Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-07/2016 - Skilyrði lánveitingar - synjun, lánsréttur fullnýttur

Kæruefni

Með kæru dagsettri 12. mars 2016, sem barst málskotsnefnd 17. mars 2015, kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 14. desember 2015 um að lánsréttur kæranda hjá LÍN bæði hvað varðaði skólagjöld og framfærslulán væri fullnýttur að loknu námsárinu 2015-2016. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 17. mars 2016 og gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 14. apríl 2016 og var afrit þess sent kæranda og henni veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum. Kærandi nýtti sér það og sendi athugasemdir með bréfi dagsettu 16. maí 2016.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi fékk námslán í gildistíð eldri reglna um lánsrétt vegna grunnháskólanáms sem samsvaraði 270 ECTS einingum. Kærandi hafði því fullnýtt sér 180 ECTS eininga svigrúm til grunnháskólanáms, sbr. grein 2.3.1 í úthlutunarreglum LÍN vegna skólaársins 2015-2016 og að auki nýtt sér 90 ECTS einingar af 120 mögulegum samkvæmt ákvæðum um sameiginlegt svigrúm sem lýst er í grein 2.3.4 í úthlutunarreglunum. Kærandi hugðist stunda BA-nám við háskóla í Bretlandi haustið 2015 og sendi þann 7. júlí 2015 tölvupóst til LÍN til að kanna lánsrétt sinn. Í svarpósti LÍN 9. júlí 2016 segir eftirfarandi:

"Þú átt eftir 30 ECTS einingar í svigrúmi fyrir grunnháskólanám: Undanþágurnar sem eru í gildi núna eiga því miður ekki við þig vegna þess að þú varst ekki í námi frá 2010-2014 og hefur verið í námshléi lengra (sic) en eitt ár. Í sambandi við skólagjöldin áttu næstum fullan kvóta eftir eða 92,1%."

Kærandi sótti um námslán 17. júlí 2015 og hóf í framhaldi þess BA-nám við háskóla í Bretlandi. Var hún samþykkt inn á annað námsár. Kærandi sendi gögn vegna námsins til LÍN í september 2015. Í tölvupósti LÍN til hennar 15. september 2015 var sent yfirlit yfir svigrúm til náms og einnig sagði sagði eftirfarandi:

"Vil benda þér á að þú ert að verða búinn (sic) með rétt þinn til námslána á þessu námsstigi skv. einingareglu sjóðsins, sjá hér að neðan: [...] Þú átt s.s. einungis 30 einingar eftir og þá átt þú ekki rétt á meiri námslánum á þessu námsstigi.“ Þann 21. október 2015 sendi kærandi frekari gögn til LÍN vegna námsins og í svarpósti LÍN 23. október 2015 var aftur minnst á lánsrétt kæranda en þar sagði: „Vil svo minna þig á að þú átt einungis lánsheimild fyrir einni önn í þessu námi og þá aðeins skólagjöldum fyrir þá önn"

Kærandi óskaði frekari skýringa frá LÍN og í framhaldinu bar hún mál sitt undir stjórn LÍN. Í ákvörðun stjórnar LÍN 14. desember 2015 var fallist á að veita kæranda skólagjaldalán vegna vormisseris 2016 en tekið fram að að því loknu væri réttur hennar til námsláns vegna grunnnáms fullnýttur, bæði hvað varðaði framfærslu og skólagjöld.

Sjónarmið kæranda

Kærandi vísar til þess að hún hafi fengið þær upplýsingar áður en hún hóf nám sitt að hún ætti enn eftir ónýttan rétt til skólagjalda sem næmi 92,1% eða næstum fullan kvóta eins og það hafi verið orðað í tölvupósti frá LÍN. Kærandi lýsir því að það hafi verið stór ákvörðun að flytjast til annars lands og að í hennar tilfelli hafi það haft í för með sér miklar breytingar bæði fyrir hana og fjölskyldu hennar. Hafi hún sagt upp starfi sínu á Íslandi til að freista gæfunnar og hefja nám. Væri umrætt nám metnaðarfullt og tengt atvinnulífinu. Færi hátt hlutfall nemenda eða 90% beint út á vinnumarkað að námi loknu. Kærandi upplýsti einnig um að hún hafi farið á skrifstofu LÍN til að afla sér upplýsinga um skólagjöldin. Hafi hún átt langt samtal við konu sem hafi sagst vera yfirmaður þjónustudeildar og hafi hún fullyrt að kærandi ætti enn rétt til skólagjaldalána þrátt fyrir að hún hefði fullnýtt rétt sinn til framfærslu. Hefði kæranda verið leiðbeint um að senda tölvupóst til LÍN og fá skriflega staðfestingu sem hún og hafi gert.

Sjónarmið stjórnar LÍN

Í athugasemdum stjórnar LÍN kemur fram að kærandi hafi einungis átt eftir lánsrétt vegna 30 ECTS eininga til náms í grunnháskólanámi skólaárið 2015-2016. Kærandi hafi hins vegar fengið rangar upplýsingar um lánrétt sinn í júlí 2015. Í september 2015 hafi kæranda verið leiðbeint um að hún ætti aðeins eftir lánsrétt vegna 30 ECTS eininga. Sömu upplýsingar hafi komið fram í lánsáætlun sem hafi birst á heimasvæði kæranda hjá LÍN 15. september 2015. Í október 2015 hafi henni síðan aftur verið tilkynnt um að hún ætti einungis lánsrétt vegna 30 ECTS-eininga og að það ætti bæði við um lán vegna framfærslu og skólagjalda. Í ákvörðun stjórnar LÍN hafi verið fallist á að upplýsingar þær sem kærandi hafi fengið í júlí 2015 hafi mátt túlka á fleiri en einn veg. Með hliðsjón af því hafi verið fallist á að skapast hefðu réttmætar væntingar til námslána vegna skólagjalda á námsárinu 2015-2016. Slík úthlutun geti þó ekki veitt tilteknum einstaklingi lánsrétt umfram aðra sem þeim sé frjálst að nýta sér um ókomna framtíð. Fer stjórn LÍN þess á leit að málskotsnefnd staðfesti ákvörðun stjórnar í máli kæranda.

Niðurstaða

LÍN er opinber lánastofnun og starfar á ábyrgð íslenska ríkisins. Um starfsemi sjóðsins gilda ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Á sjóðnum hvílir leiðbeiningaskylda samkvæmt 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga en þar segir að stjórnvald skuli veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess. Geta fyrirheit stjórnvalda skapað réttmætar væntingar hjá þeim sem þau beinast að. Það er ágreiningslaust í málinu að kærandi hafði vegna fyrra náms þegar fengið námslán sem svaraði til 180 ECTS eininga vegna grunnháskólanáms. Eins og að framan er lýst fékk kærandi hins vegar rangar upplýsingar um lánsrétt sinn vegna skólagjalda en fullyrt var í tölvupósti LÍN að kærandi ætti "næstum fullan kvóta eftir eða 92,1%" af lánrétti sínum vegna skólagjalda. Að mati málskotsnefndar verður þessi fullyrðing aðeins skilin á einn veg, þ.e. að kærandi ætti nær ónýttan lánsrétt til skólagjalda. Skýrar og ótvíræðar leiðréttingar voru hins vegar ekki sendar kærnda fyrr en í október 2015. Kemur þá til úrlausnar hvort þessar röngu upplýsingar hafi vakið réttmætar væntingar hjá kæranda um að hún mætti byggja lánsrétt sinn, ekki aðeins á yfirstandandi skólaári heldur einnig á næsta skólaári (2016-2017), á þessu upplýsinginum. Málskotsnefnd hefur í fyrri úrskurðum sínum byggt á því að þegar rangar upplýsingar hafa verið veittar um lánsrétt geti það skapað viðkomandi námsmanni réttmætar væntingar um námslán vegna yfirstandandi námsárs, sbr. mál L-22/2014. Nefndin telur þó að slíkt geti almennt ekki skapað námsmanni slíkar væntingar til framtíðar. Er þá einnig litið til sjónarmiða sem búa að baki úthlutunarreglum LÍN um að námsmenn geti ekki byggt á því að reglur um úthlutun námslána haldist óbreyttar frá ári til árs að því tilskyldu að slíkar breytingar séu tilkynntar og birtar með nægjanlegum fyrirvara þannig að þeir aðilar er málið snertir geti haft raunhæfa möguleika á því að gera viðeigandi ráðstafanir og bregðast við breyttri framkvæmd. LÍN leiðrétti upplýsingar um lánsrétt kæranda þegar í október 2015. Í ljósi þess tíma sem liðinn er frá því að LÍN tilkynnti kæranda um að hafa ranglega upplýst hana um lánsrétt hennar verður að telja að nægjanlegur fyrirvari hafi verið gefinn þannig að kærandi hafi haft raunhæft tækifæri til að bregðast við þessum breyttu aðstæðum vegna skólaársins 2016-2017. Að mati málskotsnefndar getur hún því ekki byggt á því vegna umsóknar um námslán vegna námsársins 2016-2017 að hún hafi getað haft réttmætar væntingar um að fá námslán. Er þetta í samræmi við fyrri úrskurð málskotsnefndar í máli L-14/2015. Þá hefur LÍN einnig komið til móts við kæranda með því að veita henni námslán umfram þann rétt sem hún hafði samkvæmt úthlutunarreglunum. Með vísan til þessa er það niðurstaða málskotsnefndar að kærandi hafi tæmt rétt sinn til námslána hjá LÍN og að staðfesta beri ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda.

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun frá 14. desember 2015 í máli kæranda er staðfest. 

Til baka