Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-23/2016 - Niðurfelling ábyrgðar - málinu vísað frá

Úrskurður

Ár 2016, miðvikudaginn 23. nóvember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í máli L-23/2016: Með kæru dagsettri 26. september 2016 sem barst málskotsnefnd 29. september 2016 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 10. maí 2016, þar sem synjað var kröfu kæranda um að ábyrgð hennar á námsláni A teldist niður fallin sökum fyrningar eða ekki lengur virk. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 29. september 2016 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Með bréfi dagsettu 21. október 2016 fór stjórn LÍN þess á leit að málskotsnefnd vísaði málinu frá þar sem kæran hafi borist meira en 3 mánuðum eftir dagsetningu bréfsins sem sent var kæranda, sbr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með bréfi dagsettu 25. október 2016 var kærandi upplýst um frávísunarkröfu stjórnar LÍN og gefinn kostur á að upplýsa hvort einhverjar þær ástæður sem tilgreindar eru í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eigi við í málinu. Með bréfi dagsettu 3. nóvember 2016 upplýsti lögmaður kæranda að henni hafi ekki borist niðurstaða stjórnar LÍN sem dagsett var 13. maí 2016 fyrr en mánuði síðar, þ.e. 13. júní 2016 en þann dag hafi ákvörðun stjórnar LÍN verið skönnuð inn í skjalakerfi lögmannsins. Einnig vísar lögmaður kæranda til þess að kærandi sé á áttræðisaldri og sökum aldurs, heilsufars og aðstæðna allra hafi henni verið ómögulegt að taka ákvörðun um kæru fyrr. M.a. hafi hún þurft að taka ákvörðun um hvort hún hefði tök á að greiða kostnað við málskot þar sem tekjur hennar sem ellilífeyrisþega væru takmarkaðar. Með tölvupósti þann 15. nóvember 2016 óskaði málskotsnefnd upplýsinga frá LÍN um hvort fyrir lægi í málinu upplýsingar er bentu til að dregist hefði að tilkynna lögmanni kæranda um ákvörðun stjórnar LÍN. Með tölvupósti þann 17. nóvember 2016 upplýsti LÍN að ekkert benti til annars en að ákvörðun stjórnar LÍN í málinu hafi verið send ásamt öðrum ákvörðunum stjórnar þann 13. maí 2016.

Niðurstaða

Um kærufrest í stjórnsýslumálum fer samkvæmt 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en þar segir að kæra skuli "borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun, nema lög mæli á annan veg." Eigi er kveðið sérstaklega á um frest í lögum nr. 21/992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna og gildir því framangreindur þriggja mánaða frestur um kæru þessa. Í 5. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga segir ennfremur að kæra teljist "nógu snemma fram komin ef bréf, sem hefur hana að geyma, er komið til æðra stjórnvalds eða afhent pósti áður en fresturinn er liðinn". Um þetta segir í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til stjórnsýslulaga að þegar ákvörðun er tilkynnt skriflega til aðila, þá skuli miða upphaf kærufrests við "þann dag þegar ákvörðunin er komin til aðila". Verður því upphaf kærufrests í máli þessu eigi miðað við þann frest sem tilgreindur er í bréfi LÍN til kæranda, þ.e. dagsetningu bréfs LÍN til kæranda sem var 13. maí 2016, heldur ber að miða við þann dag þegar ákvörðun stjórnar LÍN var komin til hennar. Niðurstaða stjórnar LÍN lá fyrir 10. maí 2016. Í máli þessu liggur fyrir að kæranda voru sendar upplýsingar um niðurstöðu stjórnar LÍN með með bréfi sem dagsett var 13. maí 2016. Samkvæmt upplýsingum LÍN er ekkert sem bendir til annars en að bréfið hafi verið póstlagt þennan sama dag. Engin gögn eru fram komin í málinu um að póstlagning bréfs LÍN hafi verið síðar en þann dag, t.d. hefur lögmaður kæranda ekki lagt fram póststimplað umslag eða annað er væri til merkis um að bréfið hafi verið póstlagt síðar eða gögn um að bréfið kunni að hafa verið borið út á rangt póstfang. Verður því að byggja á því að bréfið hafi borist lögmanni kæranda í kjölfar þess að það var póstlagt þann 13. maí 2016. Samkvæmt ofangreindu er kæra sem barst málskotsnefnd 28. febrúar 2012 of seint fram borin og ber að vísa henni frá samkvæmt 27. gr. stjórnsýslulaga nema þær ástæður sem getið er í 28. gr. stjórnsýslulaga séu fyrir hendi en þar segir að hafi kæra borist að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá nema "afsakanlegt verði talið að hún hafi ekki borist fyrr" eða "veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar". Lögmaður kæranda hefur einnig borið við að kæranda hafi ekki unnist tími til að ákveða hvort hún myndi kæra málið. Að mati málskotsnefndar verður ekki séð að þeir tveir mánuðir sem kærandi hafði óyggjandi til að meta stöðu sína teljist svo knappur tími að ómögulegt hafi verið fyrir hana að ákveða hvort kæra ætti málið. Ekki verður séð að fyrir hendi séu veigamiklar ástæður fyrir því að taka málið til meðferðar. Þó málið varði mikilvæga hagsmuni hefur kærandi ekki bent á að svo sérstakar aðstæður séu fyrir hendi að réttlæti undanþágu frá kærufresti. Kæranda hefur t.d. ekki verið tilkynnt um vanskil á láninu né eru fyrir hendi upplýsingar um bága fjárhagsstöðu skuldara. Fari svo að vanskil verði er kærandi í aðstöðu til að leggja fram þær sömu mótbárur og hún hefur viðhaft í erindi sínu gagnvart LÍN. Þá kemur einnig fram í gögnum málsins að kærandi hafi bæði haldið því fram gagnvart LÍN að greiðsluskylda hennar væri niður fallin og einnig greiðsluskylda annarra erfingja B. Ákvörðun stjórnar LÍN tekur þó eingöngu til kæranda og er því ekki útséð með að aðrir erfingjar geti enn borið mál sitt undir stjórn LÍN og komið með sömu mótbárur og kærandi hefur gert í sínu máli. Verður samkvæmt framansögðu ekki séð að fyrir hendi í máli þessu séu slíkar ástæður sem tilgreindar eru hér að framan að réttlætt gætu undanþágu frá kærufresti. Ber samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga að vísa kæru kæranda frá málskotsnefnd.

Úrskurðarorð

Kæru kæranda í máli L-23/2016 er vísað frá málskotsnefnd LÍN.

Til baka