Úrskurður
Ár 2017, miðvikudaginn 15. mars, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-15/2016:
Kæruefni
Með kæru sem barst málskotsnefnd 11. júlí 2016 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 10. maí og 23. júní 2016 þar sem hafnað var beiðni kæranda um að ábyrgð hans á námsláni lántaka nr. S-0001 yrði felld niður. Kærandi gerir kröfu um að ábyrgð hans á lánum lántaka verði felld niður frá þeim tíma sem lánin voru gjaldfelld. LÍN krefst þess að málskotsnefnd staðfesti hina kærðu ákvörðun. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 13. júlí 2016 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 5. september 2016 og var afrit þess sent kæranda til athugasemda þann 6. september 2016. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dagsettu 21. september 2016 og voru þær kynntar LÍN sama dag með tölvubréfi. Með bréfi dagsettu 28. nóvember 2016 óskaði málskotsnefnd eftir viðbótarupplýsingum frá LÍN og bárust þær með bréfi dagsettu 7. desember 2016.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi gekkst í sjálfskuldarábyrgð á árunum 1983 og 1984 á
tveimur skuldabréfum lántaka hjá LÍN í tíð laga nr. nr. 72/1982 um námslán og
námsstyrki. Um svokölluð T-lán (T-001 / T-002) var að ræða sem voru síðar
sameinuð hjá LÍN undir heitinu S-0001. Lántaki ritaði undir skuldabréfin 3. mars
1983 og 23. febrúar 1984. Um verðtryggð lán var að ræða og í skilmálum bréfanna
segir að endurgreiðslur lánanna hefjist þremur árum eftir námlok og að stjórn
sjóðsins ákveði hvað teljist námslok í þessu sambandi. Endurgreiðslur skyldu
fara fram með árlegri greiðslu, sem ákvarðast í tvennu lagi. Þá kemur fram með
hvaða hætti slíkri árlegri endurgreiðslu skuli háttað og að endurgreiðslum skuli
ljúka ekki síðar en 40 árum eftir að þær hefjast. Í bréfunum sagði að auki að
lánið væri allt gjaldfallið án uppsagnar stæði lántaki ekki í skilum með
greiðslu afborgana. Til tryggingar endurgreiðslu lánanna, höfuðstóli að
viðbættum verðtryggingum, svo og þeim kostnaði er vanskil lántaka kynnu að
valda, ábyrgðist kærandi in solidum lánin sem sjálfskuldarábyrgðarmaður. Þegar
kærandi ábyrgðist skuldabréfin var lántaki með V-námslán fyrir. Fyrsta afborgun
V-láns hans var í mars 1989 en frá þeim tíma til ársins 1998 frestuðust
greiðslur vegna frekara náms hjá honum. Til þessa nýja náms tók lántaki R-lán,
en samkvæmt 18. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna skyldi
R-lánið hafa forgang gagnvart eldri námsskuldum og skyldu greiðslur af eldri
námsskuldum frestast þar til R-lánið væri að fullu greitt. Eftir námslok lántaka
í hinu síðari námi greiddi hann einungis af R-láni sínu fram til ársins 2003
þegar það var greitt upp. Í kjölfarið hóf hann greiðslu V- og T-láns sem kærandi
er ábyrgðarmaður á. Bú lántaka var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði
héraðsdóms þann 8. ágúst 2014. Námslán lántaka var gjaldfellt í kjölfarið og
lýsti LÍN kröfu í þrotabúið. Engir gjalddagar vegna T-láns sem kærandi er í
ábyrgð fyrir voru í vanskilum við úrskurð um gjaldþrot lántaka. Skiptum í
þrotabúi lántaka lauk 27. október 2014 án þess að greiðsla fengist upp í lýstar
kröfur. Í framhaldi var kæranda send innheimtuviðvörun þann 12. janúar 2016 þar
sem honum var tilkynnt um gjaldþrotið og að umrædd lán hafi verið gjaldfelld.
Var hann krafinn um greiðslu að fjárhæð 916.533 króna á grundvelli
sjálfskuldarábyrgðar sinnar á lánum lántaka. Kærandi greiddi kröfuna 5. apríl
2016 með fyrirvara um réttmæti hennar. Kærandi sendi erindi til stjórnar LÍN og
óskaði eftir niðurfellingu á ábyrgð sinni á T-láni lántaka. Stjórn LÍN synjaði
beiðni kæranda með ákvörðunum 10. maí og 23. júní 2016 og kærði kærandi þær
ákvarðanir stjórnar LÍN til málskotsnefndar.
Sjónarmið kæranda
Kærandi telur að LÍN hafi með ákvörðunum sínum brotið á sér lög og
reglur sem gilda um LÍN, ábyrgðarmenn og samningsgerð. Kærandi byggir á því að
það liggi fyrir að lánaskilmálum umræddra skuldabréfa, frá árunum 1983 og 1984,
hafi verið breytt eftir að kærandi gekkst í sjálfskuldarábyrgð á þeim. Í
lánaskilmálum skuldabréfanna komi skýrt fram að endurgreiðsla skuli hefjast
þremur árum eftir að námi ljúki. Engu að síður hafi lán sem lántaki hafi tekið
seinna hjá LÍN, svokallað R-lán, verið sett í forgang við endurgreiðslu. Hafi
endurgreiðslur á þeim lánum sem kærandi var í ábyrgð fyrir því frestast allt
fram til ársins 2003. Kærandi telur að um verulega íþyngjandi ákvörðun hafi
verið að ræða fyrir hann sem ábyrgðarmann. Hafi höfuðstóll lánanna ekki lækkað
eins og hann hafi gert ráð fyrir þegar hann samþykkti sjálfskuldarábyrgðina á
árunum 1983 og 1984. Kærandi mótmælir því að ekki hafi verið um breytingu á
lánaskilmálum T-lána að ræða í kjölfar nýrra laga um LÍN árið 1992. Kærandi
bendir á að skýrt komi fram í gögnum málsins að í kjölfar lagasetningarinnar
hafi lán sem lántaki hafi tekið eftir 1992 verið sett í endurgreiðslu fram fyrir
þau lán sem kærandi hafi verið í ábyrgð fyrir frá árunum 1983 og 1984. Samkvæmt
lánaskilmálum skuldbréfanna sem hann hafi gengist í ábyrgð fyrir skyldi
endurgreiðsla lánanna hefjast þremur árum eftir námslok. Þegar að lántaki hafi
samþykkti skilmála nýs námsláns samkvæmt lögum frá 1992 hafi það verið án
samráðs og án samþykkis kæranda. Telur kærandi að samkomulag LÍN og lántaka á
grundvelli laganna frá 1992 hafi frestað greiðsluskyldu lántaka vegna eldri lána
þrátt fyrir skýr ákvæði skuldabréfanna um að greiðslur skyldu hefjast þremur
árum eftir námslok. Hér hafi verið um breytingu á lánaskilmálum að ræða enda
afleiðingin sú að höfuðstóll lánanna hafi ekki lækkað eins og kærandi hafi gert
ráð fyrir þegar hann gekkst í ábyrgð fyrir þau. Það liggi fyrir að lántaki
greiddi einungis 205.037 krónur af T-láninu á árunum 2004 til 2010. Hefði
lánaskilmálum ekki verið breytt á grundvelli laganna frá 1992 hefðu innborganir
frá námslokum inn á lánið verið einni til tveimur milljón krónum hærri sé tekið
varkárt mið af greiðslugetu lántaka. Breytingin hafi því verið verulega
íþyngjandi fyrir kæranda sem ábyrgðarmanns enda hafi endurgreiðslur lántaka til
LÍN fram að gjaldþroti hans farið að stærstum hluta inn á lán hjá LÍN sem tekin
voru eftir 1992. Kærandi telur það ekki standast lög um góða stjórnsýslu né
eðlilega viðskiptahætti að breyta lánaskilmálum afturvirkt með þeim hætti sem
gert hafi verið og telur einnig að það samrýmist hvorki 6. grein laga nr.
32/2009 um ábyrgðarmenn né 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og
ógilda löggerninga. Telur kærandi að LÍN hafi í raun rift ábyrgðarsamningi hans
við sjóðinn enda hafi samþykkis hans ekki verið aflað fyrir breytingunum á
lánaskilmálunum né hafi verið haft samráð við hann um það. Þá bendir kærandi á
að eðli máls samkvæmt hafi honum ekki verið kunnugt um áhrif breyttra
lánaskilmála fyrr en í ársbyrjun 2016 þegar honum hafi verið tilkynnt um
gjaldfellingu námslána lántaka í kjölfar gjaldþrot hans. Einnig bendir kærandi
að lánið hafi ekki verið í vanskilum þegar bú lántaka hafi verið tekið til
gjaldþrotaskipta þann 8. ágúst 2014. Ekkert samband hafi verið haft við hann sem
ábyrgðarmann í tengslum við gjaldþrotið né hafi honum verið boðið að halda
umræddu láni í skilum. Telur kærandi að með gjaldfellingunni hafi LÍN í raun
rift ábyrgð hans á láninu og bendir á að samkvæmt 11. gr. laga um LÍN sé LÍN
einungis heimilt að fella allt lánið í gjalddaga verði veruleg vanskil á
endurgreiðslu námslána. Námslán lántaka hafi ekki verið í vanskilum. Kærandi
telur að LÍN hefði átt að bjóða honum sem ábyrgðarmanni að ábyrgjast lánin og
halda þeim í skilum áður en krafa hafi verið gerð í þrotabúið. Einnig telur hann
að kröfulýsing LÍN í þrotabú lántaka og gjaldfelling sjóðsins á lánunum standist
ekki ákvæði laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009. Bendir kærandi á að breyting á
gjaldþrotalögunum árið 2010 hafi haft það að markmiði að auðvelda skuldsettum
einstaklingum að fara fram á gjaldþrot í kjölfar efnahagshruns á Íslandi. Ekki
verði séð að lagabreytingunni hafi verið ætlað að vera íþyngjandi fyrir
ábyrgðarmenn. Telur kærandi að afstaða LÍN og túlkun hans á gjaldþrotalögum
virðist allt önnur en löggjafans. Í lögum um ábyrgðarmenn og í samsvarandi
lagaákvæði í lögum og úthlutanareglum LÍN komi fram að ekki megi gjaldfella lán
án þess að bjóða ábyrgðarmanni að halda lánum í skilum. Þá bendir kærandi á að
lög og reglugerð um LÍN verði heldur ekki skilin öðruvísi en að um félagslegan
jöfnunarsjóð sé að ræða sem taki tillit til efnahags og greiðslugetu lánþega.
Engu að síður virðist LÍN túlka gjaldþrotalögin mjög þröngt og þvert á fyrirmæli
annarra laga. Telur kærandi að það standist ekki ákvæði stjórnarskrár né
stjórnsýslulaga um réttláta málsmeðferð og meðalhóf. Þá telur kærandi að LÍN
hafi ekki gætt að upplýsingaskyldu gagnvart sér á öllum stigum málsins. Hann
hafi ekki verið upplýstur að í fjárhagsleg vandkvæði stefndi hjá lántaka, að bú
lántaka hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta í ágúst 2014 né að LÍN hygðist
gera kröfur í búið. Telur hann að sinnuleysi LÍN varðandi upplýsingagjöf hafi
valdið honum skaða. Bendir hann á að skiptum á þrotabúi lántaka hafi lokið 27.
október 2014 en að hann hafi ekki fengið upplýsingar um gjaldþrotið fyrr en í
janúar 2016. Kærandi telur ótvírætt að þetta skipti máli varðandi stöðu hans sem
ábyrgðarmanns þ.e. að hann hafi eins fljótt og auðið er fengið aðgang að öllum
upplýsingum sem tengjast skuldbindingum hans í gjaldþrotinu. Með því hefði honum
gefist kostur á að gæta að réttarstöðu sinni, t.d. gagnvart kröfugerð LÍN,
fyrningartíma og endurkröfu á skuldara.
Sjónarmið stjórnar LÍN
LÍN byggir á því að allar kröfur á hendur þrotabúi falli sjálfkrafa í
gjalddaga við uppkvaðningu úrskurðar héraðsdóms um að bú sé tekið til
gjaldþrotaskipta, sbr. 99. gr. gjaldþrotalaga. Allar kröfur LÍN á hendur lántaka
hafi því fallið sjálfkrafa í gjalddaga á úrskurðardegi og við það hafi ábyrgð
kæranda orðið virk en fram að því tímamarki hafi afborganir af láni nr. S-0001
verið í skilum. Bendir LÍN á að grein 5.3.3 í úthlutunarreglum sjóðsins fyrir
námsárið 2015-2016 eigi ekki við í þessu samhengi þar sem um lögbundna
gjaldfellingu kröfu hafi verið að ræða. Þá bendir LÍN á að bú lántaka hafi ekki
verið tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu sjóðsins. LÍN hafi lýst kröfu í
þrotabúið enda nauðsynlegt til þess að tryggja kröfuna gagnvart búinu, sbr. 118.
gr. gjaldþrotalaga. Einnig bendir LÍN á að þegar kærandi hafi gengist í ábyrgð
fyrir námslánum T-001 og T-002 sem sameinuð hafi verið í S-0001 hafi verið í
gildi bráðabirgðaákvæði með lögum nr. 72/1982 sem hafi kveðið á um að skuldaði
námsmaður V-lán þegar hann tæki T-lán þá skyldi miða við greiðslubyrði T-lánanna
en greiða V-lánin fyrst. Ef tekjur væri það háar að reiknuð afborgun varð hærri
en afborgun V-láns þá skyldi mynda gjalddaga á T-lánið og ráðstafa mismuninum
inn á það. Fyrsta afborgun V-láns lántaka hafi verið í mars 1989 en frá þeim
tíma til ársins 1998 hafi endurgreiðslur frestast vegna frekara náms hjá honum.
Til þessa nýja náms hafi lántaki tekið R-lán en samkvæmt 18. gr. laga nr.
21/1992 skyldi R-lánið hafa forgang gagnvart V- og T-lánum og ekki skyldi
innheimta eldri lán meðan greitt væri af R-lánum samkvæmt lögunum. Eftir námslok
í hinu síðara námi hafi lántaki einungis greitt af R-láni sínu allt fram til
ársins 2003 þegar það hafi verið uppgreitt. Í kjölfarið hafi lántaki hafið að
greiða af V- og T-lánum. Telur LÍN að endurgreiðsluferli námslána lántaka hafi
verið í fullu samræmi við fyrirmæli bráðabirgðaákvæðis laga nr. 72/1982 og 18.
gr. laga nr. 21/1992. Þá bendir LÍN á að krafa sjóðsins hafi stofnast fyrir
gildistöku laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Engu að síður hafi verið litið svo
á að III. kafla laganna verði beitt um kröfur lánasjóðsins á hendur
ábyrgðarmönnum, þótt kröfurnar séu eldri lögunum. Telur LÍN að þó upplýsingabréf
um ábyrgðir hafi ekki verið sent frá LÍN fyrr en í janúar 2016 þá teljist það
ekki slíkur dráttur að það víki til hliðar stjórnarskrárvörðum eignaréttindum
LÍN, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar í máli nr. 229/2015. Telur LÍN að ekkert í þessu
máli gefi tilefni til að ætla að dráttur á tilkynningu til kæranda um gjaldþrot
lántaka hafi valdið kæranda meiri skaða en bættur verði með úrræðum 3. mgr. 7.
gr. laga um ábyrgðarmenn. Þá telur LÍN að ákvæði 4. mgr. 7. gr. laganna eigi
ekki við í málinu þar sem gjaldfelling námslánaskuldarinnar hafi leitt af
fyrirmælum 99. gr. laga nr. 21/1991. LÍN hafnar því að um breytingu á
lánaskilmálum lánsins sé að ræða. Í 18. gr. laga nr. 21/1992 sé mælt fyrir um
forgang innheimtu lána sem veitt voru, samkvæmt þeim lögum, gagnvart lánum sem
veitt höfðu verið samkvæmt lögum nr. 72/1982 eða eldri lögum. Bendir LÍN á að
lög nr. 21/1992 hafi verið sett með stjórnskipulega réttum hætti. Þau hafi
lagagildi og bindi bæði LÍN, lántaka og þá sem gengu í sjálfskuldarábyrgð á
lánum hans. Að ekki sé á færi stjórnsýslunefndar að víkja settum lögum til
hliðar og beri því að hafna kröfum kærandi á þessum grundvelli. LÍN mótmælir því
að ábyrgð kæranda hafi fallið niður við það að lán lántaka hafi fallið
sjálfkrafa í gjalddaga vegna fyrirmæla 1. mgr. 99. gr. laga um gjaldþrotaskipta
nr. 21/1991. Bendir LÍN á að ábyrgð sú sem kærandi gekkst í hafi verið ætlað að
tryggja sjóðinn gegn ógjaldfærni lántaka. Þegar krafan hafi fallið í gjalddaga
vegna fyrirmæla 1. mgr. 99. gr. laga nr. 21/1991 hafi hún orðið gjaldkræf á
hendur kæranda. Það hafi verið útilokað fyrir LÍN, þar sem námslánið hafi fallið
í gjalddaga vegna fyrirmæla 99. gr., að bjóða kæranda að koma námslánunum í
skil. Þá hafi LÍN verið ókunnugt um yfirvofandi gjaldþrot lántaka og hafi
sjóðurinn fengið vitneskju um það með hefðbundnu eftirliti með
Lögbirtingablaðinu en þá þegar hafi námslánið verið gjaldfallið samkvæmt
fyrirmælum gjaldþrotalaga.
Niðurstaða
Mál þetta snýst annars vegar um hvort ógreidd námslán lántaka
hafi gjaldfallið þegar hann var úrskurðaður gjaldþrota í ágúst 2014 og að þar
með hafi ábyrgð kæranda orðið virk gagnvart LÍN og hvort að gjaldfellingin
standist fyrirmæli laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna, laga um
ábyrgðarmenn nr. 32/2009 og úthlutunarreglur sjóðsins. Hins vegar snýst málið um
greiðslufrest þann sem LÍN veitti lántaka á grundvelli 18. gr. laga nr. 21/1992
og hvort að greiðslufrestur þessi gildir gagnvart ábyrgðarmanni án samþykkis
hans. 1. LÍN er opinber stjórnsýslustofnun sem hefur það hlutverk að tryggja
þeim sem falla undir lög nr. 21/1992 tækifæri til náms án tillit til efnahags.
LÍN veitir lán til námsmanna í framhaldsnámi samkvæmt lögum og reglum sem um
sjóðinn gilda. Er starfsemi sjóðsins fjármögnuð með endurgreiðslu námslána,
ríkisframlagi og lánsfé. LÍN ber í starfi sínu að fylgja þeim lögum og reglum
sem gilda sérstaklega um starfsemi sjóðsins, lagareglum, jafnt skráðum sem
óskráðum, sem gilda um stjórnsýslu hins opinbera svo og reglum fjármunaréttarins
eftir því sem við á. Sjálfskuldarábyrgð er kröfuréttarlegs eðlis og er notuð í
lánastarfsemi almennt. Með því að takast á hendur sjálfskuldarábyrgð skuldbindur
einstaklingur sig til að tryggja efndir kröfu gagnvart lánveitanda ef lántaki
reynist ekki borgunarmaður fyrir greiðslu skuldarinnar. Efni kröfunnar ræðst af
þeim löggerningi sem liggur henni til grundvallar, s.s. samningi eða
skuldabréfi, og eftir lögum sem gilda hverju sinni. Skuldabréfin sem kærandi
gekkst í sjálfskuldarábyrgð fyrir eru tvö, nr. T-001 og T-002, og voru gefin út
á árunum 1983 og 1984. Lánin voru sameinuð undir nafninu S-0001 til hagræðingar
í reikningshaldi LÍN. Endurgreiðslutími, og þar með líftími skuldabréfanna og
ábyrgðarinnar, er 40 ár. Við útgáfu skuldabréfanna voru í gildi lög nr. 72/1982
um námslán og námsstyrki. Samkvæmt þeim lögum var gerð krafa um að námsmaður,
sem fengi lán úr lánasjóðnum, legði fram yfirlýsingu eins ábyrgðarmanns um að
hann tæki að sér sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu lánsins. Skilmálar
ábyrgðaryfirlýsinga kæranda á skuldabréfunum eru samhljóða og hljóða svo:
"Til tryggingar skilvísri greiðslu á láni þessu, höfuðstól að viðbættum
verðtryggingum svo og þeim kostnaði er vanskil lántakanda kunna að valda, hefur
ofanritaður ábyrgðarmaður lýst yfir því, að hann ábyrgist in solidum lán þetta
sem sjálfskuldarábyrgðarmaður." Skilmálar ábyrgðarinnar samkvæmt
skuldabréfunum eru hefðbundnir og skýrir. Í skuldabréfunum kemur fram að
endurgreiðsla lánanna hefjist þremur árum eftir námslok og að stjórn sjóðsins
ákveði hvað teljast námslok í þessu sambandi. Einnig kemur fram að árleg
endurgreiðsla af skuldabréfunum ákvarðist í tvennu lagi og er því lýst með hvað
hætti endurgreiðslum skuli háttað og að stjórn Lánasjóðsins sé heimilt að veita
undanþágu frá árlegri endurgreiðslu ef skyndilegar og verulegar breytingar verða
á högum lánþega milli ára. Þá segir ennfremur í ábyrgðaryfirlýsingu
skuldabréfsins: "Að öðru leyti gilda um þetta skuldabréf ákvæði 2. kafla laga
um námslán og námsstyrki nr. 72/1982." 2 Aðila greinir á um hvort ógreidd
námslán lántaka hafi gjaldfallið þegar hann var úrskurðaður gjaldþrota í ágúst
2014, með þeim afleiðingum að ábyrgð kæranda hafi orðið virk gagnvart LÍN, og
hvort gjaldfellingin standist fyrirmæli laga nr. 21/1992 um LÍN, laga um
ábyrgðarmenn nr. 32/2009 og úthlutunarreglur sjóðsins. Í 99. gr. laga um
gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 segir:
Allar kröfur á hendur
þrotabúi falla sjálfkrafa í gjalddaga við uppkvaðningu úrskurðar héraðsdómara um
að búið sé tekið til gjaldþrotaskipta án tillits til þess sem kann áður að hafa
verið umsamið eða ákveðið með öðrum hætti.
Framangreint ákvæði
gildir jafnt um námslán sem aðrar kröfur á gjaldþrota aðila og skiptir þá ekki
máli hvort kröfur eru í skilum eða ekki á því tímamarki. Við það að lántaki var
úrskurðaður gjaldþrota gjaldféll því námslán hans og sjálfskuldarábyrgð kæranda
á láninu varð virk. Kærandi telur að gjaldfellingin hafi verið óheimil með vísan
til 11. gr. laga um LÍN, til úthlutunarreglna sjóðsins svo og til laga nr.
32/2009 um ábyrgðarmenn, þar sem m.a. kemur fram að skilyrði fyrir gjaldfellingu
námlána sé að um veruleg vanskil á endurgreiðslu þeirra sé að ræða.
Málskotsnefnd bendir á að hér er um sjálfkrafa gjaldfellingu allra krafna á
hendur þrotamanni, þ.e. gjaldfellingin er lögbundin, og gildir hún jafnt
gagnvart öllum kröfuhöfum hins gjaldþrota aðila. Skiptir þá ekki máli hvort
krafa er í skilum eða ekki. Þá var það ekki LÍN sem óskaði eftir því að bú
lántaka yrði tekið til gjaldþrotaskipta en eftir að þessi staða var komin upp
var nauðsynlegt fyrir LÍN, sem og aðra kröfuhafa lántaka, að lýsa kröfu í
þrotabúið til að tryggja kröfuna gagnvart búinu, sbr. 118. gr. gjaldþrotalaga. 3
Aðila greinir einnig á um greiðslufrest þann sem LÍN veitti lántaka á grundvelli
18. gr. laga nr. 21/1992 og hvort að greiðslufrestur þessi gildir gagnvart
ábyrgðarmanni án samþykkis hans. 3.1 Eins og áður er fram komið segir í
ábyrgðaryfirlýsingu skuldabréfanna að um skuldabréfin gilda "að öðru leyti
ákvæði 2. kafla laga nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki". Í 5. mgr. 8. gr.
laga nr. 72/1982 kemur fram að stjórn LÍN er heimilt að veita undanþágu frá
árlegri endurgreiðslu samkvæmt lögunum ef skyndilegar og verulegar breytingar
verða á högum lánþega milli ára t.d. ef hann veikist alvarlega eða verður fyrir
slysi er skerðir til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna.
Einnig er stjórninni heimilt að veita undanþágu frá fastri ársgreiðslu ef nám,
atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður
valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans. Í 16. gr.
laganna segir að ráðherra setji með reglugerð frekari ákvæði um framkvæmd
laganna, m.a. að því er varðar meginreglur um rétt til námsaðstoðar,
ákvörðunaratriði varðandi fjárhæð hennar, ákvæði um útborgun lána með jöfnum
mánaðargreiðslum o.s.frv. Sjóðsstjórn setji reglur um önnur atriði úthlutunar og
skuli árlega gefa út úthlutunarreglur sjóðsins samþykktar af ráðherra. Í
bráðabirgðaákvæði, 4. mgr., með lögunum segir: "Ef lánþegi Lánasjóðs skv.
þessum lögum er jafnframt að inna af hendi greiðslur samkvæmt eldri lögum,
dragast síðastnefndu greiðslurnar frá þeirri upphæð sem lánþega annars bæri að
greiða samkvæmt þessum lögum." Við útgáfu umræddra skuldabréfa var í gildi
reglugerð um námslán og námsstyrki nr. 578/1982 þar sem fyrir hendi var heimild
fyrir LÍN, ef lántaki byrjaði lánshæft nám að nýju eftir að fyrra námið taldist
lokið, að veita námsmanni undanþágu frá endurgreiðslu af fyrri skuld meðan
síðara nám stæði yfir. Þann 29. maí 1992 tóku gildi núgildandi lög um Lánasjóð
íslenskra námsmanna nr. 21/1992. Í 18. gr. laganna, sbr. breytingalög nr.
40/2004, segir:
Ef lánþegi samkvæmt lögum þessum er jafnframt að
endurgreiða námslán samkvæmt eldri lögum um sjóðinn skal miða við að hann
endurgreiði þau fyrst. Á næsta almanaksári eftir að endurgreiðslu samkvæmt eldri
lögum lýkur eða á að vera lokið skal lánþegi hefja endurgreiðslu samkvæmt þessum
lögum. Greiðslur samkvæmt þessum lögum frestast því þar til lán samkvæmt eldri
lögum eiga að vera að fullu greidd. Ef lánþegi skuldar námslán sem var úthlutað
á árunum 19922004, svokallað R-lán, og jafnframt námslán samkvæmt lögum nr.
72/1982 eða eldri lögum skal hann fyrst endurgreiða að fullu R-lánið. Greiðslur
af eldri námsskuldum frestast þá þar til R-lánið er að fullu greitt.
Síðari málsgrein ákvæðisins kom inní frumvarp það er síðar varð að
breytingarlögum nr. 40/2004 með tillögu meirihluta menntamálanefndar við meðferð
frumvarpsins á Alþingi. Í nefndaráliti með breytingartillögunni kemur fram að
ætlunin með 6. gr. frumvarpsins hafi verið að setja fram reglu sambærilega
þeirri sem sé nú í 18. gr. laganna þess efnis að námsmenn ljúki við að
endurgreiða fyrst svokölluð R-lán áður en endurgreiðsla á öðrum lánaflokkum eigi
að hefjast. Í lögskýringargögnum með ákvæðinu er ekki að finna neina umfjöllun
um áhrif forgangs R-lána á ábyrgðarskuldbindingu ábyrgðarmanna að eldri
námslánum. 3.2 Fyrir liggur í málinu að þegar kærandi gekkst í ábyrgð fyrir
T-lánum lántaka, var lántaki fyrir með V-námslán. Fyrsta afborgun af V-láni
lántaka var í mars 1989 en frá þeim tíma til ársins 1998 frestuðust greiðslur á
V-láni og T-láni vegna frekara náms hjá honum. Til þessa nýja náms tók lántaki
R-lán. Eftir námslok lántaka i hinu síðari námi greiddi hann einungis af R-láni
sínu fram til ársins 2003 þegar það var uppgreitt. Í kjölfarið hóf hann greiðslu
á V-láni sínu og svo á T-láni. Þegar bú lántaka var tekið til gjaldþrotaskipta í
ágúst 2014 voru V-lán hans uppgreidd en T-lán hans voru í skilum en gjaldféllu
sjálfkrafa við gjaldþrot lántaka. Hóf LÍN innheimtu á eftirstöðvum námslánsins,
að fjárhæð 916.533 krónur, á hendur kæranda sem ábyrgðarmanns í janúar 2016. 3.3
Lög nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki gilda, eins og áður segir, um
réttarsamband aðila í þessu máli. Verður ábyrgðaryfirlýsingin, sem er
sjálfstæður samningur að lögum, skýrð með hliðsjón af ákvæðum laganna.
Endurgreiðslur af láni því, sem kærandi er í ábyrgð fyrir, frestuðust í fyrsta
lagi vegna fyrirmæla bráðabirgðaákvæðis laga nr. 72/1982 um forgang á greiðslum
V-lána á greiðslu T-lána, í öðru lagi vegna heimildar í reglugerð um námslán og
námsstyrki nr. 578/1982 þar sem lántaki stundaði lánshæft nám að nýju eftir að
fyrra námi lauk og í þriðja lagi vegna fyrirmæla 18. gr. laga nr. 21/1992 um
forgang yngri lána lántaka fram yfir eldri lán hans. Óumdeilt er að kærandi, sem
ábyrgðarmaður á T-lánum lántaka, samþykkti ekki framangreinda greiðslufresti né
var eftir því leitað af hálfu LÍN að kærandi veitti slíkt samþykki. Í málinu er
ekki ágreiningur um greiðslufresti þá sem veittir voru í tveimur fyrrnefndu
tilvikunum. Ágreiningur er hins vegar um greiðslufrest þann sem LÍN veitti
lántaka á grundvelli 18. gr. laga nr. 21/1992 og hvort að greiðslufrestur þessi
gildir gagnvart ábyrgðarmanni án samþykkis hans. 3.4 Í 18. gr. laga nr. 21/1992
er mælt fyrir um forgang á endurgreiðslu R-námslána umfram lán sem tekin voru
samkvæmt lögum nr. 72/1982. Ákvæðið felur í sér ívilnandi kjör fyrir lántaka með
því að kveða á um að hann greiði fyrst upp yngri og óhagkvæmari lán. Hvorki í
lögunum né í lögskýringargögnum með þeim er fjallað um hvort og þá hvaða áhrif
þessi greiðslufrestur eigi að hafa á ábyrgðir og ábyrgðarmenn eldri lána. Telja
verður að hafi það verið vilji löggjafans að ákvæðið ætti að taka til
skuldbindinga ábyrgðarmanna eldri lána og breyta þeim á svo íþyngjandi og
afturvirkan hátt hefði það þurft að koma fram með skýrum og ótvíræðum hætti.
Verður að skýra óljós atriði í þessum efnum ábyrgðarmanni í hag ekki síst í
ljósi þess að LÍN er opinber lánasjóður, stofnaður á grundvelli laga og á ábyrgð
íslenska ríkisins. Verður því að telja að greiðslufrestirnir hafi verið á ábyrgð
og áhættu LÍN sem kröfuhafa og eingöngu lotið að lánasamningum LÍN við lántaka.
3.5 Það hefur verið ólögfest og viðurkennd meginregla í kröfurétti að íþyngjandi
breytingar á ábyrgð eru háðar samþykki ábyrgðarmanns en með lögum nr. 32/2009 um
ábyrgðarmenn var þessi meginregla fest í lög. Að mati málskotsnefndar fólu
greiðslufrestir á T-lánum lántaka á grundvelli 18. gr. laga nr. 21/1992 í sér
íþyngjandi breytingu á sjálfskuldarábyrgð kæranda. Voru greiðslufrestirnir á
allri skuldinni, til langs tíma og þegar einungis hluti skuldarinnar hafði verið
greiddur varð lántaki ógjaldfær. Til þess að ábyrgð kæranda á skuldbindingum
lántaka stæði óhögguð hefði hann fyrir sitt leyti þurft að samþykkja
greiðslufrestinn. Þar sem ekki var aflað samþykkis kæranda fyrir
greiðslufrestinum og með vísan til þeirra áhættuaukningar sem að framan greinir
verður að fallast á að kærandi sé laus undan ábyrgðarskuldbindingu sinni. 4. Með
vísan til framanritaðs eru hinar kærðu ákvarðanir frá 10. maí og 23. júní 2016 í
máli kæranda felldar úr gildi og fallist á kröfu kæranda eins og í úrskurðarorði
greinir.
Úrskurðarorð
Ákvarðanir stjórnar LÍN í máli kæranda frá 10. maí og 23. júní 2016 eru felldar úr gildi. Staðfest er að ábyrgð kæranda á T-lánum lántaka hjá LÍN er fallin niður