Úrskurður
Ár 2016, mánudaginn 17. október, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-14/2016:
Kæruefni
Með kæru sem barst málskotsnefnd 4. júlí 2016 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 23. júní 2016 þar sem kæranda var synjað um undanþágu frá fastri afborgun námsláns á árinu 2016. Fer kærandi þess á leit að ákvörðun stjórnar LÍN í máli hennar verði endurskoðuð. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 13. júlí 2016 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi til málskotsnefndar dagsettu 10. ágúst 2016 og var afrit þess sent kæranda til athugasemda. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi lenti í alvarlegu slysi í lok nóvember 2014 og sökum
þess voru tekjur hennar lágar árið 2015 og hluta árs 2014. Fram kemur í gögnum
málsins að kærandi hefur lokið bæði grunn- og framhaldsháskólanámi.
Heildartekjur hennar árið 2015 voru tæpar 2,2 milljónir króna en voru á árinu
2013, þ.e. áður en hún lenti í slysinu, um 5,7 milljónir króna. Kærandi var í
hlutastarfi frá mars 2015 þar til hún fór á atvinnuleysisbætur í mars 2016. Í
staðgreiðsluyfirliti RSK yfir tekjuárið 2015 kemur fram að hún fékk greitt frá
Sjúkratryggingum Íslands samtals um 313 þúsund krónur frá janúar til apríl 2015.
Á sama tíma þáði kærandi greiðslur frá styrktarsjóði BHM samtals um 766 þúsund
krónur. Frá mars til nóvember 2015 og frá maí til nóvember 2015 var kærandi í
tveimur hlutastörfum. Kærandi fékk eftir það greiðslur úr ríkissjóði í desember
2015 og janúar og febrúar 2016. Eftir það í mars og apríl 2016 fór kærandi á
atvinnuleysisbætur. Í gögnum málsins kemur einnig fram að kærandi hefur unnið að
því að leggja fram umsókn í doktorsnám við Háskóla Íslands og að fyrirhugðuð
innritun hafi verið á vorönn 2016 eða jafnvel á haustönn 2015 þar sem
undirbúningur að náminu hafi staðið yfir síðan þá. Í greiðslumati viðskiptabanka
kæranda frá apríl 2016 kemur fram að tekjur hennar þann mánuðinn voru um 93
þúsund krónur og að hana vantar um 178 þúsund krónur til að standa undir
fjárhagslegum skuldbindingum sínum. Kærandi sótti þann 18. febrúar 2016 um
undanþágu frá fastri afborgun námsláns hjá LÍN á gjalddaga 1. mars 2016.
Sjónarmið kæranda
Kærandi vísar til þess að hún eigi í
verulegum fjárhagsörðugleikum. Hún hafi lent í slysi í lok árs 2014 og hafi
verið atvinnulaus og tekjulaus hluta árs 2015. Hún hafi haft um 2 milljónir
króna í árstekjur 2015 og hafi fengið greiðslumat þar sem fram komi að það vanti
176 þúsund krónur til að endar nái saman. Í erindi kæranda til LÍN bendir hún á
að þessa fjóra mánuði fyrir gjalddagann 1. mars 2016 hafi hún ekki verið
atvinnulaus, ekki með 100% örorku, ekki ófrísk eða í fæðingarorlofi. Í
samskiptum hennar við LÍN upplýsir kærandi að hún hafi verið skráð á
atvinnuleysisbætur síðan í febrúar 2016. Hún hafi verið í 50% vinnu í desember
og janúar og 10% vinnu í nóvember 2015. Kærandi vísar til þess að hún hafi lent
í aðstæðum sem hafi valdið henni verulegum fjárhagsörðugleikum. Hún lýsir því að
hún hafi lent í alvarlegu slysi og geti lagt fram vottorð um afleiðingar þess,
s.s. áverka, fjölda aðgerða, áverkaskor, fjölda álitsgjafa, legutíma, lengd
sjúkraþjálfunar og vottorð um óvinnufærni. Kærandi bendir á að ljóst sé að hún
hafi orðið fyrir miklum tekjumissi og sé þ.a.l. komin í töluverða
fjárhagsörðugleika sökum slyssins. Þessar aðstæður hafi sannanlega valdið
verulegri skerðingu á ráðstöfunarfé og möguleikum hennar á að afla tekna.
Greiðslumatið varpi skýru ljósi á fjárhagsörðugleika hennar sem megi rekja til
slyssins sem hún hafi lent í haustið 2014.
Sjónarmið stjórnar LÍN
Stjórn LÍN bendir á að skv. 6. mgr. 8. gr. laga um LÍN sé sjóðstjórn
heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu námsláns, að hluta eða öllu
leyti, ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum skuldara, t.d. ef
alvarleg veikindi eða slys skerða til muna ráðstöfunarfé hans. Ennfremur segi í
grein 8.5.1 í úthlutunarreglum LÍN að heimilt sé að veita undanþágu frá greiðslu
fastrar afborgunar ef lánshæft nám, atvinnuleysi, óvinnufærni vegna örorku
og/eða veikinda, þungunar, umönnunar barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda
verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega. Að jafnaði sé miðað við að ástæður
þær er valdið hafi örðugleikum hafi varað í a.m.k. fjóra mánuði fyrir gjalddaga.
Stjórn LÍN bendir á að það liggi fyrir að tekjur kæranda séu undir tekjuviðmiðum
sjóðsins. Samkvæmt reglum sjóðsins sé hins vegar ekki nóg að sýna fram á að
einhverjar af þeim ástæðum í nefndum ákvæðum eigi við heldur þurfi jafnframt að
sýna að fram á að einhverjar af þeim ástæðum nefndum í ákvæðinu eigi við um
viðkomandi greiðanda. Að jafnaði sé gerð krafa um að ástæða
fjárhagsörðugleikanna hafi varað í a.m.k. fjóra mánuði fyrir gjalddaga en það sé
metið hverju sinni. Samkvæmt upplýsingum frá kæranda hafi hún verið í hlutavinnu
frá mars 2015 þar til hún fór á atvinnuleysisbætur í febrúar 2016. Í febrúar
2016 hafi kærandi jafnframt sótt um námslán hjá LÍN fyrir 30 ECTS-einingum vegna
doktorsnáms. Með hliðsjón af framangreindu hafi kærandi ekki verið talin
uppfylla skilyrði greinar 8.5.1 í úthlutunarreglum sjóðsins og því hafi henni
verið synjað um undanþágu. Þá hafi ekki verið talið að grein 8.5.2 í
úthlutunarreglum sjóðsins ætti við um kæranda en þar sé gerð krafa um að
skyndileg og veruleg breyting hafi verið á högum lánþega sem hafi þau áhrif að
útsvarsstofn vegna tekna á fyrra ári gefi ekki rétta mynd af fjárhag lánþega á
endurgreiðsluárinu. Stjórn LÍN kveður niðurstöðu í máli kæranda hafa verið í
samræmi við lög og reglur er um sjóðinn gildi og einnig í samræmi við
sambærilegar ákvarðanir stjórnar LÍN og málskotsnefndar. Fer stjórn LÍN fram á
að málskotsnefnd staðfesti niðurstöðu stjórnarinnar í máli kæranda.
Niðurstaða
Í 6. og 7. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN er mælt fyrir um
heimild sjóðsstjórnar til að veita undanþágu frá endurgreiðslu námsláns með
eftirfarandi hætti:
Stjórn sjóðsins er heimilt að veita undanþágu frá
árlegri endurgreiðslu skv. 1. mgr., að hluta eða öllu leyti, ef skyndilegar og
verulegar breytingar verða á högum skuldara, t.d. ef hann veikist alvarlega eða
verður fyrir slysi er skerðir til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að
afla tekna. Stjórn sjóðsins er enn fremur heimilt að veita undanþágu frá
ársgreiðslu skv. 1. mgr. ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna
eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega
eða fjölskyldu hans.
Skuldari, sem sækir um undanþágu skv. 6. mgr., skal
leggja sjóðstjórn til þær upplýsingar er stjórnin telur skipta máli. Umsóknin
skal berast sjóðnum eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar.
Í grein 8.5.1 í úthlutunarreglum LÍN 2015-2016 er að finna útlistun á
heimild stjórnar LÍN til að veita undanþágu frá endurgreiðslu afborgunar
námsláns. Þar segir að heimilt sé að veita undanþágu ef lánshæft nám,
atvinnuleysi, óvinnufærni vegna veikinda og/eða örorku, þungunar, umönnunar
barna, umönnunar maka eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum
fjárhagsörðugleikum hjá lánþega. Almennt sé miðað við að ekki séu veittar
undanþágur ef árstekjur lánþega séu yfir 3.330.000 krónum og árstekjur hjóna eða
sambúðarfólks séu yfir 6.660.000 krónum. Þá er tekið fram að ástæður þær sem
valdi örðugleikunum skuli að jafnaði hafa varað í a.m.k. fjóra mánuði fyrir
gjalddaga afborgunar. Í máli þessu er ágreiningslaust að árstekjur kæranda árið
2015 voru undir tekjuviðmiði LÍN sem lýst er hér að framan og að tekjur hennar í
janúar og febrúar 2016 voru samtals um 245 þúsund krónur. Kærandi var síðan
skráð á atvinnuleysisskrá í febrúar 2016. Þó svo kærandi hafi hvorki verið
atvinnulaus né algerlega óvinnufær vegna þess slyss sem hún lenti í í lok árs
2014 verður að mati málskotsnefndar að leggja mat á það hvort aðstæður hennar
hafi á einhvern hátt verið sambærilegar þeim sem lýst er í 6. mgr. 8. gr. laga
um LÍN og leggja þannig heildstætt mat á aðstæður kæranda. Að mati
málskotsnefndar verður ekki betur séð en að kærandi hafi í kjölfar slyss í lok
árs 2014 sinnt tímabundnum störfum og hlutastörfum ekki vegna þess að hún hafi
kosið það sjálf heldur sökum þess að skyndilegar og verulegar breytingar hafi
orðið á högum hennar vegna þessa slyss. Hefur kærandi m.a. lýst því að hún geti
lagt fram vottorð um afleiðingar slyssins, s.s. áverka, fjölda aðgerða,
áverkaskor, fjölda álitsgjafa, legutíma, lengd sjúkraþjálfunar og vottorð um
óvinnufærni. Ekki verður séð af gögnum málsins að LÍN hafi kallað eftir þessum
upplýsingum. Að mati málskotsnefndar gefa þessar lýsingar kæranda til kynna að
hún hafi verið í aðstæðum sambærilegum þeim sem lýst er í 6. mgr. 8. gr. laga um
LÍN og hefði LÍN í samræmi við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr.
37/1993 borið að kalla eftir þessum gögnum frá kæranda, sannreyna þau og ef þau
reyndust í samræmi við það sem kærandi hefur lýst, fallast á beiðni hennar um
undanþágu frá afborgun námsláns. Málskotsnefnd tekur einnig fram af þessu
tilefni að þegar viðkomandi umsækjandi reynir að bjarga sér í tímabundum
erfiðleikum sem hann hefur lent í án þess að sækja um atvinnuleysisbætur geti
verið rétt að taka tillit til þess, sbr. t.d. úrskurð málskotsnefndar í máli nr.
L-1/2014, og geti þá verið tilefni til að skoða hvort aðstæður viðkomandi geti
talist sambærilegar þeim sem lýst er í 6. mgr. 8. gr. laga um LÍN. Þá bendir
málskotsnefnd á að þrátt fyrir að málefnlegt geti verið að miða við að
erfiðleikar hafi varað í fjóra mánuði hvílir eigi að síður sú skylda á LÍN að
líta á heildarmynd aðstæðna greiðenda hverju sinni. Þannig getur verið rétt að
víkja frá beitingu slíkra meðaltalsreglna þegar fyrir liggur að verulegir
fjárhagserfiðleikar geti eigi að síður verið fyrir hendi, sbr. t.d. úrskurð
málskotsnefndar í máli L-37/2013. Með vísan til ofanritaðs er það mat
málskotsnefndar að meðferð máls kæranda hafi ekki verið í samræmi við 10. gr.
stjórnsýslulaga. LÍN beri því að taka mál kæranda til meðferðar að nýju og kalla
eftir nánari upplýsingum um aðstæður hennar samkvæmt framansögðu. Er ákvörðun
stjórnar LÍN í máli kæranda frá 23. júní 2016 því felld úr gildi.
Úrskurðarorð
Ákvörðun stjórnar LÍN frá 23. júní 2016 í máli kæranda er felld úr gildi.