Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-30/2015 - Umsóknarfrestur og útborgun Synjun um undanþágu frá umsóknarfresti

Úrskurður

 

Ár 2016, miðvikudaginn 4. maí, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-30/2015.

 

Kæruefni

 

Með kæru sem barst málskotsnefnd 16. nóvember 2015 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 16. október 2015 um að synja um undanþágu frá umsóknarfresti vegna námsláns á sumarönn 2015. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 17. nóvember 2015 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 14. desember 2015 og var afrit þess sent kæranda og honum jafnframt gefinn kostur á að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Athugasemdir bárust málskotsnefnd frá kæranda með bréfi dagsettu 28. janúar 2016. Málskotsnefnd sendi LÍN beiðni um viðbótarupplýsingar í bréfi dagsettu 11. apríl 2016 og bárust þær í bréfi dagsettu 14. apríl s.á. Þá var óskað eftir upplýsingum um flugnám frá Keili með bréfi dagsettu 11. apríl 2016 og bárust þær upplýsingar í tölvupósti frá skólanum sama dag. Kæranda var gefið tækifæri á að koma að frekari athugasemdum í málinu vegna þessara upplýsinga og athugasemda en taldi ekki þörf á því.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Tildrög þessa máls eru þau að kærandi hóf flugnám við Keili Flugakademíu (hér eftir nefnt Keilir) í janúar 2015. Hann sótti um námslán hjá LÍN fyrir vormisseri 2015 í desember 2014. Með umsókn sinni skilaði hann gögnum um flugnámið hjá Keili. Samkvæmt vottorði skólans, dagsett 25. nóvember 2015, var hann skráður í 30 fein einingar á vormisseri 2015. LÍN staðfesti móttöku umsóknar kæranda um lán á vormisseri 2015 með bréfi þann 10. desember 2014. Samkvæmt lánsáætlun LÍN fyrir kæranda, sem var birt á heimasvæði hans á heimasíðu LÍN, gerði hún ráð fyrir láni að fjárhæð rúmlega 1,8 milljóna króna. Kærandi lauk námi sínu hjá skólanum á vormisseri en þar sem námið flokkast til grunnnáms skilaði það ekki lánshæfum námsárangri. Hann hélt síðan náminu áfram á sumarmisseri og lauk lánshæfum námsárangri, 26 ECTS einingum, en sótti ekki um sumarlán til LÍN en frestur til þess var til 30. júní 2015. 

Kærandi hafði samband við LÍN 20. september 2015 til þess að spyrjast fyrir um lánið og var þá upplýstur að þar sem hann hefði ekki skilað lánshæfum námsárangri á vormisseri fengi hann ekki afgreitt lán vegna þeirrar annar. Sendi hann strax erindi til stjórnar LÍN sem tók hina kærðu ákvörðun 16. október 2015. Í gögnum málsins liggur fyrir að rangur samningur/vottorð hafi verið lagt fram af hálfu Keilis um nám kæranda. Í þeim samningi hafi skipulag anna verið með öðrum hætti þannig að nám á vorönn var lánshæft en ekki nám á sumarönn. Í námi því sem kærandi stundaði var nám á vörönn ekki lánshæft. 

Sjónarmið kæranda 

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun LÍN verði felld úr gildi og að honum verði veitt námslán fyrir vorönn 2015. Til vara er þess krafist að umsókn hans um lán á vorönn verði látin gilda sem umsókn um lán á sumarönn 2015 og það afgreitt sem slíkt. Í kærunni lýsir kærandi því að hann hafi sótt um námslán hjá LÍN í desember 2014 fyrir vorönn 2015 vegna flugnáms og fengið samþykki fyrir því. Hann hafi því gert ráð fyrir að fá lánið en um strangt og dýrt nám sé að ræða. Hann hafi ákveðið að sækja ekki um námslán á sumarönn heldur myndi hann sækja aftur um lán á haustönn 2015 og dreifa láninu þannig yfir árið. Hann hafi verið í góðri trú um að fá lán fyrir vorönninni enda hafi hvorki flugskólinn né LÍN bent honum á að ekki væru gefnar lánshæfar einingar fyrir umrædda önn. Í september 2015 hafi kæranda verið farið að lengja eftir afgreiðslu á lánsins en þá fyrst hafi hann verið upplýstur um að önnin skilaði honum ekki lánshæfum einingum og þar með engu láni. Kærandi vísar til 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. einnig 2. mgr. 14. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, þar sem segir að stjórnvald skuli veita þeim sem til þess leitar nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess. Samkvæmt þessu ákvæði stjórnsýslulaganna hvíli rík skylda á stjórnvöldum til að leiðbeina aðilum mála að eigin frumkvæði. Kærandi hafi hafið nám Keili sem sé nýtt og afar kostnaðarsamt. Hann hafi haft mikla hagsmuni af því að fá námslán og þar sem um nýtt nám sé að ræða hafi verið sérstök ástæða fyrir LÍN að sinna leiðbeiningarskyldu sinni gagnvart honum. Kærandi telur að hefði LÍN veitt nauðsynlegar leiðbeiningar hefði hann sótt um námslán á sumarönninni. Vanræksla LÍN hafi þannig orðið til þess að hann glataði rétti sínum og honum hafi verið gert ókleift að gæta hagsmuna sinna. Þá bendir kærandi á að í 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga segi að ákvarðanir í málum skuli teknar svo fljótt sem unnt sé. Kærandi sótti um námslán í desember 2014 og það hafi fyrst verið í september 2015, þegar hann hafi sjálfur farið að spyrjast fyrir um afgreiðslu lánsins, að honum hafi verið sagt að hann fengi ekki lán fyrir vorönnina þar sem um grunnnám hafi verið að ræða sem ekki væri lánshæft. Þá hafi verið of seint að sækja um á sumarönn sem hann hefði annars gert. Kærandi telur að meðferð málsins af hálfu LÍN sé ámælisverð og í andstöðu við 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Um sé að ræða óréttlætta töf á afgreiðslu máls sem hafi valdið kæranda fjártjóni sem óeðlilegt sé að hann beri bótalaust. Kærandi telur að ekki sé við hann að sakast að hafa ekki vitað að umrætt nám á vorönn gæfi ekki lánshæfar einingar. LÍN hafi ekki sinnt upplýsingaskyldu sinn og ekki séð ástæðu til þess að kynna honum niðustöðu sína varðandi umsókn hans. Það hafi ekki verið fyrr en um haustið 2015 að honum hafi orðið ljóst að umsókn hans um lán á vorönn 2015 hafi verið synjað. Hann hafi verið í góðri trú um að fá lánið enda hafi hvorki Keilir né LÍN bent honum á að ekki væru gefnar lánshæfar einingar fyrir vorönnina. Þá liggi fyrir í málinu að starfsmaður Keilis hafi gert mistök þegar samningur við kæranda hafi verið undirritaður. Í flugnáminu séu tvær gerðir samninga við nemendur. Annar sé ætlaður útlendingum og hinn Íslendingum vegna möguleika þeirra til láns hjá LÍN. Hafi mistök starfsmannsins legið í því að ganga frá samningi við kæranda eins og um útlending væri að ræða. Kæranda hafi ekki verið kunnugt um þessi mistök. Hann hafi gert allt sem honum bar í sambandi við lánsumsókn sína. Hann hringdi ítrekað í lánasjóðinn til þess að spyrjast fyrir um lánið og sé það rangt sem LÍN haldi fram að sjóðurinn hafi ekki heyrt í honum frá því að hann sótti um og þar til í september 2015. Kærandi telur að LÍN hafi mátt vera ljóst, þegar engin gögn bárust frá flugskólanum í Keili, að ekki væri allt með felldu og hafi átt að bregðast við því. LÍN hafi ekki átt að láta málið liggja óafgreitt í marga mánuði. Kærandi bendir einnig á að í samningi hans við skólann komi fram að hann sé að hefja flugnám vorið 2015 og hafi því verið í grunnnámi. LÍN hefði átt að vera kunnugt að slíkt nám sé ekki lánshæft. Í ljósi allra málavaxta í þessu máli telur kærandi að hin kærða ákvörðun sé ekki í samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýslulaga og vandaða stjórnsýsluhætti. Hann sé að hefja nám og lendi illa í mistökum yfirvalda og stofnanna án nokkurrar sakar. Vegna umræddra mistaka óskar hann eftir því að lánsumsókn hans á vorönn 2015 verði látin gilda fyrir sumarönn 2015. 

Sjónarmið stjórnar LÍN 

LÍN bendir á að kærandi hafi sótti um fullt námslán á vormisseri 2015 og sent staðfestingu á skráningu í flugnám hjá Keili því til staðfestingar. Samkvæmt vottorði skólans hafi hann verið skráður í 30 fein einingar (30 ECTS einingar) á vormisseri 2015 í atvinnuflugmanninum. LÍN hafi enga ástæðu haft til að ætla að innsent vottorð skólans væri rangt. Hefði komið fram í vottorði skólans að kærandi væri í grunnnámi hefði umsókn hans ekki verið samþykkt. Það hafi því ekkert verið í máli kæranda sem hafi gefið LÍN tilefni til að veita kæranda leiðbeiningar á grundvelli 7. gr. laga nr. 37/1993. Einnig bendir LÍN á að sjóðurinn fylgist ekki með hverjum og einum nemanda heldur beri nemandi sjálfur ábyrgð á því að námsárangur og gögn berist sjóðnum, sbr. m.a. grein 5.2.1 í úthlutunarreglum sjóðsins fyrir árið 2014-2015. Í staðfestingarbréfi sem sent hafi verið á tölvupóstfang kæranda komi einnig fram að útborgun lána vegna vormisseris hefjist í maí ef lánshæfur námsárangur hafi borist sem og önnur umbeðin gögn. Þrátt fyrir framangreint hafi kærandi ekki haft samband við sjóðinn fyrr en í september 2015 og þá hafi honum verið tilkynnt að enginn námsárangur hafi borist fyrir vormisseri 2015. LÍN bendir á að samkvæmt grein 5.1.2 í úthlutunarreglu LÍN fyrir árið 2014-2015 hafi frestur til að sækja um námslán á sumarmisseri 2015 verið til og með 30. júní 2015. Engin umsókn hafi borist frá kæranda fyrir þann frest. Þá sé engin heimild til að færa umsóknir á milli missera eftir að frestir séu liðnir. LÍN telur að niðurstaða sjóðsins í máli kæranda sé í samræmi við lög og reglur og einnig í samræmi við sambærilegar ákvarðanir stjórnar LÍN og málskotsnefndar. Farið sé fram á að málskotsnefnd staðfesti ákvörðun stjórnar. Í viðbótarathugasemdum LÍN kemur fram að eftir að umsókn kæranda um vorlán hafi verið samþykkt og lánsáætlun gefin út hafi ekki verið gerðar breytingar á þeim upplýsingum sem sjá mátti á heimasvæði kæranda hjá LÍN um að umsókn hans væri samþykkt og að samkvæmt námsáætlun ætti hann rétt á námsláni á vorönn 2015 að fjárhæð 1.815.886 krónur. Þá upplýsti LÍN að atvinnuflugnám hjá Keili var fyrst samþykkt námsárið 2012-2013, þ.e. almennt flugnám (ATPL modular). Námsárið 2013-2014 bættist síðan við samþætt flugnám (Intergrated professional Program Training Program). Samþætta flugnámið getur bæði verið með og án grunnnáms (basic course) en grunnnámið er ekki lánshæft hjá sjóðnum. Þannig að það eru þrjár tegundir af samningum vegna flugnáms, samþætt flugnám með og án grunnnáms og svo almennt flugnám. Samkvæmt upplýsingum LÍN þá hafði sjóðurinn ekki upplýsingar um að samþætta flugnámið án grunnnáms væri einungis hugsað fyrir erlenda námsmenn. Flestir nemenda í flugnámi sem eru á lánum hjá LÍN eru í almennu flugnámi (ATPL modular). Fjöldi umsókna hjá LÍN vegna nemenda í atvinnuflugnámi hjá Keili eru eftirfarandi: a. 2012-2013 16 umsóknir b. 2013-2014 19 umsóknir c. 2014-2015 36 umsóknir d. 2015-2016 44 umsóknir Sá samningur sem kærandi sendi með umsókn sinni til LÍN er um samþætt flugnám án grunnnáms. Eins og komið er í ljós stundaði kærandi samþætt flugnám með grunnnámi og stundaði grunnnám á vorönn 2015 sem er ólánshæft. 

Upplýsingar frá Keili 

Málskotsnefnd óskaði eftir upplýsingum frá Keili um hvaða munur væri á þeim samningum sem gerðir væru við nemendur í flugnámi við skólann hvað varðar innihald náms, skipulag og tímasetningu. Keilir upplýsti að kærandi hafi undirritað samning sem skólinn geri venjulega við útlendinga og sé því í viðhengi sem nafn – IPPP VOR 2015.pdf undirritað 25 Nóv 2014 en til samanburðar eru samningar við Íslendinga sem þurfa lán frá LÍN í viðhengi sem –nafn- ATPL integrated w BC Spring (mar15).pdf. Varðandi þann mun sem er á þessum samningum/námsleiðum þá eru þeir að öllu leyti eins, skipulag sem og dagsetningar eru eins og kostnaður er hinn sami. Eini munurinn sé að í samningi við útlendinga sé ekki upplýsingar um einingafjölda, upplýsingar um LÍN o.s.frv. Þá sé fjárhæð samningsanna hin sama en dagsetningar á greiðslum öðruvísi settar upp.

 

Niðurstaða

 

Samkvæmt 4. tl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 21/1992 skal stjórn LÍN setja reglur um úthlutun námslána. Þá er kveðið á um umsóknarfrest vegna námslána í 1. og 2. gr. reglugerðar nr. 479/2011 um LÍN þar sem m.a. segir að LÍN skuli auglýsa með tryggilegum hætti eftir umsóknum um námslán og að sækja skuli sérstaklega um námslán fyrir hvert námsár sem hefst að hausti ár hvert. Samkvæmt grein 5.1.2 í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2014-2015 þarf lánsumsókn vegna náms haustið 2014 að berast fyrir 1. desember 2014, fyrir 1. maí 2015 vegna náms á vorönn og fyrir 1. júlí sama ár vegna náms á sumarönn. Í samræmi við fyrirmæli reglugerðar nr. 479/2011 um að auglýsa skuli með tryggilegum hætti eftir umsóknum um námslán, eru úthlutunarreglur LÍN birtar í Stjórnartíðindum. Umsóknarfresturinn er jafnframt auglýstur á heimasíðu LÍN, auk þess sem LÍN sendir námsmönnum sem hafa skráð sig hjá sjóðnum tölvupóst til að minna á umsóknarfrest. Ljóst er að umsóknarfrestur var tryggilega auglýstur. Í þessu máli liggur fyrir að kæranda sótti um námslán hjá LÍN í desember 2014 vegna vorannar 2015 og lagði fram samning um flugnám við skólann. Samkvæmt upplýsingum LÍN þá var atvinnuflugnám hjá Keili fyrst samþykkt námsárið 2012-2013, þ.e. almennt flugnám (ATPL modular). Ári síðar bættist við samþætt flugnám (Intergrated professional Program Training Program). Samþætta flugnámið getur bæði verið með og án grunnnáms (basic course) en grunnnámið er ekki lánshæft hjá sjóðnum. Þannig eru þrjár tegundir af samningum vegna flugnáms í gangi, samþætt flugnám með og án grunnnáms og svo almennt flugnám. LÍN hefur upplýst að sjóðurinn hafði ekki upplýsingar um að samþætta flugnámið án grunnnáms væri einungis ætlað fyrir erlenda námsmenn. Einnig hefur LÍN upplýst að flestir nemenda í flugnámi sem eru á lánum hjá LÍN eru í almennu flugnámi (ATPL modular). Sá samningur sem kærandi sendi með umsókn sinni til LÍN er um samþætt flugnám án grunnnáms sem einungis er ætlaður erlendum námsmönnum. Eins og komið er fram stundaði kærandi samþætt flugnám með grunnnámi og fór grunnnámið fram á vorönn 2015 sem er ólánshæft. Kærandi stundaði síðan nám sitt áfram á sumarönninni og skilaði lánshæfum einingum þar. Kærandi fékk sent staðfestingarbréf frá LÍN 10. desember 2014 um að sjóðurinn hafi móttekið umsókn hans á vormisseri 2015 og að í framhaldi yrði gerð lánsáætlun fyrir hann. Athygli hans var sérstaklega vakin á "Mitt svæði" hjá LÍN sem væri hans einkasvæði hjá sjóðnum. Inn á því ætti hann að finna allt sem snúi að námslánum undir flipanum "Námslán" og sagt að "þar getur þú m.a. skoðað lánsáætlun (eða prentað út) og fylgst með stöðu umsóknar og útborgun lána". Í staðfestingarbréfinu eru skýrar leiðbeiningar um að námsmaður þurfi að skila lágmarksnámsárangri á hverri önn sem sótt er um námslán vegna og að útborgun lána vegna vormisseris hefjst í maí ef lánshæfur námsárangur hefur borist sem og önnur umbeðin gögn. Þá segir í bréfinu "Mikilvægt er að þú fylgist með því að sjóðurinn hafi undir höndum réttar upplýsingar um þína hagi, stöðu í námi og tekjur og ber þér skylda til að leiðrétta það sem með þarf." Samkvæmt upplýsingum LÍN þá voru engar breytingar gerðar á þeim upplýsingum sem sjá mátti á heimasvæði kæranda hjá LÍN frá því að þær komu fram og fram í júní 2015 þ.e. að umsókn hans hafi verið samþykkt og að samkvæmt námsáætlun ætti hann rétt á námsláni á vorönn 2015 að fjárhæð 1.815.886 krónur. Kærandi segist hafa hringt nokkrum sinnum í LÍN til að athuga með lánið en hafi ekki fengið neinar upplýsingar um að eitthvað væri að umsókn hans. Um miðjan september upplýstist að hann ætti ekki rétt á láni vegna vorannar 2015 og hafi aldrei átt þann rétt miðað við skipulagið á námi hans. Einnig upplýstist að skólinn hafi gert rangan samning við hann um námið. Þegar þessar upplýsingar komu í ljós var umsóknarfrestur um sumarlán runninn út en samkvæmt skipulagi námsins átti hann rétt á láni fyrir sumarönnina og hann skilaði lánshæfum einingum þá önn. Vegna framangreindra mistaka þá sótti kærandi ekki um lán fyrir sumarönn 2015 innan umsóknarfrests. Þá gat kærandi ekki séð neinar upplýsingar á heimasvæði sínu sem gerði það að verkum að hann gat áttað sig á mistökunum. Þar var alltaf óbreytt lánsáætlun alveg fram í lok júní samkvæmt upplýsingum LÍN. Í málinu er til úrlausnar krafa kæranda um að ákvörðun stjórnar LÍN verði ógilt og að honum verði veitt námslán fyrir vorönn 2015 en til vara að umsókn hans um lán á vorönn verði látin gilda sem umsókn um lán á sumarönn 2015 og það afgreitt sem slíkt. Að mati málskotsnefndar er ljóst að kærandi átti aldrei rétt á námsláni fyrir vorönn 2015 þar sem um grunnnám var að ræða samkvæmt skipulagi náms hans og engum lánshæfum einingum var skilað. Fyrir liggur að kærandi sótti ekki um sumarlán 2015 innan tilskilins frests og ekki er að finna undanþágur frá auglýstum fresti í reglum sjóðsins. Almennt verður að ganga út frá því sem meginreglu, að stjórnvöld beri ekki skylda til að taka mál til efnismeðferðar, sem borist hafa eftir lögskipaðan frest. Hins vegar hafa stjórnvöld heimild til þess að taka slík mál til efnismeðferðar hafi afsakanlegar ástæður leitt til þess að umsókn barst of seint. Í málum er varða umsóknarfresti hefur málskotsnefnd lagt til grundvallar að LÍN beri að beita einstaklingsbundnu mati á högum námsmanns með það fyrir augum að kanna hvort óviðráðanleg atvik eða handvömm starfsmanna LÍN hafi orðið þess valdandi að umsækjandi sótti ekki um námslán innan tilskilins frests. Að mati málskotsnefndar er ekkert komið fram í þessu máli sem bendir til að LÍN hafi ekki gætt leiðbeiningarskyldu gagnvart kæranda. Sökum mistaka skólans var rangur samningur lagður fram og samkvæmt honum var kærandi í lánshæfu námi. Þá verður ekki talið að um mistök hafi verið að ræða af hálfu LÍN. Í málinu hafi orðið röð atvika sem gerðu það að verkum að ekki upplýstist að rangur samningur um nám kæranda hafði verið lagður til grundvallar umsókn hans um námslán á vorönn 2015 fyrr en það var of seint fyrir hann að sækja um lán vegna náms á sumarönn. Telur málskotsnefnd að þegar málið sé skoðað í heild verði að fallast á það með kæranda að óviðráðanleg atvik hafa komið í veg fyrir að hann hafi sótt um sumarönn 2015 innan tilskilins frests. Í ljósi þessa telji málskotsnefnd rétt að undanþága verði veitt frá umsóknarfresti námsláns vegna sumarannar 2015 og að litið verði á umsókn kæranda um lán á vorönn sem umsókn um lán á sumarönn 2015 og það afgreitt sem slíkt miðað við skil hans á lánshæfum einingum á önninni.

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun stjórnar LÍN frá 16. október 2015 í máli kæranda er felld úr gildi.

Til baka