Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-26/2016 - Endurgreiðsla námslána - beiðni um afturköllun á gjaldfellingu námsláns

Úrskurður

Ár 2017, miðvikudaginn 21. júní, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-26/2016.

Kæruefni

Málskotsnefnd barst þann 14. nóvember 2106 kæra kæranda á þeirri ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 28. október 2016 að synja kröfu kærenda um afturköllun á gjaldfellingu námsláns sem hún hafði fengið greitt út 4. mars 2014 og beiðni hennar um að fá að greiða af láninu með upphaflegum skilmálum og kjörum. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna daginn eftir að hún barst og var gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var samdægurs sent afrit þess bréfs. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 16. desember 2016 og var afrit þess sent kæranda og henni jafnframt veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum. Kærandi sendi málskotsnefnd athugasemdir sínar 20. janúar 2017. Þann 12. mars 2017 sendi kærandi málskotsnefnd viðbótarathugasemdir sínar. Með tölvubréfi málskotsnefndar til umboðsmanns kæranda 22. maí 2017 var óskað frekari upplýsinga frá kæranda og barst svar hennar sama dag.

Málsatvik og ágreiningsefni

Tildrög þessa máls eru þau að kærandi var úrskurðuð gjaldþrota þann 22. ágúst 2013 og nam fjárhæð fyrri námslána hennar við LÍN þá um 9,6 milljónum króna. Kærandi var í námi þegar hún var úrskurðuð gjaldþrota og óskaði hún eftir að fá lán vegna skólagjalda á hausmisseri 2013. Þar sem hún var gjaldþrota og eldri lán gjaldfallin og í vanskilum við LÍN var umsókn hennar hafnað. Kærandi sótti engu að síður um og fékk greidd lán vegna skólaársins 2013-2014 og kveður LÍN það hafa verið vegna vankanta á tölvukerfi sjóðsins. Lánið var greitt út í einu lagi 4. mars 2014 og var um að ræða skólagjöld vegna haustmisseris 2013 og fyrirfram skólagjaldalán vegna vormisseris 2014. Um mánuði síðar uppgötvaði LÍN að kærandi átti ekki lánsrétt og hafi hún þá verið krafin um endurgreiðslu lánsins. Þann 12. apríl 2014 hafi henni verið sent svokallað ofgreiðslubréf og þann 13. maí 2014 hafi verið tilkynnt að ef hún endurgreiddi ekki hið ofgreidda lán yrðu námslok hennar ákveðin 5. mars 2014, daginn eftir ofgreiðslu lánsins, og ákvarðaði sá dagur fyrsta vaxtadag lánsins. Þann 2. júní 2014 hafi kæranda og ábyrgðarmanni lánsins verið send innheimtuaðvörun og tilkynning um innheimtu hins ofgreidda láns, sem aukaafborgun af námsláninu. Engin viðbrögð hafi borist frá kæranda eða ábyrðarmanni og hafi lánið þá verið sett í milliinnheimtu 23. júní 2014 og í framhaldi af því í löginnheimtu þann 17. september 2014. Á árinu 2015 hafi lögmenn sjóðsins árangurslaust sent innheimtubréf á kæranda og ábyrgðarmann. Í febrúar 2016 hafi krafan verið gjaldfelld og áminning send bæði á kæranda og ábyrgðarmann. Þau hafi þá sett sig í samband við lögmenn sjóðsins án þess þó að semja um skuldina. Því hafi þeim verið stefnt fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur til greiðslu kröfunnar og þann 7. júlí 2016 hafi þau verið dæmd til greiðslu með áritun á stefnu. Í kjölfar dómsins hafi kærandi sent beiðni til stjórnar LÍN um afturköllun gjaldfellingarinnar og að hún fengi heimild til að greiða af láninu með upphaflegum skilmálum þess og kjörum. Því var hafnað af hálfu stjórnar LÍN.

Sjónarmið kæranda

Kærandi bendir á að hún hafi verið úrskurðuð gjaldþrota þann 22. ágúst 2013 og skiptum á búi hennar hafi lokið þann 13. júní 2014. LÍN hafi lýst kröfum vegna þriggja námslána hennar í þrotabúið og hafi eitt þeirra verið skólagjaldalán vegna meistaranáms hennar í Háskóla Íslands árið 2012, en námið sé tvö ár. Þegar hún hafi átt eftir tvær annir af meistaranáminu hafi hún á árinu 2013 sótt um lán til að ljúka greiðslu skólagjalda. Hafi henni verið tjáð af starfsmanni LÍN að hún ætti rétt á slíku láni, en vegna gjaldþrots þyrfti hún ábyrgðamann að láninu. Hafi hún útvegað hann og fengið lánið. Kærandi hafnar því alfarið að hafa blekkt LÍN til að veita lánið. Sjóðnum hafi verið kunnugt um gjaldþrot hennar. Kærandi tekur fram að þegar henni hafi borist innheimtubréf frá LÍN hafi hún talið að þau tengdust gjaldfellingu fyrri lána vegna gjaldþrots hennar og í því sambandi verði að hafa í huga að hún sé ekki sérfræðingur í útlána- eða eða gjaldþrotamálum. Hún hafi því ekki brugðist við fyrr en henni barst tilkynning frá Creditinfo um að hún væri komin á vanskilaská vegna áritaðrar stefnu. Henni hafi ekki verið kunnugt um þá málshöfðun þar sem stefnan hafi ekki verið birt henni eða ábyrgðarmanni með réttmætum hætti. Í viðbótarathugasemdum kæranda sem sendar voru málskotsnefnd 12. mars 2017 var um sjónarmið hennar vísað í dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 3. mars 2017 í málinu nr. E-3014/2016 þar sem komið sé inn á ábyrgð og samfélagslegar skyldur LÍN gagnvart námsmönnum. Kærandi kveðst hafa óskað eftir endurupptöku Héraðsdóms Reykjavíkur á máli LÍN á hendur henni og ábyrgðarmanni sem áritað var þann 7. júlí 2016. Það hafi aðallega verið gert á þeirri forsendu að henni og ábyrgðarmanni hafi ekki borist stefna málsins. Þau hafi hins vegar frestað endurupptökubeiðninni og viti ekki betur en að hún sé enn í fresti.

Sjónarmið stjórnar LÍN

Af hálfu stjórnar LÍN er vísað til þess að kærandi hafi engar athugasemdir gert við endurkröfu hins ofgreidda láns þrátt fyrir að fjöldi innheimtubréfa og tilkynninga hafi verið send á lögheimili hennar. Innheimta sjóðsins á hinu ofgreidda láni hafi verið í samræmi við greinar 5.7 og 5.9 í úthlutunarreglum sjóðsins fyrir námsárið 2013-2014. Þá bendir LÍN á að í málinu liggi fyrir endanlega niðurstaða dómstóla (árituð stefna) um greiðsluskyldu kæranda á hinum ofgreidda láni. Það mál hafi hvorki verið endurupptekið né dæmt að nýju og því sé hina áritaða stefna endaleg niðurstaða málsins. Niðurstaða stjórnar LÍN í máli kæranda sé því í samræmi við lög og reglur og einnig í samræmi við sambærilegar ákvarðanir stjórnar LÍN og beri því að staðfesta.

Niðurstaða

Valdheimildum stjórnvalda eru takmörk sett í stjórnarskránni og byggjast þau á þrígreiningu ríkisvaldsins sem birtist í 2. gr. stjórnarskrárinnar. Í ákvæðinu er að finna grundvöll fyrir verkskiptingu milli hinna þriggja greina ríkisvaldsins og fara dómendur með dómsvaldið. Þrískipting þessi setur stjórnvöldum þau mörk en þau geta ekki farið inn á valdsvið það sem dómstólum og löggjafa hefur verið falið. Fyrir liggur í málinu að LÍN höfðaði mál á hendur kæranda og ábyrgðarmanni fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu birtri 10. júní 2016. Ekki var mætt af hálfu stefndu í málinu og var stefnan á grundvelli 113. gr. laga nr. 91/1991 árituð þann 7. júlí 2016 um aðfararhæfi dómkrafna, sem voru að fjárhæð 1.246.812 kr., auk vaxta og málskostnaðar. Kærandi og ábyrgðarmaður óskuðu eftir endurupptöku útivistarmálsins í héraðsdómi með beiðni dagsettri 31. ágúst 2016, en héldu henni ekki við. Með því er ljóst að LÍN hefur fengið endanlega dóm á hendur kæranda um greiðslu á hinu umþrætta láni sem ágreiningur þessa máls snýst um. Eins og fyrr segir leiðir af þrígreiningu ríkisvaldsins að málskotsnefnd er bundin af þeim dómi sem fyrir liggur um greiðsluskyldu kæranda og verður sú niðurstaða ekki endurskoðuð af málskotsnefnd. Er ákvörðun stjórnar LÍN um að synja beiðni kæranda því staðfest.

Úrskurðarorð

Ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda frá 28. október 2016 í máli kæranda er staðfest. 

Til baka