Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-18/2016 - Ofgreidd lán - endurgreiðsla á ofgreiddu námsláni

Úrskurður

Ár 2017, miðvikudaginn 19. apríl kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-18/2016.

Kæruefni

Með kæru sem barst málskotsnefnd þann 14. ágúst 2016 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 10. maí 2016 þar sem hafnað var beiðni kæranda um að ofgreitt námslán er hún hafi fengið 28. janúar 2015 yrði innheimt með sama hætti og önnur námslán hennar. Engin greinargerð eða gögn fylgdu kærunni og óskaði kærandi eftir fresti til að skila greinargerð og afriti ákvörðunar. Með tölvupósti þann 15. ágúst 2016 veitti málskotsnefnd kæranda frest til 25. ágúst til að senda gögn vegna kærunnar. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 2. september 2016 og upplýst um að kærandi hafi fengið frest til 16. september til að senda greinargerð. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag þar sem málskotsnefnd veitti frest til 16. september 2016 til að skila gögnum vegna kærunnar. Greinargerð kæranda vegna málsins barst málskotsnefnd 25. nóvember 2016 og var hún send stjórn LÍN þann sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 12. desember 2016 og var afrit þess sent kæranda og henni jafnframt gefinn frestur til að koma að athugasemdum sínum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda. Kærandi sendi tölvupóst 1. mars 2017 og óskaði eftir því að veita munnlegar upplýsingar. Með tölvupósti 2. mars s.á. var kæranda tjáð að málsmeðferð væri skrifleg og hún ætti þess enn kost að koma að skriflegum upplýsingum vegna málsins. Engar frekari upplýsingar bárust frá kæranda.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi sótti um námslán vegna skólaársins 2014-2015 þann 24. júlí 2014. Skráði kærandi að hún byggi í foreldrahúsnæði og kom sú skráning fram í lánsáætlun LÍN nr. 1 frá 31. júlí 2014 sem er á svæði kæranda á heimasíðu LÍN. Þar kom einnig fram að gert var ráð fyrir að kærandi fengi framfærslulán báðar annirnar að fjárhæð 336.285 krónur fyrir hvora önn. Kærandi breytti skráningu sinni hjá LÍN 14. janúar 2015 í leiguhúsnæði. Kom skráningin fram á lánsáætlun nr. 5 þann sama dag ásamt því að áætlað framfærslulán kæranda myndi hækka í 630.534 krónur hvora önn. Kærandi breytti skráningu sinni aftur viku síðar þ.e. þann 21. janúar 2015 og kom nú fram í lánsáætlun nr. 6 þann sama dag að hún byggi í foreldrahúsnæði. Þar kom fram að áætlað framfærslulán kæranda væri 630.534 krónur fyrir hvora önn, þ.e. óbreytt frá fyrri lánsáætlun. Kærandi fékk einnig þann sama dag eftirfarandi staðfestingarpóst frá LÍN:

"LÍN hefur móttekið breytingar á umsókn þinni um námslán. Ef gerðar verða athugasemdir við breytingarnar lætur sjóðurinn þig vita. Þegar breytingin hefur verið fullskráð færðu senda lánsáætlun inn á „Mitt svæði“ hjá LÍN."

Námslán kæranda var síðan greitt út viku síðar eða þann 28. janúar 2015. Fékk kærandi greitt lán vegna haustannar 2014 miðað við að hún hafi verið í foreldrahúsnæði, þ.e. 630.534 krónur. Þann 16. mars 2015 fékk kærandi síðan tölvupóst frá LÍN þar sem sagði eftirfarandi:

"Búið er að skrá þig í leigulaust húsnæði á haustönn 2014. Þú hefur fengið afgreitt námslán miðað við eigið húsnæði a haustönn 2014 og þarft þú að greiða til baka það sem þú hefur fengið greitt umfram vegna húsnæðis á námstíma. Bréf verður sent heim til þín með nánari upplýsingum."

Kærandi svaraði LÍN 6. apríl 2015 um að hún teldi að sjóðurinn gæti ekki krafið hana um endurgreiðslu þessarar fjárhæðar. Hún hefði veitt LÍN allar upplýsingar til að sjóðurinn gæti reiknað réttilega út lánsrétt hennar. Þannig hafi hún haft réttmætar væntingar um að lánið væri réttilega útreiknað. Hún hafi lifað af þessu láni undanfarnar þrjár annir og peningurinn því eðlilega uppurinn. Þann 10. apríl 2015 sendi LÍN kæranda aftur bréf vegna málsins og ítrekaði að námsmanni bæri að greiða það sem hann fengi umfram til baka. Þá vísaði LÍN einnig til þess er kæmi fram í grein 4.2.1 í úthlutunarreglum sjóðsins um að námsmanni bæri að sanna eðlilegar leigugreiðslur með afriti af greiðslumiða til skattyfirvalda. Kærandi svaraði þann sama dag og upplýsti að hún hafi ekki verið skráð í leiguhúsnæði við útgreiðslu námslánsins og því hafi henni borið að fá greitt til samræmis við umsókn sína, þ.e. miðað við að hún hafi ekki verið í leiguhúsnæði. Þann 11. apríl 2015 sendi kærandi síðan tölvupóst þar sem hún vísaði til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 6889/2012 sem kærandi taldi styðja sjónarmið sín. Þann 27. nóvember 2015 myndaði LÍN endurgreiðslubréf og sendi kæranda. Kæranda var síðan send ítrekun 4. janúar 2016 og tilkynning um aukaafborgun 18. janúar 2016. Þann 2. febrúar 2016 féllst LÍN á að draga aukafborgun til baka og mynda nýtt endurgreiðslubréf. Jafnframt féllst LÍN á að endurgreiðslutími væri 20 mánuðir í stað 15 mánaða eins og venjan er. Endurgreiðslubréfið var síðan ítrekað 14. mars 2016 og aukafborgun tilkynnt þann 29. mars 2016. Þann 8. apríl 2016 féllst LÍN síðan á að draga aukafborgunina til baka og 15. apríl fékk kærandi frest til 22. apríl til að skila bréfinu inn. Þann 20. apríl 2016 mótmælti kærandi kröfu sjóðsins um ábyrgðarmenn og vexti. Þann 26. apríl 2016 sendi kærandi erindi til stjórnar LÍN þar sem hún fór þess á leit að fá að greiða ofgreiðslulánið á sama hátt og önnur lán. Til vara fór kærandi þess á leit að ofgreiðslulánið yrði endurgreitt með 20 jöfnum vaxtalausum afborgunum. Stjórn LÍN synjaði erindi kæranda með ákvörðun sinni þann 10. maí 2016.

Sjónarmið kæranda.

Kærandi lýsir því að LÍN hafi fyrir mistök greitt henni of hátt lán vorið 2015. Í framhaldi hafi sjóðurinn sett henni afarkosti. Annað hvort að greiða það sem umfram var í einu lagi fyrir tilskilinn dag eða að undirrita skuldabréf með 7% ársvöxtum. Telur kærandi þessar kröfur sjóðsins hvorki standast lög né almennar reglur stjórnsýsluréttarins. Í lögum nr. 21/1992 um Lánsjóð íslenskra námsmanna sé hvergi að finna slíka heimild. Í reglum sjóðsins sé hins vegar að finna ákvæði um ofgreidd lán sem samkvæmt orðalagi sínu taki ætíð mið af þeirri aðstöðu þegar námsmaður hafi gefið rangar upplýsingar í umsókn sinni eða sé af öðrum ástæðum ekki í góðri trú. Kærandi kveðst hafa veitt réttar upplýsingar og hafi því haft réttmætar væntingar um að lán yrði reiknað í samræmi við það. Vísar kærandi til þess að í stjórnsýslufræðum sé óumdeilt að gera verði greinarmun á því þegar sá er ofgreiðslu þiggi sé í góðri trú annars vegar og vondri trú hins vegar. Fram kemur hjá kæranda að hún telji þá kosti sem sjóðurinn hafi gefið henni eigi við þegar námsmaður hefur vísvitandi greint ranglega frá högum sínum. Ekki sé heimilt að beita slíkum úrræðum þegar námsmaður hafi verið í góðri trú. Hafi sjóðurinn ekki haft heimildir til að beita þeim afarkostum sem kærandi hafi verið látin sæta. Vísar kærandi til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 6889/2012 um að sjónarmið um traust og gagnsæi í stjórnsýslu leiði til réttmætra væntinga manna, sem stjórnvald hafi skapað t.d. með athöfnum sínum, er njóti verndar að lögum. Kærandi kveðst með umsókn sinni hafa gengist undir ákveðna skilmála sem feli m.a. í sér 1% vexti. Af því leiði að hún geti ekki talist vera bundin af þeim nýju skilmálum sem LÍN hafi sett upp á sitt sjálfdæmi, án lagaheimildar. Hinir nýju skilmálar geri það að verkum að sjóðurinn verði skaðlaus af eigin mistökum en kærandi þurfi hins vegar að bera mikið tjón af þeim. Skilyrði um að útvegaður sé ábyrgðarmaður er úrelt að mati kæranda. Í ljósi umræðna um ábyrgðarmenn telur kærandi það fjárstæðukennt að ætlast til að einhver sé nauðbeygður til að útvega samskuldara að láni sínu. Þá hafi LÍN bent á að kærandi geti greitt upp skuldina sé hún ósátt við lánskjörin. Við blasi að slíkt sé afar ósanngjarnt. Kærandi bendir á að markmið vaxta sé að gera kröfuhafa skaðlausan af vanefndum skuldara. Að mati kæranda sé sú aðstaða ekki fyrir hendi í þessu máli heldur feli vextir í sér að skuldari beri ábyrgð á mistökum kröfuhafa. Líta beri til þess að LÍN sé stjórnvald sem sé sérfrótt um lánaviðskipti. Sé sjóðnum skylt að bera ábyrgð á eigin mistökum og sé hann bundinn af reglum stjórnsýsluréttarins. Hafi sjóðnum verið í lófa lagið að reikna lán kæranda út frá þeirri fjárhæð er hann taldi rétt samkvæmt þeim reglum er hann hafi unnið eftir. Það standist enga skoðun að sjóðnum sé frjálst að beita umsækjendur um venjuleg námslán þvingunum sem felist í að gangast undir skuldabréf. Kærandi vísar að lokum til þess að sjóðinn skorti lagaheimild til að krefja hana um greiðslu með umræddum hætti og gerir kröfu um að fallið verði frá þeirri kröfu og að um gjalddaga og vexti kröfunnar fari eins og um önnur lán er kærandi hafi fengið hjá sjóðnum.

Sjónarmið stjórnar LÍN.

Í athugasemdum stjórnar LÍN kemur fram að kærandi hafi við umsókn um námslán veitt þær upplýsingar að hún hafi búið í foreldrahúsnæði og fengið lánsáætlun í samræmi við það. Þann 14. janúar 2015 hafi hún breytt skráningu sinni í leiguhúsnæði og fengið lánsáætlun í samræmi við það. Þann 21. janúar s.á hafi hún enn á ný breytt skráningu sinni en lánsáætlun sem birtist á heimasíðu á vefsvæði LÍN hafi hins vegar ekki lækkað aftur til samræmis við fyrri skráningu eins og hún hefði átt að gera. Þegar lán hafi verið greidd út viku síðar hafi kærandi fengið of hátt námslán greitt út. Stjórn LÍN bendir á að kæranda hafi mátt vera ljóst að fjárhæð námsláns hafi ekki verið í samræmi við þær forsendur sem hún hafi nýlega gefið upp en þó hafi hún ekki gert neinar athugasemdir við fjárhæð lánsins. Ofgreiðslan hafi síðan komið í ljós hjá LÍN í byrjun mars og þá hafi kæranda verið kynnt skylda sín til að endurgreiða hið ofgreidda lán. Kærandi hafi verið ósátt við að þurfa að endurgreiða og vísaði til réttmætra væntinga. Kæranda hafi verið veittir ítrekaðir frestir og hafi lokafrestur liðið þann 29. apríl 2016 án þess að kærandi hafi skilað endurgreiðsluskuldabréfi til sjóðsins. Stjórn LÍN vísar til 14. gr. reglugerðar um LÍN þar sem fram komi að sjóðnum sé heimilt að innheimta ofgreiðslulán með venjulegum vöxtum banka og sparisjóða frá þeim degi er greiðsla hafi farið fram. Þá komi fram í grein 5.9 í úthlutunarreglum sjóðsins fyrir námsárið 2014-2015 að verði mistök við veitingu námslána beri að leiðrétta þau um leið og upp kemst. Námsmönnum sé eindregið bent á að kynna sér úthlutunarreglur sjóðsins til að stuðla að því að slík mistök verði leiðrétt sem fyrst. Námsmönnum skuli tilkynnt um slík mistök og síðan ákveðið í hverju tilviki fyrir sig hvernig endurgreiðslu skuli háttað. Vísar stjórn LÍN einnig til greinar 5.7 í úthlutunarreglunum þar sem fram komi að ekki skipti máli hvernig ofgreiðsla hafi myndast heldur beri námsmanni að endurgreiða lán sérstaklega sem hann hefur ekki átt rétt á. Hafi námsmaður val um að staðgreiða ofgreiðslulánið eða samþykkja sérstakt ofgreiðsluskuldabréf með einum ábyrgðarmanni þar sem lánstími sé að meginreglu ekki lengri en 15 mánuðir. Bendir LÍN á að við innheimtu á ofgreiðslulánum sé ekki vikið frá kröfu um ábyrgðarmann eða vexti. Þurfi LÍN að gæta að jafnræði við meðferð sambærilegra mála. Fyrir liggur að kærandi hafi verið í foreldrahúsnæði og hafi því ekki átt rétt á láni vegna húsnæðiskostnaðar, sbr. grein 4.2 í úthlutunarreglum LÍN. Ástæðu ofgreiðslunnar megi rekja til þess að kærandi hafi breytt umsókn sinni um námslán eftir að umsóknarfrestur um námslán var runninn út og tölvukerfi sjóðsins hafi ekki uppfært lánsáætlun með réttum hætti. Á þessum tíma hafi kærandi þó verið búin að fá tvær mismunandi lánsáætlanir. Aðra vegna framfærsluláns fyrir námsmann í foreldrahúsnæði og hina vegna framfærsluláns til námsmanns í eigin húsnæði. Hafi henni mátt vera ljóst að lánið sem hún fékk hafi verið mun hærra en námsmaður í foreldrahúsum ætti rétt á og því hafi hún ekki getað haft réttmætar væntingar til þess láns er hún hafi fengið. Stjórn LÍN vísar til þess að ákvörðun í máli kæranda hafi verið í samræmi við lög og reglur er um sjóðinn gilda og einnig í samræmi við ákvarðanir málskotsnefndar í sambærilegum málum. Fer stjórn LÍN þess á leit að málskotsnefnd staðfesti niðurstöðu í máli kæranda.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 21/1992 er það hlutverk Lánasjóðs íslenskra námsmanna að tryggja þeim sem falla undir lögin tækifæri til náms án tillits til efnahags. Fram kemur í 6. gr. laganna að námslán skuli ekki veitt fyrr en námsmaður hafi skilað vottorði um tilskilda skólasókn og námsárangur. Í 7. gr. segir að námslán skuli vera verðtryggð og með eigi hærri en 3% ársvöxtum. Það er hlutverk stjórnar sjóðsins, sbr. 1. mgr. 5. gr., að setja reglur um úthlutun námslána og samkvæmt 7. mgr. 6. gr. ákveður stjórn sjóðsins hvaða skilyrðum lántakendur og ábyrgðarmenn skuli fullnægja. Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga um LÍN skulu umsækjendur um námslán láta fylgja með umsókn sinni allar þær upplýsingar sem stjórn sjóðsins telur skipta máli við ákvörðun um veitingu láns. Í 2. gr. reglugerðar nr. 478/2011 um Lánasjóð íslenskra námsmanna segir að verði breytingar á högum umsækjanda "eftir að umsókn var lögð fram, ber honum þegar í stað að skýra sjóðnum frá þeim ef ætla má að þær hafi áhrif á ákvörðun um námslán." Í úthlutunarreglum LÍN fyrir námsárið 2014-2015 segir í grein 5.1.4 að námsmaður fái útfyllta lánsáætlun frá sjóðnum á grundvelli upplýsinga námsmannsins, m.a. um tekjur og fjölskylduhagi. Eftir yfirferð lánsáætlunar beri námsmanni að láta sjóðinn vita ef þær upplýsingar sem lagðar eru til grundvallar reynast rangar. Þá segir ennfremur að komi í ljós að lánsáætlun byggi á mistökum eða röngum forsendum miðað við gildandi úthlutunarreglur þess námsárs sem sótt er um lán fyrir áskilji LÍN sér rétt til að breyta lánsáætlun til samræmis við þær reglur. Að baki þessum reglum búa sjónarmið um heimildir stjórnvalda samkvæmt 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 til að afturkalla að eigin frumkvæði ákvörðun sem hefur verið tilkynnt aðila ef það er ekki til tjóns fyrir viðkomandi aðila, eða ákvörðunin er ógildanleg, en í úrskurðum málskotsnefndar hefur verið byggt á því að útgáfa lánsáætlunar feli í sér stjórnvaldsákvörðun. Við mat á því hvort ákvörðun er ógildanleg er m.a. litið til réttmætra væntinga aðila, hvort hann hafi verið í góðri trú og hvort hann sé byrjaður að nýta sér ákvörðunina. Kærandi hefur vísað til þess að hún hafi veitt réttar upplýsingar og hafi því haft réttmætar væntingar um að lán yrði reiknað í samræmi við það. Vísar kærandi til þess að í stjórnsýslufræðum sé óumdeilt að gera verði greinarmun á því hvort sá er ofgreiðslu þiggur sé í góðri eða vondri trú. Í grein 4.1 í úthlutunarreglum LÍN kemur fram að lán taki almennt mið af aðstæðum, fjölskyldustærð og búsetu eins og þær eru skráðar í þjóðskrá 1. september ár hvert. Ef aðstæður breytist eftir það er þó tekið tillit til þess við ákvörðun lána og leiðir það til 50% hækkunar eða lækkunar eftir því sem við á. Samkvæmt grein 4.2.1 er framfærsla námsmanns sem býr í leiguhúsnæði eða eigin húsnæði grunnframfærsla en tekjur koma til frádráttar. Í fylgiskjali I með úthlutunarreglunum kemur fram að grunnframfærsla á Íslandi m.v. barnlausan námsmann í leiguhúsnæði er 184.348 krónur á mánuði. Til að eiga rétt á framfærslu í leiguhúsnæði eða eigin húsnæði verður námsmaður að sanna eðlilegar leigugreiðslur með afriti af greiðslumiða til skattyfirvalda eða staðfesta íbúðareign með vottorði frá Þjóðskrá. Samkvæmt grein 4.2.2 er framfærsla námsmanns sem hvorki býr í leiguhúsnæði né eigin húsnæði 50% af grunnframfærslu en tekjur geta komið til frádráttar. Hér undir falla m.a. þeir er búa í foreldrahúsnæði, nema foreldrar séu efnalitlir. Samkvæmt þessu kemur það fram með skýrum hætti í úthlutunarreglum LÍN að mikill munur er á fjárhæð námsláns eftir búsetu námsmanns og að lán námsmanns í foreldrahúsnæði er helmingi lægra en þess sem býr í leiguhúsnæði. Í upphaflegri lánsáætlun frá 24. júlí 2014 sem byggði á upplýsingum kæranda kom fram að hún byggi í foreldrahúsnæði og var fjárhæð láns á haustönn 2014 í samræmi við það tilgreind 336.285 krónur. Þegar kærandi skráði inn þær breytingar þann 14. janúar 2015 að hún byggi í leiguhúsnæði á haustönn 2014 hækkaði fjárhæð láns um næstum helming í útgefinni lánsáætlun eða í 630.534 krónur. Þegar kærandi breytti enn á ný þann 21. janúar 2015 upplýsingum um búsetu í foreldrahúsnæði leiddi það ekki strax til viðeigandi breytinga á lánsfjárhæð. LÍN tilkynnti kæranda um rétta lánsfjárhæð í byrjun mars 2015 eða um 1,5 mánuðum eftir breytingar kæranda. Við mat á því hvort kærandi hafi mátt vera í góðri trú verður að líta til allra atvika og skýrleika þeirra ákvæða er gilda um úthlutun námslána. Að mati málskotsnefndar skiptir máli hér að úthlutunarreglur LÍN eru afar skýrar um þann mun sem er á framfærsluláni eftir því hvort námsmaður er í foreldrahúsnæði eða ekki. Kærandi hafði einnig breytt upplýsingum um búsetu og mátti þannig vera ljós þessi munur er kom í ljós er hún færði inn breytingarnar. Hér verður og að hafa í huga að kæranda mátti vera ljóst að markmiðið með því að færa inn réttar upplýsingar um búsetu væri einmitt að rétt fjárhæð námsláns yrði greidd út. Þá fékk kærandi tölvupóst frá LÍN þann 21. janúar 2015 þegar hún breytti upplýsingunum þar sem fram kom að LÍN hefði "móttekið breytingar á umsókn þinni um námslán. Ef gerðar verða athugasemdir við breytingarnar lætur sjóðurinn þig vita. Þegar breytingin hefur verið fullskráð færðu senda lánsáætlun inn á "Mitt svæði" hjá LÍN." Þegar fjárhæð láns sem LÍN greiddi kæranda viku síðar var miðuð við framfærslu í leiguhúsnæði hefði það því átt að vera kæranda tilefni til að hafa samband við LÍN og kanna rétt sinn. Þá er einnig til þess að líta að kærandi breytir upplýsingum um búsetu á haustönn í tvígang eftir að önnin var liðin og útborgun námslána átti að vera hafin samkvæmt reglum LÍN, en eins og áður greinir segir í reglugerð um LÍN að verði breytingar á högum námsmanns eftir að umsókn er lögð fram beri honum "þegar í stað að skýra sjóðnum frá þeim ef ætla má að þær hafi áhrif á ákvörðun um námslán." Þegar framangreind atvik eru virt verður ekki séð að kærandi hafi mátt vera í góðri trú um að hún hafi átt rétt á að fá greitt námslán að fjárhæð 630.534 krónur. Um var að ræða greiðslu umfram það sem reglur LÍN heimila. Samkvæmt þessu var um að ræða ógildanlega ákvörðun. Var LÍN því rétt að tilkynna kæranda um leiðréttingu á fjárhæð láns til hennar. Í máli þessu er deilt um hvort þau kjör sem standa kæranda til boða við uppgjör á ofgreiðsluláninu standist lög og reglur um LÍN. Kærandi telur að sjóðurinn beiti hana úrræði sem notað sé þegar námsmaður hefur vísvitandi greint ranglega frá högum sínum. Ekki sé heimilt að beita slíkum reglum þegar námsmaður hafi verið í góðri trú. Kærandi hefur einnig vísað til þess að sjóðinn skorti lagaheimild til að krefja hana um greiðslu með þeim hætti sem að framan er lýst og krefst þess að um gjalddaga og vexti kröfunnar fari eins og um önnur lán er kærandi hafi fengið hjá sjóðnum. Í 7. gr. reglugerðar um LÍN kemur fram að námsmenn sem fá lán úr sjóðnum undirriti skuldabréf til viðurkenningar á teknum lánum. Í 8. gr. reglugerðar um LÍN segir að námslán skuli bera auk verðtryggingar 1% ársvexti, sem leggjast á verðtryggðan höfuðstól. Í 14. gr. reglugerðarinnar segir að ef lánþegi fái ofgreitt lán samkvæmt reglum sjóðsins vegna rangra upplýsinga eða af öðrum ástæðum sé stjórn sjóðsins heimilt að innheimta ofgreidda upphæð með venjulegum vöxtum banka eða sparisjóðs frá þeim degi er greiðslan fór fram. Samkvæmt framangreindu hefur sjóðurinn víðtækar heimildir til að endurkrefja um ofgreidd námslán. Af úthlutunarreglunum er ljóst að ákvarðanir sjóðsins um námslán eru teknar með fyrirvara um að þær fjölmörgu forsendur sem kunna að liggja að baki veitingu lána muni að lokum standast. Þannig er gert ráð fyrir að námsmenn leggi fram eftir að námslán er veitt staðfestar upplýsingar m.a. um persónulega hagi, tekjur og námsárangur. Getur þannig komið til að sjóðurinn þurfi að endurkrefja um ofgreidd lán t.a.m. þegar rangar eða ófullnægjandi upplýsingar hafa verið veittar, þegar forsendur um námsárangur hafa brugðist eða persónulegir hagir breytast. Í úthlutunarreglum LÍN grein 5.7.1 er gert ráð fyrir að námsmaður geti valið um að staðgreiða slík ofgreidd lán eða samþykkja endurgreiðslubréf til 15 mánaða með einum ábyrgðarmanni og almennum bankavöxtum. Er hér ekki gerður greinarmunur á því hvaða ástæður hafi legið að baki ofgreiðslu. Rétt er að geta þess að sérstakar reglur gilda þegar veittar hafa verið vísvitandi villandi eða rangar upplýsingar og er þá öll námsaðstoð sem viðkomandi námsmaður hefur þegið endurkræf þegar í stað, sbr. grein 5.6 í úthlutunarreglum LÍN. Ofgreidd lán eru lán umfram það sem lög og reglur um LÍN heimila. Kveðið er á um kjör slíkra lána með skýrum hætti í grein 5.7.1 í úthlutunarreglum LÍN. Með vísan til þeirra ákvæða sem og jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar getur þiggjandi slíks láns ekki vænst þess að fá þau félagslegu kjör sem kveðið er á um í 8. gr. reglugerðar um LÍN enda verður að telja að slík kjör séu bundin við námslán sem veitt eru í samræmi við ákvæði laga nr. 21/1992. Verður samkvæmt framansögðu ekki fallist á þau rök kæranda að sjóðnum sé skylt að veita henni sömu kjör á ofgreiðsluláninu og almennt gilda um námslán sem námsmaður á rétt á samkvæmt lögum og reglum er um sjóðinn gilda. Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða málskotsnefndar að ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda hafi verið í samræmi við lög og reglur sem um sjóðinn gilda. Að þessu virtu er hin kærða ákvörðun stjórnar LÍN staðfest.

Úrskurðarorð

Ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda frá 10. maí 2016 er staðfest. 

Til baka