Úrskurður
Ár 2016, miðvikudaginn 10. ágúst kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-4/2016.
Kæruefni
Með kæru sem barst málskotsnefnd þann 2. mars 2016 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 17. febrúar 2016 þar sem hafnað var beiðni kæranda um undanþágu frá fresti til að skila gögnum um leigugreiðslur á árinu 2014. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 4. mars 2016 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 30. mars 2016 og var afrit þess sent kæranda og henni jafnframt gefinn frestur til að koma að athugasemdum sínum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda. Með tölvupósti dagsettum 29. júní óskaði málskotsnefnd eftir frekari upplýsingum frá kæranda. Umbeðnar upplýsingar bárust nefndinni 7. og 8. júlí og voru þær framsendar LÍN 18. júlí 2016. Málskotsnefnd óskaði einnig frekari upplýsinga frá LÍN og bárust þær 20. júlí 2016.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi sótti um og fékk afgreitt námslán vegna haustannar
2014. Fjárhæð námsláns til kæranda byggði á upplýsingum hennar um að hún væri í
leiguhúsnæði. Fram kemur í gögnum málsins að LÍN sendi kæranda eftirfarandi bréf
þar sem þess var farið á leit að hún skilaði tilskildum gögnum vegna
leigugreiðslna: 6. mars 2015. Óskað er m.a. eftir upplýsingum um leigugreiðslur.
Kæranda leiðbeint um að hægt sé að gefa upp leigugreiðslur í skattframtali á
skattur.is eða fylla út sérstakan greiðslumiða RSK. Fram kemur í bréfi LÍN að ef
ekki berist staðfesting á leigugreiðslum sé heimilt að líta svo á að viðkomandi
hafi verið í leigulausu húsnæði og endurreikna lánsfjárhæð samkvæmt því. 7. maí
2015. LÍN sendir kæranda bréf um greiðslumiða vegna húsaleigu. 17. nóvember
2015. Almennt dreifibréf LÍN þar sem m.a. er vakin athygli á að skila þurfi
gögnum vegna námsársins 2014-2015 fyrir 15. janúar 2016. 18. nóvember 2015. LÍN
sendir kæranda bréf um ofgreitt námslán kr. 300.032 sem henni beri að
endurgreiða. Fram kemur að skilafrestur sé til 9. desember 2015 og að fyrsta
afborgun verði 1. janúar 2015. 28. desember 2015. LÍN sendir kæranda bréf um
ofgreitt námslán, lokun á skuldabréfi og innheimtuaðgerðir. LÍN bendir kæranda á
að hafa samband við sjóðinn í síðasta lagi 7. janúar 2016 til að gera upp hið
ofgreidda lán eða gera athugasemdir við tilgreinda námslokadagsetningu. 11.
janúar 2016. LÍN sendir kæranda innheimtuviðvörun. Í gögnum málsins kemur fram
að kærandi sendi tölvupóst til leigusala 27. júlí og 6. ágúst 2015 og fékk
upplýsingar um leigugreiðslur. Kærandi sendi gögnin með tölvupósti til LÍN 15.
janúar 2016. LÍN synjaði beiðni kæranda um að taka gögnin til greina með vísan
til þess að þau hefðu ekki borist innan tilskilins frests. Kærandi bar mál sitt
undir stjórn LÍN með bréfi þess efnis 3. febrúar 2016. Kom fram í erindi hennar
að hún hafði talið sig hafa áframsent gögnin til LÍN þegar hún fékk þau frá
leigusala sínum. Einnig hafi hún talið að ekki þyrfti að skila þessum gögnum inn
ef skattframtali hafi verið skilað. Bókari hafi skilað inn framtali hennar og
því hafi hún talið að það hefði borist í tæka tíð til LÍN. Stjórn LÍN hafnaði
beiðni kæranda með ákvörðun sinni þann 17. febrúar 2016. Byggði stjórnin á því
að samkvæmt grein 5.2.1 í úthlutunarreglunum skyldi lánveitingum vegna
námsársins 2014-2015 vera lokið fyrir 15. janúar 2016. Umbeðin gögn kæranda
hefðu ekki borist fyrir þann frest. Væri erindi kæranda því synjað.
Sjónarmið kæranda.
Kærandi fer þess á leit að beiðni
hennar um undanþágu frá fresti til að skila gögnum verði endurmetin. Í erindi
kæranda segir að hún hafi talið að upplýsingar um leigugreiðslur hefðu borist
LÍN í gegnum skattframtal sem skilað hafi verið innan tilskilins frests af
bókara. Þegar hún hafi fengið bréf LÍN um að upplýsingar vantaði hafi hún þegar
sent tölvupóst á leigusala og síðan áframsent á LÍN. Hafi hún ekki verið í vafa
um að hún væri búin að senda gögnin en þau hafi því miður ekki borist LÍN vegna
villu í póstþjóni. Þegar frekari bréf hafi borist frá LÍN hafi kærandi talið að
innsend gögn hefðu ekki verið nægjanleg og hafi hún því aftur sent beiði til
leigusala um að senda ítarlegri gögn um leigu sem hún hafi sent til LÍN.
Einhverra hluta vegna hafi sá póstur endað í "drafts" hjá henni og finni hún
ekki upplýsingar um að pósturinn hafi verið sendur LÍN. Þegar kærandi hafi síðan
fengið kröfu í heimabankann hafi hún haft samband við LÍN og beðið um að þetta
yrði kannað hafi komið í ljós að engin gögn hefðu borist. Kærandi hafi síðan
sent gögnin til LÍN 15. janúar 2016 en þá hafi fresturinn verið liðinn. Ef ekki
sé vilji eða geta til að leysa málið fer kærandi þess á leit að krafan verði
tekin úr innheimtu og henni gefið færi á að semja við LÍN um greiðslur. Í
viðbótarupplýsingum sem málskotsnefnd óskaði frá kæranda kemur fram að
skattframtali var skilað 6. maí 2015. Kærandi skilaði þó ekki sérstökum
greiðslumiða vegna leigugreiðslna og gaf ekki upp leigugreiðslur í framtali
undir "Skráning". Kærandi bendir hins vegar á að í framtali hennar komi fram
upplýsingar um húsaleigubætur.
Sjónarmið stjórnar LÍN
Í
athugasemdum stjórnar LÍN kemur fram að samkvæmt grein 5.2.1 í úthlutunarreglum
LÍN skuli lánveitingum vegna námsársins 2014-2015 lokið fyrir 15. janúar 2016.
Kærandi hefði ekki skilað tilskildum gögnum til sjóðsins fyrr en eftir að
frestur til þess rann út. LÍN hafi áður sent kæranda tilkynningar á netfang sem
hún hafi gefið upp og m.a. leiðbeint henni um að hún gæti skilað þessum gögnum
gegnum skattframtal. Í framhaldinu hafi LÍN sent kæranda fleiri tölvupósta þar
sem hún hafi verið minnt á gagnaskil og að lokum endurgreiðslubréf vegna
ofgreidds láns. Hafi henni verið gefinn lokafrestur til 7. janúar til að gera
upp hið ofgreidda lán. Engar athugasemdir hafi hins vegar borist frá kæranda og
hafi henni því verið tilkynnt um lokun skuldabréfsins þann 11. janúar 2016.
Bendir LÍN á að það hafi verið á ábyrgð kæranda að gæta að því að umrædd gögn
skiluðu sér til sjóðsins. Kærandi hafi fengið afgreidd lán vegna haustannar 2014
en ekki skilað nauðsynlegum gögnum fyrir lokafrest þrátt fyrir ítrekaðar
ábendingar þar um og því hafi námslánið verið endurkrafið sem ofgreitt lán, sbr.
grein 5.7.4. í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2014-2015. Niðurstaða
stjórnar LÍN í máli kæranda hafi verið í samræmi við lög og reglur og einnig í
samræmi við sambærilegar ákvarðanir stjórnar LÍN og málskotsnefndar. Fer stjórn
LÍN þess á leit að málskotsnefnd staðfesti ákvörðun stjórnar í máli kæranda. Í
tilefni af upplýsingum kæranda um að húsaleigubætur komi fram í skattframtali
hefur stjórn LÍN upplýst að sjóðurinn hafi ekki aðgang að upplýsingum um
húsleigubætur í skattframtali.
Niðurstaða
Í grein 5.1.3 í úthlutunarreglum LÍN kemur fram að LÍN skuli tilkynna námsmanni tímanlega um þau gögn sem honum beri að skila. Fylgiskjöl vegna umsókna þurfi að berast sjóðnum eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að þeirra var óskað. Geri hann það ekki sé LÍN heimilt að líta svo á að námsmaður hafi fallið frá umsókn sinni. Samkvæmt grein 5.2.1 í úthlutunarreglum LÍN skyldi lánveitingum vegna námsársins 2014-2015 vera lokið fyrir 15. janúar 2016, eins og fyrr greinir. Í lögum um LÍN og úthlutunarreglum sjóðsins er ekki að finna heimild til þess að afgreiða námslán eftir að frestur til að senda þær upplýsingar sem LÍN hefur óskað er liðinn. Það er sérstaklega tekið fram í 4. mgr. greinar 5.2.1 í úthlutunarreglunum að eftir lokun námsársins séu ekki afgreidd lán vegna þess og ekki sé lengur heimilt að gera athugasemdir við afgreiðslu námsláns á námsárinu. Þegar kærandi sendi upplýsingar um leigutekjur var umræddur frestur liðinn. Það er álit málskotsnefndar að það sé mikilvægt að festa ríki um þá fresti sem námsmönnum eru settir og að almennt beri að vísa frá erindum sem berast að liðnum fresti nema í undantekningartilvikum, s.s. þegar tekst að sanna að um sé að ræða óviðráðanleg atvik eða mistök hjá LÍN. Slíkt er ekki í tilviki kæranda. Hún skilaði ekki þeim gögnum með skattframtali sem LÍN hafði leiðbeint henni um og hafði sjóðurinn því ekki neinar upplýsingar um leigugreiðslur hennar. Þá hafði sjóðurinn ekki aðgang að upplýsingum um húsaleigubætur. og hafði ítrekað sent kæranda áminningar um skil á þessum gögnum auk viðvarana um ofgreitt lán og innheimtu ofgreidds láns. Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða málskotsnefndar að lögmæt sjónarmið hafi legið til grundvallar synjun stjórnar LÍN á beiðni kæranda. Að þessu virtu er hin kærða ákvörðun stjórnar LÍN staðfest.
Úrskurðarorð
Ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda frá 17. febrúar 2016 er staðfest.