Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-32/2015 - Útreikningur námslána - beiðni um að skólagjöld umfram hámark dragist frá tekjum

Úrskurður

 

Ár 2016, miðvikudaginn 15. júní, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-32/2015:

 

Kæruefni

 

Með kæru 21. desember 2015 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna frá 16. september 2015, þar sem hafnað var beiðni hans um að öll skólagjöld sem hann greiddi skólaárið 2015-2016 kæmu til frádráttar tekjum hans við útreikning námslána hans fyrir skólaárið. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 22. desember 2015 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dagsettu 19. janúar 2016 og var afrit þess sent kæranda 20. sama mánaðar, þar sem kæranda var veittur fjögurra vikna frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda. Þann 1. júní 2016 óskaði málskotsnefnd eftir nánari upplýsingum frá LÍN um nám kæranda, tekjur og útreikning námslán hans. Umbeðnar upplýsingar bárust með bréfi LÍN dagsettu 6. júní 2016. Var bréf LÍN framsent kæranda 8. júní 2016.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi stundar meistaranám í lögfræði við Leiden-háskólann í Hollandi skólaárið 2015-2016. Um er að ræða fullt nám í 12 mánuði alls 80 ECTS-einingar. Kærandi sótti um námslán hjá LÍN fyrir námsárið og fékk samþykkt lán á hausmisseri 2015, en var synjað um lán á vormisseri 2016, þar sem hann hafði þá fullnýtt lánsheimild sína í meistaranámi, sbr. grein 2.3.2 í úthlutunarreglum sjóðsins 2015-2016. Kærandi óskaði þá eftir því að skólagjöld sem hann hafði greitt á skólaárinu 2015-2016 kæmu tekjum hans til frádráttar þannig að hann fengi hærri lánafyrirgreiðslu haustið 2015. Fram kemur hjá LÍN að skólagjöld kæranda skólaárið 2015-2016 hafi numið 19.000 evrum, sem hafi verið skipt jafnt á hvora önn þar sem námsárinu sé skipt í haust- og vorönn samkvæmt skipulagi skólans. Þar sem kærandi hafi aðeins átt rétt á hluta skólagjalda á haustönn vegna takmarkana sem fram koma í grein 4.5 í úthlutunarreglum LÍN hafi heildargreiðsla til hans á haustönn numið 4.120 evrum. Hafi sá hluti skólagjalda hans á haustönn sem hann átti ekki rétt á, þ.e. 4.872 evrur, komið til frádráttar tekjum hans vegna ársins 2015 (9.500 evrur - 508 evrur (sjálfsfjármögnun) - 4.120 evrur = 4.872 evrur). Með því fékk kærandi hærri lánafyrirgreiðslu á haustönn 2015. Frekari frádrætti frá tekjum kæranda, þ.e. vegna 9.500 evra skólagjalda á vorönn, var hafnað. Kærandi mótmælti framangreindri afgreiðslu og óskaði eftir því að öll skólagjöld skólaársins 2015-2016 kæmu til frádráttar tekjum hans, en ekki einungis sá hluti sem LÍN eyrnamerkti haustönninni. 

Sjónarmið kæranda 

Kærandi byggir á því að í úthlutunarreglum LÍN komi hvergi fram að skipta beri skólagjöldum niður á annir með þeim hætti sem LÍN gerði. Í grein 3.4.4 í úthlutunarreglum sjóðsins segi að til frádráttar tekjum við útreikning á láni eigi að koma: 

a) skólagjöld sem námsmaður fær ekki lánað fyrir vegna þess að hann hefur nýtt skólagjaldarétt sinn skv. gr. 4.5 og b) föst afborgun námsláns sem til fellur og greidd er á aðstoðartímabilinu. 

Skólagjöld kæranda hafi numið 19.000 evrum og hann hafi aðeins fengið lánað fyrir 4.120 evrum og því sjálfur þurft að greiða mismuninn, 14.880 evrur. Kærandi kveðst hafa gengið út frá því þegar hann innritaði sig í skólann að þessi útgjöld kæmu tekjum hans til frádráttar við útreikning á láni líkt og úthlutunarreglur kvæðu á um. Kærandi hafnar því að LÍN sé heimilt að skipta skólagjöldunum niður á námsárið og með því útiloka að helmingur þeirra, sem skráður sé á vorönn 2016, komi tekjum hans til frádráttar. Skólagjöldin skiptist ekki niður á annir heldur séu fyrir skólaárið í heild og séu óafturkræf ef hann hættir námi. Í úthlutunarreglum LÍN komi hvergi fram að frádrátturinn skiptist niður á annir. Ef að það væri raunin þá ættu tekjur námsmanna, sem geta haft áhrif á veitta aðstoð á skólaárinu, að skiptast jafnt á milli anna en kærandi fullyrðir að það geri þær ekki. Kærandi hafnar þeirri túlkun LÍN á grein 3.4.4 að hún veiti aðeins heimild til frádráttar frá tekjum á þeim grundvelli að námsmaður hafi fullnýtt skólagjaldarétt sinn samkvæmt grein 4.5, en ekki vegna þess að svigrúm til námslána hafi veri fullnýtt samkvæmt kafla 2.3 í úthlutunarreglum sjóðsins. Tilgangur ákvæðisins hljóti að vera sá að tekið sé tillit til kostnaðar (skólagjalda) sem námsmaður leggur sjálfur út fyrir vegna námsins, hver svo sem ástæðan sé fyrir því. Ákvæðið fjalli eingöngu um tekjuskerðingu en ekki rétt til skólagjalda. Hafi námsmaður lagt út fyrir skólagjöldum sem ekki er lánað fyrir þá sé eðlilegt að tekið sé tillit til þess enda sannanlega um skerðingu á ráðstöfunartekjum að ræða. Þess vegna sé eðlilegt að ef seinni önnin sé ekki lánshæf að öll skólagjöldin sem ekki sé lánað fyrir komi til frádráttar frá tekjum fyrri önnina. Telur kærandi reglrunar skýrar hvað þetta varðar og að ákvörðun stjórnar LÍN eigi sé enga stoð í lögum. 

Sjónarmið stjórnar LÍN 

Í athugasemdum stjórnar LÍN segir að í 8. mgr. greinar 4.5 í úthlutunarreglum LÍN komi fram að heimilt sé að greiða út lán vegna skólagjalda fyrir eina önn við upphaf námstímabils til annarra námsmanna en fyrsta ár nema, fyrir aðra önn að loknum 22 ECTS-einingum og fyrir þriðju önn að loknum 44 ECTS-einingum. Samkvæmt þessari reglu séu skólagjaldalán veitt fyrir hverja önn. Námsárið í námi kæranda skiptist í tvær annir og þess vegna hafi skólagjöldum vegna námsins verið skipt í tvennt. Kærandi hafi aðeins átt svigrúm til námsláns vegna framfærslu á haustmisseri 2015, en ekki á vormisseri 2016 og því aðeins átt rétt til skólagjaldaláns fyrir helming skólagjalda á skólaárinu, óháð því hámarki skólagjaldalána sem fjallað er um í grein 4.5 í úthlutunarreglum sjóðsins. Þessi skipting skólagjalda niður á misseri eða annir sé ekki valkvæð og fari alltaf eftir skipulagi skólans. Skiptingin sé jafnframt óháð því hvenær nemandinn sjálfur þufi að standa skil á skólagjöldum gagnvart skóla. Stjórn LÍN bendir á að ákvæði greinar 3.4.4 í úthlutunarreglum LÍN 2015-2016 veiti heimild til að draga frá tekjum skólagjöld sem námsmaður fær ekki lánað fyrir þar sem hann hafi fullnýtt skólagjaldalánsrétt sinn í því námi sem hann stundar samkvæmt grein 4.5 í úthlutunarreglunum. Samkvæmt greininni sé á hinn bóginn ekki heimilt að draga frá tekjum skólagjöld sem námsmaður á ekki rétt á af öðrum ástæðum, svo sem ef viðkomandi námsmaður stundar nám sem ekki er lánshæft hjá sjóðnum eða hefur fullnýtt svigrúm sitt til námslána, sbr. grein 2.3 í fyrrgreindum reglum sjóðsins. Greinin veiti því ekki heimild til þess við útreikning á framfærslu haustið 2015 að draga frá tekjum kæranda skólagjöld sem hann hefur greitt vegna náms sem ekki var lánshæft á vormisseri 2016. Kærandi eigi á vormisseri 2016 hvorki rétt á námslánum til framfærslu né skólagjalda. Hann eigi því ekki rétt á því að skólagjöld sem tilheyri vormisseri 2016 komi til frádráttar við útreikning á lánum hans á haustmisseri 2015. Fram kemur hjá LÍN að samkvæmt grein 3.3.1 í úthlutunarreglum sjóðsins skuli frádrætti á útreiknað námslán að jafnaði dreift á 60 ECTS-einingar, þ.e. fullt nám í eitt skólaár. Loks bendir stjórn LÍN á að kærandi hafi þegar fengið dregið frá tekjum sínum mismuninn á þeim skólagjöldum sem hann greiddi fyrir haustönn 2015 og þeim skólagjöldum sem hann fékk lánað fyrir á sömu önn. Kærandi eigi því ekki rétt á frekari frádrætti frá tekjum.

 

Niðurstaða

 

Kærandi hóf skólaárið 2015-2016 meistaranám í háskóla í Hollandi eftir námshlé. Hann átti vegna fyrri lánafyrirgreiðslu LÍN aðeins rétt á láni fyrir 24 ECTS-einingum og hafði þá fullnýtt þá lánsheimild í meistaranámi sem hann átti samkvæmt grein 2.3.2 í úthlutunarreglum LÍN. Af því leiddi að kærandi fékk aðeins framfærslulán á haustönn 2015, en ekki á vorönn 2016. Kærandi sótt um lán vegna skólagjalda, sem á námsárinu námu samtals 19.000 evrum. LÍN skipti skólagjöldunum til helminga á haustönn og vorönn þar sem námsárinu var skipt upp í tvö misseri samkvæmt skipulagi skólans. Voru því 9.500 evru skólagjöld skráð á haustmisseri. Kærandi átti aðeins rétt 4.120 evru láni vegna skólagjaldanna þar sem samanlögð heildarupphæð skólagjaldalána til hans í öllum námsferlum hafði náð hámarki samkvæmt grein 4.5 í úthlutunarreglum LÍN. Það sem ekki fékkst lánað fyrir, 4.872 evrur, kom til frádráttar tekjum hans vegna ársins 2015 í samræmi við ákvæði 3.4.4 í úthlutunarreglum LÍN. Kærandi krefst þess að öll skólagjöld hans á árinu 2015-2016 sem ekki var lánað fyrir, þ.e. 14.372 evrur (19.000-4.120-508 (sjálfsfjármögnun)) komi tekjum hans til frádráttar við útreikning á framfærsluláni haustannar 2015. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga um LÍN nr. 21/1992 ber að miða við að námslán nægi hverjum námsmanni til að standa straum af náms- og framfærslukostnaði meðan á námi stendur að teknu tilliti til fjölskyldustærðar hans. Í 3. mgr. lagagreinarinnar segir að stjórn sjóðsins setji nánari ákvæði um úthlutun námslána. Það gerir LÍN með árlegum úthlutunarreglum sem staðfestar eru af ráðherra og birtar í Stjórnartíðindum. Samkvæmt grein 4.1 í úthlutunarreglum LÍN 2015-2016 skal aðstoð til námsmanna taka almennt mið af aðstæðum þeirra, fjölskyldustærð og búsetu. Þeir námsmenn sem uppfylla skilyrði LÍN til þess að fá lán til framfærslu eiga rétt á láni sem nemur grunnframfærslu, sbr. grein 3.1 í reglum sjóðsins. Í grein 3.3 er fjallað um það að tekjur námsmanns, og maka ef því er að skipta, geti haft áhrif á veitta aðstoð á skólaárinu og að 45% tekna námsmanns á árinu 2015 umfram hámark sem þar greinir komi til frádráttar námsláni. Til frádráttar tekjum komi hins vegar skólagjöld sem námsmaður fær ekki lánað fyrir vegna þess að hann hefur nýtt skólagjaldalánsrétt sinn samkvæmt grein 4.5, sbr. grein 3.4.4. Í grein 3.3.1 í úthlutunarreglunum segir að frádrætti á útreiknað námslán vegna tekna skuli að jafnaði dreift á 60 ECTS-einingar, þ.e. á fullt nám í eitt skólaár, sbr. grein 2.1. Samkvæmt þessu ber að dreifa tekjuskerðingunni jafnt á 60 ECTS-einingar yfir skólaárið. Í málinu er upplýst að kærandi var með 4.553.715 kr. í tekjur á árinu 2015. Samkvæmt grein 3.3.1 í úthlutunarreglum LÍN, sbr. grein 3.3.2, nam frítekjumark hans 2.790.000 kr. þar sem hann kom úr námshléi. Þá kom til frádráttar tekjum hans afborgun námsláns að fjárhæð 127.270 kr., sem til féll og greidd var á aðstoðartímabilinu, sbr. grein 3.4.4. Loks bar að draga frá tekjum kæranda skólagjöld sem hann fékk ekki lánað fyrir, sem óumdeilt er að námu 4.872 evrum (719.789 kr.) á hausmisseri 2015 miðað við að þeim sé skipt jafnt í tvennt á skólaárið. Samkvæmt þessu námu tekjur kæranda til lækkunar á námsláni 916.656 kr. (4.553.715-2.790.000-127.270-719.789) og er frádrátturinn síðan 45% af þeim tekjum, sbr. grein 3.3.1. Eins og að framan er rakið ber samkvæmt úthlutunarreglum LÍN að dreifa tekjufrádrætti á námslán á 60 ECTS-einingar, þ.e. yfir allt námsárið. Til skerðingar á láni kæranda komu 45% af 916.656 kr. tekjum hans, þ.e. 412.496, sem dreift skyldi jafnt á 60 ECTS-einingar. Í samræmi við það komu samkvæmt upplýsingum LÍN 158.123 kr. (412.496 x 23/60) til frádráttar láni kæranda á hausmisseri 2015. Af því er ljóst að á haustmisseri 2015 kom aðeins hluti af þeim tekjum kæranda, sem voru umfram frítekjur, námsláni hans til frádráttar. Tekjuskerðingin kom því ekki öll fram á haustmisseri 2015 eins og kærandi heldur fram. Styðst þessi framkvæmd við grein 3.3.1 í úthlutunarreglunum en stjórn LÍN vísaði þó ekki til þess ákvæðis í rökstuðningi sínum. Var rökstuðningi stjórnar LÍN áfátt að þessu leyti. Að áliti málskotsnefndar var niðurstaða LÍN í máli kæranda í samræmi við úthlutunarreglur sjóðsins og ber því að staðfesta ákvörðun stjórnar hennar.

 

Úrskurðarorð

 

Hinn kærða ákvörðun stjórnar LÍN frá 16. september 2015 í máli kæranda er staðfest.

 
Til baka