Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-02/2018 - Ábyrgðarmenn - beiðni um niðurfellingu ábyrgðar

Ár 2019, miðvikudaginn 27. febrúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-2/2018.

Kæruefni

Með kæru, dagsettri 26. apríl 2018, sem barst málskotsnefnd 17. maí 2018 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 22. mars 2018 þar sem hafnað var beiðni kæranda um að ábyrgð hennar á námsláni lántaka nr. S-9000 yrði felld niður.

Kærandi gerir kröfu um að felld verði úr gildi ákvörðun stjórnar LÍN, dags. 22. mars 2018, sem tilkynnt var kæranda með bréfi, dagsettu 27. mars 2018, um að synja beiðni kæranda um niðurfellingu sjálfskuldarábyrgðar vegna námsláns lántaka og að synja kæranda um endurgreiðslu á 3.523.901 krónur sem hún innti af hendi til LÍN þann 13. febrúar 2017. Kærandi krefst þess ennfremur að felld verði úr gildi  ábyrgð hennar á námsláni lántaka og að kæranda verði endurgreiddar 3.523.901 krónur.

LÍN krefst þess að málskotsnefnd staðfesti hina kærðu ákvörðun.

Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 17. maí 2018 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 14. júní 2018 og var afrit þess sent kæranda til athugasemda þann 18. júní 2018. Frestur kæranda til að gera athugasemdir var framlengdur til 24. ágúst 2018. Engar athugasemdir bárust frá kæranda. Málskotsnefnd óskaði nánari upplýsinga frá LÍN vegna meðferðar málsins 22. október 2018 og bárust þær með bréfi dagsettu 30. október 2018. Voru þær sendar kæranda til athugasemda með tölvupósti þann 31. október 2018. Engar athugasemdir bárust frá kæranda. Kæranda var tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins þann 26. nóvember 2018.  

Málsatvik og ágreiningsefni

Lántaki var í námi á árunum 1989-1994. Á árunum 1989-1992 tók hann 10 svonefnd T-lán og gekkst kærandi í sjálfskuldarábyrgð fyrir greiðslu sex þeirra. Voru þessi námslán tekin í gildistíð eldri laga nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki. Voru lánin síðar sameinuð í innheimtukerfi LÍN undir einu lánsnúmeri S-956850. Lántaki tók síðan frekari lán, svonefnd R-lán og voru þau veitt í gildistíð núgildandi laga um LÍN nr. 21/1992 sem tóku gildi 29. maí 1992.

Um er að ræða eftirtalin lán:

T-1001 89-90              ábm. kærandi

T-1002 89-90              ábm. kærandi

T-1003 90-91              ábm. kærandi

T-1004 90-91              ábm. C

T-1005 90-91              ábm. B

T-1006 90-91              ábm. B

T-1007 91-92              ábm. kærandi

T-1008 91-92              ábm. kærandi

T-1009 91-92              ábm. kærandi

T-1010 91-92              ábm. A

R-0003 1993               ábm. B

R-0004 1993               ábm. B

R-0005 1994               ábm. B

 

Lántaki ritaði undir skuldabréf hjá LÍN vegna T lánanna 28. febrúar 1990, 3. apríl 1990, 17. september 1990, 17. október 1991, 28. október 1991 og 14. apríl 1992. Um verðtryggð lán var að ræða og í skilmálum bréfanna segir að endurgreiðslur lánanna hefjist þremur árum eftir námslok og að stjórn sjóðsins ákveði hvað teljist námslok í þessu sambandi. Endurgreiðslur skyldu fara fram með árlegri greiðslu, sem ákvarðast í tvennu lagi. Þá kemur fram í skilmálunum með hvaða hætti slíkri árlegri endurgreiðslu skuli háttað og að endurgreiðslum skuli ljúka ekki síðar en 40 árum eftir að þær hefjast. Í bréfunum segir að auki að lánið sé allt gjaldfallið án uppsagnar standi lántaki ekki í skilum með greiðslu afborgana. Til tryggingar endurgreiðslu lánanna, höfuðstóli að viðbættum verðtryggingum, svo og þeim kostnaði er vanskil lántaka kynnu að valda, ábyrgðist kærandi in solidum lánin sem sjálfskuldarábyrgðarmaður. Þann 15. febrúar 1995 sameinaði LÍN í innheimtukerfi sínu öll T-lán lántaka undir númerinu S-9000 en ekki var gefið út sérstakt skuldabréf vegna þessa.

Samkvæmt 18. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna skyldu R-lánin sem lántaki tók á árunum 1993-1994 hafa forgang gagnvart eldri námslánum sem tekin voru í gildistíð eldri laga og skyldu greiðslur af eldri námsskuldum frestast þar til R-lánið væri að fullu greitt.

Samkvæmt upplýsingum LÍN hóf lántaki afborganir af R-lánunum þann 1. mars 1999 og stóð lántaki í skilum með greiðslur þeirra þar til gjalddagi 1. september 2013 af láni R-0005 fór í vanskil. Síðari gjalddagar fóru einnig í vanskil. Í viðbótarupplýsingum frá LÍN kemur fram að lántaki hafi greitt reglulegar greiðslur inn á R-lánið til lögmanna á tímabilinu nóvember 2014 til september 2017. R-lánið hafi verið gjaldfellt 9. júlí 2015 og hafi það verið síðasti gjalddagi sem hafi myndast af R-lánum lántaka. Í kjölfarið hafi LÍN hafið innheimtu S-lánsins. Hafi lántaki verið búinn að greiða einn gjalddaga S-lánsins, þann 14. júlí 2016, þegar bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta 30. nóvember 2016. Skiptum á búi lántaka lauk 16. febrúar 2017 án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur. Eftir það hóf LÍN innheimtu ábyrgðarinnar gagnvart kæranda sem ábyrgðarmanni og greiddi hún andvirði ábyrgðar sinnar samtals 3.523.901 krónur þann 13. febrúar 2017.

Kærandi sendi erindi til stjórnar LÍN 16. október 2017 og óskaði endurgreiðslu á þeirri fjárhæð sem hún hafði innt af hendi vegna ábyrgðarinnar. Með bréfi dagsettu 28. febrúar 2018 synjaði deildarstjóri innheimtudeildar LÍN erindi kæranda og var kæranda bent á að hún gæti óskað eftir ákvörðun stjórnar LÍN í málinu. Kærandi bar mál sitt undir stjórn LÍN þann 1. mars 2018 þar sem  beiðni hennar var synjað með ákvörðun stjórnar LÍN þann 22. mars 2018. Kærandi kærði þá ákvörðun til málskotsnefndar LÍN eins og áður hefur verið rakið.

Sjónarmið kæranda

Kærandi lýsir því í málvöxtum í kæru sinni að lántaki hafi upphaflega tekið þrjú R-lán á árunum 1993-1994 og í kjölfarið S-lán á árinu 1995 sem kærandi hafi borið ábyrgð á að hluta til ásamt öðrum ábyrgðarmönnum. Málavaxtalýsing þessi er ekki rétt en hún byggir á þeim röngu upplýsingum sem LÍN hefur sent kæranda við innheimtu gagnvart honum. Hið rétta er að lántaki tók upphaflega 10 T-lán á árunum 1989-1992 sem á árinu 1995 voru sameinuð undir einu lánsnúmeri sem S-lán, sem kærandi hafi borið ábyrgð á að hluta til ásamt öðrum ábyrgðarmönnum. Á árunum 1993-1994 tók lántaki þrjú R-lán. Þegar lántaki hafi verið lýstur gjaldþrota 30. nóvember 2016 hafi tvö af þessum lánum, þ.e. yngsta R-lánið og S-lánið verið ógreitt. 

Kærandi lýsir því að þegar lántaki hafi verið lýstur gjaldþrota og LÍN hafi krafið hana sem ábyrgðarmann um greiðslu hafi hún ekki talið sig eiga annars kost en að greiða lánið. Eftir greiðsluna hafi runnið á hana tvær grímur þegar hún áttaði sig á því að aðeins yngstu tvö lánin hafi verið ógreidd. Hafi allur höfuðstóll þess láns er kærandi hafi tekið ábyrgð á verið ógreiddur. Rúmum tveimur áratugum eftir að kærandi gekkst undir ábyrgðina hafi ekkert verið greitt inn á það lán sem hann var í ábyrgð fyrir.  

Kærandi vísar til þess að í skilmálum lána þeirra er hún beri ábyrgð á segi að endurgreiðsla skuli hefjast þremur árum eftir að námi ljúki. Eigi að síður hafi R-lán verið sett í forgang við endurgreiðslu. Fram kemur hjá kæranda að svo virðist sem lánin hafi verið greidd niður í röð miðað við aldur þeirra. Elsta lánið fyrst og svo næsta og koll af kolli. Ekki ein einasta afborgun af S-láninu hafi farið fram fyrr en árið 2016, eða í 21 ár. Kærandi telur að greiða hefði átt jafnt inn á öll lánin. Byggir kærandi á því að sú ákvörðun um að hefja ekki endurgreiðslur af láninu fyrr en árið 2016 hafi ekki verið í samræmi við lánaskilmálana og að auki verulega íþyngjandi fyrir kæranda sem ábyrgðarmann. Höfuðstóll lánsins hafi ekki lækkað eins og hún hafi mátt gera ráð fyrir þegar hún tókst á hendur sjálfskuldarábyrgð á árunum 1989-1992. Kærandi byggir á því að hún hafi aldrei samþykkt þennan greiðslufrest á láni því er hún hafi gengist í ábyrgð fyrir og þá hafi aldrei verið leitað eftir því að hún samþykkti slíkan frest. Vísar kærandi til úrskurðar málskotsnefndar í máli L-15/2016 um að skýra beri óljós atriði í þessum efnum ábyrgðarmanni í hag, ekki síst í ljósi þess að LÍN er opinber lánasjóður, stofnaður á grundvelli laga og á ábyrgð íslenska ríkisins. Slíkir greiðslufrestir verði að vera á ábyrgð og áhættu LÍN sem kröfuhafa. Það sé meginregla í kröfurétti að íþyngjandi breytingar á ábyrgð séu háðar samþykki ábyrgðarmanns, en með lögum nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn hafi þessi meginregla verið lögfest.

Sjónarmið stjórnar LÍN

Í athugasemdum stjórnar LÍN er vísað til þess að lántaki hafi verið í námi á árunum 1993-1995 og hafi tekið á þeim tíma þrjú R-lán og S-lán nr. S-9000. Rétt er að geta þess að þessi lýsing er ekki rétt. Lántaki tók á árunum 1989-1992 10 T-lán og var kærandi ábyrgðarmaður á skuldabréfum vegna sex þeirra. Í kjölfarið, þ.e. á árunum 1993-1994, tók lántaki síðan þrjú R-lán. T-lán lántaka voru síðan á árinu 1995 sameinuð í innheimtukerfi LÍN undir einu númeri S-9000. Í athugasemdum LÍN kemur fram að lántaki hafi hafið endurgreiðslur R-lána árið 1999 og hafi endurgreiðslur S-láns frestast vegna forgangs R-lánanna. Lántaki hafi verið úrskurðaður gjaldþrota 30. nóvember 2016 og hafi skiptum lokið 16. febrúar 2017 án þess að greiðsla hafi fengist upp í lýstar kröfur. Hafi kærandi því verið krafin um greiðslu á ábyrgðarhluta sínum á S-láninu, samtals 3.523.901 krónur.

LÍN vísar til sömu röksemda og fram komu í hinni kærðu ákvörðun stjórnar sjóðsins, þ.e. að 18. gr. laga um LÍN mæli fyrir um forgang svonefndra R-lána sem veitt voru samkvæmt ákvæðum laga nr. 21/1992 um LÍN fram yfir lán sem veitt voru í gildistíð laga nr. 72/1982. Greiðslur á eldri námslánaskuldum frestist þannig þar til R-lánið sé að fullu greitt. Þá vísar LÍN einnig til þess að það sé viðurkennd meginregla í kröfurétti að þegar kröfuhafi eigi margar kröfur á hendur sama skuldara og skuldari láti engin fyrirmæli fylgja greiðslu sinni beri að miða við að kröfuhafi hafi frjálst val inn á hvaða skuld greiðslunni sé ráðstafað. Sé kröfuhafa ekki skylt að líta til hagsmuna ábyrgðarmanns í þessum efnum, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 372/2017. Bendir LÍN á að fyrirmæli 18. gr. laga um LÍN séu skýr og ótvíræð um innheimturöð og hafi innheimta LÍN verið í samræmi við það. Þessu til stuðnings vísar LÍN einnig til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. E-1504/2017 þar sem héraðadómur hafi komist að þeirri niðurstöðu að innheimta LÍN hafi verið í samræmi við 18. gr. laga nr. 21/1992. Niðurstaða stjórnar LÍN í máli kæranda sé í samræmi við lög og reglur og einnig í samræmi við sambærilegar ákvarðanir stjórnar LÍN. Fer stjórn LÍN þess á leit að málskotsnefnd staðfesti ákvörðun stjórnar í máli kæranda.

Niðurstaða

Mál þetta snýst um greiðslufrest þann sem LÍN veitti lántaka á grundvelli 18. gr. laga nr. 21/1992 og hvort greiðslufrestur þessi gildi gagnvart ábyrgðarmanni án samþykkis hans.

LÍN er opinber stjórnsýslustofnun sem hefur það hlutverk að tryggja þeim sem falla undir lög nr. 21/1992 tækifæri til náms án tillit til efnahags. LÍN veitir lán til námsmanna samkvæmt lögum og reglum sem um sjóðinn gilda. Er starfsemi sjóðsins fjármögnuð með endurgreiðslu námslána, ríkisframlagi og lánsfé. LÍN ber í starfi sínu að fylgja þeim lögum og reglum sem gilda sérstaklega um starfsemi sjóðsins, lagareglum, jafnt skráðum sem óskráðum, sem gilda um stjórnsýslu hins opinbera svo og reglum fjármunaréttarins eftir því sem við á.

Sjálfskuldarábyrgð er kröfuréttarlegs eðlis og er notuð í lánastarfsemi almennt. Með því að takast á hendur sjálfskuldarábyrgð skuldbindur einstaklingur sig til að tryggja efndir kröfu gagnvart lánveitanda ef lántaki reynist ekki borgunarmaður fyrir greiðslu skuldarinnar. Efni kröfunnar ræðst af þeim löggerningi sem liggur henni til grundvallar, s.s. samningi eða skuldabréfi, og eftir lögum sem gilda hverju sinni.

Skuldabréfin sem kærandi gekkst í ábyrgð fyrir voru sex talsins, svonefnd T-lán sem tekin voru á árunum 1989-1992, í gildistíð laga nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki. Voru námslánin sameinuð ásamt öðrum T-lánum undir einu númeri í kerfi LÍN,  sem svonefnt S-lán. Endurgreiðslutími, og þar með líftími skuldabréfanna og ábyrgðarinnar, er 40 ár.

Við útgáfu skuldabréfanna voru í gildi lög nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki. Samkvæmt þeim lögum var gerð krafa um að námsmaður, sem fengi lán úr lánasjóðnum, legði fram yfirlýsingu eins ábyrgðarmanns um að hann tæki að sér sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu lánsins. Skilmálar ábyrgðaryfirlýsinga kæranda á skuldabréfunum eru samhljóða og hljóða svo: "Til tryggingar skilvísri greiðslu á láni þessu, höfuðstól að viðbættum verðtryggingum svo og þeim kostnaði er vanskil lántakanda kunna að valda, hefur neðanritaður ábyrgðarmaður lýst yfir því, að hann ábyrgist in solidum lán þetta sem sjálfskuldarábyrgðarmaður." Skilmálar ábyrgðarinnar samkvæmt skuldabréfunum eru hefðbundnir og skýrir.

Í skuldabréfunum kemur fram að endurgreiðsla lánanna hefjist þremur árum eftir námslok og að stjórn sjóðsins ákveði hvað teljast námslok í þessu sambandi. Einnig kemur fram að árleg endurgreiðsla af skuldabréfunum ákvarðist í tvennu lagi og er því lýst með hvað hætti endurgreiðslum skuli háttað og að stjórn LÍN sé heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum lánþega milli ára. Þá segir enn fremur í ábyrgðaryfirlýsingu skuldabréfsins: „Að öðru leyti gilda um þetta skuldabréf ákvæði 2. kafla laga um námslán og námsstyrki nr. 72/1982.“

Aðila greinir á um greiðslufrest þann sem LÍN veitti lántaka á grundvelli 18. gr. núgildandi laga um LÍN nr. 21/1992 og hvort að greiðslufrestur þessi gildir gagnvart ábyrgðarmanni án samþykkis hans.

Eins og áður er fram komið segir í ábyrgðaryfirlýsingu skuldabréfanna að um skuldabréfin gilda „að öðru leyti ákvæði 2. kafla laga nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki“. Í 5. mgr. 8. gr. laga nr. 72/1982 kemur fram að stjórn LÍN er heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu samkvæmt lögunum ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum lánþega milli ára t.d. ef hann veikist alvarlega eða verður fyrir slysi er skerðir til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna. Einnig er stjórninni heimilt að veita undanþágu frá fastri ársgreiðslu ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans.

Í 16. gr. laganna segir að ráðherra setji með reglugerð frekari ákvæði um framkvæmd laganna, m.a. að því er varðar meginreglur um rétt til námsaðstoðar, ákvörðunaratriði varðandi fjárhæð hennar, ákvæði um útborgun lána með jöfnum mánaðargreiðslum o.s.frv. Sjóðsstjórn setji reglur um önnur atriði úthlutunar og skuli árlega gefa út úthlutunarreglur sjóðsins samþykktar af ráðherra.

Í bráðabirgðaákvæði, 4. mgr., með lögunum segir:

„Ef lánþegi Lánasjóðs skv. þessum lögum er jafnframt að inna af hendi greiðslur samkvæmt eldri lögum, dragast síðastnefndu greiðslurnar frá þeirri upphæð sem lánþega annars bæri að greiða samkvæmt þessum lögum.“

Við útgáfu umræddra skuldabréfa var í gildi reglugerð um námslán og námsstyrki nr. 578/1982 þar sem fyrir hendi var heimild fyrir LÍN, ef lántaki byrjaði lánshæft nám að nýju eftir að fyrra námi taldist lokið, að veita námsmanni undanþágu frá endurgreiðslu af fyrri skuld meðan síðara nám stæði yfir.

Þann 29. maí 1992 tóku gildi núgildandi lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna nr. 21/1992. Í 18. gr. laganna, sbr. breytingalög nr. 40/2004, segir:

Ef lánþegi samkvæmt lögum þessum er jafnframt að endurgreiða námslán samkvæmt eldri lögum um sjóðinn skal miða við að hann endurgreiði þau fyrst. Á næsta almanaksári eftir að endurgreiðslu samkvæmt eldri lögum lýkur eða á að vera lokið skal lánþegi hefja endurgreiðslu samkvæmt þessum lögum. Greiðslur samkvæmt þessum lögum frestast því þar til lán samkvæmt eldri lögum eiga að vera að fullu greidd.

 Ef lánþegi skuldar námslán sem var úthlutað á árunum 1992–2004, svokallað R-lán, og jafnframt námslán samkvæmt lögum nr. 72/1982 eða eldri lögum skal hann fyrst endurgreiða að fullu R-lánið. Greiðslur af eldri námsskuldum frestast þá þar til R-lánið er að fullu greitt.

Síðari málsgrein ákvæðisins kom inn í frumvarp það er síðar varð að breytingarlögum nr. 40/2004 með tillögu meirihluta menntamálanefndar við meðferð frumvarpsins á Alþingi. Í nefndaráliti með breytingartillögunni kemur fram að ætlunin með 6. gr. frumvarpsins hafi verið að setja fram reglu sambærilega þeirri sem sé nú í 18. gr. laganna þess efnis að námsmenn ljúki við að endurgreiða fyrst svokölluð R-lán áður en endurgreiðsla á öðrum lánaflokkum eigi að hefjast. Í lögskýringargögnum með ákvæðinu er ekki að finna neina umfjöllun um áhrif forgangs R-lána á ábyrgðarskuldbindingu ábyrgðarmanna að eldri námslánum.

Lög nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki gilda, eins og áður segir, um réttarsamband aðila í þessu máli. Verður ábyrgðaryfirlýsingin, sem er sjálfstæður samningur að lögum, skýrð með hliðsjón af ákvæðum laganna. Endurgreiðslur af láni því, sem kærandi er í ábyrgð fyrir, frestuðust hins vegar vegna fyrirmæla 18. gr. laga nr. 21/1992 um forgang yngri lána lántaka fram yfir eldri lán hans.

Óumdeilt er að kærandi, sem ábyrgðarmaður á T-lánum lántaka, samþykkti ekki framangreinda greiðslufresti né var eftir því leitað af hálfu LÍN að kærandi veitti slíkt samþykki. Ágreiningur er um greiðslufrest þann sem LÍN veitti lántaka á grundvelli 18. gr. laga nr. 21/1992 og hvort að greiðslufrestur þessi gildir gagnvart ábyrgðarmanni án samþykkis hans.

Í 18. gr. laga nr. 21/1992 er eins og áður segir mælt fyrir um forgang á endurgreiðslu R-námslána umfram lán sem tekin voru samkvæmt lögum nr. 72/1982. Ákvæðið felur í sér ívilnandi kjör fyrir lántaka með því að kveða á um að hann greiði fyrst upp yngri og óhagkvæmari lán. Hvorki í lögunum né í lögskýringargögnum með þeim er fjallað um hvort og þá hvaða áhrif þessi greiðslufrestur eigi að hafa á ábyrgðir og ábyrgðarmenn eldri lána.

Í máli nr. L-15/2016 sem kærandi hefur vísað til byggði málskotsnefnd niðurstöðu sína á því að þrátt fyrir að 18. gr. laga um LÍN um frestun afborgana hefði gildi gagnvart lántaka yrði ákvæðið þó ekki skýrt með þeim hætti að það tæki til skuldbindinga ábyrgðarmanna eldri lána og breytti þeim á svo íþyngjandi og afturvirkan hátt. Héraðsdómur Reykjavíkur féllst ekki á þessa niðurstöðu málskotsnefndar og ógilti úrskurðinn, sbr. dóm í máli E-1504/2017. Hefur dómi þessum verið áfrýjað til Landsréttar, sbr. mál nr. 700/2018.

Í dómum Hæstaréttar í málum nr. 385/2017 og 492/2017 var vísað til eftirfarandi við skýringu á 18. gr. laga um LÍN:

„Með áðurnefndri 18. gr. laga nr. 21/1992 sem tók gildi 29. maí 1992 greip á hinn bóginn löggjafinn til íhlutunar í þetta réttarsamband með því að færa aftur um óákveðinn tíma upphafsmark tímabils endurgreiðslna aðalskuldarans af skuldabréfunum. Eftir meginreglum kröfuréttar getur krafa á hendur ábyrgðarmanni ekki orðið gjaldkræf fyrr en aðalskuldari lætur hjá líða að standa skil á greiðslu afborgunar á gjalddaga hennar og hafði þannig lagaákvæði þetta sjálfkrafa þau áhrif að einnig var því slegið á frest að krafa aðaláfrýjanda á hendur gagnáfrýjanda gæti orðið gjaldkræf. Með því að þessar gerðir löggjafans sem handhafa ríkisvalds lutu að réttarsambandi einstaklings við aðaláfrýjanda, sem heyrir undir framkvæmdarvald ríkisins og er borinn uppi af fé þess, verður að skýra og beita ákvæði 18. gr. laga nr. 21/1992 á þann hátt sem gagnáfrýjanda getur talist hagfelldastur, þar á meðal með tilliti til fyrningar kröfu aðaláfrýjanda á hendur henni.“

Í málinu vísaði Hæstiréttur til þess að lántaki hefði vanefnt greiðslur afborgana eldra R-láns frá árinu 2002 með þeim áhrifum að telja yrði að eftirstöðvar lánsins hefðu fallið í gjalddaga. Þar sem skýra bæri 18. gr. á sem hagfelldastan hátt fyrir ábyrgðarmann m.t.t. fyrningar ætti LÍN ekki sjálfdæmi um hvenær hefja mætti innheimtu hinna eldri T-lána vegna árangurslausrar innheimtu á yngri skuld samkvæmt skuldabréfi R-lánsins. Hefði LÍN við það tímamark, þ.e. á árinu 2002, borið að hefja innheimtu T-lána. Var fjögurra ára fyrningarfrestur T-lánanna skv. lögum nr. 14/1905 um fyrningu kröfuréttinda því talinn vera löngu liðinn er LÍN höfðaði mál gegn ábyrgðarmanni á árinu 2013.

Rétt er að taka fram að slík staða sem lýst er hér að framan er ekki uppi í máli þessu en fyrir liggur í gögnum málsins að hin yngri R-lán voru í skilum þar til 1. september 2013 og að eftir það greiddi lántaki þó reglulegar greiðslur til lögmanna. Þegar kærandi greiddi upp ábyrgðina þann 13. febrúar 2017 voru ekki liðin fjögur ár frá fyrsta mögulegu tímamarki gjaldfellingar.

Í dómi héraðsdóms í máli E-2000/2018 sem kveðinn var upp þann 11. janúar 2019 komst héraðsdómur að sambærilegri niðurstöðu og í áðurnefndum dómi í máli E-1504/2017. Taldi dómurinn að samkvæmt skýru orðalagi 18. gr. laga um LÍN gæti gjalddagi T-skuldabréfa  ekki komið fyrr en skuld samkvæmt R-skuldabréfi hefði verið endurgreidd að fullu. Vísaði dómurinn einnig til þess að fyrirmæli 18. gr. laga um LÍN gengju framar ákvæðum skilmála T-skuldabréfanna og meginreglum fjármunaréttarins um að íþyngjandi breytingar væru háðar samþykki ábyrgðarmanns. Fyrrgreindir dómar Hæstaréttar voru ekki taldir hnika þessari niðurstöðu.

Samkvæmt framansögðu liggja fyrir tveir dómar héraðsdóms sem málskotsnefnd telur að hafi skapað fordæmi um túlkun á 18. gr. laga um LÍN að því er lýtur að ágreiningsefni máls þessa sem málskotsnefnd telur að ekki verði gengið gegn. Verði því að hafna kröfu kæranda um niðurfellingu ábyrgðar kæranda á námslánum lántaka.

Málskotsnefnd telur rétt að víkja að framkvæmd LÍN við innheimtu hina umræddu T-lána og við meðferð erindis kæranda hjá LÍN. Fram kemur í gögnum málsins að við innheimtu gagnvart kæranda var eingöngu vísað til svonefnds S-láns sem fól í sér sameinuð T-lán lántaka frá árunum 1989-1992. Má af gögnum er stafa frá LÍN ráða að umrætt S-lán sé skuldabréf frá árinu 1995 sem geti verið grundvöllur innheimtu gagnvart kæranda. Fyrir liggur í svörum LÍN til málskotsnefndar vegna málsins að ekkert skuldabréf hafi verið undirritað vegna hins svonefnda S-láns og að grundvöllur kröfu LÍN gagnvart kæranda byggi því í reynd á skuldabréfum T-lána sem hún hafi gengist í ábyrgð á árunum 1989-1992. Sameining T-lána undir einu heiti sem S-lán er eingöngu innheimtufyrirkomulag sem lýtur að samskiptum LÍN og lántaka. Um er að ræða auðkenningu á safni lána sem sami lántaki hefur tekið á tilteknu tímabili. Er það óviðkomandi ábyrgðarmanni að öðru leyti en því að með upplýsingum um hlutfall ábyrgðar getur ábyrgðarmaður gert sér betur grein fyrir því hvernig afborgunum er ráðstafað inn á það T-lán sem hann er í ábyrgð fyrir. Ábyrgð ábyrgðarmanns er á grundvelli viðkomandi T-láns og upplýsingar LÍN til ábyrgðarmanna samkvæmt 7. gr. laganna og önnur samskipti vegna ábyrgðarinnar þurfa, auk tilvísunar í S-lánið, að tilgreina það lán sem ábyrgð stendur fyrir, þ.e. viðkomandi T-lán. Enga tilvísun til T-lána kæranda er að finna í samskiptum og ákvörðun LÍN í máli kæranda. Er framkvæmd LÍN að þessu leyti ekki í samræmi við 7. gr. laga um ábyrgðarmenn og skilríkisreglu kröfuréttarins, en síðarnefnda reglan byggir á því að skuldabréf þurfi að bera með sér öll réttindi samkvæmt því. Er tilvísun til skuldabréfs svonefndra S-lána því allsendis ófullnægjandi og marklaus gagnvart kæranda, enda eins og áður greinir eingöngu til hagræðis fyrir LÍN í kerfi sínu við innheimtu og meðferð lánasafna. Ljóst er af röksemdum kæranda í málinu, en hann vísar til svonefnds S-láns í stað T-lána, að þessi háttur LÍN hefur orðið kæranda til óhagræðis og skapað rugling við gæslu réttinda kæranda. Er þessi framkvæmd LÍN ámælisverð. Hins vegar verður ekki séð að þessi ágalli við framkvæmd sé þess eðlis að það hafi skaðað hagsmuni kæranda að því marki að geti valdið ógildingu ákvörðunar LÍN í máli hans.

Þá kemur einnig fram í málinu að kærandi sendi erindi til stjórnar LÍN 16. október 2016 með beiðni um niðurfellingu ábyrgðarinnar. Þrátt fyrir að fram hafi komið sú afstaða LÍN, t.d. í máli L-20/2017, að stjórn LÍN veiti ekki einstökum starfsmönnum sjóðsins umboð til að fella niður ábyrgðir, var erindi kæranda tekið til meðferðar af starfsmanni sjóðsins sem synjaði beiðni hans og leiðbeindi kæranda jafnframt að bera mál sitt undir stjórn sjóðsins. Telur málskotsnefnd slíka framkvæmd ekki í samræmi við lög um LÍN eða góða stjórnsýsluhætti, þó ekki varði það ógildingu á ákvörðun í máli kæranda.

Með vísan til framanritaðs er hin kærða ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda frá 22. mars 2018 staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda frá 22. mars 2018 er staðfest.

Til baka