Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-03/2017 - Endurgreiðsla námslána - synjun á endurútreikningi vegna tekjutengdrar afborgunar

Úrskurður

Ár 2017, miðvikudaginn, 20. september 2017 kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-3/2017:

Kæruefni

Með kæru dagsettri 31. janúar 2017, sem barst málskotsnefnd 22. febrúar 2017, kærðu A og B, Danmörku (hér eftir nefnd kærendur), ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 1. desember 2016, þar sem kærendum var synjað um undanþágu frá fresti til að biðja um endurútreikning afborgana af námslánum. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 22. febrúar 2017 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 14. mars 2017. Með bréfi dagsettu 17. mars 2017 var kærendum gefinn kostur á að gera athugasemdir við svör stjórnar LÍN. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dagsettu 4. apríl 2017. Með bréfi dagsettu 31. júlí 2017 óskaði málskotsnefnd frekari upplýsinga vegna málsins frá stjórn LÍN. Svör stjórnar LÍN bárust með bréfi dagsettu 10. ágúst 2017.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærendur, sem hafa verið búsett erlendis frá hausti 2012, eru bæði lántakar hjá LÍN. Með bréfi LÍN til kærenda þann 26. júlí 2016 var þeim bent á að vegna gjalddaga árlegrar viðbótargreiðslu 1. september 2016, sem háð er tekjum fyrra árs, þyrftu þau að skila inn erlendu skattframtali eða annarri opinberri staðfestingu á tekjum erlendis fyrir 12. ágúst 2016. Þegar engin viðbrögð bárust frá kærendum var þeim áætlaður tekjustofn og afborgunin 1. september 2016 ákvörðuð í samræmi við það, 500.757 kr. hjá kæranda A og 379.983 kr. hjá kæranda B. Að beiðni kærenda var afborgun þeirra beggja skipt í sex mánaðarlegar greiðslur í fyrsta skipti 1. september 2016. Kærendur inntu bæði fyrstu greiðsluna af hendi. Með tölvubréfi til LÍN þann 1. nóvember 2016 óskuð kærendur eftir því að þær fimm greiðslur sem eftir stóðu af samkomulagi þeirra við LÍN vegna septembergjalddagans yrðu felldar niður. Sögðust þau bæði vera án fastrar atvinnu og að tekjur þeirra hefðu verið langt undir áætlun LÍN. Með bréfi þeirra fylgdu dönsk skattframtöl vegna ársins 2015. Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN skal sækja um endurútreikning viðbótargreiðslu eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar, þ.e. í síðasta lagi 31. október ár hvert. Með tölvubréfi LÍN 8. nóvember 2016 var beiðni kærenda synjað með vísan til þess að ósk þeirra um endurútreikning hefði ekki borist innan 60 daga frestsins og þeim jafnframt bent á að þau gætu óskað eftir ákvörðun stjórnar LÍN um synjunina. Þann 16. nóvember 2016 sendu kærendur erindi til stjórnar LÍN þar sem þau óskaðu eftir undanþágu vegna endurútreiknings, en stjórn LÍN synjaði erindinu með ákvörðun 1. desember s.á.

Sjónarmið kæranda.

Kærendur segjast hafa í október 2016 fengið símleiðis þær upplýsingar frá LÍN að fresturinn til að sækja um endurútreikning væri 60 dagar. Í því samtali hafi ekkert komið fram um að miða bæri við 1. september sem gjalddaga. Þar sem kærendur hafi gert samkomulag við LÍN um greiðsludreifingu á afborguninni 1. september hafi þau talið að 60 daga fresturinn reiknaðist frá hverjum og einum gjalddaga samkomulagsins fyrir sig. Þau hafi þegar greitt septembergreiðsluna og ekki væri farið fram á niðurfellingu hennar, heldur eingöngu þeirra greiðslna sem á eftir komu. Þau hafi því skilað upplýsingum um tekjur sínar í góði trú og verið vel innan frestsins hvað þær greiðslur varðar. Þá benda kærendur á að þótt miðað væri við gjalddagann 1. september 2016 hafi tekjuupplýsingarnar borist LÍN um klukkan 9 morguninn eftir að frestinn rann út. Þótt komið hafi verið fram yfir miðnætti verði ekki séð að sú seinkun hafi á nokkurn hátt haft áhrif getu sjóðsins til að afgreiða umsóknina með eðlilegum hætti. Þau hafi ekki getað sent dönsk skattframtöl sín fyrr vegna bókhaldsvillu og af þeim sé ljóst að hin áætlaða afborgun sé í engu samræmi við tekjur. Byggja kærendur á því að synjun LÍN á umsókn þeirra um endurútreikning taki ekki tillit til réttmætra hagsmuna þeirra og gangi lengra en nauðsyn ber til og fari því gegn meginreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um meðalhóf.

Sjónarmið stjórnar LÍN.

Stjórn LÍN bendir á að kærendur hafi ekki vegna sent beiðni um endurútreikning á tekjutengdri afborgun og upplýsingar um tekjur fyrr en 1. nóvember 2016. Frestur til að sækja um endurútreikning sé 60 dagar frá gjalddaga samkvæmt grein 8.4 í úthlutunarreglum LÍN 2016-2017, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN. Þar sem umsókn kæranda hafi borist eftir þann frest sé engin heimild til að taka til greina umsókn þeirra. Í viðbótarupplýsingum sem LÍN sendi að beiðni málskotsnefndar kemur fram að allt frá því að kærendur hafi flutt til útlanda haustið 2012 hafi sjóðurinn þurft að áætla tekjur þeirra með heimild í 3. mgr. 10. gr. laga um LÍN. Tekjuárið 2013 hafi tekjur kæranda A verið áætlaðar 10.500.000 kr., en kæranda B 8.000.000 kr. Tekjuárið 2014 hafi tekjur kæranda A verið áætlaðar 11.600.000 kr. og kæranda B 8.800.000 kr. Tekjur þeirra árið 2015, sem mál þetta snúist um, hafi verið áætlaðar 13.000.000 kr. hjá kæranda A en 10.500.000 kr. hjá kæranda B. LÍN kveður tekjutengda afborgun lánþega hjá sjóðnum sem búsettir eru erlendis, og ekki eru skattskyldir hér á landi og hafa ekki skilað inn upplýsingum um tekjur, myndaða út frá áætluðum tekjum. Stjórn LÍN ákveði árlega tekjuáætlun fyrir árið. Tekjuviðmið séu metin mismundandi eftir prófgráðum greiðenda en við ákvörðun sé m.a. horft til kjarakönnunar BHM og launavísitölu ársins. Markmið upphæða tekjuáætlunar innan hvers flokks sé að áætlaðar tekjur sé ekki lægri en raunverulegar tekjur greiðenda þar sem þær eigi frekar að hvetja en að letja greiðendur til að skila inn tekjuupplýsingum. Við ákvörðun áætlunar hvers árs sé jafnframt horft til hlutfalls greiðenda í hverjum flokki sem ákveði að greiða samkvæmt áætluninni frekar en að skila upplýsingum um tekjur. Á árinu 2015 hafi 31% greiðenda námslána greitt miðað við áætlun. Tekjuárið 2015 hafi LÍN miðað við að kærandinn A hefði lokið meistaragráðu en kærandi B hefði lokið grunnnámi/annarri prófgráðu. LÍN áréttar að greiðendum gefist á hverju ári kostur að skila inn réttum upplýsingum um tekjur innan tilskilins frests. Greiðendur séu jafnframt minntir á það með sérstakri tilkynningu áður en frestur til umsóknar um endurútreikning byrjar að líða.

Niðurstaða

Í 8. gr. laga nr. 21/1992 segir að árleg endurgreiðsla ákvarðist í tvennu lagi, annars vegar sé um að ræða fasta greiðslu óháða tekjum lánþega en hins vegar viðbótargreiðslu sem sé háð tekjum fyrra árs. Tekjutengda afborgunin (seinni ársgreiðsla) er í öllum tilvikum með gjalddaga 1. september, sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 478/2011 og grein 8.4 í úthlutunarreglum sjóðsins 2016-2017. Fjárhæð hennar miðast við ákveðinn hundraðshluta af tekjustofni ársins á undan sbr. 3. mgr. 8. gr. og 10. gr. laga 21/1992. Í 2. málsl. 3. mgr. 10. gr. laganna segir:

"Sé lánþegi á endurgreiðslutímanum ekki skattskyldur á Íslandi af öllum tekjum sínum og eignum skal honum gefinn kostur á að senda sjóðnum staðfestar upplýsingar um tekjur sínar og skal árleg viðbótargreiðsla ákveðin í samræmi við það. Geri hann það ekki eða telja verður upplýsingar hans ósennilegar og ekki unnt að sannreyna tekjustofn samkvæmt því skal stjórn sjóðsins áætla honum tekjustofn til útreiknings árlegrar viðbótargreiðslu".

Þá segir í 1. og 2. mgr. 11.gr.:

Lánþegi á rétt á endurútreikningi árlegrar viðbótargreiðslu sé hún byggð á áætluðum tekjum. Hann skal þá sækja um endurútreikninginn eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar og leggja fyrir stjórn sjóðsins bestu fáanlegar upplýsingar um tekjurnar. Endurútreikningur skv. 1. mgr. á árlegri viðbótargreiðslu skal gerður þegar sjóðnum hafa borist staðfestar upplýsingar um tekjurnar. Komi þá í ljós að tekjustofn hafi verið of hátt áætlaður eða oftalinn og lánþegi því innt af hendi of háa greiðslu skal honum endurgreidd hin ofgreidda fjárhæð með almennum vöxtum óverðtryggðra bankalána.

Þar sem kærendur eru með lögheimili erlendis og þar með ekki skattskyld á Íslandi fyrir tekjum sínum og eignum, og þar sem þau skiluðu ekki tekjuupplýsingum til sjóðsins fyrir tilskilinn frest, var sjóðnum rétt að áætla þeim tekjustofn til útreiknings árlegrar viðbótargreiðslu. Fyrir liggur að kærendur lögðu ekki fram upplýsingar um tekjur sínar fyrr en 1. nóvember 2016 en frestur til þess rann út 30. október s.á., sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN og grein 8.4 í úthlutunarreglum LÍN 2016-2017. Kærendur bera því við að þau hafi ekki getað sent dönsk skattframtöl sín fyrr vegna "bókhaldsvillu". Það útilokaði ekki að þau sæktu um endurútreikning innan frestsins og sendu síðan LÍN upplýsingar um tekjurnar þegar þær lágu fyrir, sbr. 1. og 2. mgr. 11. gr. laga um LÍN, sbr. og grein 8.4 í úthlutunarreglum LÍN. Samkomulag sem kærendur gerðu við LÍN um að dreifa greiðslum vegna afborgunarinnar sem féll í gjalddaga 1. september 2016 í sex hluta breytti hvorki né framlengdi gjalddaga afborgunarinnar, sem eins og fyrr sagði er ákveðinn í reglugerð sjóðsins og úthlutunarreglum. Það er almennt viðurkennd meginregla að stjórnvöldum beri ekki skylda til að taka mál til efnismeðferðar, sem borist hafa eftir lögskipaðan frest, nema sérstakar undanþágur þar að lútandi eigi við. Málskotsnefnd hefur í fjölmörgum úrskurðum sínum lagt áherslu á mikilvægi þess að festa ríki um þá fresti sem námsmönnum eru settir og að almennt beri að vísa frá erindum sem berast að liðnum fresti nema í undantekningartilvikum, s.s. þegar tekst að sanna að um sé að ræða óviðráðanleg atvik eða mistök hjá LÍN. Kærendur sóttu ekki um endurútreikning fyrr en 60 daga lögbundinn frestur til þess var liðinn. Telur málskotsnefnd að ekki liggi fyrir heimild að lögum fyrir nefndina að veita kærendum undanþágu frá umræddum fresti. Þess vegna þurfa þau að sæta því að LÍN áætli þeim tekjustofn til útreiknings endurgreiðslu eins og kveðið er á um í 3. mgr. 10. gr. laga nr. 21/1992. Í úrskurðum málskotsnefndar í málum nr. L-2/2012 og L-7/2012 kemur fram sú afstaða að þegar greiðandi þarf að sæta áætlun þá beri LÍN að gæta að því að slík áætlun sé réttilega framkvæmd og í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga og laga nr. 21/1992. Málskotsnefnd ber því að huga að því hvernig LÍN beitti áætlunarheimild 3. mgr. 10. gr. laganna í tilviki kærenda. Með þeirri heimild sem felst í framangreindri 10. gr. laga nr. 21/1992 er LÍN veitt vald til að taka einhliða ákvörðun um hvaða forsendur verða lagðar til grundvallar við úrlausn máls vegna þess að sá sem ákvörðun beinist að hefur ekki orðið við beiðni LÍN um láta af hendi upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að taka efnislega rétta ákvörðun í máli hans. Við þær aðstæður verður að játa LÍN ákveðið svigrúm til mats við áætlun á tekjum lánþega, sem þó takmarkast af rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og reglu um meðalhóf sem mælt er fyrir um í 12. gr. s.l. Í tilviki því sem hér um ræðir takmarkast möguleikar LÍN til að framkvæma einstaklingsbundið mat þar sem eðli málsins samkvæmt er skortur á upplýsingum til að miða við þar sem greiðendur hafa ekki sinnt upplýsingaskyldu sinni. Í áliti sínu í máli nr. 5321/2008 hefur Umboðsmaður Alþingis tekið fram þegar svo háttar sé LÍN heimilt að setja almenn viðmið til að stuðla að samræmi og jafnræði í beitingu áætlana. Jafnframt að við beitingu slíkra viðmiða verði að játa LÍN ákveðið svigrúm til mats á tekjum. Þurfa slík viðmið að byggja á málefnalegum sjónarmiðum, en við val á slíkum sjónarmiðum þarf að líta til þeirra hagsmuna sem viðkomandi lög eiga að tryggja. Markmið endurgreiðslureglna laga nr. 21/1992 um LÍN er að viðbótargreiðslan, sem innheimt er í september, endurspegli greiðslugetu greiðanda. Í umræddu áliti umboðsmanns kom fram hann taldi það byggja á málefnalegum grundvelli að setja föst viðmið er endurspegluðu tekjur greiðenda bæði hvað varðaði menntun og starf viðkomandi. Samkvæmt upplýsingum LÍN sem lýst er hér að framan áætlar sjóðurinn tekjuviðmið mismundandi eftir prófgráðum greiðenda en horfir m.a. við þá ákvörðun til kjarakönnunar BHM og launavísitölu ársins. Í tilfelli kærenda hafi sjóðurinn allt frá því að þau fluttu til útlanda haustið 2012 þurft að áætla tekjur þeirra, árið 2013 10.500.000 kr. hjá kæranda A og 8.000.000 kr. hjá B. Árið 2014 hafi tekjur kæranda A verið áætlaðar 11.600.000 og kæranda B 8.800.000 kr. Tekjur fyrir árið 2015, sem sjóðurinn áætlaði kærendum vegna útreiknings árlegrar viðbótargreiðslu 1. september 2016 voru 13.000.000 kr. hjá kæranda A, en 10.500.000 kr. hjá kæranda B. Miðað hafi verið við að kærandi A hefði lokið meistaragráðu en kærandi B grunnnámi eða annarri prófgráðu. Ljóst er að í áætlunum sínum um tekjur kærenda hefur LÍN reynt að finna ákveðna nálgun þar sem litið er til menntunar viðkomandi og upplýsinga um meðaltekjur. Þá er upplýst að árin 2013 og 2014 voru tekjur kærenda áætlaðar af LÍN þar sem þau sendu sjóðnum ekki staðfestar upplýsingar um tekjur sínar. Fyrir liggur að þau undu þeim áætlunum og greiddu af lánum sínum miðað við þær. Af því telur málskotsnefnd ljóst að LÍN hefur í tilvikum kærenda horft til almennra viðmiða sem byggð eru á málefnalegum viðmiðum, þ.e. bæði námsgráðu og meðaltekna, og einnig horft til þess kærendur hafi í tvígang áður sætt áætlunum og greitt samkvæmt þeim, sem mátti gefa til kynna hverjar raunverlegar tekjur þeirra væru. Það er mat málskotsnefndar að fyrrgreindar tekjuáætlanir sem LÍN notaði í tilvikum kærenda vegna skorts á upplýsingum frá þeim séu byggðar á málefnalegum sjónarmiðum og feli því hvorki í sér brot á rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 né reglu um meðalhóf sem mælt er fyrir um í 12. gr. laganna. Er ákvörðun stjórnar LÍN um að synja kærendum um undanþágu frá fresti til að biðja um endurútreikning afborgunar af námsláni því staðfest.

Úrskurðarorð

Ákvörðun stjórnar LÍN í máli kærenda frá 1. desember 2016 er staðfest.

Til baka