Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-05/2018 - Lánshæfi - lánshæfi náms

Ár 2018, miðvikudaginn 3. október, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-5/2018:

Kæruefni

Með kæru sem barst málskotsnefnd 29. ágúst 2018 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 17. maí 2018 um að synja henni um lán námsárið 2018-2019 vegna náms í Listaháskóla Íslands. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 30. ágúst 2018 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir frá stjórn LÍN bárust með bréfi dagsettu 20. september 2018 og var afrit þess sent kæranda og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum. Kærandi sendi athugasemdir sínar með tölvupósti þann 21. september 2018 og voru þær framsendar LÍN 24. sama mánaðar. Málskotsnefnd óskaði frekari upplýsinga frá LÍN um námsferil kæranda og voru þær upplýsingar sendar nefndinni 1. október 2018.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi hóf diplómanám í grafískri hönnun skólaárið 2014-2015 í myndlistaskóla. Um er að ræða 180 ECTS-eininga starfsnám. Fram kemur í kærunni að tveir skólar hafi hingað til kennt þessa grein og að starfsheitið „grafísk hönnun“ hafi löggildingu. Eftir tvö ár í námi ákvað kærandi að hætta því sökum þess að námið stóðst ekki væntingar hennar. Flutti hún til Reykjavíkur og hóf nám í grafískri hönnun á háskólastigi. Þar sem hún hafði áður verið í diplómanámi þurfti hún að hefja nýjan námsferil í LHÍ, þ.e. byrja á fyrsta ári. Er hún hafði lokið tveimur námsárum í LHÍ var lánsréttur hennar samkvæmt úthlutunarreglum LÍN uppurinn. Kærandi óskaði eftir undanþágu samkvæmt grein 2.3 í úthlutunarreglum sjóðsins en var synjað. Kærandi bar mál sitt undir stjórn LÍN sem synjaði henni með ákvörðun þess efnis 17. maí 2018 sem tilkynnt var kæranda með bréfi dagsettu 22. sama mánaðar.

Sjónarmið kæranda

Í kæru sinni fer kærandi þess á leit að málskotsnefnd taki málið fyrir og fallist á beiðni hennar um viðbótarlán. Kærandi lýsir því að hún hafi flust til B að stunda þar diplómanám í grafískri hönnun í myndlistaskóla. Þegar námið hafi ekki staðist væntingar hennar hafi hún ákveðið að fara í LHÍ í nám í grafískri hönnun á háskólastigi. Kveðst kærandi hafa haft samband við LÍN og fengið þær upplýsingar að hún ætti rétt á að sækja um 60 ECTS-eininga lán á grundvelli eldri reglna þar sem hún hafi hafið nám sitt 2014. Kærandi kveður það mistök sín að hafa leitað upplýsinga símleiðis og að hafa ekki fengið staðfestingu frá ráðgjafa LÍN í tölvupósti.

Kærandi kveðst eiga einn vetur eftir og LÍN hafi ekki fallist á að veita henni þennan viðbótarlánsrétt þar sem myndlistaskólinn sé ekki á háskólastigi. Kærandi kveður námslán frá LÍN sinn eina möguleika á að halda náminu áfram. Hún sé einstæð móðir og eigi ekki kost á að vinna 100% vinnu og stunda fullt nám til að framfleyta þeim á lokaárinu í LHÍ. Þyki henni hart að fá ekki að klára námið. Hún eigi inni tiltekið svigrúm til að fá lán fyrir utan þessa ákveðnu reglu. Kærandi kveður ákvörðun sína um að skipta um skóla hafa verið fyllilega staðfesta þar sem LÍN sé nú hætt að veita námslán til náms við myndlistaskólans. Tekjur hennar undanfarin ár hafi verið frá LÍN. Hún sæki um undanþágu frá reglunni, þ.e. til að fá 60 eininga viðbótarlán þar sem hún eigi aðeins einn vetur eftir til að ljúka námi sínu.

Sjónarmið LÍN

Í athugasemdum stjórnar LÍN vegna kærunnar kemur fram að kærandi hafi sótt um undanþágu frá grein 2.3.5 í úthlutunarreglum sjóðsins þar sem hún hafi hafið nám í sömu námsgrein þrátt fyrir að hafa skipt um skóla. Sæki kærandi þannig um að fá 60 ECTS-eininga námslán námsárið 2018-2019 til að ljúka námi. Engar upplýsingar liggi fyrir hjá sjóðnum um þá upplýsingagjöf sem kærandi vísi til í erindi sínu um að hún ætti rétt án takmarkana til að sækja um aukaeiningar á grundvelli þess að hún hafi hafið nám sitt á árinu 2014. Samkvæmt athugasemdum LÍN er ástæða synjunar byggð á skýrum reglum sjóðsins um gildissvið eldri reglna og heimild til að skipta um skóla en tengist ekki því að kærandi hafi farið úr sérnámi í háskólanám líkt og haldið hafi verið fram.

Þá segir ennfremur í athugasemdum LÍN að þegar kærandi hafi lokið öðru ári sínu við Listaháskóla Íslands 2017-2018 hefði hún alls verið búin að fá námslán vegna 300 ECTS eininga í grunnnámi og eigi hún því ekki frekari rétt á lánum til þess að stunda grunnnám, sbr. grein 2.3.1 og 2.3.4 í úthlutunarreglum sjóðsins. Í grein 2.3.5 í sömu reglum sjóðsins komi skýrt fram að heimild til að njóta réttar hvað varðar námslengd falli niður skipti námsmaður um skóla, námsgrein eða námsgráðu. Ljóst sé að kærandi hafi bæði skipt um skóla og námsgráðu þegar hún hóf nám við Listaháskóla Íslands haustið 2016. Stjórn sjóðsins hafi ekki heimild til að veita undanþágu frá þessari reglu og því hafi beiðni kæranda verið synjað.

Samkvæmt upplýsingum LÍN hefur kærandi stundað nám og fengið námslán vegna þess á eftirfarandi tímabilum:

1994-1995 = Snyrtifræði –30 ECTS

1995-1996 = Snyrtifræði– 30 ECTS

2014-2015 = Grafísk hönnun, diploma – 60 ECTS

2015-2016 = Grafísk hönnun, diploma – 60 ECTS

2016-2017 = Grafísk hönnun, BA – 60 ECTS

2017-2018 = Grafísk hönnun, BA – 60 ECTS

Stjórn LÍN telur úrskurð sinn í máli kæranda í samræmi við lög og reglur sjóðsins og í samræmi við fyrri ákvarðanir sínar og málskotsnefndar og fer fram á að málskotsnefnd staðfesti hana.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna er hlutverk sjóðsins að tryggja þeim er falla undir lögin jöfn tækifæri til náms. Í 1. mgr. 3. gr. laganna kemur fram að miða skuli við að námslán samkvæmt lögunum nægi hverjum námsmanni til að standa straum af náms- og framfærslukostnaði meðan á námi stendur að teknu tilliti til fjölskyldustærðar námsmannsins. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. setur stjórn sjóðsins nánari ákvæði um úthlutun námslána. Hefur stjórn LÍN sett úthlutunarreglur sem miða að því að skilgreina hvaða skilyrði námsmaður þurfi að uppfylla til að hafa rétt til námsláns samkvæmt lögunum meðan á námi hans stendur.

Í grein 2.3. í úthlutunarreglum LÍN fyrir námsárið 2018-2019 segir eftirfarandi um hámarkslán hjá LÍN:

„2.3 Lánsréttur

Hver námsmaður getur fengið námslán fyrir allt að 480 ECTS-einingum samanlagt með þeim takmörkunum sem leiðir af skiptingu lánsréttar milli námsstiga. Í gr. 2.3.1 - 2.3.5 er gerð nánari grein fyrir skiptingu lánsréttar milli námsstiga.

2.3.1 Grunnnám

Námsmaður á rétt á láni fyrir 180 ECTS-einingum í grunnnámi. Með grunnnámi er átt við sérnám og grunnháskólanám.

2.3.2 Meistaranám

[...]

2.3.4 Sameiginlegt svigrúm

Að auki á hver námsmaður rétt á láni fyrir 120 ECTS-einingum til viðbótar að eigin vali á grunn-, meistara- eða doktorsstigi.

2.3.5 Gildissvið eldri reglna

Námsmaður skal njóta réttar hvað varðar námslengd (skv. kafla 2.3) samkvæmt þeim reglum sem í gildi voru við upphaf námsferils hans. Upphaf námsferils telst þegar námsmaður skilar lágmarks námsárangri í námsferli og er með umsókn hjá sjóðnum á sama námsári. Heimild þessi fellur niður ef námsmaður hefur nýjan námsferil eða gerir lengra hlé en eitt ár frá námi. Nýr námsferill hefst skipti námsmaður um skóla, námsgrein eða námsgráðu.“

Áður en kærandi hóf nám í grafískri hönnum hafði hún stundað nám í snyrtifræði á árunum 1994-1996 og fengið vegna þess námslán vegna 60 ECTS-eininga. Á árinu 2014 hóf kærandi 180 ECTS-eininga diplómanám í grafískri hönnun í myndlistaskóla.  Lauk kærandi tveimur námsárum af þremur og fékk samtals námslán vegna 120 ECTS-eininga, þ.e. 60 eininga lán vegna hvors námsárs um sig. Eftir það skipti hún yfir í 180 ECTS-eininga BA nám í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands. Kærandi hefur lokið tveimur námsárum af þremur í BA námi sínu í LHÍ og fengið til þess námslán vegna 120 ECTS-eininga, þ.e. lán vegna 60 ECTS-eininga vegna hvort námsárs um sig. Kærandi hefur því fengið samtals hjá LÍN námslán vegna 300 ECTS-eininga, þ.e. vegna 180 ECTS-eininga í grunnnámi, sbr. grein 2.3.1, og vegna 120  ECTS-eininga í viðbót á grundvelli reglna um sameiginlegt svigrúm, sbr. grein 2.3.4 sem veitir rétt til námsláns vegna 120 ECTS-eininga að eigin vali. Hefur kærandi því tæmt lánsrétt sinn samkvæmt reglum LÍN nema hún geti byggt rétt sinn á undanþáguákvæði því sem hún vísaði til í samskiptum sínum við LÍN, þ.e. grein 2.3.5 sem veitir námsmönnum sem hófu nám sitt í gildistíð eldri reglna rétt til að ljúka því á grundvelli þeirra reglna sem giltu um námslengd er þeir hófu nám sitt.

Samkvæmt reglum LÍN er námsferill: „Námsbraut sem lýkur með tiltekinni prófgráðu. Nýr námsferill hefst skipti námsmaður um skóla, námsgrein eða prófgráðu.“ Það diplómanám sem kærandi hóf á árinu 2014 telst því samkvæmt þessu sérstakur námsferill. Kærandi hóf sem áður greinir diplómanám sitt á skólaárinu 2014 og giltu því um námslengd diplómanámsins úthlutunarreglur LÍN vegna skólaársins 2014-2015, sbr. bráðabirgðaákvæði í grein 2.3.5 í úthlutunarreglum skólaársins 2015-2016. Í þeim reglum (þ.e. 2014-2015) voru sömu ákvæði um hámarkslán vegna BA náms, þ.e. 120 ECTS-eininga lán og vegna sameiginlegs svigrúms 180 ECTS-eininga lán. Að auki var svohljóðandi sérákvæði í a. lið 4. mgr. greinar 2.3.1 sem ekki er í núgildandi reglum:

Heimilt er að veita námsmanni undanþágu frá ofangreindum hámörkum og veita lán fyrir allt að 60 ECTS-einingum til viðbótar uppfylli námsmaður eitt eftirfarandi skilyrða:

            a) Hann hefur áður staðist lokapróf í lánshæfu námi og á ólokið 60 ECTS-einingum til lokaprófs. Með lokaprófi er átt við próf til staðfestingar starfs- eða háskólagráðu, en ekki undirbúnings-, fornáms- eða frumgreinapróf.

            [...]

Ofangreindu ákvæði hefði verið mögulegt að beita um lánsrétt kæranda til að gera henni kleift að ljúka diplómanámi sínu ef þannig hefði staðið á að hún hefði verið búin að tæma lánsrétt sinn þegar hún hafði lokið tveimur árum af þremur. Kærandi hætti hins vegar diplómanámi sínu á árinu 2016 og féll þá niður réttur hennar til að njóta góðs af ofangreindum reglum skólaársins 2014-2015. Kærandi hóf bæði nýjan námsferil og skipti um skóla haustið 2016. Samkvæmt grein 2.3.5 í úthlutunarreglum LÍN 2018-2019 skal kærandi njóta réttar hvað varðar námslengd á grundvelli þeirra reglna sem í gildi voru þegar hún hóf núverandi námsferil. Af þessu leiðir að kærandi skal njóta réttar hvað varðar námslengd BA-námsins sem hún hóf 2016 á grundvelli úthlutunarreglna námsársins 2016-2017. Þær úthlutunarreglur hafa ekki að geyma sambærilegt ákvæði um 60 ECTS-eininga viðbótarlán. Samkvæmt reglunum var stjórn LÍN því ekki heimilt að veita kæranda viðbótarlán.

Rétt þykir að geta þess að ekki hefur verið talið að nemendur sem rétt eiga til lána frá LÍN geti á grundvelli þeirra sjónarmiða sem búa að baki reglum stjórnsýsluréttarins um réttmætar væntingar vænst þess að úthlutunarreglur sjóðsins haldist óbreyttar frá ári til árs. Þó hefur verið talið að LÍN beri að birta íþyngjandi breytingar á úthlutunarreglum sjóðsins með nægjanlega góðum fyrirvara til að að námsmönnum gefist nægilegt ráðrúm frá því að reglurnar um hina breyttu stjórnsýsluframkvæmd eru auglýstar og þar til þeim er ætlað að taka gildi til að bregðast við breytingunum. Af þessum sökum hafa úthlutunareglur LÍN verið lagðar fram til kynningar og staðfestar af ráðherra eigi síðar en 1. apríl ár hvert. Um árabil hefur einnig verið tekið tillit til þess í reglum LÍN, þegar gerðar hafa verið verulegar og íþyngjandi breytingar á hámarksláni, að heimila nemendum að byggja á reglum um hámarkslán sem í gildi voru þegar þeim hófu viðkomandi námsferil. Á grundvelli slíkra sjónarmiða gat kærandi því, sbr. grein 2.3.5 í úthlutunarreglum ársins 2015-2016, vænst þess að sömu reglur um hámarkslán myndu gilda frá upphafi námsferils hennar í diplómanáminu og til loka þess. Að mati málskotsnefndar verður ekki talið að sömu sjónarmið eigi við þegar nemendur taka ákvörðun um að hefja nýjan námsferil þrátt fyrir, eins og í tilviki kæranda, að hinum nýja námsferli ljúki með sömu starfsréttindum og eldri námsferli sem ólokið er. Hér er og til þess að líta að heildarlán LÍN til kæranda vegna tveggja námsferla til starfsréttinda sem „grafískur hönnuður“ voru 240 ECTS-einingar, þrátt fyrir að slíkt nám í hvorum ferli fyrir sig teljist einungis 180 ECTS-einingar.

Kærandi hefur greint frá því að áður en hún hafi tekið ákvörðun um að hætta í diplómanáminu og hefja nám við LHÍ hafi hún haft samband við LÍN símleiðis og fengið þær upplýsingar að hún gæti byggt lánsrétt vegna BA námsins þar sem hún hafi hafið nám sitt árið 2014. Án frekari sannana er ekki hægt að taka tillit til slíkra munnlegra upplýsinga og verður því ekki á þeim byggt í máli þessu.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða málskotsnefndar að ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda hafi verið í samræmi við lög og reglur sem um sjóðinn gilda. Því beri að staðfesta ákvörðun stjórnar LÍN stjórnar í máli kæranda.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun stjórnar LÍN frá 17. maí 2018 í máli kæranda er staðfest.

 

 

Til baka