Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-09/2017 - Niðurfelling ábyrgðar - synjun um niðurfellingu ábyrgðar á námsláni

Úrskurður

Ár 2017, mánudaginn 2. október, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-9/2017.

Kæruefni

Málskotsnefnd barst þann 13. júní 2017 kæra kærandi dagsett 8. sama mánaðar, á þeirri ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 16. mars 2017 að synja kröfu kæranda um niðurfellingu á sjálfskuldarábyrgð námsláns sem hún hafði gengist í fyrir fyrrverandi eiginmann sinn. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna samdægurs og gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sama dag sent afrit þess bréfs. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 10. júlí 2017 og var afrit þess sent kæranda 12. sama mánaðar og henni jafnframt veittur frestur til að koma að frekari athugasemdum sínum. Ekki bárust nánari athugasemdir kæranda.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi gekkst í ábyrgð á tveimur námslánum eiginmanns síns í ágúst 2008. Í nóvember 2012 óskaði kærandi eftir því við stjórn LÍN að sjálfskuldarábyrgð hennar á námslánum fyrrum eiginmanns yrði felld niður. Með ákvörðun stjórnar LÍN þann 13. desember 2012 var erindi kæranda synjað á þeim grundvelli að LÍN hefði ekki heimild til þess að fella niður ábyrgðir nema ný trygging kæmi í staðinn. Síðla árs 2013 höfðaði LÍN dómsmál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur kæranda og skuldara námslánsins (eiginmanninum fyrrverandi) um greiðslu námslánsskuldarinnar sem þá hafði verið í vanskilum síðan 1. mars 2011 og hafði skuldin öll verið gjaldfelld í ágúst 2013. Kærandi fór fram á það við LÍN á árinu 2014 að fallið væri frá innheimtunni á hendur henni. Með ákvörðun stjórnar LÍN 6. febrúar 2014 var erindi hennar synjað og með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 13. mars 2014 var lántaka og kæranda, sem ábyrgðarmanni, gert sameiginlega að greiða dómkröfu málsins. Í lok desember 2016 barst LÍN að nýju erindi kæranda þar sem gerð var krafa um að ábyrgð hennar yrði felld niður vegna heilsubrests og fjárskorts. Farið var með þá beiðni af hálfu stjórnar LÍN sem endurupptöku máls, þar sem um hafi verið að ræða sömu kröfu og stjórn sjóðsins hafði hafnað í lok árs 2012.

Sjónarmið kæranda

Kærandi fer fram á niðurfellingu á sjálfskuldarábyrgð námslánsins vegna bágra fjárhagsaðstæðna sem megi rekja til alvarlegra veikinda hennar. Hún þjáist af ýmsum alvarlegum sjúkdómum sem valdið hafa óvinnufærni hennar frá árinu 2011 og ekki sé líklegt að hún fái bata eða komist út á vinnumarkað á ný vegna þeirra. Veikindunum hafi fylgt mikil fjárútlát sem auk lágra tekna kæranda valdi því að hún geti ekki greitt af þeirri gjaldföllnu skuld sem hún sé í ábyrgð fyrir. Fjárhagsörðugleikar hennar hafi m.a. valdið því að hún missti íbúð sína á nauðungarsölu í nóvember 2011 og í maí 2012 hafi hún þurft að gera samning við lánadrottna sína um greiðsluaðlögun. Þrátt fyrir greiðsluaðlögun sé skuldastaða hennar mjög erfið, en hún beri enn verulega greiðslubyrði af lífeyrissjóðsláni sem foreldrar hennar séu í ábyrgð fyrir, auk þess sem hún skuldi sjálf námslán. Ábyrgðarskuldin stafi frá þeim tíma er hún var í hjúskap og við fjárskiptin vegna skilnaðar hafi lántakinn skuldbundið sig til að greiða af láninu. Það hafi hann ekki gert og því sé kröfunni beint gegn henni. Kærandi bendir á að stjórn LÍN sé heimilt að að veita lánþega undanþágu frá árlegri endurgreiðslu námsláns við tilteknar aðstæður, svo sem ef nám, atvinnuleysi, veikindi eða aðrar sambærilegar ástæður valdi verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega, sbr. 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992. Telur kærandi að eðlilegt sé að líta til sömu sjónarmiða varðandi endurgreiðslu ábyrgðarmanna og litið er til við endurgreiðslu lántaka. Kærandi sé sjálf með námslán hjá LÍN sem hún hyggist standa í skilum með, en telur sig ekki geta staðið undir greiðslu ábyrðarskuldarinnar að auki vegna bágrar fjárhagsstöðu. Kærandi tekur fram að hjón beri ekki ábyrgð á skuldum hvors annars og við hjúskaparslit hafi eignastaða þeirra beggja verið neikvæð. Ábyrgð hennar sé aðeins tilkomin vegna samvistanna við lántaka og á þeirri forsendu að hjónabandið yrði til langs tíma. Sú forsenda hafi brugðist skömmu síðar vegna óreglu eiginmannsins og persónubresta. Hún hafi á engan hátt notið námslánanna heldur hafi þau eingöngu runnið til eiginmannsins fyrrverandi. Þá vísar kærandi til þess að þegar hún veitti ábyrgðina hafi LÍN ekki viðhaft þau vinnubrögð sem lög um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 mæli fyrir um. Þannig hafi lántaki ekki undirgengist mat um greiðslugetu né hafi kærandi verið upplýst um þá áhættu sem falist gæti í að undirgangast ábyrgð, sbr. einkum b. lið 5. gr. laganna. Þar sem LÍN hafi ekki farið eftir skýrum fyrirmælum laga um ábyrgðarmenn þegar kærandi gekkst í ábyrgðina, og þegar litið væri til þess aðstöðumunar sem sé á stöðu hennar og LÍN og málsatvika í heild sinni telji kærandi það ósanngjarnt af hálfu LÍN að bera ábyrgðarsamninginn fyrir sig gagnvart henni.

Sjónarmið stjórnar LÍN

Af hálfu stjórnar LÍN er vísað til þess að ekkert nýtt hafi komið fram í máli kæranda sem breytt geti niðurstöðu stjórnar frá árinu 2012. Kæranda hafi verið sendar tilkynningar samkvæmt 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn frá áramótum 2011/2012, en að öðru leyti gildi ábyrgðarmannalögin ekki um ábyrgðarskuldbindingu hennar sem hún tók við árið 2008. Þó að kærandi glími við veikindi sem hafi áhrif á greiðslugetu hennar hafi stjórn sjóðsins enga heimild samkvæmt lögum til þess að fella niður ábyrgðir. Ábyrgð ábyrgðarmanns geti einungis fallið niður af nýr ábyrgðarmaður kom í hans stað eða ef lántaki setji aðra tryggingu sem sem stjórn sjóðsins telji fullnægjandi, sbr. 7. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN. Niðurstaða stjórnar LÍN í máli kæranda sé því í samræmi við lög og reglur og einnig í samræmi við sambærilegar ákvarðanir stjórnar LÍN og beri því að staðfesta.

Niðurstaða

Eins og fjallað er um hér að framan óskaði kærandi upphaflega eftir því við stjórn LÍN í lok nóvember 2012 að ábyrgð hennar á námslánum fyrrum eignmanns yrði felld niður. Því hafnaði stjórn LÍN með úrskurði þann 13. desember 2012. Þann úrskurð kærði kærandi ekki til málskotsnefndar, en frestur til þess er þrír mánuðir samkvæmt 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi óskaði eftir því í erindi til stjórnar LÍN þann 13. júní 2017 að mál hennar yrði tekið til meðferðar á ný og ábyrgð hennar felld niður. Stjórn LÍN féllst á að fjalla um mál hennar að nýju, en komst með hinni kærðu ákvörðun að sömu niðurstöðu og fyrr, að sjóðurinn hefði ekki lagaheimild til að fella ábyrgðina niður nema ný trygging kæmi í staðinn. Kærandi vísar til þess að þegar hún veitti ábyrgðina hafi LÍN ekki viðhaft þau vinnubrögð sem lög um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 mæli fyrir um. Þannig hafi lántaki ekki undirgengist mat um greiðslugetu né hafi kærandi verið upplýst um þá áhættu sem falist gæti í að undirgangast ábyrgð, sbr. einkum b. lið 5. gr. laganna. Þar sem LÍN hafi ekki farið eftir skýrum fyrirmælum laga um ábyrgðarmenn þegar kærandi gekkst í ábyrgðina, og þegar litið væri til þess aðstöðumunar sem sé á stöðu hennar og LÍN og málsatvika í heild sinni telji kærandi það ósanngjarnt af hálfu LÍN að bera fyrir sig ábyrgðarsamninginn gagnvart henni. Í máli þessu er upplýst að LÍN höfðaði mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur kæranda og lántaka síðla árs 2013 til greiðslu námslánsskuldarinnar, en vegna vanskila hafði öll skuldin verið felld í gjalddaga. Í héraðsdómsmálinu átti kærandi þess kost að koma að vörnum og bar því m.a. við að víkja bæri til hliðar sjálfskuldarábyrgð hennar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga þar sem ósanngjarnt væri af LÍN að bera ábyrgðina fyrir sig. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 13. mars 2014 í máli E-4308/2013 var vörnum kæranda hafnað og hún og lántakinn sameiginlega dæmd til að greiða LÍN námlánsskuldina. Þessum dómi var ekki áfrýjað. Með því er ljóst að LÍN hefur fengið endanlega dóm á hendur kæranda um greiðslu á hinni umþrætti sjálfskuldarábyrgð sem ágreiningur þessa máls snýst um. Af reglunni um þrígreiningu ríkisvaldsins leiðir að málskotsnefnd er bundin af þeim dómi sem fyrir liggur um greiðsluskyldu kæranda og verður sú niðurstaða ekki endurskoðuð af málskotsnefnd. Málskostnefnd telur rétt að geta þess að ekki er hald í því sjónarmiði kæranda að LÍN hafi farið gegn fyrirmælum laga um ábyrgðarmenn þar sem kærandi gekkst í sjálfskuldarábyrgðina á árinu 2008, en lög um ábyrgðarmenn öðluðust gildi 4. apríl 2009 og sbr. 12. gr. eiga 4., 5. og 1. mgr. 6. gr. laganna um stofnun, efni og form ábyrgðarsamninga ekki við um ábyrgðir sem stofnað hefur verið til fyrir gildistöku laganna. Kærandi hefur lýst því að vegna alvarlegra veikinda hennar og óvinnufærni til margra ára sé fjárhagsstaða hennar mjög erfið og hún hafi enga burði til þess að greiða ábyrgðarskuldina og beri því að falla ábyrgð hennar niður. Ákvæði laga nr. 21/1992 um LÍN veita stjórn sjóðsins ekki neinar heimildir til niðurfellingar ábyrgða nema fullnægjandi tryggingar hafi verið settar í staðinn. Kemur þetta fram í 7. mgr. 6. gr. laga um LÍN þar sem segir að ábyrgð ábyrgðarmanns geti fallið niður enda setji námsmaður aðra tryggingu sem stjórn sjóðsins meti fullnægjandi. Málskotsnefnd tekur hins vegar fram að hún hefur í fyrri úrskurðum, m.a. í máli nr. L-16/2014, bent á að LÍN hafi ákveðið svigrúm til samninga við ábyrgðarmenn þegar lán hafa verið gjaldfelld m.a. með það fyrir augum að auka líkur á því að sjóðurinn fái fullar efndir viðkomandi ábyrgðarskuldbindingar. Þar sem ekki er heimild að lögum til að fallast á kröfur kæranda um niðurfellingu kröfunnar er ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda staðfest.

Úrskurðarorð

Ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda frá 28. október 2016 í máli kæranda er staðfest.

Til baka