Úrskurður
Ár 2016, miðvikudaginn 24. ágúst, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-2/2016:
Kæruefni
Með kæru sem barst málskotsnefnd 12. febrúar 2016 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 9. nóvember 2015 um að hafna beiðni kæranda um námslán hjá sjóðnum vegna BA náms við Háskólann í Reykjavík (HR). Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 15. febrúar 2016 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 21. mars 2016 og var afrit þess sent kæranda og henni jafnframt gefinn kostur á að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Kærandi hefur ekki sent inn frekari athugasemdir. Með bréfi dagsettu 16. júní 2016 óskaði málskotsnefnd eftir viðbótarupplýsingum frá LÍN, m.a. um fyrri námsferil kæranda, með hvað hætti LÍN hefur almennt staðið að yfirfærslu námslánaréttar námsmanna yfir í einingakerfið og svo með hvaða hætti staðið var að yfirfærslu og útreikningi námslánaréttar kæranda yfir í einingakerfið. Viðbótarupplýsingar LÍN bárust með bréfi dagsettu 27. júní sl.
Málsatvik og ágreiningsefni
Tildrög þessa máls eru þau að kærandi hóf BA-nám við Háskólann
í Reykjavík haustið 2014 og sótti um námslán til LÍN á námsárinu 2014-2015. Áður
hafði kærandi lokið BA- og meistaranámi við Háskóla Íslands. Fékk kærandi
samþykkt lán sem nam 44 ECTS-einingum en var synjað um frekari lán með vísun til
þess að samkvæmt reglum sjóðsins hefði hún fullnýtt lánsheimild sína til þess að
stunda grunnnám. Kærandi hafi fengið afgreidd námslán í grunnnámi sínu í HÍ á
árunum 2005-2010 sem nemi 256 ECTS-einingum og því standi einungis eftir réttur
kæranda til 44 ECTS-eininga. Stjórn LÍN hafnaði kröfu kæranda um að fá afgreidd
frekari námslán vegna BA-náms við HR með ákvörðun 9. nóvember 2015 og kærði
kærandi þá ákvörðun stjórnar LÍN til málskotsnefndar.
Sjónarmið
kæranda
Kærandi bendir á að ákvörðun LÍN byggi á því að þegar
kærandi hafi verið í gunnnámi í HÍ hafi námslengd verið skráð öðruvísi en sé
gert í dag. Þegar kerfinu hafi svo verið breytt hafi þurft að yfirfæra gamla
námsferla yfir í nýja kerfið og hafi þá ákveðin aðferð verið notuð en samkvæmt
henni hafi kærandi þegið námslán fyrir einingafjölda sem jafngildir 256
ECTS-einingum í grunnnámi. Kærandi kveðst ekki deila við LÍN um að samkvæmt
eldri úthlutunarreglum hafi "aðstoðarár" verið skilgreint þannig að ef námsmaður
taldist hafa fengið lán í eitt aðstoðarár hafi hann fengið lán fyrir 31-60
ECTS-einingum yfir skólaárið. Kærandi hafnar því að líta megi til skilgreiningar
á aðstoðarári, sbr. tilvitnaðar úthlutunarreglur LÍN, þegar umreiknuð voru
úthlutuð námslán samkvæmt nýrra kerfi, enda hafi í hennar tilviki ekki verið
fylgni milli sannanlegrar úthlutunar og þeirra ECTS-eininga sem lokið var og
lánað var fyrir samkvæmt skilgreiningu LÍN. Kærandi telur að skilgreining á "aðstoðarári" samkvæmt eldri úthlutunarreglum lúti að þeirri tímalengd sem
námsmanni var að hámarki heimilt að stunda lánshæft nám, sbr. þágildandi fimm
ára regla. Ekki sé hægt að heimfæra þá skýringu yfir á úthlutuð námslán, nema
það sé bein og skýr fylgni milli úthlutaðra námslána og lokinna eininga. Sú
skýring felur jafnframt í sér mismunun enda séu þá réttindi þeirra, sem af
gildum ástæðum gátu ekki lokið sínu námi á þremur árum, skert samanborið við
aðra. Bendir kærandi á að hún hafi eignast barn á námstímanum 2005-2010 og
þurfti að gera viðeigandi ráðstafanir vegna þess. Þá feli skýring LÍN jafnframt
í sér mismunun gagnvart þeim sem hefji nám í dag og höfðu áður þegið námslán hjá
LÍN, samanborið við þá námsmenn sem hafa ekki áður tekið námslán enda kunni
sameiginlegt svigrúm þeirra að vera ónýtt af hálfu LÍN, sbr. grein 2.3.4 í
núgildandi úthlutunarreglum. Þá bendir kærandi á að það komi skýrt fram í öllum
úthlutunarreglum sem hafa gilt frá 2005, að námsmaður teljist aðeins í fullu
námi, ljúki hann tilskyldum 60 ECTS-einingum. Ofangreind fimm ára regla snéri að
því hámarkstímabili sem námsmaður gat stundað nám. Reglan hafi því jafnframt
falið í sér að námsmaður gat jafnvel fengið full 60 ECTS-lán öll þau fimm ár sem
hann hafi verið í námi. Í slíku tilviki kynni að vera eðlilegt að líta til þess,
að slíkur námsmaður hefði fullnýtt þau réttindi sem hann ætti samkvæmt
núgildandi reglum, enda væri hann þá sannanlega búinn að fá lán fyrir þeim
einingum. Um það sé ekki að ræða í tilviki kæranda. Kærandi telur að LÍN hafi
ekki farið sérstaklega yfir þær úthlutanir sem sjóðurinn hafi veitt henni á
árunum 2005-2010. Af gögnunum sjáist að kærandi hafi ekki fengið lánað fyrir 256
ECTS einingum, líkt og fullyrt sé. Kærandi bendir á að í íslenskum rétti gildi
sú meginregla að yngri lög gangi framar eldri lögum. Samkvæmt núgildandi
úthlutunarreglum LÍN eigi námsmaður rétt á láni fyrir 180 ECTS-einingum í
grunnnámi, 120 ECTS-einingum í meistaranámi og að auki eigi hver námsmaður rétt
á 120 ECTS-eininga láni til viðbótar að eigin vali á grunn-, meistara- eða
doktorsstigi, sbr. kafli 2.3. Þá sé jafnframt að finna reglur hvað varðar eldri
úthlutunarreglur, sem fela í sér ívilnandi réttindi námsmanni til handa sem hafi
hafið nám í gildistíð eldri laga. Það gildi þó önnur sjónarmið um afturvirkni
laga og lagaskil þegar um íþyngjandi reglu sé að ræða. Sé þá með öllu
óásættanlegt að vísað sé til reiknireglu, sem hvorki sé skýrgreind nánar í
reglum sjóðsins né í þeim lögum sem reglurnar sækja stoð sína í. Umrædd
reikniregla leiði til þess að misræmi sé milli þess einingafjölda sem LÍN
fullyrðir að hafa lánað fyrir og þeim einingafjölda sem sannanlega hafi verið
lánað fyrir, a.m.k. í tilviki kæranda. Kærandi krefst þess að fá afgreidd
námslán vegna eftirstandandi 4 ECTS-eininga frá skólaárinu 2014-2015, auk þeirra
24 ECTS-eininga, sem hún lauk haustið 2015, í samræmi við rétt hennar samkvæmt
núgildandi úthlutunarreglum LÍN. Þá krefst undirrituð þess ennfremur að fá
svokölluð skólagjaldalán sem hún sótti um vegna haustannar 2016.
Sjónarmið LÍN
LÍN bendir á að kærandi hafi stundað BA- og
meistaranám við HÍ á árunum 2005-2010. Þegar kærandi hóf nám sitt í HÍ voru í
gildi úthlutunarreglur fyrir námsárið 2005-2006 og þá giltu svokölluðu fimm og
tíu ára reglur um heimilaða námslengd námsmanna. Samkvæmt fimm ára reglunni,
sbr. grein 2.4.2 í úthlutunarreglum sjóðsins árið 2005-2006, gat námsmaður að
hámarki fengið lán í allt að fimm ár samanlagt. Í grein 2.4.1 var skilgreint
hvað teldist vera aðstoðarár og segir:
"Námsmaður telst hafa fengið
lán í eitt aðstoðarár hafi hann fengið lán fyrir venjulegt skólaár, sbr. gr.
2.1.1., enda þótt lán hafi skerst vegna reglna um viðmiðun við námsárangur eða
tekjur. Venjulegt skólaár er að jafnaði tvö misseri".
Við mat á
aðstoðarári hafi því ekki verið skoðað hversu mikið lán viðkomandi námsmaður
hafi fengið hverju sinni né hversu margar einingar námsmaður hafi lokið heldur
einungis hvort hann ætti rétt á láni það misserið og þá taldist það sem
aðstoðarmisseri. LÍN bendir á að þegar námsferill kæranda sé skoðaður sé ljóst
að í BA-námi hennar í HÍ hafi hún fengið lánað í tæp níu misseri eða tæp fjögur
og hálft aðstoðarár samkvæmt fyrrgreindum reglum. Ástæðan fyrir því að það nái
ekki alveg fullum fjórum og hálfu aðstoðarári sé að eitt misseri hafi verið
sumarmisseri sem teljist ekki sem heilt misseri. Samkvæmt fimm ára reglunni hafi
því staðið eftir rúmt misseri af rétti kæranda til námsláns til að stunda
grunnnám þegar hún hafi hafið nám við HR haustið 2014. LÍN vísar til þess að með
tilkomu ECTS-einingareglunnar hafi aðstoðarár verið skilgreint þannig að
námsmaður taldist hafa fengið lán í eitt aðstoðarár hafi hann fengið lán fyrir
31-60 ECTS einingum yfir skólaárið, sjá nánar grein 2.3.1 í úthlutunarreglum
sjóðsins á árunum 2008-2011. Frá og með haustmisseri 2011 hafi verið hætt að
nota fimm ára regluna sem mat um námslengd námsmanna hjá þeim nemendum sem hófu
nám það ár. Við breytingu úr fimm og tíu ára reglunum yfir í einingaregluna hafi
námsferlar þeirra sem fengið höfðu lán samkvæmt eldri reglum verið reiknaðir
þannig að ef viðkomandi námsmaður taldist hafa fengið lánað eitt aðstoðarár
samkvæmt eldri reglum var hann einnig talinn hafa fengið lánað í eitt ár
samkvæmt nýjum reglum eða 60 ECTS-einingar. Samkvæmt framangreindum reiknireglum
hafi kærandi nýtt af lánsrétti sínum sem samsvarar 256 ECTS-einingum vegna
BA-náms við HÍ. Þegar kærandi hafi hafið BA-nám í HR haustið 2014 hafi hún því
átt eftir 44 ECTS-einingar (rúmt misseri) af lánsrétti til að stunda grunnnám.
Hafi kærandi fengið afgreidd námslán sem nemur þeim einingum á haustmisseri 2014
og vormisseri 2015. Kærandi hafi því fengið lán hjá LÍN sem samsvarar 300
ECTS-einingum vegna náms í grunnnámi og þar með fullnýtt lánsrétt sinn hjá LÍN
til að stunda grunnnám. Þá bendir LÍN á að ef miðað sé við eldri fimm og tíu ára
reglurnar teldist kærandi hafa fengið námslán umfram hámarksrétt eða í fimm og
hálft aðstoðarár fyrir námi í grunnnámi. LÍN bendir á að í úthlutunarreglum
fyrir námsárið 2014-2015 sé hægt að fá undanþágu frá kröfu um námsárangur af
sambærilegum ástæðum og voru fyrir hendi þegar kærandi stundaði fyrra nám sitt.
Jafnframt dregst frá námslánarétti nemanda með sambærilegum hætti og gert hafi
verið þegar kærandi stundaði fyrra nám sitt þ.e.a.s. fái nemandi undanþágu frá
námsárangri dregst það frá heildarnámslánarétti hans líkt og hann hafi
raunverulega lokið einingum. Kærandi hafi því aðeins átt lítinn hluta eftir af
lánsrétti sínum til þess að stunda grunnnám samkvæmt þeim reglum sem giltu á
þeim tíma sem hún stundaði nám sitt við HÍ. Þrátt fyrir að LÍN hafi ákveðið að
taka upp nýjar aðferðir við að meta lánsrétt nemenda til námslána leiddi það
ekki til þess að réttur kæranda eða annarra nemenda sem hófu nám fyrir
haustmisseri 2011 myndi breytast enda séu reglur um þetta skýrar. Þá hafnar LÍN
því með öllu að sjóðurinn hafi ekki farið sérstaklega yfir þær úthlutanir sem
kærandi hafi fengið á árunum 2005-2010. Í viðbótarupplýsingum frá LÍN kemur fram
að við yfirfærslu á rétti námsmanna yfir í einingakerfi væri almenna reglan sú
að ef námsmaður hafði fengið lánað í eitt aðstoðarmisseri samkvæmt eldri reglum
um útreikning taldist hann hafa fengið lánað í eitt aðstoðarmisseri samkvæmt
nýjum reglum um útreikning. Helstu upplýsingar um það hvernig lánsréttur nemenda
hafi verið reiknaður komi fram í úthlutunarreglum sjóðsins á þessum árum. Því
til hliðsjónar vísar stjórn LÍN í grein 2.4.1 í úthlutunarreglum LÍN námsárin
2005-2007 en þar komi fram: "Námslengd. 2.4.1. Hvað telst vera aðstoðarár?
Námsmaður telst hafa fengið lán í eitt aðstoðarár hafi hann fengið lán fyrir
venjulegt skólaár, sbr. gr. 2.1.1., enda þótt lán hafi skerst vegna reglna um
viðmiðun við námsárangur eða tekjur. Venjulegt skólaár er að jafnaði tvö
misseri." Í úthlutunarreglum fyrir námsárið 2008-2009 hafi í fyrsta skipti verið
fjallað um ECTS-einingar í reglum LÍN. Í þeim reglum og reglum áranna á eftir
hafi verið nánar skilgreint með hvaða hætti aðstoðarár væri reiknað í hinu nýja
einingarkerfi, sbr. grein 2.3.1 í úthlutunarreglum áranna 2008-2010 en þar
segir: "Námslengd. 2.3.1. Hvað telst aðstoðarár? Námsmaður telst hafa fengið
lán í eitt aðstoðarár hafi hann fengið lán fyrir 31-60 ECTS-einingum. Lán fyrir
30 ECTS-einingum eða færri á námsárinu telst hálft aðstoðarár og lán fyrir 61-80
ECTS-einingum telst 1,25 aðstoðarár."
Þá bendir LÍN á að á þeim tíma
sem kærandi hafi fengið undanþágu frá námsárangri hafi grein 2.3.2 í
úthlutunarreglunum verið eftirfarandi:
"Eignist námsmaður barn á
námstíma er heimilt að bæta allt að 50% við árangur hans þegar lán til hans er
reiknað, en með viðbótinni skal lánið þó ekki vera hærra en 75% í þessum
tilfellum. Hámarkssvigrúm eykst ekki að jafnaði vegna þess. Fæðingarvottorð
liggi fyrir í þessu tilviki. Námsmanni er heimilt að nýta þetta svigrúm á þeirri
önn sem fæðing á sér stað, og á næstu önn fyrir fæðingu og eftir fæðingu.
Samanlagt skal þó viðbótarsvigrúm vegna einnar fæðingar ekki vera hærra en 50%
af árangri einnar annar."
Námsferlar og veitt lán kæranda séu
eftirfarandi: HÍ - BA nám: Námsárið 2005-2006: haustmisseri 30 ein. lokið - 100%
lán veitt samtals 1 lánamisseri vormisseri 20 ein. lokið - 75% lán veitt - samtals 1 lánamisseri (60 ECTS-ein. nýttar).
Námsárið 2006-2007:
haustmisseri 20 ein. lokið - 75% lán veitt - samtals 1 lánamisseri vormisseri 0
ein. lokið - undanþága -75% lán veitt - samtals 1 lánamisseri (60 ECTS-ein.
nýttar).
Námsárið 2007-2008: haustmisseri 10 ein. lokið - undanþága - 75
% lán veitt - samtals 1 lánamisseri vormisseri 0 ein. lokið - ekkert lán veitt
(30 ECTS-ein. nýttar).
Breyting á úthlutunarreglunum - í fyrsta skipti
fjallað um ECTS-einingar í reglum sjóðsins.
Námsárið 2008-2009:
haustmisseri 0 ein. lokið - ekkert lán veitt vormisseri 40 ein. lokið - lán
veitt fyrir 40 ein. - samtals 1 aðstoðarár eða 2 lánamisseri. (40 ECTS-ein.
nýttar).
Námsárið 2009-2010: haustmisseri 30 ein. lokið - lán veitt
vormisseri 24 ein. lokið - lán veitt sumarmisseri 12 ein. lokið - lán veitt
samtals veitt lán fyrir 66 ECTS-ein. eða 1,25 aðstoðarár eða 2,5 lánamisseri.
(66 ECTS-ein. nýttar).
Samtals veitt lán fyrir 256 ECTS-einingum (4,75%
aðstoðarár eða 9,5 lánamisseri) í grunnnám.
HÍ meistaranám Námsárið
2010-2011: haustmisseri 18 ein. lokið - lán veitt vormisseri 24 ein. lokið - lán
veitt (42 ECTS-ein. nýttar).
Námsárið 2011-2012: haustmisseri 12 ein.
lokið - 75% lán veitt - svigrúm vegna barnsburðar vormisseri 22 ein. lokið - lán
veitt (34 ECTS-ein. nýttar).
Námsárið 2012-2013: haustmisseri 0 ein.
lokið vormisseri 24 ein. lokið - lán veitt sumarmisseri 14 ein. lokið - lán
veitt (38 ECTS-ein. nýttar).
Samtals veitt lán fyrir 114 ECTS-einingum í
meistaranám.
HR BA- nám Námsárið 2014-2015: haustmisseri 22 ein. lokið - lán veitt vormisseri 26 ein. lokið - lán veitt fyrir 22 einingum sumarmisseri 14
ein. lokið - lán veitt (44 ECTS-ein. nýttar).
Samtals veitt lán fyrir 44
ECTS-einingum í grunnnám.
Kærandi hafi því fengið lánað fyrir jafngildi
256 ECTS-einingum þegar hún lauk BA-námi í HÍ. Hún hafi síðan fengið lánað fyrir
44 ECTS-einingum vegna BA-námsins við HR. Samtals hafi hún því fengið lánað
fyrir 300 ECTS-einingum sem sé það hámark sem veitt sé vegna grunnnáms og af
sameiginlegu svigrúmi, sbr. grein 2.3 í úthlutunarreglum LÍN námsárið 2014-2015.
Byggir LÍN á því að niðurstaðan í máli kæranda sé í samræmi við lög og reglur og
í samræmi við sambærilegar ákvarðanir sjóðsins. LÍN gerir kröfu um að
málskotsnefnd staðfesti hina kærðu ákvörðun.
Niðurstaða
Ágreiningur máls þessa snýst um hvort að kærandi sé búin að
fullnýta lánsheimild sína hjá LÍN til þess að stunda grunnnám eða ekki. Kærandi
lauk grunn- og meistaranámi í HÍ á árunum 2005 til 2010 og fékk þá námslán frá
LÍN. Hún hóf síðan grunnnám við HR haustið 2014 og sótti um námslán vegna
skólaársins 2014-2015. LÍN samþykkti umsókn kæranda að hluta eða fyrir 44
ECTS-einingum og segir að með þeirri fyrirgreiðslu sé kærandi búin að fullnýta
lánsheimild sína hjá LÍN vegna grunnnáms. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 21/1992 um
LÍN er hlutverk sjóðsins að tryggja þeim er falla undir lögin tækifæri til náms
án tillits til efnahags. Í 3. gr. laganna kemur fram að heimilt sé að taka
tillit til ýmissa þátta við ákvörðun láns, s.s. fjölskyldustærðar, búsetu o.fl.
Í 3. mgr. greinarinnar segir að stjórn sjóðsins setji nánari ákvæði um úthlutun
námslána. Það gerir LÍN með árlegum úthlutunarreglum sem staðfestar eru af
ráðherra og birtar í Stjórnartíðindum. Í 2. mgr. 16. gr. laganna kemur síðan
fram að sjóðsstjórn setji reglur um önnur þau atriði en tilgreind eru í lögum og
reglugerð. Í 6. gr. reglugerðar nr. 478/2011 sbr. reglugerð nr. 589/2015 um LÍN
kemur fram að námsmaður eigi að hámarki rétt á námsláni sem svari til samtals
540 ECTS-eininga vegna grunnháskólanáms, sérnáms og framhaldsháskólanáms. Þar
kemur einnig fram að stjórn sjóðsins setji nánari reglur um hámark einingafjölda
í lánshæfu námi. Úthlutunarreglur LÍN fyrir skólaárið 2014-2015, sem hér eru til
skoðunar, eru settar af stjórn LÍN með heimild í fyrrgreindri 2. mgr. 16. gr.
laga um LÍN. Með þeim hefur stjórnin sett reglur um hámarkslán í lánshæfu námi.
Í kafla 2.3 er fjallað um rétt námsmanna til námslána og er hann tiltekinn í
ECTS-einingum. Í grein 2.3.1 segir að námsmaður eigi rétt á láni hjá sjóðnum
fyrir 180 ECTS-einingum í grunnnámi, en allt að 240 einingum sé námið þannig
skipulagt af hlutaðeigandi skóla. Í meistaranámi eigi námsmaður rétt á láni
fyrir 120 ECTS-einingum og að auki eigi námsmaður rétt á láni fyrir 120
ECTS-einingum til viðbótar á grunn- og/eða meistarastigi að eigin vali. Loks er
heimilt að veita námsmanni undanþágu fyrir allt að 60 ECTS-einingum að
uppfylltum tilgreindum skilyrðum sem fjallað er um í greininni. Þá er í grein
2.3.2 heimilt að veita námsmanni lán til doktorsnáms fyrir 180 eða 240
ECTS-einingum, en þó geti lán til hans hjá sjóðnum aldrei farið umfram 600
ECTS-einingar. Þessu 600 ECTS-eininga hámarki hefur nú verið breytt sbr.
reglugerð 589/2015 og er nú 540 ECTS-einingar. ECTS-einingakerfið (European
Credit Transfer and Accumulation System) er samræmdur mælikvarði á nám í
aðildarríkjum Evrópusambandsins og þátttakenda í svokölluðu Bolognaferli. Í
kerfinu jafngilda 60 ECTS-einingar fullu námsári. Áður en einingakerfið var
tekið upp hjá LÍN giltu svokallaðar fimm og tíu ára reglur um námslengd. Þeim
var síðast lýst í úthlutunarreglum LÍN fyrir námsárið 2010-2011 í kafla 2.3. Þar
segir að námsmaður geti að hámarki fengið lán í allt að fimm aðstoðarár
samanlagt og teljist eitt aðstoðarár jafngilda láni fyrir 36-60 ECTS-einingum
(fimm ára regla). Þá segir að leggi námsmaður stund á framhaldsnám (doktors- eða
meistaranám eða sambærilegt nám) sé heimilt að veita lán umfram fimm aðstoðarár,
en samanlagður tími sem námsmaður geti fengið námslán sé að hámarki 10
aðstoðarár (tíu ára regla). Frá og með haustmisseri 2011 var hætt að nota fimm
ára regluna sem mat um námslengd námsmanna hjá þeim nemendum sem hófu nám það
ár. Í úthlutunarreglum LÍN fyrir árin 2005-2007 segir í grein 2.4.1 að námsmaður
teljist hafa fengið lán í eitt aðstoðarár hafi hann fengið lán fyrir venjulegt
skólaár enda þótt lán hafi skerst vegna reglna um viðmiðun við námsárangur eða
tekjur. Þá segir í greininni að venjulegt skólaár sé að jafnaði tvö misseri og í
grein 2.1.1 segir að sjóðurinn veiti aðstoð þann tíma sem eiginlegt skólahald
eða skyldunámskeið standa yfir og að jafnaði í tvö jafnlöng misseri, samtals 9
mánuði, fyrir fullt nám á skólaári. Í úthlutunarreglum fyrir námsárið 2008-2009
var fjallað um ECTS-einingar í reglum LÍN. Í þeim reglum og reglum áranna á
eftir var skilgreint með hvaða hætti aðstoðarár væri reiknað í hinu nýja
einingarkerfi sbr. grein 2.3.1 í úthlutunarreglum áranna 2008-2010 en þar segir:
"Hvað telst aðstoðarár? Námsmaður telst hafa fengið lán í eitt
aðstoðarár hafi hann fengið lán fyrir 31-60 ECTS-einingum. Lán fyrir 30
ECTS-einingum eða færri á námsárinu telst hálft aðstoðarár og lán fyrir 61-80
ECTS-einingum telst 1,25 aðstoðarár."
Samkvæmt upplýsingum frá LÍN
hefur yfirfærsla á námslánarétti námsmanna úr eldra kerfi yfir í einingakerfi
verið framkvæmt þannig að ef námsmaður hafði fengið lánað í eitt aðstoðarmisseri
samkvæmt eldri reglum um útreikning taldist hann hafa fengið lánað í eitt
aðstoðarmisseri samkvæmt nýjum reglum um útreikning. Kærandi lauk grunn- og
meistaranámi við HÍ á árunum 2005 til 2010 og fékk þá afgreidd námslán frá LÍN.
Hún hóf síðan nýtt grunnnám við HR haustið 2014 og sótti um námslán vegna
skólaársins 2014-2015. LÍN skoðaði fyrri lánaafgreiðslu til kæranda samkvæmt
þágildandi reglum (5 og 10 ára reglunni) og varpaði því yfir í núgildandi
ECTS-einingakerfi. Niðurstaðan var sú að kærandi ætti ónotaðan rétt á námslánum
í grunnnámi fyrir 44 ECTS-einingum og að með þeirri fyrirgreiðslu sé kærandi
búin að fullnýta lánsheimild sína í grunnnámi hjá LÍN. LÍN hefur í málinu lagt
fram yfirlit yfir námsferil kæranda, veitt lán samkvæmt eldri reglum, yfirfærslu
réttinda yfir í ECTS-einingakerfið og svo veitt lán samkvæmt nýjum reglum.
Samkvæmt þeim útreikningum hefur kærandi nú fullnýtt lánsheimild sína til
námslána í grunnnámi/BA námi. Það hefur verið staðfest í úrskurðum
málskotsnefndar og álitum umboðsmanns Alþingis að námsmenn þurfa að sætta sig
við breytingar á úthlutunarreglum sem birtar eru með fullnægjandi hætti í
Stjórnartíðindum og geta ekki vænst þess að þær haldist óbreyttar frá ári til
árs. Þá er í stjórnsýslurétti viðurkennt að almennt ber að játa stjórnvöldum
svigrúm til að gera breytingar á stjórnsýsluframkvæmd enda séu þær innan marka
laga og byggðar á málefnalegum sjónarmiðum. Séu slíkar breytingar íþyngjandi
gagnvart borgurunum með tilliti til fyrri stjórnsýsluframkvæmdar verða
stjórnvöld almennt að kynna breytinguna fyrirfram með skýrum og glöggum hætti og
nægjanlegum fyrirvara þannig að þeir aðilar sem málið snerti hefðu raunhæft
tækifæri til að gera viðeigandi ráðstafanir og bregðast við breyttri framkvæmd.
Með breytingum á úthlutunarreglunum sem fyrst voru birtar vegna skólaársins
2011-2012 voru gerðar ívilnandi breytingar á úthlutunarreglum LÍN að því leyti
að farið var að miða lánsrétt þær ECTS-einingar sem lánað var vegna í stað þess
að telja lánstímabil. Með kæru sinni fer kærandi þess á leit að hinum nýju
reglum um mat á lánsrétti verði beitt um mat á lánsrétti vegna lána sem hún fékk
í tíð eldri regla. Á það verður ekki fallist. Úthlutunarreglur LÍN gilda fyrir
hvert skólaár um sig. Það er því fyllilega réttmætt eins og LÍN hefur viðhaft að
meta lánsrétt í samræmi við þær reglur sem í gildi voru á hverju
aðstoðartímabili um sig. Í þessu máli liggur fyrir að breytingar úr 5 og 10 ára
reglunni yfir í ECTS-einingar voru vel kynntar af hálfu LÍN. Þess var og gætt að
þeir námsmenn sem voru í námi þegar hinar nýju reglur tóku gildi gætu lokið því
samkvæmt þeim sbr. grein 2.3.5 í úthlutunarreglum fyrir skólaárið 2016-2017 og
sambærileg eldri ákvæði. Þá liggur einnig fyrir að síðan nýju reglurnar tóku
gildi þá hefur LÍN margsinnis varpað eldri rétti námsmanna yfir í nýtt kerfi til
að finna út eftirstandandi lánsheimild fyrir námsmann sem hefur nám að nýju.
Hefur LÍN upplýst að við það hefur sjóðurinn fylgt eftir þeirri aðferð sem lýst
hefur verið hér á undan sbr. fyrrnefnt yfirlit og fallast má á með sjóðnum að
styðjist við fyrirmæli í úthlutunarreglunum. Við framkvæmdina á yfirfærslu
lánsréttinda á milli kerfa hefur LÍN þannig gætt að jafnræði námsmanna. Samkvæmt
framangreindu fellst málskotsnefnd á þá niðurstöðu LÍN að kærandi hefur með
afgreiðslu 44 ECTS-eininga á haustönn og vorönn 2014-2015 fullnýtt lánsrétt sinn
hjá LÍN til að stunda grunnnám. Með vísan til framangreindra atriða er það mat
málskotsnefndar að ákvörðun stjórnar LÍN frá 9. nóvember 2015 sé í samræmi við
lög og reglur LÍN og er hún því staðfest.
Úrskurðarorð
Ákvörðun stjórnar LÍN frá 9. nóvember 2015 í máli kæranda er staðfest.