Úrskurður
Ár 2017, miðvikudaginn 21. júní, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-28/2016.
Kæruefni
Með kæru sem barst málskotsnefnd 28. nóvember 2016 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 30. ágúst 2016 um að hafna erindi kæranda um niðurfellingu á ábyrgð hennar á námsláni nr. G-000000. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 28. nóvember 2016 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 21. desember 2016 og var afrit þess sent kæranda og henni jafnframt gefinn kostur á að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Athugasemdir kæranda bárust málskotsnefnd með bréfi dagsettu 19. janúar 2017. Voru þær framsenda stjórn LÍN samdægurs.
Málsatvik og ágreiningsefni
Málsatvik eru þau að kærandi gekkst þann 21. janúar 2011 í
sjálfskuldarábyrgð á skuldabréfi nr. G-000000 hjá LÍN vegna námslána lántaka.
Lántaki, sem var tengdadóttir kæranda, var í greiðsluskjóli frá 12. nóvember
2010 til 3. júlí 2013. Lántaki var úrskurðuð gjaldþrota þann 1. apríl 2015.
Engar eignir fundust í búinu og var skiptum þess lokið 14. janúar 2016. LÍN
sendi kæranda tilkynningu um gjaldþrotið 3. mars 2016 þar sem fram kom að
ábyrgðin stæði í 1.314.270 krónum og hóf í kjölfarið innheimtu kröfunnar á
hendur kæranda. Þann 4. júlí 2016 óskaði kærandi eftir því við LÍN að ábyrgðin
yrði felld niður. Stjórn LÍN hafnaði þeirri beiðni með hinni kærðu ákvörðun.
Sjónarmið kæranda
Kærandi telur sjálfskuldarábyrgðina
vera ólögmæta og að hana beri að ógilda á grundvelli 36., eða eftir atvikum 33.
gr. laga nr. 7/1936 (samningalaga). Kærandi byggir á því að LÍN hafi ekki
framkvæmt greiðslumat á lántaka og hafi ekki kynnt fyrir henni í hverju ábyrgðin
fælist eða hvaða áhættur fylgdu henni. Engin samskipti hafi átt sér stað á milli
LÍN og kæranda, heldur hafi lántaki komið með skuldabréfið í vinnuna til kæranda
þar sem hún hafi ritað undir það. Kærandi bendir á að hún hafi enga fjárhagslega
hagsmuni af því að gangast undir ábyrgðina. Hún hafi litið á þetta sem greiða
við tengdadóttur sína og henni hafi ekki verið kunnugt um að fjárhagur hennar
stæði illa. Kærandi byggir á því að LÍN hafi brotið gegn 1. mgr. 4. gr. laga um
ábyrgðarmenn nr. 32/2009 (ábml). Kærandi bendir á að ráðherra hafi ekki nýtt sér
heimild til reglugerðarsetningar um framkvæmd greiðslumats samkvæmt ákvæðinu
fyrr en með reglugerð nr. 920/2013. Þegar kærandi hafi gengist í umrædda ábyrgð
hafi því engin reglugerð verið í gildi um framkvæmd greiðslumats. Engu að síður
sé ljóst að 1. mgr. 4. gr. ábml. hafi falið í sér tilteknar kröfur til þess
hvernig slíkt greiðslumat ætti að fara fram. Kærandi telur að þeim kröfum hafi
ekki verið mætt af hálfu LÍN og að sjóðurinn hafi ekki framkvæmt neitt eiginlegt
greiðslumat á þessum tíma heldur hafi sjóðurinn haft það verklag að kanna
eingöngu stöðu lántaka í vanskilaskrá. Kærandi bendir á að ekkert liggi fyrir um
að það hafi verið gert í þessu tilfelli en hún hafi a.m.k. aldrei fengið að sjá
stöðu lántaka í vanskilaskrá. Kærandi telur ljóst að sú aðferð sem LÍN viðhafði
í þessu máli hafi ekki falið í sér eiginlegt greiðslumat sem hafi staðist
áskilnað fyrrnefnds ákvæðis. Kærandi telur að til þess að greiðslumat teljist
forsvaranlegt og sé byggt á viðurkenndum viðmiðum í skilningi 1. mgr. 4. gr.
ábml. verði það að fela í sér raunverulegt mat á því hvort lántaki geti staðið
undir fyrirhugaðri skuldbindingu. Kærandi telur að einföld könnun LÍN á
einstaklingi í vanskilaskrá geti með engu móti talist uppfylla skilyrði
ákvæðisins. Kærandi byggir einnig á því að LÍN hafi brotið gegn 2. og 3. mgr. 4.
gr. ábml. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að lánveitandi skuli með skriflegum hætti
ráða ábyrgðarmanni frá því að gangast í ábyrgð ef greiðslumat bendi til þess að
lántaki geti ekki efnt skuldbindingar sínar. Ekkert greiðslumat hafi farið fram
á lántaka og þegar af þeirri ástæðu sé ljóst að brotið var gegn ákvæðinu. Þá
bendir kærandi á að við þær aðstæður að ekkert greiðslumat hafi verið til staðar
hljóti LÍN einnig hafa verið skylt að ráða kæranda frá því að gangast í ábyrgð.
Sé ljóst að hafi LÍN talið að lántaki stæðist ekki greiðslumat eða gæti ekki
efnt skuldbindingar sínar þá hefði LÍN samkvæmt ákvæðinu átt að ráða kæranda frá
því að gangast í ábyrgðina. Í 3. mgr. 4. gr. ábml. segir að með sama hætti skuli
lánveitandi ráða ábyrgðarmanni frá því að undirgangast ábyrgð ef aðstæður
ábyrgðarmanns gefa tilefni til. Kærandi bendir á að LÍN hafi ekki framkvæmt mat
á högum hennar og hafi aldrei haft samband við hana vegna ábyrgðarinnar. LÍN
hafi þannig ekki gert tilraun til að fylgja skyldu sinni samkvæmt ákvæðinu. Þá
byggir kærandi einnig á því að LÍN hafi brotið gegn 1. mgr. 5. gr. ábml.
Samkvæmt ákvæðinu hafi LÍN m.a. borið að upplýsa kæranda skriflega um þá áhættu
sem sé samfara ábyrgð. Það hafi LÍN ekki gert eða a.m.k. ekki nægilega þannig að
það standist áskilnað ákvæðisins. Samkvæmt b-lið ákvæðisins skal veita
upplýsingar um greiðslugetu lántaka en það var ekki gert þar sem ekkert
eiginlegt greiðslumat hafi verið framkvæmt á lántaka. Telur kærandi að hið
staðlaða blað LÍN Upplýsingar til ábyrgðarmanns uppfylliekki lagaskyldu LÍN,
hvorki samkvæmt fyrrgreindum 4. né 5. gr. ábml. Kærandi vísar til ýmissa
héraðsdóma og úrskurða málskotsnefndar LÍN sem hafa fallið að undanförnu máli
sínu til stuðnings. Kærandi telur bæði ósanngjarnt og andstætt góðri
viðskiptavenju fyrir LÍN að bera fyrir sig umrædda sjálfskuldarábyrgð. Beri að
víkja henni til hliðar, þ.e. ógilda hana og fella hana niður. Bendir kærandi á
að hún hafi verið 63 ára þegar hún hafi gengist í ábyrgðina og starfað sem
sjúkraliði, með enga sérþekkingu á fjármálum eða reglum um ábyrgðir og
greiðslumat. LÍN sé hins vegar lánastofnun sem komið hafi verið á fót með lögum
og hafi starfsmenn sjóðsins sérþekkingu á þessu sviði. LÍN sé því í
yfirburðarstöðu gagnvart kæranda við samningsgerðina. Kærandi telur að LÍN verði
að bera hallann af því að hafa ekki viðhaft þau vönduðu vinnubrögð sem lög um
ábyrgðarmenn mæla fyrir um og hafa ekki framkvæmt greiðslumat í samræmi við
fortakslaus ákvæði laganna. Vegna þessa hafi kærandi ekki gert sér ekki grein
fyrir þeirri áhættu sem hafi falist í því að gangast í ábyrgðina en ótvíræð
lagaskylda hafi hvílt á LÍN að upplýsa um þá áhættu með fullnægjandi hætti.
Jafnframt verði LÍN að bera hallann af þeirri óvissu hvort kærandi hefði gengist
undir ábyrgðina ef LÍN hefði staðið rétt að greiðslumati og kynningu þess og
sinnt öðrum skyldum sínum samkvæmt lögum um ábyrgðarmenn. Kærandi byggir einnig
á því að LÍN geti ekki borið fyrir sig ábyrgðina þar sem það yrði talið
óheiðarlegt vegna þeirra atvika sem voru fyrir hendi þegar löggerningurinn kom
til vitundar starfsmanna LÍN, sbr. 33. gr. samningalaga. Vegna fullyrðingar LÍN
að með yfirlýsingunni "Upplýsingar til ábyrgðarmanns skv. 5. gr. laga nr.
32/2009" hafi fylgt bréf þar sem fram hafi komið að námsmaður væri annað
hvort með virka umsókn um greiðsluaðlögun eða frystingu á lánum og því gætu
upplýsingar hafa verið fjarlægðar úr skrám CreditInfo tekur kærandi fram að hún
kannist ekki við að hafa fengið slíkt bréf. Þá sé einnig ljóst að framangreint
bréf, hvort sem það hafi borist kæranda eða ekki, breyti engu um þá niðurstöðu
að LÍN hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt lögum. Bréfið staðfesti þau
ófullnægjandi vinnubrögð sem LÍN viðhafði í málum sem þessum, en af bréfinu að
dæma virðist LÍN t.d. ekki hafa vitað hvort lántaki væri með virka umsókn um
greiðsluaðlögun eða frystingu á lánum. Þá bendir kærandi á að það sem fram komi
í bréfinu um að vakin sé athygli á því að "þar sem endurgreiðslur á
námsláninu hefst ekki fyrr en tveimur árum eftir námslok mun greiðslugeta
námsmannsins verða önnur til framtíðar" hafi síst verið til þess fallið að
auka árvekni kæranda gagnvart þeirri áhættu sem fólgin hafi verið í
ábyrgðarskuldbindingunni. Kærandi telur að af gögnum málsins og orðavali LÍN sé
ljóst að sjóðurinn ruglar saman greiðslumati og lánshæfismati. Samkvæmt lögum um
ábyrgðarmenn sé skylt að framkvæma greiðslumat en ekki lánshæfismat, enda séu
það tvö ólík fyrirbæri. Það sé lykilatriði að mat á lánshæfi felur ekki í sér
mat á líkum á því hvort skuld muni falla á ábyrgðarmann. Möguleg eða meint
vitneskja kæranda um lánshæfi lántaka breyti engu um þá staðreynd að LÍN
uppfyllti ekki skyldur sínar samkvæmt lögunum. Þá mótmælir kærandi að tengsl
hennar og lántaka skipti hér máli. Þó hún hafi verið tengdamóðir lántaka þá hafi
henni ekki verið kunnugt um að fjárhagur hennar væri eins slæmur og raun bar
vitni auk þess sem skyldleiki aðila breyti engu um skyldur lánveitanda samkvæmt
lögum um ábyrgðarmenn.
Sjónarmið stjórnar LÍN
LÍN bendir
á að í 4. gr. ábml. sé kveðið á um að lánveitandi skuli meta hæfi lántaka til að
standa í skilum með lán þar sem ábyrgðarmaður gengst í ábyrgð til tryggingar
efndum lántaka og ráða ábyrgðarmanni frá því að gangast í ábyrgð ef greiðslumat
bendi til þess að lántaki geti ekki efnt skuldbindingar sínar. Ekki sé kveðið á
um í greininni að ábyrgð skuli falla niður ef greiðslumat sé ekki framkvæmt en í
ákvæði til bráðabirgða segi að heimilt sé að víkja ábyrgð til hliðar í heild eða
hluta á grundvelli 36. gr. samningalaga. Í 36. gr. segi að samningi megi víkja
til hliðar í heild eða hluta eða breyta ef það yrði talið ósanngjarnt eða
andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig LÍN byggir á því að bæði í
skuldabréfinu og í yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð vegna námslánsins sem
kærandi skrifaði undir hafi komið fram að ábyrgðarmaður hafi verið upplýstur um
greiðslugetu lántaka o.fl. atriði samkvæmt 5. gr. ábml. Kærandi hafi staðfest
þetta með undirritun sinni á sérstaka yfirlýsingu sem skoðist sem hluti
skuldabréfsins undir yfirskriftinni "Upplýsingar til ábyrgðarmanna skv. 5.
gr. laga nr. 32/2009". Með fyrrgreindri yfirlýsingu hafi fylgt bréf þar sem
komið hafi fram að námsmaður væri með annað hvort virka umsókn um
greiðsluaðlögun eða frystingu á lánum og því gætu upplýsingar um greiðslusögu
viðkomandi hafa verið fjarlægðar úr skrám CreditInfo. LÍN telur að miðað við
framangreint hefði kærandi getað gert sér grein fyrir þeirri áhættu sem fólst í
því að gangast undir sjálfskuldarábyrgð fyrir námslánum hjá lántaka. Jafnframt
hafi kæranda mátt vera ljóst að lántaki hafi ekki verið lánshæfur hjá sjóðnum
enda væri ekki krafist sjálfskuldarábyrgðar á námsláni nema lántaki teldist vera
ólánshæfur, sbr. 5. mgr. 6. gr. laga um LÍN og grein 5.1.8 í úthlutunarreglum
sjóðsins 2010-2011. Þá bendir LÍN á að kærandi hafi frá árinu 2012 fengið
tilkynningu frá sjóðnum um ábyrgð sína án þess að gera athugasemd. Vegna
vitneskju kæranda um ábyrgð sína og stöðu lánþega verði ekki á það fallist að
framkvæmd greiðslumats með öðrum hætti en gert var á þeim tíma sem kærandi
gekkst í ábyrgð hefði verið til þess fallin að upplýsa ábyrgðarmann betur um
getu lántaka til að greiða af námslánum sínum. Einnig þykir ekki hægt að líta
fram hjá tengslum kæranda við lántaka. Telur LÍN að ekki hafi verið sýnt fram á
að frekari upplýsingar um greiðsluhæfi lánþega hefðu haft áhrif á ákvörðun
kæranda um að gerast ábyrgðarmaður. Af þeim sökum sé hvorki ósanngjarnt né
andstætt góðri viðskiptavenju samkvæmt 36. gr. samningalaga að LÍN beri fyrir
sig umræddan ábyrgðarsamning. Þá sé ekki óheiðarlegt af LÍN að bera fyrir sig
ábyrgðina samkvæmt 33. gr. sömu laga.
Niðurstaða
LÍN er opinber stjórnsýslustofnun sem hefur það hlutverk að
tryggja þeim sem falla undir lög nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna
tækifæri til náms án tillit til efnahags. LÍN veitir lán til námsmanna í
framhaldsnámi samkvæmt lögum og reglum sem um sjóðinn gilda. Í 5. mgr. 6. gr.
laganna segir að námsmenn sem fái lán úr sjóðnum skuli undirrita skuldabréf við
lántöku, teljist þeir lánshæfir samkvæmt reglum stjórnar sjóðsins. Teljist
námsmaður ekki lánshæfur, geti hann lagt fram ábyrgðir sem sjóðurinn telur
viðunandi, þar með talda sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu námsláns ásamt
vöxtum og verðtryggingu þess, allt að tiltekinni fjárhæð. Starfsemi LÍN er
fjármögnuð með endurgreiðslu námslána, ríkisframlagi og lánsfé. LÍN ber í starfi
sínu jafnt að fylgja þeim lögum og reglum sem gilda sérstaklega um starfsemi
sjóðsins og lagareglum, jafnt skráðum sem óskráðum, sem gilda um stjórnsýslu
hins opinbera og svo reglum fjármunaréttarins eftir því sem við á. Með lögum nr.
78/2009 var gerð sú breyting á lögum nr. 21/1992 um LÍN, að það fyrirkomulag að
námsmenn skyldu almennt leggja fram sjálfsskuldarábyrgð þriðja manns fyrir þeim
námslánum sem þeir sæktu um var afnumið. Í þess stað var kveðið á um að þeir
námsmenn, sem ekki teldust lánshæfir samkvæmt reglum LÍN, gætu lagt fram
ábyrgðir sem sjóðurinn teldi viðunandi. Af athugasemdum við það frumvarp sem
varð að breytingalögum nr. 78/2009 er ljóst að með breytingunum var markmiðið að
hver námsmaður ætti almennt sjálfur að vera ábyrgur fyrir endurgreiðslu eigin
námsláns. Í þágu þeirra námsmanna, sem ekki uppfylltu lánshæfisskilyrði, væri
þeim möguleika viðhaldið að láta ábyrgðarmann ábyrgjast endurgreiðslur námsláns
eða þá að lögð væri fram bankatrygging eða veðtrygging. Hvorki í
breytingarlögunum eða lögskýringargögnum með þeim er fjallað um það hvernig haga
beri framkvæmd sjálfsskuldarábyrgða, sem stofnað yrði til á þessum grundvelli,
með hliðsjón af lögum nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Verður því ekki ráðið af
lögum nr. 21/1992 um LÍN, sbr. breytingarlög nr. 78/2009, að með þeim sé vikið
frá fyrirmælum laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Í lögum nr. 32/2009 um
ábyrgðarmenn kemur fram að markmið þeirra er að setja reglur um ábyrgðir
einstaklinga, draga úr vægi ábyrgða og stuðla að því að lánveitingar verði
miðaðar að greiðslugetu lántaka og hans eigin tryggingum. Í 4. gr. laganna kemur
fram að lánveitandi skal meta hæfi lántaka til að standa í skilum með lán þar
sem ábyrgðarmaður gengst í ábyrgð til tryggingar efndum lántaka og skal
greiðslumatið byggt á viðurkenndum viðmiðum. Þá skal lánveitandi með skriflegum
hætti ráða ábyrgðarmanni frá því að gangast í ábyrgð ef greiðslumat bendir til
þess að lántaki geti ekki efnt skuldbindingar sínar. Með sama hætti skal
lánveitandi ráða ábyrgðarmanni frá því að undirgangast ábyrgð ef aðstæður
ábyrgðarmanns gefa tilefni til. Í 5. gr. laganna segir að fyrir gerð
ábyrgðarsamnings skuli lánveitandi upplýsa ábyrgðarmann skriflega um þá áhættu
sem ábyrgð er samfara. Í 6. gr. laganna segir að ábyrgðarsamningur skuli vera
skriflegur og í honum skuli getið þeirra upplýsinga sem nefndar eru í 5. gr. og
skoðast þær sem hluti samningsins. Í lögunum er ekki kveðið nánar á um með hvaða
hætti lánveitandi skuli standa að athugun sinni samkvæmt 4. gr. laganna á því
hvort lántaki geti efnt skuldbindingar sínar eða með hvaða hætti hann skuli
kanna hvort aðstæður ábyrgðarmanns gefi tilefni til þess að rétt sé að ráða
honum frá því að undirgangast ábyrgð. Í athugasemdum við ákvæði 4. gr. í
frumvarpi því sem varð að lögum nr. 32/2009 kemur hins vegar fram að löggjafinn
hafi ekki talið þörf á því að slá föstum þeim viðmiðum sem leggja bæri til
grundvallar við greiðslumat, enda gæti framkvæmd í þeim efnum verið háð
blæbrigðum meðal lánveitenda. Aðalatriðið væri að matið væri forsvaranlegt og
byggðist á viðurkenndum viðmiðunum. Í því samhengi er nefnt að forsenda þess að
lánveitandi geti rækt skyldur sínar gagnvart ábyrgðarmanni sé að hann hafi lagt
mat sitt á greiðslugetu lántaka. Í athugasemdum við ákvæði 5. gr. í frumvarpinu
segir að markmið ákvæðisins sé að ábyrgðarmaður geri sér grein fyrir þeirri
fjárhagslegu áhættu sem hann undirgengst samfara undirritun ábyrgðarsamnings og
að upptalningin sé ekki tæmandi um hvaða upplýsingar þurfi að liggja fyrir við
gerð ábyrgðarsamnings. Aðalatriðið við skýringu á því hvort lánveitandi hafi
uppfyllt skyldu sína sé komin undir því hvort upplýst hafi verið um öll þau
atriði sem áhrif geta haft á áhættumat ábyrgðarmanns. Vanræksla lánveitanda við
samningsgerð geti leitt til þess að ábyrgðarmaður sé ekki bundinn við samning
sinn, a.m.k. ekki ef vitneskja um atriði hefði getað haft áhrif á ákvörðun
ábyrgðarmanns um að takast á hendur ábyrgð. Í athugasemdum við ákvæði 5. gr. er
sérstaklega áréttað að sönnunarbyrðin um að vanræksla hafi engin áhrif haft á
ákvörðun ábyrgðarmanns hvíli á lánveitanda. Fyrir liggur að við lántöku lántaka
hjá LÍN var hún ekki talin lánshæf hjá sjóðnum og til þess að fá námslán þurfti
hún að leggja fram fullnægjandi tryggingar í samræmi við reglur sjóðsins. LÍN
samþykkti sjálfskuldarábyrgð kæranda sem fullnægjandi tryggingu fyrir því að
veita lántaka námslán. Kærandi undirritaði sem ábyrgðarmaður skuldabréf vegna
námsláns lántaka þann 21. janúar 2011. Í skuldabréfinu kemur fram að
ábyrgðarmaður hafi verið upplýstur um greiðslugetu lántaka o.fl. atriði samkvæmt
5. gr. laga nr. 32/2009 og staðfest það með undirritun sinni á sérstaka
yfirlýsingu þar að lútandi sem skoðast sem hluti skuldabréfsins. Yfirlýsingin
sem ber heitið "Upplýsingar til ábyrgðarmanns" liggur frammi í málinu,
dagsett 21. janúar 2011 og er undirrituð af kæranda. Í yfirlýsingunni sem samin
er af LÍN, kemur fram í 2. tl. að LÍN hafi upplýst ábyrgðarmann "um
greiðslusögu lántakanda í samræmi við 4. gr. laga nr. 32/2009 eins og fram kemur
á meðfylgjandi bréfi". Þá segir í skjalinu að frekari upplýsingar um
greiðslugetu lántaka sé ekki að fá og vakin athygli á því að umrætt lán muni
ekki greiðast fyrr en 2 árum eftir að námi ljúki og að þá verði aðstæður lántaka
aðrar en í dag, þ.á m. greiðslugeta. Í málinu liggur fyrir afrit óundirritaðs
bréfs, dags. 20. janúar 2011, stílað á kæranda, þar sem fram kemur að kærandi
hafi verið tilnefnd sem ábyrgðarmaður fyrir námsmann sem hafi óskað eftir
námsláni hjá sjóðnum. Þá segir í bréfinu:
"Skv. 5. gr. laga nr.
32/2009 ber LÍN að senda öllum ábyrgðarmönnum m.a. upplýsingar um greiðslugetu
viðkomandi. Námsmaður er annað hvort með virka umsókn um greiðsluaðlögun eða
hefur fengið greiðsluaðlögun/frystingu á lánum og því gætu upplýsingar um
greiðslusögu viðkomandi verið fjarlægðar úr skrám Creditinfo. Þar sem ekki
liggja frekari upplýsingar um greiðslugetu hans til framtíðar er litið svo á að
þessar upplýsinga séu fullnægjandi."
Eins og áður hefur verið rakið
ber LÍN samkvæmt 1. mgr. 4. gr. ábml. að meta hæfi lántaka til að standa í
skilum með lán þar sem ábyrgðarmaður gengst í ábyrgð til tryggingar á efndum
lántaka. LÍN sem lánveitanda bar þannig að leggja mat sitt á greiðslugetu
lántaka og framkvæma greiðslumat. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi er
síðar varð að lögum nr. 32/2009 kemur fram að aðalatriðið sé að matið sé
forsvaranlegt og byggist á viðurkenndum viðmiðum. Telur málskotsnefnd að í
þessu sambandi hafi LÍN m.a. getað litið til þess greiðslumats sem framkvæmt er
hjá t.d. Íbúðalánasjóði og svo viðskiptabönkunum, og byggir á áralangri reynslu
þessara aðila við að greiðslumeta lántakendur til upplýsingar fyrir
ábyrgðarmenn. Þá vísast einnig í þessu sambandi til reglugerðar nr. 920/2013 um
gerð viðurkennds greiðslumats. Af hálfu LÍN virðist ekkert greiðslumat hafa
verið framkvæmt á lántaka heldur látið nægja könnun í vanskilaskrá CreditInfo. Í
upplýsingaskjali því sem kærandi undirritaði segir að LÍN hafi upplýst kæranda
um greiðslusögu lántaka eins og fram komi í meðfylgjandi bréfi. Í umræddu bréfi
eru engar upplýsingar um greiðslusögu lántaka heldur segir að námsmaður sé
"...annað hvort með virka umsókn um greiðsluaðlögun eða fengið
greiðsluaðlögun / frystingu á lánum og því gætu uppýsingar um greiðslusögu hafa
verið fjarlægðar úr skrám Creditinfo." Síðan segir í bréfi LÍN: "Þar sem
ekki liggja fyrir frekari upplýsingar um greiðslugetu hans til framtíðar er
litið svo á að þessar upplýsingar séu fullnægjandi." Málskotsnefnd fellst
ekki á það með LÍN að ekki hafi verið unnt að framkvæma greiðslumat m.a með
vísun til eðlis lánveitingarinnar og skorts á upplýsingum um lántaka. Verður að
telja að LÍN standi margar leiðir til boða í þessu sambandi sbr. hér fyrr og
geti einnig t.d. byggt á eigin gagnagrunni um lántökur og endurgreiðslur
námslána, mati á umsókn lántaka og áætlun um lán til hans, auk hefðbundinna
gagna um lántaka s.s. skattskýrslur og greiðslusögu úr vanskilaskrám. Að mati
málskotsnefndar skiptir hér heldur ekki máli að námslán eru lán sem veitt eru
lántaka á félagslegum grunni og niðurgreiddum kjörum. Gagnvart ábyrgðarmanni
skipta þau sjónarmið engu máli þegar til þess kemur að ábyrgðarsamningur verður
virkur og innheimta lánsins hefst. Innheimtan er framkvæmd á grundvelli
kröfuréttarlegra sjónarmiða af hálfu LÍN en innan ramma laga um sjóðinn sem
gerir t.d. svigrúm sjóðsins til samninga við ábyrgðarmenn þrengra en gerist
almennt hjá lánastofnunum. Þá er ljóst að eftir að breytingarlög nr. 78/2009 á
lögum nr. 21/1992 um LÍN tóku gildi krefst LÍN eingöngu ábyrgðarmanns þegar
lántaki er ekki talinn lánshæfur samkvæmt reglum sjóðsins m.a. vegna þess að
hann er á vanskilaskrá. Að mati málskotsnefndar gefur það LÍN sérstaka ástæðu
til að vanda vel til könnunar málsins og upplýsingagjafar til ábyrgðarmanns um
stöðu lántaka og áhættuna sem því fylgir fyrir hann að takast á hendur
sjálfskuldarábyrgð á lánum lántaka. LÍN sem lánveitanda bar samkvæmt framansögðu
að leggja mat sitt á greiðslugetu lántaka og framkvæma greiðslumat sem byggt er
á viðurkenndum viðmiðum. Vísast nánar um þetta atriði til umfjöllunar
málskotsnefndar í fjölmörgum úrskurðum nefndarinnar t.d. í málum nr. L-50/2013,
L-58/2013, L-20/2015 og L-20/2016. Af ákvæðum laga nr. 32/2009 leiðir síðan að
þegar einstaklingsbundið greiðslumat leiðir í ljós að líkur séu á því að
námsmaður geti ekki efnt skuldbindingar sínar beri LÍN skylda til þess að
ráðleggja ábyrgðarmanni, skriflega og með skýrum hætti, frá því að gangast í
ábyrgð. Sjá einnig dóma Héraðsdóms Reykjavíkur í málum nr. E-2270/2015 og
E-3014/2016. Þegar litið er til þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu verður
ekki séð að LÍN hafi lagt mat á greiðslugetu lántaka sem kærandi gekkst í ábyrgð
fyrir. Er ekki annað að sjá en að LÍN hafi einungis athugað hvort til væru
upplýsingar um lántaka hjá CreditInfo og þegar ekki fundust upplýsingar um
greiðslusögu lántaka hjá Creditinfo voru fyrrgreindar upplýsingar í bréfi LÍN
dagsettu 20. janúar 2011 látnar nægja til ábyrgðarmanns. Að mati málskotsnefndar
getur sú athugun sem fram fór í þessu máli ekki talist viðunandi til þess að
kröfur 4. gr. ábml. teljist uppfylltar og þar með að forsendur væru fyrir hendi
til þess að LÍN gæti fullnægt upplýsingaskyldu sinni gagnvart kæranda sem
ábyrgðarmanni samkvæmt b-lið 1. mgr. 5. gr. laganna. Verður að telja að LÍN hafi
að lágmarki verið rétt að afla upplýsinga um tekjur lántaka og skuldastöðu að
öðru leyti til þess að mat sjóðsins samkvæmt 1. og 2. mgr. 4. gr. laganna gæti
talist forsvaranlegt. Án upplýsinga um greiðslugetu lántaka hafði kærandi í
reynd engar forsendur til að meta hvaða líkur væru á vanskilum skuldarinnar og
þar með hvort á ábyrgð hennar myndi reyna. Í málinu liggur fyrir undirritun
kæranda á upplýsingabréf LÍN um að kærandi sem fyrirhugaður ábyrgðarmaður hafi
verið upplýstur um greiðslusögu lántaka í bréfi sem sagt er meðfylgjandi
upplýsingabréfi LÍN. Kærandi kannast ekki við að hafa séð umrætt fylgibréf. Þó
svo að lagt yrði til grundvallar að umrætt bréf hafi borist kæranda liggur fyrir
að engar upplýsingar er að finna í því um greiðslusögu lántaka eins og áður
hefur verið rakið. Að mati LÍN mátti kæranda þó miðað við þessar upplýsingar
vera ljós áhættan af því að gangast í sjálfskuldarábyrgð fyrir lántaka og að
lántaki hafi ekki verið lánshæfur hjá sjóðnum. Málskotsnefnd bendir á að í bréfi
LÍN er tekið fram að lántaki sé annað hvort í greiðsluskjóli eða með frystingu
lána en jafnframt er vísað til þess að gögnin séu fullnægjandi og að
greiðslugeta lántaka verði önnur er námi ljúki. Í ljósi þessa og að LÍN vanrækti
að leggja fram mat á greiðslugetu lántaka verður ekki séð að bréf LÍN hafi gefið
ábyrgðarmanni tilefni til að efast um burði lántaka til að taka námslán að
fjárhæð þeirri sem um ræðir. Er hér til þess að líta að við þessar aðstæður bar
LÍN samkvæmt ákvæðum ábml. að gera hið gagnstæða, þ.e. að ráða kæranda frá því
að gangast í ábyrgðina. Í samræmi við markmið laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn
og þau sjónarmið sem fram koma í athugasemdum í frumvarpi til laganna og rakin
voru hér fyrr verður að telja að vanræksla á því að leggja viðhlítandi mat á
greiðslugetu lántaka og aðstæður ábyrgðarmanns geti verið meðal atvika sem falla
undir 36. gr. samningalaga og geta leitt til þess að ábyrgðarskuldbindingu verði
vikið til hliðar. Það er hins vegar forsenda þess að ákvæði 36. gr. verði beitt
með þessum hætti að vanræksla á að fylgja ákvæðum 4. og 5. gr. ábml. hafi haft
áhrif á ákvörðun ábyrgðarmanns um að gangast í ábyrgð. Sá sem reisir kröfu á
grundvelli ábyrgðar ber þá almennt sönnunarbyrði fyrir því að vanrækslan hafi
ekki haft áhrif. Að mati málskotsnefndar verður ekkert fullyrt um hvort kærandi
hefði verið reiðubúin að takast á hendur sjálfsskuldarábyrgð vegna lánsins ef
LÍN, sem opinber lánastofnun, hefði með skriflegum hætti ráðið henni frá því að
gangast í slíka ábyrgð með vísan til þess að greiðslumat lántaka, samkvæmt
viðurkenndum viðmiðum, hefði reynst neikvætt, sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna.
Málskotsnefnd telur að LÍN verði að bera hallann af því að ábyrgðaryfirlýsingin
var veitt án þess að sjóðurinn hafi viðhaft þau vönduðu vinnubrögð sem lög um
ábyrgðarmenn mæla fyrir um. Að mati málskotsnefndar var greiðslugeta lántaka
ekki metin þannig að fullnægt væri ákvæðum laga um ábyrgðarmenn en til þess bar
LÍN skylda samkvæmt fortakslausum ákvæðum laganna. Er það mat málskotsnefndar að
kærandi hafi vegna þessa ekki getað gert sér grein fyrir þeirri áhættu sem fólst
í því að gangast í sjálfskuldarábyrgð fyrir námslánum lántaka en á LÍN hafi
hvílt sú ótvíræða lagaskylda að upplýsa hana um þá áhættu með fullnægjandi
hætti. Ekki verður heldur séð að LÍN hafi lagt mat á aðstæður kæranda sem
ábyrgðarmanns til þess að geta tekið afstöðu til þess hvort rétt væri að ráða
henni frá því að undirgangast ábyrgð, eins og kveðið er á um í 3. mgr. 4. gr.
ábml. Málskotsnefndin telur að LÍN hafi brugðist þeirri ríku skyldu sem á
sjóðnum hvílir, annars vegar þeirri skyldu að láta fara fram einstaklingsbundið
greiðslumat á lántaka og hins vegar að upplýsa ábyrgðarmann skriflega um þá
áhættu sem ábyrgð er samfara, áður en hún tókst ábyrgð þessa á hendur og eftir
atvikum að ráða henni frá því að gangast í ábyrgð á námslánum lántaka. Þar sem
LÍN fór ekki eftir skýrum fyrirmælum laga um ábyrgðarmenn þegar kærandi gekkst í
ábyrgð gagnvart sjóðnum og þegar litið er til þess aðstöðumunar sem er á kæranda
annars vegar og svo LÍN hins vegar, og svo þegar litið er til málsatvika í heild
sinni, þá telur málskotsnefnd það ósanngjarnt hjá LÍN að bera fyrir sig
ábyrgðarsamninginn gagnvart kæranda. Ber því með vísan til 36. gr. samningalaga
nr. 7/1936 að fallast á kröfur kæranda um niðurfellingu ábyrgðar hennar á
umræddum námslánum.
Úrskurðarorð
Ákvörðun stjórnar LÍN frá 30. ágúst 2016 í máli kæranda er felld úr gildi.