Úrskurður
Ár 2017, miðvikudaginn 13. desember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-10/2017:
Kæruefni
Með kæru sem barst málskotsnefnd 28. júní 2017 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 31. mars 2017 sem tilkynnt var henni með bréfi dagsettu 5. apríl 2017 þar sem hafnað var beiðni kæranda um endurútreikning tekjutengdrar afborgunar 2016. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 31. júní 2017 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 8. september 2017 og var afrit þess sent kæranda og henni jafnframt gefinn kostur á að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Athugasemdir kæranda bárust 8. október 2017.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi skilaði ekki skattframtali til Ríkisskattstjóra (RSK)
fyrir skattárið 2016 fyrr en 20. febrúar 2017. Af hálfu skattyfirvalda voru því
tekjur hennar áætlaðar um 10 mkr. vegna tekjuársins 2015. Tekjutengd afborgun
kæranda af námslánum hennar hjá LÍN haustið 2016 var ákvörðuð á grundvelli
framangreindrar áætlunar RSK. Kærandi kom í viðtal hjá LÍN 30. desember 2016 og
upplýsti að útreikningur tekjutengdrar afborgunar hafi byggt á áætlun
skattyfirvalda. Var henni bent á að 60 daga frestur til að óska endurútreiknings
væri liðinn. Kærandi sendi erindi til stjórnar LÍN 27. febrúar 2017 og óskaði
eftir endurútreikningi tekjutengdrar afborgunar 2016 sem byggði á tekjum 2015.
Samkvæmt skattframtali kæranda voru tekjur hennar tæpar 3,4 mkr. Stjórn LÍN
synjaði erindi kæranda þann 31. mars 2017 með vísan til þess að beiðni um
endurútreikning hafi borist eftir umsóknarfrest.
Sjónarmið
kæranda
Kærandi krefst þess að ákvörðun LÍN um synjun
endurútreiknings á tekjutengdri afborgun hennar árið 2016 verði endurskoðuð og
að tekjutengd afborgun verði ákvörðuð í samræmi við innsent og samþykkt
skattframtal 2016. Kærandi upplýsir að hún sé sjálfstætt starfandi listamaður og
laun hennar séu mismunandi milli ára. Endanlegar tekjur komi ekki í ljós fyrr en
við uppgjör endurskoðanda. Telur kærandi að áætlun skattyfirvalda sé órökstudd
geðþóttaákvörðun og í engu samræmi við tekjur hennar nokkurn tímann. Í
rökstuðningi kæranda kemur fram að skattskýrsla hennar hafi lent í kæru þar sem
endurskoðandi hennar hafi ekki skilað henni inn á réttum tíma. Endurskoðandinn
hafi haldið bókhaldsgögnunum hjá sér og ekki skilað inn skattskýrslu fyrr en
eftir ítrekanir af hálfu kæranda. Kærandi kveðst hafa verið varnarlaus gagnvart
þessu. Í meðfylgjandi yfirlýsingu endurskoðanda kæranda kemur fram að sökum
veikinda og mannfæðar hafi dregist að senda framtal kæranda. Fer kærandi þess á
leit að málskotsnefndin endurskoði ákvörðun stjórnar LÍN um að byggja útreikning
tekjutengdrar afborgunar 2016 á áætlun ríkisskattstjóra vegna tekjuársins 2015
og að tekjutengd afborgun verði endurskoðuð í samræmi við innsent og samþykkt
skattframtal.
Sjónarmið stjórnar LÍN
Í athugasemdum
stjórnar LÍN er byggt á að umsókn kæranda hafi borist eftir umsóknarfrest eða
þann 30. desember 2016. Hvorki í erindi sínu til stjórnar LÍN né í kærunni til
málskotsnefndar hafi kærandi lagt fram skýringar eða sýnt fram á að hún hafi
verið ófær um að sækja um innan umsóknarfrests, sbr. grein 8.4 í
úthlutunarreglum sjóðsins fyrir árið 2016-2017, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr.
21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Vísar stjórn LÍN til þess að ákvörðun í
máli kæranda sé í samræmi við lög og reglur um sjóðinn og í samræmi við
sambærilegar ákvarðanir stjórnar LÍN og málskotsnefndar.
Niðurstaða
Í 8. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN segir að árleg endurgreiðsla
ákvarðist í tvennu lagi, annars vegar sé um að ræða fasta greiðslu óháða tekjum
lánþega en hins vegar viðbótargreiðslu sem sé háð tekjum fyrra árs. Tekjutengda
afborgunin er með gjalddaga 1. september, sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 478/2011
um LÍN og grein 7.4 í úthlutunarreglum sjóðsins. Í 3. mgr. 8. gr. fyrrgreindra
laga segir að viðbótargreiðslan miðist við ákveðinn hundraðshluta, 3,75%, af
tekjustofni ársins á undan endurgreiðsluári, sbr. 10. gr. Frá
viðbótargreiðslunni dregst svo fastagreiðslan. Í 3. mgr. ákvæðisins segir að sé
lánþega áætlaður skattstofn skuli miða við hann.
Í 1. mgr. 11. gr.
laganna segir síðan:
Lánþegi á rétt á endurútreikningi árlegrar
viðbótargreiðslu sé hún byggð á áætluðum tekjum. Hann skal þá sækja um
endurútreikninginn eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar og leggja
fyrir stjórn sjóðsins bestu fáanlegar upplýsingar um tekjurnar.
Í
úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2016-2017 er í kafla VIII fjallað um
lánskjör. Segir þar m.a. í grein 8.1 sem fjallar um endurgreiðslu námslána:
Endurgreiðslur námslána taka mið af ákvæðum hvers skuldabréfs og þeim
lögum sem í gildi voru þegar lánin voru tekin. Að öðru leyti gilda samþykktar
úthlutunarreglur hverju sinni. Fylgiskjöl vegna umsókna eiga að berast sjóðnum
eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að umsóknarfrestur rennur út. Í þeim
tilvikum sem greiðandi hefur fengið endurútreikning frá skattyfirvöldum er
heimilt að taka tillit til þess endurútreiknings þótt gögn berist eftir
framangreindan frest, að því gefnu að umsókn um endurútreikning berist fyrir
umsóknarfrest hvers umsóknarárs, sbr. gr. 8.4.
Í 3. mgr. greinar 8.4
er síðan fjallað um umsókn um endurútreikning með eftirfarandi hætti:
Lánþegi á rétt á endurútreikningi árlegrar viðbótargreiðslu sé hún
byggð á áætluðum tekjum. Hann skal þá sækja um endurútreikninginn eigi síðar en
60 dögum eftir gjalddaga afborgunar en umsókn frestar ekki gjalddaga
Endurútreikningur fer síðan fram þegar sjóðnum hafa borist bestu fáanlegar
upplýsingar um tekjur greiðanda. Þegar staðfestar upplýsingar um tekjurnar
liggja fyrir skulu þær sendar sjóðnum og endurútreikningur skoðaður til
samræmis. Hafi tekjustofn verið of hátt áætlaður skal lánþega endurgreidd
ofgreidd fjárhæð með almennum vöxtum óverðtryggðra bankalána.
Skattyfirvöld áætluðu tekjur kæranda þar sem hún skilaði ekki inn
skattframtali vegna tekjuársins 2015. Upplýsingar um raunverulegar tekjur hennar
lágu því ekki fyrir hjá LÍN þegar tekjutengd afborgun var reiknuð haustið 2016.
Í samræmi við fyrirmæli 3. mgr. 8. gr. laga um LÍN byggði sjóðurinn því
útreikning sinn á upplýsingum frá RSK um áætlaðar tekjur kæranda. Í málinu
liggur fyrir að kærandi óskaði eftir endurútreikningi tekjutengdrar afborgunar
með gjalddaga 1. september 2016 þann 30. desember s.á. Þann 27. febrúar 2017
sendi kærandi síðan LÍN staðfest skattframtal vegna ársins 2015 og óskaði
endurútreiknings á tekjutengdri afborgunum fyrir greiðsluárið 2016 á grundvelli
þess. Málskotsnefnd bendir á að samkvæmt orðalagi 1. mgr. 11. gr. laga nr.
21/1992 skal sækja um endurútreikning eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga
afborgunar og leggja svo fyrir sjóðinn "bestu fáanlegar upplýsingar" um
tekjur. Í lögunum er ekki gefinn neinn frestur til að koma þessum upplýsingum að
en í úthlutunarreglum LÍN, grein 8.1, er gefinn tveggja mánaða frestur eftir að
umsóknarfrestur rennur út til að koma að fylgiskjölum og síðan lengri frestur
hafi greiðandi fengið endurútreikning hjá skattyfirvöldum, enda sæki hann um
fyrir lögbundinn frest sem er 60 dögum eftir gjalddaga. Málskotsnefnd telur bæði
lög nr. 21/1992 og úthlutunarreglur sjóðsins vera skýr að því leyti að það er á
ábyrgð og frumkvæði greiðenda að óska endurútreiknings tekjutengdrar afborgunar.
Fyrrgreindur 60 daga frestur 11. gr. laga nr. 21/1992 er lögbundinn og eru ekki
heimilaðar undanþágur frá honum. Hins vegar er, sbr. orðalag framangreindra
ákvæða, gert ráð fyrir að greiðendur geti sótt um endurútreikning á tekjutengdri
afborgun innan 60 daga frestsins þó svo að endanlegar tekjuupplýsingar liggi
ekki fyrir. Ágreiningslaust er að kærandi sótti ekki um endurútreikning á
tekjutengdri afborgun með gjalddaga 1. september 2016 innan lögbundins 60 daga
frests sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 21/1992. Í grein 8.1 í úthlutunarreglunum
hefur LÍN sett sér viðmið sem lánþegar geta kynnt sér fyrirfram og eru til þess
að gæta samræmis og jafnræðis í meðferð mála gagnvart lánþegum. Málskotsnefnd
telur það vera á ábyrgð og frumkvæði kæranda að sækja um endurútreikning innan
þess 60 daga frests sem tilgreindur er í úthlutunarreglum LÍN nema að henni hafi
verið það ómögulegt. Ekkert er fram komið í málinu um að kæranda hafi verið
ómögulegt að sækja um innan 60 daga frestsins og leggja síðar fram nauðsynleg
gögn þegar þau lágu fyrir eins og heimilt er samkvæmt ofangreindum ákvæðum.
Málskotsnefndin hefur í fjölmörgum úrskurðum sínum, m.a. L-7/2015 og L-10/2015,
lagt áherslu á mikilvægi þess að festa ríki um þá fresti sem námsmönnum eru
settir og að almennt beri að vísa frá erindum sem berast að liðnum fresti nema í
undantekningartilvikum, s.s. þegar tekst að sanna að um sé að ræða óviðráðanleg
atvik eða mistök hjá LÍN. Telur nefndin að hvorugt eigi við í þessu máli. Með
vísan til ofangreindra röksemda verður að telja beiðni kæranda um
endurútreikning vegna afborgurnar 2016 of seint fram komna. Er því fallist á það
með stjórn LÍN að afgreiðsla sjóðsins á erindi kæranda hafi verið í samræmi við
lög og reglur sem um sjóðinn gilda. Er hin kærða ákvörðun stjórnar LÍN í máli
kæranda því staðfest.
Úrskurðarorð
Hinn kærða ákvörðun frá 31. mars 2017 í máli kæranda er staðfest.