Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-04/2019 - Endurgreiðsla námslána - synjun um undanþágu frá fresti vegna tekjutengdrar afborgunar

Ár 2019, föstudaginn 5. apríl, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-4/2019:

Kæruefni

Með kæru sem barst málskotsnefnd þann 5. mars 2018 kærðu kærendur ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 5. desember 2018 um að synja þeim um undanþágu frá endurútreikningi vegna tekjutengdra afborgana námslána 2018 þar sem umsóknir hafi ekki borist innan 60 daga frá gjalddaga afborgana sem var 1. september það ár. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi þann sama dag og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kærendum var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 4. apríl 2019. Ekki var talin nauðsyn á því að gefa kærendum kost á að gera frekari athugasemdir í málinu.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærendur sem eru greiðendur námslána eru búsett í öðru ríki. Með tölvubréfi 15. júní 2018 sendi LÍN kærendum bréf þar sem vakin var athygli á að skila þyrfti upplýsingum um tekjur. Voru kærendur minnt á að senda afrit þessa sem fyrst til LÍN. Skila þyrfti upplýsingum um tekjur til LÍN fyrir 2. ágúst 2018 þar sem að öðrum kosti yrði útreikningur um tekjutengda afborgun byggður á áætluðum tekjum.

Þann 31. október 2018 sendu kærendur tölvupóst til LÍN þar sem kom fram að þau biðu eftir gögnum frá þarlendum skattyfirvöldum sem hefðu veitt frest til 15. október 2018 til að skila skýrslum fyrir skattárið 2017. Óskuðu þau eftir fresti í „viku eða svo“ til að skila gögnunum. Í svarpósti frá LÍN var tekið fram að frestur til að skila gögnum hefði runnið út 30. október 2018. Var þeim bent á að þeim væri heimilt að bera málið undir stjórn LÍN. Kærendur sendu erindi til stjórnar LÍN 20. nóvember 2018 þar sem þau fóru þess á leit að tekið yrði tillit til aðstæðna þeirra en áætlanir væru vel yfir tekjum þeirra. Kærendur upplýstu einnig að þau hefðu átt við heilsuleysi að stríða sem hefði haft áhrif á tekjur þeirra. Fóru þau þess á leit að ákvörðunin yrði endurskoðuð og afborganir reiknaðar miðað við raunverulegar tekjur þeirra.

Stjórn LÍN synjaði beiðni kærenda með ákvörðun þann 5. desember 2018. Vísaði stjórnin til þess að samkvæmt ákvæði 8.4 í úthlutunarreglum LÍN þurfi að sækja um endurútreikning árlegrar viðbótargreiðslu innan 60 daga frá gjalddaga, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN. Hafi LÍN sent kærendum tölvupóst þar sem minnt hafi verið á að senda tekjuupplýsingar. Ekki yrði séð að aðstæður kærenda hafi gert þeim ófært að sækja um innan umsóknarfrestsins. Því hafi stjórn LÍN verið óheimilt að verða við beiðni þeirra.

Sjónarmið kærenda

Kærendur upplýsa að tekjuáætlun LÍN hafi verið vel yfir raunverulegum tekjum þeirra á árinu 2018. Þar að auki hafi þau átt við heilsufarsvandamál að stríða sem hafi haft veruleg áhrif á innkomu þeirra. Upplýstu þau að tæknilegir örðugleikar hjá þarlendum skattyfirvöldum hafi valdið því að seinkun hafi orðið á samþykki rafrænna skattskýrslna þeirra. Þá hafi þau fyrir misskilning talið að fresturinn til að skila gögnum væri tveir mánuðir en ekki 60 dagar.  Fara kærendur þess á leit að ákvörðun verði breytt og miðað verði við raunverulegar tekjur þeirra.

Sjónarmið LÍN.

Í athugasemdum LÍN kemur fram að kærendum hafi verið sent tölvubréf 15. júní 2018 þar sem þau voru minnt á að skila inn staðfestum upplýsingum um erlendar tekjur sínar árið 2017 fyrir 2. ágúst 2018. Upplýsingar frá kærendum hafi ekki borist innan lögbundins frests og hafi beiðni þeirra um endurútreikning því verið synjað. Vísar stjórn LÍN til 3. mgr. 10. gr. laga um LÍN um heimildir stjórnar LÍN til að áætla tekjur ef lánþegi sendir ekki staðfestar upplýsingar um tekjur sínar og um rétt lánþega til að sækja um endurútreikning eigi síðar en 60 daga eftir gjalddaga afborgunar, sbr. 1. mgr. 11. gr. laganna. Þrátt fyrir heilsuleysi kærenda sé ekkert í gögnum málsins sem gefi til kynna að þau hafi verið ófær um að senda upplýsingar um tekjur sínar innan lögbundins frests. Vísar stjórn LÍN til þess að ákvörðun stjórnar LÍN sé í samræmi við lög og reglur og einnig í samræmi við sambærilegar ákvarðanir stjórnar LÍN og málskotsnefndar.

Niðurstaða

Í 8. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna segir að árleg endurgreiðsla ákvarðist í tvennu lagi, annars vegar sé um að ræða fasta greiðslu óháða tekjum lánþega en hins vegar viðbótargreiðslu sem sé háð tekjum fyrra árs. Tekjutengda afborgunin (seinni ársgreiðsla) er í öllum tilvikum með gjalddaga 1. september, sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 478/2011 og grein 8.4 í úthlutunarreglum sjóðsins 2018-2019. Fjárhæð hennar miðast við ákveðinn hundraðshluta af tekjustofni ársins á undan sbr. 3. mgr. 8. gr. og 10. gr. laga 21/1992. Í 2. málsl. 3. mgr. 10. gr. laganna segir:

Sé lánþegi á endurgreiðslutímanum ekki skattskyldur á Íslandi af öllum tekjum sínum og eignum skal honum gefinn kostur á að senda sjóðnum staðfestar upplýsingar um tekjur sínar og skal árleg viðbótargreiðsla ákveðin í samræmi við það. Geri hann það ekki eða telja verður upplýsingar hans ósennilegar og ekki unnt að sannreyna tekjustofn samkvæmt því skal stjórn sjóðsins áætla honum tekjustofn til útreiknings árlegrar viðbótargreiðslu.

Í 11. gr. laga nr. 21/1992, sbr. og grein 8.4 í úthlutunarreglum LÍN kemur síðan fram:

Lánþegi á rétt á endurútreikningi árlegrar viðbótargreiðslu sé hún byggð á áætluðum tekjum. Hann skal þá sækja um endurútreikninginn eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar en umsókn frestar ekki innheimtu á gjalddaga. Endurútreikningur fer síðan fram þegar sjóðnum hafa borist bestu fáanlegar upplýsingar um tekjur greiðanda. Þegar staðfestar upplýsingar um tekjurnar liggja fyrir skulu þær sendar sjóðnum og endurútreikningurinn endurskoðaður til samræmis. Hafi tekjustofn verið of hátt áætlaður skal lánþega endurgreidd ofgreidd fjárhæð með almennum vöxtum óverðtryggðra bankalána.

Fyrir liggur að kærendur sendu tölvupóst til LÍN þann 31. október 2018 þar sem þau upplýstu um að seinkun yrði á framlagningu gagna af þeirra hálfu.  

Í 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Þar sem kveðið er á um frest í lögum telst sá dagur, sem fresturinn er talinn frá, ekki með í frestinum.“

Við útreikning á fresti skal samkvæmt framansögðu miða við að 60 daga fresturinn hefjist 2. september og er þá ljóst að frestur til að skila gögnum var til 31. október 2018 en ekki 30. október eins og miðað hefur verið við af hálfu LÍN.

Í fyrri úrskurðum málskotsnefndar hefur verið talið að þegar greiðendur vilja gera athugasemdir við áætluð tekjuviðmið en hafi ekki tök á að senda tekjuupplýsingar fyrir tilskilinn frest þá nægi að þeir sendi erindi til LÍN þar sem þeir upplýsi um að þeir muni senda gögn. Leiði af meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar að í því tilviki beri LÍN að gefa greiðendum hæfilegan frest til að leggja fram fullnægjandi gögn um tekjur. Kærendur höfðu samband við LÍN áður en frestur til að senda tekjuupplýsingar rann út og upplýstu um að þeim væri að svo stöddu ekki kleift að senda tekjuupplýsingar. Ákvörðun stjórnar LÍN um að synja kærendum um framlagningu gagna og höfnun um endurútreikning á tekjutengdri afborgun er því ekki í samræmi við lög.

Með vísan til framangreindra röksemda er hin kærða niðurstaða í ákvörðun stjórnar LÍN frá 5. desember 2018 í máli kærenda felld úr gildi og lagt fyrir stjórn LÍN að taka mál kærenda til meðferðar á ný í samræmi þau sjónarmið málskotsnefndar sem koma fram í þessum úrskurði.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun stjórnar LÍN í máli kærenda frá 5. desember 2018 er felld úr gildi.

Til baka