Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-22/2016 - Endurgreiðsla námslána - beiðni um að afskrifa eftirstöðvar skuldabréfa

Úrskurður

Ár 2016, miðvikudaginn 21. desember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-22/2016:

Kæruefni

Með kæru dagsettri 24. september 2016 sem barst málskotsnefnd 26. sama mánaðar kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 23. júní 2016 þar sem hafnað var beiðni hennar um að afskrifa eftirstöðvar skuldabréfa vegna námslána hennar nr. R-00000, R-00000 og V-00000. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 26. september 2016 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 11. október 2016 var afrit þess sent kæranda og henni jafnframt veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi sendi erindi til stjórnar LÍN, dagsett 2. júní 2016, þar sem hún fór þess á leit að námslán hennar yrðu felld niður vegna veikinda og fjárhagserfiðleika. Stjórn LÍN synjaði beiðni kæranda þann 23. júní 2016.

Sjónarmið kæranda

Fram kemur í kærunni að kærandi sem er 72 ára hafi glímt við langvarandi sjúkdóm sem ágerðist við slys sem hún lenti í á árinu 2001. Hafi hún verið óvinnufær síðan og að sjúkdómurinn sé ólæknandi. Kærandi upplýsir að hún hafi einungis rúmlega DKK 8.000 sér til framfærslu á mánuði. Kærandi fer þess á leit að málskotsnefnd felli úr gildi ákvörðun stjórnar LÍN um að synja um afskriftir námslána hennar. Meðfylgjandi kærunni sendi kærandi ítarlegar upplýsingar um sjúkdóm sinn.

Sjónarmið stjórnar LÍN

Í athugasemdum stjórnar LÍN segir að ekki sé að finna heimild í lögum nr. 21/1992 um lánasjóð íslenskra námsmanna til að fella niður námslán eins og kærandi hafi krafist. Stjórn LÍN bendir á að samkvæmt lögum um LÍN séu heimildir sjóðsins bundnar við að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu námslána, sbr. 8. gr. laga um LÍN, 12. og 13. gr. reglugerðar nr. 478/2011 um lánasjóð íslenskra námsmanna og kafla 8.5 í úthlutunarreglum sjóðsins. LÍN byggir á því að niðurstaðan í þessu máli sé í samræmi við lög og reglur og einnig í samræmi við úrskurði stjórnar LÍN og málskotsnefndar í sambærilegum málum.

Niðurstaða

LÍN er opinber stjórnsýslustofnun sem hefur það hlutverk að tryggja þeim sem falla undir lög nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna tækifæri til náms án tillits til efnahags. Er starfsemi sjóðsins fjármögnuð með endurgreiðslu námslána, ríkisframlagi og lánsfé. LÍN ber í starfi sínu að fylgja þeim lögum og reglum sem gilda sérstaklega um starfsemi sjóðsins, lagareglum, jafnt skráðum sem óskráðum, sem gilda um stjórnsýslu hins opinbera og reglum fjármunaréttarins eftir því sem við á. Það leiðir af þeirri lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins sem hér hefur verið lýst að LÍN er ekki heimilt án viðhlítandi lagaheimildar að fella niður skuldir einstakra lánþega við sjóðinn. Í lögum og reglum um LÍN er ekki að finna heimild til að fella niður útistandandi skuld vegna námslána þrátt fyrir að aðstæður lántaka hjá sjóðnum kunni að vera bágar. Í þeim tilvikum sem lántakar eiga í erfiðleikum eins og þeim sem lýst er í kærunni eru heimildir sjóðsins bundnar við að veita undanþágu frá einstökum gjalddögum að uppfylltum þeim skilyrðum sem lýst er í lögum og reglum um sjóðinn. Fram kemur í málinu að sjóðurinn hefur upplýst kæranda um þessar heimildir. Samkvæmt framansögðu verður að fallast á það með LÍN að sjóðurinn hafi ekki heimildir í lögum til að fella niður eftirstöðvar námslánaskuldar kæranda í máli þessu. Með vísan til framanritaðs telur málskotsnefnd að staðfesta beri niðurstöðu LÍN í máli kæranda frá 23. júní 2016.

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun stjórnar LÍN frá 23. júní 2016 í máli kæranda er staðfest. 

Til baka