Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-02/2019 - Endurgreiðsla námslána - synjun um endurútreikning tekjutengdrar afborgunar

Ár 2019, miðvikudaginn, 17. apríl 2019 kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. L-2/2019:

Kæruefni

Með kæru dagsettri 20. janúar 2019 sem barst málskotsnefnd þann 23. sama mánaðar kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 5. desember 2018, þar sem kæranda var synjað um endurútreikning tekjutengdrar afborgunar af námsláni. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 23. janúar 2019 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 8. mars 2019. Með bréfi dagsettu 13. mars 2019 var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við svör stjórnar LÍN. Svar barst frá kæranda þann 24. mars 2019 þar sem hún sagðist ekki hafa frekari athugasemdir í málinu. Með tölvupósti þann 12. apríl 2019 var upplýst af hálfu LÍN að með hliðsjón af nýjum úrskurði málskotsnefndar LÍN í máli L-13/2018 hygðist stjórn LÍN afturkalla ákvörðun sína í málinu og taka nýja ákvörðun varðandi áætlun tekna kæranda. Með tölvupósti formanns málskotsnefnar LÍN þann 16. apríl var stjórn LÍN tilkynnt að nefndin teldi sig hafa úrskurðarskyldu í málinu á meðan kærandi hefði ekki afturkallað kæru sína. Væri fyrirhugað að úrskurða í máli kæranda á fundi nefndarinnar þann 17. apríl 2019.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi sem búsett er erlendis er lántaki hjá LÍN og hóf endurgreiðslur af námsláni sínu á árinu 2013. Fyrir liggur í málinu að LÍN sendi kæranda tilkynningu með tölvupósti 3. maí 2018 um að senda upplýsingar um tekjur sínar á árinu 2017 til LÍN fyrir 2. ágúst 2018 en að öðrum kosti yrði tekjutengd afborgun byggð á áætluðum tekjum hennar. Var pósturinn sendur á tölvupóstfang kæranda sem skráð var í kerfi LÍN. Þar sem tekjuupplýsingar höfðu ekki borist var útreikningur afborgunar námsláns kæranda vegna gjalddagans 1. september 2018 miðaður við áætlaðar tekjur hennar. Kærandi hafði fyrr á árinu sótt um að fá að greiða afborganir með greiðslukorti en í gögnum málsins má sjá að við stöðu þeirrar umsóknar á heimasvæði kæranda hjá LÍN er skráð „Villa“. Kærandi lokaði síðan greiðslukorti sínu. Þar sem LÍN taldi að krafan yrði greidd með greiðslukorti var ekki sendur greiðsluseðill til kæranda og reyndi LÍN án árangurs að innheimta kröfuna í gegnum greiðslukortið. Kærandi sendi ekki tekjuupplýsingar til LÍN fyrr en 8. nóvember 2018 en þann sama dag hafði henni borist bréf frá LÍN um að krafan á hendur henni væri á leið í innheimtu. LÍN hafnaði beiðni kæranda um endurútreikning með vísan til 60 daga frestsins. Kærandi sendi þann 14. nóvember 2018 erindi til stjórnar LÍN þar sem hún óskaði eftir að afborgunin yrði endurreiknuð miðað við raunverulegar tekjur hennar. Stjórn LÍN synjaði erindi hennar með úrskurði sínum 5. desember s.á.

Í tölvupósti þann 12. apríl 2019 hefur stjórn LÍN lýst þeirri afstöðu sinni að leysa beri úr máli kæranda í samræmi við þau sjónarmið er fram koma í úrskurði málskotsnefndar í máli L-2/2019.

Sjónarmið kæranda

Kærandi upplýsir í kæru sinni að hún hafi lokið námi 2014 og hafið greiðslur af námsláni sínu árið 2016. Hún sé því búin að greiða í þrjú ár án vanskila. Hún hafi haft lágar tekjur og árið 2017 hafi tekjutengda afborgunin fallið niður. Hún hafi átt von á að fá beiðni um að senda tekjuupplýsingar en hún hafi ekki borist. Kærandi upplýsir að hún hafi tekið í notkun nýtt tölvupóstfang í lok árs 2016 og taldi að hún hafi tilkynnt það á heimasíðu LÍN. Í þessum efnum standi orð gegn orði. Kærandi mótmælir fullyrðingum LÍN um að hún hafi ekki staðfest nýtt tölvupóstfang fyrr en 12. mars 2018.

Kærandi upplýsir að hún hafi sótt um að fá að greiða með greiðslukorti fyrr á árinu en að umsóknin hafi borist of seint. Á heimasvæði hennar hjá LÍN komi fram upplýsingar um stöðu umsóknarinnar en þar standi „Villa“ sbr. skjáskot af síðunni. Hún hafi hringt í LÍN og fengið þær upplýsingar að hún þyrfti að sækja aftur um. Hún hafi lokað umræddu korti og því ekki sótt aftur um. Kærandi telur að þar sem LÍN hafi ekki getað skuldfært kortið hennar hefði átt að senda henni greiðsluseðil í heimabanka. Hún hafi fylgst með því hvort greiðsluseðill frá LÍN bærist í heimabanka hennar en hann hafi ekki komið. Kærandi hafi ekki haft samband við LÍN fyrr en 8. nóvember 2018 til að óska endurútreiknings þar sem henni hafi ekki verið kunnugt um kröfu sjóðsins fyrr en þann dag. Þá hafi henni borist bréf um að krafa LÍN væri á leið í innheimtu.

Kærandi upplýsir einnig að tekjuviðmið það sem sjóðurinn noti sé langt yfir hennar raunverulegu tekjum eða sem nemi 100%. Kærandi fer þess á leit að fá sanngjarna meðferð og  telur ósanngjarnt að beiðni hennar verði ekki samþykkt sökum formgalla og fer fram á að fá að njóta vafans. Þó formlegur frestur hafi verið runninn út hafi henni ekki veirð kunnugt um kröfu sjóðsins fyrr en 8. nóvember 2018. Fer kærandi fram á að greiðslan verði endurreiknuð miðað við raunverulegar tekjur hennar.

Sjónarmið LÍN.

Stjórn LÍN bendir á að kærandi hafi ekki sent tekjupplýsingar fyrr en 8. nóvember 2018 vegna endurútreiknings á tekjutengdri afborgun. Vísar stjórn LÍN til þess að frestur til að sækja um endurútreikning sé 60 dagar frá gjalddaga samkvæmt grein 8.4 í úthlutunarreglum LÍN, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN. Bendir LÍN á að í kerfi sjóðsin hafi verið skráð tölvupóstfang sem LÍN hafi notað við að senda áminningu til kæranda um að senda tekjupplýsingar í byrjun maí 2018. Kærandi hafi sjálf staðfest þessar upplýsingar við innskráningu í kerfi LÍN 12. mars 2018. Þá bendir LÍN á að slíkar áminningar sé hluti af þjónustu við námsmenn, en engin skylda sé til að veita þessa þjónustu. Kærandi hafi óskað eftir því að fá að greiða með greiðslukorti og vegna þessa hafi ekki verið myndaður greiðsluseðill í heimabanka. Kortinu hafi verið lokað og það sé á ábyrgð greiðenda að láta sjóðinn vita ef það gerist.

LÍN bendir á að reglurnar um árlega endurgreiðslu séu skýrar. Fram komi í grein 8.4. í úthlutunarreglum fyrir skólaárið 2018-2019 að ef lánþegi sendi ekki upplýsingar um tekjur sínar skuli stjórn sjóðsins áætla honum tekjustofn við útreikning árlegrar viðbótargreiðslu, sbr. 10. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN. Frestur til að sækja um endurútreikning sé 60 dagar frá gjalddaga samkvæmt sömu grein úthlutunarreglnanna, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga um LÍN. Í máli kæranda komi fram að henni hafi verið kunnugt um reglur sjóðsins um að senda þyrfti upplýsingar um tekjur í öðrum löndum, en kærandi hafi áður sent slíkar upplýsingar vegna tekjutengdra afborgana áranna 2016 og 2017. Ekkert í málinu gefi til kynna að kæranda hafi verið ómögulegt að senda tekjur sínar og/eða sækja um endurútreikning, né að mistök starfsmanna sjóðsins hafi leitt til þess að umsókn kæranda um endurútreikning hafi ekki borist innan tilskilins frests.

Niðurstaða

Um meðferð máls kæranda.

Kveðið er á um málskotsnefnd LÍN í 5. gr. a laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Kveðið er á um starfsreglur málskotsnefndar með reglugerð nr. 79/1998 en um málsmeðferð fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga. Um stjórnsýslukæru er fjallað í 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Þar segir að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Í athugasemdum að baki VII. kafla frumvarps þess er varð að stjórnsýslulögum segir m.a. eftirfarandi um stjórnsýslukæru:

„Kæra sem borin er fram á formlega réttan hátt, hefur í för með sér skyldu fyrir hið æðra stjórnvald til að endurskoða hina kærðu ákvörðun. Að auki fer æðra stjórnvald oft og tíðum einnig með sjálfstætt eftirlitsvald með lægra settum stjórnvöldum [...]“

Eftir að kæra barst frá kæranda sem er borin fram á réttan hátt hefur málskotsnefnd því samkvæmt framansögðu úrskurðarskyldu í málinu. Verður þeirri skyldu ekki aflétt nema með því að kærandi dragi til baka kæru sína. Engin slík beiðni liggur fyrir af hálfu kæranda.

Stjórn LÍN hefur nú upplýst málskotsnefnd um að fyrirhugað sé að afturkalla ákvörðun í máli kæranda og taka nýja ákvörðun er lýtur að áætlun tekna. Heimildum stjórnvalda til að endurskoða eigin ákvarðanir er lýst í 23., 24. og 25. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum í frumvarpi kemur fram að endurupptaka skv. 24. gr. laganna sé ekki heimil hafi mál verið kært til æðra stjórnvalds. Er þetta talið byggt á sjónarmiðum um valdheimildir og lögsögu í stjórnsýslunni (litis pendens) er feli í sér að sama mál megi ekki vera til meðferðar hjá tveimur stjórnvöldum á sama tíma. Leiði af þessari reglu að um leið og kæra hefur borist æðra stjórnvaldi sé hið lægra ekki lengur valdbært til að ákvarða í málinu eða taka ákvörðun sína til endurskoðunar. Jafnframt að úrskurðarskylda hins æðra stjórnvalds haldist þó svo að hið lægra sett hafi tekið nýja ákvörðun í málinu.

Í fyrri málum sbr. t.d. mál L-29/2013 þar sem sú aðstaða hefur komið upp að stjórn LÍN hefur ákveðið að breyta ákvörðun eftir að málið hefur verið kært til málskotsnefndar hefur nefndin frávísað kærunni eftir að LÍN hefur tilkynnt um að hin kærða ákvörðun hafi verið endurskoðuð. Málskotsnefnd telur það vera í betra samræmi við reglur stjórnsýsluréttarins að í slíkum tilvikum sendi hið lægra sett stjórnvald annað hvort nýjar athugasemdir í málinu þar sem því er lýst yfir að rétt sé að endurskoða fyrri ákvörðun eða í samráði við hið æðra stjórnvald verði kæranda leiðbeint um að draga kæru sína til baka og geti þá hið lægra sett tekið málið til endurskoðunar. Síðari leiðin kann að vera hagfelldari fyrir kæranda ef fyrir liggur að hann fái skjótari úrlausn sinna mála hjá lægra settu stjórnvaldi. Þó kann að vera rétt að halda meðferð málsins áfram hjá æðra settu stjórnvaldi, telji það, eins og fyrir liggur í máli þessu, að gera þurfi frekari athugasemdir við meðferð málsins. Samkvæmt framansögðu telur málskotsnefnd að fyrir liggi úrskurðarskylda í málinu, enda hefur kærandi ekki tilkynnt um að hún dragi kæru sína til baka.

Um ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda.

Í 8. gr. laga nr. 21/1992 segir að árleg endurgreiðsla ákvarðist í tvennu lagi, annars vegar sé um að ræða fasta greiðslu óháða tekjum lánþega en hins vegar viðbótargreiðslu sem sé háð tekjum fyrra árs. Tekjutengda afborgunin (seinni ársgreiðsla) er í öllum tilvikum með gjalddaga 1. september, sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 478/2011 og grein 8.4 í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2018-2019. Fjárhæð hennar miðast við ákveðinn hundraðshluta af tekjustofni ársins á undan sbr. 3. mgr. 8. gr. og 10. gr. laga 21/1992. Í 2. málsl. 3. mgr. 10. gr. laganna segir: 

"Sé lánþegi á endurgreiðslutímanum ekki skattskyldur á Íslandi af öllum tekjum sínum og eignum skal honum gefinn kostur á að senda sjóðnum staðfestar upplýsingar um tekjur sínar og skal árleg viðbótargreiðsla ákveðin í samræmi við það. Geri hann það ekki eða telja verður upplýsingar hans ósennilegar og ekki unnt að sannreyna tekjustofn samkvæmt því skal stjórn sjóðsins áætla honum tekjustofn til útreiknings árlegrar viðbótargreiðslu". 

Þar sem kærandi er ekki skattskyld á Íslandi af tekjum sínum og þar sem hún skilaði ekki tekjuupplýsingum til sjóðsins fyrir tilskilinn frest, var sjóðnum rétt að áætla henni tekjustofn til útreiknings árlegrar viðbótargreiðslu. Ekki verður lagt til grundvallar í málinu að afsakanlegt hafi verið af kæranda að senda ekki upplýsingar um tekjur sínar sökum þess að tilmæli LÍN sem send voru í tölvupósti 2. maí 2018 hafi ekki borist kæranda. Um er að ræða áminningu af hálfu LÍN sem er þjónusta við greiðendur. Fyrir liggur að kærandi lagði ekki fram upplýsingar um tekjur sínar fyrr en 8. nóvember 2018 en frestur rann út 31. október s.á. Var LÍN því rétt að áætla henni tekjur samkvæmt framansögðu. Ákvörðun um áætlun tekna er íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun.

Það er á ábyrgð kæranda að sjá til þess að upplýsingar um tölvupóstfang og heimilisfang séu réttilega skráðar í kerfi LÍN. Þá ber kæranda samkvæmt lögum um LÍN og skilmálum þess skuldabréfs sem hún hefur undirritað skylda til að senda upplýsingar um tekjur sínar í tæka tíð til að LÍN geti byggt útreikning afborgunar á raunverulegum tekjum. Þrátt fyrir að afleiðingar slíkrar vanrækslu komi skýrlega fram í lögum getur það þó ekki leyst LÍN ekki undan þeirri skyldu sinni að tilkynna kæranda um að ákveðið hafi verið að reikna afborgun námslánsins á áætluðum tekjum hennar, sbr. 20. gr. stjórnsýslulaga þar sem segir að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun skuli hún tilkynnt aðila máls „nema það sé augljóslega óþarft.“ Er hér vakin athygli á því að í áliti sínu í máli nr. 5321/2008 lagði Umboðsmaður Alþingis til grundvallar að áætlun tekna samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga um LÍN væri stjórnvaldsákvörðun um íþyngjandi úrræði.

Í málinu verður ekki séð að það hafi verið augljóslega óþarft að tilkynna kæranda um áætlun tekna, enda um íþyngjandi ákvörðun að ræða og kæranda mátti ekki vera ljóst fyrirfram hver fjárhæð afborgunar gæti orðið. Ljóst er að slík tilkynning getur eðli málsins samkvæmt, sbr. og fyrrgreind ákvæði laga um LÍN um áætlunarheimildir, falist í skuldfærslu á greiðslukorti, hafi greiðandi óskað eftir því, eða eftir atvikum í útsendingu greiðsluseðils. Gegn mótmælum kæranda og með vísan til þess að athugasemd um „villu“ var skráð við umsókn hennar um skuldfærslu verður ekki byggt á því að fyrir hafi legið gild umsókn frá kæranda um skuldfærslu með greiðslukorti í kerfi LÍN. Þegar ekki tókst að skuldfæra afborgun námsláns kæranda mátti LÍN vera ljóst að kærandi hafði ekki fengið upplýsingar um áætlun tekna og þar með áætlun tekjutengdrar afborgunar og bar LÍN því í samræmi við 20. gr. stjórnsýslulaga að senda kæranda upplýsingar um fjárhæð afborgunar eftir öðrum tiltækum leiðum, s.s. með tölvupósti eða með kröfu í heimabanka.  Rétt er að geta þess að kærandi mátti gera ráð fyrir að ef hún sendi ekki tekjuupplýsingar tímanlega myndi LÍN byggja útreikning afborgunar 1. september 2019 á áætuðum tekjum hennar, sbr. skýr fyrirmæli í 3. mgr. 10. gr. laga um LÍN og skilmál skuldabréfs kæranda vegna námslánsins.

Í úrskurði í máli nr. L-2/2012 kom fram sú afstaða málskotsnefndar að þegar greiðandi þarf að sæta áætlun þá beri LÍN að gæta að því að slík áætlun sé réttilega framkvæmd og í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga og laga nr. 21/1992. Með þeirri heimild sem felst í 10. gr. laga nr. 21/1992 er LÍN veitt vald til að taka einhliða ákvörðun um hvaða forsendur verða lagðar til grundvallar við úrlausn máls vegna þess að sá sem ákvörðun beinist að hefur ekki orðið við þeirri skyldu um láta af hendi upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að taka efnislega rétta ákvörðun í máli hans. Við þær aðstæður verður að játa LÍN ákveðið svigrúm til mats við áætlun á tekjum lánþega, sem þó takmarkast af rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og reglu um meðalhóf sem mælt er fyrir um í 12. gr. s.l. Þegar stjórnvaldi er falið með lögum að framkvæma mat ber því almennt að taka ákvörðun sem hentar best hag hvers aðili með tilliti til allra aðstæðna.

Í tilviki því sem hér um ræðir takmarkast möguleikar LÍN til að framkvæma slíkt einstaklingsbundið mat þar sem eðli málsins samkvæmt er skortur á upplýsingum til að miða við þar sem greiðandi hefur ekki sinnt upplýsingaskyldu sinni. Í áliti sínu í máli nr. 5321/2008 hefur Umboðsmaður Alþingis tekið fram þegar svo háttar sé LÍN heimilt að setja almenn viðmið til að stuðla að samræmi og jafnræði í beitingu áætlana. Jafnframt að við beitingu slíkra viðmiða verði að játa LÍN ákveðið svigrúm til mats á tekjum. Þurfa slík viðmið að byggja á málefnalegum sjónarmiðum, en við val á slíkum sjónarmiðum þarf að líta til þeirra hagsmuna sem viðkomandi lög eiga að tryggja. Markmið endurgreiðslureglna laga nr. 21/1992 er að önnur árleg endurgreiðsla námslána endurspegli greiðslugetu greiðanda. Í umræddu áliti umboðsmanns kom fram hann taldi það byggja á málefnalegum grundvelli að setja föst viðmið er endurspegluðu tekjur greiðenda bæði hvað varðaði menntun og starf viðkomandi. Í þeirri vinnureglu sem LÍN byggir á er eingöngu vísað í annað viðmiðið sem umboðsmaður tilgreindi, þ.e. tekjur greiðenda eftir námsgráðu en ekki nákvæmari uppskiptingu, s.s. eftir því við hvað greiðandi starfar. Samkvæmt upplýsingum LÍN sem lýst er hér að framan skiptir sjóðurinn greiðendum í fjóra tekjuhópa miðað við námsgráðu, þ.e. þá sem hafa lokið doktorsnámi, meistaranámi, grunn eða öðrum prófgráðum. Séu viðmiðin byggð á meðaltali þeirra tekjuupplýsinga sem LÍN berist frá greiðendum erlendis og ráðist af því hvaða prófgráðu viðkomandi hefði.

Þó að í viðmiðunum sem LÍN hefur sett megi finna ákveðna nálgun á tekjum viðkomandi, þegar engum öðrum upplýsingum er til að dreifa, verður ekki betur séð en að slík nálgun sé afar ónákvæm þegar LÍN hefur ekki miðað við starfsgrein viðkomandi aðila. Hefur umboðsmaður Alþingis bent á að LÍN kunni að hafa aukið svigrúm til áætlana þegar alls engar upplýsingar liggja fyrir og námsmenn hafi í engu sinnt áskorunum um að leggja fram upplýsingar um tekjur sínar. Sú staða er ekki í máli þessu. Málskotsnefnd bendir á að ef sú leið er ekki tæk fyrir LÍN að setja almennar reglur er byggja á málefnalegum viðmiðum, þ.e. bæði námsgráðu og starfsgrein, ber sjóðnum að beita einstaklingsbundnu mati, sem m.a. getur byggt á fyrrgreindum þáttum, þ.e. námsgráðu og eftir atvikum starfsgrein eða fagmenntun, og öðrum tiltækum upplýsingar er geta gefið til kynna hverjar eru sennilegar tekjur kæranda. Tekjur undanfarinna ára endurspegla ekki nauðsynlega tekjur þær sem lántaki hefur haft á umræddu tekjuári. Málskotsnefnd bendir þó á í þessu sambandi að í tilviki kæranda liggja fyrir tekjur undanfarinna tveggja ára og því á einhverju að byggja. Mátti LÍN við áætlun tekna hennar vegna gjalddagans 1. september 2018 telja líkindi fyrir því að tekjur hennar vegna ársins 2017 hefðu verið nær því sem þær voru árin á undan en þeim viðmiðum sem LÍN hafði sett sér og vísað er til í athugasemdum sjóðsins í máli þessu. Öðru máli gegnir ef kærandi hefur áður vanrækt upplýsingaskyldu sína og hefur ekki sent LÍN, hvorki fyrir eða eftir 60 daga frestinn, upplýsingar um tekjur fyrra árs eða ára. Þrátt fyrir að námsmenn þurfi að sæta áætlun tekna af hálfu LÍN eiga þeir eins og áður greinir rétt á því að við áætlun tekjustofns sé byggt á málefnalegum viðmiðum. Þá er ekkert bendir til þess að kærandi hafi vanrækt upplýsingaskyldu sína í því skyni að fela raunverulegar tekjur sínar, enda liggur fyrir að hún hefur, auk upplýsinga vegna fyrri ára, þegar gert grein fyrir tekjum ársins 2017.

Með því að byggja alfarið á námsgráðu kæranda, þrátt fyrir að fyrir lægju upplýsingar um tekjur undanfarinna ára er gæfu sennilega mynd af ætluðum tekjum kæranda og með vísan til þess að kærandi hefur sent fullnægjandi upplýsingar til LÍN er gefa vísbendingu um lágar tekjur hennar er það mat málskotsnefndar að fyrrgreint einhliða viðmið sem LÍN notaði í tilviki kæranda hafi skert um of það svigrúm til mats sem LÍN hafði í málinu. Að mati málskotsnefndar var við meðferð máls kæranda ekki gætt að rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og reglu um meðalhóf sem mælt er fyrir um í 12. gr. laganna.

Samkvæmt framansögðu voru ágallar á meðferð máls kæranda bæði vegna skorts á tilkynningu um áætlun sem og við framkvæmd áætlunar. Með vísan til er hin kærða ákvörðun stjórnar LÍN frá 5. desember 2018 í máli kæranda felld úr gildi og lagt fyrir stjórn LÍN að taka mál kæranda aftur til meðferðar á grundvelli ofangreindra sjónarmiða.

Úrskurðarorð

Ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda frá 5. desember 2018 er felld úr gildi.

Til baka