Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-09/2016 - Skilyrði lánveitingar - synjun um lán til diplómanáms

Úrskurður

Ár 2016, miðvikudaginn 21. september, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-9/2016:

Kæruefni

Með kæru sem barst málskotsnefnd 18. apríl 2016 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 14. janúar 2016 um að synja henni um námslán námsárið 2015-2016 vegna diplómanáms í lýðheilsuvísindum. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 19. apríl 2016 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Frekari gögn bárust frá kæranda 20. apríl 2016 og voru þau framsend LÍN. Athugasemdir frá stjórn LÍN bárust með bréfi dagsettu 12. maí 2016 og var afrit þess sent kæranda og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum. Kærandi sendi athugasemdir sínar með bréfi dagsettu 13. júní 2016 og voru þær framsendar LÍN 14. júní 2016. LÍN sendi viðbótarathugasemdir í málinu 27. júní 2016 og var kæranda gefinn kostur á að tjá sig um þær með bréfi dagsettu 29. júní 2016. Viðbótarathugasemdir kæranda bárust málskotsnefnd 13. júlí 2016.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi hugði á meistaranám í lýðheilsuvísindum. Hún hafði samband við Háskóla Íslands 21. maí 2015 en var þá upplýst um að umsóknarfrestur vegna meistaranáms í lýðheilsufræðum væri liðinn. Fram kemur í bréfi Háskóla Íslands til LÍN að kærandi hafi með grunnnámi sínu uppfyllt kröfur til að komast í meistaranám, en þar sem umsóknarfrestur hafi verið liðinn hafi henni verið ráðlagt að sækja um viðbótardiplómanám á framhaldsstigi. Kærandi stundaði diplómanámið skólaárið 2015-2016. Námið er skipulagt sem 30 ECTS-eininga hlutanám sem kennt er á tveimur misserum. Kærandi lauk hins vegar 28 ECTS-einingum á haustmisseri 2015 og 22 ECTS-einingum á vormisseri. Kærandi sótti síðan um meistaranám í lýðheilsuvísindum fyrir 15. apríl 2016 vegna skólaársins 2016-2017. Kærandi brautskráðist ekki með diplómagráðu og voru þau námskeið sem hún hafði þegar lokið, samtals 50 ECTS, skráð sem hluti af meistaragráðu hennar í lýðheilsuvísindum (MPH). Kærandi sótti um námslán 27. júlí 2015 vegna haustannar 2015. Kom fram í umsókn hennar að hún hygðist stunda meistaranám í lýðheilsuvísindum (MPH) við Háskóla Íslands og ljúka 30 ECTS-einingum á önninni. Með tölvupósti sjóðsins til kæranda 15. desember 2015 kom fram að samkvæmt upplýsingum sjóðsins stundaði hún diplómanám í lýðheilsuvísindum sem væri hlutanám. Samkvæmt grein 1.1 í reglum sjóðsins væri nám lánshæft ef það væri skipulagt sem fullt nám, þ.e. 60 ECTS-einingar á hverju misseri/önn fyrir sig. Hefði sjóðurinn því dregið umsókn kæranda um námslán fyrir skólaárið 2015-2016 til baka. Kom fram að kærandi ætti þess kost að senda frekari gögn eða eftir atvikum að bera málið undir stjórn LÍN. Í svarpósti kæranda til LÍN 16. desember 2015 upplýsti kærandi að nám það sem hún stundaði á haustönn yrði hluti af meistaranámi í lýðheilsuvísindum sem hún ætlaði að hefja eftir áramót. Sendi kærandi meðfylgjandi upplýsingar frá Háskóla Íslands um viðbótardiplómanámið. Þar kom fram að námið væri ekki sérstaklega skipulagt sem nám með vinnu, enda færi kennsla fram á daginn og nemendur sæktu sömu námskeið og nemendur í meistaranámi í lýðheilsuvísindum. Einnig kom fram að um þriðjungur nemenda í viðbótardiplómanámi sækti að námi loknu um meistaranám í lýðheilsuvísindum. Inntökuskilyrði væru fyrsta einkunn í þremur skyldunámskeiðum. Í langflestum tilvikum fengjust valnámskeið einnig metin inn í meistaranámið. Gerði þetta nemendum kleift að stytta námstíma í meistaranáminu. Ef kærandi lyki þessum þremur námskeiðum með fyrstu einkunn væru afar góðar líkur á að umsókn hennar í meistaranám á haustmisseri yrði samþykkt. Með ákvörðun sinni í máli kæranda 14. janúar 2016 synjaði stjórn LÍN beiðni kæranda um námslán námsárið 2015-2016 til að stunda viðbótardiplómanám í lýðheilsuvísindum.

Sjónarmið kæranda

Í kæru sinni fer kærandi þess á leit að málskotsnefnd taki ákvörðun um að veita kæranda lán til samræmis við áður veitt lánsvilyrði LÍN, þ.e.a.s. fyrir 28 ECTS-einingum sem kærandi hafi lokið í námi í lýðheilsuvísindum á haustönn 2015. Einnig krefst kærandi þess að ákvörðun LÍN frá 15. desember 2015 um að afturkalla lánsvilyrði til hennar verði felld úr gildi. Kærandi lýsir því í kærunni að hún hafi stundað meistaranám í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands á haustönn 2015. Námið sé skipulagt þannig að á tveimur fyrstu önnum þess þurfi að standast þrjá skylduáfanga, tvo á haustönn og einn á vorönn. Standist nemandi ekki þær kröfur sé einungis möguleiki á að ljúka gráðunni með diplóma í stað meistaragráðu. Kærandi kveðst hafa ákveðið í samráði við Miðstöð í lýðheilsuvísindum að byrja meistaranámið með því að taka diplóma í lýðheilsuvísindum á einni önn í stað tveggja, þ.e. að ljúka diplómagráðunni allri á haustönn að einu fagi undanskildu sem hún hafi lokið í janúar 2016. Með því að ljúka faginu í janúar hafi hún verið tekin formlega inn í meistaranám í lýðheilsuvísindum. Kveðst kærandi hafa byrjað umrætt nám einungis með það markmið að fá meistaragráðu í lýðheilsuvísindum. Kærandi tekur fram að umrætt nám sé ekki sérstaklega skipulagt sem nám með vinnu enda fari kennsla fram á daginn og nemendur sæki sömu námskeið og meistaranemar í lýðheilsuvísindum. Kærandi bendir á að Nemendaskrá Háskóla Íslands hafi ekki getað skráð hana í meistaranám við upphaf námsins þó skýrt hafi legið fyrir að vilji og ætlun hennar hafi verið að ljúka umræddu námi með meistaragráðu. Kærandi upplýsir að hún hafi lokið tveimur skyldunámskeiðum og tveimur valfögum á haustönn, samtals 28 ECTS-einingum og í janúar 2016 hafi hún lokið síðasta skyldufaginu og hafi hún því lokið samtals 34 ECTS-einingum. Kærandi lýsir því að hún hafi sótt um námslán hjá LÍN haustið 2015 enda hafi hún þá þegar sótt um að hefja umrætt nám. Hafi hún fengið lánsvilyrði og yfirlit um lánsáætlun frá LÍN. Í kjölfarið hafi hún samið um yfirdráttarheimild við viðskiptabanka sinn sem hafi gert henni kleift að standast fjárhagslegar skuldbindingar sínar. Þann 15. desember 2015 hafi hún fengið tölvupóst frá LÍN þar sem lánsvilyrðið hafi verið dregið til baka. Tilgreindar forsendur hafi verið að hún stundaði einungis diplómanám sem dreifðist yfir tvær annir og því ekki lögum samkvæmt unnt að veita lán. Málið hafi haft í för með sér fjárhagslegt tjón fyrir hana og komi hin íþyngjandi ákvörðun LÍN afar illa við fjárhagslega hagsmuni hennar. Í viðbótarathugasemdum kæranda kemur fram að útskýring LÍN um að skipulag náms skuli ráða hvort það teljist lánshæft eigi ekki við í hennar tilviki. Líkt og tilgreint sé í kærunni hafi hún stundað meistaranám í lýðheilsuvísindum á haustönn 2015. Upphafleg skráning hennar í diplómanám hafi einungis komið til af þeirri ástæðu að umsóknarfrestur vegna meistaranáms hafi verið liðinn. Hafi henni því verið bent á að skrá sig í diplómanám að svo stöddu og að hún yrði síðan skráð í meistaranám að ári liðnu og allar einingar fluttar yfir í meistaranámsferil. Hafi hún talið að hér væri einungis um formsatriði að ræða í skráningarkerfi Háskóla Íslands. Hún hafi aldrei ætlað sér að ljúka diplómagráðu. Í þessu sambandi vísar kærandi til gagna sem hún lagði fram með athugasemdum sínum þar sem sé að finna staðfestingu Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum á skráningu og námsferli hennar þar sem allar einingar sem hún hafi lokið bæði á haustönn og vorönn séu metnar til meistaranáms. Á fylgiskjali 2 komi fram að öll námskeið sem hún hafi lokið hafi verið metin til meistaranáms í lýðheilsuvísindum. Hafi skráning hennar verið lagfærð, engum einingum sé lokið í diplómanámi en 50 einingum í meistaranámi í lýðheilsuvísindum. Líkt og námsferill hennar beri með sér hafi hún ekki hlotið diplómagráðu í lýðheilsuvísindum þrátt fyrir að hafa lokið tilskildum fjölda eininga til þess. Ástæðan sé einfaldlega sú að markmið hennar með náminu sé að ljúka meistaragráðu en ekki diplómagráðu. Þá vekur kærandi athygli á að það hafi verið og sé enn gagnkvæmur skilningur á því að hún hafi verið meistaranemi í lýðheilsuvísindum bæði á haustönn 2015 og vorönn 2016. Það nám sé lánshæft og því eigi kærandi rétt á námsláni vegna þeirra eininga sem hún hafi sannanlega lokið. Vísar kærandi í þessu efni til bréfs Miðstöðvar lýðheilsuvísinda dagsett 1. júní 2016. Kærandi hafnar því að hún hafi ekki getað haft réttmætar væntingar til að fá námslán með vísan til vilyrðis sjóðsins. Kærandi kveðst hafa talið sig stunda meistaranám þrátt fyrir að skráningin hafi í upphafi verið með öðrum hætti. Kærandi ítrekar þau sjónarmið sem komið hafi fram í kæru um að ákvörðun LÍN hafi verið verulega íþyngjandi fyrir hana. Bendir hún á að hún muni þurfa að fresta námslokum þar sem hún muni þurfa að vinna samhliða námi sínu.Kærandi ítrekar að LÍN beri að gæta að ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð máls hennar. Bendir hún einkum á að stjórnvöldum beri að gæta meðalhófs og ekki ganga lengra en nauðsyn beri til við töku íþyngjandi ákvarðana. Telur kærandi ljóst að ef vafi leiki á skýringu úthlutunarreglna LÍN beri að skýra hann kæranda í vil. Þá upplýsir kærandi að henni sé kunnugt um að nemendur sem stundað hafi diplómanám hafi fengið námslán þrátt fyrir að ljúka ekki náminu með meistaragráðu. Verði ekki fallist á veitingu námsláns til hennar kunni slík niðurstaða að brjóta gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Kærandi ítrekar einnig að hún geti ekki borið hallann af því að málsmeðferð LÍN sé á einhvern hátt ábótavant sem leiði til þess að nemendur fái mismunandi meðferð umsókna um námslán. Í athugasemdum kæranda er einnig vísað til þess að Miðstöð lýðheilsuvísinda hafi lýst því yfir að þar sem kærandi útskrifist ekki með diplóma líti miðstöðin svo á að námskeiðin séu ekki metin "per se" heldur séu þau "flutt í nýjan feril og verði aðeins nýtt einu sinni til gráðu". Kærandi áréttar að hún geri ekki kröfu um að litið sé til markmiðs hennar með náminu þó svo að það verði að teljast málefnalegt að líta til þess við heildarmat málsins. Telur kærandi að einkum verði að líta til þess að hún hafi stundað nám sem sé lánshæft hjá LÍN og muni ljúka því námi. Ótækt sé að litið sé einungis til forms skráningar þegar ljóst sé að einungis sé um að ræða hagræði vegna umsóknarfrests. Hér sé ekki þörf á að líta til tilgangs kæranda með náminu heldur einungis að kærandi lagði stund á námsgreinar og hafi lokið einingum sem allar séu hluti af hinu lánshæfa meistaranámi.

Sjónarmið LÍN

Í athugasemdum stjórnar LÍN vegna kærunnar kemur fram kærandi hafi sótt um námslán vegna meistaranáms í lýðheilsuvísindum námsárið 2015-2016 þann 27. júlí 2015 og hafi í kjölfarið fengið lánsáætlun enda sé það nám lánshæft hjá sjóðnum. Við samkeyrslu upplýsinga frá Háskóla Íslands í desember 2015 um námsgreinar sem nemendur væru skráðir í hafi hins vegar komið í ljós að kærandi var ekki skráð í meistaranám heldur viðbótardiplómanám í lýðheilsuvísindum. Um sé að ræða tveggja missera 30 ECTS hlutanám á framhaldsstigi. Þar sem viðbótardiplómanámið var ekki lánshæft hafi LÍN dregið umsókn kæranda til baka og tilkynnt henni um þá ákvörðun 15. desember 2015. LÍN vísar til greinar 1.1 í úthlutunarreglunum fyrir námsárið 2015-2016 en þar segir um lánshæfi náms: "Nám telst lánshæft ef það er skipulagt sem fullt nám í kennsluskrá skóla, 60 ECTS-einingar (ECTS stendur fyrir "European Credit Transfer and Accumulation System") á hverju skólaári eða a.m.k. 30 ECTS-einingar á hverju misseri í þeim tilvikum þegar námskipulagið nær ekki yfir heilt skólaári." Samkvæmt framangreindri reglu sé það skipulag námsins hverju sinni sem ráði því hvort námið teljist lánshæft eða ekki. Ekki sé hægt að taka tillit til einstakra námsleiða námsmanna. Þannig sé ekki hægt að líta til markmiðs nemenda með náminu eða til þess hvort námið/námsgreinar kunni síðar að verða metnar til eininga í námi sem telst lánshæft. Mikilvægt sé fyrir sjóðinn að gæta jafnræðis og samræmis við úthlutun námslána gagnvart öllum nemendum. Stjórn LÍN bendir á að þegar kærandi hafi sótt um lán hafi hún gefið rangar upplýsingar sem leitt hafi til þess að hún hafi fengið útgefna lánsáætlun er byggt hafi á röngum forsendum. Kærandi geti ekki byggt réttmætar væntingar á grundvelli rangra upplýsinga sem hafi komið frá henni sjálfri. Í viðbótarathugasemdum stjórnar LÍN er bent á að samkvæmt þeim gögnum sem kærandi hafi sent með athugasemdum sínum sé staðfest bæði af verkefnastjóra Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum og námskrá Háskóla Íslands að kærandi hafi verið skráð í diplómanám í lýðheilsuvísindum námsárið 2015-2016. Sé því óumdeilt að kærandi hafi verið skráð í og stundað nám sem ekki var lánshæft hjá sjóðnum. Þá bendir LÍN á að ekki sé hægt að sækja um lán í tölvukerfi sjóðsins vegna diplómanáms í lýðheilsuvísindum. Eftir að sjóðurinn hafi byrjað að samlesa umsóknir hjá LÍN við skráningu hjá Háskóla Íslands sé nánast útilokað að nemandi geti sótt um lán vegna meistaranáms ef hann er í raun skráður í annað nám, líkt og í tilviki kæranda, án þess að það uppgötvist hjá sjóðnum. Fullyrðingu kæranda um að nemendur í diplómanámi hjá sjóðnum hafi fengið námslán sé því mótmælt þó ekki sé hægt að útiloka að slíkt hafi gerst á fyrri námsárum áður en sjóðurinn hóf að samlesa upplýsingar sínar við skráningu nemenda í háskólum. Stjórn LÍN telur úrskurð sinn í máli kæranda í samræmi við lög og reglur sjóðsins og í samræmi við fyrri ákvarðanir sínar og fer fram á að málskotsnefnd staðfesti hana.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna er hlutverk sjóðsins að tryggja þeim er falla undir lögin jöfn tækifæri til náms. Í 1. mgr. 3. gr. laganna kemur fram að miða skuli við að námslán samkvæmt lögunum nægi hverjum námsmanni til að standa straum af náms- og framfærslukostnaði meðan á námi stendur að teknu tilliti til fjölskyldustærðar námsmannsins. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. setur stjórn sjóðsins nánari ákvæði um úthlutun námslána. Hefur stjórn LÍN sett úthlutunarreglur sem miða að því að skilgreina hvaða skilyrði námsmaður þurfi að uppfylla til að hafa rétt til námsláns samkvæmt lögunum meðan á námi hans stendur. Í 2. mgr. greinar 1.1. í úthlutunarreglum LÍN fyrir námsárið 2015-2016 segir um lánshæfi náms:

"Nám telst lánshæft ef það er skipulagt sem fullt nám í kennsluskrá skóla, 60 ECTS-einingar [...] á hverju skólaári eða a.m.k. 30 ECTS-einingar á hverju misseri í þeim tilvikum þegar námsskipulagið nær ekki yfir heilt skólaár. Skráning nemenda hjá skóla ræður því hvort námsmaður telst í lánshæfu námi eða ekki."

Í gögnum málsins kemur fram að kærandi var skráð í diplómanám í lýðheilsuvísindum skólaárið 2015-2016. Í bréfi Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum til LÍN dagsettu 1. júní 2016 segir að kærandi hafi misst af umsóknarfresti í meistaranám í lýðheilsuvísindum vorið 2015 og verið ráðlagt að sækja um viðbótardiplómanám á framhaldsstigi. Kærandi hafi lokið diplómanáminu á skólaárinu 2015-2016, 28 ECTS-einingum á haustmisseri og 22 ECTS-einingum á vormisseri. Kærandi hafi síðan sótt um meistaranám og fengið samþykkt og þá hefðu öll námskeið sem hún hafi lokið í diplómanáminu verið skráð sem hluti af meistaranáminu. Málskotsnefnd getur ekki fallist á þær útskýringar kæranda að það skipti máli að námskeiðin hafi í kjölfar umsóknar hennar um meistaranám ekki verið metin "per se" heldur flutt á nýjan feril. Þá verður ekki séð að skráning kæranda hafi verið leiðrétt heldur var skráningu hennar breytt í kjölfar þess að hún sótti um meistaranám vegna skólaársins 2016-2017. Í reglum Miðstöðvar lýðheilsuvísinda um mat á öðru námi til eininga í MPH og Ph.D námi frá 18. desember 2012 kemur fram að eftir að farið hefur verið yfir umsóknir um mat á einingum úr fyrra námi fái nemandi yfirlit yfir þær einingar sem samþykkt hefur verið að meta. Þessar einingar séu síðan færðar inn á námsferil sem "Annað nám" eða, ef um er að ræða framhaldsnám innan Háskóla Íslands, fluttar úr öðrum námsferli. Ljóst er að námsárið 2015-2016 var kærandi ekki í meistaranámi heldur í öðrum námsferli, þ.e. hún var skráð og lauk umræddum ECTS-einingum í diplómanámi í lýðheilsuvísindum. Skráningu hennar var ekki breytt fyrr en við umsókn hennar um meistaranám vegna næsta skólaárs, þ.e. 2016-2017. Samkvæmt ótvíræðum ákvæðum úthlutunarreglna LÍN er það "[s]kráning nemenda hjá skóla [sem] ræður því hvort námsmaður telst í lánshæfu námi eða ekki." Þar sem reglur LÍN eru ótvíræðar að þessu leyti er ekki svigrúm til neins mats af hálfu málskotsnefndar um hvort markmið náms kæranda eigi að leiða til þess að hún verði talin eiga rétt á námsláni. Eins og áður greinir liggur ekki heldur fyrir í málinu að upphafleg skráning kæranda í diplómanám hafi verið röng af einhverjum ástæðum og síðan leiðrétt. Þá hefur LÍN bent á að ekki sé hægt að sækja um námslán vegna diplómanáms í lýðheilsuvísindum í tölvukerfi sjóðsins og að nánast útilokað sé að nemandi geti sótt um og fengið námslán vegna meistaranáms en verið skráður í annað nám. Ekki sé þó útilokað að slíkt kunni að hafa gerst áður en samkeyrsla við skráningu nemenda hjá háskólum hófst hjá sjóðnum. Verður því ekki fallist á það með kæranda að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga í málinu. Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða málskotsnefndar að ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda hafi verið í samræmi við lög og reglur sem um sjóðinn gilda. Því beri að staðfesta ákvörðun stjórnar LÍN stjórnar í máli kæranda.

Úrskurðarorð

Ákvörðun stjórnar LÍN frá 14. janúar 2016 í máli kæranda er staðfest.

Til baka