Úrskurður
Ár 2016, miðvikudaginn 1. júní, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-1/2016:
Kæruefni
Með kæru dagsettri 8. febrúar 2016 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna frá 14. janúar 2016, þar sem hafnað var beiðni hans um framfærslulán vegna 10 ECTS-eininga á vorönn 2015 vegna náms hans í flugvirkjun við Olympic Air Training (OAT) í Grikklandi. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 12. febrúar 2016 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dagsettu 10. mars 2016 og var afrit þess sent kæranda með tölvupósti dagsettum 11. mars s.á. en þar var kæranda jafnframt veittur fjögurra vikna frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi til stjórnar LÍN dagsettu 20. apríl 2016 óskaði málskotsnefnd frekari gagna og upplýsinga um nám kæranda hjá OAT og skipulag þess. Umbeðnar upplýsingar bárust með bréfi dagsettu 6. maí sem barst málskotsnefnd 10. maí sl. Kæranda voru send þessi gögn með tölvupósti og honum veittur einnar viku frestur til að gera athugasemdir. Kærandi sendi athugasemdir sínar við upplýsingar LÍN með tölvupóstum 13. maí 2016 og voru þær framsendar LÍN. Þann 12. maí óskaði málskotsnefnd síðan eftir nánari upplýsingum frá LÍN um námsferil kæranda. Umbeðnar upplýsingar bárust nefndinni 23. maí og voru sendar kæranda með tölvupósti 25. maí 2016.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi hóf nám í flugvirkjun við Hellenic Aviation Training
Academy (HATA) í Grikklandi á vormisseri 2013. Nám kæranda í HATA var "EASA part
66 full course B1 and B2 combined". B1 er grunngráða í flugvirkjun og B2 er
viðbótargráða í rafvirkjun sem að mati kæranda bauð uppá betri atvinnumöguleika.
Námið er ekki metið sem ECTS-eininganám heldur er það samsett af 13 módúlum (hér
eftir kallað námseiningar) sem eru mislöng. Var námið metið sem 140 ECTS-
eininga nám hjá LÍN. Kærandi hóf námið í janúar 2013 og átti að ljúka því í
desember 2014. HATA missti starfsleyfið og var skólanum lokað 26. febrúar 2014.
Kærandi flutti sig þá yfir í OAT og lauk námi þaðan vorið 2015 í EASA PART 66
B1.1 Full Course en skólinn bauð ekki uppá sameinaða námsleið í B1 og B2 eins
og þá sem kærandi hafði stundað í HATA. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu LÍN er
um að ræða 7 anna diplóma nám í flugvirkjun. Samkvæmt gögnum málsins er B1 námið
samsett úr 13 námseiningum (námseiningar nr. 1-10, 11A, 15 og 17). Mögulegt er
að ljúka einnig B2 námsleið en til þess þurfti kærandi að ljúka tveimur
námseiningum til viðbótar, þ.e. námseiningum nr. 13 og 14. Þegar HATA var lokað
hafði kærandi lokið námseiningum nr. 1-8. Að sögn kæranda hafði hann tekið
einingar 3, 4, 5 og 7 með aukanámsefni vegna fyrirhugaðs B2 náms. Við lokun
skólans átti kærandi stutt eftir til að ljúka námseiningu 11A sem samkvæmt
gögnum málsins er umfangsmesta einingin sem að sögn kæranda skiptist í þriggja
mánaða verklegt nám og þrjá mánuði í bóklegu námi. Nokkurn tíma tók að komast að
hjá OAT og afla samþykkis hjá LÍN vegna lánshæfis skólans og hófu kærandi og
aðrir íslenskir nemendur nám þar í mars. LÍN uppfærði hámarkseiningafjölda vegna
náms umræddra nemenda af þessu tilefni úr 140 ECTS-einingum í 160 ECTS-einingar.
Kærandi hafði eins og aðrir nemendur við HATA fyrirframgreitt skólagjöld vegna
vorannar og fengið til þess lán hjá LÍN. Skólagjöldin fengust ekki endurgreidd
og því féllst LÍN á að nemendur við HATA gætu haldið skólagjaldaláni vegna
vorannar þar sem fyrir lá staðfesting HATA um að kærandi hafi stundað nám á
vorönn áður en skólanum var lokað. Kærandi og aðrir nemendur fengu þessar
einingar hins vegar ekki viðurkenndar hjá OAT og þurftu að endurtaka námseiningu
11A sem hafði staðið yfir frá 26. september 2013 til 26. febrúar 2014 þegar
skólanum var lokað. Af þessu sökum seinkaði námi kæranda fram í febrúar 2015.
Kærandi lauk námseiningum 9, 10, 11A, 15 og 17 hjá OAT. Í lok desember 2014
hafði kærandi fengið námslán vegna 160 ECTS-eininga. Kærandi og þrír aðrir
nemendur fór þess á leit við LÍN að fá námslán á vorönn 2015 vegna 10
námseininga sem þeir töldu sig hafa lokið á þeirri önn. LÍN synjaði kæranda um
lán þar sem ekki voru uppfyllt skilyrði um lágmarksnámsframvindu við námslok sem
var 20 ECTS-einingar, sbr. grein 2.4.7. í úthlutunarreglum 2014-2015. Þá vísaði
stjórn LÍN einnig til þess að kærandi hefði þegar fengið lán sem samsvaraði 160
ECTS-einingum vegna náms sem metið væri ígildi 140 ECTS-eininga.
Sjónarmið kæranda
Kærandi fór þess á leit við stjórn LÍN
að fá greitt framfærslulán vegna náms í janúar og febrúar 2015 vegna lokinna
námseininga sem OAT hefði tilkynnt til LÍN seinni hluta febrúar 2015. Stjórn LÍN
synjaði beiðninni. Í kærunni lýsir kærandi námi sínu hjá HATA sem var EASA part
66 full course B1 and B2 combined. B1 er að sögn kæranda gráða í flugvirkjun en
B2 aukarafmagnsgráða til viðbótar við B1 skírteinið og gæfi hún að sögn kæranda
meiri atvinnumöguleika. Þegar kærandi hafi verið hálfnaður með nám sitt hafi
HATA verið lokað. Eftir rúmlega mánaðar bið hafi kærandi og aðrir íslenskir
nemendur hafið nám hjá OAT eftir að LÍN hafi samþykkt lánshæfi námsins. Námið
hjá OAT var B1 gráða í flugvirkjun. Skólinn bauð ekki upp á nám í sameinuðum
námsgráðum B1 og B2. Þar sem kærandi hafði ekki lokið námseiningu 11A þegar
skólanum var lokað þurfti hann að endurtaka hana. Að sögn kæranda var þetta
umfangsmesta einingin, þrír mánuðir verklegt nám og þrír mánuðir bóklegt. Hann
hafði þó áður fengið skólagjaldalán hjá LÍN vegna þessarar námseiningar sem og
framfærslulán. Kærandi þurfti síðan að endurtaka einingarnar í OAT. Einnig lýsir
kærandi því að þar sem OAT hafi ekki boðið uppá sameinaða gráðu í flugvirkjun og
rafvirkjun (B1 and B2) eins og HATA hafi gert og hafi hann þurft að taka
B2-námsefnið, þ.e. námseiningar 13 og 14, aukalega og borga aukalega fyrir þau
próf. Taldi kærandi sig ekki hafa haft annað val þar sem hann hafi þegar tekið
námseiningar 9, 10, 11, 15 og 17 með viðbótar B2-námsefni og prófum hjá
HATA-skólanum. Í yfirliti frá kæranda yfir námið kemur fram að samtals hafi
klukkustundir í B1-náminu verið 2.468 en auk þess hafi hann áður verið búinn að
sitja 500 klukkustundir í námseiningu 11A þegar HATA hafi verið lokað sem hann
hafi þurft að endurtaka hjá OAT. Hann hafi síðan tekið námseiningar 13 og 14 í
sjálfsnámi. Kærandi bendir á að það "auka" námsefni eða námskeið sem vísað sé
til í upplýsingunum frá LÍN sé ekki neitt auka heldur hafi kærandi ákveðið að
stunda nám hjá HATA af því að sá skóli hafi boðið uppá sameinaðar B1 og B2
gráður. OAT hafi ekki boðið uppá slíka sameinaða gráðu og því hafi hann þurft að
bæta við sig auka áföngum og prófum vegna B2 með tilheyrandi kostnaði. Kærandi
lýsir því að skipulag námsins hafi farið úr skorðum við lokun HATA. Hafi
námsmenn þurft að ná endum saman auk þess sem þeir hafi setið uppi með 5.000
evru skólagjöld frá HATA sem þeir hafi ekki fengið endurgreidd. Hafi þeir þurft
að aðlaga sig að reglum LÍN og OAT auk þess sem skólaganga þeirra hafi lengst.
Lítið hafi verið um aðstoð í þeirra garð og telur kærandi mál sitt vera
réttlætismál. Kærandi vísar til þess að hann hafi valið HATA skólann vegna þess
að hann hafi verið samþykktur hjá LÍN og telur hann að LÍN eigi að taka fulla
ábyrgð á því að skólanum var lokað meðan kærandi var í miðju námi.
Sjónarmið stjórnar LÍN
Í athugasemdum stjórnar LÍN
dagsettum 10. mars 2016 og viðbótarathugasemdum frá 6. maí kemur fram að kærandi
hafi lagt stund á B.1.1-námsleið í flugvirkjun hjá OAT. Námið sé að lágmarki
2.400 klukkustundir sem skiptist á 13 námseiningar. Samkvæmt upplýsingum LÍN sé
við mat á lánshæfi skólans farið eftir uppbyggingu náms samkvæmt námsskrá
skólans og ígildi eininga námsins metið út frá henni. Sé innihald námseininganna
metið til ECTS-eininga á grundvelli tímafjölda er liggi að baki hverri
námseiningu. Miðað sé við að á bak við hverja ECTS-einingu liggi að jafnaði
18-30 klukkustunda vinna. Miðað við lágmarksviðmið (18 klukkustundir) væri námið
við OAT að hámarki 140 ECTS-einingar (133 ECTS). Þá segir einnig að
námseiningarnar séu mislangar og að þær geti dreifst yfir 1-3 misseri. Vegna
þessa séu námslán greidd út á grundvelli vottorða frá skóla um ástundun náms,
þ.e. á grundvelli ástundunareininga, sem sé breytt í loknar einingar þegar
vottorð berist frá skóla um að nemandi hafi staðist áfangann. Misjafnt sé hve
margar einingar nemendur taki og í hvaða tímaröð. Í athugasemdum LÍN segir
einnig að þegar HATA hafi verið lokað hafi stjórn sjóðsins samþykkt að nemendur
þyrftu ekki að endurgreiða skólagjaldalán sem þeir höfðu fengið greidd fyrirfram
enda hafi verið staðfest að þegar greidd skólagjöld fengjust ekki endurgreidd.
Einnig hafi verið samþykkt að hækka hámarkseiningafjölda vegna námsins úr 140
ECTS í 160 ECTS til að hægt væri að greiða námslán til þeirra nemenda sem fluttu
sig yfir til OAT. Þá hafi stjórn LÍN einnig samþykkt að veita kæranda og
samnemendum hans 12 ECTS-eininga framfærslulán byggt á vottorði um ástundun frá
HATA þó að legið hafi fyrir að þeim gæfist ekki kostur á að ljúka umræddum
áfanga hjá HATA. Hafi kærandi því fengið 30 ECTS-eininga vorlán 2014, þar af 12
ECTS-eininga lán vegna eininganna frá HATA (nám í janúar og febrúar 2014) og
vegna 18 ECTS-eininga frá OAT. Í gögnum LÍN kemur fram að kærandi hafi fengið
samtals 160 ECTS-eininga lán vegna námsins sem skiptist á eftirfarandi hátt:
Vor 2013 (HATA) 30 ECTS.
Sumar 2013 (HATA) 20 ECTS.
Haust
2013 (HATA 30 ECTS.
Vor 2014 (HATA) 12 ECTS byggt á ástundun í
janúar-febrúar.
Vor 2014 (OAT) 18 ECTS Sumar 2014 (OAT) 20 ECTS.
Haust 2014 (OAT) 30 ECTS (þar af lán vegna 8 ECTS sem kærandi lauk 13.
febrúar 2016, þ.e. 8 ástundunareiningar.)
Einnig kemur fram í
athugasemdum LÍN að kærandi hafi fengið 30 ECTS-eininga lán á haustönn 2014 en
hafi þó átt ólokið 8 af þessum 30 ECTS-einingum. Hann hafi fengið lán vegna
þessara 8 ECTS-eininga byggt á vottorði OAT um ástundun vegna yfirstandandi
námskeiða sem ekki hafi lokið fyrr en 13. febrúar 2015. Þeim hafi verið breytt í
loknar einingar þegar vottorð hafi borist frá skólanum um að kærandi lokið
námskeiðinu. Að mati LÍN hafi kærandi því þegar verið búinn að fá lán vegna
þessara eininga sem hann lauk í janúar og hluta febrúar 2015. Eins og áður
greinir hafi kærandi lokið námseiningum 1-8 hjá HATA. Í yfirliti OAT frá 25.
ágúst 2014 kemur fram að vor og sumar 2014 hafi kærandi lokið námseiningum 9, 10
og 15 en að námseiningu 11A sem standi yfir muni ljúka um miðjan febrúar 2015.
Kærandi lauk einnig námseiningu 17 þann 13. febrúar 2015. Samkvæmt staðfestingu
frá skólanum þann 20. maí 2015 lauk kærandi B.1.1 náminu þann 13. febrúar 2015.
Í athugasemdum LÍN segir einnig að svo virðist af gögnum skólans að kærandi hafi
jafnframt tekið valáfanga sem ekki veitti nein réttindi.
Niðurstaða
Kærandi hefur farið þess á leit að hann fái námslán vegna
námsárangurs sem OAT tilkynnti til LÍN í lok febrúar 2015. Í kærunni kemur
einnig fram að kærandi telji að ekki hafi verið komið til móts við þarfir hans
þegar hann færði sig til OAT þegar HATA var lokað vorið 2014. Samkvæmt 1. gr.
laga nr. 2/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna er hlutverk hans að tryggja þeim
er falla undir lögin tækifæri til náms án tillits til efnahags. Í 2. mgr. 1. gr.
laganna segir að sjóðurinn veiti lán til framhaldsnáms við skóla sem gera
sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og gerðar eru til háskólanáms
hérlendis. Í 2. gr. laganna kemur síðan fram að LÍN er "heimilt að veita öðrum
námsmönnum námslán en þeim sem falla undir skilgreiningu 2. mgr. 1. gr. enda
stundi þeir sérnám" og að stjórn sjóðsins setji "nánari reglur um til hvaða
sérnáms skuli lánað". Nánar er kveðið á um skilyrði fyrir veitingu námslána í 6.
gr. laganna er þar segir í 1. málsgrein að námslán skuli "aldrei veitt fyrr en
námsmaður hefur skilað vottorði um tilskilda skólasókn og námsárangur." Í 2.
mgr. 6. gr. kemur fram að námsmaður "skal að jafnaði hafa heimild til að taka
lán á hverju misseri meðan hann er við nám, þó ekki lengur en hæfilegur námstími
er talinn í þeirri grein og í þeim skóla þar sem nám er stundað." Ennfremur
segir í 3. mgr. 6. gr. að námslán skuli ekki veitt nema námsframvinda sé með
eðlilegum hætti, sbr. úthlutunarreglur sjóðsins vegna skólaársins 2014-2015,
grein 2.2 en þar segir í 1. mgr.:
2.2. Lánshæfar einingar
Til
að eiga rétt á námsláni þarf námsmaður að ljúka að lágmarki 22 ECTS-einingum eða
ígildi þeirra á hverju misseri eða samsvarandi hlutfalli á önn í fjórðungaskólum
í einum námsferli. Einungis er heimilt að veita lán til náms í tveimur eða
fleiri námsferlum á sömu önn ef námsmaður er að ljúka grunnháskólanámi og hefur
fengið leyfi skóla til að hefja meistaranám í sama fagi. Sama gildir þegar
námsmanni er gert af skóla að bæta við sig námskeiðum í lánshæfu
grunnháskólanámi samhliða meistaranámi. Þessi heimild er háð því að námsmaður
hafi ekki áður fullnýtt svigrúm sitt til námslána skv. gr. 2.3.
Framangreindar reglur um námsframvindu, sbr. 1. mgr. 6. gr., gera ráð
fyrir að námsmaður þurfi að sýna fram á tiltekin lágmarksafköst í námi. Þau
viðmið sem LÍN hefur sett í úthlutunarreglunum byggja á hefðbundnu skipulagi
náms sem telur annað hvort tvö 30 ECTS-eininga-misseri og eftir atvikum 20
einingar á sumarönn eða fjórðungsannir sem samanstanda af haustönn, vetrarönn og
vorönn og eftir atvikum sumarönn, sem allar eru 20 ECTS-einingar. Koma þessi
viðmið fram í skilgreiningu á helstu hugtökum í úthlutunarreglum sem LÍN gefur
út. Eins og fram er komið samanstendur flugvirkjanám kæranda af 13 námseiningum,
1-10, 11A, 15 og 17. Þegar svo stendur á metur LÍN námið til ECTS-eininga og er
miðað við að 18-30 klukkustundir séu að baki hverri ECTS-einingu. Samkvæmt
upplýsingum skólans þarf nemandi að skila að lágmarki 2.400 klukkustundum í
náminu. Að sögn kæranda skilaði hann 2.468 klukkustundum alls. LÍN mat nám
kæranda til 140 ECTS-eininga. Kærandi stundaði sjálfsnám vegna námseininga 13 og
14 sem ekki voru hluti af B.1.1 gráðu hans. Miðað við framangreindar kröfur
skilaði kærandi 17,5 klukkustundum fyrir hverja ECTS-einingu í B.1.1 námi sínu.
Þegar tekið er tillit til þess að LÍN bætti við 20 ECTS-einingum þegar kærandi
og samnemendur hans færðu sig til OAT er einungis krafist 15,5 klukkustunda
fyrir hverja ECTS-einingu, en u.þ.b. 18,5 klukkustundir ef tekið er tillit til
þess að kærandi þurfti að endurtaka meginhluta námseiningar 11A hjá OAT. Kærandi
hefur vísað til þess að LÍN hafi samþykkt HATA skólann og beri því að taka fulla
ábyrgð á afleiðingum þess að skólanum hafi verið lokað í miðju námi kæranda. Af
þessu tilefni tekur málskotsnefnd fram að samkvæmt lögum nr. 21/1992 um lánasjóð
íslenskra námsmanna setur stjórn sjóðsins reglur um til hvaða sérnáms skuli
lánað. Í grein 1.3.2 í úthlutunarreglum LÍN 2013-2014 og 2014-2015 kemur fram að
LÍN sé heimilt að veita námslán vegna sérnáms erlendis. Þar segir að lánshæfi
sérnáms sé háð því að um sé að ræða skóla viðurkennda af menntamálayfirvöldum í
viðkomandi landi, námið sé skipulagt sem a.m.k. eins árs sérnám og sé nægilega
veigamikið að mati stjórnar sjóðsins hvað varðar uppbyggingu, inntökuskilyrði og
starfsréttindi. Samkvæmt þessu er ekki gert ráð fyrir að LÍN samþykki hvern
skóla fyrir sig heldur treysti á viðurkenningu yfirvalda í viðkomandi ríki.
Tekur mat og samþykki LÍN aðeins til þess hvort skipulag viðkomandi náms gefi
tilefni til að veita námslán vegna þess. Er því ekki fallist á kröfur kæranda um
ábyrgð LÍN vegna lokunar skólans. Kærandi hefur farið þess á leit að fá 10
ECTS-eininga lán vegna námsárangurs sem OAT sendi LÍN í lok febrúar 2015. Í
upplýsingum frá LÍN dagsettum 6. maí sl. kemur fram að kærandi hafi átt rétt á
22 ECTS-eininga láni á haustönn 2014 vegna námsárangurs sem OAT hafði áður sent
LÍN. Til viðbótar fékk kærandi lán vegna 8 ECTS-eininga námskeiða sem OAT hafði
upplýst LÍN um að kærandi myndi ljúka um miðjan febrúar 2015. Kærandi hafði því
þegar fengið námslán vegna 8 af þeim 10 ECTS-einingum sem hann óskaði eftir við
LÍN. Réttur kæranda til námsláns vegna B.1.1 námsins var einnig uppurinn þar sem
hann hafði fengið lán vegna samtals 160 ECTS-eininga. Samkvæmt reglum LÍN getur
námsmaður ekki fengið lán umfram einingaskil nema sérstök undanþáguákvæði
úthlutunarreglnanna eigi við, s.s. vegna veikinda. Ljóst er að svo er ekki í
tilviki kæranda. Miðað við framangreint verður ekki annað séð en að LÍN hafi með
sanngjörnum hætti komið til móts við kæranda vegna þeirra tafa í námi sem hann
varð fyrir þegar hann þurfti að færa sig yfir til OAT. Er kröfum kæranda hafnað
og hin kærða ákvörðun stjórnar LÍN staðfest.
Úrskurðarorð
Hinn kærða ákvörðun frá 14. janúar 2016 í máli kæranda er staðfest.