Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-14/2017 - Ábyrgðarmenn - umsókn um niðurfellingu á ábyrgð

Úrskurður

Ár 2018, fimmtudaginn 15. mars, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-14/2017.

Kæruefni

Með kæru sem barst málskotsnefnd 25. ágúst 2017 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 8. júní 2017 um að hafna erindi kæranda um niðurfellingu á ábyrgð hennar á námslánum lántaka nr. T-0001 og T-0002. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 31. ágúst 2017 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 28. september 2017 og var afrit þess sent kæranda og henni jafnframt gefinn kostur á að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Athugasemdir kæranda bárust málskotsnefnd með tölvupósti þann 9. október 2017. Voru þær framsendar stjórn LÍN samdægurs. Með tölvupósti 3. janúar 2018 óskaði málskotsnefnd afrita af skuldabréfum þeim sem kærandi er ábyrgðarmaður að. Þann 8. janúar óskað málskotsnefnd frekari upplýsinga frá LÍN sem bárust 16. janúar. Málskotsnefnd óskaði aftur nánari skýringa með bréfi dagsettu 18. janúar og bárust þær frá LÍN 25. janúar. Með bréfi dagsettu 1. febrúar voru kæranda send til upplýsingar afrit af þeim viðbótargögnum sem aflað hafið verið í málinu. Kærandi sendi svarpóst þann 14. febrúar sem var framsendur LÍN þann sama dag.

Málsatvik og ágreiningsefni

Málsatvik eru þau að lántaki tók á árunum 1983 til 1991 námslán hjá LÍN. Gefin voru út fjórtán skuldabréf vegna lánanna og gekkst kærandi í sjálfskuldarábyrgð á tveimur þeirra, annars vegar þann 10. október 1989 á námláni nr. T-0001 að nafnverði 377.302 krónur og hins vegar þann 21. mars 1990 á námsláni nr. T-0002 að nafnverði 203.113 krónur. Námslán lántaka voru sameinuð hjá LÍN undir lánsnúmerinu S-1000 og í yfirliti sem LÍN hefur sent kæranda kemur fram að kærandi beri ábyrgð á 25,98% heildarskuldarinnar. Lántaki var úrskurðuð gjaldþrota í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 28. nóvember 2016. Þann 14. febrúar 2017 í kjölfar gjaldþrots lántaka sendi LÍN kæranda bréf þar sem fram kom að staða ábyrgðar hennar vegna námsláns nr. S-1000 væri krónur 1.032.102. Var kæranda bent á að hafa samband við LÍN til að semja um kröfuna. Kærandi sendi bréf til LÍN dagsett 25. janúar 2017 og ítarlegri rökstuðning í bréfi 31. janúar 2017 þar sem hún fór þess á leit að ábyrgð hennar á námslánum lántaka yrði felld niður. Vísaði kærandi til þess að LÍN hafi sameinað skuldabréf vegna T-lána lántaka án þess að hafa til þess heimildir að lögum. Sjóðurinn hafnaði beiðni kæranda og leiðbeindi henni um heimild hennar til að bera málið undir stjórn sjóðsins. Kærandi óskaði eftir úrlausn stjórnar í málinu með bréfi dagsettu 4. apríl 2017 þar sem hún fór þess á leit að ábyrgð hennar yrði felld niður. Kærandi ítrekaði beiðni sína með bréfi dagsettu 8. maí 2017. Stjórn LÍN hafnaði beiðni kæranda með hinni kærðu ákvörðun.

Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ábyrgð hennar á námslánum lántaka nr. T-0001 og T-0002 verði felld niður. Kærandi byggir kröfu sína um niðurfellingu ábyrgðanna fyrst og fremst á því að lánasjóðurinn hafi ekki haft neinar heimildir að lögum til að sameina svokölluð T-lán sem lántaki tók á árunum 1983-1991 í lán nr. S-1000 líkt og sjóðurinn hafi gert einhliða á árinu 1994. Vísar kærandi til þess að hvorki í lögum nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki né í öðrum lögum hafi verið að finna heimild fyrir því að kröfuhafi gerði einhliða efnislegar breytingar á skuldabréfum. Með sameiningu skuldabréfa lántaka hafi slíkar breytingar þó verið gerðar af hálfu sjóðsins. Verði sjóðurinn að bera hallann af þessari heimildarlausu framkvæmd sinni. Með því að sameina bréfin með þessum hætti hafi sjóðurinn einhliða ákveðið að ábyrgð ábyrgðarmanna breyttist frá því að vera ábyrgð vegna eins bréfs í hlutfallslega ábyrgð vegna allra námslána lántaka. Fjárhæðin að baki sé orðin töluvert hærri og óljóst hvort skilmálar hins nýja S-láns séu að öllu leyti þeir sömu og hafi verið á hinum upphaflegu lánum. Kærandi bendir á að óljóst sé hvernig farið hafi verið með og hvernig fara eigi með greiðslur inn á hið nýja lán. Ekki liggi fyrir hvaða áhrif hver og ein ráðstöfun greiðslu hafi haft á hvert og eitt þeirra fjórtán skuldabréfa sem hafi verið sameinuð í láni S-1000. Í tölvupósti kæranda til LÍN þann 28. júlí 2017 kemur fram að kærandi hefur mótmælt þeirri fullyrðingu LÍN að sameining skuldabréfanna undir nýju heiti hafi hvorki áhrif á eðli né umfang ábyrgðar kæranda. Bendir kærandi á að þegar síðasti gjalddagi lántaka hafi farið í vanskil hafi kærandi farið þess á leit að fá að greiða þau vanskil, en þó aðeins þann hluta er sneri að hennar ábyrgð. Hafi því erindi verið hafnað af sjóðnum með þeim skýringum að ekki væri hægt að skilja þessi skuldabréf að í innheimtu. Kærandi kveðst einnig hafa óskað nánari upplýsinga frá LÍN um hvernig hafi verið staðið að sameiningu lánanna og ráðstöfun afborgana, m.a. með tilliti til ábyrgða. Hafi starfsmaður ekki getað svarað því en bent kæranda á að hafa samband við fjármálastjóra sjóðsins, sem hafi verið gert samdægurs. Þá telur kærandi einnig augljóst að sameining lánanna hljóti að hafa áhrif á sjónarmið er lúti að fyrningu. Afleiðingar sameiningarinnar hljóti að vera margvíslegar og fleiri en þær er kærandi hafi tilgreint í dæmaskyni. Kærandi vísar einnig til þess að ekki verið séð hvernig LÍN geti talist hafa fullnægt svonefndri skilríkisreglu vegna hins sameinaða láns. Reglan feli í sér að skuldabréf þurfi að bera með sér öll réttindi samkvæmt því. Ljóst sé að lán S-1000 geti ekki borið með sér öll réttindi samkvæmt því enda sé það ekki staðfest af hálfu ábyrgðarmanna vegna breyttra skilmála og sameiningar. Þá liggi raunar ekkert frammi um það hvort lán S-1000 hafi í raun verið gefið út bréflega eður ei. Það sem virðist vera skýrt sé að lánasjóðurinn sé ekki og geti ekki fullnægt þeim lágmarksáskilnaði sem gera megi til kröfuhafa viðskiptabréfs sem geri kröfu um greiðslu á grundvelli "bréfsins". Vegna þessa fór kærandi þess á leit við sjóðinn að sjálfskuldarábyrgðir vegna skuldabréfa T-0001 og T-0002, og/eða sú ábyrgð sem sjóðurinn hefur talið rétt að leiða af þeim ábyrgðum verði ógiltar. Kærandi byggir einnig á 6. og 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Í 6. gr. komi fram að lánveitandi geti ekki einhliða breytt skilmálum ábyrgðarsamnings, þ.m.t. lánssamnings, ábyrgðarmanni í óhag. Í 7. gr. sé mælt fyrir um skyldu lánveitanda til að senda ábyrgðarmanni skriflega tilkynningu m.a. um vanefndir lántaka og um hver áramót upplýsingar um stöðu láns sem ábyrgð stendur fyrir og yfirlit um ábyrgðir. Þá bendir kærandi á 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 um aðgang aðila að upplýsingum um mál sitt. Hafi kærandi fengið þær upplýsingar frá LÍN að ekki lægju fyrir upplýsingar eða yfirlit hjá LÍN um framkvæmdar greiðslur lántaka af þeim skuldabréfum sem kærandi sé ábyrgðarmaður fyrir. Kærandi byggir einnig á að rökstuðning skorti fyrir ákvörðun sjóðsins og að þau laga- og reglugerðarákvæði sem vísað hafi verið til í ákvörðun sjóðsins, þ.e. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 72/1982, 5. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna og 27. gr. reglugerðar nr. 578/1982 um lánasjóð íslenskra námsmanna, séu almenns eðlis og lúti ekki að viðskiptaháttum og samslætti sjálfstæðra skuldabréfa óskyldra aðila.

Sjónarmið stjórnar LÍN

Í athugasemdum stjórnar LÍN kemur fram að kærandi er ábyrgðarmaður vegna tveggja lánveitinga af fjórtán sem lántaki tók á árunum 1983 til 1991. Lántaki hafi hafið endurgreiðslur á árinu 1994 og þá hafi T-skuldabréfin verið sameinuð undir nýju heiti og vísað til lánanna með einu númeri, S-1000, í tölvukerfi LÍN. Hlutfall kæranda sé 25,98% af S-láninu. Námlánin hafi verið tekin í tíð eldri laga nr. 72/1982 um námlán og námsstyrki. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laganna hafi lántökum borið að gefa út skuldabréf vegna hverrar útborgunar námsláns, eða til viðurkenningar á tilteknum lánum, sbr. 27. gr. reglugerðar nr. 578/1982. Þegar lántaki hafi hafið endurgreiðslur lánanna á árinu 1994 hafi veitt T-lán verið uppreiknuð til einnar vísitölu í samræmi við ákvæði 3. mgr. 7. gr. laga nr. 72/1982 og 2. mgr. 29. gr. reglugerðar nr. 578/1982 og verið sameinuð og auðkennd með bókstafnum S. Kærandi hafi gengist í ábyrgð tveggja T-lána. Sameining skuldabréfanna breyti engu um umfang og eðli ábyrgðar kæranda og ekki hafi verið gefið út sérstakt skjal vegna sameiningarinnar. Aðeins sé um að ræða hagræðingu við innheimtu. Kærandi beri ábyrgð samkvæmt hlutfalli ábyrgðar sinnar á móti heildarlánaskuldinni sem sameinuð hafi verið undir S-láni. Hverri greiðslu lántaka sé ráðstafað hlutfallslega inn á hvert T-bréf. Varðandi tilvísun kæranda til 14. gr. upplýsingalaga tekur sjóðurinn fram að samkvæmt því ákvæði eigi aðili rétt á að fá aðgang að fyrirliggjandi gögnum ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan. Kærandi eigi því aðeins rétt á að fá upplýsingar sem til staðar séu hjá sjóðnum sjálfum á hverjum tíma. Eins og kærandi hafi verið upplýstur um sé hverri greiðslu ráðstafað hlutfallslega inn á hverja útborgun láns að baki heildarskuldinni en staðfesting á ráðstöfun hverrar greiðslu sé ekki til í skriflegu formi. Ábyrgðarmaður geti þó alltaf séð hlutfallslega breytingu á sinni ábyrgð við hverja greiðslu af námsláninu. Kærandi fái einnig árlega upplýsingar um ábyrgðarskuldbindingu sína í samræmi við 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn og um gjaldþrot lántaka. Í erindi sínu hafi kærandi vísað til 6. og 7. gr. laga um ábyrgðarmenn um að ekki væri lagaheimild fyrir sameiningu sjálfstæðra skuldabréfa við innheimtu. LÍN bendir á að sjóðurinn hafi ekki breytt skilmálum ábyrgðarsamninganna heldur sé aðeins um að ræða hagræðingu við innheimtu. Þetta fyrirkomulag sé ábyrgðarmanni ekki í óhag og jafnvel þó svo yrði talið gæti það ekki leitt til sjálfkrafa niðurfellingar á ábyrgð kæranda. Málskotsnefnd óskaði frekari skýringa frá LÍN í tilefni af fullyrðingum kæranda um að henni hafi verið synjað um að greiða vanskil lántaka einungis að því er laut að þeim hluta er sneri að ábyrgð kæranda. Í skýringum LÍN er þessari fullyrðingu hafnað. Sendi LÍN málskotsnefnd afrit af skráningu á samskiptum LÍN og innheimtuaðila við kæranda. Í þeim gögnum er ekki að finna upplýsingar um samskipti vegna beiðni kæranda um að fá að greiða vegna ábyrgðarinnar. Í svari LÍN kemur fram að krafa kæranda hafi lotið að því að greiða einungis hlutfallslega greiðslu af þeim gjalddaga sem sé í vanskilum sem tæki mið af ábyrgðarhlutfalli hennar. Bendir LÍN á að allar ábyrgðir hjá LÍN séu sjálfskuldarábyrgðir. Hver og einn ábyrgðarmaður beri ábyrgð á láninu að því hámarki sem viðkomandi ábyrgðarmaður er í ábyrgð fyrir þar til lánið er að fullu greitt. Ef ábyrgðarmaður greiði afborgun af láni eða inná lán lækki ábyrgð hans sem því nemi. Ábyrgðarmaður eigi ekki rétt á því að greiða einungis hluta af gjalddaga í vanskilum í samræmi við ábyrgðarhlutfal sitt og losna þar með undan frekari innheimtu á þeim hluta lánsins sem fallinn er í gjalddaga. Gjalddagar umræddra lána séu tveir á ári, föst afborgun og tekjutengd afborgun. Komi engar óskir fram við greiðslu hafi kröfuhafi frjálst val til þess að ákveða inn á hvaða skuldabréf greiðslan fer. Til að gæta jafnræðis ábyrgðarmanna sé hverjum greiddum gjalddaga ráðstafað hlutfallslega inná hvert T-bréf. Komi óskir um það frá greiðanda gjalddaga, t.d. ábyrgðarmanni, er greiðslu ráðstafað inn á það bréf sem óskað er eftir. Ábyrgðarmaður eigi þess alltaf kost að halda láni í skilum með greiðslu á gjalddaga sem ráðstafist eftir atvikum inná þau lán sem hann er í ábyrgð fyrir en fari ekki inná lán sem aðrir standi í ábyrgð fyrir. Að mati sjóðsins er ákvörðun stjórnar í samræmi við lög og reglur um sjóðinn og í samræmi við sambærilegar ákvarðanir stjórnar LÍN og málskotsnefndar. Fer stjórn LÍN fram á að málskotsnefnd staðfesti ákvörðun stjórnar í máli kæranda.

Niðurstaða

LÍN er opinber stjórnsýslustofnun sem hefur það hlutverk að tryggja þeim sem falla undir lög nr. 21/1992 um LÍN tækifæri til náms án tillit til efnahags. LÍN veitir lán til námsmanna í framhaldsnámi samkvæmt lögum og reglum sem um sjóðinn gilda. LÍN ber í starfi sínu jafnt að fylgja þeim lögum og reglum sem gilda sérstaklega um starfsemi sjóðsins og lagareglum, jafnt skráðum sem óskráðum, sem gilda um stjórnsýslu hins opinbera og svo reglum fjármunaréttarins eftir því sem við á. Þau námslán sem kærandi gekkst í ábyrgð fyrir voru tekin í gildistíð laga nr. 72/1982 um námslán og námsaðstoð. Skilmálar skuldabréfa þeirra tveggja lána sem sem kærandi gekkst í ábyrgð eru samhljóða. Þar segir m.a.: "Endurgreiðsla lána hefst þremur árum eftir námslok. Stjórnsjóðsins ákveður hvað teljast námslok í þessu sambandi." Einnig er tekið fram að endurgreiðsla af skuldabréfinu ákvarðist í tvennu lagi annars vegar með fastri ársgreiðslu 1. mars og hins vegar með viðbótargreiðslu er miðist við ákveðinn hundraðshluta af útsvarsstofni með gjalddaga 1. september. Er fjárhæð endurgreiðslu því óháð fjárhæð láns. Í ábyrgðarskilmálunum segir að ábyrgðarmaður ábyrgist "in solidum" lánið sem "sjálfskuldarábyrgðarmaður". Þá segir einnig: "Að öðru leyti gilda um þetta skuldabréf ákvæði 2. kafla laga um námslán og námsstyrki nr. 72/1982."

Í 1. og 2. málslið 3. mgr. 7. gr. laga nr. 72/1982 segir eftirfarandi:

"Endurgreiðsla lána hefst þremur árum eftir námslok en sjóðsstjórnin skal skilgreina nánar hvað telja beri námslok í þessu sambandi. Ári eftir námslok skal námsmanni tilkynnt upphæð heildarskuldar og sú vísitala sem samsvarar raungildi hennar."

Þá segir eftirfarandi í 1. mgr. mgr. 8. gr. laganna:

Árleg endurgreiðsla af skuldabréfi skv. 3. mgr. 7. gr. ákvarðast í tvennu lagi. annars vegar er föst greiðsla sem innheimt er á fyrri hluta ársins og hins vegar viðbótargreiðsla sem innheimtist á síðari hluta ársins og er háð tekjum fyrra árs.

Efnislega samhljóða ákvæði voru í reglugerð nr. 578/1982 um námslán og námsstyrki sem LÍN hefur vísað til. Samkvæmt framgreindu ákvæði 3. mgr. 7. gr. laga nr. 72/1982 er gert ráð fyrir að upphæð heildarskuldar námsmanns verði tekin saman einu ári eftir námslok. Fram kemur í 1. mgr. 8. gr. að gert er ráð fyrir að árleg endurgreiðsla lántaka miðist við skuldabréf samkvæmt 3. mgr. 7. gr., þ.e. miðist við heildarskuld. Í umræðum á Alþingi þegar núgildandi lög um LÍN tóku gildi var rætt um hvernig framkvæmd laga nr. 72/1982 hafi verið háttað. Þar kom fram að við námslok hafi verið ráð fyrir gert að ábyrgðarmenn bæru áfram ábyrgð á þeirri skuld sem þeir hafi gengist í ábyrgð fyrir og væru þannig margir ábyrgðarmenn á sömu heildarskuld. Var vísað til þess að betra væri að hafa fleiri ábyrgðarmenn sem bæru þá ábyrgð á lægri upphæð heldur en einn ábyrgðarmann á heildarskuldinni, auk þess sem erfitt gæti verið að fá slíkan ábyrgðarmann. Var því ekki farin sú leið að sameina skuldabréfin formlega við námslok, þó svo að gert væri ráð fyrir að þau væru innheimt saman þar sem þau falla öll í gjalddaga á sama tíma, þ.e. þremur árum eftir námslok. Samkvæmt upplýsingum LÍN ber kærandi ábyrgð á 25,98% heildarskuldar lántaka. Þrátt fyrir að heildarskuld lántaka hafi verið auðkennd með S í kerfi LÍN liggur ekki fyrir neinn formlegur gerningur undirritaður af lántaka eða ábyrgðarmönnum. Fram kemur í dómum Hæstaréttar og héraðsdómstóla, sjá m.a. dóm Hæstaréttar í máli nr. 229/2015, að LÍN krefur skuldara og ábyrgðarmenn um greiðslu skuldar á grundvelli skuldabréfa T-lána og að ábyrgðin grundvallast á undirritun ábyrgðarmanna á T-lánin. Samkvæmt skilmálum hvers T-skuldabréfs um sig er gert ráð fyrir að af hverju skuldabréfi greiðist árlega tvær afborganir, þ.e. föst afborgun og tekjutengd afborgun sem ábyrgðarmaður beri ábyrgð á. Til að koma í veg fyrir margfalda greiðslubyrði námsmanns sem skrifað hefur undir mörg skuldabréf er síðan gert ráð fyrir, sbr. ákvæði 7. og 8. gr. laga nr. 72/1982, að afborganir verði reiknaðar af heildarskuld. Þetta fyrirkomulag verður að telja eins og áður segir að lúti að hagræði við endurgreiðslu og snýr að lántaka. Af því leiðir að slík sameining lána í kerfi LÍN breytir ekki þeim ákvæðum hvers T-skuldabréfs um sig sem kveða á um að ábyrgðarmaður beri ábyrgð vegna vanefnda lántaka á þeim afborgunum sem greiða skal samkvæmt viðkomandi skuldabréfi. Getur sameiningin því ekki haft nein áhrif á umfang eða eðli ábyrgðarskuldbindingar kæranda samkvæmt því skuldabréfi sem hann hefur skrifað undir. Verður samkvæmt framansögðu að fallast á með LÍN að þegar ábyrgðarmaður ákveður í tilefni af vanefndum lántaka að greiða afborgun skuldabréfs þá beri honum að greiða fulla afborgun til að koma í veg fyrir vanefndaúrrræði. Greiðsla ábyrgðarmannsins rennur hins vegar eingöngu til lækkunar á ábyrgð hans en ekki annarra ábyrgðarmanna. Með því lækkar ábyrgðarhlutfall viðkomandi ábyrgðarmanns á heildarskuldinni. Kærandi hefur vísað til þess að LÍN hafi ekki gætt að ákvæðum laga um ábyrgðarmenn. Sameining T-lána undir einu heiti sem S-lán er eins og áður greinir greiðslufyrirkomulag sem lýtur að samskiptum LÍN og lántaka. Um er að ræða auðkenninngu á safni lána sem sami lántaki hefur tekið á tilteknu tímabili. Er það óviðkomandi ábyrgðarmanni að öðru leyti en því að með upplýsingum um hlutfall ábyrgðar getur ábyrgðarmaður gert sér betur grein fyrir því hvernig afborgunum er ráðstafað ínná það T-lán sem hann er í ábyrgð fyrir. Ábyrgð ábyrgðarmanns er á grundvelli viðkomandi T-láns og upplýsingar LÍN til ábyrgðarmanna samkvæmt 7. gr. laganna og önnur samskipti vegna ábyrgðarinnar þurfa auk tilvísunar í S-lánið að tilgreina það lán sem ábyrgð stendur fyrir, þ.e. viðkomandi T-lán. Enga tilvísun til T-lána kæranda er að finna í tilkynningum sem LÍN hefur sent henni vegna áramótastöðu eða í tilefni af vanefndum og síðar gjaldþroti lántaka. Er því tekið undir með kæranda að framkvæmd LÍN er að þessu leyti ekki í samræmi við 7. gr. laga um ábyrgðarmenn. Í 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram að stjórnvald "skal veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess." Í þessu felst skylda stjórnvalds til að leiðbeina þeim sem eru aðilar máls þar sem fyrirhugað er að taka ákvörðun um rétt eða skyldu, svo og þeim sem leita til stjórnvaldsins til að afla upplýsinga við undirbúning slíkra mála. Tilkynning um vanefndir og gjaldþrot lántaka telst ótvírætt falla undir framangreint. Rétt er að hafa í huga að umrætt fyrirkomulag um sameiningu T-lána undir einu heiti sem S-lán er óhefðbundið og tíðkast ekki hjá öðrum lánveitendum. Er því ekki viðbúið að ábyrgðarmönnum sé kunnugt um að það geti skipt máli hver það er sem greiðir afborgun námslánsins. Í tilkynningum LÍN til kæranda vegna vanefnda og gjaldþrots kemur ekki fram númer T-láns. Í tilkynningum vegna greiðsludráttar er ekki að finna neinar upplýsingar um þau mismunandi áhrif sem það hefur á umfang ábyrgðar ábyrgðarmanns eftir því hvort það er lántaki eða ábyrgðarmaður sem að endingu greiðir hina gjaldföllnu afborgun. Það getur skipt máli fyrir ábyrgðarmann sem oft er nákominn lántaka hvort það er ábyrgðarmaðurinn sem greiðir ábyrgðina og óski þá eftir því að afborgunin verði til lækkunar á umfangi ábyrgðar hans eða hvort hann lánar lántaka fyrir afborguninni sem lántaki greiðir þá með venjulegum hætti. Þegar kærandi hafði samband við LÍN á síðari stigum málsins verður þó að telja að henni hafi verið veittar nægjanlega skýrar upplýsingar. Samkvæmt framansögðu verður að telja að við meðferð á máli kæranda í tilefni af vanefndum lántaka hafi LÍN upphaflega ekki gætt að leiðbeiningaskyldu skv. 7. gr. stjórnsýslulaga þó svo að kærandi hafi fengið greinarbetri upplýsingar á síðari stigum er hún leitaði eftir þeim. Af gögnum málsins verður ekki séð að framangreind vanræksla á tilkynningaskyldu skv. 7. gr. laga um ábyrgðarmenn eða brot á leiðbeiningaskyldu 7. gr. stjórnsýslulaga hafi valdið því að umfang ábyrgðar kæranda hafi verið meira en ella hefði orðið ef hún hefði fengið fullnægjandi upplýsingar á fyrri stigum málsins áður en hún leitaði til LÍN. Samkvæmt framansögðu hefur sameining T-skuldabréfa við innheimtu námslána ekki áhrif á umfang eða eðli ábyrgðarskuldbindingar kæranda. Er því fallist á með LÍN að þegar kærandi fór þess á leit í tilefni af vanefndum lántaka að greiða afborgun skuldabréfs þá beri honum að greiða fulla afborgun til að koma í veg fyrir vanefndaúrrræði af hálfu LÍN. Meðferð máls kæranda hjá LÍN var ekki í samræmi við 7. gr. laga um ábyrgðarmenn og 7. gr. stjórnsýslulaga. Ekki eru fram komin gögn um að framangreind brot hafi haft áhrif á umfang ábyrgðarskuldbindinga kæranda á námslánum nr. T-0001 og T-0002. Er því ekki fallist á ógildingu eða eftir atvikum takmörkun á ábyrgð kæranda á umræddum námslánum. Ákvörðun stjórnar LÍN frá 8. júní 2017 í máli kæranda er staðfest.

Úrskurðarorð

Ákvörðun stjórnar LÍN frá 8. júní 2017 í máli kæranda er staðfest.

Til baka