Úrskurður
Ár 2017, miðvikudaginn 8. mars, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-25/2016:
Kæruefni
Með kæru sem barst málskotsnefnd þann 11. nóvember 2016 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 25. október 2016 þar sem hafnað var beiðni kæranda um að LÍN felldi niður ábyrgð hennar á námslánum tveggja barna hennar, A og B. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu þann sama dag og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 7. desember 2016 og var afrit þess sent kæranda og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi er ábyrgðarmaður á námslánum tveggja barna sinna,
annars vegar á námsláni A nr. R-0001 og hins vegar á tveimur námslánum B nr.
R-0002 og G-0001. Kærandi gekkst í ábyrgðina á árunum 2002-2005. Með bréfi til
stjórnar LÍN, dagsettu 3. október 2016, fór kærandi þess á leit að ábyrgð hennar
á námslánunum yrði felld niður með vísan til þess að ekkert greiðslumat hafi
farið fram á lánshæfi viðkomandi. Vísaði kærandi til dóma sem fallið hefðu í
Hæstarétti um ógildingu slíkra ábyrgða. Stjórn LÍN hafnaði beiðni kæranda með
ákvörðun 25. október 2016 með vísan til þess að á árunum 2002-2005 hafi LÍN ekki
borið að framkvæma greiðslumat á lánshæfi lántaka. Þá hefði sjóðurinn enga
almenna heimild til að fella niður slíkar ábyrgðir.
Sjónarmið
kæranda.
Í erindi kæranda kemur fram að hún hefði gert stjórn LÍN
grein fyrir því að börn hennar ættu hvor sína fasteignina og gætu þau bæði tekið
ábyrgð á eigin námslánum fremur en aldraðir foreldrar. Væri málið sanngirnismál
í alla staði burtséð frá kröfum um greiðslumat eða á hvaða árum lánin hafi verið
tekið. Fer kærandi þess á leit að málskotsnefnd taki málið fyrir og veitti
réttláta meðferð með rökum sem haldi.
Sjónarmið stjórnar LÍN.
Í athugasemdum stjórnar LÍN kemur fram að kærandi sé ábyrgðarmaður á
lánum tveggja barna sinna. Lánin hafi verið tekin á árunum 2002-2005. Kærandi
hafi í erindi sínu til stjórnar skýrt frá því að börnin ættu fasteignir og gætu
því sjálf tekið við ábyrgð á námslánum sínum. Þá hafi kærandi vísað til dóma
Hæstaréttar er hafi fallið um slíkar ábyrgðir á grundvelli þess að ekkert
greiðslumat hafi farið fram. Eins og komið hafi fram í ákvörðun stjórnar LÍN í
máli kæranda yrði ekki haldið fram að LÍN hafi borið að framkvæma greiðslumat á
þeim tíma er kærandi gekkst í ábyrgð á umræddum námslánum. Vísar stjórn LÍN til
dóma Hæstaréttar í málum nr. 481/2014 og nr. 196/2015. Þá kemur einnig fram í
athugasemdum stjórnar LÍN að stjórnin hafi engar heimildir til að fella niður
ábyrgðir á lánum í einstaka tilvikum án þess að aðrar tryggingar komi í staðinn.
Í 7. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992 um lánasjóð íslenskra námsmanna komi fram að
ábyrgð ábyrgðarmanns, eins eða fleiri, geti fallið niður setji námsmaður aðrar
tryggingu í staðinn sem stjórn sjóðsins telur fullnægjandi. Einnig segi í grein
5.3.2 í úthlutunarreglum LÍN að eldri ábyrgð falli ekki úr gildi nema henni sé
sagt upp og ný sett í staðinn með samþykki sjóðsins. Samkvæmt grein 5.3.4 geti
lántaki óskað eftir því að setja fasteign að veði til tryggingar námsláni að
ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Beiðni um það verði að koma frá lántaka sjálfum
og hlutist stjórn LÍN ekki til um slíkt. Að mati stjórnar LÍN er ákvörðun í máli
kæranda í samræmi við lög og reglur og einnig í samræmi við sambærilegar
ákvarðanir stjórnar LÍN og málskotsnefndar. Fer stjórn LÍN fram á að
málskotsnefnd staðfesti hina kærðu ákvörðun.
Niðurstaða
Samkvæmt gögnum málsins tók kærandi ábyrgð á námslánum barna
sinna á árunum 2002-2005. Um er að ræða svokölluð R-lán og G-lán. Samkvæmt
þágildandi ákvæðum 5. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992 um lánasjóð íslenskra
námsmanna skyldu námsmenn sem fengu lán úr sjóðnum, undirrita skuldabréf við
lántöku og leggja fram yfirlýsingu a.m.k. eins manns um að hann tæki að sér
sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu lánsins ásamt vöxtum og verðtryggingu þess
allt að tiltekinni hámarksfjárhæð. Í erindi sínu til stjórnar LÍN vísaði kærandi
til þess að börn hennar væru fullorðið fólk sem ætti séreignir og fór kærandi
þess því á leit að LÍN felldi niður ábyrgðir hennar á lánum þeirra. Vísaði hún
til dóma Hæstaréttar um ógildingu ábyrgða á grundvelli þess að ekki hafi verið
gert greiðslumat. Í kæru kom fram að börn hennar ættu hvort sína fasteign og að
þau gætu tekið ábyrgð á námslánum sínum. Telur hún að um sanngirnismál sé að
ræða burtséð frá kröfu um greiðslumat eða á hvaða árum lánum hafi verið tekin.
Eins og fram hefur komið var umrædd ábyrgð kæranda á námslánum barna hennar
veitt á árunum 2002-2005. Á þeim tíma voru ekki í gildi neinar reglur um að meta
bæri greiðsluhæfi lántaka. Er því ljóst að dómar Hæstaréttar um ógildingu
ábyrgða sökum þess að greiðslumat var ekki framkvæmt eiga ekki við í máli
kæranda. Kemur þetta skýrlega fram í dómum Hæstaréttar, m.a. í máli nr.
196/2015. Þá veita ákvæði laga um LÍN stjórn sjóðsins ekki neinar heimildir til
niðurfellingar ábyrgða nema fullnægjandi tryggingar hafi verið settar í staðinn.
Kemur þetta fram í 7. mgr. 6. gr. laga um LÍN þar sem segir að ábyrgð
ábyrgðarmanns geti fallið niður enda setji námsmaður aðra tryggingu sem stjórn
sjóðsins meti fullnægjandi. Trygging er kemur í stað ábyrgðarmanna getur m.a.
verið veð í fasteign. Það er hins vegar ljóst að ábyrgðarmaður á ekki rétt á að
ábyrgðin sé felld niður þó svo að í ljós komi að námsmaður hafi burði til að
setja fram slíka veðtryggingu sjálfur. Eins og fram kemur í umsögn stjórnar LÍN
verður námsmaðurinn sjálfur að fara þess á leit við LÍN að fá að setja fasteign
til tryggingar skuld sinni og leysa þar með ábyrgðarmann undan skuldbindingu
sinni. Í úthlutunarreglum LÍN eru sett skilyrði fyrir því að slíkt verði
samþykkt en þar segir eftirfarandi í grein 5.3.4:
Óski námsmaður
eftir að setja fasteign að veði til tryggingar námsláni þarf hann að leggja fram
eftirfarandi gögn: Veðbókarvottorð, afrit síðustu greiðsluseðla vegna áhvílandi
lána, fasteigna- og brunabótamat. Við veðtryggingu námslána er miðað við að
áhvílandi lán, að viðbættu láni frá sjóðnum, fari ekki yfir 65% af fasteignamati
íbúðarhúsnæðis og sé innan við 65% af brunabótamati. Jafnframt er heimilt að
fara fram á sölumat löggilts fasteignasala og skal þá miðað við að lán frá
sjóðnum fari ekki yfir 60% af sölumati.
Samkvæmt framansögðu er
ljóst að stjórn LÍN hefur ekki heimild til að fella niður ábyrgð kæranda á
námslánum barna hennar fyrr þau sjálf hafa lagt fram fullnægjandi tryggingar
eins og lýst er hér að framan. Það er því niðurstaða málskotsnefndar staðfesta
beri synjun stjórnar LÍN á beiðni kæranda.
Úrskurðarorð
Ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda frá 25. október 2016 er staðfest.