Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-24/2016 - Ábyrgðarmenn - beiðni um niðurfellingu á ábyrgð

Úrskurður

 

Ár 2017, miðvikudaginn 31. maí, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-24/2016.

Kæruefni

 

Málskotsnefnd barst þann 10. október 2016 kæra kærenda á þeirri ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 27. september 2016 að synja kröfu kærenda um niðurfellingu á ábyrgð á námslánum sem þau höfðu gengist í vegna lántaka. Gerðu kærendur þá kröfu fyrir málskotsnefnd að hún felldi úr gildi hina kærðu ákvörðun stjórnar LÍN og viðurkenndi að ábyrgð kærenda á námslánum lántaka væri fallin niður fyrir fyrningu. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna sama dag og hún barst og gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kærendum var samdægurs sent afrit þess bréfs. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 8. nóvember 2016 og var afrit þess sent kærendum og þeim jafnframt veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum. Kærendur sendu málskostnefnd athugasemdir sínar 2. desember 2016. Með bréfi til málskotsnefndar, dagsettu 22. febrúar 2017, tilkynnti stjórn LÍN að með stefnu birtri 20. sama mánaðar hefði verið höfðað mál á hendur kærendum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur vegna sjálfskuldarábyrgðar þeirra á láni lántaka. Fór stjórn LÍN fram á að meðferð málsins fyrir málskotsnefnd yrði felld niður þar sem reyna myndi á sama ágreiningsefni fyrir héraðsdómi. Kærendur voru upplýstir um kröfu stjórnar LÍN með bréfi dagsettu 28. febrúar 2017 og gefinn kostur á að tjá sig um hana. Með bréfi dagsettu 14. mars s.á sendu kærendur athugasemdir sínar og fóru þess á leit að málskotsnefnd frestaði ákvörðun um beiðni stjórnar LÍN þar til stjórnin hefði tekið afstöðu til þeirrar beiðni kærenda til stjórnar LÍN að aðhafast ekkert frekar vegna reksturs dómsmálsins fyrr en niðurstaða hjá málskotsnefndinni lægi fyrir. Málskotsnefnd sendi andmæli kærenda til stjórnar LÍN með bréfi dagsettu 21. sama mánaðar þar sem einnig var óskað eftir afriti af stefnu í máli sjóðsins gegn kærendum. Þann 27. sama mánaðar sendi LÍN afrit af stefnu. Málskotsnefnd óskaði upplýsinga frá stjórn LÍN um beiðni kærenda. Þann 22. maí 2017 sendi LÍN afrit af bréfi sjóðsins til kærenda dagsettu 2. maí 2017 þar sem þeim var tilkynnt um að mál sjóðsins á hendur þeim fyrir héraðsdómi bæri að skoða í ljósi þess að fyrningarfrestur á hendur aðalskuldara og þar með einnig kærendum hafi verið að renna út. Ekki væri hægt að reka tvö mál samhliða bæði á stjórnsýslustigi og fyrir dómstólum. Væri því ekki fallist á kröfu kærenda um að sjóðurinn drægi til baka beiðni um niðurfellingu málsins hjá málskotsnefnd.

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærendur eru ábyrgðarmenn á námslánum lántaka hjá LÍN, sem hann stofnaði til með svokölluðum T-skuldabréfum á árunum 1990-1992. Að námi loknu voru námslánin sameinuðu í innheimtukerfi LÍN og gefið nýtt sameiginlegt númer S-960046 (S-lán). Lántaki var einnig með R-lán sem stofnað var til árið 1999. Lántaki hóf að greiða af S-láninu á árinu 1998. Bú lántaka var tekið gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 21. september 2011. Samkvæmt fyrirmælum 99. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991 féllu allar kröfur á hendur lántaka í gjalddaga við uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti, þ.á m. námslánsskuld hans. Skiptalok í þrotabúi lántaka voru þann 12. mars 2015 og mun ekkert hafa greiðst upp í kröfur LÍN. Með bréfi frá TMC innheimtustofu, dagsett 18. apríl 2016, voru kærendur krafin um greiðslu á grundvelli ábyrgðar á námslánum lántaka. Kærendur höfnuðu greiðslu og bera því við að krafan á hendur þeim sé fallin niður fyrir fyrningu. Lánið sem þau voru í ábyrgð fyrir hafi farið í vanskil 1. mars 2001 og verið gjaldfellt samkvæmt ákvörðun stjórnar LÍN þann 7. mars 2003. Þeim hafi verið birt stefna vegna ábyrgðarinnar í september 2003 en það mál verið fellt niður eftir að lánið „var greitt í skil“ þann 15. desember 2003. Telja kærendur að sú greiðsla hafi ekki breytt eða afturkallað fyrri ákvörðun um gjaldfellingu og frá því að stefna var birt þeim og allt til dagsins í dag hafi engin þau atvik gerst sem rofið gæti hafa fyrningu ábyrgðar þeirra. Eins og áður segir höfðaði LÍN mál á hendur kærendum með stefnu birtri 20. febrúar 2017 vegna sjálfskuldarábyrgðar þeirra á láni lántaka og krefur þau um greiðslu á samtals 5.458.502 kr. Í kjölfar málshöfðunarinnar barst málskotsnefnd krafa stjórnar LÍN um að meðferð málsins fyrir nefndinni yrði felld niður. Málskotsnefnd gaf kærendum kost á að tjá sig um fram komna beiðni LÍN og bárust athugasemdir þeirra þann 14. mars 2017 þar sem kröfu LÍN um niðurfellingu er mótmælt. Fram kemur í bréfinu að kærendur hafi sama dag ritað stjórn LÍN erindi þar sem þess væri krafist að sjóðurinn félli frá kröfu sinni um niðurfellingu málsins og af þeirri ástæðu krefðust kærendur þess aðallega fyrir málskotsnefnd að ákvörðun í málinu yrði frestað þar til afstaða stjórnar LÍN lægi fyrir, en til vara að málskotsnefnd hafnaði kröfu sjóðsins um niðurfellingu málsins. Með bréfi LÍN til kærenda dagsettu 2. maí 2017 var þeim tilkynnt um að stjórn sjóðsins hefði hafnað beiðni þeirra um að sjóðurinn drægi til baka kröfu sína um niðurfellingu málsins hjá málskotsnefnd. Til úrlausnar í þessu máli er því hvort fjallað skuli efnislega um kröfu kærenda eða hvort fella eigi málið niður vegna málsmeðferðarinnar fyrir héraðsdómi.

Sjónarmið kæranda

Kærendur telja að af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 leiði að þau eigi rétt til að njóta þess hagræðis sem felist í því að málskotsnefnd leysi úr ágreiningi þeirra við stjórn LÍN og að þau verði ekki svipt þeim rétti nema ríkar ástæður krefji og sérstök heimild sé fyrir því í lögum. Það sé ekki í valdi stjórnar LÍN að ónýta málatilbúnað kærenda fyrir málskotsnefndinni með því síðar að höfða mál fyrir dómstólum. Málskotsnefnd hafi úrskurðarskyldu í öllum málum sem réttilega sé skotið til úrlausnar hennar og undan þeirri skyldu verði ekki vikist nema í undantekningartilvikum. Dæmi um slíkt gæti verið að sama úrlausnarefni hafi verið lagt fyrir dómstóla, en í því tilviki skipti máli hvor aðilanna standi að málshöfðun. Telja kærendur að samkvæmt 2. og 3. mgr. 5. gr. a í lögum nr. 21/1992 um LÍN sé stjórn LÍN almennt bundin af úrskurðum málskotsnefndar og geti aðeins í undantekningartilvikum borið niðurstöðu hennar undir dómstóla. Slík atvik séu ekki fyrir hendi í málinu. Þá benda kærendur á að í 3. mgr. 102. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 sé gert ráð fyrir að sú aðstaða geti komið upp að dómsmál sé höfðað um sama ágreining og er til úrslausnar hjá stjórnvöldum og í þeim tilvikum geti dómari frestað máli telji hann úrskurð stjórnvaldsins geta haft þýðingu fyrir niðurstöðu þess. Telja kærendur það eiga við um niðurstöðu málskotsnefndar þar sem hún komi til með að binda LÍN.

Sjónarmið stjórnar LÍN

Í beiðni stjórnar LÍN er vísað til þess að hjá Héraðsdómi Reykjavíkur sé til meðferðar sama ágreiningsefni og kærendur hafi skotið til málskotsnefndar, þ.e. hvort krafa LÍN á hendur kærendum á grundvelli sjálfskuldarábyrgðar þeirra sé fyrnd. Í því ljósi fer stjórn LÍN fram á að málið verði fellt niður hjá málskotsnefnd.

Niðurstaða

 

Eftir að mál þetta var kært til málskotsnefndar höfðaði LÍN dómsmál á hendur kærendum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og krefst sjóðurinn greiðslu á samtals 5.458.502 kr. Fram kemur í stefnu að krafan sé tilkomin vegna sjálfskuldarábyrgðar kærenda fyrir lántaka. Það er því ljóst að þótt krafan í héraðsdómsmálinu sé fjárkrafa reynir í raun í málinu á sama ágreiningsefni og kærendur hafa skotið til úrlausnar málskotsnefndar, þ.e. hvort krafa LÍN á hendur kærendum vegna ábyrgðarskuldbindingar þeirra sé fallin niður fyrir fyrningu. Fram hefur komið að málshöfðun LÍN sé í því skyni gerð að slíta hugsanlegri fyrningu kröfu sjóðsins, en þann 12. mars 2017 voru liðin tvö ár frá skiptalokum í búi lántaka. Þó að það sé meginregla í stjórnsýslurétti að í stjórnsýslukæru sé talin felast úrskurðarskylda æðri stjórnvalda um löglega fram bornar stjórnsýslukærur eru viðurkennd frávik frá þeirri reglu ef sama úrlausnarefni hefur verið lagt fyrir dómstóla, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli 4968/2007. Má um það einnig vísa til álits umboðsmanns Alþingis nr. 1311/1994, þar sem umboðsmaður taldi ekki aðfinnsluvert að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefði stöðvað meðferð kærumáls eftir að það hafði verið borið undir dómstóla. Að mati málskotsnefndar er eðlilegt að ekki sé fjallað efnislega um mál fyrir tveimur handhöfum ríkisvalds á sama tíma til að forðast tvöfalda niðurstöðu í málum. Þá breytir sú tilhögun löggjafans að fela stjórnvaldi úrlausn ágreiningsmáls því ekki að í reynd er endanlegt úrlausnarvald í höndum dómstóla samkvæmt 60. gr. stjórnskrárinnar nr. 33/1944. Loks hefur málskotsnefnd í fyrri úrskurði nr. L-1/2015 ályktað að fjalla ekki um mál meðan það væri til meðferðar fyrir dómstóli. Með vísan til framanritaðs telur málskotsnefnd rétt að fallast á kröfu LÍN um að úrskurða ekki í málinu á meðan það sætir málsmeðferð dómstóla og er málinu vísað frá málskotsnefnd.

Úrskurðarorð

 

Máli þessu er vísað frá málskotsnefnd.

Til baka