Úrskurður
Ár 2018, föstudaginn 13. apríl kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-16/2017:
Kæruefni
Með kæru ódagsettri en móttekinni 1. september 2017 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 24. ágúst 2017 um að synja beiðni kæranda um undanþágu frá greiðslu námsláns. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 4. september 2017 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Bárust athugasemdir stjórnar LÍN með bréfi dagsettu 5. október 2017 og var afrit þess sent kæranda og henni jafnframt veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.
Málsatvik og ágreiningsefni
Af hálfu LÍN er upplýst að þann 28. febrúar 2017 hafi kærandi
sótt rafrænt um undanþágu frá fastri endurgreiðslu námsláns á gjalddaga 1. mars
2017. Þann 30. mars hafi kærandi fengið formlega synjun um undanþágu. Kærandi
hafi haft samband við LÍN símleiðis í byrjum maí og óskað aftur eftir undanþágu,
en verið synjað. Þann 2. júní 2017 hafi kærandi svo sent erindi til stjórnar LÍN
og óskað undanþágu frá reglum LÍN um greiðslu af námsláni sínu þar til hún hefði
lokið endurhæfingu og byrjað að vinna að nýju. Stjórn LÍN synjaði beiðni kæranda
með ákvörðun sinni 24. ágúst 2017. Vísaði stjórnin til þess að í grein 8.5 í
úthlutunarreglum LÍN væri heimilt að veita undanþágu frá greiðslu fastrar
afborgunar ef lánshæft nám, atvinnuleysi, óvinnufærni vegna örorku og/eða
veikinda, þungunar, umönnunar barna eða aðrar sambærilegar ástæður yllu
verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega. Þá væri slík undanþága almennt ekki
veitt ef árstekjur lánþega væru yfir 3.590.000 krónur eða árstekjur hjóna yfir
7.180.000 krónur. Þá þyrftu aðstæður þær sem valda örðugleikunum að hafa varað í
a.m.k. fjóra mánuði fyrir gjalddaga afborgunar. Taldi stjórn LÍN það skilyrði
ekki vera fyrir hendi, en einnig að tekjur kæranda væru yfir fyrrgreindum
viðmiðunarmörkum og að ekki væri sýnt fram á verulega fjárhagsörðugleika með
öðrum hætti.
Sjónarmið kæranda.
Í kæru sinni til
málskotsnefndar vísar kærandi til þeirra röksemda sem fram koma í erindi hennar
til stjórnar LÍN. Þar tiltekur hún þær breytingar sem urðu á aðstæðum hennar í
lok árs 2016 og byrjun árs 2017. Fjárhagslegar aðstæður hennar hafi gjörbreyst í
árslok 2016 vegna atvinnumissis og í framhaldi af því óvinnufærni vegna
veikinda. Þá hafi orðið verulegar breytingar á aðstæðum kæranda í febrúar 2017
er hún hafi skilið við eiginmann sinn og farið í leiguíbúð. Við það hafi hún
farið af heimili þar sem ráðstöfunartekjur voru um milljón á mánuði í 240 þúsund
krónur. Hafi hinar breyttu aðstæður leitt til verulegra fjárhagsörðugleika
hennar á árinu 2017. Hún sæi ekki fram á að geta greitt af námsláni sínu í
nánustu framtíð vegna aukinni útgjalda og margfalt lægri tekna. Henni væri
mikilvægt að fá frest til að greiða af námsláni sínu þar til hún hefði lokið
endurhæfingu og væru byrjuð að vinna aftur. Með erindi kæranda til stjórnar LÍN
fylgdi endurhæfingaráætlun frá Virk starfsendurhæfingarsjóði tímabilið 1. ágúst
2017 til 31. desember 2017, staðfesting frá Tryggingastofnun um
endurhæfingarlífeyri tímabilið 1. ágúst 2017 til 31. október 2017 og yfirlýsing
Styrktarsjóðs BHM um að kærandi hefði fullnýtt sjúkradagpeningarétt sinn hjá
sjóðnum í lok júlí 2017. Kærandi gerir athugasemd við að í ákvörðun stjórnar LÍN
sé eingöngu hafnað beiðni hennar um frestun fastrar afborgunar 1. mars 2017, en
ekkert sé vikið að tekjutengdri afborgun sem var á gjalddaga nokkrum dögum
síðar, eða 1. september 2017. Sú afborgun sé tengd við tekjur ársins 2016. Það
hafi hins vegar verið frá áramótun 2017 sem fjárhagserfiðleikar hennar hafi
byrjað. Kærandi bendir á að viðmiðunarmörk tekna sé almennt viðmið sem heimilt
sé að víkja frá. Sama eigi við um það skilyrði að fjárhagsörðugleikar þurfi að
jafnaði hafa varað í a.m.k. fjóra mánuði fyrir gjalddaga. Þá gerir kærandi
athugasemdir við að stjórn LÍN hafi ekki í máli hennar horft til greinar 8.5.2 í
úthlutunarreglum sjóðsins, sem veitir heimild til undanþágu frá árlegri
endurgreiðslu að hluta eða öllu leyti ef skyndileg og veruleg breyting hefur
orðið á högun lánþega þannig að útsvarsstofn vegna tekna á fyrra ári gefur ekki
rétta mynd af fjárhag lánþega á endurgreiðslutímabilinu. Í kæru sinni tekur
kærandi sérstaklega fram að hún sæki um undanþágu afborgana frá og með 1.
september 2017 til og með 1. september 2018. Umsókn hennar varði ekki föstu
greiðsluna 1. mars 2017 þar sem hún hafi þegar greitt hana upp til þess að hún
fengi ekki synjun um undanþágu frá afborguninni 1. september 2017. Þegar hún
hafi fengið synjun um undanþágu í maí 2017 hafi hún farið á fund ráðgjafa LÍN
sem hafi bent henni á að leita til stjórnar LÍN um undanþágu. Það hafi hún gert
en ekki óskað undanþágu vegna greiðslunnar 1. mars 2017 heldur frestunar þeirra
afborgana sem eftir kæmu þar til hún hefði lokið endurhæfingu og hafið störf að
nýju.
Sjónarmið stjórnar LÍN.
Í athugasemdum stjórnar LÍN
vegna kærunnar er bent á að í 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN komi fram
þau skilyrði sem greiðandi þurfi að uppfylla til að stjórn sjóðsins sé heimilt
að veita undanþágu frá greiðslu námslána. Þá vísar LÍN til greinar 8.5.1 í
úthlutunarreglum sjóðsins fyrir 2016-2017 um að heimilt sé að veita undanþágu
frá fastri afborgun ef lánshæft nám, atvinnuleysi, óvinnufærni vegna veikinda
og/eða örorku, þungunar, umönnunar barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda
verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega. Fram komi í ákvæðinu að slík
undanþága sé almennt ekki veitt ef árstekjur lánþega eru yfir 3.590.000 krónum
eða árstekjur hjóna/sambúðarfólks eru yfir 7.180.000 krónum. Bæði skilyrðin
þurfi að vera til staðar, þ.e. að um verulega fjárhagsörðugleika sé að ræða
vegna þeirra atvika sem talin séu upp í lagagreininni og aðstæðurnar sem valda
örðugleikunum verið fyrir hendi síðustu fjóra mánuð fyrir gjalddaga. Að mati LÍN
hafi kærandi ekki uppfyllt skilyrði í úthlutunarreglum LÍN til þess að eiga rétt
á undanþágu frá afborgun þar sem hún hafi ekki sýnt fram á að ákveðnar ástæður
hafi valdið verulegum fjárhagsörðugleikum hjá henni. Kærandi sé yfir þeim
tekjuviðmiðum sem almennt sé litið til og hafi ekki sýnt fram á verulega
fjarhagserfiðleika með öðrum hætti. Þá hafi þær aðstæður sem kærandi vísi til að
hafi valdið fjárhagsörðugleikunum aðeins varað í tvo mánuði fyrir gjalddaga
hinnar föstu afborgunar, en ekki fjóra mánuði eins og almennt sé miðað við.
Stjórn LÍN tekur fram að kærandi hafi sótt um og verið synjað um undanþágu frá
fastri afborgun. Kærandi hafi í umsóknarferlinu leitað upplýsinga um í hversu
langan tíma hún gæti óskað undanþágu og þá verið bent á að einungis væri hægt að
sækja um undanþágu frá einum gjalddaga í einu og umsókn hennar hafi aðeins gilt
um föstu afborgunina á gjalddaga 1. mars 2017. Þegar kærandi sótti um frestun á
greiðslum hafi aðeins fasta greiðslan 1. mars 2017 verið ógreidd. Stjórn LÍN
hafi því fjallað um beiðni kæranda um endurskoðun á synjun um undanþágu frá
greiðslu þess gjalddaga. Telur stjórn LÍN að í reglum sjóðsins sé enga heimild
að finna til að til þess að veita undanþágu frá afborgun á ómynduðum gjalddögum
á lánum lánþega. Að mati stjórnar LÍN er ákvörðunin í máli kæranda í samræmi við
lög og reglur sem um sjóðinn gilda og einnig í samræmi við sambærilegar
ákvarðanir stjórnar LÍN og málskotsnefndar. Fer stjórn LÍN fram á að
málskotsnefnd staðfesti hina kærðu ákvörðun.
Niðurstaða
Kærandi gerir þá kröfu að málskotsnefnd felli úr gildi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna að synja beiðni hennar um undanþágu frá greiðslu námsláns frá og með 1. september 2017 til og með 1. september 2018. Í ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda segir: "Óskað er eftir ákvörðun stjórnar LÍN um undanþágu á afborgun vegna 01.03.2017 gjalddaga vegna veikinda og breyttra aðstæðna sem leitt hafa til verulegra fjárhagsörðugleika." Í ákvörðun stjórnar LÍN er síðan fjallað um skilyrði 6. mgr. 8. gr. laga um LÍN og grein 8.5.2 í úthlutunarreglum sjóðsins um undanþágu frá árlegri endurgreiðslu láns. Segir síðan í ákvörðun stjórnar LÍN að ekki sé fallist á að framangreind skilyrði séu uppfyllt og að stjórnin hafni erindi kæranda. Af þessu er ljóst að ákvörðun stjórnar LÍN einskorðast við það að synja kæranda um undanþágu frá afborguninni 1. mars 2017. Í athugasemdum sínum til málskotsnefndar tekur stjórn LÍN sérstaklega fram að ákvörðun hennar lúti ekki að öðrum gjalddögum þar sem enga heimild sé að finna í reglum sjóðsins að veita undanþágu frá afborgun á ómynduðum gjalddögum á lánum lánþega. Í erindi kæranda til stjórnar LÍN þann 2. júní 2017 segir ekki að kærandi leiti undanþágu frá afborgunni 1. mars 2017 heldur að hún óski frests á greiðslum þar til hún hafi lokið endurhæfingu og sé komin á vinnumarkað að nýju. Í kærunni til málskostnefndar kemur fram að kærandi hafi þegar greitt afborgunina 1. mars og að beiðni hennar um undanþágu snúi að gjalddaganum 1. september 2017 og komandi tveimur gjalddögum á árinu 2018. Af framansögðu er ljóst að lagður hefur verið rangur grundvöllur að ákvörðun í máli kæranda. Kann að mega rekja þann misskilning til þess að þegar kærandi upphaflega sótti um undanþágu frá afborgun í gegnum "Mitt svæði" á vef LÍN var aðeins gefinn kostur á umsókn um undanþágu frá afborguninni 1. mars. Í meðferð málsins virðast starfsmenn og stjórn LÍN því hafa gengið út frá að umsókn kæranda gilti eingöngu um gjalddagann 1. mars. Í 1. mgr. greinar 8.5.3 í úthlutunarreglum LÍN 2016-2017 segir að lánþegi sem óskar undanþágu frá endurgreiðslu námsláns skuli sækja um það á þar til gerðu umsóknareyðublaði og láta nákvæmar upplýsingar sem þar er óskað eftir fylgja. Þá segir í greininni að sækja þurfi um undanþágu fyrir hvern gjalddaga fyrir sig. Í 3. mgr. segir síðan að ef veitt sé undanþága "þá á hún einungis við þann gjalddaga sem umsóknin miðast við". Af hálfu málskotsnefndar eru ekki gerðar athugasemdir við þá vinnureglu LÍN að opna ekki fyrir umsóknir um undanþágu frá ómynduðum gjalddögum á lánum lánþega, enda miða úthlutunarreglum við að aðeins sé sótt um og veitt undanþága frá einni greiðslu í einu. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald veita þeim sem til þess leitar nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi mál sem snerta starfssvið þess. Af erindi kæranda til stjórnar LÍN 2. júní 2017 mátti ráða að hún leitaði undanþágu frá greiðslu afborgunar 1. september 2017 og öðrum greiðslum á meðan ekki yrðu breytingar á högum hennar. LÍN bar því að veita kæranda viðeigandi leiðbeiningar um réttarstöðu hennar og möguleika á að leita undanþágu frá afborgunni 1. september 2017 og þeim sem á eftir kæmu. Þess í stað var erindi kæranda afgreitt sem umsókn um undanþágu frá gjalddaganum 1. mars 2017 og hafnað. Þá var ekki tekin afstaða til þess hvort grein 8.5.2 í úthlutunarreglum sjóðsins ætti við í tilviki kæranda, þ.e. hvort skyndileg og veruleg breyting hafi orðið á högun hennar þannig að útsvarsstofn vegna tekna á fyrra ári hafi ekki gefið rétta mynd af fjárhag hennar á endurgreiðslutímabilinu. Af þessum sökum telur málskotsnefnd óhjákvæmilegt að fella úr gildi ákvörðun stjórnar LÍN frá 24. ágúst 2017 og leggur fyrir sjóðinn að taka mál kæranda til meðferðar að nýju og taka afstöðu til þess hvort heimilt hafi verið að veita kæranda undanþágu frá greiðslu á gjalddaga 1. september 2017 og eftir atvikum á gjalddaga 1. mars 2018 óski kærandi eftir því.
Úrskurðarorð
Hin kærða ákvörðun frá 24. ágúst 2017 í máli kæranda er felld úr gildi.