Úrskurður
Ár 2016, miðvikudaginn 21. desember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-20/2016:
Kæruefni
Með kæru dagsettri 29. ágúst 2016 sem barst málskotsnefnd 2. september 2016 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 23. júní 2016 um að hafna beiðni hans um að sjálfskuldarábyrgð hans á námslánum sambýliskonu hans hér eftir nefnd lántaki, yrði felld niður. Kærandi krefst þess að hinni kærðu ákvörðun verði breytt á þann veg að fallist verði á að ógild sé sú ábyrgð sem hann gekkst undir með undirritun sinni á skjalið Skipt um ábyrgðarmann á skuldabréfi dagsettu 15. apríl 2013. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun stjórnar LÍN verði ógilt og sjóðnum gert að taka málið aftur til efnismeðferðar. Stjórn LÍN fer þess á leit að hin kærða ákvörðun verði staðfest.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi skrifaði þann 15. apríl 2013 undir sjálfskuldarábyrgð
vegna námsláns sem lántaki hafði áður fengið hjá LÍN. Um var að ræða skipti á
ábyrgðarmanni og kom ábyrgð kæranda í stað ábyrgðar annars aðila á námslánum
lántaka. Fjárhæð ábyrgðar við undirritun kæranda á ábyrgðarskjalið var 6.134.875
krónur. Þann 30. mars 2016 fór kærandi þess á leit við stjórn LÍN að fallist
yrði á að ábyrgð hans á námsláni lántaka væri fallin úr gildi. Vísaði kærandi
til þess að ekki hefði verið framkvæmt greiðslumat á lántaka í samræmi við
ákvæði laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn þegar kærandi undirritaði
ábyrgðarskuldbindingu sína. Taldi kærandi því að það væri ósanngjarnt og
andstætt góðri viðskiptavenju fyrir LÍN að byggja á ábyrgðarskuldbindingu
kæranda og að fullnægt væri skilyrðum 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð,
umboð og ógilda löggerninga, til að ábyrgðin teldist úr gildi fallin. Stjórn LÍN
hafnaði kröfu kæranda með vísan til þess að lántaki hefði hvorki verið á
vanskilaskrá né í vanskilum við sjóðinn þegar kærandi tók yfir
ábyrgðarskuldbindingu fyrri ábyrgðarmanns. Einnig vísaði LÍN til þess að kærandi
hafi fengið send yfirlit frá sjóðnum um stöðu ábyrgðarskuldbindingar sinnar í
byrjun árs 2014 og 2015. Það leiddi ekki til sjálfkrafa ógildingar þó
lánveitandi brygðist skyldum sínum heldur þyrfti hverju sinni að finna slíkri
ógildingu stoð í reglum samningaréttar. Kærandi kærði ákvörðun stjórnar LÍN til
málskotsnefndar.
Sjónarmið kæranda
Kærandi gekkst í
ábyrgð á námsláni lántaka þann 15. apríl 2013 en þá hafði lántaki farið þess á
leit við LÍN að skipt yrði um ábyrgðarmann. Kærandi hafði hafið sambúð með
lántaka á þessum tíma undirritaði skjal frá LÍN með fyrirsögninni "Skipt um
ábyrgðarmann". Í kæru sinni og bréfi til stjórnar LÍN frá 30. mars 2016
vísar kærandi til þess að samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga um ábyrgðarmenn taki
ákvæði laganna til LÍN. Í 1. gr. komi fram það markmið laganna að setja reglur
um ábyrgðir einstaklinga og draga úr vægi ábyrgða. Í því skyni hafi verið sett
sú grundvallarregla í 4. gr. laganna að lánveitandi skyldi meta hæfi lántaka til
að standa í skilum með lán "þar sem ábyrgðarmaður gengst í ábyrgð" til
tryggingar lánum lántaka. Greiðslumat skyldi byggt á viðurkenndum viðmiðum. Þá
sé mælt fyrir um í 5. og 6. gr. laga um ábyrgðarmenn að að gera skuli sérstakan
ábyrgðarsamning við ábyrgðarmann þar sem fram komi tiltekin atriði. Þegar
kærandi hafi gengist í ábyrgð á námsláni lántaka hafi verið liðin fjögur ár frá
gildistöku laga um ábyrgðarmenn þar sem þær skyldur hafi verið lagðar á LÍN að
greiðslumeta lántaka þegar ábyrgðar þriðja manns er krafist og gera sérstakan
ábyrgðarsamning við ábyrgðarmanninn. LÍN hafi hins vegar látið undir höfuð
leggjast að meta greiðslugetu lántaka þegar kærandi hafi gengist í ábyrgð á
námsláni hans. Kærandi vísar til þess að fjölmörg mál um gildi
ábyrgðarskuldbindinga hafi farið fyrir dómstóla. Telur kærandi að flokka megi
þau í grófum dráttum annars vegar í mál þar sem skoðað hafi verið hvort
greiðslumat hafi farið fram og hins vegar í mál um hvort greiðslumat hafi verið
ranglega framkvæmt eður ei. Í málum þar sem greiðslumat hafi ekki farið fram
hafi dómstólar óhikað ógilt ábyrgðarskuldbindingar. Í þeim tilvikum þar sem
ábyrgðir hafi ekki verið ógiltar hafi lánið verið notað til hagsbóta fyrir
ábyrgðarmann og einnig hafi þýðingu ef ábyrgðarmaður hefur viðurkennt að hann
hefði gengist í ábyrgð þó svo að greiðslumat hefði reynst neikvætt. Vísar
kærandi til dóma Hæstaréttar í málum nr. 376/2012, 169/2012 og 346/2015. Hafi
lánveitandi hins vegar ekki getað sýnt fram á að ábyrgðarmaður hafi hagnast á
lánveitingu eða lánið notað til að greiða upp eldri ábyrgð þá hafi Hæstiréttur
ógilt ábyrgðir án þess að kanna sérstaklega þau atriði sem tilgreind séu í 2.
mgr. 36. gr. samningalaga. Vísar kærandi um þetta til dóma Hæstaréttar í málum
nr. 4/2013, 163/2005, 630/2013, 611/2013 og 569/2013. Kærandi lýsir því í kæru
sinni að LÍN hafi við meðferð máls kæranda vorið 2016 kallað eftir
skattframtölum lántaka frá þeim tíma er lánið var tekið. Kærandi kveðst hafa
sent umrædd gögn en einnig tekið fram að þessi gögn gætu ekki haft áhrif á
afstöðu til beiðni hans um niðurfellingu ábyrgðarskuldbindingarinnar. Á
grundvelli þessara gagna hafi LÍN í ákvörðun sinni í máli kæranda ályktað að,
auk þess að vera ekki á vanskilaskrá, hafi fjárhagsstaða lántaka verið "að
öðru leyti góð við skiptin á ábyrgðarmanni." Hafi LÍN vísað til þess að afar
ólíklegt væri að niðurstaða úr greiðslumati hefði breytt ákvörðun ábyrgðarmanns
um að taka á sig sjálfskuldaábyrgð á lánum sambýliskonu sinnar. Kærandi bendir á
af þessu tilefni að ekki verði séð að fjárhagsstaða lántaka hafi verið eins góð
og ætla mætti af rökstuðningi LÍN. Bendir kærandi á að á þessum tíma hafi
lántaki verið einstæð þriggja barna móðir sem hafi haft um 338 þúsund krónur í
ráðstöfunartekjur á mánuði. Miðað við neysluviðmið velferðarráðuneytisins hafi
lántaki ekki staðið undir útgjöldum fjölskyldunnar. Þá hafi eignastaða lántaka
verið verulega neikvæð en hún hafi skuldað um 11,5 milljónir króna umfram eignir
í árslok 2012. Kærandi telur að vegna þessa sé það ekki rétt sem fram komi í
ákvörðun stjórnar LÍN að fjárhagsstaða lántaka hafi verið "að öðru leyti góð
við skiptin á ábyrgðarmanni." Kærandi telur að þeir dómar sem LÍN hafi vísað
til breyti engu um niðurstöðu í máli hans. Í dómi Hæstaréttar í máli nr.
343/2012 hafi ábyrgðarmaðurinn lýst því yfir fyrir dómi að hún hefði veitt
ábyrgð þrátt fyrir að henni hefði verið kynnt neikvætt greiðslumat. Svo sé ekki
í tilviki kæranda. Atvik sem lýst sé í dómi Hæstaréttar í máli nr. 481/2014 séu
einnig frábrugðin máli kæranda þar sem ábyrgðarmaðurinn hafi gengist í
ábyrgðarskuldbindinguna fyrir gildistöku laga um ábyrgðarmenn. Í því tilviki
hafi einnig verið um að ræða ábyrgð móður vegna sonar sem hafi verið að hefja
nám. Í tilviki kæranda sé um að ræða ábyrgð á skuldum nýs sambýlismanns lántaka
vegna láns sem þegar hafi verið veitt. Kærandi vísar til þess að bregðist
lánveitandi skyldu sinni til að greiðslumeta þá felli dómstólar slíkar ábyrgðir
úr gildi. Þar sem LÍN hafi látið undir höfuð leggjast að greiðslumeta lántaka
þegar kærandi gekkst undir ábyrgð sína krefst kærandi þess að ábyrgð hans verði
felld úr gildi.
Sjónarmið stjórnar LÍN
Stjórn LÍN vísar
til þess að í umfjöllun Hæstaréttar í málum tengdum ábyrgðum hafi komið fram að
það leiði ekki sjálfkrafa til þess að ábyrgðarsamningur verði ógiltur í heild
eða að hluta af þeim sökum einum að lánveitandi hafi við gerð ábyrgðarsamnings
brugðist skyldum sínum. Finna þurfi ógildingu stoð í reglum samningaréttar ef
leysa eigi ábyrgðarmann undan ábyrgðarsamningi. Í 1. mgr. 36. gr. samningalaga
sé kveðið á um að samningi megi víkja til hliðar í heild eða að hluta, eða
breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera
hann fyrir sig. Við mat á því hvort ákvæðið eigi við sé skylt að líta til efnis
samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika er síðar
komi til sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Eins og fram hafi komið í ákvörðun stjórnar
LÍN hafi skipti á ábyrgðarmanni farið fram að beiðni lántaka en ekki að kröfu
LÍN. Lántaki hafi hvorki verið á vanskilaskrá né í vanskilum við sjóðinn á
þessum tíma enda sé það gert að skilyrði fyrir því að skipti á ábygðarmanni séu
heimiluð hjá sjóðnum. Ekkert bendi til þess að fjárhagsstaða lántaka hafi ekki
verið góð er þessi skipti hafi farið fram. Við mat á skuldastöðu sé nauðsynlegt
að líta til raunverulegs markaðsvirðis fasteignar en ekki eingöngu
fasteignamats. Það sé því mat stjórnar LÍN að telja verði ólíklegt að niðurstaða
úr greiðslumati hefði breytt ákvörðun kæranda að taka á sig sjálfskuldarábyrgð á
lánum sambýliskonu sinnar jafnvel þótt greiðslumat hefði verið neikvætt. Kærandi
hafi einnig móttekið yfirlit um stöðu skuldbindingar sinnar í byrjun árs 2014,
2015 og 2016 án athugasemda. Að mati stjórnar LÍN er ákvörðun í máli kæranda í
samræmi við lög og reglur sem um sjóðinn gilda og er farið fram á að
málskotsnefndin staðfesti niðurstöðu stjórnar LÍN í málinu.
Niðurstaða
Í málinu er til úrlausnar beiðni ábyrgðarmanns um ógildingu
sjálfskuldarábyrgðar á skuldabréfi vegna námsláns. Skuldabréfið var útgefið 25.
september 2005 en ábyrgðaryfirlýsing kæranda var gefin í 15. apríl 2013 og
leysti þá annan ábyrgðarmann undan ábyrgð sinni á skuldabréfinu. LÍN er opinber
stjórnsýslustofnun sem hefur það hlutverk að tryggja þeim sem falla undir lög
nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna tækifæri til náms án tillit til
efnahags. LÍN veitir lán til námsmanna í framhaldsnámi samkvæmt lögum og reglum
sem um sjóðinn gilda. Er starfsemi sjóðsins fjármögnuð með endurgreiðslu
námslána, ríkisframlagi og lánsfé. LÍN ber í starfi sínu jafnt að fylgja þeim
lögum og reglum sem gilda sérstaklega um starfsemi sjóðsins og lagareglum, jafnt
skráðum sem óskráðum, sem gilda um stjórnsýslu hins opinbera svo og reglum
fjármunaréttarins eftir því sem við á. Í 7. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992 segir:
Stjórn sjóðsins ákveður hvaða skilyrðum lántakendur og ábyrgðarmenn
skuli fullnægja. Ábyrgð ábyrgðarmanns, eins eða fleiri, getur fallið niður enda
setji námsmaður aðra tryggingu sem stjórn sjóðsins metur fullnægjandi.
Í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2005-2006, sem voru í gildi þegar
umrætt námslán var veitt, segir í grein 5.1.8:
Skilyrði, sem lánþegar
þurfa m.a. að uppfylla, eru að þeir séu ekki í vanskilum við sjóðinn, þegar sótt
er um nýtt lán og bú þeirra sé ekki til gjaldþrotameðferðar eða að þeir teljist
af öðrum ástæðum bersýnilega ótryggir lántakendur. Teljist námsmaður ótryggur
lántakandi skv. ofangreindu getur hann sótt um undanþágu frá þessari grein enda
sýni hann fram á annað, eða að hann leggi fram aðrar ábyrgðir sem sjóðurinn
telur viðunandi.
Í lokamálsgrein greinar 5.3.2 kemur fram að eldri
ábyrgð fellur ekki úr gildi nema að henni sé sagt upp og ný sett í staðinn með
samþykki sjóðsins. Í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2012-2013, sem voru í
gildi þegar kærandi lýsti yfir sjálfskuldarábyrgð sinni, segir í 1. mgr. greinar
5.3.2 að ábyrgðarmaður skuli staðfesta með undirskrift sinni á skuldabréf eða
ábyrgðaryfirlýsingu að hann hafi kynnt sér ákvæði skuldabréfsins. Í lokamálslið
4. mgr. sömu greinar segir að eldri ábyrgð falli ekki úr gildi nema að henni sé
sagt upp og ný sett í staðinn með samþykki sjóðsins. Í 3. mgr. greinar 5.3.2
segir að óheimilt sé að samþykkja sem ábyrgðarmenn fyrir námsláni þá sem eru á
vanskilaskrá, í vanskilum við sjóðinn eða til gjaldþrotameðferðar.
Sjálfskuldarábyrgð er kröfuréttarlegs eðlis og er notuð í lánastarfsemi almennt.
Með því að takast á hendur sjálfskuldarábyrgð skuldbindur einstaklingur sig til
að tryggja efndir kröfu gagnvart lánveitanda ef lántaki reynist ekki
borgunarmaður fyrir greiðslu skuldarinnar. Efni kröfunnar ræðst af þeim
löggerningi sem liggur henni til grundvallar, s.s. samningi eða skuldabréfi, og
eftir lögum sem gilda hverju sinni. Skuldabréfið sem kærandi gekkst í
sjálfskuldarábyrgð fyrir var gefið út árið 2005 og var annar ábyrgðarmaður
upphaflega á því skuldabréfi. Ábyrgðaryfirlýsing kæranda, dagsett 15. mars 2013,
var útbúin af LÍN og ber heitið Skipt um ábyrgðarmann á skuldabréfi og er
svohljóðandi:
Undirrituð-/aður [nafn kæranda og kennitala] Óskar hér
eftir að takast á hendur sjálfskuldarábyrgð vegna ofangreinds námsláns í stað:
[Nafn og kt. fyrri ábyrgðarmanns] Ábyrgðin er til tryggingar skilvísri og
skaðlausri greiðslu á höfuðstól alls að kr. 6.134.875 ásamt vöxtum, verðbótum,
dráttarvöxtum og öllum kostnaði er af vanskilum kann að leiða. Höfuðstóll
ofangreindrar sjálfskuldarábyrgðar breytist í samræmi við vísitölu N-403,3
Umrædd skipti á ábyrgðarmanni virðast ekki hafa verið skráð á frumrit
skuldabréfsins og þá hafa engin önnur skjöl verið lögð fram af hálfu LÍN um
ábyrgðarmannaskiptin. Samkvæmt 7. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992 og
úthlutunarreglum LÍN getur ábyrgð ábyrgðarmanns fallið niður enda setji
námsmaður aðra tryggingu sem stjórn sjóðsins metur fullnægjandi. Beiðni um
skipti á ábyrgðarmanni getur bæði komið til að kröfu sjóðsins og að beiðni
lántaka. Þegar fallist er á slíka beiðni af hálfu kröfueiganda er um nýjan
ábyrgðarmann og nýja ábyrgðarskuldbindingu að ræða þar sem kröfueigandi verður
að framfylgja fyrirmælum laga varðandi stofnun, efni og form slíkrar
skuldbindingar. Skiptir ekki máli að hér var gengist í sjálfskuldarábyrgð á
árinu 2013 fyrir skuldabréfi sem gefið var út á árinu 2005. Um ábyrgðarsamning
kæranda gilda lög nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn og við frágang hans bar LÍN að
fylgja eftir ákvæðum þeirra laga. Í lögunum kemur fram að markmið þeirra er að
setja reglur um ábyrgðir einstaklinga, draga úr vægi ábyrgða og stuðla að því að
lánveitingar verði miðaðar að greiðslugetu lántaka og hans eigin tryggingar. Með
ábyrgðarmanni samkvæmt lögunum er átt við einstakling sem gengst persónulega í
ábyrgð eða veðsetur tilgreinda eign sína til tryggingar efndum lántaka enda sé
ábyrgðin ekki í þágu atvinnurekstrar ábyrgðarmanns eða í þágu fjárhagslegs
ávinnings hans. Í 4. gr. laganna kemur fram að lánveitandi skal meta hæfi
lántaka til að standa í skilum með lán þar sem ábyrgðarmaður gengst í ábyrgð til
tryggingar efndum lántaka og skal greiðslumatið byggt á viðurkenndum viðmiðum.
Þá skal lánveitandi með skriflegum hætti ráða ábyrgðarmanni frá því að gangast í
ábyrgð ef greiðslumat bendir til þess að lántaki geti ekki efnt skuldbindingar
sínar. Með sama hætti skal lánveitandi ráða ábyrgðarmanni frá því að
undirgangast ábyrgð ef aðstæður ábyrgðarmanns gefa tilefni til. Í 5. gr. laganna
segir að fyrir gerð ábyrgðarsamnings skal lánveitandi upplýsa ábyrgðarmann
skriflega um þá áhættu sem ábyrgð er samfara. Í 6. gr. laganna segir að
ábyrgðarsamningur skuli vera skriflegur og að í honum skuli getið þeirra
upplýsinga sem nefndar eru í 5. gr. og skoðast þær sem hluti samningsins. Þegar
lántaki tók umrætt skuldabréf hjá LÍN var það lagaskilyrði að einn ábyrgðarmaður
að lágmarki tækist á hendur sjálfskuldarábyrgð fyrir lántaka hjá sjóðnum.
Lántakinn hefur á sínum tíma verið metinn lánshæfur hjá sjóðnum og upphaflegur
ábyrgðarmaður uppfyllt skilyrði sjóðsins til að gangast í sjálfskuldarábyrgð
fyrir hann. Í lögum um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 er lögð skylda á þá aðila,
stofnanir og fyrirtæki, sem veita lán þar sem ábyrgðarmaður, einstaklingur,
gengst í ábyrgð til tryggingar efndum lántaka, að upplýsa um þá áhættu sem í
ábyrgð felst áður en ábyrgðarmaður gengst undir hana. LÍN ber að meta hæfi
lántaka til að standa í skilum með lán þar sem ábyrgðarmaður gengst í ábyrgð til
tryggingar á efndum lántaka. Þegar beiðni um skipti á ábyrgðarmanni barst LÍN
samþykkti sjóðurinn sjálfskuldarábyrgð kæranda sem fullnægjandi tryggingu í
staðinn fyrir þá tryggingu sem fyrir var. Í málinu liggur fyrir að LÍN lét ekki
meta hæfi lántaka við þetta tækifæri né fullnægði öðrum skyldum sínum gagnvart
nýjum ábyrgðarmanni samkvæmt lögum nr. 32/2009. Þá liggur heldur ekki fyrir að
LÍN hafi látið kanna getu ábyrgðarmanns til að standa undir þeirri
sjálfskuldarábyrgð sem hann skrifaði undir. Að mati málskotsnefndar hvílir
ótvíræð skylda á LÍN við aðstæður sem þessar að kanna stöðu lántaka að nýju og
upplýsa verðandi ábyrgðarmann í samræmi við fyrirmæli laga. LÍN sem lánveitanda
bar samkvæmt framansögðu að leggja mat sitt á greiðslugetu lántaka og framkvæma
greiðslumat sem byggt er á viðurkenndum viðmiðum. Vísast nánar um þetta atriði
til umfjöllunar málskotsnefndar í úrskurðum nefndarinnar í málum nr. L-50/2013,
L-58/2013 og L-19/2015. Samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar þá leiðir það ekki
sjálfkrafa til þess að ábyrgðarsamningur verði ógiltur í heild eða að hluta að
lánveitandi hafi við gerð hans brugðist skyldum sínum, heldur hefur verið talið
að finna þurfi slíkri ógildingu stoð í reglum samningaréttar ef leysa á
ábyrgðarmann undan skyldum sínum samkvæmt ábyrgðarsamningi. Samkvæmt 36. gr.
samningalaga nr. 7/1936 má víkja samningi til hliðar í heild eða að hluta, eða
breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera
hann fyrir sig. Við mat á því hvort skilyrði séu til þess að víkja samningi til
hliðar skal líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við
samningsgerð og atvika sem síðar komu til, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936.
Að því er varðar efni samnings er hér um að ræða ábyrgðaryfirlýsingu kæranda
vegna námsláns sem skuldari hafði áður tekið hjá LÍN. Um er að ræða staðlað
eyðublað sem samið var af LÍN. Efni þess er ekki í samræmi við ákvæði laga um
ábyrgðarmenn sem lýst er hér að framan. Af atvikum við samningsgerð má sjá að
kærandi gekkst í ábyrgð á námsláni sem lántaki hafði tekið átta árum áður og kom
ábyrgð hans í stað ábyrgðar þáverandi sambýlismanns lántaka. Er því
ágreiningslaust að kærandi naut einskis af láninu. Um er að ræða lán upphaflega
að höfuðstól krónur 3.956.093 vísitölutryggt með allt að 3% vöxtum og stóð
uppreiknuð lánfjárhæð í krónum 6.134.875 á þeim tíma þegar kærandi gekkst í
ábyrgðina. Engar upplýsingar um eigna og skuldastöðu lántaka lágu fyrir við
samningsgerðina en á þeim tíma var skuldastaða lántaka samkvæmt skattframtali
2013 krónur 24.701.439 en eignir hennar, fasteign utan höfuðborgarsvæðisins,
metin þá á krónur 13.275.000. Í athugasemdum lántaka á forsíðu skattframtals
kemur einnig fram að helmingur fasteignarinnar sé í eigu fyrrverandi
sambýlismanns hennar og helmingur skulda vegna eignarinnar tilheyri honum, sem
og helmingur tekna vegna útleigu. Miðað við þær upplýsingar voru eignir lántaka
krónur 6.637.500 og skuldir krónur 16.225.254. Þá lágu engar upplýsingar fyrir
um tekjur skuldara, ráðstöfunartekjur eða ætluð útgjöld hennar. Í kærunni kemur
einnig fram áætlun kæranda á ráðstöfunartekjum lántaka sem var á þessum tíma 37
ára einstæð móðir með þrjú börn á framfæri sínu. Engin samtímagögn liggja
hinsvegar fyrir um mat á fjárhagsstöðu lántaka á þessum tíma og er því
ágreiningslaust í málinu að ekki lá fyrir greiðslumat á lántaka þegar kærandi
tók á sig ábyrgð á láni hennar. Ekkert mat fór heldur fram á fjárhagslegri stöðu
kæranda. Staða samningsaðila er afar ólík. Ekkert hefur komið fram í málinu sem
bendir til að kærandi hafi búið yfir sérstakri þekkingu á þessu sviði. LÍN er
eins og áður greinir opinber stjórnsýslustofnun sem hefur það hlutverk að
tryggja þeim sem falla undir lög nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna
tækifæri til náms án tillit til efnahags. LÍN ber í starfi sínu jafnt að fylgja
þeim lögum og reglum sem gilda sérstaklega um starfsemi sjóðsins og lagareglum,
jafnt skráðum sem óskráðum, sem gilda um stjórnsýslu hins opinbera svo og reglum
fjármunaréttarins eftir því sem við á. Eins og áður er lýst felast þessar
skyldur LÍN í því að viðhafa vönduð vinnubrögð í lögskiptum sínum, þar á meðal
að ganga úr skugga um að lánveitingar og veiting ábyrgða tengdum þeim samrýmdist
ákvæðum laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Málskotsnefnd telur að LÍN verði að
bera hallann af því að ábyrgðaryfirlýsing til tryggingar námsláni var veitt án
þess að sjóðurinn hafi viðhaft þau vönduðu vinnubrögð sem lög um ábyrgðarmenn
mæla fyrir um. LÍN gerði enga tilraun til að meta greiðslugetu lántaka og þar
með að upplýsa verðandi ábyrgðarmann um þá áhættu sem gæti falist í því að
gangast í sjálfskuldarábyrgð fyrir námslánum lántaka. Framlögð gögn gefa til
kynna að lántaki hafi haft neikvæða eignastöðu upp á rúmar 10 milljónir króna og
lágar ráðstöfunartekjur. Ekki liggja fyrir nein gögn í málinu er benda til þess
að fjárhagsstaða lántaka hafi verið það traust á þessum tíma að kærandi hefði
óhikað gengist í ábyrgð á námsláni hennar. Telur málskotsnefnd að hefði LÍN
framfylgt skyldum sínum með fullnægjandi hætti þá sé ekki hægt að útiloka að það
hefði leitt í ljós slæma stöðu lántaka sem hefði haft áhrif á ákvörðun
ábyrgðarmanns að gangast í sjálfskuldarábyrgð í stað fyrri ábyrgðarmanns. Er það
mat málskotsnefndar að kærandi hafi vegna þess ekki getað gert sér grein fyrir
þeirri áhættu sem fólst í því að gangast í umrædda sjálfskuldarábyrgð. Að mati
málskotsnefndar hefur LÍN brugðist þeirri ríku skyldu sem á sjóðnum hvílir
gagnvart ábyrgðarmanni í þessu máli. Þar sem LÍN fór ekki eftir skýrum
fyrirmælum laga um ábyrgðarmenn þegar kærandi gekkst í ábyrgð gagnvart sjóðnum í
stað annars ábyrgðarmanns og þegar litið er til þess aðstöðumunar sem er á
kæranda annars vegar og svo LÍN hins vegar, og þegar litið er til málsatvika í
heild sinni, þá telur málskotsnefnd það ósanngjarnt af hálfu LÍN að bera fyrir
sig umræddan ábyrgðarsamning gagnvart kæranda. Verður LÍN að bera hallann af því
að hafa ekki viðhaft þau vönduðu vinnubrögð sem ráð er fyrir gert í lögum nr.
32/2009. Beri því með vísan til 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 að fella niður
ábyrgð kæranda á umræddu námsláni. Með vísan til framanritaðs eru hin kærða
ákvörðun stjórnar LÍN frá 23. júní 2016 felld úr gildi.
Úrskurðarorð
Ákvörðun stjórnar LÍN frá 23. júní 2016 í máli kæranda er felld úr gildi.