Úrskurður
Ár 2016, miðvikudaginn 7. september kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-10/2016:
Kæruefni
Með kæru sem barst málskotsnefnd þann 19. maí 2016 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 14. janúar 2016 þar sem hafnað var beiðni kæranda um að LÍN myndi fella niður ábyrgð þriggja ábyrgðarmanna á námsláni hans. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 19. maí 2016 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 16. júní 2016 og var afrit þess sent kæranda og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi er lántaki námsláns hjá LÍN sem hann tók á árunum
1982-1985 og stendur lánið í ríflega tveimur milljónum króna. Þrír ábyrgðarmenn
eru að láninu. Fyrrum tengdafaðir kæranda, móðir hans og faðir, en faðir kæranda
lést fyrir 17 árum og hefur dánarbú hans tekið við ábyrgðinni. Með bréfi til
stjórnar LÍN 15. nóvember 2015 fór kærandi fram á að sú breyting yrði gerð á
láninu að ábyrgð ábyrgðarmanna verði felld niður þannig að kærandi einn yrði
ábyrgur fyrir endurgreiðslu lánsins. Stjórn LÍN hafnaði beiðni kæranda með
ákvörðun 17. desember 2015 með þeim rökum að kærandi hafi hvorki samþykkt að
koma með nýja ábyrgðarmenn að láninu eða aðrar tryggingar sem stjórn sjóðsins
teldi fullnægjandi. Væri sjóðnum því ekki heimilt að fella ábyrgðirnar niður,
sbr. 7. mgr. 6. gr. laga um LÍN nr. 21/1992. Með bréfi kæranda til stjórnar LÍN
dagsett 30. desember 2015 fór hann fram á að erindi hans yrðu tekið fyrir að
nýju af stjórn LÍN og óskaði kærandi eftir greinarbetri og nákvæmari
rökstuðningi frá stjórninni. Erindi kæranda var efnislega tekið fyrir á fundi
stjórnar LÍN 14. janúar 2016 og var þar áréttuð fyrri ákvörðun stjórnar um að
sjóðurinn hefði ekki heimild til að fella niður ábyrgð þriðja aðila, án þess að
nýjar ábyrgðir eða tryggingar kæmu til.
Sjónarmið kæranda
Í erindi kæranda kemur fram að vorið 2015 hafi dregist hjá honum að
greiða árlega endurgreiðslu af námsláni hjá LÍN. Hafi ábyrgðarmenn hans strax
fengið viðvaranir og áminningar frá sjóðnum og hafi það komið þeim mjög á óvart
að þeir væru enn í ábyrgð fyrir láninu. Það hafi sérstaklega átt við um fyrrum
tengdaföður kæranda þar sem hjónabandi dóttur hans og kæranda hafi lokið fyrir
20 árum. Kærandi telur það vera óviðeigandi að háaldrað fólk sé í ábyrgðum fyrir
námsláni hans. Einnig sætti hann sig illa við að ábyrgð föður hans skuli hafa
færst yfir á dánarbúið og með því séu systkini hans einnig komin í ábyrgð fyrir
hluta af láninu. Kærandi bendir á að hann sé orðinn 60 ára og því eðlilegt að
hann standi einn fyrir greiðslu af láninu. Kærandi telur ekki nauðsynlegt að
hann komi með nýja ábyrgðarmenn til að leysa núverandi úr ábyrgð. Á árinu 2009
hafi verið gerð breyting á lögum um LÍN um að leggja af ábyrgðarmenn og að
námsmenn skyldu sjálfir vera ábyrgir fyrir endurgreiðslu lána sinna.
Sjálfskuldarábyrgð hans eigi að var fullnægjandi fyrir sjóðinn og fráleitt að
ætlast til að hann finni nýtt fólk til að gangast í ábyrgð fyrir sig. Þá kveðst
kærandi ekki geta fallist á að koma með aðrar tryggingar fyrir láninu, s.s. með
því að setja húsnæði sitt að veði. Að breyta 30 ára framfærslu- og neysluláni í
fasteignaveðlán sé bæði fráleitt og til vansa fyrir sjóðinn. Einkum í ljósi
þeirrar lagabreytingar árið 2009 að falla frá kröfu um ábyrgðarmenn. Kærandi
telur að í ákvörðun sinni sneiði stjórn LÍN framhjá mikilvægum forsendum í
málinu. Hann sé ekki að fara fram á niðurfellingu ábyrgða á námsláninu, heldur "breytingu á ábyrgðum" þannig að hann sé í "sjálfskuldarábyrgðum" fyrir eigin
námslánum. Kærandi vilji að LÍN aðlagi þá heimild sem sjóðurinn fékk árið 2009
aðstæðum hans og annarra sem séu í sömu sporum og leysi úr ábyrgð aldraða
ábyrgðarmenn. Hvað varðar kröfu LÍN um að ný trygging sem sjóðurinn telur
fullnægjandi komi í stað ábyrgðarmanna bendir kærandi á að aldrei hafi komið
fram hjá sjóðnum að sjálfskuldarábyrgð hans væri ekki fullnægjandi. Kærandi
ítrekar að hann sé "alls ekki að fara fram á niðurfellingu á ábyrgðum" heldur
finnist sér óréttmætt að íþyngja rígfullorðnum ættingjum með ábyrgðum á
námslánum hans.
Sjónarmið stjórnar LÍN
Í athugasemdum
stjórnar LÍN kemur fram að kærandi sé með S-lán hjá sjóðnum og séu þrír
ábyrgðarmenn á skuldabréfunum sem hann gaf út. Vegna orða kæranda um að hann sé
ekki að óska eftir niðurfellingum á ábyrgðum heldur að ábyrgðinni verði breytt í
sjálfskuldaábyrgð hans í stað ábyrgðar þriðja aðila bendir stjórn LÍN á að
kærandi beri nú þegar ábyrgð á greiðslum af námsláni sínu. Með því að óska eftir
að taka við sjálfskuldarábyrgð og að aðrir ábyrgðarmenn verði samhliða leystir
úr ábyrgð sé kærandi að óska eftir að ábyrgð þriðja aðila verði felld niður á
námslánum hans. Í 7. mgr. 6. gr. laga um LÍN komi fram að ábyrgð þriðja manns
geti einungis fallið niður ef nýr ábyrgðarmaður eða önnur trygging komi í
staðinn sem stjórn sjóðsins telur fullnægjandi. Aðrar heimildir séu ekki fyrir
hendi til að stjórn LÍN geti felld niður ábyrgðir. Stjórn LÍN bendir á að með
lögum nr. 78/2009 hafi lögum um LÍN verið breytt með þeim hætti að felld var
niður krafa um ábyrgðarmenn hjá lánshæfum námsmönnum. Kærandi fari fram á að sú
lagabreyting verði aðlöguð og útfærð að aðstæðum hans. Í 2. gr. laganna sé hins
vegar skýrt tekið fram að ákvæði þeirra gildi ekki um lánsloforð sem veitt hafa
verið fyrir gildistöku laganna. Hafi stjórn LÍN ekki heimild til þess að beita
ákvæðum laganna með afturvirkum hætti. Í lok athugasemda LÍN kemur fram að ástæðu
þess að kæra kæranda hafi ekki borist málskostnefnd innan kærufrest sé að rekja
til tæknilegra örðugleika hjá sjóðnum. Því telji stjórn LÍN að afsakanlegar
ástæður séu fyrir því að kæran hafi borist að liðnum kærufresti, sbr. 1. tl. 1.
mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Geri stjórn LÍN því ekki athugasemdir
við að mál kæranda verði tekið til meðferðar hjá málskotsnefnd.
Niðurstaða
Kærandi skaut máli sínu upphaflega til stjórnar LÍN 15.
nóvember 2016. Með ákvörðun sinni 17. desember 2015 hafnaði stjórn LÍN beiðni
kæranda. Með bréfi dagsettu 30. desember 2015 fór kærandi fram á að stjórn LÍN
tæki mál hans fyrir að nýju. Stjórnin tók mál kæranda fyrir að nýju 14. janúar
2016 og hafnaði beiðni hans aftur. Tilkynning um ákvörðunina var send kæranda
með bréfi 19. sama mánaðar. Með því að stjórn LÍN tók mál kæranda til
efnismeðferðar að nýju vegna beiðni hans um endurupptöku byrjaði nýr kærufrestur
að líða frá því að ákvörðunin 14. janúar 2016 var birt, sbr. 4. mgr. 27. gr.
stjórnsýslulaga. Þegar málskotsnefnd barst kæra í málinu 19. maí 2016 var liðinn
þriggja mánaða kærufrestur 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga. Fyrir liggur í
málinu að tæknilegir erfiðleikar hjá LÍN hafi verið þess valdandi að kæran barst
að liðnum kærufresti og samþykkir stjórn LÍN að málið verði tekið til meðferðar
hjá málskotsnefnd. Með vísan til þess telur málskotsnefnd afsakanlegt að kæran
barst ekki fyrr og ber því að taka málið til meðferðar, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28.
gr. stjórnsýslulaga. Samkvæmt gögnum málsins tók kærandi námslán námsárin 1982
til 1985 og voru gefin út vegna þeirra tólf skuldabréf með sjálfskuldarábyrgð
ábyrgðarmanna. Um var að ræða svokölluð T-lán, sem nefnast S-lán þegar
endurgreiðsla lánanna hefst. Við útgáfu skuldabréfanna voru í gildi lög nr.
72/1982 um námslán og námsstyrki. Samkvæmt þeim var gerð krafa um að námsmaður,
sem fengi lán úr lánasjóðnum, legði fram yfirlýsingu eins ábyrgðarmanns um að
hann tæki að sér sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu lánsins. Faðir kæranda var
ábyrgðarmaður á sjö skuldabréfum, móðir hans á þremur og fyrrum tengdafaðir
ábyrgðarmaður á tveimur skuldabréfum. Kærandi fer fram á að LÍN heimili að
ábyrgðum á námslánum hans verði breytt þannig að einungis verði um að ræða
sjálfskuldarábyrgð hans á lánunum, en ábyrgð þriðja aðila falli niður. Vill hann
að aðstæður hans verði aðlagaðar að núgildandi lögum um LÍN, sem ekki geri kröfu
um ábyrgðarmenn ef námsmenn uppfylla lánhæfisskilyrði. Verður að skilja
málatilbúnað kæranda þannig að hann telji að um réttarstöðu hans gagnvart LÍN
eigi að fara samkvæmt núgildandi lögum og sjálfskuldarábyrgð ábyrgðarmanna á
námslánum hans að falla niður og kærandi einn eigi að vera ábyrgur fyrir
endurgreiðslu eigin námsláns. Í 7. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN kemur
fram að ábyrgð ábyrgðarmanns, eins eða fleiri, geti fallið niður enda setji
námsmaður aðra tryggingu sem stjórn sjóðsins metur fullnægjandi. Þá kemur fram í
grein 5.3.2 í úthlutunarreglum LÍN 2015-2016 að eldri ábyrgð fellur ekki úr
gildi nema henni sé sagt upp og ný sett í staðinn með samþykki sjóðsins. Með
lögum nr. 78/2009, sem tóku gildi 27. júlí 2009, var lögum um LÍN breytt með
þeim hætti að frá gildistöku laganna var felld niður krafa um ábyrgðarmann hjá
lánshæfum námsmönnum. Í lögunum er ákvæði til bráðabirgða þar sem segir að
ákvæði þeirra gildi ekki um lánsloforð sem veitt hafa verið fyrir gildistöku
laganna. Með því var tekið fyrir afturvirkni laganna. Í athugasemdum í
lagafrumvarpinu um bráðabirgðaákvæðið segir:
Við undirbúning
lagafrumvarps þessa hefur komið til skoðunar hvort veita ætti stjórn
Lánasjóðsins heimild til að aflétta ábyrgð ábyrgðarmanns á þegar veittu námsláni
án þess að gerð verði krafa um að námsmaður setji aðra tryggingu í hennar stað.
Að baki slíkri tillögu hafa verið upplýsingar um tilvik þar sem ábyrgð er
upphaflega veitt við aðrar aðstæður, í sambandi á milli lántaka og
ábyrgðarmanns, en eru síðar þegar reyna kann á ábyrgðina. Við nánari skoðun
þykir sú leið ekki fær að taka upp almenna heimild fyrir stjórn Lánasjóðsins að
fella niður ábyrgð á útistandandi námslánum án þess að önnur trygging komi á
móti.
Eins og áður greinir segir í 7. mgr. 6. gr. laga um LÍN að
ábyrgð ábyrgðarmanns geti fallið niður enda setji námsmaður aðra tryggingu sem
stjórn sjóðsins meti fullnægjandi. Heimild stjórnar LÍN til niðurfellingar á
skuldbindingum ábyrgðarmanna námslána er þannig bundin við það að námsmaður
setji tryggingu í staðinn sem stjórn sjóðsins metur fullnægjandi. Trygging er
kemur í stað ábyrgðarmanna getur m.a. verið bankatrygging. Kærandi kveðst hvorki
hafa möguleika á því að afla annarra trygginga né kæri hann sig um það. Við þær
aðstæður er stjórn LÍN ekki heimilt að fella niður ábyrgðir ábyrgðarmanna. Það
er því niðurstaða málskotsnefndar staðfesta beri synjun stjórnar LÍN á beiðni
kæranda.
Úrskurðarorð
Ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda frá 14. janúar 2016 er staðfest