Úrskurður
Ár 2018, fimmtudaginn 26. apríl, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-18/2017.
Kæruefni
Með kæru sem barst málskotsnefnd 27. september 2017 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (hér eftir nefnd stjórn LÍN) frá 24. ágúst 2017 um að synja beiðni hennar um niðurfellingu og ógildingu ábyrgðarskuldbindingar hennar á námsláni lántaka nr. G-1000. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 27. september 2017 og gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN bárust með bréfi dagsettu 31. október 2017 og var afrit þess sent kæranda og henni gefinn kostur á að koma að frekari sjónarmiðum í málinu. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi er ábyrgðarmaður á skuldabréfi nr. G-1000 hjá LÍN vegna
námsláns lántaka. Kærandi skrifaði undir sem sjálfskuldarábyrgðaraðili á námslán
lántaka þann 5. mars 2010. Jafnframt staðfesti kærandi að hafa kynnt sér þær
upplýsingar sem fram koma á skjali LÍN, "Upplýsingar til ábyrgðarmanns skv.
5. gr. laga nr. 32/2009", og að hafa fengið afhent afrit þess og að skjalið
skoðist sem hluti af ábyrgðarsamningi. Námslok lántaka voru skráð 29. júní 2010.
Vanskil urðu á greiðslu lánsins 1. mars 2014 og næstu gjalddaga. Hinn 26. maí
2016 var skuldabréfið gjaldfellt og í kjölfarið höfðaði LÍN mál gegn kæranda og
lántaka fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Málið var þingfest 8. nóvember 2016 og
rekið sem skuldabréfamál samkvæmt ákvæðum XVII. kafla laga nr. 91/1991 um
meðferð einkamála (eml.). Kærandi og lántaki tóku ekki til varna og málinu lauk
með áritun stefnu um aðfararhæfi þann 3. mars 2017. Í kjölfarið fékk kærandi
boðun í fjárnám hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu 22. maí 2017. Kærandi
mætti ekki í fyrirtöku fjárnámsins og lauk því sem árangurslausu. Kærandi fór
þess á leit við stjórn LÍN með bréfi dagsettu 14. júlí 2017 að
sjálfskuldarábyrgð hennar á láni lántaka yrði felld niður. Kærandi fór þess
jafnframt á leit að fjárnámsgerð LÍN, dags. 22. maí 2017, hjá embætti
sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu yrði dregin til baka og felld úr gildi.
Stjórn LÍN hafnaði kröfu kæranda með hinni kærðu ákvörðun. Kærandi kærði
framangreinda ákvörðun stjórnar LÍN til málskotsnefndar og krefst þess að
ákvörðunin verði felld úr gildi. Stjórn LÍN krefst þess að ákvörðunin verði
staðfest.
Sjónarmið kæranda
Kærandi byggir kröfu sínu um
ógildingu sjálfskuldarábyrgðarinnar og niðurfellingu fjárnámsgerðarinnar á því
að LÍN hafi brotið gegn þeim skyldum sem á sjóðnum hvíli um að framkvæma
greiðslumat á lántaka ásamt því að láta undir höfuð leggjast að kanna hagi
hennar með fullnægjandi hætti. Þá hafi LÍN ekki ráðið kæranda frá því að gangast
undir ábyrgð þrátt fyrir að staða lántaka gæfi það til kynna. Kærandi lýsir í
kæru sinni að lántaki hafi sótt rafrænt um námslán í gegnum vefgátt LÍN. Við
frágang skuldabréfsins 5. mars 2010 hafi kærandi verið umboðsmaður lántaka og
undirritað skuldabréfið, upphaflega að fjárhæð 2.259.817 krónur, fyrir hennar
hönd og einnig sem ábyrgðarmaður. Á skuldabréfinu komi fram eftirfarandi:
"Ábyrgðarmaður hefur verið upplýstur um greiðslugetu lántaka o.fl. atriði
skv. 5. gr. laga nr. 32/2009 og staðfest það með undirritun sinni á sérstaka
yfirlýsingu þar að lútandi sem skoðast sem hluti þessa skuldabréfs."
Meðfylgjandi skuldabréfinu hafi verið skjal sem hafi borið heitið
"Upplýsingar til ábyrgðarmanns, skv. 5. gr. laga nr. 32/2009." Tilgreint
sé m.a. í 1. tl. að ábyrgðarmaður skuldbindi sig persónulega til að tryggja
fullar efndir á láninu gagnvart LÍN. Í 2. tl. komi fram að LÍN hafi upplýst
ábyrgðarmanninn um greiðslusögu lántaka í samræmi við 4. gr. laga um
ábyrgðarmenn "eins og fram kemur á meðfylgjandi fylgiskjali." Einnig sé
tiltekið að frekari upplýsingar um greiðslugetu lántaka sé ekki að fá og vakin á
því athygli að lánið muni ekki greiðast fyrr en að liðnum 2 árum frá námslokum,
að þá verði aðstæður lántaka aðrar en þennan dag, þ. á m. greiðslugeta. Kærandi
upplýsir að þrátt fyrir að í 2. tl. hafi verið vísað til meðfylgjandi skjals
hafi ekkert slíkt skjal fylgt. Í samskiptum við LÍN hafi síðar komið fram að LÍN
hafi stuðst við upplýsingar frá Creditinfo en vegna persónuverndarsjónarmiða
hafi þeim gögnum verið eytt á sínum tíma. Kærandi bendir á að lántaki hafi
aldrei gengið undir greiðslumat, hvorki við undirritun skuldabréfsins né síðar.
LÍN hafi látið undir höfuð leggjast að kanna hagi hennar með öðrum hætti en að
prenta út yfirlit skuldastöðu hjá Creditinfo. Þá sé ennfremur mikilvægt að LÍN
hafi aldrei ráðið kæranda frá því að gangast undir ábyrgð á grundvelli slæmrar
fjárhagsstöðu lántaka, hvorki með munnlegum né skriflegum hætti. Kærandi vísar
máli sínu til stuðnings til 1. mgr. 4. gr. laga um ábyrgðarmenn þar sem komi
fram að lánveitanda beri að meta hæfi lántaka til að standa í skilum með lán þar
sem ábyrgðarmaður gengst í ábyrgð til tryggingar efndum lántaka. Þar komi einnig
fram að greiðslumat skuli byggja á viðurkenndum viðmiðum. Í 2. mgr. 4. gr. segi
ennfremur að lánveitandi skuli með skriflegum hætti ráða ábyrgðarmanni frá að
gangast í ábyrgð ef greiðslumat bendi til þess að lántaki geti ekki efnt
skuldbindingar sínar. Þá beri samkvæmt 5. gr. laganna að upplýsa ábyrgðarmann
skriflega um þá áhættu sem fylgi því að gangast í ábyrgð. Í því felist m.a. að
veita upplýsingar um greiðslugetu skuldara. Kærandi bendir á að svo virðist sem
LÍN hafi ætlað að uppfylla skyldur sínar um að kanna greiðslugetu lántaka með
því að kanna hvort hún væri á vanskilaskrá. Samkvæmt upplýsingum frá LÍN 11.
júlí 2017 hafi verið stuðst við upplýsingar frá Creditinfo. Samkvæmt því sem
kærandi best vissi hafi lántaki verið á vanskilaskrá á þessum tíma og hefði hún
örugglega ekki uppfyllt skilyrði lánshæfismats skv. grein 5.1.8 í
úthlutunarreglum LÍN. Að mati kæranda liggur fyrir að ekki hafi farið fram
fullnægjandi könnun á greiðslugetu lántaka og sé það óháð því hvaða niðurstöðu
gögn frá Creditinfo hafi gefið til kynna. Ekki hafi verið horft til tekna
lántaka eða skulda- og eignastöðu hennar svo sem almennt beri að gera við
greiðslumat, sbr. til hliðsjónar ákvæði 6. gr. reglugerðar nr. 920/2013 um
lánshæfismat og greiðslumat. Hafi LÍN borið samkvæmt fortakslausu orðalagi 2.
mgr. 4. gr. laga um ábyrgðarmenn að ráða kæranda frá að gangast í ábyrgð á
skuldbindingum lántaka. Kærandi fallist ekki á að þeim upplýsingum sem hafi
verið komið til hennar verði jafnað til slíkrar ábendingar. Kærandi bendir á að
vanræksla lánveitanda á skyldum sínum geti leitt til þess að ábyrgðarmaður verði
ekki bundinn við samninginn. Þetta eigi við þegar vitneskja um atriði sem
lánveitanda hafi borið að upplýsa ábyrgðarmann um hefði getað haft áhrif á
ákvörðun ábyrgðarmannsins um að takast á hendur ábyrgð sína. Sönnunarbyrðin um
að vanræksla hafi engin áhrif haft hvíli á lánveitanda. Kærandi vísar til þess
að brot á ákvæðum laga um ábyrgðamenn hafi þýðingu við mat á því hvort samningur
um ábyrgð teljist ógildur samkvæmt 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. Telur
kærandi einnig að brot gegn lögum um ábyrgðamenn geti eitt og sér leitt til
ógildis þegar fyrir liggi að brot hafi mögulega haft áhrif á ákvörðun
ábyrgðarmanns um að takast á hendur ábyrgðarskuldbindingu.
Sjónarmið
LÍN
LÍN vísar til þess að kærandi hafi gengist í ábyrgð á námsláni
G-1000. Hefði hún haft fullt og ótakmarkað umboð til að annast lántöku fyrir
lántaka og til að undirrita fyrir hennar hönd skuldabréf til tryggingar
námsláninu. Hafi kærandi gengist í ábyrgð á námsláninu 5. mars 2010 og ritað á
sama tíma undir yfirlýsingu með skuldabréfinu "Upplýsingar til ábyrgðarmanns
skv. 5. gr. laga nr. 32/2009." Í kjölfar vanskila á greiðslum námslánsins á
árinu 2014 hafi lánið verið gjaldfellt þann 13. maí 2016 samkvæmt heimild í
skuldabréfinu sjálfu. LÍN hafi höfðað mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Kærandi
hafi ekki mætt við þingfestingu og hafi stefnan verið árituð um aðfararhæfi á
grundvelli 113. gr. eml. þann 3. mars 2017. Í kjölfarið hafi verið gert
árangurslaust fjárnám hjá kæranda. Kærandi hefur vísað til þess að varnir hennar
hafi verið takmarkaðar þar sem málið hafi verið rekið sem skuldabréfamál á
grundvelli XVII. kafla eml. LÍN bendir á að kærandi hafi ekki mætt við
þingfestingu málsins en hefði hún gert það þá hefði hún jafnframt getað óskað
eftir því að koma að frekari vörnum í málinu, sbr. 119. gr. eml., enda væru
slíkar varnir almennt samþykktar í málum sjóðsins. Þá hefði kærandi getað nýtt
sér heimildir til endurupptöku útivistarmáls samkvæmt XXIII. kafla eml. LÍN
vísar til þess að endanleg niðurstaða liggi fyrir í málinu er bindi alla aðila
og að ekki sé á valdi málskotsnefndar að breyta þeirri niðurstöðu. Niðurstaða
stjórnar LÍN í máli kæranda sé í samræmi við lög og reglur og einnig í samræmi
við sambærilegar ákvarðanir stjórnar LÍN og málskotsnefndar.
Niðurstaða
Ágreiningur aðila snýr að sjálfskuldarábyrgð sem kærandi tókst á hendur gagnvart LÍN með undirritun yfirlýsingar þess efnis á skuldabréf sem lántaki gaf út 10. mars 2010 vegna námsláns lántaka nr. G-1000 hjá LÍN og um áhrif þess á réttarstöðu kæranda að skuldabréfið hafi verið gjaldfellt og stefna í máli LÍN gegn henni og lántaka hafi verið árituð um aðfararhæfi. Heimildir málskotsnefndar til að endurskoða ákvörðun LÍN í máli kæranda ber að skoða í ljósi þess að stefna var birt kæranda í kjölfar gjaldfellingar skuldabréfs nr. G-1000 og árituð um aðfararhæfi þann 3. mars 2017. Málið var rekið sem skuldabréfamál fyrir héraðsdómi samkvæmt XVII. kafla eml. í samræmi við heimild þar um í skuldabréfinu. Ekki var tekið til varna í málinu og þess ekki farið á leit af hálfu kæranda að fá að koma að frekari vörnum en tilgreindar eru í 118. gr. eml. Er stefna þessi, þannig árituð, bindandi um greiðsluskyldu kæranda og aðfararhæf. Hefur LÍN þannig fengið dóm á hendur lántaka og kæranda um greiðslu á heildarskuld samkvæmt skuldabréfi nr. G-1000. Í kjölfar dómsins fór kærandi þess á leit við LÍN að ábyrgð hennar yrði ógilt og felld niður og byggir hún á því að við undirritun ábyrgðarskuldbindingarinnar hafi sjóðurinn ekki farið að lögum um ábyrgðarmenn. Það er meginregla í réttarfari að dómur standi óhaggaður. Á þetta einnig við þegar útivist hefur orðið af hálfu stefnda og málið afgreitt með áritun dómara á stefnu, sbr. 1. mgr. 113. gr. eml., enda er í 2. mgr. 113. gr. tekið fram að slík áritun hafi sama gildi og dómur og henni verði ekki skotið til æðra dóms. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar, sbr. mál nr. 137/2015, hefur verið viðurkennt að aðili sem áður hefur verið stefnt fyrir dóm og ekki tekið til varna hafi þó ekki fyrirgert rétti sínum til að höfða mál gegn stefnanda fyrra máls jafnvel þó hann hefði getað teflt fram sömu málsástæðum sér til varnar í fyrra málinu og hann gerir fyrir kröfum sínum til sóknar í síðara málinu. Hins vegar er talið að sú afstaða hans að taka ekki til varnar í fyrra málinu kunni að hafa þýðingu þegar leyst er efnislega úr kröfum hans í síðara málinu. Á málskotsnefnd LÍN hvílir úrskurðarskylda og ber því nefndinni að meta á grundvelli sömu sjónarmiða hvaða þýðingu áritun stefnunnar í máli LÍN gegn kæranda hafi á efnislega úrlausn þeirra krafna sem kærandi hefur sett fram í kæru sinni til nefndarinnar. Í kæru sinni til málskotsnefndar krefst kærandi eins og áður greinir niðurfellingar á ábyrgðarskuldbindingu þeirri sem hún var dæmd til að greiða með áritun héraðsdóms á stefnu í máli sem LÍN höfðaði á hendur henni og lántaka. Útivist var af hálfu kæranda og tefldi hún því ekki fram þeirri málsástæðu um ógildingu ábyrgðarskuldbindingarinnar sem hún hefur nú sett fram til stuðnings kröfu sinni fyrir málskotsnefnd. Ef fallist yrði á kröfu kæranda yrði sú niðurstaða efnislega ósamrýmanleg þeim dómkröfum sem fallist var á með áritun stefnunnar um greiðsluskyldu kæranda. Þá er rétt að geta þess að eftir áritun stefnunnar var kæranda sú leið tæk að óska endurupptöku málsins samkvæmt ákvæðum XXIII. kafla laga um meðferð einkamála sem hún ekki gerði. Verður að telja að með aðgerðarleysi sínu hafi kærandi ráðstafað sakarefninu og verður ekki úr því bætt með kæru til málskotsnefndar. Verður samkvæmt framansögðu lagt til grundvallar að hin áritaða stefna í máli LÍN gegn kæranda hafi þau bindandi áhrif að kærandi geti ekki lengur byggt á þeim ógildingarástæðum sem hún hefur teflt fram í kæru sinni til málskotsnefndar LÍN. Með vísan til framanritaðs er hin kærða ákvörðun stjórnar LÍN frá 24. ágúst 2017 staðfest.
Úrskurðarorð
Ákvörðun stjórnar LÍN frá 24. ágúst 2017 í máli kæranda er staðfest.