Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-01/2018 - Endurgreiðsla námslána - synjun um uppgreiðsluafslátt

Ár 2018, fimmtudaginn 12. júlí, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-1/2018.

Kæruefni

Með kæru sem barst málskotsnefnd 4. apríl 2018 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 2. mars 2018, þar sem kæranda var synjað um uppgreiðsluafslátt á námsláni sem hún greiddi upp 6. mars 2017. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi sama dag og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 3. maí 2018. Kæranda var gefinn kostur á að gera athugasemdir við svör stjórnar LÍN en engar athugasemdir bárust.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi greiddi upp námslán hjá LÍN 6. mars 2017. Þann 5. október sama ár sótti kærandi um uppgreiðsluafslátt en var synjað þar sem hún hafði ekki sótt um afsláttinn innan þriggja mánaða frá uppgreiðslu sbr. grein 8.3.2 í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárin 2016-2017 og 2017-2018. Kærandi sendi erindi til stjórnar LÍN þann 29. desember 2017 þar sem hún fór þess á leit að fá undanþágu frá ákvæðum úthlutunarreglnanna. Stjórn LÍN synjaði erindi kæranda þann 2. mars 2018 á grundvelli þess að sækja þurfi um uppgreiðsluafslátt innan þriggja mánaða frá því uppgreiðsla fór fram.

Sjónarmið kæranda.

Í kærunni upplýsir kærandi að hún hafi farið í afgreiðslu LÍN til að afla upplýsinga um tilhögun á uppgreiðslu lána. Þar hafi hún rætt við afgreiðslumann sem hafi upplýst hana um að sækja þyrfti sérstaklega um uppgreiðsluafslátt. Hann hafi þó ekki nefnt að sækja þyrfti um innan þriggja mánaða frá uppgreiðslu. Kærandi bendir á að fjárhæðin skipti hana máli og telur ekki rétt að mistök starfsmanns LÍN verði látin bitna á henni. Kærandi bendir einnig á óhagræði sem fólgið sé í að sækja þurfi sérstaklega um uppgreiðsluafslátt. Eðlilegt væri að slíkur afsláttur kæmi sjálfkrafa á allar uppgreiðslur. Hugsanlega séu einhver rök fyrir slíku fyrirkomulagi af hálfu LÍN og væri þá fróðlegt að vita af þeim.

Sjónarmið LÍN.

Í athugasemdum stjórnar LÍN segir að skv. 3. mgr. 8.3.2 gr. í úthlutunarreglum LÍN beri að sækja sérstaklega um uppgreiðsluafslátt innan þriggja mánaða frá því uppgreiðsla fór fram. Hægt sé að nálgast upplýsingar um uppgreiðsluafslátt og skilyrði hans á heimasíðu sjóðsins. Fram komi í erindi kæranda að hún hafi komið í afgreiðslu sjóðsins og aflað sér upplýsinga um uppgreiðsluafslátt. Engar upplýsingar sé að finna hjá sjóðnum um heimsókn kæranda eða hvaða upplýsingar henni hafi verið veittar. Starfsmönnum sjóðsins sé kunnugt um að sækja þurfi sérstaklega um uppgreiðsluafslátt. Ekki hafi verið sýnt fram á að leiðbeiningum starfsmanns sjóðsins hafi verið áfátt. Hvorki sjóðurinn né stjórn hans hafi heimild til að víkja frá skýrum reglum sjóðsins og því hafi erindi kæranda verið synjað.

LÍN byggir á því að niðurstaða stjórnar í máli kæranda sé í samræmi við lög og reglur og einnig í samræmi við sambærilegar ákvarðanir stjórnar LÍN. Fer LÍN fram á að ákvörðun í máli kæranda verði staðfest.

Niðurstaða

Um endurgreiðslur námslána er kveðið á um í 7. – 12. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN. Í 1.-6. mgr. 8. gr. eru ákvæði um útreikning afborgana og undanþágur frá afborgunum. Síðan segir í 7. mgr. 8. gr. að  heimilt sé „að endurgreiða lán örar en mælt er fyrir í þessari grein.“  Engin frekari fyrirmæli eru um tilhögun slíkra innágreiðslna á lán eða uppgreiðslna í lögum um LÍN eða reglugerð nr. 478/2011 um LÍN. Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga um LÍN setur sjóðstjórn reglur um önnur atriði er greinir í lögum um LÍN og reglugerð. Um uppgreiðslur námslána segir svo í grein 8.3.2 1.-3. mgr. í úthlutunarreglum LÍN 2016-2017 sem í gildi voru þegar kærandi greiddi upp námslán sitt:

Lánþega er heimilt að greiða inn á eða greiða upp námslán fyrr en ákvæði skuldabréfs kveða á um án viðbótarkostnaðar.

Einstaklingur sem greiðir upp ógjaldfallið námslánaskuldabréf á rétt á uppgreiðsluafslætti sem nemur 7% af ógjaldföllnum eftirstöðvum hins uppgreidda skuldabréfs fyrir uppgreiðslu. Framangreind heimild miðast við að eftirstöðvar lánsins séu greiddar í einni greiðslu. Einstaklingar eiga ekki rétt á uppgreiðsluafslætti vegna uppgreiðslu námsláns nema endurgreiðsla á einu eða fleiri námslána hans sé hafin sbr. 7. kafla, og þá eingöngu á þeim lánum sem verið er að greiða af. Uppgreiðsluafsláttur skal endurgreiddur til þess aðila sem greiddi upp námslánið (getur verið annar en skuldari).

Sækja þarf um uppgreiðsluafslátt innan þriggja mánaða frá því að uppgreiðslan fór fram. Að þeim tíma liðnum verður ekki veittur uppgreiðsluafsláttur.

Einnig er að finna á heimasíðu LÍN þessar sömu upplýsingar ásamt greiðslufyrirmælum, þ.e. bankareikningi, kennitölu o.fl., undir liðnum Greiðendur/Greiðsluleiðir/Sérgreiðslur

Eins og fram hefur komið kveða úthlutunarreglur LÍN á um að greiðendur skuli sækja um uppgreiðsluafslátt eigi síðar en þremur mánuðum eftir að námslán er greitt upp. Málskotsnefnd hefur í úrskurðum sínum tekið undir þau sjónarmið LÍN að nauðsyn sé að festa ríki um framkvæmd á frestum og hefur ekki fallist á beiðni um undanþágur frá frestum nema fyrir liggi ástæður er réttlætt gætu slíkt, s.s. rangar eða ófullnægjandi leiðbeiningar af hálfu LÍN í einstökum málum. Engar staðfestar upplýsingar eru í málinu um hvernig samskiptum kæranda og starfsmanns LÍN var háttað og verður því ekki byggt á því að kærandi hafi fengið rangar upplýsingar.

Kærandi hefur einnig lýst þeirri skoðun sinni að það fyrirkomulag sem nú er á framkvæmd þessara mála sé ekki nauðsynlegt. Að mati málskotsnefndar verður ekki betur séð en að núgildandi fyrirkomulag umsóknar byggi á málefnalegum sjónarmiðum en í reglum LÍN kemur fram að ekki er veittur slíkur afsláttur í öllum tilvikum og einnig að aðrir en lántaki geti átt rétt á slíkum afslætti þannig að nauðsynlegt kunni að vera að skoða umsóknir hvers og eins umsækjanda.

Umræddar reglur sem settar eru af stjórn LÍN eru skýrar og ótvíræðar um þann frest sem settur er á umsóknir um uppgreiðsluafslátt. Það er ekki á valdi málskotsnefndar að veita undanþágu frá þessum fresti. Þá eru ekki fram komnar neinar þær upplýsingar í málinu er réttlætt gætu að fallist yrði eigi að síður á umsókn kæranda þrátt fyrir að hún hafi verið of seint fram komin.

Með vísan til framangreindra atriða og gagna málsins að öðru leyti er það mat málskotsnefndar að ákvörðun stjórnar LÍN frá 2. mars 2018 sé í samræmi við lög og reglur er gilda um starfsemi LÍN og er hún því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda frá 2. mars 2018 er staðfest.

Til baka