Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-17/2016 - Undanþágur frá afborgun - synjun um undanþágu frá fastri afborgun

Úrskurður

Ár 2016, miðvikudaginn 23. nóvember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-17/2016:

Kæruefni

Með kæru sem barst málskotsnefnd 8. ágúst 2016 kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 23. júní 2016 þar sem kæranda var synjað um undanþágu frá fastri afborgun námsláns á árinu 2016. Fer kærandi þess á leit að ákvörðun stjórnar LÍN í máli hennar verði endurskoðuð. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 8. ágúst 2016 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi til málskotsnefndar dagsettu 25. ágúst 2016 og var afrit þess sent kæranda til athugasemda þann 29. ágúst 2016. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi hafði verið atvinnulaus og þegið bætur en síðan tæmt bótarétt sinn. Eftir það var kærandi í 79% starfi. Fram kemur í gögnum málsins að heildartekjur kæranda á árinu 2015 hafi verið undir 3.330.000 krónum sem er lágmarkið í grein 8.5.1 í úthlutunarreglum LÍN 2015-2016 til að fá undanþágu frá árlegri endurgreiðslu námsláns. Kærandi sótti um undanþágu frá fastri afborgun námsláns hjá LÍN á gjalddaga 1. mars 2016. Stjórn LÍN synjaði beiðni kæranda með vísan til þess að hún hefði ekki lagt fram í málinu nein gögn er gæfu til kynna að aðstæður hennar væru sambærilegar þeim sem tilgreindar eru í grein 8.5.1 í úthlutunarreglum LÍN.

Sjónarmið kæranda

Kærandi byggir á því að aðstæður hennar, þ.e. laun hennar, atvinnuaðstæður og greiðsluvandaúrræði hjá Íbúðalaánsjóði, falli undir „aðrar sambærilegar aðstæður“ sem lýst sé í reglum LÍN. Kærandi lýsir því að hún hafi verið í 79% starfi sem hún hafi fengið eftir að hafa tæmt rétt til atvinnuleysisbóta. Hún hafi tekið starfinu þó starfshlutfallið væri ekki nægjanlegt. Hafi hún sóst eftir hærra starfshlutfalli og að auki hafi hún tekið alla aukavinnu sem henni hafi boðist. Af þessum sökum hafi laun hennar í nóvember 2015 til janúar 2016 ekki verið dæmigerð. Að fjárhæð séu laun hennar svipuð atvinnuleysisbótum en hún sé í þeirri stöðu að geta ekki aukið við þau. Jafnframt hafi hún fengið greiðslufrystingu hjá Íbúðalánasjóði.

Sjónarmið stjórnar LÍN

Stjórn LÍN bendir á að samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga um LÍN sé sjóðstjórn heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu námsláns, að hluta eða öllu leyti, ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum skuldara, t.d. ef alvarleg veikindi eða slys skerða til muna ráðstöfunarfé hans. Ennfremur segi í grein 8.5.1 í úthlutunarreglum LÍN að heimilt sé að veita undanþágu frá greiðslu fastrar afborgunar ef lánshæft nám, atvinnuleysi, óvinnufærni vegna örorku og/eða veikinda, þungunar, umönnunar barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega. Að jafnaði sé miðað við að ástæður þær er valdið hafi örðugleikum hafi varað í a.m.k. fjóra mánuði fyrir gjalddaga. Stjórn LÍN bendir á að það liggi fyrir að tekjur kæranda séu undir tekjuviðmiðum sjóðsins. Samkvæmt reglum sjóðsins sé hins vegar ekki nóg að sýna fram á lágar tekjur heldur þurfi jafnframt að sýna að fram á að einhverjar af þeim ástæðum nefndum í ákvæðinu eigi við um viðkomandi greiðanda. Stjórn LÍN telur kæranda ekki hafa lagt fram nein slík gögn er gefi til kynna að að fyrir hendi séu einhverjar þær ástæður sem tilgreindar eru í grein 8.5.1 eða aðstæður sambærilegar þeim er valdi kæranda verulegum fjárhagsörðugleikum. Stjórn LÍN kveður niðurstöðu í máli kæranda hafa verið í samræmi við lög og reglur er um sjóðinn gildi og einnig í samræmi við sambærilegar ákvarðanir stjórnar LÍN og málskotsnefndar. Fer stjórn LÍN fram á að málskotsnefnd staðfesti niðurstöðu stjórnarinnar í máli kæranda.

Niðurstaða

Í 6. og 7. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN er mælt fyrir um heimild sjóðsstjórnar til að veita undanþágu frá endurgreiðslu námsláns með eftirfarandi hætti:

Stjórn sjóðsins er heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu skv. 1. mgr., að hluta eða öllu leyti, ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum skuldara, t.d. ef hann veikist alvarlega eða verður fyrir slysi er skerðir til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna. Stjórn sjóðsins er enn fremur heimilt að veita undanþágu frá ársgreiðslu skv. 1. mgr. ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans.

Skuldari, sem sækir um undanþágu skv. 6. mgr., skal leggja sjóðstjórn til þær upplýsingar er stjórnin telur skipta máli. Umsóknin skal berast sjóðnum eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar.


Í grein 8.5.1 í úthlutunarreglum LÍN 2015-2016 er að finna útlistun á heimild stjórnar LÍN til að veita undanþágu frá endurgreiðslu afborgunar námsláns. Þar segir að heimilt sé að veita undanþágu ef lánshæft nám, atvinnuleysi, óvinnufærni vegna veikinda og/eða örorku, þungunar, umönnunar barna, umönnunar maka eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega. Almennt sé miðað við að ekki séu veittar undanþágur ef árstekjur lánþega séu yfir 3.330.000 krónum og árstekjur hjóna eða sambúðarfólks séu yfir 6.660.000 krónum. Þá er tekið fram að ástæður þær sem valdi örðugleikunum skuli að jafnaði hafa varað í a.m.k. fjóra mánuði fyrir gjalddaga afborgunar. Þrátt fyrir framangreind viðmið hvílir eigi að síður sú skylda á LÍN að leggja heildstætt mat á aðstæðum þeirra er óska eftir undanþágu og kanna hverju sinni hvort aðstæður þeirra teljist sambærilegar þeim sem lýst er í 6. mgr. 8. gr. laga um LÍN. Í máli þessu er ágreiningslaust að árstekjur kæranda árið 2015 voru undir tekjuviðmiði LÍN sem lýst er hér að framan. Í gögnum málsins kemur einnig fram að kærandi er einstæð móðir með tvö börn á framfæri. Hún hefur fengið greiðslufrystingu hjá Íbúðalánasjóði sem stóð yfir frá júní 2015 til júní 2016. Hún kveðst hafa tekið hlutastarfi þar sem annað hafi ekki verið í boði og taki jafnframt alla aukavinnu sem í boði sé. Kærandi kveður ástæðu lágra tekna og fjárhagserfiðleika vera þá að hún hafi ekki fengið fulla vinnu eftir að atvinnuleysi hennar lauk. Samkvæmt framlögðum launaseðlum var starfshlutfall kæranda 79% í október, 87% í nóvember og 97% í desember 2015 og 79% í janúar og 90% í febrúar 2016. Meðtal heildarlauna hennar umrædda mánuði var 299.195 krónur.

Málskotsnefndar áréttar að í fyrri úrskurðum sínum, sbr. t.d. L-38/2011, hefur verið á því byggt að lágar tekjur eingöngu geti ekki gefið tilefni til þess að beita undanþáguheimild heldur þurfi að vera fyrir hendi einhver af þeim atriðum sem talin eru upp í 6. mgr. 8. gr. laga um LÍN. Ljóst er að aðstæður kæranda, sem ekki hefur átt kost á fullri atvinnu, hafa valdið henni fjárhagserfiðleikum og skuldavanda og hefur hún m.a. notið greiðsluvandaúrræða hjá Íbúðalánasjóði. Þá ber skattframtal hennar árið 2016 með sér að hún getur vart talist eiga eignir sem hún gæti gengið að til að auka ráðstöfunarfé sitt. Það er því mat málskotsnefndar að lágar tekjur kæranda í kjölfar atvinnuleysis, ásamt erfiðri skuldastöðu, hafi valdið henni verulegum fjárhagslegum örðugleikum og þeir örðugleikar hafi varað í a.m.k. fjóra mánuði fyrir gjalddaga afborgunarinnar, sbr. grein 7.4.1 í úthlutunarreglum LÍN. Því hafi borið að veita kæranda undanþágu frá fastri endurgreiðslu afborgar sem var á gjalddaga 1. mars 2016. Ber því að fella úr gildi ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda frá 23. júní 2016.

Úrskurðarorð

Ákvörðun stjórnar LÍN frá 23. júní 2016 í máli kæranda er felld úr gildi.

Til baka