Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-28/2015 - Endurgreiðsla námslána - beiðni um endurútreikning á tekjutengdri afborgun

Úrskurður

Ár 2016, miðvikudaginn 23. mars, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-28/2015:

Kæruefni

Með kæru dagsettri 31. ágúst 2015 kærðu A og B (hér eftir nefnd kærendur), ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 4. júní 2015, þar sem synjað var beiðni kærenda um endurútreikning á tekjutengdri afborgun námsláns með gjalddaga 1. september 2014. LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 18. september 2015 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kærendum var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN bárust með bréfi dagsettu 30. október 2015. Kærendur sendu athugasemdir sínar með bréfi dagsettu 23. nóvember 2015 sem barst málskotsnefnd 30. nóvember 2015 og voru þær framsendar stjórn LÍN þann sama dag. Með bréfi dagsettu 16. febrúar 2016 fór málskotsnefnd þess á leit við stjórn LÍN að hún veitti frekari upplýsingar í málinu. Umbeðnar upplýsingar bárust málskotsnefnd 8. mars 2016. Einnig óskaði málskotsnefnd afrita af skuldabréfum lántaka hjá LÍN og bárust þau 15. mars 2016.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærendur eru búsett á Spáni. Þau eru ábyrgðarmenn á námslánum sonar síns (hér eftir nefndur lántaki). Lántaki sem er búsettur í Noregi var í vanskilum með námslán sitt frá september 2009. Lánið var sent í löginnheimtu þar sem skuldabréfið var gjaldfellt og var lántaka og kærendum stefnt til greiðslu. Ekki náðist að birta stefnuna fyrir kærendum eftir almennum reglum og var hún þá birt í Lögbirtingarblaði. Var stefna árituð um aðfararhæfi í nóvember 2013. Í febrúar 2014 var gert árangurslaust fjárnám á Íslandi hjá kærendum og lántaka. Í framhaldi af því var krafan send í innheimtu á Spáni. Lántaki sendi tölvupóst til LÍN 29. desember 2014 og óskaði upplýsinga um gjaldfallna gjalddaga og fyrir hvaða ár LÍN vantaði tekjuupplýsingar. Í svarpósti LÍN 8. janúar 2015 var hann upplýstur um vanskilin og að LÍN hefði áætlað á hann tekjur frá 2009 til 2013 þar sem tekjuupplýsingar hefði vantað. Einnig segir í svari LÍN að hægt hefði verið að skila tekjuupplýsingum allt að tveimur mánuðum eftir gjalddaga eða út október og því væri of seint að senda inn tekjuupplýsingar fyrir gjalddaga fyrri ára. Þann 11. febrúar 2015 sömdu kærendur við LÍN um greiðslu kröfunnar. Var gjaldfellingin dregin til baka og kærendum heimilað að greiða gjaldfallnar afborganir lánsins. Með bréfi dagsettu 25. apríl 2015, sem barst LÍN 4. maí 2015, óskuðu kærendur eftir lækkun á kröfum sjóðsins samkvæmt dóminum (áritaðri stefnu) í máli LÍN gegn þeim, sem þeim hafi verið ókunnugt um þar til í nóvember 2013. Jafnframt óskuðu þau lækkunar á kröfu um áfallinn kostnað. Í erindinu kemur fram að lántaki hafi verið tekjulaus undanfarin ár og leggja kærendur fram gögn frá Noregi um tekjur hans og skattgreiðslur vegna áranna 2011, 2012 og 2013. Fram kemur í erindinu að í febrúar 2015 hafi þau símleiðis haft samband við LÍN vegna málsins. Jafnframt sendu kærendur læknisvottorð frá lækni sonar síns þar sem fram kom að hann hafi verið 100% ófær um að sinna atvinnu frá því í apríl 2013. Í kjölfarið leiðbeindi starfsmaður LÍN þeim um að 60 daga frestur til að senda tekjuupplýsingar væri liðinn og að ríkar ástæður þyrftu að vera fyrir undanþágu frá frestinum. Læknisvottorð þyrfti að bera með sér að greiðandi hefði verið ófær um að sækja um endurútreikning fyrir gjalddagann 1. september 2014. Kærendur svöruðu LÍN með tölvupósti 25. maí 2015 þar sem þau útskýrðu aðstæður lántaka og að hann hefði jafnframt tjáð þeim að þau þyrftu ekki að hafa áhyggjur af ábyrgðinni því bróðir hans hefði tekið hana yfir. Kærendur lýstu því að þeim hefði verið ókunnugt um stefnu LÍN á hendur þeim fyrr en síðla árs 2014. Þau hefðu verið búsett erlendis að mestu leyti í 30 ár og skráð búsett á Spáni hjá Þjóðskrá. Nöfn þeirra væru í símaskrá þar sem þau væru búsett og því hafi ekki átt að vera erfitt að hafa upp á heimilisfangi þeirra. Stjórn LÍN synjaði erindi kærenda með ákvörðun sinni þann 4. júní 2015. Í ákvörðun stjórnar LÍN segir að kærendur hafi farið þess á leit að tekjutengd afborgun 2014 yrði endurútreiknuð á grundvelli skattframtals lántaka. Hafi umsóknin og framtal vegna 2014 borist 4. maí 2015. Stjórn LÍN synjaði beiðni kærenda með vísan til þess að umsókn um endurgreiðslu hefði borist eftir að 60 daga frestur samkvæmt grein 7.4 í úthlutunarreglum LÍN fyrir árið 2014-2015 var liðinn, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN. Í viðbótarupplýsingum sem málskotsnefnd aflaði frá LÍN vegna málsins kemur fram að lántaka hafi verið sent bréf 14. júlí 2014 þar sem hann var minntur á að skila upplýsingum um tekjur sínar á árinu 2013 fyrir 8. ágúst 2014. Í upplýsingum LÍN til málskotsnefndar kemur einnig fram að lán lántaka hafi verið gjaldfellt 2. júlí 2012. Eftir það hafi ekki verið send innheimtubréf vegna einstakra gjalddaga, hvorki til skuldara né ábyrgðarmanna. Í bréfi LÍN segir einnig að engin tilkynning um gjalddaga hafi verið send lántaka vegna gjalddagans 1. september 2014 enda lán hans gjaldfellt á þeim tíma og til innheimtu hjá lögmönnum. Eftir að láninu hafi verið komið í skil í febrúar 2015 hafi almenn gjalddagamyndun hafist í samræmi við skilmála lánsins. Lántaki hafi hins vegar ekki haft neina aðkomu að greiðslu. Honum hafi ekki verið tilkynnt sérstaklega um að gjaldfelling lánsins hafi verið dregin til baka að öðru leyti en því að almenn gjalddagamyndun hafi hafist aftur við það að vanskilin voru greidd upp. Einnig kom fram af hálfu LÍN að í tekjuviðmiði sjóðsins sem notað var til viðmiðunar við áætlun á tekjutengdri afborgun gjalddagans 1. september 2014 hafi verið miðað við að lántaki hefði 8,5 milljónir króna í tekjur þar sem hann hefði lokið 191 einingum í viðskiptafræði en það væri meira en hefðbundið grunnnám. Málskotsnefnd kallaði eftir afritum af skuldabréfum lántaka hjá LÍN. Í gögnum málsins kemur fram að lántaki tók lán hjá LÍN á árunum 1984-1986 og að kærendur eru ábyrgðarmenn á öllum skuldabréfum vegna þeirra, 21 talsins. Kærandi, B, á einu bréfi en kærandi, A, á hinum 20 en hún tók yfir sem ábyrgðarmaður á árinu 2005 af fyrri ábyrgðarmanni á 18 skuldabréfum.

Sjónarmið kærenda.

Í kæru sinni krefjast kærendur endurskoðunar á ákvörðun stjórnar LÍN um að synja þeim um endurútreikning á ofáætlun LÍN á tekjum lántaka vegna ársins 2014. Kærendur lýsa í kæru sinni að sonur þeirra sé og hafi lengi verið sjúkur og óvinnufær, m.a. sökum sálrænna vandamála og áfengissýki. Væri hann á opinberu framfæri í Noregi. Hafi þau engin tök haft á að fá hann til að fylgja reglum LÍN eða annarra. Kærendur telja að LÍN hafi ekki sinnt skyldu sinnu um að tilkynna þeim um vanskil lánsins, fresti o.fl. en þau hafi lengi verið búsett í öðru landi. Telja þau margar leiðir færar fyrir opinbera aðila að afla upplýsinga um heimilisfang þeirra. Þau hafi í áratugi átt eignir á Íslandi, haft af þeim tekjur og greitt af þeim skatta og fái auk þess greiðslur frá Tryggingastofnun. Þau vísa einnig til þess að lántaki hafi sagt þeim að þau bæru ekki ábyrgð á greiðslu lánsins þar sem bróðir hans sem nú væri látinn hefði yfirtekið ábyrgðina. Fjármál lántaka væru í ólestri og hann skuldaði meira en hann yrði nokkurn tíman borgunarmaður fyrir. Af þessum sökum skipti krafa LÍN hann litlu máli og hann myndi aldrei greiða hana. Eins og staðan væri væru þau varnarlaus en ábyrg gagnvart LÍN.

Sjónarmið stjórnar LÍN.

Í athugasemdum stjórnar LÍN er lýst innheimtuaðgerðum á hendur kærendum. Eftir áritun stefnu og árangurslaust fjárnám hjá kærendum hafi krafan verið send í innheimtu til Spánar og þá hefðu kærendur haft samband við LÍN. Samið hafi verið við kærendur um að draga gjaldfellinguna til baka og fella niður 80% af uppsöfnuðum dráttarvöxtum. Í kjölfarið hafi kærendur sent erindi til stjórnar LÍN þar sem þau hafi farið fram á endurútreikning gjalddagans 1. september 2014. Erindi þeirra hafi borist 4. maí 2015. Kærendum hafi verið leiðbeint um að þau gætu lagt fram læknisvottorð um að lántaki hafi verið ófær um að sækja um endurútreikning. Slíkt vottorð hafi þó þau ekki getað lagt fram og ekki hefðu komið fram aðrar upplýsingar um að lántaki hafi af öðrum orsökum verið ófær um að sækja um endurútreikning. Hafi það verið niðurstaða stjórnar LÍN að ekki væri mögulegt að verða við beiðni kærenda þar sem ósk um endurútreikning hafi ekki borist fyrr en 60 daga frestur samkvæmt 11. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna var liðinn.

Niðurstaða

Í 8. gr. laga nr. 21/1992 segir að árleg endurgreiðsla ákvarðist í tvennu lagi, annars vegar sé um að ræða fasta greiðslu óháða tekjum lánþega en hins vegar viðbótargreiðslu sem sé háð tekjum fyrra árs. Tekjutengda afborgunin (seinni ársgreiðsla) er með gjalddaga 1. september, sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 478/2011 og grein 7.4 í úthlutunarreglum sjóðsins 2014-2015. Fjárhæð hennar miðast við ákveðinn hundraðshluta af tekjustofni ársins á undan sbr. 3. mgr. 8. gr. og 10. gr. laga 21/1992. Í 2. og 3. málsl. 3. mgr. 10. gr. laganna segir:

"Sé lánþegi á endurgreiðslutímanum ekki skattskyldur á Íslandi af öllum tekjum sínum og eignum skal honum gefinn kostur á að senda sjóðnum staðfestar upplýsingar um tekjur sínar og skal árleg viðbótargreiðsla ákveðin í samræmi við það. Geri hann það ekki eða telja verður upplýsingar hans ósennilegar og ekki unnt að sannreyna tekjustofn samkvæmt því skal stjórn sjóðsins áætla honum tekjustofn til útreiknings árlegrar viðbótargreiðslu".

Þegar stjórn sjóðsins hefur tekið ákvörðun um að áætla tekjustofn lánþega á hann þess kost að óska eftir að ný ákvörðun um afborgun verði tekin byggð á raunverulegum tekjuupplýsingum. Segir þannig í 1. og 2. mgr. 11. gr. laga um LÍN:

Lánþegi á rétt á endurútreikningi árlegrar viðbótargreiðslu sé hún byggð á áætluðum tekjum. Hann skal þá sækja um endurútreikninginn eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar og leggja fyrir stjórn sjóðsins bestu fáanlegar upplýsingar um tekjurnar. Endurútreikningur skv. 1. mgr. á árlegri viðbótargreiðslu skal gerður þegar sjóðnum hafa borist staðfestar upplýsingar um tekjurnar. Komi þá í ljós að tekjustofn hafi verið of hátt áætlaður eða oftalinn og lánþegi því innt af hendi of háa greiðslu skal honum endurgreidd hin ofgreidda fjárhæð með almennum vöxtum óverðtryggðra bankalána.

Lántaki er með lögheimili erlendis og ekki skattskyldur á Íslandi. Því átti hann þess kost samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga um LÍN að senda LÍN upplýsingar um tekjur sínar í Noregi. Hann gerði það þó ekki. Í viðbótarupplýsingum LÍN til málskotsnefndar kemur fram að lán lántaka við sjóðinn var gjaldfellt 2. júlí 2012 og að eftir það hafi ekki verið send innheimtubréf vegna einstakra gjalddaga hvorki til skuldara né ábyrgðarmanna. Engin tilkynning um afborgun vegna gjalddaga 1. september 2014 hafi því verið send lántaka enda hafi lán hans verið gjaldfellt á þeim tíma og til innheimtu hjá lögmönnum. Samkvæmt þessu kom því aldrei til þess að stjórn LÍN tæki ákvörðun um að áætla tekjur lántaka eins og mælt er fyrir um í 3. málslið 3. mgr. 10. gr. enda eins og áður greinir hafði lánið verið gjaldfellt og gjalddagar ekki myndaðir eftir það. Eins og ráða má 1. mgr. 11. gr. laga um LÍN er forsenda þess að lántaki geti óskað endurútreiknings að honum hafi verið kynnt niðurstaða þeirrar áætlunar á tekjustofni sem hann á síðan kost á að óska endurskoðunar á. Ljóst er að útilokað var fyrir lántaka á þessum tíma að sækja um endurútreikning á fjárhæð afborgunar í skilningi 1. mgr. 11. gr. laga um LÍN þar sem stjórn LÍN hafði ekki áætlað honum neinar tekjur samkvæmt 3. málslið 3. mgr. 10. gr. laga um LÍN. Eins og fram kemur í upplýsingum stjórnar LÍN var það ekki fyrr en 11. febrúar 2015 að LÍN samdi við ábyrgðarmenn lánsins, kærendur í máli þessu, um að draga gjaldfellingu skuldabréfsins til baka og heimila þeim að greiða gjaldfallna gjalddaga lánsins. Af gögnum málsins verður ráðið að sú afborgun gjalddagans 1. september 2014 sem reiknuð var út af því tilefni byggðist á áætlunum LÍN þar sem ekki hafi legið fyrir tekjuupplýsingar frá lántaka. Samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess. Af framangreindri leiðbeiningarskyldu leiðir að LÍN bar að leiðbeina kærendum í máli þessu um forsendur útreiknings á þeim afborgunum sem lagðar voru til grundvallar við samkomulag um skil á láninu og leiðbeina þeim um að þeir ættu þess kost að leggja fram gögn um tekjur lántaka og óska endurútreiknings "eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar". Gjalddaga í þessu tilviki yrði að miða við þá dagsetningu sem um hefur samist í samkomulagi LÍN við ábyrgðarmenn eða lántaka þegar námsláni er komið í skil. Þá ber og til þess að líta að lántaki sjálfur hafði þegar í lok desember 2014 sent tölvupóst til LÍN og óskað upplýsinga frá LÍN fyrir hvaða ár vantaði tekjuupplýsingar, svo hann gæti aflað slíkra gagna og sent LÍN. Við það tilefni var honum tjáð að of seint væri að leggja fram gögn um tekjur. Þær upplýsingar voru rangar þegar litið er til þess að enginn gjalddagi hafði myndast 1. september 2014 og stjórn LÍN hafði af þeim sökum ekki tilkynnt lántaka um áætlun tekjustofns sem afborgun miðaðist við. Athugun málskotsnefndar hefur beinst að kæru kærenda á ákvörðun stjórnar LÍN um að synja kærendum um endurútreikning á afborgun 1. september 2014. Í gögnum málsins kemur hins vegar fram að í erindi kærenda til stjórnar LÍN dagsettu 25. apríl 2015 og tölvupósti dagsettum 25. maí 2015 fóru kærendur þess á leit að endurskoðaðar væru fjárhæðir tekjutengdra afborgana áranna 2012 til og með 2014, sbr. gögn er þau sendu meðfylgjandi því erindi um tekjur og skatta lántaka vegna áranna 2011 til og með 2013. Þá fóru þau þess einnig á leit að áfallinn kostnaður yrði lækkaður. Stjórn LÍN tók einungis afstöðu til beiðni kærenda að því er laut að ákvörðun fjárhæðar afborgunar 1. september 2014. Var meðferð stjórnar LÍN að þessu leyti því ekki í samræmi við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Að því er lýtur að efnishlið málsins verður ekki séð að gjalddagar hafi verið myndaðir 1. september 2012 og 2013 og því fari um ákvörðun á fjárhæð afborgana vegna þeirra gjalddaga eins og um gjalddagann 1. september 2014. Að því er lýtur að fjárhæð kostnaðar bendir málskotsnefnd á að í 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn kemur fram að ábyrgðarmaður "verður ekki krafinn um greiðslur á dráttarvöxtum eða öðrum innheimtukostnaði lántaka sem fellur til eftir gjalddaga nema liðnar séu tvær vikur frá því að ábyrgðarmanni var sannanlega gefinn kostur á að greiða gjaldfallna afborgun." Við mat á því hvort rétt sé að beita þessu ákvæði í máli kærenda bar LÍN að kanna hvernig innheimtufyrirtækið, sem sá um innheimtu fyrir sjóðinn, hafði staðið að því að afla upplýsinga um rétt heimilisfang lántaka, hvernig háttað var leit að heimilsfangi kærenda á Spáni og þá hvort ómögulegt hafi verið að afla þessara upplýsinga áður en til þess kom að námslánið var gjaldfellt. Skiptir hér máli að gæta að meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins. Vísar málskotsnefnd hér m.a. til umfjöllunar umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5924/2010. Í tölvupósti frá innheimtufyrirtækinu kemur fram að LÍN hafi samþykkt 100% niðurfellingu dráttarvaxta gagnvart kærendum en að þau hafi greitt 20% vegna kostnaðar við innheimtu á Spáni. Ekki verður séð að nein nánari grein hafi verið gerð fyrir forsendum þessa samnings gagnvart kærendum, s.s. hvort og þá að hvaða leyti lög nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn höfðu áhrif á ákvörðun LÍN í málinu. Af þessu tilefni tekur málskotsnefnd fram að þegar LÍN tekur ákvörðun um að ljúka innheimtumáli með því að semja við skuldara eða ábyrgðarmenn er um stjórnvaldsákvörðun að ræða (sbr. til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingis í málum nr. 4248/2004 og 4887/2006). Ber LÍN því við töku slíkrar ákvörðunar að gæta að reglum stjórnsýsluréttar, m.a. um rökstuðning þannig að aðili fái skilið niðurstöðu máls og geti þannig staðreynt að ákvörðun eigi sér stoð í lögum og sé í samræmi við þau, eða eftir atvikum að leiðbeina aðila máls um rétt hans til að fá ákvörðun rökstudda. Með vísan til ofanritaðs er það niðurstaða málskotsnefndar að ákvörðun í máli kæranda hafi ekki verið í samræmi við 11. gr. laga um LÍN. Ber að fallast á beiðni kærenda um að til grundvallar útreikningi á afborgun 1. september 2014 skuli leggja raunverulegar tekjur lántaka. Jafnframt er það niðurstaða málskotsnefndar að meðferð máls kæranda hafi ekki verið í samræmi við rannsóknarreglu stjórnsýslulaga þar sem ekki var tekin afstaða til allra þeirra kæruatriða sem fram komu í bréfi kærenda til sjóðsins 25. apríl 2015 og tölvupósti 25. maí 2015. Þá sinnti LÍN ekki leiðbeiningarskyldu sinni samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga. Beinir málskotsnefnd þeim tilmælum til stjórnar LÍN að erindi kærenda verði tekið upp að nýju og meðferð þess hagað í samræmi við það sem að framan er rakið. Með vísan til framanritaðs er hin kærða ákvörðun stjórnar LÍN frá 4. júní 2015 felld úr gildi.

Úrskurðarorð

Ákvörðun stjórnar LÍN frá 4. júní 2015 í máli kærenda er felld úr gildi.

Til baka