Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-13/2016 - Endurgreiðsla námslána - fyrning kröfu

Úrskurður

Ár 2017, miðvikudaginn 25. janúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-13/2016:

Kæruefni

Með kæru sem barst málskotsnefnd 13. júní 2016 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 14. mars 2016 þar sem hafnað var beiðni kæranda um að námslánsskuld hennar við sjóðinn samkvæmt tveimur skuldabréfum væri fallin niður fyrir fyrningu. Fer kærandi þess á leit að málskotsnefnd staðfesti að kröfurnar séu fyrndar. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 13. júní 2016 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi til málskotsnefndar dagsettu 27. júlí 2016 og var afrit þess sent kæranda til athugasemda þann 8. ágúst 2016. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi lögmanns hennar dagsettu 5. september 2016 og voru þær sama dag kynntar LÍN með tölvubréfi. LÍN sendi málskotsnefnd viðbótarathugasemdir sína í bréfi dagsettu 12. október 2016 og fylgdu því gögn og yfirlit yfir innheimtu námsláns hjá kæranda. Vegna viðbótarathugasemda LÍN sendi lögmaður kæranda nefndinni bréf með athugasemdum, dagsett 1. nóvember 2016, sem LÍN brást við með bréfi dagsettu 8. nóvember 2016. Því svaraði lögmaður kæranda með tölvubréfi dagsettu 22. nóvember 2016. Með bréfi málskotsnefndar dagsettu 8. desember 2016 var óskað eftir frekari upplýsingum frá stjórn LÍN um málið. Svarbréf stjórnar LÍN ásamt fylgigögnum barst málskotnefnd 23. desember 2016. Afrit þess var sent lögmanni kæranda til upplýsingar og athugasemda þann 29. desember 2016 og bárust málskotsnefnd athugasemdir hans með tölvubréfi 9. janúar 2017.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi er skuldari að tveimur námslánum hjá LÍN. Annars vegar á láni sem er merkt R-020000 samkvæmt skuldabréfi að fjárhæð 3.163.721 kr., útgefnu 29. nóvember 1998, og hins vegar á láni merkt R-007000 að fjárhæð 1.245.591 kr., samkvæmt skuldabréfi útgefnu 1. janúar 1994. Samkvæmt námsferilsgögnum LÍN voru lánin veitt kæranda vegna náms við Háskóla Íslands árin 1993-1997 og vegna náms í Bandaríkjunum 1998-2000. Endurgreiðsla kæranda á skuld sinni við LÍN hófst á árinu 2002. Samkvæmt LÍN miðaðist innheimta sjóðsins við að kærandi greiddi fyrst af fyrra láninu, R-007000, en seinna lánið myndi bíða innheimtu þar til að fyrra lánið væri að fullu greidd. Greiðslur af láninu R-007000 lentu í vanskilum frá 1. mars 2009 og var lánið þá sent í lögfræðiinnheimtu. Skuldabréfið var síðan gjaldfellt með sérstakri tilkynningu umboðsmanns LÍN, TCM innheimtu ehf., sem send var kæranda í bréfi dagsettu 7. febrúar 2013. Í kjölfarið freistaði LÍN þess að höfða mál á hendur kæranda til greiðslu námslánskuldarinnar en birting stefnu á hendur henni í Bandaríkjunum, þar sem hún var búsett, mun ekki hafa tekist. Hinn 19. febrúar 2015 höfðaði LÍN mál á hendur kæranda, sem þá var flutt til Íslands, og ábyrgðarmanni lánsins og var það þingfest 17. mars 2015. Samkvæmt LÍN var ekki stefnt vegna afborgana sem féllu í gjalddaga á árinu 2009 og 2010 vegna fyrningar og var krafa sjóðsins því lægri en sem þeim gjalddögum nam. Kærandi samdi við LÍN í apríl 2015 um uppgjör skuldarinnar með vanskilaskuldabréfi. Við uppgjörið mun ekki hafa verið tekið tillit til þess að afborganir með gjalddögum 1. september 2009 og 1. mars 2010 væru fyrndar. LÍN hefur lýst því yfir að það hafi nú verið leiðrétt og að fjárhæð skuldabréfsins hafi verið lækkuð sem þeim afborgunum nam. Kærandi telur að þegar hún með vanskilaskuldabréfinu greiddi upp vanskilin samkvæmt láni R-007000 hafi krafa sjóðsins verið fyrnd. Samkvæmt skýlausu ákvæði skuldabréfsins gjaldfélli allt lánið án sérstakrar uppsagnar væri ekki staðið skil á greiðslu afborgana. Þannig hafi eftirstöðvar skuldar kæranda sjálfkrafa fallið í gjalddaga í framhaldi af vanskilum hennar 1. mars 2009 og krafan því fyrnst fjórum árum síðar. LÍN telur á hinn bóginn kröfuna ófyrnda þar sem skuldabréfið hafi ekki verið gjaldfellt fyrr en 7. febrúar 2013. Kærandi leitar eftir afstöðu málskotsnefndar til fyrningar á láni R-020000 sem hún telur að í samræmi við skýlausa skilmála þess hafi gjaldfallið þegar vanskil urðu á námslánsgreiðslum hennar 1. mars 2009. Stjórn LÍN bendir hins vegar á að greiðslur kæranda af láni R-020000 séu ekki hafnar og sé það því ekki í vanskilum. Samkvæmt 18. gr. laga um LÍN nr. 21/1992, sbr. 23. gr. eldri reglugerðar um sjóðinn nr. 210/1993, bíði yngra námslánið innheimtu á meðan kærandi greiðir af eldra námsláni eða það er í virkri innheimtu.

Sjónarmið kæranda

Kærandi bendir á að samkvæmt 28. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007 beri að beita eldri lögum um fyrningu nr. 14/1905 um kröfu LÍN. Samkvæmt 4. gr. þeirra laga hafi gilt fjögurra ára fyrningarfrestur um kröfuna. Vanskil kæranda á greiðslu námslánskuldarinnar við LÍN hafi hafist 1. mars 2009. Í þeim tveimur skuldabréfum sem gefin voru út vegna lána R-020000 og R-007000 hafi verið svohljóðandi ákvæði um gjaldfellingu: "Standi lántaki ekki í skilum með greiðslu afborgana er lánið gjaldfellt án sérstakrar uppsagnar". Samkvæmt orðanna hljóðan feli þetta ákvæði í sér að gjaldfelling eigi sér sjálfkrafa stað þegar í kjölfar vanskila. Ekki sé gert ráð fyrir sérstakri uppsögn eða tilkynningu LÍN áður en til gjaldfellingar kemur. Kærandi bendir á að sé einhver vafi um túlkun orðalagsins sé ljóst að skýra beri það lántakandanum í vil þar sem skilmálar skuldarbréfanna séu einhliða samdir af LÍN. Kærandi hafnar því sjónarmiði LÍN að sérstaka ákvörðun eða atbeina sjóðsins þurfi til að koma svo skuldabréf sé gjaldfellt. Sú túlkun fæli í sér að vikið væri frá þeirri lagareglu sem fram komi í ákvæði 2. mgr. 1. gr. laga nr. 150/2007 sem mælir fyrir um að samningur um að krafa fyrnist ekki sé ógildur. Að mati kæranda er sömu reglu að finna í lögum nr. 14/1905 með gagnályktun frá 19. gr. laganna, þótt orðalagið sé annað. Kærandi áréttar að LÍN hafi verið í lófa lagið að halda fram kröfu sinni gegn henni. Sjóðurinn geti ekki frestað fyrningu með því að láta undir höfuð leggjast að gjaldfella námslánið árum saman. Slík framkvæmd sem væri sjóðnum til hagsbóta á kostnað lántakenda færi í bága við tilgang laga um fyrningu. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 242/2010 þar sem niðurstaða réttarins í alveg sambærilegu máli að mati kæranda hafi verið sú að skuldabréf LÍN fælu í sér fortakslausa og sjálfkrafa gjaldfellingu við vanskil. Orðalag skuldabréfs sem til úrlausnar var í því máli verði að skýra með sama hætti og orðalagið í skuldabréfum kæranda. Ekkert bendi til þess að gera hafi átt breytingar á gjaldfellingarákvæðum skuldabréfa LÍN þótt í yngri bréfum sé ekki notað nákvæmlega sama orðalag, enda staðhæfi LÍN í málatilbúnaði sínum að framkvæmd sjóðsins hafi verið óbreytt í áratugi. Kærandi hafnar því að túlka beri gjaldfellingarákvæði skuldabréfanna með hliðsjón af úthlutunarreglu LÍN, sem mæli fyrir um að heimild sjóðsins til gjaldfellingar í kjölfar árangurslausrar lögmannsinnheimtu. LÍN geti ekki sér til hagsbóta vikið sér undan skilmálum skuldabréfanna. Við mat á réttarstöðunni verði að líta til hagsmuna skuldara og einnig ábyrgðarmanna þar sem það geti sannanlega haft fjárhagslega þýðingu fyrir þá að lánasjóðurinn dragi ekki að fylgja hagsmunum sínum eftir. Kærandi fær ekki séð að sú framkvæmd LÍN að fresta innheimtu yngra láns þar til eldra lán sé að fullu greitt byggi á lögum nr. 21/1992 um LÍN. Telur kærandi LÍN blanda saman fyrirmælum laganna um að greiðslur af lánum samkvæmt eldri lögum um sjóðinn skuli frestast þar til lán samkvæmt lögum nr. 21/1992 hafi verið að fullu greidd. Hugleiðingar og tilvísun LÍN til einstakra lögskýringargagna renni ekki lagastoðum undir skilning LÍN, né heldur reglugerð sem ekki var í samræmi við ákvæði laganna að þessu leyti. Til viðbótar bendir kærandi á að hvað sem líði framangreindum lagaskilningi LÍN um að fresta beri innheimtu yngra láns þá sé ljóst að við gjaldfellingu láns R-007000 þá hafi innheimta seinna lánsins R-020000 orðið virk þar sem gjaldfelling feli í sér að allt lánið sé í gjalddaga fallið. Við vanskilin og gjaldfellinguna hafi námslánsskuldin átt að greiðast að fullu og innheimta seinna lánsins þar með að verða virk.

Sjónarmið stjórnar LÍN

Fram kemur hjá stjórn LÍN að kærandi sé skuldari tveggja námslána hjá sjóðnum, R-007000 og R-020000, sem veitt voru samkvæmt núgildandi lögum um LÍN nr. 21/1992. Kærandi hafi hafið endurgreiðslur fyrra lánsins á árinu 2002 þegar liðin voru tvö ár frá námslokum í samræmi við 4. mgr. 7. gr. laga um LÍN. Samkvæmt 23. gr. reglugerðar nr. 210/1993 skyldi innheimta yngra láns sem veitt var samkvæmt lögum um LÍN víkja fyrir innheimtu eldra láns samkvæmt sömu lögum, sbr. einnig 18. gr. laga um LÍN. Í reglugerðinni sé ennfremur mælt fyrir um að greiðslubyrði námsláns skyldi aldrei vera þyngri en sem svaraði til þess að greitt væri að einu láni hverju sinn. Innheimta námsláns R-020000 skyldi því víkja þar til eldra lánið R-007000 væri að fullu greitt. Þar sem af framangreindum ástæðum væri ekki hafin innheimta LÍN á láni kæranda nr. R-020000 væri lánið ekki gjaldkræft og krafan vegna þess því ófyrnd. Hvað varðar skuldabréf vegna láns R-007000 byggir LÍN á því að skilmálar þess hafi að geyma heimildarákvæði sjóðsins til þess að gjaldfella námslán vegna vanskila. Jafnframt komi fram í úthlutunarreglum sjóðsins þegar kærandi hóf nám námsárið 1993 til 1994 að sjóðnum sé heimilt að gjaldfella alla námslánsskuldina ef vanskil verða á einstaka afborgunum. Gjaldfellingarákvæði skuldabréfsins feli ekki í sér að lánið falli sjálfkrafa í gjalddaga við fyrstu vanskil heldur þurfi atbeina sjóðsins til þess. Orðalagið í skilmálunum "er lánið gjaldfellt án sérstakrar uppsagnar" verði aðeins skýrt svo að lánið verði gjaldfellt vegna vanskilanna og sérstaka ákvörðun sjóðsins þurfi til þess. Sjóðnum séu engin sérstök tímamörk sett um ákvörðun gjaldfellingar og sé honum heimilt að fresta gjaldfellingu til að mynda vegna erfiðleika við að hafa upp á skuldara. LÍN hafnar fordæmisgildi dóms Hæstaréttar í máli nr. 242/2010. Í því máli hafi reynt á gjaldfellingarskilmála svokallaðs T-láns hjá LÍN, sem með afdráttarlausum hætti hafi mælt fyrir um að kæmi til vanefnda væri "lánið allt gjaldfallið án uppsagnar". LÍN kveðst ekki hafa fellt eftirstöðvar láns kæranda í gjalddaga fyrr en 6. febrúar 2013. Stefna hafi verið birt kæranda og ábyrgðarmanni námslánsins í febrúar 2015 og með því hafi fjögurra ára fyrningu samkvæmt 3. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905 verið rofin vegna vanskilagjalddaga 1. mars 2011 og síðar. Í viðbótarathugsemdum sem LÍN sendi frá sér kemur fram sú skoðun að sjóðurinn sé bundinn af úthlutunarreglum, sem staðfestar séu af ráðherra og birtar á hverju ári í Stjórnartíðindum. Gjaldfellingarskilmála skuldabréfa beri að skýra með hliðsjón af úthlutunarreglunum og kærandi hafi þekkt þær reglur. Í því sambandi áréttar LÍN að málsatvik í dómi Hæstaréttar í máli nr. 242/2010 séu ekki hliðstæð þar sem á þeim tíma hafi ekki verið fyrir hendi skilmálar úthlutunarreglna sambærilegir þeim sem giltu um lánssamning þann sem komst á á milli kæranda og LÍN þegar umsókna kæranda um námslán var samþykkt. Umsókn kæranda hafi byggst á úthlutunarreglum sjóðsins og einhliða loforð kæranda um efndir verði að skýra með hliðsjón af þeim úthlutunarreglum sem giltu um námslán hennar. Af skilmálum reglnanna hafi beinlínis leitt að sjóðnum hafi verið óheimilt að gjaldfella lán kæranda. LÍN vísar til þess að í 3. mgr. 2. gr. laga nr. 150/2007 komi fram sú meginregla að þegar samningur er riftanlegur eða unnt er að líta á kröfu sem gjaldfallna vegna vanefnda skuldara eða annarra atvika enda þótt gjalddagi hennar sé ekki kominn, byrji fyrningarfrestur ekki að líða fyrr en kröfuhafi tilkynnir skuldara um að hann hyggist nýta sé þennan rétt eða í síðasta lagi miðað við umsaminn gjalddaga. Samkvæmt því bæri að miða upphaf fyrningarfrests við gjaldfellingu sjóðsins 6. febrúar 2013. Loks ber LÍN því við í viðbótarathugasemdum sem sjóðurinn sendi málskostnefnd 8. nóvember 2016 að í dómi Hæstaréttar uppkveðnum 27. október 2016 í málinu nr. 119/2016 sé því slegið föstu að skuldabréf sjóðsins í R-lánflokki fyrnist á 10 árum samkvæmt 4. gr. laga nr. 14/1905. Krafa LÍN sé því ófyrnd óháð því hvort gjaldfelling teljist hafa átt sér stað á árinu 2009 eða 2013. Þessu til viðbótar bendir LÍN á að sjóðnum sé ekki heimilt að innheimta hærri greiðslu árlega af lántökum R-lána en sem nemur því hlutfalli sem mælt er fyrir um í 2.-4. mgr. 8. gr. laga um LÍN. Sú fjárhæð dugi einungis til að greiða af einu R-láni og í 23. gr. reglugerðar nr. 210/1993 hafi verið mælt fyrir um að þeirri fjárhæð skyldi ráðstafað inn á elsta lán lántakans og leiði almennar reglur kröfuréttar til sömu niðurstöðu. Þar sem greiðslubyrði lántaka megi aldrei nema hærri fjárhæð en sem svarar til greiðslu af einu námsláni sé aðeins hægt að innheimta eitt námslán í senn. Eldra námslánið R-007000 hafi verið gefið út í tíð reglugerðar 210/1993 sem gildi um það lán. Af því leiði að öllum innborgunum eigi fyrst að ráðstafa inn á það lán sem aftur leiði til þess að yngra lánið R-020000 sé ógjaldkræft þar sem innheimta eldra lánsins tæmi möguleika LÍN á að innheimta greiðslur samkvæmt því láni.

Niðurstaða

Svo sem að framan greinir deila aðilar m.a. um gjaldfellingarákvæði tveggja skuldabréfa sem kærandi gaf út til LÍN vegna námslána, svokallaðra R-lána, sem henni voru veitt á námsárunum 1993-2000. Kærandi telur að ákvæðið í skuldabréfunum feli það í sér að standi lántaki ekki í skilum með greiðslu afborgana sé skuldin öll í gjalddaga fallin án sérstakar uppsagnar. Þegar vanskil urðu á gjalddaga 1. mars 2009 hafi námslánsskuldin öll fallið í eindaga og fyrnst fjórum árum síðar. Af hálfu LÍN er því borið við gjaldfellingarákvæðið hafi eingöngu haft að geyma heimild sjóðsins til gjaldfellingar, sem hann hafi ekki nýtt sér fyrr en með tilkynningu 6. febrúar 2013 og krafa því verið ófyrnd þegar stefna hafi verið birt kæranda í febrúar 2015. Ennfremur heldur LÍN því fram að kröfur samkvæmt skuldabréfum sjóðsins vegna R-lána fyrnist á tíu árum samkvæmt 4. gr. laga nr. 14/1905, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 119/2016. Loks ber LÍN því við að innheimta sjóðsins á skuldabréfi vegna láns nr. R-020000 sé ekki hafin og sé lánið því ekki gjaldkræft og þar af leiðandi ófyrnt. Skuldbréf vegna láns R-007000 var gefið út 1. janúar 1994 og vegna láns R-020000 þann 29. nóvember 1998, bæði á grundvelli núgildandi laga um LÍN nr. 21/1992. Samkvæmt skilmálum þeirra hafði LÍN heimild til þess að færa inn á skuldabréfið við námslok kæranda upphæð námslánsskuldar hennar uppfærða miðað við verðlagsbreytingar. Endurgreiðslan skyldi hefjast tveimur árum eftir námslok og bæri stjórn sjóðsins að ákveða hver teldust námslok í því sambandi. Árleg endurgreiðsla af skuldabréfunum skyldi ákvarðast í tvennu lagi, föst ársgreiðsla með gjalddaga 1. mars ár hvert bundin lánskjaravístölu samkvæmt fyrra skuldabréfinu en vísitölu neysluverðs samkvæmt seinna bréfinu, og viðbótargreiðsla með gjalddaga 1. september ár hvert sem skyldi ákvarðast sem ákveðinn hundraðshluti af útsvarsstofni ársins á undan, en frá viðbótargreiðslunni skyldi draga hina föstu greiðslu. Lánstími er ótilgreindur og skyldi greitt af lánunum þar til þau væru fullgreidd. Endurgreiðslur sem féllu í gjalddaga eftir andlát lántaka skyldu þó falla niður. Loks var að finna svohljóðandi ákvæði í skuldabréfunum: "Endurgreiðslur eru aðfararhæfar án undangengis dóms eða sáttar sbr. lög nr. 21/1992, og 7. tl. 1. mgr. laga um aðför nr. 90/1989. Sama gildir um eftirstöðvar skuldar sem hafa verið gjaldfelldar. Standi lántaki ekki í skilum með greiðslu afborgana er lánið gjaldfellt án sérstakrar uppsagnar." Af gögnum málsins má ráða að námslok kæranda hafi verið í desember 1999. Þar sem námsferlar kæranda annars vegar árin 1993-1997 við Háskóla Íslands (námslán R-007000) og hins vegar árin 1998-1999 í Bandaríkjunum (námslán R-020000) féllu saman voru námslok vegna beggja lánanna ákvörðuð eftir lok síðasta námsársins. Endurgreiðsla hennar á námslánsskuldinni hófst því 1. mars 2002 tveimur árum eftir námslok, sbr. 4. mgr. 7. gr. laga nr. 21/1992. Samkvæmt LÍN voru endurgreiðslur eingöngu ákvarðaðar af námsláni R-007000 þar sem lán R-020000 bíði innheimtu í samræmi við 18. gr. laga um LÍN og 23. gr. reglugerðar um LÍN nr. 210/1993, um að greiðsla af síðara námsláni skuli víkja fyrir greiðslu af fyrri námslánskuld þar til hún er að fullu greidd. Kærandi hafi í kjölfar málshöfðunar í febrúar 2015 samið um að koma fyrra námsláninu R-007000 í skil og frestist því innheimta síðara lánsins á meðan greitt er af fyrra láninu. Lán R-020000 sé því ekki gjaldkræft og krafan því ófyrnd. Í 1. mgr. 18. gr. laga um LÍN, áður en lagaákvæðinu var breytt með lögum nr. 140/2004, sagði að ef skuldari samkvæmt lögunum væri jafnframt að endurgreiða námslán samkvæmt lögum nr. 72/1982 eða eldri lögum skyldi hann fyrst endurgreiða að fullu lán sem tekin eru samkvæmt gildandi lögum um LÍN (nr. 21/1992) og greiðslur af eldri námsskuldum frestast þar til lán samkvæmt lögunum eru að fullu greidd. Í 18. gr. eins og hún hljóðaði þegar kærandi hóf greiðslur af námlánsskuld sinni var ekki vikið að þeirri aðstöðu þegar námsmaður skuldaði tvö eða fleiri lán samkvæmt lögunum í sama lánsflokki, eins og kærandi gerir. Engin breyting varð á því með 6. gr. laga nr. 140/2004 sem breytti 18. gr. laga um LÍN. Í 23. gr. reglugerðar um LÍN nr. 210/1993 sagði að hæfi námsmaður lánshæft nám að nýju eftir að fyrra námi teldist lokið væri heimilt að veita honum undanþágu frá endurgreiðslu af fyrri skuld meðan síðara námið stæði yfir. Reiknaðist námsmanni síðan önnur heildarskuld vegna síðara námsins og færi um greiðslu af henni eins og um sjálfstætt lán væri að ræða nema hvað heildargreiðslur á hverju ári skyldu aldrei vera meiri en sem næmi árlegri endurgreiðslu námslána, þ.e. fastrar greiðslu og viðbótargreiðslu, samkvæmt 21. og 22. gr. reglugerðarinnar, sbr. 8. gr. laga um LÍN, og víki þá greiðsla af síðari skuld fyrir greiðslu af fyrri skuld þar til hún er að fullu greidd. Reglugerð nr. 210/1993 var felld brott með reglugerð um LÍN nr. 602/1997 sem öðlaðist gildi 20. október 1997. Í þeirri reglugerð, sem var í gildi við námslok kæranda, er ekki að finna ákvæði sambærilegt við 23. gr. reglugerðar nr. 210/1993. Hvorki í úthlutunarreglum LÍN 1998-1999 sem í gildi voru við námslok kæranda né í úthlutunarreglunum 2001-2002 sem giltu þegar endurgreiðslur kæranda hófust, né síðar að því er séð verður, er að finna ákvæði um frestun á innheimtu skuldabréfs við þær aðstæður að lánþegi skuldi eitt eða fleiri lán innan sama lánaflokks. Á hinn bóginn eru ákvæði í úthlutunarreglunum um að í þeim tilvikum sem námsmaður er skuldari að lánum innan ólíkra lánaflokka, þ.e. greiðir eftir fleiri kerfum, bíði lán á meðan önnur eru greidd upp. Málskotsnefnd bendir á að í athugasemdum með frumvarpi því er síðar varð að lögum nr. 21/1992 kemur fram að í gildistíð eldri laga um námslán og námsstyrki nr. 72/1982 hafi verið innheimt af öllum skuldabréfum lántaka samtímis. Tekið er fram að í gildistíð laganna frá 1976 hafi skuldabréfin verið sameinuð. Fyrirkomulag laga nr. 72/1982 þótti óheppilegt bæði þar sem slík samtímis innheimta gerði í raun ráð fyrir margfaldri greiðslubyrði en einnig væri þetta óheppilegt við innheimtu vanskila. Var gert ráð fyrir því í frumvarpinu, sbr. 7. gr., að skuldabréf lántaka yrðu sameinuð. Horfið var frá þessum fyrirætlunum í meðförum þingsins. Í umræðum kom fram að slík sameining skuldabréfa væri óheppileg þar sem erfitt gæti reynst fyrir námsmann að fá einn ábyrgðarmann fyrir heildarskuld sína við LÍN. Það væri hagkvæmt fyrirkomulag að dreifa ábyrgðinni. Kom fram af hálfu ráðherra að aðrar leiðir til sameiningar skuldabréfanna yrðu kannaðar. Fjallað var um greiðslur skuldabréfa samkvæmt yngri og eldri lögum um LÍN í 18. gr. frumvarpsins og má ljóst vera að löggjafinn taldi að hér væri um að ræða atriði sem væri óskylt þeirri sameiningu skuldabréfa sem fyrirhuguð var í 7. gr. frumvarpsins. Af staðsetningu ákvæðisins í 18. gr. frumvarpsins næst á undan gildistökuákvæði má og ráða að ætlunin hafi verið að kveða á um tengsl lána veittum í tíð yngri laga og eldri en ekki tengsl skuldabréfa með sömu kjörum sem lántaki hefur tekið í einum eða fleiri námsferlum. Verður samkvæmt framansögðu ekki annað ráðið en að við gildistöku laga nr. 21/1992 hafi áfram verið sú staða að samkvæmt lögunum féllu mörg skuldabréf í gjalddaga samtímis en jafnframt kveðið á um í reglugerð að greiðsla af síðari skuld viki fyrir greiðslu af fyrri skuld þar til hún væri að fullu greidd, sbr. 32. gr. reglugerðar nr. 578/1982 og síðar 21. gr. reglugerðar nr. 210/1993. Reglugerð nr. 210/1993 féll eins og áður greinir úr gildi með gildistöku reglugerðar nr. 602/1997 sem ekki hafði að geyma ákvæði sambærilegt 21. gr. Með 2. og 3. mgr. 8. gr. laganna var jafnframt tryggt að greiðslubyrði árlegrar endurgreiðslu námslána færi ekki fram úr ákveðnu hlutfalli útsvarstekna, þ.e. 4,75% þegar um er að ræða svokölluð R-lán. Eins og fyrr segir er kærandi greiðandi eftir einu kerfi. Hún er skuldari tveggja skuldabréfa innan sama lánsflokks, þ.e. R-lána sem veitt voru samkvæmt núgildandi lögum um LÍN. Í 8. og 9. gr. laga um LÍN er mælt fyrir um endurgreiðslu lána sem veitt voru samkvæmt lögunum og er þar miðað við að afborganir gangi til greiðslu heildarskuldarinnar. Samkvæmt 4. mgr. 7. gr. laganna hefjast endurgreiðslur tveimur árum eftir námslok. Málskotsnefnd getur ekki fallist á þær útskýringar sjóðsins að stjórn LÍN hafi slíkt svigrúm til að ákveða hvað felist í námslokum að með því sé lagt í hendur stjórnar að fresta innheimtu eins skuldabréfs þar til annað hefur verið að fullu greitt. Í athugasemdum við frumvarp það er síðar varð að lögum nr. 21/1992 er þessi heimild skýrð með því að hún veiti stjórn LÍN heimild til að „ákveða lánstíma og námslok í vafatilvikum.“ Slík vafatilvik geta t.d. komið upp þegar námsmaður er í litlu námshlutfalli. Fullyrðing LÍN um að sjóðnum hafi borið að bíða með innheimtu skuldabréfs R-020000 þar til skuldabréf R-007000 hafi verið að fullu greitt og skuldabréf R-020000 sé ekki gjaldkræft á meðan á sér hvorki stoð í lögum um LÍN né reglugerð eða úthlutunarreglum sem settar hafa verið um sjóðinn, að áliti málskotsnefndar. Önnur niðurstaða fengi enda illa samrýmst hagsmunum þeirra sem hafa gengist í sjálfskuldarábyrgð á skuldabréfi kæranda þar sem segir að endurgreiðsla lánsins hefjist tveimur árum eftir námslok. Þá er ekki fallist á að af almennum reglum kröfuréttar verði ályktað að eigi LÍN kröfu samkvæmt fleiri en einu skuldabréfi á skuldara beri ávallt ráðstafa endurgreiðslum inn á það lán sem elst er og á meðan frestist gjalddagar yngra láns. Þó að í skuldabréfum LÍN séu einnig ákvæði þess efnis að sjálfskuldarábyrgðin gildi þótt greiðslufrestur verði veittur á láninu verður það ekki lagt að jöfnu við frestun á innheimtu á meðan greitt sé af fyrra láni, sem ljóst er að getur varað í áratugi. Það er því niðurstaða málskostnefndar að þegar endurgreiðsla kæranda hófst tveimur árum eftir námslok hafi borið að ráðstafa greiðslum hennar inn á heildarnámslánsskuldina og lækka skuldabréfin að tiltölu eftir því sem greiðslan hrökk til. Við greiðslufall kæranda sem hófst 1. mars 2009 hafi námslánsskuld hennar því í heild lent í vanskilum. Kærandi heldur því fram að námslánsskuld hennar við LÍN hafi öll gjaldfallið þegar þegar vanskil urðu á afborguninni 1. mars 2009 og krafan LÍN á hendur henni hafi því fyrnst þann 1. mars 2013 þegar fjögur ár voru liðin frá því að lánið gjaldféll. Í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 242/2010 reyndi á túlkun gjaldfellingarákvæðis skuldabréfa sem LÍN gaf út á árunum 1987 til 1991 á grundvelli þágildandi laga nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki. Í þeim sagði: "Standi lántaki ekki í skilum með greiðslu afborgana á réttum tíma er lánið allt gjaldfallið án uppsagnar." Þetta orðalag taldi Hæstiréttur fortakslaust fela í sér fyrirmæli um að lán teldist allt gjaldfallið án uppsagnar ef ekki væri staðið skil á greiðslu afborgana á réttum tíma. Það er álit málskostnefndar að það orðalag sem deilt er um í þessu máli: "er lánið gjaldfellt án sérstakar uppsagnar" víki í engu verulegu frá því orðalagi sem Hæstiréttur taldi fela í sér afdráttarlausa gjaldfellingu og orðalagið "án uppsagnar" bendi enn frekar í þá átt að ekki þyrfti sérstaka tilkynningu af hálfu sjóðsins til gjaldfellingar. Í þessu sambandi verður einnig að horfa til þess að skilmálar skuldabréfanna eru einhliða samdir af LÍN og bæri því að skýra óskýrleika þeirra skuldara í hag. Skírskotun LÍN til þess að úthlutunarreglur sjóðsins geri ráð fyrir sérstökum innheimtuaðgerðum sjóðsins áður en heimilt sé að gjaldfella skuldabréfið fá þessu ekki breytt, enda eru þau ákvæði augljóslega sett skuldara til hagsbóta en ekki LÍN. Þá bendir málskotsnefnd á að LÍN, sem lánveitanda sem samið hefur einhliða skilmála skuldabréfsins, ber að sjá til þess að ekki sé ósamæmi á milli skilmála skuldabréfsins og annarra reglna sem LÍN telur að eigi að gilda um lán kæranda. Af þessum sökum verður að líta svo á að eftirstöðvar skuldar kæranda við LÍN hafi fallið í gjalddaga í kjölfar vanskilanna 1. mars 2009. Í 3. mgr. 9. gr. laga um LÍN nr. 21/1992 er LÍN veitt svohljóðandi aðfararheimild við innheimtu námslána: "Endurgreiðslur eru aðfararhæfar án undangengis dóms eða sáttar ef um vanskil er að ræða. Sama gildir um eftirstöðvar skuldar sem felld er í gjalddaga samkvæmt 11. gr." Skuldabréf LÍN hafa að geyma sambærileg ákvæði eins og áður er rakið. Í 10. tl. 1. mgr. 1. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 er mælt fyrir um heimild til að gera aðför fyrir kröfum, sem ekki falla undir ákvæði 1.-9. tl . málsgreinarinnar, ef kveðið er á um lögtakrétt fyrir þeim í öðrum lögum. Þó að í fyrrgreindri 3. mgr. 9. gr. laga um LÍN sé ekki minnst á lögtak eða lögtaksrétt verður að leggja fyrirmæli lagaákvæðisins um aðfararheimild að jöfnu við ákvæði um lögtaksrétt. Í 3. tl. 3. gr. þágildandi lag nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda fyrndust á fjórum árum kröfur sem lögtaksrétt hafa. Fyrningarfrestur kröfu LÍN á hendur kæranda byrjaði því að líða við vanskilin þann 1. mars 2009 og var krafan því í heild fyrnd þegar LÍN höfðaði mál á hendur kæranda og ábyrgðarmanni til greiðslu hennar í febrúar 2015. Svo sem áður segir samdi kærandi í kjölfar innheimtuaðgerða LÍN um uppgjör við sjóðinn með því að koma skuldabréfi sínu í skil með útgáfu á vanskilaskuldabréfi í mars 2015. Með því greiddi kærandi upp skuld sem í raun var fyrnd. Samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga má víkja samningi til hliðar í heild eða hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Við mat á því skal líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til. Með hliðsjón af því að LÍN er opinbert fjármálafyrirtæki sem starfar eftir sérstökum lögum og er með sérfræðinga á sínum snærum verður sjóðurinn að bera hallann af því að hafa með innheimtuaðgerðum sínum vakið þá trú hjá kæranda að henni bæri að greiða upp skuld sína við sjóðinn. Það er því álit málskotsnefndar að víkja beri til hliðar loforði kæranda um greiðslu samkvæmt vanskilaskuldabréfi útgefnu í mars 2015 á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936. Af hálfu málskotsnefndar er því fallist á það með kæranda að kröfur LÍN vegna námslána R-007000 og R-020000 sem henni voru veitt á árunum 1993-2000 séu fallnar niður og að fella beri hinu kærðu ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda úr gildi.

Úrskurðarorð

Ákvörðun stjórnar LÍN frá 14. mars 2016 í máli kæranda er felld úr gildi. 

Til baka