Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-21/2016 - Niðurfelling ábyrgðar - beiðni um niðurfellingu ábyrgðar

Úrskurður

Ár 2017, miðvikudaginn 26. apríl, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-21/2016:

Kæruefni

Með kæru sem barst málskotsnefnd 8. september 2016 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 23. júní 2016 þar sem hafnað var beiðni kæranda um að hún hefði ekki stöðu ábyrgðarmanns á námsláni A (hér eftir nefnd lántaki) nr. S-001. LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 8. september 2016 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 5. október 2016 og var afrit þess sent kæranda og henni jafnframt veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum. Kærandi sendi athugasemdir sínar með bréfi dagsettu 1. nóvember 2016 og voru þær framsendar stjórn LÍN þann sama dag. Málskotsnefnd óskaði þann 21. apríl 2017 eftir frekari gögnum frá LÍN sem áður höfðu verið senda kæranda með tölvupósti 15. febrúar 2016. Umrædd gögn bárust nefndinni 25. apríl sl.

Málsatvik og ágreiningsefni

Á árunum 1987-1989 gekkst B (hér eftir nefnd ábyrgðarmaður) í ábyrgð á sjö námslánum lántaka hjá LÍN. Um er að ræða svonefnd T-lán sem sameinuð hafa verið undir einu lánsnúmeri S-001 í kerfi LÍN. Samkvæmt skilmálum lánsins skal endurgreiðslum ljúka ekki síðar en 40 árum eftir að þær hefjast. Ábyrgðarmaðurinn lést 29. desember 2010 og var gengið frá dánarbúi hennar með einkaskiptum. LÍN sendi kæranda yfirlit yfir ábyrgðarskuldbindinguna með bréfi þann 14. desember 2015 þar sem fram kom að með einkaskiptunum hefði kærandi ásamt öðrum erfingjum hinnar látnu tekist á hendur ábyrgð á skuldbindingum búsins, sbr. 5. tl. 1. mgr. 28. gr. og 97. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Í bréfinu kom fram að núvirði ábyrgðarinnar væri 5.478.279 krónur. Lánið væri í skilum og ábyrgð kæranda því ekki orðin virk. Þann 14. apríl 2016 sendi kærandi erindi til LÍN þar sem hún lýsti því að engar upplýsingar hefðu legið fyrir í dánarbúinu um ábyrgðarskuldbindinguna og að LÍN hefði ekki sinnt lögbundinni skyldu um að senda ábyrgðamanni tilkynningu samkvæmt 7. gr. laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009. Þá vísaði kærandi til þess að lántaki hefði fengið undanþágur frá afborgun námslánsins frá árinu 2001 án þess að ábyrgðarmaður hefði verið upplýstur um undanþágurnar. Hafnaði kærandi því að hún hefði stöðu ábyrgðarmanns og fór þess á leit að LÍN staðfesti það. Kærandi bar mál sitt undir stjórn LÍN með bréfi dagsettu 7. júní 2015. Stjórn LÍN hafnaði beiðni kæranda með ákvörðun sinni þann 23. júní 2015 sem tilkynnt var kæranda með bréfi dagsettu 27. sama mánaðar.

Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að málskotsnefnd úrskurði að hún hafi ekki stöðu ábyrgðarmanns vegna skuldabréfs lántaka. Kærandi lýsir því að henni hafi borist bréf frá LÍN 14. desember 2015 þar sem hún hafi verið upplýst um ábyrgðarskuldbindingu sína á námsláni lántaka. Kærandi vísar til þess að aðstæður í málinu séu um margt sérstakar þar sem lántaki hafi fengið undanþágur frá afborgunum námslánins sl. fimmtán ár eða allt frá árinu 2001. Lántaki hafi sjálf sótt um þessar undanþágur og hafi ábyrgðarmaður skuldbindinganna aldrei verið upplýst um þær af hálfu LÍN. Þá hafi engar upplýsingar legið fyrir við skiptin á dánarbúinu um þessar ábyrgðarskuldbindingar. Í þessu samhengi þurfi að líta til d liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn þar sem segi að lánveitandi skuli senda ábyrgðarmanni tilkynningu skriflega svo fljótt sem kostur sé eftir hver áramót með upplýsingum um stöðu láns sem ábyrgð stendur fyrir og yfirlit yfir ábyrgðir. Kærandi hafi hins vegar ekki fengið upplýsingar um ábyrgðarskuldbindinguna fyrr en fjórum árum eftir að skipti á dánarbúinu hafi farið fram. Telur kærandi þessa vanrækslu á tilkynningaskyldu vera verulega af hálfu LÍN og að ábyrgðin sé því niður fallin, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009. Kærandi mótmælir þeim röksemdum LÍN að dráttur á tilkynningu til hennar geti ekki talist slíkur að hann víki til hliðar stjórnarskrárvörðum réttindum LÍN, sbr. og tilvísun LÍN til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 229/2015. Kærandi vísar til þess að málsatvik í því máli hafi verið með allt öðrum hætti en í máli hennar, auk þess sem fram komi að slík eignarréttindi geti fallið niður sýni ábyrgðarmaður fram á að lánveitandi hafi við beitingu réttinda sinna valdið honum meiri skaða en bættur verði með úrræðum 3. og 4. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009. Það sé fyrirséð að þessi dráttur muni valda kæranda miklum skaða verði eftirstöðvarnar gjaldfelldar gagnvart henni í framtíðinni. Hefði það haft mikla þýðingu fyrir kæranda að fá upplýsingar um ábyrgðina miklu fyrr, bæði til að gæta réttar síns þar sem lántaki hafi sótt um undanþágur frá afborgunum lánsins samfleytt frá árinu 2001 og einnig til að gera fjárhagslegar ráðstafanir vegna skuldbindingarinnar, ef komist yrði að þeirri niðurstöðu að hún teldist bindandi. Kærandi bendir á að eðli málsins samkvæmt hafi það einnig verulega þýðingu fyrir ábyrgðarmenn fjárhagsskuldbindinga að fá upplýsingar um að lántaki standi ekki við skuldbindingar sínar þegar þær gjaldfalla. Þar sem ekkert hafi verið greitt af fjárhæð skuldabréfsins á síðustu 15 árum sé fjárhæð ábyrgðarinnar mun hærri en ella hefði verið. Þannig mætti búast við að niðurgreiðslu lánsins hefði verið lokið í dag ef undanþágurnar hefðu ekki verið veittar. Að mati kæranda hefði LÍN átt að vera unnt að láta honum í té upplýsingar um hver staða lánins væri í dag ef lántaki hefði ekki fengið undanþágurnar. Yrði LÍN að bera hallann af slíkum upplýsingaskorti. Í andmælabréfi kæranda mótmælir hún þeim athugasemdum er fram hafa komið af hálfu LÍN í málinu um að skaði hennar af því að hafa ekki fengið upplýsingar um stöðu námslánsins fyrr sé óljós. Lýsir kærandi því að hún hafi ekki fengið upplýsingar um undanþágurnar fyrr en hún hafi óskað upplýsinga um stöðu lánsins hjá sjóðum í febrúar 2016. Það hafi mikla þýðingu fyrir ábyrgðarmann að fá upplýsingar um að lántaki standi ekki við fjárhagsskuldbindingar sínar þegar þær gjaldfalla. Í þessu samhengi þurfi að líta til þess að kærandi hafi ekki fengið upplýsingar um ábyrgðina fyrr en fjórum árum eftir að skipti á dánarbúi móður hennar hafi lokið. Kærandi kveðst ekki halda því fram að LÍN sé óheimilt að veita skuldurum undanþágur frá afborgunum. Beri sjóðurinn ríkar skyldur gangvart lántökum og ábyrgðarmönnum samkvæmt lögum nr. 21/1992 um lánasjóð íslenskra námsmanna, lögum nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn, stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og meginreglum stjórnsýsluréttar. Kærandi telur að LÍN hafi borið að veita henni upplýsingar um undanþágurnar þegar þær voru veittar. LÍN hafi vísað til þess að undanþágurnar hafi verið veittar sökum verulegra fjárhagsörðugleika. Enn ríkari ástæður séu til að upplýsa ábyrgðarmenn um slíkar undanþágur enda séu þá auknar líkur á að eftirstöðvar lánsins falli á ábyrgðarmann og engin trygging sé til staðar að lántaka verði veittar undanþágur um ókomna tíð. Kærandi hafi óskað eftir upplýsingum frá LÍN um hver staða lánsins væri ef lántaki hefði ekki fengið undanþágur frá árinu 2001. Kærandi telur að búast mætti við því að lánið væri uppgreitt hefðu undanþágurnar ekki verið veittar. LÍN hafi ekki getað svarað þessu og verði hann að bera hallann af slíkum upplýsingaskorti.

Sjónarmið stjórnar LÍN

Stjórn LÍN bendir á að með yfirlýsingu um einkaskipti hafi erfingjar ábyrgðarmannsins tekist á hendur ábyrgð á öllum skuldbindingum hans, sbr. 28. gr. laga nr. 20/1991. Slík yfirlýsing sé óafturtæk, sbr. 97. gr. laganna, jafnvel þó upplýsingar um ábyrgðarskuldbindingina hafi ekki legið fyrir í gögnum dánarbúsins. Hafi það verið á ábyrgð erfingja að afla sér upplýsinga um skuldbindingar dánarbúsins. LÍN bendir á að af erindi kæranda sé óljóst hver skaði hans hafi verið af því að fá ekki upplýsingar um stöðu lánsins fyrr en í desember 2015. Þær undanþágur sem lántaki hafi fengið hafi verið í samræmi við lög og reglur sjóðsins og skilmála skuldabréfanna sem bæði skuldari og ábyrgðarmaður hafi skrifað undir. Erfitt sé að fullyrða um hver staða lánsins væri ef lánþegi hefði ekki fengið undanþágu frá afborgunum frá því í mars 2011. Stjórn LÍN bendir á að undanþágur hafi einungis verið veittar vegna verulegra fjárhagsörðugleika. Líkt og komi fram í ákvörðun stjórnar LÍN verði ekki talið að sá dráttur er hafi verið á því að senda tilkynningu um stöðu ábyrgðar geti talist það verulegur að það víki til hliðar stjórnarskrárvörðum eignarréttindum LÍN. Þá tekur stórn LÍN fram að ábyrgð ábyrgðarmanns geti einungis fallið niður að í staðinn komi nýr ábyrgðarmaður eða önnur trygging sem stjórn LÍN telji fullnægjandi, sbr. 7. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992. Niðurstaða stjórnar LÍN í máli kæranda sé í samræmi við lög og reglur er um sjóðinn gildi og einnig í samræmi við ákvarðanir stjórnar LÍN og málskotsnefndar LÍN í sambærilegum málum. Fer stjórn LÍN fram á að málskotsnefnd staðfesti ákvörðun stjórnar í málinu.

Niðurstaða

Við andlát ábyrgðarmannsins varð til sjálfstæður lögaðili, dánarbú, sem tók við réttindum og skyldum hins látna. Fyrir liggur að kærandi og aðrir erfingjar ábyrgðarmannsins, fengu leyfi til einkaskipta á dánarbúinu og að skiptum þess var lokið á grundvelli þess leyfis í mars 2011. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. er eitt skilyrða þess að sýslumaður veiti erfingjum leyfi til einkaskipta að erfingjar taki að sér sjálfskuldarábyrgð, einn fyrir alla og allir fyrir einn, á öllum skuldbindingum sem kunna að hvíla á búinu og gjöldum sem leiða af skiptunum eða arftöku. Í 97. gr. sömu laga segir svo að eftir að einkaskiptum er lokið beri erfingjar einn fyrir alla og allir fyrir einn ábyrgð á skuldbindingum búsins án tillits til þess hvort þeim var kunnugt um þær áður en skiptum var lokið. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 20/1991 kemur fram að eitt af skilyrðunum fyrir veitingu leyfis til einkaskipta sé að erfingjar lýsi yfir að þeir taki að sér sjálfskuldarábyrgð in solidum á öllum skuldbindingum sem kunna að hvíla á dánarbúinu án fyrirvara um það eða tillits til þess hvort þeim sé kunnugt um tilvist skuldbindinganna. Þá kemur fram í athugasemdunum að til þess að taka af öll tvímæli um að þessi ábyrgð standi ekki aðeins meðan einkaskiptin fara fram, heldur einnig eftir lok þeirra sé kveðið á um þessa ábyrgð í 97. gr. laganna. Með vísan til þessa er ljóst að kærandi ásamt öðrum erfingjum búsins hefur með því að fá leyfi til einkaskipta á dánarbúinu tekist á hendur ábyrgð á öllum skuldbindingum sem kunni að hvíla á dánarbúinu, þ.m.t. ábyrgð á námslánum lántaka í máli þessu. Samkvæmt 7. mgr. 6. gr. laga um LÍN nr. 21/1992 getur ábyrgð ábyrgðarmanns einungis fallið niður að önnur trygging komi í staðinn sem stjórn sjóðsins telur fullnægjandi. Í kærunni hefur kærandi farið þess á leit að málskotsnefnd úrskurði að kærandi hafi ekki stöðu ábyrgðarmanns vegna þess að LÍN hafi vanrækt tilkynningaskyldu sína samkvæmt d. lið 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Kærandi hefur bent á að LÍN hafi vanrækt í fjögur ár eftir gildistöku laganna að senda yfirlit til ábyrgðarmanna um áramót þar sem upplýst er um stöðu láns og ábyrgðir hans hjá LÍN. Þá byggir kærandi einnig á þvi að LÍN hafi ekki upplýst ábyrgðarmann sérstaklega um undanþágur frá afborgunum sem veittar voru skuldara í fimmtán ár samfellt. Námslán þau sem hér um ræðir voru tekin á árunum 1987-1989, þ.e. fyrir gildistöku laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Í 12. gr. laganna segir að þau gildi um ábyrgðir sem til var stofnað fyrir gildistöku þeirra að frátöldum 4. gr., 5. gr. 1. mgr. 6. gr. og 8. gr. Með bráðabirgðaákvæði laga nr. 78/2009 um breyting á lögum um LÍN kemur fram að stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna skuli "við innheimtu á hendur ábyrgðarmönnum námslána vera bundin af þeim reglum sem fram koma í III. kafla laga um ábyrgðarmenn, nr. 32/2009, eftir því sem við á." Fyrir liggur í málinu að LÍN vanrækti í fjögur ár að upplýsa kæranda sem ábyrgðarmann um stöðu námláns lántaka í samræmi við fyrirmæli d. liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Rétt er að taka fram af þessu tilefni að það er á ábyrgð erfingja við einkaskipti að kanna skuldbindingar dánarbús til þess að geta tekið afstöðu til þess hvort þeir vilji taka þær skuldbindingar á sig. Skyldur LÍN gagnvart ábyrgðarmanni takmarkast við að veita upplýsingar um vanefndir lántaka, gjaldþrot hans, stöðu láns um áramót og önnur þau atriði sem tilgreind eru í III. kafla laga nr. 32/2009. LÍN bar að senda út tilkynningu samkvæmt framangreindu ákvæði til kæranda strax um áramótin 2011/2012 og upplýsa hana um stöðu lánsins sem hún ber ábyrgð á. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. fyrrgreindra laga skal ábyrgðarmaður vera skaðlaus af vanrækslu lánveitanda á tilkynningarskyldu samkvæmt 1. mgr. og ef vanræksla er veruleg skal ábyrgð falla niður. Samkvæmt upplýsingum LÍN er námslán lántaka í skilum og engin gögn liggja fyrir um að skortur á upplýsingum um stöðu lánsins hafi valdið kæranda tjóni. Kærandi hefur vísað til þess að LÍN hafi borið að upplýsa hana um undanþágur sem lántaka hafa verið veittar á afborgunum námslánsins. Ríkar ástæður séu til að upplýsa ábyrgðarmenn í slíkum tilvikum enda séu þá auknar líkur á að ábyrgðin falli á ábyrgðarmenn. Þá sé engin trygging fyrir því að lántaka verði veittar undanþágur um ókomna tíð. Í ákvæðum um endurgreiðslur námslána í II. kafla laga nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki sem í gildi voru þegar lántaki tók námslánin, sem og í gildandi lögum um LÍN, er kveðið á um heimild sjóðsins til að veita undanþágur frá afborgunum m.a. vegna verulegra fjárhagsörðugleika greiðenda. Greiðendum er heimilt að sækja um undanþágu frá einstökum afborgunum leggi þeir fram upplýsingar sem að mati sjóðsins staðfesta slíka erfiðleika. Í skilmálum ábyrgðaryfirlýsingar þeirrar sem ábyrgðarmaður á námsláni lántaka undirritaði kemur m.a. fram að um skuldabréfið gildi ákvæði II. kafla nr. 72/1982. Samkvæmt upplýsingum LÍN hefur lántaki frá árinu 2001 fengið undanþágu frá afborgunum lánsins á grundvelli verulegra fjárhagserfiðleika. Slíkar undanþágur eru að jafnaði ekki veittar nema tekjur séu afar lágar auk þess sem viðkomandi þarf að leggja fram staðfestingu á veikindum, örorku eða öðrum þeim aðstæðum sem geta verið grundvöllur undanþágu. Námslán LÍN eru félagsleg og er við endurgreiðslu þeirra miðað við að lántakar greiði fasta afborgun og síðan viðbótarafborgun sem ásamt föstu afborguninni getur að hámarki verið 3,75% af útsvarsskyldum tekjum lántaka. Þessu til viðbótar koma fyrrgreindar undanþágur. Það leiðir af framkvæmd framangreindra ákvæða að dregið er úr líkum þess að lántaki lendi í vanskilum með afborganir námsláns. Verður ekki séð að beiðni lántaka um að nýta sér samningsbundnar undanþágur sem að framan er lýst og leiða af skilmálum skuldabréfsins sem ábyrgðarmaður samþykkti geti fallið undir þau tilvik sem LÍN bar að tilkynna ábyrgðamanni um og lýst er í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009. Þá liggja ekki fyrir nein gögn í málinu um að vanræksla LÍN á því að upplýsa um stöðu lánsins eða undanþágur þær sem veittar voru lántaka hafi valdið kæranda tjóni enda er námslánið í skilum eins og áður greinir. Að mati málskotsnefndar hefur það ekki þýðingu varðandi úrlausn þessa máls hver staða lánsins væri ef lántaki hefði ekki fengið undanþágu frá afborgunum frá árinu 2001. Umræddar undanþágur eru eins og áður greinir veittar í samræmi við skilmála lánsins og ekkert er komið fram um að lántaki hafi ekki átt rétt á slíkum undanþágum. Að auki voru undanþágur fram til desember 2010 veittar áður en kærandi og aðrir erfingjar tóku ábyrgð á skuldbindingum fyrri ábyrgðarmanns. Af gögnum málsins verður samkvæmt framangreindu ekki ráðið að kærandi hafi orðið fyrir tjóni vegna vanrækslu LÍN á að senda tilkynningu um stöðu ábyrgðarskuldbindingar samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn eða önnur þau atriði sem tilgreind eru í ákvæðum laganna. Er því ekki fallist á að vanræksla LÍN á að sinna tilkynningaskyldu sinni gagnvart kæranda geti leitt til niðurfellingar ábyrgðar hennar. Er kröfu kæranda í málinu hafnað. Með vísan til framangreinds er ákvörðun stjórnar LÍN frá 23. júní 2016 staðfest.

Úrskurðarorð

Ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda frá 23. júní 2016 er staðfest. 

Til baka