Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-21/2017 - Lánshæfi - skipulag náms uppfyllir ekki skilyrði um lánshæfi

Ár 2018, fimmtudaginn 12. júlí, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-21/2017.

Kæruefni

Með kæru sem barst málskotsnefnd 11. desember 2017 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 16. sepember 2017, þar sem kæranda var synjað um námslán vegna meistaranáms í Bretlandi þar sem skipulag námsins uppfyllti ekki skilyrði úthlutunarreglna LÍN um lánshæfi náms. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi sama dag og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 8. janúar 2018. Kæranda var gefinn kostur á að gera athugasemdir við svör stjórnar LÍN en engar athugasemdir bárust.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi sótti um námslán til LÍN til að stunda meistaranám við háskóla í Bretlandi. Um er að ræða fjarnám sem er 180 CATS einingar sem er ígildi 90 ECTS eininga. Umsókn kæranda var hafnað af stjórn LÍN með vísan til þess að námið væri ekki lánshæft skv. grein 1.1 í úthlutunarreglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna fyrir skólaárið 2017-2018.

Sjónarmið kæranda.

Samkvæmt upplýsingum kæranda er um að ræða fullt meistaranám. Námið sé fjarnám og kennt í gegnum netið í 12 lotum á 26 mánuðum í allt með lokaritgerð. Kærandi fer þess á leit að fá undanþágu frá reglum eða skilgreiningu sjóðsins. Bendir kærandi á að stjórn LÍN hafi ekki tekið tillit til þeirra aðstæðna sem hún hafi rakið í bréfi sínu til LÍN, þ.e. ástæðu þess að hún hyggi á frekara nám. Í kærunni kemur fram að kærandi hefur ásamt öðrum rekið ráðgjafarfyrirtæki. Sökum breyttra aðstæðna standi kærandi nú ein að rekstri fyrirtækisins og hyggi á frekara nám með það í huga að tryggja rekstur þess til framtíðar. Kærandi upplýsir að hún sé einstæð móðir með tvö börn á framfæri og á leigumarkaði. Að auki sé námið ekki í boði hjá íslenskum háskólum. Fer kærandi þess á leit að beiðni hennar verði tekin til skoðunar vegna þessara persónulegu haga. Fer hún þess á leit að málskotsnefnd taki tillit til aðstæðna hennar. Kærandi hefur litið svo á að það sé hlutverk málskotsnefndar að skoða önnur sjónarmið umfram þau lagalegu og bregðast við. Kærandi tekur fram að hún hafi kostað sjálf nám sitt fram að jólum með aðstoð frá stéttarfélagi en þurfi síðan að reiða fram greiðslu í janúar. Það sé mikilvægt fyrir hana og hennar eina leið að afla sér þessarar menntunar í námi meðfram vinnu. Verði umsókn hennar enn á ný hafnað óskar kærandi eftir rökstuðningi fyrir því.

Sjónarmið LÍN.

Í athugasemdum stjórnar LÍN er vísað til greinar 1.1 í úthlutunarreglum sjóðsins en þar komi fram að nám teljist lánshæft ef það er skipulagt sem fullt nám í kennsluskrá skóla, þ.e. 60 ECTS einingar á hverju skóla ári eða a.m.k. 30 ECTS einingar á hverju misseri í þeim tilvikum sem námsskipulagið nær ekki yfir heilt skólaár. Þar komi fram að skráning nemanda hjá skóla ráði því hvort námsmaður teljist í fullu námi eða ekki. Þá segi einnig í grein 1.1 að heimilt sé að veita skólagjaldalán án framfærslu til náms sem ekki er skipulagt sem 60 ECTS eininga nám á skólaárinu. Námið verði þó að vera skipulagt sem a.m.k. 45 ECTS eininga nám á hverju skólaári, þ.e. 75% af fullu námi, sbr. grein 2.1 í úthlutunarreglunum. Með skilgreiningu á skólaári sé almennt miðað við 9 mánuði. LÍN vísar til þess að samkvæmt þessu falli nám það sem kærandi stundi ekki að skilyrðum greinar 1.1 í úthlutunarreglum sjóðsins um lánshæfi náms vegna skólagjalda þar sem námið sé ekki skipulagt sem a.m.k. 75% af fullu námi.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna er hlutverk hans að tryggja þeim er falla undir lögin tækifæri til náms án tillits til efnahags. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að LÍN veitir lán til framhaldsnáms við skóla sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og gerðar eru til háskólanáms hérlendis.

Í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2017-2018, sem settar eru af stjórn LÍN með heimild í 2. mgr. 16. gr. laga nr. 21/1992, er í I. kafla fjallað um hvaða nám telst lánshæft. Í grein 1.1 er kveðið almennt á um lánshæfi náms þar sem fram kemur að sjóðurinn veitir námslán til framhaldsnáms við viðurkennda skóla eða menntastofnanir sem veita æðri menntun sem leiðir til prófgráðu á háskólastigi. Þá er í ákvæðinu sett nánari skilyrði um skipulag náms til þess að það geti talist lánshæft.

Um lánshæfi náms segir eftirfarandi í 1.- 3. mgr. greinar 1.1:

Sjóðurinn veitirnámslán til framhaldsnáms við viðurkennda skóla eða menntastofnanir sem veita æðri menntun er leiðir til prófgráðu á háskólastigi. Sjóðnum er heimilt að veita námslán til sérnáms.

Nám telst lánshæft ef það er skipulagt sem fullt nám í kennsluskrá skóla, 60 ECTS-einingar (ECTS stendur fyrir „European Credit Transfer and Accumulation System“) á hverju skólaári eða a.m.k. 30 ECTS-einingar á hverju misseri í þeim tilvikum þegar námsskipulagið nær ekki yfir heilt skólaár. Skráning nemanda hjá skóla ræður því hvort námsmaður telst í lánshæfu námi eða ekki.

Heimilt er að veita námslán vegna skólagjalda, án framfærslu, til náms sem ekki er skipulagt sem 60 ECTS eininga nám á skólaárinu, sbr. 2. mgr.

Það nám sem kærandi stundar er hefðbundið háskólanám við erlenda menntastofnun. Um það gilda ofangreind ákvæði úthlutunarreglnanna. Kærandi hefur bent á að námið sé fullt meistaranám. Námið er eins og áður greinir ígildi 90 ECTS eininga en skipulagt sem fjarnám sem tekur að meðaltali 29 mánuði að ljúka sem kærandi hyggst ljúka á 26 mánuðum. Í úthlutunarreglum LÍN kemur fram að lánshæfi náms velti m.a. á að það teljist fullt nám, þ.e. að samkvæmt kennsluskrá sé gert ráð fyrir að nemandi stundi fullt nám og ljúki þannig 60 ECTS einingum á hverju skólaári. Undanþága er þó gerð í 3. mgr. greinar 1.1 þar sem heimilað er að veita lán til náms sem ekki er skipulagt sem 60 ECTS eininga nám á hverju skólaári. Þó er gerð sú krafa að námið sé skipulagt þannig að nemandi ljúki a.m.k. 45 ECTS einingum en það samsvarar því að nemandi sé í 75% námi. Um frekari undanþágur er ekki að ræða. Með vísan til þessa fellst málskotsnefnd á það með LÍN að námið uppfylli ekki þau skilyrði sem koma fram grein 1.1 í úthlutunarreglum LÍN.

Kærandi hefur farið þess á leit að málskotsnefnd taki tillit til þeirra aðstæðna sem hún tilgreinir í erindi sínu. Að það sé hlutverk málskotsnefndar að skoða önnur sjónarmið umfram þau lagalegu og bregðast við. Vegna þessa telur málskotsnefnd rétt að taka fram að samkvæmt 5. gr. sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um LÍN er það hlutverk stjórnar LÍN að setja úthlutunarreglur fyrir sjóðinn sem síðan eru staðfestar af ráðherra. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. a. laga um LÍN er það hlutverk málskotsnefndar LÍN að skera úr um „hvort úrskurðir stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna séu í samræmi við ákvæði laga og reglugerða.“  Eins og fram hefur komið heimila úthlutunarreglur LÍN ekki að veitt verði námslán vegna náms kæranda þar sem námið er ekki skipulagt sem a.m.k. 45 ECTS eininga nám á hverju skólaári. Ekkert er komið fram í málinu um að framangreind ákvæði úthlutunarreglna LÍN og ákvörðun stjórnar LÍN sem er í samræmi við þau ákvæði standist ekki ákvæði laga og reglugerða er um sjóðinn gilda. Kærandi hefur tilgreint sjónamið er varða hennar persónulegu hagi sem rökstuðning fyrir því að hún kunni að eiga rétt á námsláni. Það er hins vegar ekki á valdi málskotsnefndar að meta hvort tilefni sé til þess að veita kæranda námslán á grundvelli sjónarmiða sem eru umfram þau lagalegu sjónarmið sem að framan eru rakin.

Með vísan til framangreindra röksemda er það niðurstaða málskotsnefndar að ákvörðun stjórnar LÍN frá 16. september 2017 sé í samræmi við lög og reglur er gilda um starfsemi LÍN og er hún því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda frá 16. september 2017 er staðfest.
Til baka