Úrskurður
Ár 2016, mánudaginn 31. október, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-6/2016:
Kæruefni
Með kæru sem barst málskotsnefnd 16. mars 2016 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 14. desember 2015 um að hafna beiðni kæranda um að hún sem ábyrgðarmaður fái að taka við greiðslum á láni lántakanda á sömu kjörum og hann hafði á láni sínu. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 17. mars 2016 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 13. apríl 2016 og var afrit þess sent kæranda og henni jafnframt gefinn kostur á að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Kærandi hefur ekki sent inn frekari athugasemdir. Með bréfi dagsettu 9. september 2016 óskaði málskotsnefnd eftir viðbótarupplýsingum frá LÍN og bárust þær með bréfi dagsettu 6. október 2016. Kæranda var gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum vegna viðbótarupplýsinga frá LÍN en hefur ekki þegið það.
Málsatvik og ágreiningsefni
Helstu málsatvik eru þau að kærandi er ábyrgðarmaður á námsláni
lántakanda sem var úrskurðaður gjaldþrota 10. desember 2014. Um er að ræða
námslán sem tekin voru á árunum 1990-1992. Lántakandi hóf að greiða af láninu
þremur árum eftir námslok og voru þau í skilum þegar hann var úrskurðaður
gjaldþrota en voru þá gjaldfelld. Við gjaldfellingu lánsins stóð skuld
lántakanda við LÍN í krónum 1.698.662. Í kjölfarið af gjaldfellingunni hóf LÍN
innheimtu á hendur kæranda sem ábyrgðarmanni lánsins. Kærandi óskaði eftir því í
ágúst 2015 að hún fengi að taka við greiðslum á námsláni lántakanda á sömu
kjörum og lántakandi hafði haft á láni sínu. Stjórn LÍN hafnaði beiðni kæranda
með ákvörðun 14. desember 2015 og kærði kærandi þá ákvörðun stjórnar LÍN til
málskotsnefndar.
Sjónarmið kæranda
Kærandi byggir á því
að hin kærða ákvörðun LÍN stangist á við lög um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 en
samkvæmt lögunum geti lánveitandi ekki gjaldfellt lán án þess gefa ábyrgðarmanni
áður kost á að greiða afborganir lánsins. Þá sé ekki leyfilegt að hækka vexti
eingöngu af þeirri ástæðu að annar aðili taki við greiðslum. Þá telur kærandi að
nauðsynlegt sé að skoða þá skörun sem sé á 99. gr. gjaldþrotalaga og 7. gr. laga
um ábyrgðarmenn. Kærandi telur afgreiðslu LÍN í málinu á mörkum þess að vera
siðlaus, þ.e. að við gjaldþrot lántaka tryggi LÍN sér hærri endurgreiðslu frá
ábyrgðarmanni en ef lántaki hefði áfram greitt af láninu sínu. Telur kærandi að
með þessu sé búið að setja upp fyrirkomulag þar sem gjaldþrot lántakanda séu
hagstæð fyrir LÍN. Þá gerir kærandi athugasemdir við verklag LÍN varðandi útgáfu
skuldabréfs til greiðslu á ábyrgðarskuldinni. Snúa athugasemdirnar að frágangi
greiðslumats og þess að lántaki verði ábyrgðarmaður á skuldabréfinu.
Sjónarmið LÍN
LÍN vísar til þess að við úrskurð um
gjaldþrotaskipti lántakanda í desember 2014 hafi námslán hans gjaldfallið í
heild sinni, sbr. 99. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991, eins og aðrar
kröfur á hendur honum. Það hafi ekki verið LÍN sem hafi tekið ákvörðun um
gjaldfellingu lánsins heldur hafi lánið fallið sjálfkrafa í gjalddaga við
úrskurðinn um gjaldþrotaskipti. LÍN bendir á að aðalreglan um sjálfskuldarábyrgð
sé að ábyrgðin verði virk þegar aðalkrafa gjaldfalli og þar sem gjaldfelling
lánsins sé í þessu tilviki lögbundin án atbeina lánveitanda eigi ákvæði 4. mgr.
7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn ekki við. Vísast um þetta til
umfjöllunar málskotsnefndar LÍN í máli nr. L-29/2014 í sambærilegu máli. Þá
bendir LÍN á að þrátt fyrir að sjóðnum sé heimilt að ganga að ábyrgðarmanni til
greiðslu heildarskuldarinnar hafi LÍN eftir gjaldfellingu lána boðið
ábyrgðarmönnum að ljúka málum með því að semja við LÍN um að gefa út skuldabréf
til greiðslu á skuldinni. LÍN bendir á að það sé ekki lengur hægt að greiða af
láninu með upphaflegum greiðsluhætti lántaka. Að námslán séu lán sem veitt séu
til námsmanna á niðurgreiddum kjörum og sé því um ríkisaðstoð að ræða og verði
slík aðstoð ekki veitt nema heimild sé fyrir því í lögum. Samkvæmt lögum um LÍN
nr. 21/1992 sé sjóðnum heimilt að veita slík lán til námsmanna að uppfylltum
ákveðnum skilyrðum. Kærandi sé ekki námsmaður og ljóst að hann uppfyllir ekki
skilyrði sem nefnd séu í lögum um LÍN og því skorti lagaheimild til að veita
honum sambærilegt lán og lántaki hafði. Í kæru ber kærandi því við að ákvörðun
stjórnar LÍN stangist á við 7. gr. laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 þar sem fram
komi að lánveitandi geti ekki gjaldfellt lán án þess að gefa ábyrgðarmanni kost
á að greiða afborganir lánsins. LÍN bendir á að þegar um gjaldþrot sé að ræða
njóti þessarar verndar ekki við þar sem 99. gr. gjaldþrotalaga kveði á um að
allar skuldbindingar falli í gjalddaga við uppkvaðningu úrskurðar um
gjaldþrotaskipti. Framangreind gjaldfelling sé lögbundin og án atbeina
lánveitanda. Kæranda hafi við meðferð málsins verið boðið að setja
námslánaskuldina á skuldabréf til 10 ára. Óski skuldari eftir því að semja við
LÍN með þessum hætti og dreifa greiðslum hinnar gjaldföllnu ábyrgðarskuldar
gerir sjóðurinn kröfu um að fá ábyrgðarmann á skuldabréfið og þá að viðkomandi
skuldari fari í greiðslumat samkvæmt fyrirmælum 4. gr. laga um ábyrgðarmenn.
Stjórn LÍN kveður niðurstöðu í máli kæranda hafa verið í samræmi við lög og
reglur er um sjóðinn gildi og einnig í samræmi við sambærilegar ákvarðanir
sjóðsins. LÍN gerir kröfu um að málskotsnefnd staðfesti hina kærðu ákvörðun.
Málskotsnefnd sendi LÍN eftirfarandi spurningar þann 9. september sl.: 1. Eftir
að lán hjá LÍN hefur verið gjaldfellt vegna gjaldþrotaskipta lántakanda/skuldara
hefur honum verið gefin kostur á að koma láni í skil og hefja endurgreiðslur að
nýju í samræmi við upphaflegu skilmála skuldabréfsins? Í þessu sambandi er vísað
til upplýsinga frá LÍN fyrir dómi í héraðsdómsmálum E-3625/2015 og E-2226/2015
um að samkvæmt verklagsreglum LÍN sé öllum lánþegum heimilt að koma námslánum
sínum í skil, hvort sem krafan hefur verið gjaldfelld eður ei.
2. Ef
slík heimild er fyrir hendi hjá LÍN: a. eru til skriflegar verklagsreglur hjá
sjóðnum varðandi þetta úrræði? b. hver er fjöldi þeirra gjaldþrota einstaklinga
sem hafa verið boðið umrætt úrræði? c. hvað margir hafa þegið að hefja
endurgreiðslu á ný? d. hvenær hóf LÍN að bjóða þetta úrræði? e. með hvaða hætti
er úrræðinu komið á framfæri gagnvart gjaldþrota lántakanda? f. er úrræðið kynnt
ábyrgðarmönnum á námslánum gjaldþrota lántakanda?
Í svörum LÍN við
framangreindum spurningum kemur fram að það sé almenn vinnuregla hjá LÍN að
lántökum eða ábyrgðarmönnum þeirra skuli ávallt heimilað að koma gjaldfelldu
láni í skil gegn því að greidd séu upp áfallin vanskil. Hafi þá ekki áhrif hvort
vanskil séu langvarandi eða hvort lán hafi verið gjaldfellt nýlega. Í slíkum
tilvikum hafi LÍN heimilað að vanskil séu gerð upp með útgáfu skuldabréfs til
allt að 10 ára eða jafnvel lengur ef nauðsynlegt þykir til að greiðslubyrði
bréfsins verði viðráðanleg fyrir skuldara. Er gjaldfelling láns þá dregin til
baka og eftirstöðvar settar í hefðbundið innheimtuferli, eins og gjaldfellingin
hafi aldrei átt sér stað. Þegar lán gjaldfalli sjálfkrafa samkvæmt 99. gr. laga
nr. 21/1991 sé LÍN þó ekki fært að viðhafa sömu vinnureglu og sé svarið við
fyrstu spurningu nefndarinnar því nei. Ráðist þetta helst af ákvæðum 3. mgr.
165. gr. laga nr. 21/1991 en þar segi meðal annars:
"Fyrningu krafna
sem um ræðir í 2. mgr. verður aðeins slitið á ný með því að kröfuhafi höfði
innan fyrningarfrests mál á hendur þrotamanninum og fái þar dóm um viðurkenningu
á fyrningarslitum gagnvart honum. ... "
Ákvæðið sé sérregla um
fyrningu krafna og feli í sér samkvæmt orðanna hljóðan að hefðbundnar
fyrningarreglur eigi ekki við um kröfur sem hafi gjaldfallið samkvæmt 99. gr.
laga nr. 21/1991. Af því leiði að lántaki sjálfur geti ekki rofið umrædda
fyrningu með því að viðurkenna kröfuna s.s. með því að greiða af henni eða með
því að viðurkenna hana með samkomulagi. Því sé hætta á að ef LÍN myndi gera
samkomulag við gjaldþrota einstakling þess efnis að gjaldfelling samkvæmt 99.
gr. yrði dregin til baka og lántaka væri heimilað að greiða áfram af láni sínu
með venjubundnum hætti, myndi krafa gagnvart lántaka og ábyrgðarmanni hans engu
að síður fyrnast 2 árum eftir skiptalok lántaka. Þá upplýsti LÍN að á árinu 2014
hafi sjóðurinn ákveðið að gerðar skyldu tilraunir til þess að slíta fyrningu
krafna gagnvart gjaldþrota lántökum með því að höfða mál sbr. 3. mgr. 165. gr.
laga nr. 21/1991. Hafi fyrstu málin verið höfðuð á árinu 2014 gegn lántökum sem
urðu gjaldþrota á árinu 2013. Engin fordæmi hafi verið til staðar fyrir því að
fyrning hafi verið rofin gagnvart gjaldþrota einstaklingi eða að höfðað hafi
verið mál samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 og því mikil óvissa
hvernig dómstólar myndu taka á slíkum málum. Í ljósi þess að gjaldþrot höfðu
aukist verulega á árunum 2012-2015 og verulegir fjármunir í húfi fyrir sjóðinn
var talið nauðsynlegt að láta reyna á að slíta fyrningu með áðurnefndum hætti. Í
athugasemdunum er upplýst að LÍN hafi stefnt lántökum til slita á fyrningu
samkvæmt 165. gr. laga nr. 21/1991 í töluverðum fjölda mála. Í nokkrum málanna
hafi verið gerð dómsátt þar sem lántaki og ábyrgðarmaður hafa fallist á að
fyrningu sé slitið gegn því að gjaldfelling lánsins sé dregin til baka. Þá hafa
verið kveðnir upp útivistardómar í nokkrum málum þar sem slit fyrningar voru
viðurkennd. Í einu máli hafi lántaki fallist á dómkröfur LÍN undir flutningi
málsins hjá héraðsdómi. Í fjórum málum hafa fallið dómar þ.e. í málum Héraðsdóms
Reykjavíkur nr. E-3625/2015, E-2225/2015, E-2226/2015 og E-3172/2015, þar sem
kröfum LÍN um slit á fyrningu var hafnað og hefur þeim verið áfrýjað til
Hæstaréttar. Þá kemur fram af hálfu LÍN að í þeim málum þar sem slit fyrningar
samkvæmt 165. gr. laga nr. 21/1991 hafi verið viðurkennd fyrir dómi, hafi
sjóðurinn litið svo á að réttaráhrif gjaldþrots séu niður fallin. Í þeim málum
hafi þá aftur verið mögulegt að heimila lántökum og ábyrgðarmönnum þeirra að
koma láni í skil samkvæmt hefðbundnu verklagi sjóðsins og hefur slíkt verið
framkvæmt í nokkrum málum. Telur LÍN að eftir standi að ekki sé mögulegt að
heimila lántökum sem orðið hafa gjaldþrota að greiða af lánum sínum eins og þau
hafi aldrei verið gjaldfelld. Vonast sé til að réttarstaða LÍN gagnvart
gjaldþrota lántökum muni skýrast eftir því sem á líði og eftir að dómar ganga í
Hæstarétti.
Niðurstaða
Ágreiningur máls þessa snýst fyrst og fremst um það hvort að
kærandi, sem ábyrgðarmaður á gjaldföllnu námsláni vegna gjaldþrots lántakanda,
eigi rétt á að taka við greiðslum lánsins samkvæmt upphaflegum skilmálum þess.
LÍN er opinber stjórnsýslustofnun sem hefur það hlutverk að tryggja þeim sem
falla undir lög nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna tækifæri til náms án
tillit til efnahags. LÍN veitir lán til námsmanna í framhaldsnámi samkvæmt lögum
og reglum sem um sjóðinn gilda. Er starfsemi sjóðsins fjármögnuð með
endurgreiðslu námslána, ríkisframlagi og lánsfé. LÍN ber í starfi sínu jafnt að
fylgja þeim lögum og reglum sem gilda sérstaklega um starfsemi sjóðsins og
lagareglum, jafnt skráðum sem óskráðum, sem gilda um stjórnsýslu hins opinbera
svo og reglum fjármunaréttarins eftir því sem við á. Sjálfskuldarábyrgð er
kröfuréttarlegs eðlis og er notuð í lánastarfsemi almennt. Með því að takast á
hendur sjálfskuldarábyrgð skuldbindur einstaklingur sig til að tryggja efndir
kröfu gagnvart lánveitanda ef lántaki reynist ekki borgunarmaður fyrir greiðslu
skuldarinnar. Efni kröfunnar ræðst af þeim löggerningi sem liggur henni til
grundvallar, s.s. samningi eða skuldabréfi, og eftir lögum sem gilda hverju
sinni. Skuldabréfin sem kærandi gekkst í sjálfskuldarábyrgð fyrir voru gefin út
á árunum 1990 til 1992 og eru 4 talsins. Endurgreiðslutími, og þar með líftími
skuldabréfanna og ábyrgðarinnar, er 40 ár. Við útgáfu skuldabréfanna voru í
gildi lög nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki. Samkvæmt þeim lögum var gerð
krafa um að námsmaður, sem fengi lán úr lánasjóðnum, legði fram yfirlýsingu eins
ábyrgðarmanns um að hann tæki að sér sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu lánsins.
Skilmálar ábyrgðaryfirlýsinga kæranda á skuldabréfunum eru samhljóða og hljóða
svo: "Til tryggingar skilvísri greiðslu á láni þessu, höfuðstól að viðbættum
verðtryggingum svo og þeim kostnaði er vanskil lántakanda kunna að valda, hefur
ofanritaður ábyrgðarmaður lýst yfir því, að hann ábyrgist in solidum lán þetta
sem sjálfskuldarábyrgðarmaður." Skilmálar ábyrgðarinnar samkvæmt
skuldabréfunum eru hefðbundnir og skýrir.
Í 99. gr. laga um
gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 segir:
Allar kröfur á hendur
þrotabúi falla sjálfkrafa í gjalddaga við uppkvaðningu úrskurðar héraðsdómara um
að búið sé tekið til gjaldþrotaskipta án tillits til þess sem kann áður að hafa
verið umsamið eða ákveðið með öðrum hætti.
Framangreint ákvæði
gildir jafnt um námslán sem aðrar kröfur á gjaldþrota aðila. Við það að
lántakandi var úrskurðaður gjaldþrota gjaldféll námslán hans og
sjálfskuldarábyrgð kæranda á láninu varð virk. Kærandi telur að hin kærða
ákvörðun LÍN stangist á við lög um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 en samkvæmt þeim
geti lánveitandi ekki gjaldfellt lán án þess að vera búinn að gefa ábyrgðarmanni
kost á að greiða afborganir lánsins. Þá sé ekki leyfilegt að hækka vexti aðeins
af því að annar aðili taki við greiðslum. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 32/2009 um
ábyrgðarmenn gilda þau um lánveitingar LÍN og samkvæmt 12. gr. laganna taka þau
til ábyrgðarskuldbindinga sem stofnað hefur verið til fyrir gildistöku þeirra
með þeim takmörkunum sem fram koma í ákvæðinu. Í 1. mgr. 7. gr. laganna er mælt
fyrir um tilkynningarskyldu gagnvart ábyrgðarmanni meðal annars um vanefndir
lántakanda. Um afleiðingar vanrækslu á tilkynningarskyldu er síðan fjallað í 2.,
3. og 4. mgr. ákvæðisins. Í málinu liggur fyrir að námslán lántakanda féll
sjálfkrafa í gjalddaga við úrskurð um gjaldþrotaskipti hans í desember 2014 í
samræmi við fyrirmæli 99. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991, eins og
aðrar kröfur á hendur honum, án aðkomu LÍN sem lánveitanda. Við gjaldfellingu
lánsins varð sjálfskuldarábyrgð kæranda virk. Í framhaldi upplýsti LÍN kæranda,
sem ábyrgðarmann, um gjaldfellinguna og krafðist greiðslu á ábyrgðarskuldinni,
en gaf kæranda kost á að ganga frá greiðslu skuldarinnar með útgáfu skuldabréfs.
Við aðstæður sem þessar, þ.e. þegar um gjaldþrot lántaka er að ræða að kröfu
þriðja aðila, verður að telja að eðli máls samkvæmt eigi tilkynningarskylda 7.
gr. laga um ábyrgðarmenn ekki við enda miðast ákvæðið við þær aðstæður að
lánveitandi standi að gjaldfellingu lánsins. Kærandi óskaði eftir því að henni
yrði heimilað að taka við námsláni lántaka með óbreyttum skilmálum, þ.e. að
ljúka greiðslu ábyrgðarskuldbindinga sinna með sama hætti og með sömu kjörum og
lántaki hafði. LÍN hafnaði kröfum kæranda með vísan til skorts á lagaheimild. Á
almennum lánamarkaði ríkir samningsfrelsi og ábyrgðarmenn sem taka þurfa við
skuldbindingu lántakanda geta almennt leitað samninga við lánveitendur um efndir
skuldbindinga sinna, fyrirkomulag greiðslunnar og samið um niðurfellingu
skuldarinnar gegn hlutagreiðslu, allt eftir aðstæðum hverju sinni. Þegar
lánveitendur meta slík tilboð er það m.a. gert út frá greiðslu- og eignastöðu
skuldarans og sjónarmiðum lánveitanda um að hámarka innheimtu lánsins. Að mati
málskotsnefndar setur löggjöfin um LÍN sjóðnum skorður sem þrengir fyrrgreint
samningsfrelsi gagnvart ábyrgðarmönnum námslána. Fyrir liggur að námslán eru
veitt námsmönnum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum samkvæmt lögum, reglugerð og
úthlutunarreglum sjóðsins hverju sinni. Námslán eru lán frá lánastofnun í eigu
ríkisins sem veitt eru á félagslegum grunni og niðurgreiddum kjörum. Fallast
verður á það með LÍN að þegar gengið er til samninga við ábyrgðarmann með nýju
láni til greiðslu á skuld vegna gjaldfallins námsláns er ekki heimilt án
sérstakrar lagaheimildar að miða við sömu kjör við lánveitinguna og námsmaður
naut. Í lögum um LÍN, reglugerð og úthlutunarreglum sjóðsins, er hvorki vikið að
því með hvaða hætti sjóðurinn skuli standa að innheimtu gagnvart ábyrgðarmönnum
né með hvaða hætti heimilt sé að semja við ábyrgðarmenn um frágang á
ábyrgðarskuld við sjóðinn. Innheimta LÍN gagnvart ábyrgðarmönnum námslána er
framkvæmd á grundvelli kröfuréttarlegra sjónarmiða en innan ramma laga um
sjóðinn sem gerir svigrúm sjóðsins til samninga við ábyrgðarmenn þrengra en
gerist almennt hjá lánastofnunum eins og áður sagði. Þá er LÍN opinber
stjórnsýslustofnun og ber í starfi sínu, þ. á m. við ákvarðanir um innheimtu
námslána, að fylgja þeim sérstöku lagareglum sem gilda um stjórnsýslu ríkisins,
bæði settum og óskráðum grundvallarreglum, og vönduðum stjórnsýsluháttum.
Málskotsnefnd telur að af sjónarmiðum um vandaða stjórnsýsluhætti leiði að LÍN
ber að gæta þess að við innheimtu krafna á hendur ábyrgðarmönnum sé farið að
meginreglum íslensks kröfuréttar og að vandað sé til um innheimtu slíkra skulda.
Einnig að höfð séu í huga þau sjónarmið og áherslur sem löggjafinn leggur
áherslu á við meðferð mála þar sem einstaklingar eru krafðir um greiðslu skulda
vegna sjálfskuldarábyrgða og fram koma í lögum um ábyrgðarmenn nr. 32/2009. LÍN
hefur sett sér viðmiðunarreglur varðandi þau úrræði sem í boði eru fyrir
ábyrgðarmenn vegna námslánaskulda. Hefur sjóðurinn upplýst málskotsnefnd um þær
við meðferð fyrri mála fyrir nefndinni. Slíkar viðmiðunarreglur stuðla að
jafnræði og skilvirkni í meðferð mála er varða ábyrgðarmenn námslána.
Málskotsnefnd tekur þó fram að um er að ræða viðmiðunarreglur sem ekki kunna að
eiga við í öllum tilvikum, s.s. þegar líkindi eru fyrir því að ábyrgðarmaður
hafi ekki greiðslugetu til að standa undir afborgunum þess láns sem LÍN býður
samkvæmt viðmiðunarreglum sjóðsins. Þegar slíkt liggur fyrir þá hefur LÍN að
mati málskotsnefndar svigrúm til að koma til móts við aðstæður ábyrgðarmanns
t.d. með láni til lengri tíma en viðmiðunarreglur sjóðsins gera ráð fyrir. Með
því aukast einnig líkur þess að sjóðurinn fái fullar efndir
ábyrgðarskuldarinnar. Því ber LÍN að skoða hvert tilvik fyrir sig og meta á
grundvelli fyrirliggjandi gagna og innan þeirra heimilda sem sjóðurinn hefur með
hvaða hætti hægt er að semja við ábyrgðarmann hverju sinni. Í þessu sambandi
bendir málskotsnefnd sérstaklega á að innheimta stjórnvalds á skuld
ábyrgðarmanns vegna námslána þriðja aðila er íþyngjandi athöfn í garð
ábyrgðarmanns og að mjög mikilvægt er að staðið sé vel að innheimtu slíkra mála
og jafnræðis sé gætt við frágang þeirra. Kærandi gerir ýmsar athugasemdir í kæru
við framkvæmd LÍN á frágangi nýs skuldabréfaláns sem henni hafi verið boðið til
að ganga frá ábyrgðarskuldinni. Málskotsnefnd telur ekki ástæðu að svo stöddu að
gera athugasemdir við afgreiðslu LÍN á nýju skuldabréfi þar sem það liggur fyrir
að ekki hafi verið gengið frá málinu af hálfu kæranda. Með vísan til
framangreindra atriða er það mat málskotsnefndar að sú ákvörðun stjórnar LÍN frá
14. desember 2015, að hafna beiðni kæranda um að taka við greiðslum á láni
lántaka, sé í samræmi við lög og reglur LÍN og er hún því staðfest. Vegna þeirra
upplýsinga sem fram koma í bréfi LÍN dagsettu 9. september 2016 um að 3. mgr.
165. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. breytingalög nr.
142/2010, komi í veg fyrir að lántaki geti sjálfur rofið fyrningu með
viðurkenningu á kröfunni telur málskotsnefnd rétt að benda á að 27. október sl.
féll dómur í Hæstarétti Íslands í máli nr. 119/2016. Í dóminum kemur fram að með
breytingum þeim sem lögleiddar voru með 1. gr. laga nr. 142/2010 hafi engin
breyting verið gerð á því með hvaða hætti skuldari gæti rofið fyrningu á hendur
sér. Verður því ekki séð að forsendur séu fyrir mismunandi verklagi LÍN gagnvart
gjaldþrota lántökum annars vegar og öðrum lántökum sem hefur verið gjaldfellt
hjá hins vegar.
Úrskurðarorð
Ákvörðun stjórnar LÍN frá 14. desember 2015 í máli kæranda er staðfest.