Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-08/2016 - Umsóknarfrestur og útborgun Synjun um undanþágu frá umsóknarfresti

Úrskurður

 

Ár 2016, miðvikudaginn 10. ágúst, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-8/2016:

 

Kæruefni

 

Með kæru dagsettri 12. apríl 2016 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 17. febrúar 2016 þar sem hafnað var beiðni hennar um undanþágu frá umsóknarfresti vegna umsóknar um námslán á haustönn 2015. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu þann sama dag og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dagsettu 12. maí 2016 og var afrit þess sent kæranda með bréfi 17. maí 2016, en þar var kæranda jafnframt gefinn 4 vikna frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi stundaði nám við Tækniskólann og var síðasta námsönn hennar haustönn 2015. Hún sótti um námslán til LÍN 1. september 2015 í gegnum einkasvæði sitt á heimasíðu LÍN, svokallað "mitt svæði". Í kærunni kveðst kæranda hafa fyrir mistök merkt við reit 2016 í stað 2015. Hún kveðst þó fullviss um að hafa merkt við 2015 enda hafi haustönn 2015 verið síðasta námsönn hennar. Í staðfestingarbréfi LÍN til kæranda þann 1. september 2015 kemur fram að sótt hafi verið um námslán fyrir vor á skólaárinu 2015-2016. Þann 1. desember 2015 áttaði kærandi sig á því að hún hefði gert mistök við umsókn og sendi stjórn LÍN bréf þar sem hún fór þess á leit að ný umsókn um lánveitingu vegna haustannar 2015 yrði samþykkt en að umsókn um lán á vorönn 2016 yrði felld niður. Stjórn LÍN synjaði beiðni kæranda um lán á haustönn 2015 með ákvörðun sinni 17. febrúar 2016 þar sem umsókn hennar hefði þurft að berast sjóðnum fyrir 30. nóvember 2015, sbr. grein 5.1.2 í úthlutunarreglum LÍN fyrir námsárið 2015-2016. 

Sjónarmið kæranda 

Kærandi kveðst hafa sótt um námslán til LÍN þann 1. september 2015 og hafi hún fyrir mistök merkt við árið 2016 í stað 2015. Þó kveðst kærandi þess fullviss að hafa merkt við árið 2015 enda hafi haustönn 2015 verið síðasta námsönn hennar. Því hafi ekki verið nein rök fyrir því að kærandi sendi inn umsókn fyrir vorönn 2016. Þann 1. desember 2015 hafi kærandi farið að grennslast fyrir um námslán sín og áttað sig á mistökunum. Í kærunni vísar kærandi til sanngirnissjónarmiða og að gera verði þá kröfu að móttakandi umsóknar yfirfari innsendar umsóknir. Í kærunni segir að ef LÍN hefði yfirfarið umsókn kæranda þá hefði þessi leiðinlegi misskilningur komið í ljós þar sem kærandi hafi útskrifast úr námi sínu á árinu 2016. Þó mikið hagræði sé af því að taka á móti umsóknum í gegnum netið verði að gera þá kröfu að umsóknir séu yfirfarnar enda slíkt mikilvægt fyrir námsmenn sem reiði sig á námslán til að standa straum af kostnaði vegna náms. 

Sjónarmið stjórnar LÍN 

Í athugasemdum stjórnar LÍN kemur fram að kærandi hafi sótt um námslán í gegnum heimasíðu LÍN 1. september 2015. Hafi kærandi sótt um 30 ECTS-eininga-lán vegna vorannar 2016. Í framhaldinu hafi verið sent staðfestingarbréf á netfang kæranda þar sem tiltekið hafi verið "Sótt hefur verið um námslán fyrir misserin vor fyrir skólaárið 2015-2016." Kærandi hafi ekki gert neinar athugasemdir við þetta. Samkvæmt úthlutunarreglum LÍN námsárið 2015-2016 þurfi umsókn vegna náms haustið 2015 að berast eigi síðar en 30. nóvember 2015. Sjóðurinn hafi í undantekningartilvikum fallist á undanþágur frá umsóknarfresti á grundvelli lögmætra sjónarmiða, s.s. þegar fyrir liggi að mistök hafi orðið hjá LÍN eða óviðráðanleg atvik hafi valdið því að námsmaður sótti ekki um fyrr en eftir tilskilinn frest. Hvorugt eigi við í máli kæranda. Stjórn LÍN kveður niðurstöðu í máli kæranda í samræmi við lög og reglur og í samræmi við sambærilegar ákvarðanir stjórnar LÍN og málskotsnefndar. Fer stjórn LÍN fram á að ákvörðun hennar frá 17. febrúar 2016 í máli kæranda verði staðfest.

 

Niðurstaða

 

Samkvæmt grein 5.1.2 í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2015-2016 þarf lánsumsókn vegna náms haustið 2015 að berast eigi síðar en 30. nóvember 2015. Í samræmi við fyrirmæli 1. og 2. gr. reglugerðar nr. 479/2011 um Lánasjóð íslenskra námsmanna eru úthlutunarreglur LÍN birtar í Stjórnartíðindum. Umsóknarfresturinn er jafnframt auglýstur á heimasíðu LÍN, auk þess sem LÍN sendir námsmönnum sem hafa skráð sig hjá sjóðnum tölvupóst til að minna á umsóknarfrest. Þegar umsókn er gerð í gegnum svæði námsmanns á heimsíðu LÍN liggja einnig fyrir allar upplýsingar um umsóknina, m.a. fyrir hvaða námsönn sótt sé um lán vegna. Þá sendir LÍN einnig staðfestingarbréf til umsækjenda þar sem upplýsingar þessar koma fram. Kærandi sótti um námslán 1. september 2015 en fyrir liggur að kærandi hugðist sækja um vegna haustannar 2015 en merkti við á röngum stað í umsókn, þ.e. merkti við vorönn 2016. Kærandi hefur óskað eftir því að fá undanþágu frá umsóknarfresti vegna sanngirnissjónarmiða og að gera verði þá kröfu að LÍN yfirfari umsóknir um námslán til að koma í veg fyrir mistök umsækjenda. Það er álit málskotsnefndar að almennt verði að ganga út frá því sem meginreglu að stjórnvöldum beri ekki skylda til að taka mál til efnismeðferðar sem borist hafa eftir lögskipaðan frest. Hins vegar hafa stjórnvöld oft heimild til þess að taka slík mál til efnismeðferðar, hafi afsakanlegar ástæður leitt til þess að umsókn barst of seint. Í málum er varða umsóknarfresti hefur málskotsnefnd lagt til grundvallar að LÍN beri að beita einstaklingsbundnu mati á högum námsmanns með það fyrir augum að kanna hvort óviðráðanleg atvik eða handvömm starfsmanna LÍN hafi orðið þess valdandi að umsækjandi sótti ekki um innan tilskilins frests. Ekkert er komið fram í málinu sem bendir til þess að atvik sem ekki fékkst ráðið við eða handvömm af hálfu starfsmanna LÍN hafi valdið því að kærandi sótti ekki um innan frests. Ekki verður fallist á þau rök kæranda að ef LÍN hefði yfirfarið umsókn hennar hefði misskilningurinn komið í ljós. Rétt útfylling umsóknar um námslán er alfarið á ábyrgð námsmanns. Kærandi sendi umsókn sína til LÍN 1. september 2015 en þá átti kærandi eftir eina námsönn. Ekki verður almennt ætlast til þess að lánasjóðurinn miði við aðrar upplýsingar um fyrirhugað nám eða námslok en námsmenn sjálfir upplýsa um í umsókn en algengt er að námsmenn taki sér hlé frá námi eða fresti námslokum. Þá liggur fyrir í málinu afrit af staðfestingarbréfi sem LÍN sendi kæranda þann 1. september 2015 þar sem fram kom með skýrum hætti að hún hafi sótt um námslán á vorönn skólaársins 2015-2016. Sömu upplýsingar var að finna á heimasvæði hennar hjá LÍN. Málskotsnefnd hefur margoft úrskurðað um mikilvægi þess að festa ríki um þá fresti sem námsmönnum eru settir og tekið undir það að almennt beri að vísa frá erindum sem berast að liðnum fresti nema í undantekningartilvikum. Er því fallist á það með stjórn LÍN að afgreiðsla sjóðsins á erindi kæranda hafi verið í samræmi við reglur sem um sjóðinn gilda. Ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda er því staðfest.

 

Úrskurðarorð

 

Hinn kærða ákvörðun frá 17. febrúar 2016 í máli kæranda er staðfest.

Til baka