Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-05/2016 - Skilyrði lánveitingar - synjun um lán

Úrskurður

Ár 2016, miðvikudaginn 24. ágúst, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-5/2016:

Kæruefni

Með bréfi sem barst málskotsnefnd 16. mars 2016 kærði kærandi ákvarðanir stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 14. desember 2015 og 17. febrúar 2016 að því er lýtur að:

1. Synjun um að fella úr gildi ákvörðun sjóðsins um að neita að afgreiða námslán til kæranda vegna sumarannar 2014.

2. Synjun um að veita kæranda námslán vegna vorannar 2015.

3. Synjun um að veita kæranda 10 ECTS-eininga námslán við námslok.

Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 17. mars 2016 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 25. apríl 2016 og var afrit þess sent kæranda og henni jafnframt gefið færi á að koma að athugasemdum sínum. Kærandi sendi athugasemdir sínar þann 25. maí 2016 og voru þær framsendar stjórn LÍN.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi hóf nám við háskóla í Englandi haustið 2013. Námið er skipulagt sem þriggja anna nám sem lokið er á einu ári (október 2013 - september 2014) og er það 200 einingar (credit points) sem samkvæmt reglum LÍN samsvarar 100 ECTS-einingum. Í gögnum frá kæranda kemur fram að fyrri hluti námsins sem samsvarar samtals 50 ECTS-einingum samanstendur af 11 námsgreinum sem nemendur skuli ljúka á haustönn 2013 og vorönn 2014. Síðan er gert ráð fyrir því að nemendur skrifi 50 ECTS-eininga lokaritgerð á sumarönn 2014. Er ritað framlag metið 90% af einkunn en vörn ritgerðar 10%. Samkvæmt upplýsingum kæranda í tölvupósti til LÍN 15. október 2015 átti hún upphaflega að skila ritgerðinni í ágúst 2014. Kærandi tafðist í náminu og útskrifaðist með meistaragráðu í lok júní 2015. Af gögnum málsins má ráða að framvinda náms og samskipti kæranda og LÍN voru eftirfarandi: 22. júlí 2014 - kærandi tilkynnir LÍN að lokaritgerð hennar muni frestast. Í athugasemdum starfsmanns LÍN í málaskrá sama dag kemur fram að skilum námsárangurs muni seinka og að útskrift sé áætluð í október 2014. 22. júlí 2014 - svarpóstur LÍN með yfirskriftinni "Væntanlegur námsárangur í september/október - master (80 ECTS einingar)" þar sem kemur fram að skila þurfi staðfestingu á námsárangri námsársins 2013-2014 til sjóðsins fyrir 15. janúar 2015. Í póstinum er einnig vísað til þess að kærandi muni fá greitt vegna 10 viðbótareininga þegar námsárangur berist frá henni í haust, þegar hún hafi lokið gráðunni og sent útskriftarskjalið. 20. ágúst 2014 - kærandi sendir beiðni til skólans um breytingu á skráningu námsloka frá 12. september 2014 til 8. desember 2014. 18. nóvember 2014 - fjölpóstur LÍN til námsmanna er sendur til umboðsmanns kæranda. Þar kemur fram að umsóknarfrestur um námslán vegna haustannar 2014 sé til 30. nóvember 2014 og vegna vorannar 2015 sé umsóknarfrestur til og með 30. apríl 2015. Einnig er vakin athygli á að skilafrestur gagna vegna námsársins 2013-2014 sé fram til 15. janúar 2015. 8. desember 2014 - frestur kæranda til að skila lokaritgerð til skólans. Kærandi skilaði fyrir lok frests. 14. janúar 2015 - kærandi tilkynnir LÍN um að hún geti ekki skilað staðfestingu á námsárangri þar sem hún sé ekki búin að verja ritgerðina. 14. janúar 2015 - LÍN upplýsir kæranda í tölvupósti að sjóðurinn sé tilbúinn að skoða ástæður seinkunar vegna fráfalls í fjölskyldu. Skólinn þurfi að staðfesta seinkunina. Ennfremur segir að dagsetning væntanlegs námsárangurs þurfi að vera staðfest við sjóðinn á allra næstu dögum til að hægt verði að endurskoða mál kæranda. 29. janúar 2015 - kærandi sendir LÍN staðfestingu á að vörn fari fram 13. febrúar 2015 og þá muni hún fá upplýsingar um hvenær einkunnir verði afhentar. 13. febrúar 2015 - meistaravörn lokaritgerðar fer fram. 25. júní 2015 - kærandi útskrifast og fær afhent prófskírteini. 5. október 2015 - kærandi sendir prófskírteini sem hún fékk afhent við útskrift 25. júní 2015 til LÍN og tilkynnir að hún hafi fengið aðgang að niðurstöðu ritgerðar þann 15. maí 2015. 7. október 2015 - LÍN svara kæranda með tölvupósti þar sem fram kemur eftirfarandi:

"Vegna þess hve lengi þú hefur dregið að senda inn öll gögn er ekki hægt að afgreiða þessa beiðni þína. Þegar þú hefur aðgang að námsárangri hefði verið réttast að senda það inn um leið. Vegna þessa verður að synja erindi þínu."

Kæranda var jafnframt leiðbeint um að hún gæti borið mál sitt undir stjórn LÍN. Kærandi sendi erindi til stjórnar LÍN 17. nóvember 2015. Fór kærandi þess á leit aðallega að fá afgreitt námslán vegna sumarannar 2014 og til vara að fá námslán vegna vorannar 2015. Þá fór kærandi einnig fram á að fá afgreitt lán vegna 10 ECTS-eininga. Stjórn LÍN synjaði beiðni kæranda með ákvörðun 14. desember 2015. Í niðurstöðu stjórnar var byggt á því að veiting undanþágu frá skilafresti vegna óviðráðanlegra aðstæðna leiddi ekki til þess að frestur til að skila gögnum væri frjáls heldur bæri nemanda að gera allt sem í hans valdi stæði til að koma upplýsingum um námsárangur til LÍN sem fyrst og án ástæðulauss dráttar. Ekki var fallist á að kærandi ætti rétt á námsláni á vormisseri þar sem umsókn þess efnis lægi ekki fyrir auk þess sem kærandi hafi ekki stundað nám sitt á vormisseri 2015. Kærandi óskaði endurupptöku 21. janúar 2016. Vísaði kærandi til andlegra veikinda og lagði fram læknisvottorð. Stjórn LÍN synjaði erindi kæranda með ákvörðun 17. febrúar 2016. Byggði ákvörðunin á því að ekki yrði séð í læknisvottorði sem kærandi lagði fram að hún hefði verið með öllu ófær um að skila námsárangri fyrr en raun bar vitni.

Sjónarmið kæranda

Í kæru sinni vísar kærandi til röksemda í bréfum til stjórnar LÍN og fylgigagna með þeim. Í fyrra erindi sínu til stjórnar LÍN frá 17. november 2014 kom m.a. fram að kærandi taldi sig hafa sent LÍN afrit af prófskírteini í júní 2015. Kærandi vísaði einnig til þess að synjun starfsmanns LÍN virtist byggja á persónulegu mati hans um að það hafi verið of seint fyrir kæranda að skila prófgögnum í september í stað maí 2015. Kærandi byggði einnig á því að hún gæti átt rétt til námsláns vegna vorannar 2015. Vísaði kærandi í þeim efnum til athugasemda starfsmanns LÍN í málaskrá þar sem fram komi að mögulegt hafi verið fyrir kæranda að sækja um lán vegna vorannar. LÍN hafi hins vegar aldrei upplýst hana um þennan möguleika. Þá fór kærandi þess á leit að LÍN samþykkti að veita henni lán vegna 10 ECTS-eininga við námslok, sbr grein 2.4.1 í úthlutunarreglum LÍN. Í síðara erindi kæranda frá 21. janúar 2016 upplýsti kærandi að hún hefði átt við þunglyndi að stríða en sökum læknisfræðilegra ástæðna hafi henni verið ráðlagt að hætta á þunglyndislyfjum í maí 2015. Í kjölfar þess hafi þunglyndi hennar vaxið með miklu framtaksleysi og vanlíðan. Meðfylgjandi erindi kæranda til stjórnar LÍN var vottorð geðlæknis dagsett 13. janúar 2016. Í vottorðinu segir eftirfarandi:

"[Kærandi] hefur átt við alvarlegt þunglyndi að stríða. Hún hefur verið meðhöndluð með þunglyndislyfjum sem hafa haldið einkennum í skefjum. [...] Henni var ráðlagt að hætta á þunglyndislyfjum í maí 2015 er [...]. Í kjölfar þess fóru þunglyndiseinkenni vaxandi með miklu framtaksleysi og vanlíðan. Þessi einkenni urðu til þess m.a. að hún sinnti því ekki að koma gögnum til LÍN. Óskað er eftir því að LÍN sýni sveigjanleika og afgreiði námslán eins og hún hefði skilað prófgögnum á réttum tíma."

Í kærunni til málskotsnefndar vísar kærandi einnig til eftirfarandi athugasemda og röksemda til stuðnings kröfum sínum: (1) Kærandi lýsir því að birtingarmynd veikinda hennar hafi lýst sér í framtaksleysi og vanlíðan. Vegna einkenna sjúkdómsins hafi hún talið sig hafa sent útskriftargögn til LÍN fyrr en raun bar vitni. Kærandi taldi ekki þörf á að gera grein fyrir veikindum sínum í fyrra erindi til stjórnar LÍN en lýsir því að hún hafi síðan ekki komist hjá því vegna afstöðu stjórnar LÍN til erindis hennar. (2) Kærandi vitnar til þess að í niðurstöðu stjórnar LÍN komi fram að "[e]kki [verði] séð í læknisvottorði frá 13. janúar 2016 að [kærandi] hafi verið með öllu ófær að skila inn námsárangri fyrr en raun bar vitni." Segir kærandi að af tilvísuðum texta að dæma sé stjórn LÍN að leggja mat á heilsufarslegt ástand kæranda út frá fyrirliggjandi vottorði og álykta að andleg heilsa hennar hafi ekki verið svo slæm að hún hafi ekki getað komið margnefndu skjali til LÍN. Í ákvörðun stjórnar sé á engan hátt upplýst hver innsýn stjórnarinnar sé í viðkomandi sjúkdóm né hvað það sé í vottorðinu er leiði til þessarar ályktunar stjórnarinnar. Telur kærandi niðurstöðu stjórnar LÍN vera í klárri andstöðu við álit hins sérfróða læknis þar sem í fyrirliggjandi vottorði sé sérstaklega tekið fram að þunglyndiseinkenni kæranda hafi orðið til þess að hún hafi ekki sinnt því að koma gögnum til LÍN. (3) Kærandi vísar til þess að vörn hennar á lokaritgerð hafi farið fram í febrúar 2015. Því standist ekki synjun stjórnar LÍN á námsláni vegna vorannar 2015. Kærandi vísar í þessu sambandi til úrskurða málskotsnefndar í málum L-21/2011 og L-6/2011. Þá telur kærandi synjun LÍN ekki standast jafnræðisreglu stjórnsýslulaga og vísar í því sambandi til úrskurðar í máli nr. L-48/2010. (4) Vegna kröfu um viðurkenningu á rétti til námsláns á vorönn 2015 vísar kærandi einnig til upplýsinga sem starfsmaður LÍN færði í samskiptasögu 14. janúar 2015 sem voru eftirfarandi:

"námsári lokar 14. janúar á miðnætti – lokaárangur væntanlegur 15. janúar eða upplýs. um hann frá skóla. Spurn. um að hún sæki um vorönn 2015 og fái greitt út í vor ef það passar við tímarammann á seinkuninni. (Mastersritgerð/vörn)".

Að mati kæranda er þessi bókun í samskiptasögunni skýr vísbending um að fleiri kostir hafi verið í stöðunni en þeir sem LÍN upplýsti kæranda um. Samskipti kæranda við LÍN um og eftir áramót 2015 hafi ávallt verið á þeim nótum að leysa þyrfti málið á grundvelli umsóknar um námslán vegna sumarannar 2014. Kærandi telur að með því að upplýsa kæranda ekki um möguleika á því að sækja um námslán á vormisseri 2015 hafi sjóðurinn brotið upplýsinga- og leiðbeiningaskyldu sína. (5) Vegna kröfu um lán vegna samtals 10 ECTS-eininga á grundvelli 2.4.1 í úthlutunarreglum LÍN vísar kærandi til tölvupósts frá starfsmanni LÍN 22. júlí 2014. Þar komi fram staðfesting sjóðsins á því að kærandi eigi rétt á fullu námsláni, þ.e. vegna 80 ECTS-eininga, við námslok. Bendir kærandi á að LÍN hafi einungis lánað kæranda fyrir 50 ECTS-einingum á meðan hún hafi klárað nám sem samsvaraði 100 ECTS-einingum. Í viðbótarathugasemdum kæranda kemur fram sú afstaða kæranda að með öllu sé óljóst hvað liggi að baki þeirri ályktun stjórnar LÍN um að litið sé til þess hvort viðkomandi sé "algjörlega ófær" um að sinna skyldum sínum. Stjórn LÍN hafi ekki lagt fram neitt er sýni fram á læknisfræðilega þekkingu er liggi að baki ályktuninni eða bent á hvað það sé í viðkomandi vottorði sem leiði til þessarar niðurstöðu. Kærandi telji sig hafa lagt fram gilt vottorð sérfræðings á viðkomandi sviði læknisfræðinnar þar sem skýrlega sé tekið fram að veikindi kæranda hafi valdið því að viðkomandi gagni var ekki komið til sjóðsins. Gildi vottorðsins hafi því ekki verið dregið í efa og engin læknisfræðileg rök og skýringar færðar fram er gangi gegn niðurstöðu útgefanda vottorðsins. Beri því að leggja vottorðið til grundvallar og miða við að kærandi hafi ekki getað komið upplýsingum til LÍN innan þeirra tímamarka sem sjóðurinn telur að hafi gilt umrætt sinn. Sú staðreynd réttlæti að vikið sé frá venjulegum viðmiðum sjóðsins.

Sjónarmið stjórnar LÍN

Í athugasemdum stjórnar LÍN segir að kærandi hafi stundað 100 ECTS eins árs meistaranám við háskóla í Bretlandi á námsárinu 2013-2014. Hafi kærandi fengið námslán vegna náms á haustönn 2013 og vorönn 2014 samtals vegna 50 ECTS-eininga þegar hún hafði samkvæmt upplýsingum frá skólanum lokið sem samsvaraði 25 ECTS-einingum á hvorri önn um sig. Kærandi hafi einnig sótt um námslán vegna sumarannar en þá hugðist hún ljúka 50 ECTS-eininga lokaritgerð. Þann 22. júlí 2015 hafi kærandi tilkynnt LÍN um frestun á skilum ritgerðar. Í svari sjóðsins til hennar 22. júlí 2014 hafi henni verið bent á að hún þyrfti að skila námsárangri fyrir 14. janúar 2015 en þá væri námsárinu lokað, sbr. grein 5.2.1 í úthlutunarreglum sjóðsins. Kærandi hafi farið þess á leit við skólann að fá viðbótarfrest og hafi hann verið veittur til 18. desember 2014. Þann 14. janúar 2015 hafi kærandi síðan upplýst að hún hefði ekki tök á að skila námsárangri í tæka tíð. Þann 29. janúar hafi kærandi síðan skilað inn staðfestingu á að hún myndi verja ritgerð sína 13. febrúar 2015. Kærandi hafi síðan ekki haft samband við LÍN fyrr en 5. október 2015 er hún sendi upplýsingar um námsárangur. Þar komi fram að kærandi hafi fengið afhent prófskírteini 25. júní 2015 en að hún hafi fengið aðgang að námsárangri nokkru fyrr eða í maí 2015. Stjórn LÍN vísar til þess að samkvæmt reglum sjóðsins skuli öllum lánveitingum vegna skólaársins 2013-2014 lokið fyrir 15. janúar 2015. Reglan sé alveg skýr og almennt ekki veittar undanþágur frá henni. Í algjörum undantekningartilvikum hafi verið fallist á að líta til óviðráðanlegra aðstæðna nemenda við að skila staðfestingu á námsárangri. Við mat á því sé litið til þess hvort nemandinn hafi sinnt tilkynningaskyldu sinni samkvæmt úthlutunarreglum LÍN og reglugerð nr. 478/2011 um lánasjóð íslenskra námsmanna og hvaða ráðstafanir nemandi hafi gert til þess að einkunnir skili sér sem fyrst til sjóðsins. Kærandi hafi sinnt tilkynningaskyldu sinni og jafnframt fallist LÍN á að hún hafi lagt sitt af mörkum til að fá niðurstöðu skólans sem allra fyrst. Ekkert hafi hins vegar komið fram í málinu er skýri þá töf sem varð á því að kærandi skilaði inn upplýsingum um lokaeinkunn eftir að þær voru henni aðgengilegar í maí 2015 og síðar við útskrift í lok júní s.á. Þrátt fyrir að í algjörum undantekningartilvikum hafi verið fallist á undanþágu frá fresti við lokun námsárs leiði það ekki til þess að frestur til að skila niðurstöðum um námsárangur verði frjáls heldur sé byggt á því að nemandi geri allt sem á hans valdi stendur til að koma námsárangri sínum sem allra fyrst til sjóðsins og án ástæðulauss dráttar. Varðandi beiðni kæranda um sveigjanleika vegna þunglyndis hennar kemur fram af hálfu stjórnar LÍN að við slíkt mat sé litið til þess hvort viðkomandi hafi verið algjörlega ófær um að sinna skyldum sínum. Jafnframt verði að horfa til þess að hér sé um þrönga undantekningu að ræða og að gæta verði jafnræðis og samræmis í sambærilegum málum. Hafi verið fallist á að veita undanþágu þegar fyrir liggi að viðkomandi hafi verið algjörlega ófær um að sinna skyldum sínum. Læknisvottorð það sem kærandi hafi lagt fram sé ekki talið staðfesta það. Vegna kröfu kæranda um námslán vegna náms á vormisseri 2015 vísar stjórn LÍN til þess að samkvæmt staðfestum upplýsingum frá kæranda hafi hún stundað nám á námsárinu 2013-2014. Námslán séu alltaf afgreidd í samræmi við skráningu viðkomandi nemenda í skóla sínum. Vegna sérstakra aðstæðna hafi kærandi fengið frest hjá skólanum til að skila ritgerð sumarmisseris í desember 2014. Kærandi hafi skilað ritgerðinni í desember 2014 og því liggi fyrir að hún stundaði ekki nám á vormisseri 2015. Hefði hún því aldrei fengið lán vegna vormisseris 2015 og breyti innanhússminnisblað starfsmanns LÍN engu þar um. Vegna tilvísunar kæranda til leiðbeiningarskyldu tekur stjórn LÍN fram að kærandi hafi ekki verið í neinum samskiptum við sjóðinn frá 22. júlí 2014 er hún hafi tilkynnt um frestun ritgerðar fram á haust og hafi henni verið leiðbeint um að námsárangur þyrfti að berast fyrir14. janúar 2015. Kæranda hafi síðan verið send áminning frá LÍN 18. nóvember 2014 bæði um skilafrest vegna námsársins 2013-2014 og um frest til að sækja um námslán vegna skólaársins 2014-2015. Vegna kröfu kæranda um námslán við námslok bendir stjórn LÍN á að kærandi hafi ekki lagt fram nein gögn sem sýni fram á að hún hafi stundað meira en 25 ECTS-eininga nám á hvoru misseri um sig, þ.e. haustmisseri 2013 og vormisseri 2014. Eigi hún því ekki neinn frekari rétt til láns vegna náms á þeim misserum. Stjórn LÍN bendir hins vegar á að samkvæmt grein 2.4.1 í úthlutunarreglum LÍN geti námsmaður nýtt sér rétt til þess að nýta umframeiningar frá einu misseri á öðrum misserum innan sama námsárs svo framarlega sem lágmarksárangri sé náð á því misseri. Þar sem ritgerð kæranda samsvaraði 50 ECTS-einingum hefði hún því getað nýtt sér þennan rétt að því tilskyldu að hún hefði sent námsárangur innan tilskilins frests, þ.e. fyrir 15. janúar 2015. Í ákvörðun stjórnar LÍN kemur fram að þar sem skólaárinu hafði verið lokað þegar upplýsingar bárust frá kæranda sé ekki hægt að endurreikna fyrri misseri í samræmi við fyrrgreint ákvæði úthlutunarreglnanna. Hafi beiðni kæranda því verið synjað. Stjórn LÍN telur að niðurstaða sín í máli kæranda sé í samræmi við lög og reglur sem um sjóðinn gilda og einnig í samræmi við sambærilega úrskurði stjórnar LÍN og málskotsnefndar.

Niðurstaða

Með kæru sinni hefur kærandi farið þess á leit að felldar verði úr gildi tvær ákvarðanir stjórnar LÍN í máli hennar frá 14. desember 2015 og 17. febrúar 2016. Í ákvörðunum stjórnar LÍN er byggt á því að samkvæmt staðfestum upplýsingum frá skóla kæranda hafi hún verið við nám á námsárinu 2013-2014 og að skilafrestur námsárangurs hafi því samkvæmt grein 5.2.1 í úthlutunarreglum LÍN verið í síðasta lagi 14. janúar 2015. Segir í athugasemdum stjórnar LÍN að námslán séu alltaf afgreidd í samræmi við skráningu nemanda í skóla sínum. Með umræddum ákvörðunum synjaði stjórn LÍN beiðni kæranda um að afgreiða námslán til hennar vegna sumarannar 2014. Ennfremur synjaði stjórnin beiðni kæranda um að veita henni námslán vegna vorannar 2015 og að veita kæranda 10 ECTS-eininga námslán við námslok. Synjun stjórnar LÍN byggir á að kærandi hafi ekki skilað námsárangri vegna sumarannar 2014 án ástæðulauss dráttar eftir að sjóðurinn hafði fallist á að framlengja skilafrest hennar þegar hún tafðist í námi. Ennfremur byggir stjórn LÍN á að kærandi hafi ekki verið í námi á vorönn 2015. Stjórn LÍN telur að ekki komi fram í læknisvottorði sem kærandi lagði fram að hún hafi verið með öllu ófær um að skila námsárangri fyrr en raun bar vitni. Ákvörðun stjórnar LÍN byggir eins og að framan greinir á því að samkvæmt staðfestum upplýsingum frá skóla kæranda hafi hún verið við nám á námsárinu 2013-2014. Málskotsnefnd tekur fram að þetta er ekki í samræmi við þau gögn sem liggja fyrir í málinu um námstímabil kæranda. Í umsókn kæranda til háskólans um breytingu á skráningu vegna tafa í námi (Changes to Student Registration and Thesis Submission) þann 20. ágúst 2014 kemur fram að kærandi sótti um breytingu á skráningu á lokum námstímabils frá 12. september 2014 til 8. desember 2014. Þá kemur einnig fram í útskriftarvottorði kæranda að hún hafi verið skráð í nám frá 7. október 2013 til 8. desember 2014. Var meðferð stjórnar LÍN á máli kæranda að þessu leyti ekki í samræmi við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Eins og nánar er vikið að undir lið b. hér að neðan hefði stjórn LÍN borið að afgreiða mál kæranda í samræmi við framangreinda skráningu kæranda hjá skólanum. Í því sambandi er þó rétt að líta til þess að vafi kann að leika á hvort kæranda hafi verið veittar nægjanlegar leiðbeiningar þegar hún tilkynnti LÍN um frestun ritgerðar sinnar, þ.e. leiðbeiningar um nauðsyn þess að sækja um námslán vegna haustannar 2014 ef tafir í námi myndu leiða til þess að breyta þyrfti skráningu hjá skóla, en fyrir liggur að kærandi sótti ekki um námslán vegna haustannar 2014. Af þessum sökum telur málskotsnefnd ekki ástæðu til að gera athugasemd við að LÍN hafi með ívilnandi hætti heimilað kæranda að skila gögnum í samræmi við upphaflega skráningu hennar og umsókn í nám á skólaárinu 2013-2014. Kemur þá fyrst til athugunar meðferð stjórnar LÍN á máli kæranda vegna skilafrestsins 14. janúar 2015.

a. Námsárið 2013-2014 - Skilafrestur gagna til 14. janúar 2015.

Eins og fram hefur komið upplýsti kærandi LÍN fyrirfram um seinkun á námsárangri. Ennfremur upplýsti kærandi LÍN þann 29. janúar 2015 um að vörn ritgerðar færi fram 13. febrúar 2015. Eftir það hafði kærandi ekki samband við LÍN fyrr en 5. október 2015 er hún skilaði námsárangri sem hafði verið henni aðgengilegur frá 15. maí 2015. Í læknisvottorði sem kærandi lagði fram segir að hún hafi átt við alvarlegt þunglyndi að stríða en hafi verið meðhöndluð með þunglyndislyfjum sem hafi haldið einkennum niðri. Í maí 2015 hafi henni verið ráðlagt að hætta töku lyfjanna sökum þungunar. Í kjölfar þess hafi einkenni sjúkdómsins sem hafi verið mikið framtaksleysi og þunglyndi farið vaxandi og hafi m.a. valdið því að kærandi sinnti því ekki að koma gögnum til LÍN. Málskotsnefnd hefur áður fjallað um gildi læknisvottorðs í máli er varðar fresti hjá LÍN. Varð niðurstaða nefndarinnar í máli nr. L-36/2013 Umboðsmanni Alþingis tilefni til að skoða mál kærandans (mál nr. 7308/2013) og í lokabréfi umboðsmanns vegna þess dagsettu 30. október 2013, sem framsent var LÍN með tölvupósti 29. nóvember 2014, gerir umboðsmaður eftirfarandi athugasemdir vegna meðferðar málsins:

• "Ég tek undir það sem fram kemur í skýringum nefndarinnar til mín að niðurstaða um hvort [hún hefði verið alls ófær um að sækja um undanþágu] hljóti að byggjast á læknisfræðilegu mati eða ótvíræðum upplýsingum um atvik sem leitt hafi til þess að umsókn hefur borist of seint. Ég bendi hins vegar á í þessu sambandi að málskotsnefndin er ekki skipuð lækni. Þá fæ ég ekki séð af þeim gögnum sem mér hafa verið afhent að fyrir nefndinni hafi legið önnur læknisfræðileg gögn en þau sem [kærandi] lagði fram mati sínu til stuðnings eða að nefndin hafi leitað eftir aðstoð sérfræðings til að leggja mat á umrædd gögn.“ • "Með hliðsjón af atvikum [...] tel ég rétt að koma þeirri ábendingu á framfæri við nefndina að þess sé jafnan gætt að haga mati [...] í samræmi við þær kröfur sem leiða m.a. af 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga. Hef ég þá einkum í huga að til þess að aðili máls eigi kost á að leggja fram gögn sem eru fullnægjandi að mati nefndainnar þarf að leiðbeina honum um þær kröfur sem nefndin telur rétt að gera m.a. til þess að slík gögn sýni fram á veikindi með óyggjandi hætti, eftir atvikum með því að gefa aðila kost á að koma að frekari gögnum ef nefndin telur þegar framlögð gögn ófullnægjandi." • "Jafnframt hef ég í huga að það leiðir af 10. gr. stjórnsýslulaga og almennum reglum í stjórnsýslumálum að hnígi læknisfræðileg gögn sem fyrir liggja í máli í öfuga átt við niðurstöðu stjórnvalds í málinu þarf að liggja fyrir með nokkuð skýrum hætti á hvaða upplýsingum og forsendum hefur verið byggt af hálfu stjórnvalda við mat á gögnum málsins, sbr. til hliðsjónar álit mitt frá 31. maí 2102 í máli nr. 6365/2011."

Eins og að framan greinir byggir stjórn LÍN niðurstöðu sína í ákvörðun sinni frá 17. febrúar 2016 á því að ekki yrði séð í læknisvottorði sem kærandi lagði fram að hún hefði verið með öllu ófær um að skila námsárangri fyrr en raun bar vitni. Að mati málskotsnefndar leiðir það af leiðbeiningarskyldu stjórnvalda, sbr. og tilvitnað álit umboðsmanns, að stjórn LÍN bar að leiðbeina kæranda um að hvaða leti framlögð gögn voru ófullnægjandi og gefa henni kost á að leggja fram ný gögn. Þar sem þetta var ekki gert var meðferð máls kæranda ekki í samræmi við ákvæði 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga. Þá liggur einnig fyrir eins og kærandi hefur bent á að stjórn LÍN kallaði hvorki til sérfróðan aðila né setti fram nein læknisfræðileg rök fyrir ályktun sinni um að kærandi hafi ekki verið ófær um að sinna skyldum sínum. Ekki verður heldur litið framhjá því eins og kærandi bendir á að þegar sjóðurinn hafði fallist á að kærandi gæti lagt fram gögn eftir að frestur til þess var liðinn kom hvergi fram af hálfu sjóðsins í leiðbeiningum til kæranda né er að finna í reglum hans eða leiðbeiningum formlegt tímamark sem kæranda var bent á að henni bæri að virða. Þegar litið er til þessa og vottorðs um andleg veikindi kæranda verður erfitt að fullyrða með óyggjandi hætti að sá dráttur sem varð á því að kærandi lagði fram útskriftargögn sín eigi að leiða til þess samkvæmt lögum og reglum um LÍN að hún eigi ekki rétt á að fá námslán vegna þessa hluta náms síns. b. Réttur kæranda til námsláns vegna haustannar 2014.

Eins og lýst er hér að framan benda gögn málsins til þess að kærandi hafi verið í námi á haustönn 2014. Samkvæmt úthlutunarreglum LÍN vegna skólaársins 2014-2015 var umsóknarfrestur um lán vegna náms á haustönn 2014 til og með 30. nóvember 2014. Samkvæmt grein 5.2.1 skyldi lánveitingum vera lokið fyrir 15. janúar 2016 og bar því að skila námsárangri fyrir þann frest. Fyrir liggur að kærandi sótti ekki um námslán vegna haustannar 2014. Í fjölmörgum úrskurðum málskotsnefndar, m.a. L-26/2013, L-28/2013 og L-21/2015, hefur verið bent á ákvæði reglugerðar nr. 478/2011 um LÍN og úthlutunarreglna LÍN um að námsmanni beri að tilkynna LÍN um breytingar á högum sínum eftir að umsókn hefur verið lögð fram ef ætla má að þær hafi áhrif á ákvörðun um námslán. Slíkar tilkynningar geti gefið LÍN tilefni til að leiðbeina námsmanni sérstaklega um skilafresti gagna og aðra fresti í úthlutunarreglunum, s.s. í þeim tilvikum þegar námsmaður hefur tafist í námi sem leitt geti til þess að breytingar verði á skráningu hans hjá viðkomandi skóla. Það liggur fyrir í málinu að kærandi hafði samband við LÍN í júlí 2014 þegar fyrirséð var að hún myndi ekki ná að skila lokaverkefni sínu fyrir tilskilinn frest hjá skólanum. Í kjölfarið óskaði kærandi eftir fresti hjá skólanum til 8. desember 2014. Ekki verður séð af gögnum málsins nákvæmlega hvaða upplýsingar kærandi veitti LÍN 22. júlí 2014 en a.m.k. má ráða að hún tilkynnti um frestun á lokaritgerð sem átti að skila í ágúst um 1-2 mánuði, þ.e. fram í september/október 2014. Verður því ekki betur séð en að kærandi hafi a.m.k. ráðgert að fresta skilum á 50 ECTS-eininga lokaverkefni sínu fram að eða fram yfir lok námstímabils. Þessar upplýsingar urðu þó ekki til þess að LÍN veitti henni viðeigandi leiðbeiningar, þ.e. að slík frestun kynni að hafa þau áhrif að hún færðist inn á nýtt námstímabil þannig að sækja þyrfti um námslán vegna haustannar 2014. Í ljósi samskipta kæranda og LÍN einkum um að kæranda bæri að skila gögnum fyrir 15. janúar 2015 verður ekki séð að almenn tilkynning um umsóknarfrest sem send var umboðsmanni kæranda hafi verið til þess fallin að bæta úr hvað þetta varðar. Með vísan til þess er að framan greinir er það niðurstaða málskotsnefndar að meðferð máls kæranda hjá LÍN hafi verið haldin verulegum ágöllum bæði hvað varðar rannsókn þess og leiðbeiningar til kæranda. Því beri að ógilda úrskurði stjórnar LÍN í máli kæranda.

Úrskurðarorð

Úrskurðir stjórnar LÍN í máli kæranda frá 14. desember 2015 og 17. febrúar 2016 eru felldir úr gildi.

Til baka