Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-02/2017 - Endurgreiðsla námslána - innheimta

Úrskurður 

Ár 2018, föstudaginn 6. apríl, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í máli L-2/2017:

Kæruefni

Með kæru sem barst málskotsnefnd 27. janúar 2017 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 30. ágúst 2016 sem tilkynnt var kæranda með bréfi dagsettu 2. september s.á. þar sem hafnað var beiðni hans frá 29. apríl 2016 sem hann ítrekaði með bréfi 18. ágúst s.á. um að sjóðurinn fyndi farsæla og raunhæfa lausn á máli kæranda og eiginkonu hans í kjölfar innheimtuaðgerða sjóðsins á hendur þeim. Kærandi óskaði endurupptöku á máli sínu með bréfi dagsettu 13. október 2016. Stjórn LÍN synjaði um endurupptöku á máli kæranda með ákvörðun 25. október 2016 sem tilkynnt var kæranda með bréfi dagsettu 28. s.m. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 1. febrúar 2017 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN bárust 27. febrúar 2017 og voru þær sendar kæranda 28. sama mánaðar og honum jafnframt veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum. Kærandi nýtti sér það og sendi athugasemdir með bréfi dagsettu 28. mars 2017. Athugasemdir kæranda voru framsendar LÍN 29. mars 2017. Með bréfi dagsettu 22. september 2017 óskaði málskotsnefnd frekari upplýsinga um málið frá stjórn LÍN og bárust þær með bréfi dagsettu 26. september 2017. Voru gögnin send kæranda með tölvupósti 3. október 2017 og honum gefinn kostur á að senda frekari athugasemdir. Athugasemdir kæranda ásamt gögnum bárust 21. október 2017.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi og eiginkona hans stunduðu nám hér á landi, fóru síðan í skiptinám til Japan, eftir það í meistaranám í Danmörku og fluttu síðan til Svíþjóðar þar sem þau búa nú. Kærandi og eiginkona hans tóku hvort um sig tvö námslán hjá LÍN. Þau voru ábyrgðarmenn á námslánum hvort annars. Samkvæmt upplýsingum kæranda hafði hann ekki lokið meistararitgerð sinni og því hafi námslok verið ákveðin og skuldabréfi hans lokað. Kærandi fékk síðast námslán á vorönn 2012 og eru námslok hans skráð 29. júní 2012. Eiginkona kæranda fékk síðast námslán á haustönn 2011 og eru námslok hennar einnig skráð 29. júní 2012. Tveimur árum síðar sendi LÍN kæranda tölvupósta vegna afborgana námsláns hans en sjóðurinn hafði á þessum tíma ekki upplýsingar um heimilisfang kæranda sem hafði flutt til Svíþjóðar. Vanskil kæranda hófust sumarið 2014 og á þeim tíma og fram á haust 2014 voru samskipti LÍN og kæranda eftirfarandi:

  • Tölvupóstur 6. júní 2014. LÍN sendir kæranda bréf með tölvupósti á póstfang það sem kærandi hafði gefið upp með upplýsingum um endurgreiðslur námslána. Þar kom fram að gjalddagar afborgana námslána væru almennt tveir á ári og að fyrsta fasta afborgun námslánsins væri 123.505 krónur með gjalddaga 30. júní 2014. Hægt væri að óska eftir að fá greiðsluseðla. Benti LÍN á að á vefsvæði LÍN undir „Greiðendur“ væri að finna almenna upplýsingar fyrir greiðendur og að á vefsvæðinu „Mitt svæði“ væru persónulegar upplýsingar hvers greiðanda. Þá kom einnig fram að heimilt væri að veita undanþágu frá endurgreiðslum í ákveðnum tilvikum og að upplýsingar væri að finna undir „Greiðendur“ á heimasíðu LÍN. Þá voru greiðendur erlendis hvattir til að láta sjóðnum í té heimilisfang til að auðvelda samskipti.
  • Engin svör bárust frá kæranda.
  • Tölvupóstur LÍN 25. júlí 2014. LÍN sendir bréf með ítrekun á gjalddaganum 30. júní 2014 á sama netfang kæranda. Vakin var athygli á því að 60 dögum eftir gjalddaga færi skuldin í milliinnheimtu hjá innheimtuþjónustu Motus. Vakin var athygli á möguleika á að sækja um greiðsludreifingu til 4 eða 6 mánaða. Einnig að hægt væri að sækja um undanþágu frá afborgun og væri frestur til þess 60 dagar frá gjalddaga.
  • Engin svör bárust frá kæranda.
  • Tölvupóstur LÍN 24. september 2014. Í póstinum kom fram að þar sem LÍN hefði ekki póstáritun kæranda kæmust bréfsendingar sjóðsins ekki til skila og var kærandi beðinn um að senda sjóðnum upplýsingar. Í viðhengi við tölvupóstinn, sbr. upplýsingar í kærunni, voru bréf frá LÍN dagsett 14. ágúst 2014 vegna gjalddagans 30. júní 2014 og dagsett 15. september 2014 vegna gjalddagans 1. september 2014. Um var að ræða innheimtuviðvaranir og greiðsluupplýsingar vegna námsláns kæranda G-074[..] og námsláns eiginkonu hans G-073[..] auk tilkynningar til kæranda og eiginkonu hans vegna ábyrgðar þeirra á námslánum hvors annars. Í innheimtuviðvöruninni vegna gjalddagans 30. júní 2014 kom fram að nafnverð afborgunar láns kæranda væri 0 krónur en að vextir (sic) væru 123.505 krónur, dráttarvextir 1.962 krónur ásamt gjöldum 500 krónur. Samtals skuld var tilgreind 125.967 krónur. Þar var einnig upplýst um að úrræði vegna greiðsluerfiðleika og bent á vefsvæði LÍN. Þá segir ennfremur:

Vakin er athygli á að tveimur mánuðum eftir gjalddaga fer óuppgerð skuld til milliinnheimtu hjá innheimtuþjónustu Motus. Jafnframt er vakin athygli á að verði um frekara greiðslufall að ræða verður krafan send til löginnheimtu hjá Juris innheimtuþjónustu, TMC eða Motus löginnheimtu. Bætist þá við lögfræðikostnaður skv. gjaldskrá innheimtuaðila. Í framhaldi verður gripið til viðeigandi innheimtuaðgerða á grundvelli réttarfarslaga, sem hefur í för með sér frekari kostnað fyrir skuldara.“

  • Svarpóstur kæranda til LÍN 15. október 2014. Kærandi sendir skattskýrslur og einnig kemur fram að kærandi hafi áður hringt til LÍN vegna málsins. Kærandi upplýsir að hann og eiginkona hans séu ekki í aðstöðu til að greiða þessar fjárhæðir. Eiginkona hans sé í hlutastarfi og hann að leita að vinnu og eigi eftir að ljúka námi sínu. Kærandi upplýsti að heimilisfang hans væri S í Svíþjóð.
  • Tölvupóstur LÍN til kæranda sama dag, 15. október 2014. Í póstinum kom fram að tekjuupplýsingar yrðu sendar til ráðgjafa en að hitt erindið væri „komið til fjármálastjóra til vinnslu“.
  • Tölvupóstur LÍN til kæranda 17. október 2014. LÍN upplýsir kæranda um að ekki sé svigrúm til að semja við hvern og einn og bendir kæranda á að hafa samband við Motus þar sem hann geti líklega fengið að dreifa júnígjalddaganum á nokkra mánuði. Ráðlagði LÍN kæranda að hafa samband við Motus sem fyrst.

Eftir að ráðgjafi LÍN hafði skoðað tekjuupplýsingar kæranda og eiginkonu hans voru tekjutengdar afborganir þeirra sem voru á gjalddaga í september 2014 felldar niður. Kærandi hafði síðan samband við Motus en fékk þær upplýsingar að málið væri ekki hjá þeim. Hafði hann þá samband við LÍN og fékk þær upplýsingar að málið væri hjá Gjaldskilum. Kærandi hafði samband við Gjaldskil 24. og 25. nóvember skv. upplýsingum Gjaldskila. Eiginkona kæranda greiddi afborgun vegna gjalddagans 30. júní 2014 og greiddi inná gjalddaga 1. mars 2015 vegna láns nr. G-073[..].

Eins og áður greinir upplýsti kærandi LÍN þann 15. október 2014 um að heimilisfang hans væri að S í Svíþjóð. Í athugasemdum kæranda til málskotsnefndar er upplýst að þennan sama dag 15. október 2014 hafi kærandi tilkynnt um breytingu á heimilisfangi í „Adressändring“ í Svíþjóð, frá S til B í Svíþjóð. Þau hafi þó ekki flutt á nýja staðinn fyrr en í mars 2015 en ákveðið eigi að síður að senda þessa flutningstilkynningu fyrr til að tryggja tímanlega uppfærslu 

heimilisfangs hjá fyrirtækjum og stofnunum. Hafi þau haft tök á að setja nöfn sín á póstkassann á nýja staðnum þó þau væru ekki flutt. Kærandi hefur jafnframt upplýst að hann hafi fyrir mistök ekki óskað eftir því að póstur yrði áframsendur á nýja staðinn. Í flutningstilkynningunni kemur fram að gert er ráð fyrir að póstur verði endursendur til sendanda. Kærandi kveðst þó hafa gert ráð fyrir að póstur myndi berast þeim eftir sem áður á gamla heimilisfangið þar sem nöfn þeirra hefðu áfram verið á póstkassanum þar. Í gögnum málsins er að finna innheimtubréf Gjaldskila til kæranda og eiginkonu hans sem dagsett eru 20. október 2014, 16. mars 2015 og bréf dagsett 9. apríl 2015 þar sem tilkynnt er um gjaldfellingu. Bréfin voru send á S. Samkvæmt upplýsingum LÍN voru þessi bréf endursend sjóðnum. Í júní 2015 sendi innheimtufyrirtækið Motus síðan póst til eiginkonu kæranda á hið nýja heimilisfang. Kærandi upplýsti LÍN hins vegar ekki um hið nýja heimilisfang fyrr en í september 2015.

Í bréfi Gjaldskila til kæranda sem dagsett er 20. október 2014 er tilgreind áfallin innheimtuþóknun 46.135 krónur. Fram kemur í bréfinu að ef greitt er innan 10 daga verði veittur 50% afsláttur af innheimtuþóknun. Samsvarandi kostnaður var einnig á kröfu vegna eiginkonu kæranda. Samkvæmt upplýsingum Gjaldskila hafði kærandi samband dagana 24. og 25. nóvember 2014. Er skráð þar að kærandi hafi sagt málið vera hjá Motus og að hann myndi greiða þangað og myndi ekki greiða kostnað í málinu.

Stefna í máli LÍN gegn kæranda var birt honum 23. nóvember 2015. Mætt var af hálfu kæranda við þingfestingu málsins og óskað eftir fresti til að skila greinargerð. Síðar féll niður mæting af hálfu kæranda og var stefna í málinu árituð um aðfararhæfi í héraðsdómi 23. mars 2016. Þann 29. apríl 2016 sendi kærandi erindi til stjórnar LÍN og óskaði eftir lausnum í máli sínu og eiginkonu sinnar. Í svarbréfi LÍN dagsettu 16. júní 2016 kom fram sú afstaða sjóðsins að innheimta hafi verið í samræmi við lög og reglur sjóðsins og skilmála skuldabréfs þess sem kærandi hafði undirritað. Var kæranda bent á að hafa samband við lögmannsstofuna Gjaldskil til að semja um vanskilin við sjóðinn. Kærandi var ekki sammála afstöðu sjóðsins og bar mál sitt undir stjórn LÍN sem tók ákvörðun í máli kæranda 30. ágúst 2016.

Samkvæmt upplýsingum LÍN hefur kærandi ekkert greitt af lánum sínum en eiginkona hans greitt af öðru láni sínu. Tvö lána kæranda og eiginkonu hans voru gjaldfelld og stefnt fyrir héraðsdóm. Hvorki kærandi né eiginkona hans héldu uppi vörnum og var stefna árituð í báðum málunum. Skuldastaða kæranda og eiginkonu hans við LÍN þann 26. september 2017 var eftirfarandi:

Kærandi:                     G-074[..]         kr. 7.544340   Stefna árituð 23. mars 2016

                                    G-101[..]         kr. 6.629.513

Eiginkona kæranda:   G-102[..]         kr. 7.951.912

                                    G-073[..]         kr. 2.637.172  Stefna árituð 11. júlí 2017.

Sjónarmið kæranda

Í kærunni kemur fram að kærandi og eiginkona hans hafi farið í nám á árinu 2007, síðan í skiptinám og framhaldsnám í öðru landi. Þau hafi verið ábyrgðarmenn hjá hvort öðru og aldrei hafi staðið annað til en að greiða af um ræddum lánum. Greiðsluvilji hafi verið og sé enn þá einlægur en eins og sakir standa hins vegar óraunhæfur þar sem kærandi hafi engar tekjur og hafi ekki haft síðan hann hóf nám. Eiginkona hans sé í hlutastarfi á lágmarkslaunum. Kærandi telur LÍN hafa brugðist algjörlega hlutverki sínu hvað varðar innheimtu og góða starfsiði. Sérstaklega um hvaða möguleg úrræði séu í boði. Kannski sé frekar um að ræða skort og vilja til að upplýsa um hver úrræðin séu og ekki aðeins bjóða upp á þau í orði en ekki á borði. Kærandi telur einnig vinnubrögðum og gagnsæi vera ábótavant hjá LÍN.

Kærandi lýsir því að hann hafi þann 24. september 2014 móttekið tölvupóst frá LÍN ásamt fjórum bréfum sjóðsins til hans og eiginkonu hans í viðhengi. Hafi hann svarað LÍN með tölvupósti þann 15. október en hafi þá verið búinn að hringja í þjónustuver og útvega skattskýrslur. Af einhverjum ástæðum hafi fjöldapóstur LÍN með kynningu á endurgreiðslum og annar tölvupóstur sem LÍN sendi farið framhjá honum. Kærandi kveðst ekki getað svarað því hvort tölvupósturinn hafi lent í röngu innhólfi eða ruslpósti eða týnst í þeim fjölda tölvupósta sem berist á hverjum degi. Það megi vera að upplýsingar um gjalddaga og endurgreiðslur hafi verið á skuldabréfinu sem hann undirritaði við upphaf náms. Það hafi hins vegar verið á árinu 2007 og að ætlast til þess að einhver myndi það væri ansi langt gengið.

Fram kemur hjá kæranda að af einhverjum ástæðum hafi ekkert verið um það í bréfi starfsmanns LÍN frá 24. september 2014 hvaða greiðslumöguleikar væru í boði eða hvort það væru einhverjar dagsetningar sem þyrfti að hafa í huga. Kærandi mótmælir því að honum hafi verið kunnugt um að lán hans hafi verið ógreidd og komin í innheimtu í síðasta lagi í júlí 2014 eins og LÍN haldi fram. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum hafi LÍN ekki séð sér fært að senda á tölvupóstfang hans innheimtuviðvaranir sem sendar hafi verið með pósti þann 14. ágúst 2014 vegna gjalddagans 30. júní 2014 og 15. september vegna 1. september gjalddagans. Kærandi kveðst hafa haft samband við LÍN um leið og hann frétti af málinu þann 24. september 2014 og hafi hann fengið þau svör að tekjuupplýsingar væru komnar til ráðgjafa og hitt erindið til fjármálastjóra til vinnslu. Þegar fjármálastjórinn hafi upplýst um að það væri ekkert sem hún gæti gert í þessu þá hafi kærandi tekið því þannig að LÍN gæti ekkert gert í málinu. Þegar kærandi hafi síðar rætt við fjármálastjórann um mál eiginkonu hans hafi fjármálastjórinn ekkert minnst á málefni kæranda eða í hvaða ferli þau væru. Kærandi telur LÍN hafa skýlt sér bak við Gjaldskil með því að segja að LÍN gæti ekkert gert og að kærandi skyldi hafa samband við Gjaldskil.

Varðandi bréfasendingar tekur kærandi fram að eftir að hann hafði samband við LÍN haustið 2014 hafi ekki eitt einasta bréf borist honum frá sjóðnum vegna námslána hans. Bréf hafi hins vegar borist eiginkonu hans í lok september og byrjun október það ár en síðan hafi engin bréf borist fyrr en í júní 2015 þegar þau hafi borist á nýtt heimilisfang þeirra hjóna. Eftir að kærandi hafði samband við Gjaldskil í nóvember 2014 hafi hann ekkert heyrt eða fengið varðandi málið fyrr en honum hafi verið birt stefna 23. nóvember 2015. Kærandi vísar til þess að lánið hafi verið gjaldfellt 9. apríl 2015 vegna þess að engar greiðslur hafi borist vegna gjalddagans 30. júní 2014. Kærandi telur þetta skamman tíma einkum í ljósi þess að honum hafi aldrei borist frá því málið byrjaði greiðsluseðlar, ítrekanir, innheimtubréf eða annað frá þeim aðilum er að málinu komu, að frátöldum þeim tölvupóstum sem þeim hafi borist í upphafi. Þá hafi ekkert komið fram um að til stæði að gjaldfella lánið og þó hafi kærandi verið í sambandi við fjármálastjóra LÍN allan tímann, bæði símleiðis og í tölvupósti. Kærandi telur að hagsmunir sjóðsins hafi ekki verið hafðir að leiðarljósi með kostnaðarsömum innheimtuaðferðum á þessum tíma þegar þau hjónin séu nýkomin úr fimm ára námi, hún í hlutastarfi og kærandi atvinnulaus. LÍN muni þurfa að afskrifa skuldina og hvorki kærandi né sjóðurinn hafi hag af þessu, aðeins þeir sem innheimti fyrir LÍN. Skoða þurfi innbyggða hvata í ferlinu sem beinlínis stuðli að því að málið sé lagt fyrir dómstóla.

Þá lýsir kærandi þeim úrræðum sem greiðendum standa til boða samkvæmt 12. og 13. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN og lýst var í svari menntamálaráðherra vegna fyrirspurnar á Alþingi. Í svarinu hafi einnig komið fram að sjóðurinn geti boðið upp á fjölþætt úrræði til þess að greiðendur geti staðið í skilum. Þar komi einnig fram að þó svo að LÍN hafi valið þá leið að nýta þjónustu milliinnheimtufyrirtækis hafi LÍN ekki afsalað sér ákvörðunarvaldi um framgang innheimtunnar og að stjórnendur LÍN hafi fulla stjórn á því með hvaða hætti innheimtunni er háttað, hvaða svigrúm til samninga eru veitt og til hvaða innheimtuaðgerða er gripið. Kærandi kveður svör menntamálaráðherra koma sér spánskt fyrir sjónir í ljósi þess að hann hafi fengið að heyra frá sjóðnum að ekkert væri hægt að gera í málum hans. Kærandi bendir einnig á að eiginkona hans skuldi námslán með svipuðum útgáfu og lokunardögum. Málefni hennar hafi verið mun „skrautlegri ganga“ þar sem málið hafi flækst milli landa í milliinnheimtu og hlaðið á sig kostnaði á sama tíma og mál kæranda. Kærandi bendir á að dráttur hafi verið á að stjórn sjóðsins hafi tekið mál hans og eiginkonu hans fyrir eftir að hann sendi erindi sitt þann 29. apríl 2016. Þegar málið hafi loks farið fyrir stjórn sjóðins hafi viðbótargreinargerð hans ekki fylgt.

Í andmælabréfi kæranda 28. mars 2017 er listi yfir bréf sem vísað er til í athugasemdum stjórnar LÍN í málinu. Telur hann að það skorti nánari útskýringar, s.s. dagsetningar á bréfum sem LÍN hafi skráð að hafi „lent á villu“. Telur kærandi reyndar hæpið að þessi bréf hafi verið send á þessu þriggja mánaða tímabili, þ.e. frá 25. júlí 2014 til 25. október 2014. Vekur kærandi athygli á að bréf dagsett 29. júní 2015 til eiginkonu hans hafi skilað sér en ekki samsvarandi bréf til kæranda dagsett þremur dögum fyrr. Kærandi telur útilokað að póstur hafi farið forgörðum og endursendur hafi hann á annað borð verið borinn út. Kærandi tilgreinir einnig að póstur hafi ekki borist eiginkonu hans á tímabilinu október 20    14 til 2. júní 2015. Kærandi kveðst hafa verið í reglulegum samskiptum við sjóðinn um árabil en aldrei fengið þau skilaboð að heimilisfang vantaði. Að auki hafi hann skráðan umboðsmann á Íslandi. Einnig sé hann viss um að á einhverjum tímapunkti hafi verið búið að láta sjóðnum í té upplýsingar um heimilisfang þeirra. Hafi m.a. bréf frá LÍN til eiginkonu hans frá 2012 verið sent á heimilisfang þeirra í Svíþjóð að S. Kærandi bendir á að ekki virðist vera nein regla hjá sjóðnum á hvaða heimilisfang bréf séu send. Hafi bréf ýmist verið send þeim eða á heimilisfang umboðsmanns þeirra á Íslandi. Bendir kærandi á að í grein 8.1 í úthlutunarreglum LÍN komi fram að lánþegum er búi erlendis beri að senda sjóðnum upplýsingar um heimilisfang sitt og/eða hafa umboðsmann á Íslandi er sjái um þeirra mál.

Í viðbótarathugasemdum kæranda dagsettum 18. október 2017 kveðst kærandi vera ósáttur við að hefja afborgunarferli hjá innheimtustofnun vegna augljósra mistaka. Sérstaklega þar sem hann og eiginkona hans hafi uppfyllt skilyrði fyrir að fá afborgunum frestað. Kærandi ítrekar að LÍN hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni og að úrlausn máls hans og eiginkonu hans hafi ekki verið í samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. LÍN hafi aldrei tekið afstöðu til þess hvort þau hjónin uppfylltu skilyrði laga um undanþágu frá afborgun skv. 12. og 13. gr. reglugerðar nr. 478/2011 um LÍN. LÍN hafi einnig staðið illa að allri upplýsingagjöf. Í fyrsta póstinum haustið 2014 hafi verið látið nægja að vísa til bréfa í viðhengi en ekki útskýrt fyrir kæranda að búið væri að senda kröfuna í innheimtu. Hafi starfsmanni LÍN mátt vera ljóst að Motus væri ekki frekar með póstáritun hans en LÍN. Þá kveður kærandi skráningu upplýsinga vera ábótavant hjá LÍN. Hafi hann t.d. hringt ótal sinnum vegna sín og konu sinnar en það væri ekki skráð. Þá skorti á reglu í útsendingum bréfa. Einnig skorti gagnsæi en starfsmaður LÍN hafi svarað erindi sem kærandi hafi sent til stjórnar 29. apríl 2016. Hafi kærandi fyrst talið að um væri að ræða niðurstöðu stjórnar LÍN í máli hans. Þá hafi kærandi ekki fengið neitt yfirlit yfir þau gögn er hafi verið lögð fram í máli hans hjá stjórn LÍN. Þá ítrekar kærandi að hann hafi verið með umboðsmann á Íslandi sem sjóðurinn hafi getað sent gögn til. Einnig skorti á að sýndir séu útreikningar á afborgunum. Verulegu máli skipti t.d. hvort vísitala við útreikning á afborgun kæranda sé miðuð við maí eða júní 2008. Kærandi telur að vinnubrögðum við innheimtu sé verulega ábótavant. Tilvísun til kröfunnar sé t.d. mismunandi eftir því hver innheimtuaðili sé. Kærandi gerir athugasemdir við atriði sem hann telur fela í sér misræmi í skráningu upplýsinga hjá LÍN og innheimtufyrirtækjunum. Kærandi er einnig ósáttur við innheimtuþóknun sem bætt hefur verið við kröfuna af hálfu innheimtufyrirtækja og að ekki hafi verið lögð vinna í að afla heimilisfangs hans þegar bréf hafi verið endursend veturinn 2014-2015. Kærandi upplýsir að hann hafi tilkynnt um breytt heimilisfang haustið 2014 frá S til B þrátt fyrir að ekki væri fyrirhugaður flutningur fyrr en í mars 2015. Fyrir mistök hafi hann ekki pantað áframsendingu á nýja staðinn en þar hafi nöfn þeirra verið skráð á póstkassa. Hafi hann treyst því að bréf yrðu eftir sem áður borin út á S þar sem nöfn þeirra hafi verið áfram skráð á bréfalúgu á hurðinni.

Sjónarmið LÍN

Í athugasemdum LÍN segir að kærandi hafi farið þess á leit við LÍN að fundin yrði raunhæf lausn á málum hans og eiginkonu hans. Hann hafi verið í vanskilum við sjóðinn frá júní 2014 og lán hans komin í innheimtu hjá lögmönnum sjóðsins. Eins og komið hafi fram í bréfi LÍN til kæranda 13. júní 2016 hafi sjóðurinn sent tölvupóst til kæranda þann 6. júní 2014 á netfang það sem hann hafi síðan þá notað í samskiptum við sjóðinn þar sem kynntar hafi verið endurgreiðslur námslána, upplýsingar um fyrsta gjalddagann þann 30. júní 2014, allar upplýsingar um endurgreiðslur námslána, m.a. hvar kröfurnar birtist, undanþáguheimildir og hvert og með hvaða hætti bréf væru send. Þann 25. júlí 2014 hafi síðan verið send ítrekun vegna 30. júní gjalddagans á þetta sama netfang. Einnig hafi sjóðurinn reynt að senda á kæranda bréf með almennum pósti en þau hafi verið endursend. Þegar kærandi hafi sent svar við tölvupósti LÍN frá 24. september 2014 hafi sjóðurinn sent honum afrit innheimtu og ítrekunarbréfa, vegna júní og september gjaldaganna. Bréf sem LÍN sendi til kæranda á heimilisfang það sem hann gaf upp í september 2014 hafi hins vegar verið endursend allt þar til upplýsingar hafi borist um nýtt heimilisfang í september 2015. Í bréfi LÍN til kæranda þann 13. júní 2016 hafi einnig verið bent á að engin gögn bentu til þess að þrátt fyrir upplýsingar um vanskil sín hafi kærandi fyrr en þá, þ.e. vorið 2016, gert tilraun til að semja um afborganir lána sinna beint við lögmenn eins og honum hafi áður verið bent á að gera. Hafi kæranda mátt vera kunnugt um að lán hans væru komin í innheimtu og ógreidd í síðasta lagi í júní 2014. Ítrekar LÍN að kærandi hafi getað samið um málið á öllum stigum þess við þá lögmenn sem sjái um að innheimta fyrir sjóðinn en svo virðist sem hann hafi ekki viljað beina erindi sínu þangað. Kærandi hafi ekki verið samþykkur þessum rökum og óskað eftir því að mál hans yrði borið undir stjórn sjóðsins. Óskað hafi verið eftir frekari rökstuðningi og/eða athugasemdum frá kæranda þann 19. júlí 2016 en svar hans hafi ekki borist fyrr en 19. ágúst 2016 en þá hafi undirnefnd stjórnar verið búin að fjalla um mál hans. Eftir að niðurstaða stjórnar hafi legið fyrir hafi kærandi óskað endurupptöku en ekki hafi verið fallist á þá beiðni. Hafi upplýsingar sem kærandi sendi með endurupptökubeiðni ýmist verið þær sömu og þegar lágu fyrir eða ekki þess eðlis að talið yrði skilyrði þess að endurupptaka ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda.

Stjórn LÍN telur að meðferð máls kæranda hjá LÍN hafi verið í samræmi við lög og reglur um sjóðinn og einnig í samræmi við fyrri ákvarðanir stjórnar LÍN og málskotsnefndar. Fer stjórn LÍN fram á að málskotsnefnd staðfesti ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda.

Niðurstaða

Um kærufrest.

Stjórn LÍN tók fyrri ákvörðun sína í máli kæranda þann 30. ágúst 2016 og var hún tilkynnt kæranda með tölvupósti 2. september 2016. Kærandi óskaði endurupptöku 13. október 2016 og rofnaði þá kærufresturinn. Stjórn LÍN synjaði beiðni kæranda um endurupptöku 25. október 2016 og var synjunin tilkynnt kæranda með tölvupósti þann 28. sama mánaðar og var þá framhald á þeim tíma sem eftir lifði af þriggja mánaða kærufresti vegna fyrri ákvörðunar stjórnar LÍN. Þegar kærandi sendi kæru sína 27. janúar 2017 var kærufrestur vegna fyrri ákvörðunar stjórnar LÍN liðinn en ekki vegna síðari ákvörðunar, þann 25. október 2016, þar sem synjað var endurupptöku fyrri ákvörðunar í máli stjórnar LÍN í máli kæranda þar sem ekki hefðu borist ný gögn er sýndu fram á að fyrri niðurstaða stjórnar hafi byggt á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum.

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal kæra borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun, nema lög mæli á annan veg. Samkvæmt 2. mgr. 28. gr. laganna skal vísa frá erindum er berast eftir kærufrest nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar. Af orðalagi ákvæðisins má ráða að líta verði til þess hversu veigamiklir hagsmunir kæranda af úrlausn málsins eru og að við það mat skuli beita einstaklingsbundnu mati á hagsmunum kæranda. Að teknu tilliti til fjárhæðar hins gjaldfellda láns og fjárhagsstöðu kæranda verður að mati málskotsnefndar ekki litið framhjá því að hagsmunir kæranda af niðurstöðu máls þessa eru töluverðir og því rétt að taka til meðferðar hjá nefndinni báðar ákvarðanir stjórnar LÍN í máli kæranda.

Um efnishlið málsins.

Hin kærða ákvörðun beinist að kæranda og fjallar um þá afstöðu LÍN að hafna því að ganga til samninga við kæranda og þess í stað vísa honum á að hafa samband við lögmannstofuna Gjaldskil, sem sér um innheimtu fyrir LÍN, og semja við hana um vanskilin við sjóðinn. Í hinni kærðu ákvörðun er fjallað um innheimtu námslána kæranda sem eiginkona hans er ábyrgðarmaður að. Í hinni kærðu ákvörðun sem beinist að kæranda er ekki fjallað um eða tekin nein efnislega afstaða tilinnheimtu námslána eiginkonu hans. Verður því í þessu máli ekki tekin afstaða til innheimtu námslána eiginkonu kæranda.

Fram kemur í hinni kærðu ákvörðun að ágreiningur er milli kæranda og LÍN um hvort innheimta LÍN á afborgun námsláns kæranda nr. G-074[..] og gjaldfelling námslánsins hafi verið í samræmi við skilmála skuldabréfs sem gefið var út vegna námslánsins og lög og reglur um sjóðinn. Telur kærandi að ekki hafi verið fylgt ákvæðum laga og reglna og hefur farið þess á leit við LÍN mál hans og eignkonu hans verði skoðað og að fundin verði lausn vegna vanskila þeirra við sjóðinn. Hefur kærandi m.a. borið að LÍN hafi ekki farið réttilega að því tilkynna kæranda um fyrsta gjalddaga skuldabréfsins, tilkynna kæranda um vanskil eða veita upplýsingar um greiðsluúrræði og dagsetningar er máli skipti. Kærandi telur að LÍN hafi ekki sinnt upplýsingaskyldu sinni og ekki sinnt því að koma bréfum til skila til hans eða umboðsmanns hans þegar þau voru endursend sjóðnum. Kærandi telur innheimtukostnað fram úr hófi og einnig telur kærandi of stuttan tíma hafa liðið þar til skuldabréfið var gjaldfellt. Þá telur kærandi að vinnubrögð við innheimtu hafi verið ábótavant.

Það skiptir máli fyrir heimildir málskotnefndar til að endurskoða meðferð LÍN á máli kæranda að stefnur voru birtar kæranda og eiginkonu hans í kjölfar gjaldfellingar skuldabréfa þeirra nr. G-074[..] og G-073[..]. Var stefna árituð í máli kæranda þann 23. mars 2016 og í máli eiginkonu hans 11. júlí 2017. Ekki var tekið til varna í þessum málum og þess ekki farið á leit af hálfu stefndu að fá að koma að frekari vörnum en tilgreindar eru í 118. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Eru stefnur þessar, þannig áritaðar, bindandi um greiðsluskyldu kæranda og eiginkonu hans og aðfararhæfar. Með því er ljóst að LÍN hefur fengið dóm á hendur kæranda um greiðslu á heildarskuld samkvæmt skuldabréfi nr. G-074[..]. Í kjölfar dómsins fór kærandi þess á leit við LÍN að fundin yrði lausn á málum hans og eiginkonu hans við sjóðinn og byggir kærandi í því efni á að í aðdraganda gjaldfellingar lánsins hafi sjóðurinn ekki farið að lögum og reglum við innheimtu námsláns hans. Það er meginregla í réttarfari að dómur standi óhaggaður. Á þetta einnig við þegar útivist hefur orðið af hálfu stefnda og málið afgreitt með áritun dómara á stefnu, sbr. 1. mgr. 113. gr. laga um meðferð einkamála í héraði, enda er í 2. mgr. 113. gr. tekið fram að slík áritun hafi sama gildi og dómur og henni verði ekki skotið til æðra dóms. Er málskotsnefnd bundin af þeim dómi sem fyrir liggur um þær dómkröfur sem fallist var á með áritun stefnunnar, þ.e. um gjalddaga, greiðsluskyldu kæranda á dómkröfum málsins sem voru gjaldfallnar afborganir skuldabréfs nr. G-074[..] ásamt dráttarvöxtum auk 164.828 krónur í málskostnað.

Mál þetta er upphaflega til komið þar sem kærandi taldi innheimtukostnað sem Gjaldskil bætti við kröfuna úr hófi og féllst ekki á að semja við fyrirtækið um innheimtu kröfunnar. Í málskostnaðarkröfunni sem dæmd var er meðtalinn innheimtukostnaður innheimtufyrirtækis samkvæmt gjaldskrá þess. Verður niðurstaða héraðsdóms um þann kostnað því ekki eins og áður greinir endurskoðuð af nefndinni. Ljóst er að sjóðurinn sem kröfuhafi hefur svigrúm til að semja um greiðslufyrirkomulag þegar lán hjá sjóðnum hafa verið gjaldfelld og dómur gengið, að teknu tilliti til jafnræðis og samræmis við meðferð sams konar mála. Þá liggur einnig fyrir að kærandi er einnig skuldari að námsláni hjá LÍN samkvæmt skuldabréfi G-101[..] sem ekki hefur verið stefnt til greiðslu. Fór kærandi þess á leit við sjóðinn að fundin yrði lausn á málum hans og eiginkonu hans við sjóðinn í kjölfar dóms í máli LÍN gegn honum. Í ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda vísar stjórn LÍN til þess að innheimtuaðgerðir hafi verið í samræmi við lög og reglur og bendir kæranda á að hafa samband við lögmannstofuna Gjaldskil sem sjái um innheimtu krafna á hendur kæranda og eiginkonu hans til að semja um vanskil þeirra við sjóðinn. Engar upplýsingar eru um að kærandi hafi sinnt þessum tilmælum.

Samkvæmt ákvæðum skuldabréfs kæranda er heimilt að gjaldfella skuldina ef verulegar vanefndir eru. Er þá heimilt að innheimta dráttarvexti og einnig skal skuldari greiða innheimtukostnað. Þegar vanefndir verða kann LÍN að vera nauðsynlegt að leita til lögmanna til að knýja á um innheimtu kröfunnar. Um slíkt er kveðið á um í kafla 8.7 í úthlutunarreglum LÍN 2015-2016 en þar segir að ef lánþegi greiði ekki á réttum tíma og ekki hafi verið samið við sjóðinn um greiðslu sé krafan send til lögmanna í innheimtu. Þrátt fyrir að LÍN hafi ítrekað beint þeim tilmælum til kæranda að snúa sér til þeirra lögmanna sem falið hefur verið að sjá um innheimtu kröfunnar hefur kærandi ekki orðið við þeim tilmælum.

Að mati málskotsnefndar eru framangreindar aðferðir sem LÍN viðhefur við innheimtu krafna á hendur lántökum til þess fallnar að gæta samræmis og jafnræðis við meðferð mála. Kærandi hefur ekki látið á það reyna hverja úrlausn sinna mála hann geti fengið hjá viðkomandi innheimtufyrirtæki og verður ekki séð að hann eigi kröfu um sérstaka meðferð sinna mála hjá LÍN umfram aðra lántaka sem lenda í vanskilum.  

Verður ekki séð samkvæmt framansögðu annað en að meðferð sjóðsins á máli kæranda hafi verið í samræmi við lög og reglur er um sjóðinn gilda og í samræmi við skilmála skuldabréfs sem kærandi undirritaði. Eru hinar kærðu ákvarðanir stjórnar LÍN frá 31. ágúst 2016 og 25. október 2016 í máli kæranda staðfestar.

Úrskurðarorð

Hinar kærðu ákvarðanir stjórnar LÍN frá 31. ágúst 2016 og 25. október 2016 í máli kæranda eru staðfestar.

Til baka