrði veitt undanþága frá umsóknarfrestinum með vísun til þess að mistök viðskiptabanka hennar hafi valdið því að hún hafi talið sig vera búna að sækja um námslán vegna vorannar 2015. Umsóknarfrestur um námslán er árlega birtur í úthlutunarreglum LÍN, sem eru auglýstar í Stjórnartíðindum. Fresturinn er jafnframt auglýstur á heimasíðu LÍN, auk þess sem sjóðurinn sendir námsmönnum tölvupóst til að minna á umsóknarfrest. Málskotsnefnd hefur margoft úrskurðað um mikilvægi þess að festa ríki um þá fresti sem námsmönnum eru settir og tekið undir það að almennt beri að vísa frá erindum sem berast að liðnum fresti nema óviðráðanleg atvik eða mistök starfsmanna LÍN hafi leitt til þess að umsókn barst of seint. Um slíkt er ekki að tefla í þessu máli. Er því fallist á það með stjórn LÍN að afgreiðsla sjóðsins á erindi kæranda hafi verið í samræmi við lög og reglur sem um sjóðinn gilda og ber því að staðfesta ákvörðun hennar.

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda frá 27. ágúst 2015 er staðfest.

Til baka