Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-16/2016 - Umsóknarfrestur og útborgun Of sein skil á námsárangri

Úrskurður

 

Ár 2017, miðvikudaginn 15. mars, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-16/2016:

 

Kæruefni

 

Með kæru dagsettri 13. júlí 2016 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) dagsetta 11. apríl 2016 um að synja henni um greiðslu námsláns vegna náms sem hún stundaði á vormisseri 2015 sökum þess að fullnægjandi upplýsingar um námsárangur hafi ekki borist innan þeirra tímamarka sem sett voru í úthlutunarreglum sjóðsins fyrir námsárið 2014-2015. Um var að ræða synjun stjórnar LÍN á endurupptöku fyrri ákvörðunar í máli kæranda frá 17. febrúar 2016. LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 20. júlí 2016 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN bárust nefndinni með bréfi dagsettu 1. september 2016. Með tölvupósti sem sendur var kæranda þann 2. september 2016 var henni gefinn kostur á að gera athugasemdir við svör LÍN. Í svarpósti frá kæranda 25. september s.á. vísaði kærandi til þess að henni væri ókleift að skila inn fullnægjandi greinargerð þar sem fullnægjandi gögn hefðu ekki verið lögð fram af hálfu LÍN. Málskotsnefnd sendi bréf til stjórnar LÍN 27. október 2016 þar sem óskað var gagna um meðferð máls kæranda þegar fyrri ákvörðun stjórnar LÍN var tekin í máli hennar þann 17. febrúar 2016. Gögn og athugasemdir frá stjórn LÍN bárust málskotsnefnd 16. nóvember 2016 og voru sendar kæranda 18. nóvember s.á. Athugasemdir kæranda bárust 4. janúar 2017 og voru þær framsendar stjórn LÍN 5. janúar 2017. Með bréfi dagsettu 2. mars 2017 óskaði málskotsnefnd eftir upplýsingum um skil kæranda á gögnum til LÍN í janúar 2016. Stjórn LÍN sendi málskotsnefnd afrit af bréfi skólans dagsettu 21. janúar 2016 sem kærandi sendi LÍN í lok janúar 2016.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi stundaði nám grunnnám í Ástralíu námsárið 2014-2015. Kærandi sótti um námslán vegna námsins, bæði vegna framfærslu og skólagjalda. Í lánsáætlun kemur fram að kærandi hugðist stunda fullt nám, 40 skólaeiningar, sem samkvæmt upplýsingum kæranda samsvara 30 ECTS einingum á hvoru misseri um sig. Kærandi tafðist í námi á haustönn 2014 sökum veikinda barns hennar. Af þeim sökum lauk hún einungis tveimur fögum af fjórum á önninni og sótti um undanþágu frá kröfum um námsárangur. Vegna undanþágunnar bar kæranda að skila til LÍN fullnægjandi gögnum um veikindi sonar hennar og auk upplýsinga um námsárangur sinn á haustönn 2014 fyrir 15. janúar 2016. Sá frestur var síðan framlengdur til 22. janúar 2016. Að mati LÍN skorti upplýsingar um vægi þeirra námsgreina sem kærandi hafði lokið á haustönn 2014. Eigi að síður féllst LÍN á að veita kæranda undanþágu vegna haustannar "vegna sérstakra aðstæðna" í máli hennar. Þar sem kærandi hafði ekki skilað gögnum um námsárangur á vorönn 2015 synjaði LÍN umsókn kæranda um námslán vegna vorannar 2015. Kærandi bar synjun námslánsins undir stjórn LÍN sem hafnaði beiðni kæranda þann 17. febrúar 2016. Þann 4. mars 2016 fór kærandi þess á leit við stjórn LÍN að ákvörðunin yrði endurskoðuð þar sem fullnægjandi gögn hefðu alltaf legið fyrir. Vísaði hún til þess að með láni til hennar á sumarönn 2014 væri komið fordæmi fyrir því að veita lán er samsvaraði 20 ECTS einingum vegna tveggja námsgreina. Í tölvupósti þann 7. mars 2016 vísaði kærandi til lánsáætlana annars vegar frá 27. júlí 2014 og hins vegar frá 30. október 2014 er sjóðurinn hafði gefið út vegna umsókna hennar um lán á vorönn 2014 og haustönn 2014. Fram kom í erindi kæranda að í þeim fælist fordæmi fyrir því að veitt væru lán bæði vegna tveggja og vegna fjögurra námsgreina. Stjórn LÍN tók mál kæranda aftur fyrir þann 11. apríl 2016 og synjaði beiðni hennar um endurupptöku. Vísaði stjórnin til þess að engin gögn eða upplýsingar hefðu borist í málinu er bentu til þess að fyrri ákvörðun stjórnar hafi byggt á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum. 

Sjónarmið kæranda. 

Kærandi vísar til þess í kæru sinni að hún hafi þurft að fækka fyrirhuguðum áföngum í námi sínu vegna veikinda sonar síns. Í athugasemdum kæranda segir að við upphaf námsins hafi LÍN samþykkt uppbyggingu þess sem hafi verið fjögur fög á önn, tvær annir á ári, þrjú ár til að ljúka námi og 240 einingar. Kærandi kveðst hafa lokið 2 fögum á sumarönn 2014 og hafa fengið námslán er samsvaraði 15 ECTS einingum vegna þess. LÍN hafi ekki óskað eftir útskýringum á vægi hvers fags. Kærandi upplýsir að námið hafi áður verið samþykkt af LÍN vegna náms annars nemanda við skólann og því hafi ekki þurft að senda frekari gögn vegna viðurkenningar námsins. Kærandi kveðst hafa sent inn alla þá pappíra sem LÍN hafi óskað eftir. Hún bendir á að ef þessi gögn teljist svona mikilvæg hefði LÍN átt að fara fram á skil þeirra í upphafi en ekki eftir að námsmaður hefur hafið nám erlendis og sé langt kominn í námi sínu. Kærandi bendir einnig á að sá íslenski nemandi sem hafi stundað námið á undan henni hefði ekki þurft að skila slíkri skilgreiningu á vægi faga. Hafi námsárangur hans verið gefinn upp í ástralska einingakerfinu en ekki því evrópska. Kærandi kveður mistök starfsmanna LÍN hafa bitnað á sér og LÍN skorist nú undan samningi þeirra sökum óhæfis eigin starfsmanns. Kærandi bendir á að þegar komið hafi að því að bera málið undir stjórn LÍN hafi hún ítrekað óskað eftir leiðbeiningum en án árangurs. Af þeim sökum hafi hún ekki haft vitneskju um hvaða gögnum ætti að skila. Þá hafi hún gert ráð fyrir því að öll gögn um samskipti hennar við LÍN yrðu lögð fyrir stjórn LÍN en svo hafi þó ekki verið. Kærandi hafi einnig fengið mjög skamman frest til að senda greinargerð og gögn fyrir fund stjórnar LÍN. Einnig bendir hún á að öll tilskilin gögn hafi legið fyrir á tilskildum tíma og að þau viðbótargögn sem LÍN hafi óskað eftir hafi hún ekki getað sent. Hún hafi lokið öllum önnum í skólanum en síðan hafi verið sett skilyrði sem hún hafi ekki getað uppfyllt. 

Sjónarmið stjórnar LÍN. 

Í athugasemdum stjórnar LÍN frá 1. september og 16. nóvember 2016 segir að kærandi hafi óskað eftir undanþágu frá námsárangri haustannar 2014 vegna veikinda barns en ekki skilað fullnægjandi gögnum um hlutfall lokinna eininga og veikindi barnsins. Að mati LÍN virðist misskilnings hafa gætt um vottorð vegna veikindanna og hafi kærandi verið látin njóta vafans. Hún hafi síðan í janúar 2016 fengið greitt námslán vegna haustannar 2014 þrátt fyrir að námsárinu hafi verið lokað. Hafi þetta verið gert á þeim grundvelli að hún hafi verið í samskiptum við sjóðinn frá því áður en frestur til að skila gögnum rann út. Stjórn LÍN hafi hins vegar synjað frekari lánveitingu til hennar vegna umsóknar hennar um lán vegna námsársins 2014-2015 þar sem gögn um námsárangur vormisseris höfðu ekki borist auk þess sem búið var að loka námsárinu. Kærandi hafi síðan óskað endurupptöku á þeim grundvelli að gögn sem sjóðurinn hafi krafist um námsárangur (vægi þeirra áfanga sem hún tók á haustmisseri 2014) hafi í reynd legið fyrir í janúar 2015 og því hafi hún átt rétt á fyrirframgreiddum skólagjöldum vegna vorannar 2015. Með beiðni kæranda um endurupptöku hafi fylgt afrit af lánsáætlun frá skólaárinu 2013-2014 ásamt nánari útskýringum kæranda. Kærandi hafi síðan sent frekari útskýringar. LÍN bendir á að helstu rök kæranda hafi verið að alltaf hafi legið fyrir gögn um vægi hvers áfanga í námi hennar. Einnig að hún hafi áður fengið greitt námslán á grundvelli þess, þ.e. á sumarmisseri 2014. Stjórn LÍN bendir á að af þeim gögnum sem hafi legið fyrir í málinu við fyrri ákvörðun stjórnar hafi ekki verið ljóst hvernig vægi áfanga þeirra er kærandi lauk á sumarmisseri 2014 var fundið út. Þó að samþykkt hafi verið að veita kæranda lán vegna sumarmisseris 2014 þá geti það þó ekki skapað kæranda neinn rétt umfram aðra námsmenn til að skila ekki staðfestum gögnum til sjóðsins um vægi þeirra áfanga sem hún stundaði enda hafi kærandi ítrekað verið upplýst um hvaða upplýsingar vantaði. Fyrir liggi að kærandi skilaði inn upplýsingum um vægi áfanga á vormisseri 2015 en upplýsingar hafi skort um vægi áfanga á haustmisseri 2014. Gögn um þá áfanga hafi ekki borist sjóðnum fyrr en í lok janúar 2016. Í síðari athugasemdum stjórnar LÍN í málinu dagsettum 16. nóvember 2016 segir ennfremur að alltaf hafi legið fyrir í málinu staðfesting skólans á að fullt nám á misseri væri fjórir áfangar og 30 ECTS einingar. Hins vegar hafi ekki legið fyrir upplýsingar um hversu margar einingar eða hlutfall af fullu námi þeir áfangar sem kæranda lauk á haustönn 2014 voru eða hversu margar einingar kærandi þurfti til að fá undanþágu frá til þess að ná lágmarksárangri á misserinu til að eiga rétt á láni. Kærandi hafi áður fengið lán vegna tveggja námsáfanga á sumarmisseri 2014 án þess að fyrir hafi legið staðfesting á vægi þeirra. Telur LÍN líklegt að um mistök hafi verið að ræða að ekki hafi verið kallað eftir slíkri staðfestingu. Einnig tekur LÍN fram að þegar nemandi lýkur fullu námi sé ekki þörf á að afla gagna um vægi hvers áfanga um sig. Slíkt sé aðeins nauðsynlegt þegar fullu námi samkvæmt skipulagi hvers skóla sé ekki lokið á misserinu. Stjórn LÍN vísar til þess að í máli kæranda hafi bæði vantað upplýsingar um hversu mörgum einingum kærandi hafði lokið á misserinu, þ.e. hlutfall af fullu námi, og staðfest vottorð um veikindi barns hennar og áhrif þeirra á námsástundun. Kæranda hafi ítrekað verið leiðbeint um hvaða gögn henni bæri að leggja fram, m.a. með tölvupóstum 23. febrúar, 2. mars, 10. apríl, 29. maí, 2. júní, 9. júní, 18. júní og 24. september 2015. Fullnægjandi gögn um hlutfall námsárangurs á haustmisseri 2014 hafi síðan eins og áður greinir ekki borist fyrr en í lok janúar 2016. Fram kemur í athugasemdum stjórnar LÍN að misskilnings virðist hafa gætt milli kæranda og starfsmanns LÍN vegna nauðsynlegra gagna um veikindi sonar hennar. Kærandi hafi verið látin njóta vafans í þeim málum og fallist hafi verið á að þau gögn og upplýsingar er fyrir hafi legið vegna veikinda sonar hennar væru talin fullnægjandi þó þau uppfylltu ekki almenn skilyrði sjóðsins um gögn vegna umsóknar um undanþágu vegna veikinda. Stjórn LÍN bendir á að í ákvörðun stjórnar frá 17. febrúar 2016 komi fram að samkvæmt 6. mgr. greinar 4.8 í úthlutunarreglum sjóðsins þurfi námsmaður að skila lánshæfum árangri, sbr. grein 2.2 til að eiga rétt á skólagjaldaláni. Samkvæmt grein 4.8 sé heimilt að greiða út lán vegna skólagjald fyrir eitt misseri við upphaf námstímabils til annarra en fyrsta árs nema, fyrir annað misseri að loknum 22 ECTS einingum og fyrir þriðja misseri að loknum 44 ECTS einingum. Til að eiga rétt á fyrirframgreiddu láni vegna skólagjalda vormisseris þurfi námsmaður að hafa lokið 22 ECTS einingum á haustmisseri. Vísar stjórn LÍN til þess að í febrúar 2016 hafi ekki lengur verið fyrir hendi heimild til að afgreiða fyrirframgreitt skólagjaldalán enda vormisserið 2015 löngu liðið. Þar sem gögn um námsárangur á vormisseri 2015 höfðu ekki borist hafi ekki heldur verið hægt að afgreiða skólagjaldalán á grundvelli heimildar í 6. mgr. greinar 4.8 í úthlutunarreglum sjóðsins. Stjórn LÍN vísar til þess að með erindi kæranda um endurupptöku hafi ekki fylgt neinar nýjar upplýsingar eða gögn er bentu til þess að fyrri ákvörðun stjórnar hefði byggt á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum. Því hafi endurupptöku verið synjað. Stjórn LÍN tekur fram að kæranda hafi verið ítrekað verið leiðbeint um hvaða gögn og upplýsingar þyrfti í málinu. Hún hafi þó ekki sinnt þeim leiðbeiningum. Kærandi hafi haft nægan tíma til að skila umbeðnum gögnum og það hafi ekki verið fyrr en á haustmánuðum 2015 að skólinn hafi hætt að veita henni upplýsingar. Hafi staða kæranda gagnvart skólanum því ekki haft áhrif á niðurstöðu málsins. Þá hafi starfsmaður LÍN óskað eftir upplýsingum frá kæranda til að geta hlutast til í málinu gagnvart skólanum en kærandi hafi ekki veitt starfsmanninum neinar upplýsingar. Þá liggi jafnframt fyrir að LÍN hafi tekið tillit til sérstakra aðstæðna kæranda við veitingu undanþágu frá námsárangri á haustmisseri 2014. Stjórn LÍN tekur fram að niðurstaða í máli kæranda hafi verið í samræmi við lög og reglur og einnig í samræmi við sambærilegar ákvarðanir málskotsnefndar. Fer stjórn LÍN þess á leit að málskotsnefnd staðfesti ákvörðun stjórnar í máli kæranda.

 

Niðurstaða

 

Kærandi stundaði grunnnám í Ástralíu námsárið 2014-2015. Eins og áður greinir synjaði LÍN kæranda upphaflega um námslán vegna haustannar 2014 þar sem sjóðurinn taldi að fullnægjandi gögn hefði skort um vægi áfanga sem kærandi lauk á önninni og um veikindi barns kæranda. Í janúar 2016 féllst LÍN síðan á að veita kæranda 22 eininga námslán vegna haustannar 2014 þrátt fyrir að kærandi hefði ekki að mati sjóðsins afhent fyrir tilskilinn frest fullnægjandi gögn um veikindi sonar síns eða um námsárangur haustannar 2014. Þar sem misserið var löngu liðið taldi sjóðurinn ekki heimilt samkvæmt reglum sjóðsins að veita kæranda fyrirframgreidd lán vegna skólagjalda vorannar 2015. Þar sem upplýsingar um námsárangur vorannar 2015 höfðu ekki borist taldi LÍN að kærandi ætti ekki rétt á námsláni vegna skólagjalda á vorönn 2015 á grundvelli 6. mgr. greinar 4.8 í úthlutunarreglum LÍN. Um skilyrði þess að námslán verði veitt er fjallað í 6. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna en þar kemur fram að námslán "skal aldrei veitt fyrr en námsmaður hefur skilað vottorði um tilskilda skólasókn og námsárangur." Um skilyrði þess að námslán verði greitt út er fjallað um í grein 5.2.1 í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2014-2015. Þar koma m.a. fram ákvæði um rétt námsmanna til að fá skólagjaldalán, annað hvort fyrirfram greitt eða eftir á og gilda um þann rétt mismunandi skilyrði. Í 2. - 6. mgr. segir eftirfarandi: 

"Útborgun framfærslu-, bóka- og ferðalána vegna haustannar og fyrirframgreiðsla skólagjalda vor-annar hefst í byrjun janúar 2015 til þeirra sem uppfylla skilyrði sjóðsins um lágmarksnámsframvindu á önninni, sbr. gr. 2.2. Með sömu framangreindum skilyrðum hefst útborgun framfærslu- og bóka-lána vegna vorannar og fyrirframgreiðsla skólagjalda sumarannar í byrjun maí 2015. Útborgun fram-færslu- og bókalána vegna sumarannar hefst í byrjun ágúst 2015 til þeirra sem uppfylla framangreind skilyrði. Skilyrði er að námsmaður hafi lagt fram gögn um námsárangur sinn, tekjuáætlun eða skattframtal og aðrar þær upplýsingar sem máli skipta. Lán greiðast inn á reikning í viðskiptabanka eða sparisjóði á Íslandi sem skal vera á nafni námsmanns. Heimilt er að greiða út lán á öðrum tímum enda liggi fyrir að námsmaður hafi uppfyllt kröfur sjóðsins um afköst og árangur í námi. Lánveitingum vegna námsársins skal þó lokið fyrir 15. janúar 2016. Eftir þann tíma er hvorki hægt að afgreiða lán né gera athugasemdir við afgreiðslu láns á námsárinu. Skilyrði þess að námsmaður fái lán vegna skólagjalda sbr. gr. 4.8 greitt út fyrirfram er að hann hafi áður lokið lánshæfum námsárangri. Skili námsmaður ekki tilskildum lágmarksárangri eftir viðkomandi skólaár eru fyrirframgreidd lán vegna skólagjalda endurkræf skv. reglum um ofgreidd lán.

Samkvæmt framansögðu skyldi lánveitingum vegna námsársins 2014-2015 vera lokið fyrir 15. janúar 2016. Einnig kemur fram í ofangreindum ákvæðum að til þess að eiga rétt á fyrirframgreiddum skólagjöldum skuli námsmaður sýna fram á lágmarksframvindu skv. grein 2.2 í úthlutunarreglunum sem kveður á um að til að eiga rétt á námsláni þurfi "námsmaður að ljúka að lágmarki 22 ECTS-einingum eða ígildi þeirra á hverju misseri eða samsvarandi hlutfalli á önn í fjórðungaskólum í einum námsferli." Hafi tilteknar aðstæður verið fyrir hendi, sbr. grein 2.4 í úthlutunarreglunum, getur námsmaður átt rétt á undanþágu frá kröfum um námsframvindu, sbr. greinar 2.4.1-2.4.6 í úthlutunarreglunum. Á þetta m.a. við þegar um hefur verið að ræða veikindi námsmanns eða fjölskyldumeðlims hans. Gert er ráð fyrir þrenns konar undanþágum vegna veikinda sbr. 2. mgr. greinar 2.4.3 í úthlutunarreglunum. Undanþágan á einnig við um veikindi maka, barns eða foreldra námsmanns. 

(i) ef námsmaður eða ættingi veikist á námstíma er heimilt að bæta við allt að 6 ECTS einingum í misseraskólum þannig að lánsréttur miðist við lágmarkseiningafjölda (22 ECTS), sbr. grein 2.4. Ljóst var að kærandi átti ekki rétt samkvæmt þessu ákvæði þar sem ekki hefði nægt að bæta við 6 viðbótareiningum til að hún næði lágmarkseiningafjöldanum sem er 22 ECTS. 

(ii) ef námsmaður veikist á síðari hluta annar eða í prófum er heimilt í misseraskólum að bæta allt að 22 ECTS einingum við loknar einingar þannig að lánsréttur miðist við lágmarkseiningafjölda skv. grein 2.4., þ.e. við 22 ECTS einingar. 

(iii) ef námsmaður þarf að hverfa frá námi er heimilt að veita lán í samræmi við ástundun. 

Samkvæmt ofangreindu þurfti kærandi í fyrsta lagi að leggja fram gögn um "loknar einingar", áður en LÍN gat tekið afstöðu til þess hve mörgum einingum þyrfti að bæta við til þess að kærandi uppfyllti ákvæði úthlutunarreglnanna um framvindu. Í öðru lagi þurfti kærandi að sýna fram á að hún uppfyllti skilyrði um undanþágu vegna veikinda sonar síns. Þegar um er að ræða slík alvarleg veikindi maka, barns eða foreldris sem raskað hafa verulega högum námsmannsins ber námsmanni samkvæmt ákvæðum úthlutunarreglna LÍN að framvísa læknisvottorði þar sem greinilega kemur fram "hvenær læknis var vitjað, að um veruleg veikindi hafi verið að ræða og hvenær umönnunar var þörf." Deilt er um í málinu hvort kærandi hafi sent LÍN fullnægjandi gögn um loknar einingar vegna náms síns á haustönn. Kærandi kveðst hafa sent "alla þá pappíra er LÍN óskaði eftir" og að tilskilin gögn hafi legið fyrir þegar í janúar 2015. Kærandi bendir einnig á að LÍN hefði átt að óska þessara gagna í upphafi náms hennar og að það hafi nægt að senda staðfestingu á loknum námsgreinum án þess að tilgreina vægi þeirra við afgreiðslu á sumarláni 2014 til hennar. Hafi þá verið gerð mistök eigi þau ekki að bitna á henni. Niðurstaða LÍN í máli kæranda byggir hins vegar á að tilskilin gögn um vægi áfanganna hafi ekki borist sjóðnum fyrr en í janúar 2016. 

Í gögnum málsins frá LÍN koma fram ítarlegar upplýsingar um samskipti LÍN og kæranda um afhendingu á gögnum um námsárangur kæranda á haustönn 2014. Þann 27. janúar 2015 sendi kærandi LÍN staðfestingu skólans dagsetta 10. janúar 2015 um að hún sé skráð í fullt nám og hafi lokið tveimur námsgreinum FA 206 og FA 102 á haustönn 2014 (trimaster 3 2014). Kærandi ítrekar í tölvupóstum 23. febrúar og 29. maí 2015 að hún hafi þegar sent umbeðnar upplýsingar. Þann 20. febrúar 2015 sendi LÍN kæranda tölvupóst þar sem fram kom að ekki væri hægt að greiða út námslán fyrir önnina nema fullnægjandi námsárangur hafi borist. 

- 23. febrúar 2015 – LÍN sendir kæranda tölvupóst þar sem fram kemur að sjóðurinn þurfi að fá "staðfestingu á því hversu mörgum einingum þú laukst á haustönninni." Í tölvupóstinum segir ennfremur að þar sem kærandi "hafi verið að fækka áföngum á önninni" geti verið að "þetta sé ekki lánshæfur árangur". Gerð sé krafa um a.m.k. 75% námsárangur og ef kærandi hafi verið að ljúka 4 áföngum á önn sem sé "ígildi 30 ECTS eininga" og ef áfangarnir séu allir jafnmargar einingar þá séu 2 áfangar einungis 50% árangur sem sé ekki lánshæfur árangur. - Í tölvupóstum LÍN til kæranda þann 10. apríl, 29. maí, 2. júní og 9. júní 2015 ítrekar starfsmaður LÍN enn við kæranda að senda staðfestingu skólans á loknum einingum/fjölda eininga haustannar 2014. 

- Í tölvupósti 18. júní 2015 útskýrir starfsmaður LÍN nánar beiðni um gögn á m.a. eftirfarandi hátt: "Ef einingafjöldinn liggur ekki fyrir þá biðja skólann að staðfesta hversu mörgum prósentum (%) af fullu námi þú laukst á þeirri önn.

- 10. júní 2015 – Kærandi sendir LÍN tölvupóst þar sem m.a. eftirfarandi kom fram: "Ég sendi póst á skólann minn og bað þá um að útvega skjalið í ECTS eininga kerfinu og einnig um að fylla aftur út tution waiver blaðið svo að „paid by student“ sé rétt út fyllt.

- 22. september 2015 – Kærandi sendir LÍN tölvupóst þar sem segir m.a. eftirfarandi: "Ég hef skilað öllum gögnum fyrir námsárangri haustannar 2014 (Trimester 3 2014 hér í AU). Ég skilaði námsárangri, sótti um undanþágu vegna veikinda barns og skilaði inn öllum gögnum sem mér var sagt að hefðu verið samþykkt og lokun skuldabréf var því dregin til baka. Því næst var ég beðin um að skila inn hversu margar ECTS einingar ég hefði náð á því misseri. Það voru 2 subjects sem ég lauk af 4, ss 15ECTS. 4 subjects samsvara fullu námi og áframsendi ég ykkur staðfestingu frá skólanum sem LÍN tók gilt í upphafi náms árið 2013 og hefur alltaf verið tekið gilt síðan. 4 subjects samsvara 30 ECTS einingum [...]Ég er búin að skila inn formi til ykkar sem [...] staðfestir að fullt nám per önn sé 4 subjects=30ECTS einingar. Undirritað og stimplað af skólanum. [...] Ég er ítrekað búin að vera í samskiptum við LÍN [...] en það virðist alltaf vanta eitthvað nýtt uppá eða gögnin ekki tekin gild. Samt hef ég ítrekað lagt fram gögn sem voru tekin gild áður en námið hófst en í dag virðast þau ekki duga.

- 25. september 2015 – LÍN svarar kæranda á eftirfarandi hátt: "Málið er að það vantar ennþá staðfestingu frá skólanum/kennara/leiðbeinanda um að þessi tvö fög sem þú kláraðir á haustönn 2014 séu ígildi 15ECTS. Það er ekki nóg að þú segir svo vera í tölvupósti og sendir sjóðnum pdf skjal sem við getum ekki treyst því það kemur ekki frá skólanum. Þannig að það sem þú þarft að koma með er skjal, stimplað og undirritað, frá kennara eða starfsmanni skólans sem staðfestir að þessi fög sem þu laukst séu ígildi 15 ECTS.

- 28. september 2015 sendir kærandi LÍN tölvupóst þar sem segir: "Eins og ég hef áður sagt við LÍN þá getur skólinn ekki gefið út ECTS einingar fyrir nokkuð annað en því sem nemur fullloknu námi. Því eyðublaði sem LÍN óskaði eftir var skilað inn til LÍN í upphafi árs 2013. Útfylltu undirrituðu og stimpluðu af skólanum. Það eyðublað útskýrir hversu mikið fullt nám var í ECTS og hversu mikið fullt nám per önn er í ECTS samanber Ástralska credit system. LÍN óskar skyndilega eftir útlistun á því hversu margar ECTS einingar 2 subjects eru. Skólinn minn býður ekki upp á að færa hvert einkunnablað fyrir sig yfir í ECTS einingar því að þeir segjast ekki styðjast við annað en Ástraskt credit form og telja sig hafa veitt allar upplýsingar í byrjun náms.

- 29. september 2015 sendir LÍN kæranda tölvupóst þar sem beiðni um staðfestingu námsárangurs er ítrekuð og að gögnin megi "vera í formi bréfs frá leiðbeinanda, undirritað og stimplað.

- 14. október 2015 - Kærandi sendir tölvupóst til LÍN þar sem hún innir eftir því hvernig hægt sé að leysa málið. Kærandi ítrekar að hún hafi þegar sent inn einkunnir fyrir haustönn 2014. Í svarpósti LÍN 15. október óskar starfsmaður LÍN eftir því að kærandi veiti honum upplýsingar um tölvupóstfang hjá deildastjóra í skólanum og upplýsir að hann muni hugsanlega verða að senda sjálfur tölvupóst til deildarstjórans. - 1. nóvember 2015 – Kærandi sendir tölvupóst til LÍN þar sem hún segist skilja hvað sjóðurinn sé að biðja um en að skólinn neiti „að gefa út neitt í sambandi við ECTS einingar“. - 1. desember 2015 – LÍN sendir tölvupóst til kæranda þar sem segir að sjóðurinn sé "tilbúinn að skoða öll skjöl sem gætu komið að gagni.

- 7. janúar 2016 – Kærandi sendir tölvupóst til LÍN þar sem segir m.a. eftirfarandi: "Þann 1/17/15 sendi ég inn til LÍN námsárangur haustannar 2014, og hef einnig gert það í nokkur skipti eftir það.

- 18. janúar 2016 sendir LÍN tölvupóst þar sem segir m.a.: "Þótt það sé staðfest að 4 fög séu fullt nám þá er það ekki þar af leiðandi staðfesting á að öll fög hafi sama vægi, því miður.

- 19. janúar 2016 sendi kærandi LÍN tölvupóst þar sem segir: "Hvað vill sjóðurin að ég geri í stöðunni ef að ekki liggur fyrir vægi hvers fags frá skólanum sem og þeir gefa ekki út ECTS einingar. Hvernig sný ég mér í því?

Þann 19. janúar 2016 veitti LÍN kæranda síðan framlengdan frest til að skila umbeðnum gögnum fyrir 22. janúar s.á. Þann 20. janúar 2016 sendir kærandi LÍN skjal dagsett 18. janúar um skráningu sína hjá skólanum þar sem fram kemur að hún hafi verið skráð á 40 eininga nám á vorönn 2015 og það sé ígildi 30 ECTS eininga. Í lok janúar sendir kærandi síðan staðfestar upplýsingar frá skólanum, dagsettar 21. janúar 2016, þar sem fram kemur að námið samanstandi af 24 námsgreinum sem hver um sig sé 10 skólaeiningar. Þann 28. janúar 2016 upplýsir LÍN kæranda um að ákveðið hafi verið að veita henni undanþágu vegna haustannar 2014 og greiða út lán er samsvari 22 ECTS einingum. Fyrir lá að kæranda hafði ekki sent umbeðnar upplýsingar. Kærandi var jafnframt upplýst um að hún fengi ekki afgreitt lán vegna vorannar 2015 þar sem námsárangur hefði ekki borist fyrir tilskilinn frest sem var til 15. janúar 2016. Af framangreinum samskiptum er ljóst að staðfest gögn dagsett 21. janúar 2016 frá skóla, er sýndu með fullnægjandi hætti námsárangur kæranda vegna haustannar 2014, bárust ekki til LÍN fyrr en í lok janúar 2016. Er því ekki hægt að fallast á þær röksemdir kæranda að fullnægjandi gögn um námsárangur hennar hafi legið fyrir þegar í janúar 2015. Veiting námsláns er bundin því skilyrði að námsmaður skili vottorði um tilskilda skólasókn og námsárangur, sbr. 6. gr. laga um LÍN. Sjóðnum ber því lögum samkvæmt að kalla eftir gögnum um námsárangur er stafa frá viðkomandi menntastofnun og getur hann ekki byggt á fullyrðingum námsmanns um slíkt. Þau gögn sem kærandi hafði lagt fram báru ekki með sér vægi þeirra námsgreina sem hún hafði lokið og báru þ.a.l. ekki vott um þann árangur er kærandi hafði lokið. Viðurkenning LÍN á lánshæfi náms kemur ekki í stað staðfestingar menntastofnunar á námsárangri nemanda. Í tilviki kæranda var einnig nauðsynlegt að leggja fram upplýsingar um fjölda eininga til að meta hvort hún átti rétt á undanþágu á grundvelli 2. mgr. greinar 2.4.3 í úthlutunarreglum LÍN. Þá liggur ekki fyrir eins og kærandi hefur borið að LÍN hafi krafist skila á gögnum eingöngu í ECTS einingum. Ekki er fallist á að LÍN hafi ekki veitt kæranda fullnægjandi leiðbeiningar um gagnaskil. Leiðbeiningar LÍN voru skilmerkilegar og ítrekað útskýrt fyrir kæranda að ekki nægði staðfesting á loknum áföngum heldur þyrfti fjöldi eininga eða a.m.k. hlutfall af fullu námi að koma fram. Kærandi sinnti ekki þessum leiðbeiningum. Þó svo að fyrir mistök hafi verið afgreitt lán til kæranda vegna sumarannar 2015 getur slíkt ekki verið fordæmi enda eins og áður greinir um lagaskilyrði að ræða. Þar sem ekki lágu fyrir fullnægjandi gögn um námsárangur kæranda vegna haustannar 2014 er báru vott um að hún hefði átt rétt á a.m.k. 22 ECTS eininga láni átti kærandi ekki rétt á fyrirframgreiðslu skólagjaldaláns vegna vorannar 2015. Þá liggur fyrir að kærandi gat ekki átt rétt á skólagjaldaláni þar sem staðfesting skóla á fullnægjandi námsárangri hennar vegna vorannar 2015 hafði ekki borist LÍN. Samkvæmt 4. mgr. greinar 5.2.1 í úthlutunarreglunum skal lánveitingum vegna námsársins lokið fyrir 15. janúar 2016. Eftir þann tíma er hvorki hægt að afgreiða lán né gera athugasemdir við afgreiðslu láns á námsárinu. Fallist er á þau rök stjórnar LÍN að ekki hafi verið heimilt að veita kæranda fyrirframgreitt lán vegna skólagjalda þar sem misserið var löngu liðið. Þá kemur fram í reglum LÍN að skilyrði um vottun skóla á námsárangri gildir fyrir bæði fyrirframgreidd og eftirágreidd skólagjaldalán. Hafi skólagjaldalán verið fyrirframgreitt er námsmanni skylt að endurgreiða það til LÍN ef staðfestar upplýsingar um námsárangur berast ekki til LÍN, sbr. 6. mgr. greinar 5.2.1 í úthlutunarreglum LÍN. Ekki er fallist á það með kæranda að henni hafi verið ómögulegt að leggja fram tilskilin gögn frá skóla um námsárangur vorannar 2015 en fram er komið að skólinn synjaði henni um aðgang að þessum gögnum vegna skuldar hennar á skólagjöldum. Þegar veitt eru eftirágreidd lán vegna skólagjalda er það á ábyrgð námsmanns að leggja út fjármuni til greiðslu þeirra ef ekki er veittur greiðslufrestur af hálfu viðkomandi menntastofnunar. Stjórnar LÍN tók tvær ákvarðanir í máli kæranda, þann 17. febrúar 2016 og 11. apríl 2016, og er síðari ákvörðunin synjun á beiðni um endurupptöku þeirrar fyrri. Kærandi taldi sig eiga rétt á endurupptöku þar sem fullnægjandi gögn um námsárangur hennar á haustönn 2014 hefðu legið fyrir í janúar 2015. Eins og áður er fram komið sendi kærandi þó ekki fullnægjandi gögn um námsárangur sinn vegna haustannar 2014 fyrr en í lok janúar 2016. Þá hefur ekkert komið fram um að upphafleg ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda frá 17. febrúar 2016 hafi verið haldin ágöllum þannig að uppfyllt væru skilyrði endurupptöku samskvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga eða óskráðum grundvallarreglum stjórnsýsluréttar. Var stjórn LÍN því rétt að synja beiðni kæranda um endurupptöku.

 

Úrskurðarorð

 

Hin kærða ákvörðun stjórnar LÍN frá 11. apríl 2016 er staðfest.

Til baka